Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 13. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 13  —  13. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um siglingaleiðir við norðan- og vestanvert Ísland.


Flm.: Árni Þór Sigurðsson, Kristján Þór Júlíusson, Ólína Þorvarðardóttir,
Álfheiður Ingadóttir, Jón Gunnarsson, Þuríður Backman,
Guðmundur Steingrímsson, Birkir Jón Jónsson, Ásmundur Einar Daðason.


    Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra, í samráði við umhverfisráðherra og utanríkisráðherra, að semja reglur um siglingaleiðir við norðan- og vestanvert Ísland, m.a. í tengslum við Norður-Íshafssiglingar, og afla staðfestingar Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar á þeim. Markmið reglnanna verði að afmarka siglingaleiðir vestur og norður af landinu í því skyni að treysta öryggi siglinga, auka öryggi sjófarenda og draga úr líkum á óhöppum og alvarlegum afleiðingum slysa fyrir hið viðkvæma umhverfi og lífríki, enn fremur að stýra og/eða koma í veg fyrir siglingar um sérlega viðkvæm hafsvæði og tryggja viðbúnað vegna mengunarslysa.

Greinargerð.


    Þingsályktunartillaga þessi var upphaflega flutt á 135. löggjafarþingi (489. mál) en fékkst þá ekki rædd. Að undanförnu hefur umræða um málefni norðurslóða í víðum skilningi verið afar fyrirferðarmikil og það beinir óneitanlega sjónum að öryggi siglingaleiða. Því er tillagan endurflutt.
    Siglingar hafa verið Íslendingum mikilvægar allt frá landnámi og eru enn. Sem eyþjóð eigum við mikið undir traustum og öruggum siglingum. Enda þótt siglingar séu ekki lengur eini samgöngumátinn til og frá landinu varða þær okkur miklu og mun gera um ófyrirsjáanlega framtíð.
    Auðlindir sjávar hafa verið og eru þjóðinni dýrmætar og ljóst að siglingar geta vissulega haft umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér fyrir haf og strendur og þar með lífríki, bæði til lands og sjávar, með geigvænlegum afleiðingum. Því er sérstaklega brýnt að við hugum vel að öllum umhverfis- og öryggisþáttum að því er varðar siglingar í íslenskri lögsögu.

Aukin skipaumferð.
    Talsvert hefur verið rætt um vaxandi skipaumferð í kringum landið og um íslenska efnahagslögsögu. Upplýsingar þar að lútandi eru ekki allar samræmdar en heildarþróunin þó skýr: Á árunum 2001–2005 jukust almennir flutningar til og frá landinu um nálægt 15% og hafa þeir haldist nokkuð stöðugir síðan. Töluvert er um að skemmtiferðaskip leggi leið sína um norðurhöf, milli Grænlands, Íslands, Færeyja og Norður-Noregs og jókst umferð skemmtiferða- og farþegaskipa gríðarlega á umræddum árum. Fyrir um 20 árum komu um 20 skemmtiferðaskip hingað ár hvert og farþegafjöldinn var um 8–12 þúsund. Undanfarin þrjú ár hafa í kringum 80 skemmtiferðaskip lagt að bryggju í Reykjavík og rúmlega 70 þúsund manns ferðast hingað til lands með þeim. Frá árinu 2000 hefur farþegum skemmtiferðaskipa fjölgað um 170–180% í Reykjavíkurhöfn og Akureyrarhöfn.
    Eins hafa sjóflutningar til landsins aukist árin 2000–2010 úr 2.793.232 tonnum í 3.921.002 tonn og sjóflutningar frá landinu úr 1.324.228 tonnum í 1.983.562 tonn. Sem dæmi má nefna að umferð olíuflutningaskipa hefur aukist nýlega. Til skamms tíma lögðu ekki önnur olíuflutningaskip leið sína um íslenskt hafsvæði nema þau sem komu hingað með þá olíu sem landsmenn nota, auk olíu til herstöðvarinnar í Keflavík. Þessi staða er nú gerbreytt og hefur breyst á tiltölulega skömmum tíma. Skipum sem flytja olíu og/eða olíuafurðir norðan frá niður með Noregi fjölgaði úr 212 árið 2007 í 296 árið 2009. Þann 1. september á þessu ári höfðu alls 28 olíuflutningaskip ferðast frá Noregsströndum til Bandaríkjanna. Er þetta í samræmi við spár um þessa þróun sem birtist m.a. í áfangaskýrslu starfshóps um leiðastjórnun skipa o.fl. frá apríl 2007 en þar segir m.a.:
         „Stór olíuflutningaskip sigla um efnahagslögsögu Íslands í talsverðum mæli á leið frá höfnum við Hvítahaf vestur um haf til Norður-Ameríku. Þessi breyting á olíuflutningaleiðum stafar af því að Rússar eiga miklar olíulindir á norðurslóðum, einkum í Norðvestur-Rússlandi, og líkur eru á að innan 5 til 10 ára verði allt að 50 milljónir tonna af hráolíu fluttar frá Norðvestur-Rússlandi til Bandaríkjanna með stórum olíuflutningaskipum. Leið þeirra liggur um íslensku efnahagslögsöguna og fara skip á þessari leið ýmist austan og sunnan við landið eða norðan og vestan við það. Flest þeirra fara utan þess svæðis sem AIS- kerfi Siglingastofnunar nær til þannig að lítið er vitað um ferðir þeirra.“ 1
    Engum blöðum er því um það að fletta að umferð á íslensku hafsvæði hefur aukist undanfarin ár og mun enn aukast á komandi árum.

