Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 352. máls.

Þingskjal 428  —  352. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 54/2010 um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 54/2010, frá 30. apríl 2010, um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/ 38/EB frá 6. maí 2009 um stofnun evrópsks samstarfsráðs eða samþykkt reglna í fyrirtækjum og fyrirtækjasamstæðum, er starfa á bandalagsvísu, varðandi upplýsingamiðlun til starfsmanna og samráð við starfsmenn (endurútgefin).

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1.     Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 54/2010, frá 30. apríl 2010, um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES- samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/38/EB frá 6. maí 2009 um stofnun evrópsks samstarfsráðs eða samþykkt reglna í fyrirtækjum og fyrirtækjasamstæðum, er starfa á bandalagsvísu, varðandi upplýsingamiðlun til starfsmanna og samráð við starfsmenn (endurútgefin).
    Með tilskipun 2009/38/EB eru settar almennar rammareglur þar sem fram koma lágmarksreglur um rétt launafólks til upplýsinga og samráðs í fyrirtækjum eða starfsstöðvum innan bandalagsins. Tilhögun við upplýsingagjöf og samráð skal skilgreind og framkvæmd í samræmi við innlend lög og samskipti aðila vinnumarkaðarins í einstökum aðildarríkjum á þann hátt að skilvirkni sé tryggð.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem hér um ræðir, en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2.     Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3.     Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/38/EB frá 6. maí 2009 um stofnun evrópsks samstarfsráðs eða samþykkt reglna í fyrirtækjum og fyrirtækjasamstæðum, er starfa á Bandalagsvísu, varðandi upplýsingamiðlun til starfsmanna og samráð við starfsmenn (endurútgefin).
    Tilskipun 2009/38/EB inniheldur sem áður segir almennar rammareglur þar sem settar eru fram lágmarksreglur um rétt launafólks til upplýsinga og samráðs í fyrirtækjum eða starfsstöðvum innan bandalagsins. Reglunum er ætlað að tryggja rétt launafólks til upplýsinga og samráðs vegna starfsemi sem fer fram í fleiri en einu aðildarríki og þar sem fleiri en 1.000 manns starfa. Tilskipunin kemur í stað eldri tilskipunar 94/45/EB, sem felld var inn í EES- samninginn á sínum tíma, og er hinni endurskoðuðu tilskipun m.a. ætlað að gera reglurnar skýrari að ýmsu leyti og draga úr þeirri réttaróvissu sem var fyrir hendi við túlkun tilskipunar 94/45/EB.
    Tilhögun við upplýsingagjöf og samráð skal skilgreind og framkvæmd í samræmi við innlend lög og samskipti aðila vinnumarkaðarins í einstökum aðildarríkjum á þann hátt að skilvirkni sé tryggð.

4.     Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Breyta þarf lögum nr. 61/1999, um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum, sem sett voru til innleiðingar á tilskipun 94/45/EB um stofnun evrópsks samstarfsráðs eða samþykkt reglna í fyrirtækjum og fyrirtækjahópum er starfa á bandalagsvísu varðandi upplýsingamiðlun og samráð við starfsmenn. Samráð verður haft við aðila vinnumarkaðarins við samningu frumvarpsins. Fyrirhugað er að velferðarráðherra muni á yfirstandandi löggjafarþingi leggja fram frumvarp til slíkra lagabreytinga til innleiðingar á tilskipuninni.
    Ekki er gert ráð fyrir að efni tilskipunarinnar muni hafa mikil áhrif á starfsemi íslenskra fyrirtækja þar sem tilskipunin gildir um fyrirtæki þar sem fleiri en 1.000 starfsmenn starfa.



Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 54/2010

frá 30. apríl 2010

um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn.


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        XVIII. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 147/2009 frá 4. desember 2009 ( 1 ).

2)        Fella ber inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/38/EB frá 6. maí 2009 um stofnun evrópsks samstarfsráðs eða samþykkt reglna í fyrirtækjum og fyrirtækjasamstæðum, er starfa á Bandalagsvísu, varðandi upplýsingamiðlun til starfsmanna og samráð við starfsmenn (endurútgefin) ( 2 ).

3)        Samkvæmt ákvæðum tilskipunar 2009/38/EB fellur úr gildi, hinn 6. júní 2011, tilskipun ráðsins 94/45/EB ( 3 ), en sú gerð hefur verið felld inn í samninginn og ber því að fella hana úr samningnum þannig að brottfellingin komi til framkvæmda 6. júní 2011.

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.


Ákvæði XVIII. viðauka við samninginn breytist sem hér segir:

1.        Núverandi 27. liður (tilskipun ráðsins 94/45/EB) verði endurtölusettur sem liður 27a.

2.        Eftirfarandi liður bætist við á eftir 26. lið (tilskipun ráðsins 92/56/EBE, brottfallin):

        „27.     32009 L 0038: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/38/EB frá 6. maí 2009 um stofnun evrópsks samstarfsráðs eða samþykkt reglna í fyrirtækjum og fyrirtækjasamstæðum, er starfa á Bandalagsvísu, varðandi upplýsingamiðlun til starfsmanna og samráð við starfsmenn (endurútgefin) (Stjtíð. ESB L 122, 16.5.2009, bls. 28).“

3.        Texti hins nýja liðar 27a (tilskipun ráðsins 94/45/EB) falli brott 6. júní 2011.

2. gr.


Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2009/38/EB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi 1. maí 2010, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 30. apríl 2010.

Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
A. Seatter
formaður.

Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2009/38/EB
frá 6. maí 2009
um stofnun evrópsks samstarfsráðs eða samþykkt reglna í fyrirtækjum og fyrirtækjasamstæðum,     er starfa á Bandalagsvísu, varðandi upplýsingamiðlun til starfsmanna og samráð við starfsmenn
(endurútgefin)
(Texti sem varðar EES)


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 137. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 1 ),
að höfðu samráði við svæðanefndina,
í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 251 gr. sáttmálans ( 2 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Nokkrar efnislegar breytingar skulu gerðar á tilskipun ráðsins 94/45/EB frá 22. september 1994 um stofnun evrópsks samstarfsráðs eða samþykkt reglna í fyrirtækjum og fyrirtækjahópum er starfa á Bandalagsvísu varðandi upplýsingamiðlun og samráð við starfsmenn ( 3 ). Fyrir skýrleika sakir skal endursemja þá tilskipun.
2)          Samkvæmt 15. gr. tilskipunar 94/45/EB hefur framkvæmdastjórnin, í samráði við aðildarríkin og aðila vinnumarkaðarins í Evrópu, endurskoðað beitingu þeirrar tilskipunar, einkum til að rannsaka hvort takmörk varðandi fjölda starfsmanna séu við hæfi með það í huga að leggja til viðeigandi breytingar ef nauðsyn krefur.
3)          Hinn 4. apríl 2000 lagði framkvæmdastjórnin fram fyrir Evrópuþingið og ráðið, að höfðu samráði við aðildarríkin og aðila vinnumarkaðarins í Evrópu, skýrslu um beitingu tilskipunar 94/45/EB.
4)          Framkvæmdastjórnin hafði, skv. 2. mgr. 138. gr. sáttmálans, samráð við aðila vinnumarkaðarins innan Bandalagsins um hugsanlega stefnu varðandi aðgerðir Bandalagsins á þessu sviði.
5)          Að þessu samráði loknu taldi framkvæmdastjórnin rétt að Bandalagið gripi til aðgerða og hafði aftur samráð við aðila vinnumarkaðarins innan Bandalagsins um efni fyrirhugaðrar tillögu skv. 3. mgr. 138. gr. sáttmálans.
6)          Aðilar vinnumarkaðarins hafa ekki, að loknu þessu síðara samráði, látið í ljós vilja sinn við framkvæmdastjórnina um að hefja þá vinnu er leitt gæti til samkomulags eins og kveðið er á um í 4. mgr. 138. gr. sáttmálans.
7)          Nauðsynlegt er að færa löggjöf Bandalagsins um upplýsingamiðlun til starfsmanna og samráð við þá milli landa til nútímahorfs, með það í huga að tryggja að réttindi starfsmanna til upplýsinga og samráðs við þá milli landa nýtist á skilvirkan hátt, auka hlutfall evrópskra samstarfsráða, sem komið hefur verið á fót, jafnframt því að tryggja áframhaldandi rekstur fyrirliggjandi samninga, leysa vandamál sem upp koma við beitingu tilskipunar 94/45/EB í reynd og bæta fyrir skort á réttarvissu sem skapast hefur vegna sumra ákvæða hennar, eða vegna þess að þau vantar, og til að tryggja meiri samhæfingu milli lagagerninga Bandalagsins um upplýsingamiðlun og samráð við starfsmenn.
8)          Samkvæmt 136. gr. sáttmálans er það sérstakt markmið Bandalagsins og aðildarríkjanna að stuðla að aukinni umræðu milli aðila vinnumarkaðarins.
9)          Þessi tilskipun er hluti af ramma Bandalagsins sem ætlaður er til stuðnings og fyllingar aðgerðum aðildarríkjanna á sviði upplýsingamiðlunar og samráðs við starfsmenn. Þessi rammi ætti að halda fyrirhöfn fyrirtækja eða starfsstöðva í lágmarki og tryggja jafnframt að réttindin séu nýtt á skilvirkan hátt.
10)          Starfsemi innri markaðarins felur í sér samfylkingu fyrirtækja, samruna sem nær yfir landamæri, yfirtöku, sameiginleg verkefni og þar af leiðandi fyrirtæki og fyrirtækjasamstæður sem starfa í mörgum aðildarríkjum. Eigi greinar atvinnulífsins að þróast á samræmdan hátt verða fyrirtæki og fyrirtækjasamstæður, sem starfa í tveimur aðildarríkjum eða fleiri, að upplýsa fulltrúa þeirra starfsmanna sem ákvarðanir þeirra hafa áhrif á og hafa samráð við þá.
11)          Reglur um upplýsingamiðlun og samráð við starfsmenn, eins og þær birtast í löggjöf aðildarríkjanna eða venju, taka ekki alltaf mið af því að starfsemi fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu nær til margra landa og að þar eru teknar ákvarðanir er hafa áhrif á þessa starfsmenn. Þetta getur leitt til þess að starfsmönnum, sem ákvarðanir eins og sama fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu varða, sé mismunað.
12)          Samþykkja verður viðeigandi ákvæði til að tryggja að starfsmenn fyrirtækja eða fyrirtækjasamstæðna, er starfa á Bandalagsvísu, fái fullnægjandi upplýsingar og að haft sé samráð við þá þegar ákvarðanir, sem hafa áhrif á þá, eru teknar í öðru aðildarríki en starfsríkinu.
13)          Til að tryggja að starfsmenn fyrirtækja eða fyrirtækjasamstæðna, er starfa í tveimur eða fleiri aðildarríkjum, fái fullnægjandi upplýsingar og að haft sé samráð við þá, er nauðsynlegt að stofna evrópsk samstarfsráð eða samþykkja aðrar viðeigandi reglur til að miðla upplýsingum og efna til samráðs við starfsmenn milli landa.
