Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 486. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Nr. 41/139.

Þskj. 1732  —  486. mál.


Þingsályktun

um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2011–2014.


    Alþingi ályktar, sbr. lög um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands, nr. 121/2008, að á árunum 2011–2014 skuli unnið að þróunarsamvinnu Íslands í samræmi við eftirfarandi áætlun.
    Markmið Íslands með alþjóðlegri þróunarsamvinnu sé að leggja lóð sitt á vogarskálar í baráttunni gegn fátækt og fyrir bættum lífskjörum í fátækustu hlutum heimsins. Með virkri þátttöku á þessu sviði leitist Ísland við að uppfylla pólitískar og siðferðislegar skyldur sínar sem ábyrg þjóð í samfélagi þjóðanna. Alþjóðleg þróunarsamvinna sé ein af meginstoðum íslenskrar utanríkisstefnu.
    Barátta gegn fátækt, félagslegu ranglæti, misskiptingu lífsgæða og hungri í heiminum sé forgangsmál í öllu þróunarstarfi og verði áfram þungamiðjan í stefnu Íslands í þessum efnum. Jafnframt verði lögð mikil áhersla á mannréttindi, jafnrétti kynjanna, réttindi barna, frið og öryggi. Leitast verði við að tryggja innbyrðis samræmi í utanríkisstefnu Íslands með tilliti til hnattrænna efnahags-, umhverfis- og öryggismála.
    Íslensk þróunarsamvinna endurspegli þau gildi sem íslenskt samfélag stendur fyrir, virðingu fyrir lýðræði og mannréttindum, fjölbreytni mannlífs, umburðarlyndi, réttlæti og samstöðu. Í ljósi þessa verði lögð áhersla á:
     a.      Ábyrgð – að ráðvendni og gagnsæi verði höfð að leiðarljósi í þróunarstarfi og ábyrgð á framkvæmd og árangri starfsins deilt með samstarfsaðilum.
     b.      Árangur – að allir þættir þróunarstarfsins, stjórnun, verklag og aðferðafræði verkefna, stuðli að því að árangur þróunarsamvinnu verði sem mestur.
     c.      Áreiðanleika – að landi og þjóð verði aflað virðingar á alþjóðavettvangi með því að vera faglegur og traustur samstarfsaðili í þróunarstarfi.
    Markmið Íslands í þróunarsamvinnu verði að styðja áætlanir um útrýmingu fátæktar á grunni sjálfbærrar þróunar og uppbyggingar á mannauði. Sérstök áhersla verði lögð á mannréttindi, jafnrétti, frið, öryggi og verkefni þar sem íslensk sérþekking og reynsla nýtist.

Framlög.
    Íslensk stjórnvöld styðji markmið Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um að iðnríki skuli veita sem nemur 0,7% af vergum þjóðartekjum (VÞT) til þróunarsamvinnu. Mörkuð verði sú stefna að Ísland muni á næstu tíu árum skipa sér í hóp þeirra ríkja sem leggja meira en sem nemur 0,7% af VÞT til þróunarsamvinnu. Framfylgt verði eftirfarandi áhersluatriðum:
     a.      Fylgt verði tímasettri áætlun um hækkun framlaga á gildistíma þessarar áætlunar, úr 0,21% í 0,28% af VÞT á tímabilinu 2011–2014, sbr. eftirgreinda töflu.
     b.      Hraðað verði hækkun framlaga við endurskoðun áætlunarinnar árið 2013.
     c.      Verði hagvöxtur meiri en nú er spáð komi framlögin til endurskoðunar en jafnframt tryggt að framlög til þróunarmála verði aldrei lægri að raungildi en árið 2011.
     d.      Árið 2017 renni 0,5% af VÞT til þróunarmála og árið 2019 renni 0,7% af VÞT til þróunarmála.
     e.      Sérstakir fjárlagaliðir fyrir samstarf við félagasamtök, Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna (HSÞ), Alþjóðabankann og umhverfis- og loftslagsmál verði í fjárlögum 2012.
    Áætlað er að þróun framlaga á gildistíma áætlunarinnar verði sem hér segir:

VÞT*
(m.kr.)
Hlutfall af
VÞT (%)
Framlög
(m.kr.)
2011 1.342.565 0,21 2.765
2012 1.468.071 0,21 3.083
2013 1.538.568 0,25 3.846
2014 1.657.441 0,28 4.640
Samkvæmt Hagstofu Íslands.