Norður-Íshafssiglingaleiðin.
    Hlýnun sjávar hefur m.a. haft í för með sér að siglingaleiðin milli Kyrrahafs og Atlantshafs um Norður-Íshaf hefur opnast, a.m.k. að hluta til. Íslensk stjórnvöld stóðu í mars 2007 fyrir alþjóðlegri ráðstefnu, „Ísinn brotinn“, um þróun norðaustursvæðisins og sjóflutninga og var hún haldin á Akureyri. Í samantekt ráðstefnunnar segir m.a.:
         „Loftslagsbreytingar um allan heim, ásamt því að hafís á norðurskautssvæðinu hefur hörfað undanfarin 50 ár, sem á sér vart fordæmi, hafa leitt til þess að hafskip geta nú siglt um hafsvæði norðurskautsins í ríkari mæli en áður. Rannsóknargögn sýna að ís yfir hafsvæðum minnkar stöðugt og nýlegt líkan gefur til kynna að Norður-Íshafið kunni að verða íslaust með öllu stuttan tíma að sumri (í september) frá 2040 að telja eða fyrr. Norðurskautssvæðið gefur vísbendingu um loftslag jarðarinnar í framtíðinni – 10 ár breytinga á norðurskautssvæðinu jafngilda nokkurn veginn 25 árum sjáanlegra breytinga annars staðar á jörðinni.“ 2
    Það er afar líklegt að á komandi árum og áratugum verði siglingaleiðin um Norður-Íshaf í æ ríkari mæli nýtt fyrir hvers kyns flutninga, enda styttir hún flutningaleiðina milli Evrópu og Asíu umtalsvert. Um leið verður að teljast líklegt að flutningar aukist um Norður-Atlantshaf og þá um hafsvæðin innan íslensku efnahagslögsögunnar. Einkum hefur verið bent á olíuútflutning Rússa í þessu efni og kom það m.a. fram á umræddri ráðstefnu. Um það segir m.a. í ráðstefnuskýrslunni:
         „Siglingar á innri norðausturleiðinni munu vafalaust stóraukast á næstu árum vegna olíuútflutnings og efnahagsþróunar strandsvæða Síberíu, burtséð frá því hvort siglingaskilyrði vegna loftslagsbreytinga batna. Olíuútflutningur Rússa eftir þessari leið vex hröðum skrefum og er því spáð að innan fárra ára kunni Múrmansk jafnvel að verða mesta olíuútflutningshöfn heims.“ 3
    Enda þótt hlýnun sjávar leiði til bráðnunar íss og þess að sjóleiðin um Norður-Íshaf opnist er augljóst að eftir sem áður stafar sjófarendum talsverð hætta af ís, einkum borgarísjökum, á þessum slóðum. Með aukinni umferð um þessi hafsvæði verður því enn brýnna en áður að til séu skýrar reglur um siglingaleiðir og stjórnvöld hafi yfir að ráða stjórntækjum til að treysta öryggi siglinga og vernda viðkvæmt umhverfi og lífríki.