14)          Skilgreina þarf fyrirkomulagið við upplýsingamiðlun og samráð við starfsmenn og framkvæma það á þann hátt að skilvirkni þess sé tryggð að því er varðar ákvæði þessarar tilskipunar. Í því skyni ætti upplýsingamiðlun og samráð við evrópska samstarfsráðið að gera því kleift að veita fyrirtækinu álit í tæka tíð án þess að geta fyrirtækisins til að aðlagast sé dregin í efa. Einungis skoðanaskipti á því stigi þar sem leiðbeiningar eru útbúnar og skilvirk þátttaka fulltrúa starfsmanna fer fram gerir mögulegt að sjá fyrir breytingar og stýra þeim.
15)          Tryggja verður starfsmönnum og fulltrúum þeirra upplýsingar og samráð á viðeigandi stjórnunarstigi og við rétta fulltrúa í samræmi við efnið sem er til umfjöllunar. Til að svo megi verða þarf að aðgreina valdsvið og verksvið evrópsks samstarfsráðs frá valdsviði og verksviði fulltrúa aðila í hverju ríki og það verður að einskorðast við fjölþjóðleg málefni.
16)          Að hve miklu leyti málefnin eru fjölþjóðleg skal ákvarðað að teknu tilliti til þess hve áhrifin geta verið umfangsmikil og þeirra stjórnunar- og fulltrúastiga sem þau taka til. Í þessum tilgangi er litið á málefni er varða allt fyrirtækið eða fyrirtækjasamstæðuna, eða a.m.k. tvö aðildarríki, sem fjölþjóðleg. Þetta tekur til málefna sem, án tillits til fjölda þeirra aðildarríkja sem eiga hlut að máli, varða evrópskt vinnuafl vegna þess hve áhrifin kunna að vera umfangsmikil, eða sem fela í sér flutning á starfsemi milli aðildarríkja.
17)          Nauðsynlegt er að skilgreina hugtakið „ráðandi fyrirtæki“, sem nær aðeins til þessarar tilskipunar, með fyrirvara um skilgreiningar á hugtökunum „samstæða“ eða „yfirráð“ í öðrum gerðum.
18)          Aðferðir við upplýsingamiðlun og samráð við starfsmenn fyrirtækja eða fyrirtækjasamstæðna, sem starfa í tveimur eða fleiri aðildarríkjum, skulu gilda í öllum starfsstöðvum eða, ef við á, fyrirtækjum samstæðunnar sem eru staðsett í aðildarríkjunum, óháð því hvort fyrirtækið eða ráðandi fyrirtæki samstæðunnar hefur aðalstöðvar sínar innan eða utan yfirráðasvæðis aðildarríkjanna.
19)          Í samræmi við meginregluna um sjálfræði aðila skulu fulltrúar starfsmanna og stjórn fyrirtækis eða stjórn ráðandi fyrirtækis samstæðunnar koma sér saman um eðli, skipan, hlutverk, rekstrarlag, starfsreglur og fjármagn evrópskra samstarfsráða eða aðrar reglur um upplýsingamiðlun og samráð sem falla best að þeirra aðstæðum.
20)          Í samræmi við dreifræðisregluna skulu aðildarríkin ákveða hverjir skulu vera fulltrúar starfsmanna og sjá til þess, ef ástæða þykir til, að jafnræðis sé gætt varðandi fulltrúafjölda mismunandi starfsmannahópa.
21)          Því er nauðsynlegt að skýra hugtökin upplýsingamiðlun og samráð við starfsmenn, í samræmi við skilgreiningar í nýjustu tilskipunum um þetta efni og gildandi tilskipunum í hverju landi, með það að markmiði að efla skilvirk skoðanaskipti á fjölþjóðlegum grundvelli, til að skapa hagkvæm tengsl á innlendum og fjölþjóðlegum umræðuvettvangi og tryggja þá réttarvissu sem er nauðsynleg fyrir beitingu þessarar tilskipunar.
22)          Skilgreina verður hugtakið „upplýsingamiðlun“ með tilliti til þess að fulltrúar starfsmanna geti rannsakað upplýsingarnar með viðeigandi hætti, sem felur í sér að þær séu veittar á réttum tíma, á viðeigandi hátt og að efni þeirra sé við hæfi, svo að ákvarðanataka tefjist ekki innan fyrirtækjanna.
23)          Skilgreina verður hugtakið „samráð“ með tilliti til þess að hægt sé að láta í ljós álit sem nýtist við ákvarðanatöku, sem felur í sér að samráðið skuli fara fram á réttum tíma, á viðeigandi hátt og að efni þess sé við hæfi.
24)          Ef fyrirtæki eða ráðandi fyrirtæki samstæðunnar hefur aðalstjórn utan yfirráðasvæðis aðildarríkjanna skal fulltrúi þess á yfirráðasvæði aðildarríkjanna, sem er tilnefndur í þessu skyni eða, ef slíkur fulltrúi er ekki fyrir hendi, starfsstöð eða ráðandi fyrirtæki, sem hefur flesta starfsmenn í aðildarríkjunum, hrinda í framkvæmd ákvæðum um upplýsingamiðlun og samráð sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun.
25)          Skilgreina verður ábyrgð fyrirtækja eða fyrirtækjasamstæðna á því að senda upplýsingarnar, sem nauðsynlegar eru til að hefja samningaviðræður, á þann hátt að starfsmenn geti ákvarðað hvort fyrirtækið eða fyrirtækjasamstæðurnar, þar sem þeir starfa, sé fyrirtæki eða fyrirtækjasamstæða er starfar á Bandalagsvísu og hafa samband við nauðsynlega tengiliði til að leggja fram beiðni um að hefja samningaviðræður.
26)          Sérstaka samningaráðið skal koma fram fyrir hönd starfsmanna frá hinum mismunandi aðildarríkjum með jöfnum hætti. Fulltrúar starfsmanna verða að geta unnið saman að því að skilgreina stöðu sína í tengslum við samningaviðræður við aðalstjórnina.
27)          Viðurkenna skal það hlutverk sem viðurkennd samtök stéttarfélaga geta gegnt í samningaviðræðum og þegar samningaviðræður fara fram að nýju um stofnsamning evrópskra samstarfsráða með því að styðja þá fulltrúa starfsmanna sem óska eftir slíkum stuðningi. Upplýsa skal þar til bær stéttarfélög og samtök vinnuveitenda, sem eru viðurkennd sem aðilar vinnumarkaðarins í Evrópu, um upphaf samningaviðræðna svo að þau geti haft eftirlit með stofnsetningu nýrra evrópskra samstarfsráða og til að stuðla að bestu starfsvenjum. Viðurkennd þar til bær evrópsk stéttarfélög og samtök vinnuveitenda eru þau samtök aðila vinnumarkaðarins sem framkvæmdastjórnin hefur samráð við skv. 138. gr. sáttmálans. Framkvæmdastjórnin skal uppfæra og birta skrá yfir þessi samtök.