    Fylgt verði eftirfarandi áætlun um skiptingu framlaga eftir fjárlagaliðum:

2011 2012 2013 2014
(m.kr.) (%) (m.kr.) (%) (m.kr.) (%) (m.kr.) (%)
Þróunarsamvinnustofnun Íslands (ÞSSÍ) 1.166,3 42 1.234,0 40 1.539,0 40 1.856,0 40
Utanríkisráðuneytið 1.599,0 58 1.670,0 54 2.038,0 53 2.413,0 52
Þar af:
Jarðhitaskóli HSÞ 187,7 7 199,0 6
Matvæla- og landbúnaðarst. SÞ, FAO 11,0 0 11,0 0
Þróunaráætlun SÞ, UNDP 22,1 1 23,0 1
Barnahjálp SÞ, UNICEF 112,4 4 122,0 4
Sjávarútvegsskóli HSÞ 147,3 5 158,0 5
UNIFEM/UN Women 102,0 4 117,0 4
Mannúðarmál og neyðaraðstoð 221,4 8 173,0 6
Íslensk friðargæsla 115,8 4 144,0 5
Þróunarmál og hjálparstarfsemi 353,3 13 169,0 5
Átak í lækkun skulda þróunarríkja 20,0 1
Alþjóðabankinn 138,0 4
Landgræðsluskóli HSÞ 68,0 2
Umhverfis- og loftslagsmál 60,0 2
SÞ (alm. framl., alþj. friðarg., ILO, WHO) 56,0 2 56,0 2
Stofnfjárframlög (IDA, NDF) 250,0 9 230,0 7
Samstarf við frjáls félagasamtök 179,0 6 269,0 7 371,0 8
SAMTALS 2.765,3 100 3.083,0 100 3.846,0 100 4.640,0 100
Hlutfall af VÞT 0,21% 0,21% 0,25% 0,28%

Framkvæmd.
    Í þróunarstarfi Íslands verði áhersla lögð á að skerpa sýn og fylgja skýrari forgangsröðun á grundvelli sjálfbærrar þróunar. Framfylgt verði eftirfarandi áhersluatriðum:

I. Áherslusvið, málaflokkar og þverlæg málefni.
     1. Fiskimál:
     a.      Virk þátttaka verði í stefnumótun alþjóðastofnana á sviði fiskimála.
     b.      Áhersla verði lögð á störf FAO og Alþjóðabankans.
     c.      Þróunarsamvinnustofnun Íslands leggi sérstaka áherslu á fiskimál í Mósambík og Úganda.
     d.      Stofnað verði fagteymi utanríkisráðuneytisins og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í auðlindamálum.
     e.      Öflugt starf verði á vegum Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Starfsemi skólans verði liður í heildarstefnu Íslands í málaflokknum.
     2. Orkumál:
     a.      Virk þátttaka verði í stefnumótun alþjóðastofnana á sviði orkumála.
     b.      Stuðlað verði að aukinni fjárfestingu ríkja og þróunarstofnana í jarðhitaverkefnum til hagsbóta fyrir þróunarríki.
     c.      Áhersla verði lögð á störf Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðabankans, Norræna þróunarsjóðsins og IRENA.
     d.      Þróunarsamvinnustofnun Íslands starfi að orkumálum í tvíhliða og svæðisbundnu samstarfi.
     e.      Öflugt starf verði á vegum Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Starfsemi skólans verði liður í heildarstefnu Íslands í málaflokknum.
    3. Menntun:
     a.      Sérstök áhersla verði á menntun og fullorðinsfræðslu í öllum samstarfslöndum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands.
     b.      Samstarf verði við félagasamtök í menntamálum.
     c.      Starfsemi Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi á sviði fiskimála, orkumála og landgræðslu verði liður í áherslu á menntun.
     d.      Stuðningur verði við UN Women og UNICEF sem lykilstofnanir sem stuðla að menntun stúlkna og kvenna.
     4. Heilbrigðismál:
     a.      Þróunarsamvinnustofnun Íslands leggi áherslu á heilbrigðismál og hollustuhætti í Malaví og Úganda, sérstaklega mæðra- og ungbarnaheilsu.
     b.      Samstarf verði við félagasamtök í heilbrigðismálum.
     c.      Samstarf verði við UN Women sem stuðlar að bættri heilsu stúlkna og kvenna.
     d.      Þátttaka verði í samstarfi Norðurlanda um mikilvægi kyn- og frjósemisheilbrigðis og -réttinda.
     e.      Stuðningur verði við UNICEF með áherslu á heilsufar barna.
     5. Stjórnarfar:
     a.      Stuðningur verði við verkefni UN Women á Balkanskaga, í Afganistan og Palestínu.
     b.      Framfylgt verði aðgerðaáætlun um konur, frið og öryggi.
     c.      Nám sérfræðinga frá stríðshrjáðum ríkjum verði við jafnréttisskólann.
     d.      Stuðningur verði við mannúðarstörf alþjóðaráðs Rauða krossins.
     6. Endurreisn:
     a.      Framlag verði til samhæfingar endurreisnarstarfs í Afganistan.
     b.      Stuðningur verði við palestínska flóttamenn með framlagi til Sameinuðu þjóðanna (UNRWA/UNHCR).
     c.      Stuðningur verði við samhæfingu mannúðaraðstoðar í Palestínu í samstarfi við OCHA.
     d.      Stuðningur verði við verkefni UN Women og UNICEF.
     7. Jafnréttismál:
     a.      Stofnað verði fagteymi utanríkisráðuneytisins og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands um jafnréttismál.
     b.      Mótuð verði jafnréttisstefna í þróunarsamvinnu byggð á endurskoðun á stefnu Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Lokið: Janúar 2012.
     c.      Endurskoðun fari fram á aðgerðaáætlun um konur, frið og öryggi. Lokið: Mars 2011.
     d.      Stuðningur verði við tilraunaverkefni um jafnréttisskóla.
     e.      Í úttektum á þróunarverkefnum verði lagt sérstakt mat á samþættingu jafnréttissjónarmiða.
     f.      Jöfn staða kynjanna verði meðal starfsmanna í þróunarsamvinnu.
     g.      Unnið verði markvisst að jafnréttismálum og framgangi ályktana öryggisráðsins um konur, frið og öryggi á vettvangi alþjóðastofnana.
     8. Umhverfismál:
     a.      Mótuð verði umhverfisstefna í þróunarsamvinnu. Lokið: Apríl 2012.
     b.      Sérstaklega verði fjallað um sjálfbærni í umhverfismálum við undirbúning og framkvæmd þróunarverkefna.
     c.      Virk þátttaka verði í störfum alþjóðastofnana á sviði endurnýjanlegra orkugjafa.
     d.      Öflug starfsemi verði á vegum Jarðhitaskóla og Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna.
     e.      Framlag verði til alþjóðlegs loftslagssjóðs á vegum Sameinuðu þjóðanna.
     f.      Stuðningur verði við smá eyþróunarríki vegna loftslagsmála.

II. Neyðar- og mannúðaraðstoð.
     1. Stefnumótun og stuðningur við félagasamtök:
     a.      Sérstakur fjárlagaliður verði um samstarf við félagasamtök í fjárlögum frá 2012.
     b.      Fylgt verði núverandi verklagsreglum um umsóknir og styrkveitingar.
     c.      Endurskoðun verði á verklagsreglum. Lokið: Ágúst 2012.
     d.      Ísland gerist aðili að alþjóðlegu átaki um mannúðaraðstoð innan tveggja ára.
     e.      Unnið verði skipulega samkvæmt verklagi og viðmiðum átaksins frá árinu 2012.
     2. Stuðningur við skrifstofu Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA):
     a.      Regluleg framlög verði til OCHA. Sérstök framlög verði skapist ófyrirséð þörf.
     b.      Skammtímastörf sérfræðinga á vegum utanríkisráðuneytisins verði fyrir OCHA á vettvangi.
     c.      Virk þátttaka verði í málefnavinnu Norðurlanda um neyðaraðstoð Sameinuðu þjóðanna.
     3. Stuðningur við Neyðarsjóð Sameinuðu þjóðanna (CERF):
     a.      Regluleg framlög verði til CERF.
     b.      Virk þátttaka verði í málefnavinnu Norðurlanda um neyðaraðstoð Sameinuðu þjóðanna.
     4. Stuðningur við matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP):
     a.      Framlög verði til neyðaraðstoðar WFP þar sem þörf skapast.
     b.      Skammtímastörf sérfræðinga á vegum utanríkisráðuneytisins verði fyrir WFP á vettvangi.
     c.      Virk þátttaka verði í málefnavinnu Norðurlanda um WFP.