Leiðastjórnun skipa fyrir Suður- og Suðvesturlandi.
    Síðla árs 2006 skipaði þáverandi samgönguráðherra nefnd til að gera tillögur um það hvernig stuðla mætti að því „… að fyrirbyggja slys og mengun á sjó og draga úr áhrifum þeirra á umhverfi sjávar og stranda, efnahagslífið og heilbrigði íbúanna.“ Nefndinni voru í erindisbréfi falin viðamikil verkefni, m.a. að greina umfang siglinga í efnahagslögsögu Íslands og líklega þróun, gera tillögu að skipulagi skipaumferðar, svo sem afmörkun siglingaleiða, gera áætlun um neyðarhafnir o.fl.
    Í kjölfar strands flutningaskipsins Wilson Muuga í desember 2006 fól samgönguráðherra nefndinni frekari umfjöllunarefni, m.a. að gera tillögu að afmörkun öruggra siglingaleiða skipa og fá alþjóðlega viðurkenningu á siglingaleiðum. Nefndin gerði í apríl 2007 tillögur til samgönguráðherra, m.a. að því er lýtur að leiðastjórnun skipa fyrir Suður- og Suðvesturlandi. Þær tillögur fengust síðar staðfestar af Alþjóðasiglingamálastofnuninni og tóku gildi 1. júlí 2008. Í umfjöllun sinni um tillögurnar segir nefndin m.a. um markmiðin með leiðastjórnunarráðstöfunum:
        „Annars vegar er stefnt að því að draga úr hættu vegna mengunar hafs og stranda af völdum skipaumferðar með því að takmarka för stórra skipa og skipa sem flytja hættulegan og mengandi varning um hinar mikilvægu uppeldisstöðvar fiska og annarra sjávarlífvera fyrir suðvesturlandi þar sem helstu nytjastofnar Íslendinga klekjast út og eru veiddir […] Hins vegar er það markmið með leiðastjórnunarráðstöfununum að beina skipum frá siglingahættum á þeim svæðum sem þær ná yfir og á þær siglingaleiðir sem teljast öruggastar.“
    Þessi markmið eiga að sjálfsögðu við um allt hafsvæðið í kringum Ísland þótt formlegar reglur hafi aðeins verið settar um siglingaleiðir fyrir Suður- og Suðvesturlandi.

Næstu skref – lokaorð.
    Siglingastofnun hefur verið með til skoðunar hvernig standa eigi að stýringu skipaumferðar á öðrum svæðum en fyrir Suður- og Suðvesturlandi. Hefur þar m.a. verið um samráð að ræða við yfirvöld umhverfismála eins og eðlilegt er. Hins vegar er full ástæða fyrir Alþingi að láta þetta ríka hagsmunamál til sín taka og fjalla um reglur um siglingaleiðir í kringum landið. Í framhaldi af miklum umræðum um auknar siglingar í Norðurhöfum og flutninga milli Rússlands og Norður-Ameríku, m.a. með hættulegan varning, er sérlega mikilvægt að mótaðar verði reglur um siglingar og leiðastjórnun við norðan- og vestanvert Ísland.
    Flutningsmönnum er ljóst að mál af þessum toga krefst mikils og vandaðs undirbúnings og kallar á staðfestingu Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar. Þó er ástæða til að kanna hver réttarstaða íslenskra stjórnvalda er til að taka einhliða ákvarðanir um siglingaleiðir í íslenskri lögsögu og er sjálfsagt að innanríkisráðherra geri það í samráði við utanríkisráðuneytið.
    Lagt er til að innanríkisráðherra verði falið, að höfðu samráði við umhverfisráðherra og utanríkisráðherra, að semja reglur um siglingaleiðir við norðan- og vestanvert landið. Markmiðið er að afmarka öruggar siglingaleiðir vestur og norður af landinu í því augnamiði að treysta öryggi siglinga, auka öryggi sjófarenda og draga úr líkum á óhöppum og alvarlegum afleiðingum slysa sem kunna að verða fyrir hið viðkvæma umhverfi og lífríki á svæðinu. Enn fremur að stýra og/eða koma í veg fyrir siglingar um sérlega viðkvæm hafsvæði og tryggja viðbúnað vegna mengunarslysa. Það er mikið í húfi fyrir Íslendinga og því brýnt að hraða eins og kostur er þeirri vinnu og í þeim tilgangi er þessi tillaga flutt.
Neðanmálsgrein: 1
1     Áfangaskýrsla starfshóps um leiðastjórnun skipa, neyðarhafnir og varnir gegn mengun frá siglingum, Siglingastofnun, apríl 2007. Vefslóð: sigling.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=3365.
Neðanmálsgrein: 2
2     Ísinn brotinn, Utanríkisráðuneytið, mars 2007.
    Vefslóð: www.utanrikisraduneyti.is/media/Utgafa/Isinn_brotinn.pdf.
Neðanmálsgrein: 3
3     Fyrir stafni haf, Utanríkisráðuneytið, febrúar 2005.
    Vefslóð: www.utanrikisraduneyti.is/media/Utgafa/vef_skyrsla.pdf.