28)          Í samningunum um stofnsetningu og rekstur evrópskra samstarfsráða skulu vera ákvæði um breytingar, uppsögn eða nýjar samningaviðræður, ef nauðsyn krefur, sérstaklega ef breyting verður á gerð eða skipulagi fyrirtækisins eða fyrirtækjasamstæðunnar.
29)          Í þessum samningum skal mælt fyrir um fyrirkomulag til að samræma upplýsingar og ráðgjöf starfsmanna í hverju landi og milli landa miðað við tilteknar aðstæður fyrirtækisins eða fyrirtækjasamstæðunnar. Samningarnir skulu skilgreindir á þann hátt að tekið sé tillit til valdsviðs og aðgerðasvæðis fulltrúaráða starfsmanna, einkum með tilliti til þess að sjá fyrir breytingar og bregðast við þeim.
30)          Í þessum samningum skulu vera ákvæði, ef nauðsyn krefur, um stofnsetningu framkvæmdanefndar og starfsemi hennar til að hægt sé að samræma og gera skilvirkari reglubundna starfsemi evrópska samstarfsráðsins svo hægt sé að miðla upplýsingum og hafa samráð, eins fljótt og við verður komið, sé um sérstakar aðstæður að ræða.
31)          Fulltrúar starfsmanna geta ákveðið að sækjast ekki eftir því að stofna evrópskt samstarfsráð, eða hlutaðeigandi aðilar ákveðið aðrar reglur um upplýsingamiðlun og samráð við starfsmenn milli landa.
32)          Setja skal ákvæði um að tiltekin ákvæði til vara skuli gilda ef aðilar ákveða slíkt, eða neiti aðalstjórnin að hefja viðræður eða leiði viðræðurnar ekki til samnings.
33)          Til að starfrækja fulltrúahlutverk sitt til fulls og til að tryggja að evrópska samstarfsráðið nýtist verða fulltrúar starfsmanna að skila skýrslu til starfsmannanna sem þeir eru í forsvari fyrir og fá þá þjálfun sem til þarf.
34)          Setja skal ákvæði um að fulltrúar starfsmanna, er starfa samkvæmt ákvæðum þessarar tilskipunar, skuli við störf sín njóta sömu verndar og trygginga og slíkir fulltrúar njóta samkvæmt landslögum og/eða venju í starfslandi sínu. Óheimilt er að beita þá misrétti vegna löglegra starfa þeirra og þeir skulu njóta viðunandi verndar gagnvart uppsögnum og öðrum viðurlögum.
35)          Aðildarríkin verða að gera viðeigandi ráðstafanir ef ekki er staðið við þær skuldbindingar sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun.
36)          Í samræmi við meginreglur laga Bandalagsins, skal beita stjórnarfarslegri eða réttarfarslegri málsmeðferð og einnig viðurlögum, sem eru skilvirk, letjandi og í réttu hlutfalli við það hve alvarlegt brotið er þegar ekki er staðið við þær skuldbindingar sem leiðir af þessari tilskipun.
37)          Með skírskotun til skilvirkni, samræmi og réttarvissu er nauðsynlegt að samhæfa tilskipanir og umfang upplýsingamiðlunar og samráðs við starfsmenn, sem kveðið er á um í lögum Bandalagsins og landslögum og/eða venju. Samningaviðræður um þessar reglur til að samhæfa upplýsingamiðlun innan hvers fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu verða að hafa forgang. Ef engir samningar eru um þetta viðfangsefni og þegar fyrirséð er að ákvarðanir kunni að leiða til verulegra breytinga á skipulagi vinnunnar eða á samningsbundnum tengslum verður framkvæmdin að fara fram bæði á innlendum og evrópskum vettvangi með þeim hætti að hún virði valdsvið og aðgerðasvæði fulltrúaráða starfsmanna. Álit evrópska samstarfsráðsins skal ekki hafa áhrif á heimildir aðalstjórnar til að hafa nauðsynlegt samráð innan tímarammans sem kveðið er á um í landslögum og/eða leiðir af venju. Nauðsynlegt kann að vera að aðlaga landslög og/eða venju til að tryggja að evrópska samstarfsráðið geti, eftir atvikum, tekið á móti upplýsingum á undan innlenda fulltrúaráði starfsmanna eða samtímis því, en þó án þess að draga úr almennri vernd starfsmanna.
38)          Þessi tilskipun skal ekki hafa áhrif á reglur um upplýsingamiðlun og samráð, sem um getur í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/14/ EB frá 11. mars 2002 um almennan ramma um upplýsingamiðlun til launamanna og samráð við þá innan Evrópubandalagsins ( 1 ) og þá sérstöku reglur, sem um getur í 2. gr. tilskipunar ráðsins 98/59/EB frá 20. júlí 1998 um samræmingu laga aðildarríkjanna um hópuppsagnir ( 2 ) og 7. gr. tilskipunar ráðsins 2001/23/EB frá 12. mars 2001 um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launamanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta fyrirtækja eða atvinnurekstrar ( 3 ).
39)          Sérstaka meðhöndlun skal veita þeim fyrirtækjum og fyrirtækjasamstæðum er starfa á Bandalagsvísu og hafa gert samning, sem tekur til alls vinnuafls fyrir 22. september 1996, sem kveður á um upplýsingamiðlun og samráð við starfsmenn milli landa.