III. Lönd og landsvæði.
     1. Afganistan:
     a.      Gerð verði aðgerðaáætlun fyrir 2012–2014. Lokið: Nóvember 2011.
     b.      Íslendingar taki þátt í norrænu samstarfi sem byggist m.a. á samnorrænni úttekt frá 2009.
     c.      Stuðlað verði að betri samhæfingu aðstoðar alþjóðasamfélagsins.
     d.      Unnið verði að málefnum kvenna.
     e.      Neyðar- og mannúðaraðstoð verði á vegum alþjóðastofnana og félagasamtaka.
     2. Malaví:
     a.      Gerð verði samstarfsáætlun fyrir 2012–2014. Lokið: Október 2011.
     b.      Mannauður: Áhersla verði lögð á menntun, heilbrigðismál og hollustuhætti.
     3. Mósambík:
     a.      Gerð verði samstarfsáætlun fyrir 2012–2014. Lokið: Október 2011.
     b.      Auðlindir og mannauður: Áhersla verði lögð á fiskimál og menntun.
     4. Palestína:
     a.      Gerð verði aðgerðaáætlun fyrir 2012–2014. Lokið: Nóvember 2011.
     b.      Neyðar- og mannúðaraðstoð verði á vegum alþjóðastofnana og félagasamtaka.
     c.      Aðstoð verði við flóttamenn.
     d.      Aðstoð verði við konur og börn.
     5. Úganda:
     a.      Gerð verði samstarfsáætlun fyrir 2012–2014. Lokið: Október 2011.
     b.      Auðlindir og mannauður: Áhersla verði lögð á fiskimál, menntun og byggðaþróun.

IV. Stofnanir.
     1. Alþjóðabankinn:
     a.      Framlag Íslands verði vegna 16. samningalotu um endurfjármögnun IDA, 2011.
     b.      Átaksverkefni í jafnréttismálum (GAP). Mat verði lagt á hugsanlegt áframhald á samstarfi. Lokið: Október 2011.
     c.      Verkefni á sviði fiskimála (PROFISH). Mat verði lagt á hugsanlegt áframhald á samstarfi. Lokið: Júní 2011.
     d.      Verkefni í orkumálum (ESMAP). Mat verði lagt á hugsanlegt áframhald á samstarfi. Lokið: Október 2012.
     e.      Virk þátttaka verði í málefnavinnu kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í stjórn bankans.
     f.      Þátttaka verði í samstarfsverkefni kjördæmisins á sviði mannréttindamála.
     2. UNICEF:
     a.      Störf íslenskra sérfræðinga verði á vettvangi.
     b.      Fylgt verði samstarfssamningi um skammtímastörf sérfræðinga vegna neyðarverkefna.
     c.      Virk þátttaka verði í málefnavinnu Norðurlanda um UNICEF.
     d.      Störf ungra íslenskra sérfræðinga verði fyrir UNICEF á vettvangi.
     e.      Samstarf verði við UNICEF á Íslandi.
     3. UN Women:
     a.      Störf íslenskra sérfræðinga verði á vettvangi.
     b.      Virk þátttaka verði í málefnavinnu um jafnréttismál á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.
     c.      Störf ungra íslenskra sérfræðinga verði fyrir UN Women.
     d.      Stuðningur verði við styrktarsjóð á vegum UN Women til afnáms ofbeldis gegn konum.
     e.      Samstarf verði við landsnefnd UNIFEM/UN Women á Íslandi.
     f.      Þátttaka verði í samstarfi Norðurlanda um UN Women.
     4. Háskóli Sameinuðu þjóðanna:
     a.      Virk starfsemi Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og námskeiðahald á hans vegum í þróunarlöndum.
     b.      Virk starfsemi Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og námskeiðahald á hans vegum í þróunarlöndum.
     c.      Virk starfsemi Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og námskeiðahald á hans vegum í þróunarlöndum.
     d.      Stuðningur verði við tilraunaverkefni um jafnréttisskóla.
     e.      Unnið verði að undirbúningi að framtíðarfyrirkomulagi starfsemi Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi á tímabilinu.