40)          Þegar skipulag fyrirtækisins eða fyrirtækjasamstæðunnar breytist verulega, t.d. vegna samruna, yfirtöku eða skiptingar þarf að aðlaga starfandi evrópsk samstarfsráð, eitt eða fleiri. Þessi aðlögun skal hafa forgang samkvæmt ákvæðum gildandi samnings enda heimili þau tilskilda aðlögun. Ef svo reynist ekki vera og beiðni, þar sem þörfin er skilgreind, hefur verið lögð fram skulu fulltrúar starfandi evrópsks samstarfsráðs, eins eða fleiri, hefja viðræður um nýjan samning. Til að upplýsingamiðlun og samráð starfsmanna á tímabilinu, sem oft ræður úrslitum þegar skipulaginu er breytt, verður starfandi evrópskt samstarfsráð, eitt eða fleiri, að geta starfað áfram, mögulega með aðlögun, þar til nýr samningur hefur verið gerður. Þegar nýr samningur hefur verið undirritaður skal leysa upp ráðin sem komið hefur verið á fót og samningunum um stofnun þeirra rift, án tillits til ákvæða þeirra um gildistíma eða riftun.
41)          Nema þessu aðlögunarákvæði sé beitt skal vera heimilt að viðhalda gildandi samningum til að komast hjá nýjum, skyldubundnum samningaviðræðum um þá þegar þess gerist ekki þörf. Setja skal ákvæði með þeim hætti að skuldbindingar, sem af þessari tilskipun leiðir, gildi ekki um þá samninga sem gerðir voru fyrir 22. september 1996 skv. 1. mgr. 13. gr. tilskipunar 94/45/EB eða skv. 1. mgr. 3. gr. tilskipunar 97/74/EB ( 4 ). Enn fremur er í þessari tilskipun ekki kveðið á um almenna skuldbindingu um nýjar samningaviðræður vegna samninga sem gerðir voru skv. 6. gr. tilskipunar 94/45/EB frá 22. september 1996 til 5. júní 2011.
42)          Með fyrirvara um þann möguleika að aðilar ákveði annað skal, til að fullnægja markmiðum þessarar tilskipunar, upplýsa og hafa samráð við evrópskt samstarfsráð, sem er stofnað ef samkomulag hefur ekki náðst milli aðila um starfsemi fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu, svo að það geti metið áhrif á hagsmuni starfsmanna í a.m.k. tveimur aðildarríkjum. Í því skyni verður fyrirtækið eða ráðandi fyrirtæki að veita tilnefndum fulltrúum starfsmanna almennar upplýsingar sem varða hagsmuni starfsmanna og upplýsingar er lúta sérstaklega að þeim þáttum í starfsemi fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu er hafa áhrif á hagsmuni starfsmanna. Evrópska samstarfsráðinu verður að vera unnt að leggja fram álit í lok þess fundar.
43)          Við fyrsta tækifæri skal veita upplýsingar og hafa samráð við tilnefnda fulltrúa starfsmanna um tilteknar ákvarðanir er hafa umtalsverð áhrif á hagsmuni starfsmanna.
44)          Skýra skal efni þeirra varaákvæða, sem gilda þegar enginn samningur er fyrir hendi og eru til viðmiðunar í samningaviðræðum, og laga að þróun þarfa og venja við upplýsingamiðlun og samráð. Greina skal á milli sviða, annars vegar þar sem veita skal upplýsingar og hins vegar þar sem einnig skal haft samráð við evrópska samstarfsráðið, sem þýðir að það getur hugsanlega fengið rökstutt svar við hverju áliti sínu. Til þess að gera framkvæmdanefndinni kleift að gegna nauðsynlegu samræmingarhlutverki og bregðast við sérstökum aðstæðum á skilvirkan hátt verður hún að vera skipuð allt að fimm nefndarmönnum sem hafa samráð reglulega.
45)          Þar eð aðildarríkin geta ekki fyllilega náð markmiði þessarar tilskipunar, nánar tiltekið að auka rétt starfsmanna fyrirtækja eða fyrirtækjasamstæðna er starfa á Bandalagsvísu til upplýsinga og samráðs, og því markmiði verður betur náð á vettvangi Bandalagsins, getur Bandalagið samþykkt ráðstafanir í samræmi við dreifræðisregluna eins og fram kemur í 5. gr. sáttmálans. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og kveðið er á um í þeirri grein, er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari tilskipun til að ná því markmiði.
46)          Í þessari tilskipun eru grundvallarréttindi virt og meginreglum fylgt, einkum þeim sem eru viðurkenndar í sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi. Með þessari tilskipun er einkum leitast við að tryggja að réttindi starfsmanna eða fulltrúa þeirra séu virt og þeir fái upplýsingar og haft sé samráð við þá með góðum fyrirvara á viðeigandi stigum í þeim tilvikum og samkvæmt þeim skilyrðum sem kveðið er á um í lögum Bandalagsins og landslögum og venju (27. gr. sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi).
47)          Skyldan að lögleiða þessa tilskipun skal takmarkast við þau ákvæði sem fela í sér verulega breytingu, samanborið við fyrri tilskipanir. Skyldan til að lögleiða óbreyttu ákvæðin er fyrir hendi í eldri tilskipunum.
48)          Í samræmi við 34. lið samstarfssamnings milli stofnana um betri lagasetningu ( 1 ) eru aðildarríkin hvött til þess, í eigin þágu og í þágu Bandalagsins, að semja og birta töflur sem sýna, eftir því sem kostur er, samsvörun milli þessarar tilskipunar og lögleiðingarráðstafananna.
49)          Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á skuldbindingar aðildarríkjanna varðandi þá fresti, sem eru tilgreindir í B-hluta II. viðauka, og þau hafa til að lögleiða og beita tilskipununum,
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

I. ÞÁTTUR
ALMENN ÁKVÆÐI
1. gr.
Markmið

1.     Markmiðið með þessari tilskipun er að bæta rétt starfsmanna til upplýsinga og samráðs í fyrirtækjum og fyrirtækjasamstæðum er starfa á Bandalagsvísu.
2.     Í því skyni skal stofna evrópskt samstarfsráð eða setja reglur í hverju fyrirtæki og hverri fyrirtækjasamstæðu, er starfar á Bandalagsvísu, varðandi upplýsingamiðlun og samráð við starfsmenn, þegar farið er fram á það með þeim hætti sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 5. gr., með það í huga að veita starfsmönnum upplýsingar og hafa við þá samráð. Skilgreina þarf fyrirkomulagið við upplýsingamiðlun og samráð við starfsmenn og framkvæma það á þann hátt að skilvirkni þess sé tryggð og að fyrirtækið eða fyrirtækjasamstæðurnar geti tekið ákvarðanir á skilvirkan hátt.
3.     Upplýsingamiðlun og samráð við starfsmenn verður að fara fram á réttu stjórnunarstigi og við viðeigandi fulltrúa í samræmi við efnið sem er til umfjöllunar. Til þess skal valdsvið evrópska samstarfsráðsins og umfang reglna um upplýsingar til starfsmanna og samráð við þá, sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun, takmarkast við fjölþjóðleg málefni.
4.     Málefni telst fjölþjóðlegt þegar það varðar fyrirtæki eða fyrirtækjasamstæður, er starfa á Bandalagsvísu sem ein heild, eða a.m.k. tvö fyrirtæki eða starfsstöðvar fyrirtækis eða samstæðu í tveimur mismunandi aðildarríkjum.
5.     Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. skal stofna evrópskt samstarfsráð innan fyrirtækjasamstæðu í skilningi c- liðar 1. mgr. 2. gr. er samanstendur af einu eða fleiri fyrirtækjum eða fyrirtækjasamstæðum, er starfa á Bandalagsvísu í skilningi a- eða c-liðar 1. mgr. 2. gr., nema kveðið sé á um annað í samkomulagi sem vísað er til í 6. gr.
6.     Nema kveðið sé á um víðara gildissvið í samningunum, sem um getur í 6. gr., skulu heimildir og valdsvið evrópskra samstarfsráða og umfang reglna um upplýsingamiðlun og samráð, sem eru settar til að ná fram þeim markmiðum sem tilgreind eru í 1. mgr., að því er varðar fyrirtæki er starfar á Bandalagsvísu, ná til allra starfsstöðva sem staðsettar eru í aðildarríkjunum og, að því er varðar fyrirtækjasamstæðu er starfar á Bandalagsvísu, til allra fyrirtækja samstæðunnar með aðsetur í aðildarríkjunum.
7.     Aðildarríkin geta kveðið á um að tilskipun þessi taki ekki til áhafna farskipa.

2. gr.
Skilgreiningar

1.     Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
a)    „fyrirtæki er starfar á Bandalagsvísu“: fyrirtæki með minnst 1000 starfsmenn í aðildarríkjunum og minnst 150 starfsmenn í a.m.k. tveimur aðildarríkjum hvoru um sig,
b)    „fyrirtækjasamstæða“: ráðandi fyrirtæki og undirfyrirtæki þess,
c)    „fyrirtækjasamstæða er starfar á Bandalagsvísu“: fyrirtækjasamstæða sem uppfyllir eftirfarandi skilyrði:
    –    hefur minnst 1000 starfsmenn í aðildarríkjunum,
    –    samanstendur af minnst tveimur fyrirtækjasamstæðum í mismunandi aðildarríkjum,
        og
    –    samanstendur af minnst einni fyrirtækjasamstæðu með a.m.k. 150 starfsmenn í einu aðildarríki og minnst einni annarri fyrirtækjasamstæðu með a.m.k. 150 starfsmenn í öðru aðildarríki,
d)    „fulltrúar starfsmanna“: fulltrúar starfsmanna sem kveðið er á um í landslögum og/eða venju,
e)    „aðalstjórn“: aðalstjórn fyrirtækis er starfar á Bandalagsvísu eða ráðandi fyrirtækis ef um er að ræða fyrirtækjasamstæðu er starfar á Bandalagsvísu,
f)    „upplýsingamiðlun“: gögn sem vinnuveitandi sendir til fulltrúa starfsmanna til þess að þeir geti kynnt sér efnið sem fjallað er um og skoðað það; veita skal upplýsingar á þeim tíma, á þann hátt og efni þeirra vera með þeim hætti að fulltrúar starfsmanna geti gert ítarlegt mat á hugsanlegum áhrifum og, eftir því sem við á, undirbúið samráð við þar til bæra stofnun fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu er starfar á Bandalagsvísu,
g)    „samráð“: viðræður og skoðanaskipti milli fulltrúa starfsmanna og aðalstjórnar eða stjórnenda á öðru stjórnunarstigi sem á betur við; á þeim tíma, á þann hátt og efni þeirra vera með þeim hætti að fulltrúar starfsmanna geti, á grundvelli fenginna upplýsinga, látið í ljós álit sitt á fyrirhuguðum ráðstöfunum sem tengjast samráðinu, með fyrirvara um ábyrgð stjórnarinnar og innan hæfilegs frests sem fyrirtæki eða fyrirtækjasamstæður er starfa á Bandalagsvísu taka tillit til,
h)    „evrópskt samstarfsráð“: ráð sem er stofnað í samræmi við 2. mgr. 1. gr. eða ákvæði I. viðauka með það í huga að upplýsa og hafa samráð við starfsmenn,
i)    „sérstakt samningaráð“: ráð sem er stofnað í samræmi við 2. mgr. 5. gr. til að semja við aðalstjórnina um stofnun evrópsks samstarfsráðs eða samþykkt reglna um upplýsingamiðlun og samráð við starfsmenn í samræmi við 2. mgr. 1. gr.
2.     Í þessari tilskipun skal tilskilinn lágmarksfjöldi starfsmanna miðast við meðalfjölda starfsmanna, að meðtöldum starfsmönnum í hlutastörfum, á næstliðnum tveimur árum, reiknað út samkvæmt landslögum og/eða venju.