Alþjóðlegt samstarf og viðmið.
    Þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegar samþykktir um þróunarsamvinnu sem íslensk stjórnvöld eru aðili að verði nú sem fyrr leiðarljós þróunarsamvinnu Íslands. Framfylgt verði eftirfarandi áhersluatriðum:

     1. Sameinuðu þjóðirnar:
     a.      Sérstök áhersla verði lögð á samstarf við undirstofnanir Sameinuðu þjóðanna sem sinna áherslumálum Íslands.
     b.      Virk þátttaka verði í málefnavinnu gagnvart Sameinuðu þjóðunum á vegum utanríkisráðuneytisins og fastanefnda.
     c.      Virkt samstarf verði við Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.
     2. OECD-samstarf:
     a.      Ísland verði aðili að DAC, þróunarsamvinnunefnd OECD, á framkvæmdatímabili áætlunarinnar.
     b.      Umbætur verði gerðar í fyrirkomulagi rekstrar og bókhalds vegna þróunarframlaga. Lokið: Desember 2011.
     c.      Jafningjarýni á þróunarsamvinnu Íslands fari fram fyrir endurskoðun áætlunarinnar.
     3. Parísaryfirlýsingin, Accra-aðgerðaáætlunin:
     a.      Mótuð verði tímasett markmið í þróunarsamvinnu Íslands með tilliti til Parísaryfirlýsingarinnar og Accra-aðgerðaáætlunarinnar. Lokið: Febrúar 2012.
     b.      Virk þátttaka verði í starfi DAC um framgang Parísaryfirlýsingarinnar.

Stefnumörkun, innra og ytra starf.
    Framfylgt verði eftirfarandi áhersluatriðum:

     1. Stefnumörkun og eftirlit:
     a.      Endurskoðuð áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands verði lögð fyrir Alþingi árið 2013.
     b.      Utanríkisráðherra gefi skýrslu til Alþingis um framkvæmd áætlunarinnar á árinu 2013.
     c.      Regluleg skýrslugjöf verði til utanríkismálanefndar og fjárlaganefndar.
     2. Samspil tvíhliða og marghliða þróunarsamvinnu:
    Stofnuð verði fagteymi utanríkisráðuneytisins og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands á eftirfarandi sviðum til eflingar tvíhliða og marghliða samvinnu: i) jafnréttismál; ii) auðlindamál; iii) verklag og eftirlit.
     3. Mannauðsstjórn:
     a.      Mótuð verði sameiginleg mannauðsstefna utanríkisráðuneytisins og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands vegna starfa að þróunarmálum. Lokið: Nóvember 2011.
     b.      Haldnir verði sameiginlegir málfundir og námskeið á vegum utanríkisráðuneytisins og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands.
     c.      Komið verði á starfsmannaskiptum við alþjóðastofnanir og þróunarstofnanir annarra ríkja.
     d.      Hlutur kvenna og karla verði jafnaður samkvæmt jafnréttisstefnu í þróunarsamvinnu.
     4. Samstarf við frjáls félagasamtök:
     a.      Hlutfall framlaga sem renna til samstarfs við félagasamtök verði hækkað á tímabilinu.
     b.      Fylgt verði sameiginlegum verklagsreglum og eitt umsóknarferli verði fyrir allt samstarf stjórnvalda og félagasamtaka.
     c.      Stjórnvöld viðhaldi góðum samskiptum við samstarfshóp félagasamtaka.
     d.      Félagasamtök sæti úttektum og öðrum eftirlitsaðgerðum sem fylgt er í þróunarstarfi.
    5. Samstarf við háskólasamfélagið:
    Mótaðar verði áherslur um samstarf stjórnvalda og háskólasamfélagsins á sviði þróunarsamvinnu. Lokið: Maí 2012.
     6. Kynning og umfjöllun:
     a.      Fylgt verði árlegri sameiginlegri kynningaráætlun utanríkisráðuneytisins og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands.
     b.      Ráðstefnur og málþing verði skipulögð í samráði við félagasamtök og háskólasamfélagið.
     7. Þátttaka einkaaðila í þróunarsamvinnu:
    Unnin verði greining á möguleikum íslenskra aðila til þátttöku í uppbyggingu atvinnuvega í þróunarlöndum. Lokið: Júní 2012.

Samþykkt á Alþingi 10. júní 2011.