3. gr.
Skilgreining á hugtakinu „ráðandi fyrirtæki“

1.     Í þessari tilskipun merkir hugtakið „ráðandi fyrirtæki“ fyrirtæki sem hefur ráðandi áhrif á annað fyrirtæki („undirfyrirtæki“), t.d. vegna eignarhalds, hlutafjáreignar eða stjórnunarreglna.
2.     Fyrirtæki hefur ráðandi áhrif gagnvart öðru fyrirtæki nema sýnt verði fram á annað þegar það beint eða óbeint:
a)    á meirihluta skráðs hlutafjár í hlutaðeigandi fyrirtæki, eða
b)    ræður yfir meirihluta atkvæða vegna hlutafjáreignar í fyrirtækinu,
    eða
c)    hefur rétt til að tilnefna meira en helming fulltrúa í stjórn fyrirtækisins eða meirihluta manna í stjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstjórn.
3.     Að því er varðar 2. mgr. felst í rétti ráðandi fyrirtækis varðandi atkvæðagreiðslu og tilnefningu einnig réttur annars undirfyrirtækis og einstaklings eða aðila sem kemur fram í eigin nafni eða nafni fyrirtækisins en fyrir hönd hins ráðandi fyrirtækis eða undirfyrirtækis.
4.     Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. telst fyrirtæki ekki vera „ráðandi fyrirtæki“ gagnvart öðru fyrirtæki, sem það á eignarhlutdeild í, ef fyrra fyrirtækið er félag sem um getur í a- eða c-lið 5. mgr. 3. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 139/2004 frá 20. janúar 2004 um eftirlit með samfylkingum fyrirtækja ( 1 ).
5.     Ráðandi áhrif teljast ekki vera fyrir hendi ef aðeins er um það að ræða að embættismaður sinnir störfum sínum samkvæmt lögum aðildarríkis við uppgjör, slit, gjaldþrot, greiðslustöðvun, nauðungarsamninga eða sambærilegar aðgerðir.
6.     Beita skal lögum aðildarríkisins sem gilda um fyrirtæki til að skera úr um hvort það teljist ráðandi fyrirtæki.
Ef lögin, sem gilda um fyrirtækið, eru ekki lög aðildarríkis gilda lög þess aðildarríkis þar sem fulltrúi fyrirtækisins hefur aðsetur eða, ef slíkur fulltrúi er ekki fyrir hendi, aðalstjórn fyrirtækis samstæðunnar sem hefur flesta starfsmenn.
7.     Ef lög stangast á við beitingu 2. mgr. og tvö eða fleiri fyrirtæki úr samstæðu fullnægja einu eða fleiri af þeim viðmiðunum, sem mælt er fyrir um í málsgreininni, skal telja fyrirtæki, sem fellur undir viðmiðun c-liðar, vera ráðandi fyrirtæki með fyrirvara um sönnun þess að annað fyrirtæki geti haft ráðandi áhrif.

II. ÞÁTTUR
UM STOFNUN EVRÓPSKS SAMSTARFSRÁÐS EÐA SAMÞYKKT REGLNA UM UPPLÝSINGAMIÐLUN OG SAMRÁÐ VIÐ STARFSMENN
4. gr.
Ábyrgð á stofnun evrópsks samstarfsráðs eða samþykkt reglna um upplýsingamiðlun og samráð við starfsmenn

1.     Aðalstjórnin ber ábyrgð á að skapa þau skilyrði og sjá fyrir þeim úrræðum sem eru nauðsynleg fyrir stofnun evrópsks samstarfsráðs eða samþykkt reglna um upplýsingamiðlun og samráð, eins og kveðið er á um í 2. mgr. 1. gr., í fyrirtækjum og fyrirtækjasamstæðum sem starfa á Bandalagsvísu.
2.     Hafi aðalstjórn ekki aðsetur í aðildarríki skal fulltrúi aðalstjórnar í aðildarríki, sem skal tilnefndur ef nauðsyn krefur, bera þá ábyrgð sem um getur í 1. mgr.
Ef slíkur fulltrúi er ekki fyrir hendi skal stjórn starfsstöðvar eða þess fyrirtækis fyrirtækjasamstæðunnar, sem hefur flesta starfsmenn í einu aðildarríki, bera þá ábyrgð sem um getur í 1. mgr.
3.     Að því er þessa tilskipun varðar skal fulltrúi eða fulltrúar eða, ef þeir eru ekki fyrir hendi, sú stjórn sem um getur í annarri undirgrein 2. mgr. teljast vera aðalstjórn.
4.     Stjórn sérhvers fyrirtækis sem tilheyrir fyrirtækjasamstæðu er starfar á Bandalagsvísu og aðalstjórn eða skilgreind aðalstjórn, í skilningi annarrar undirgreinar 2. mgr., fyrirtækisins eða fyrirtækjasamstæðunnar er starfar á Bandalagsvísu, skal bera ábyrgð á því að fá og senda til viðkomandi aðila, samkvæmt þessari tilskipun, tilskildar upplýsingar til að samningaviðræðurnar, sem um getur í 5. gr., geti hafist, einkum upplýsingar um skipulag fyrirtækisins eða fyrirtækjasamstæðunnar og vinnuafl hennar. Þessi skylda á einkum við upplýsingarnar um fjölda starfsmanna sem um getur í a- og c-lið 1. mgr. 2. gr.

5. gr.
Sérstakt samningaráð

1.     Til að unnt sé að ná markmiðum 1. mgr. 1. gr. skal aðalstjórnin, að eigin frumkvæði eða að skriflegri beiðni minnst 100 starfsmanna eða fulltrúa þeirra í a.m.k. tveimur fyrirtækjum eða starfsstöðvum í minnst tveimur aðildarríkjum, hefja samningaviðræður um stofnun evrópsks samstarfsráðs eða samþykkt reglna um upplýsingamiðlun og samráð.
2.     Skipa skal sérstakt samningaráð í þessu skyni, í samræmi við eftirtaldar viðmiðunarreglur:
a)    Aðildarríkin skulu ákveða með hvaða hætti kjósa á eða tilnefna fulltrúa í sérstaka samningaráðið, sem á að kjósa eða tilnefna á yfirráðasvæðum þeirra.
    Aðildarríkin skulu tryggja að starfsmenn í fyrirtækjum og/eða starfsstöðvum þar sem starfsmenn hafa engan fulltrúa, án þess að það sé þeirra sök, hafi rétt til að kjósa eða tilnefna fulltrúa í fyrrnefnt sérstakt samningaráð.
    Önnur undirgrein er með fyrirvara um landslög og/eða venju þar sem mælt er fyrir um takmarkanir vegna skipunar fulltrúaráða starfsmanna.
b)    Fulltrúar sérstaka samningaráðsins skulu kosnir eða tilnefndir í hlutfalli við fjölda starfsmanna, sem eru ráðnir af fyrirtæki eða fyrirtækjasamstæðu er starfar á Bandalagsvísu, í hverju aðildarríki fyrir sig, með því að úthluta hverju aðildarríki einu sæti fyrir hvern hluta starfsmanna í því aðildarríki sem jafngildir tíu af hundraði starfsmanna, eða broti af því hlutfalli, sem ráðnir eru í öllum aðildarríkjunum samanlagt.
c)    Veita skal aðalstjórninni og stjórnendum á viðkomandi stöðum og þar til bærum evrópskum samtökum starfsmanna og vinnuveitenda upplýsingar um skipan sérstaka samningaráðsins og um upphaf samningaviðræðna.
3.     Sérstaka samningaráðið hefur það hlutverk að ákveða, ásamt aðalstjórninni, með skriflegu samkomulagi, starfssvið, skipan, hlutverk og skipunartíma evrópsks samstarfsráðs, eins eða fleiri, eða með hvaða hætti standa skuli að framkvæmd reglna um upplýsingamiðlun og samráð við starfsmenn.
4.     Með það í huga að gera samning í samræmi við 6. gr. skal aðalstjórnin boða til fundar í sérstaka samningaráðinu. Hún skal tilkynna stjórnendum á viðkomandi stöðum um það.
Fyrir og eftir hvern fund með aðalstjórninni er sérstaka samningaráðinu heimilt að koma saman án þess að fulltrúar aðalstjórnarinnar séu viðstaddir og nota til þess nauðsynlegar samskiptaleiðir.
Í samningaviðræðunum getur sérstaka samningaráðið farið fram á aðstoð sérfræðinga að eigin vali en þeir geta m.a. verið fulltrúar frá viðurkenndum samtökum stéttarfélaga í Bandalaginu. Þessir sérfræðingar eða fulltrúar samtaka stéttarfélaga geta verið viðstaddir samningafundi til að veita ráðgjöf að beiðni sérstöku samninganefndarinnar.
5.     Samningaráðið getur ákveðið, með minnst tveimur þriðju hlutum atkvæða, að hefja ekki samningaviðræður í samræmi við 4. mgr. eða binda enda á samningaviðræður sem þegar eru hafnar.
Slík ákvörðun bindur enda á þá gerð samnings sem um getur í 6. gr. Þegar slík ákvörðun hefur verið tekin gilda ákvæði I. viðauka ekki.
Heimilt er að kalla samningaráðið saman að nýju í fyrsta lagi tveimur árum eftir að ofangreind ákvörðun er tekin nema hlutaðeigandi aðilar mæli fyrir um skemmri tíma.
6.     Aðalstjórnin skal bera þann kostnað sem hlýst af samningaviðræðunum, sem um getur í 3. og 4. mgr., svo að samningaráðið geti sinnt verkefnum sínum með eðlilegum hætti.
Í samræmi við þessa meginreglu geta aðildarríkin mælt fyrir um reglur um fjárhagsáætlun vegna starfsemi samningaráðsins. Þau geta t.d. takmarkað fjárframlög svo að einungis sé leitað til eins sérfræðings.

6. gr.
Efni samningsins

1.     Samningaviðræður aðalstjórnar og samningaráðsins skulu fara fram í anda samvinnu með það í huga að gera samning um nákvæma tilhögun á framkvæmd upplýsingamiðlunar og samráðs við starfsmenn sem kveðið er á um í 1. mgr. 1. gr.
2.     Með fyrirvara um sjálfræði aðila skal í samningnum, sem um getur í 1. mgr. og er staðfestur skriflega, milli aðalstjórnar og samningaráðsins ákveða:
a)    hvaða fyrirtæki fyrirtækjasamstæðu eða starfsstöðvar fyrirtækis, er starfar á Bandalagsvísu, falla undir samninginn,
b)    samsetningu evrópska samstarfsráðsins, fjölda fulltrúa, úthlutun sæta, að teknu tilliti til, ef því verður við komið, þess að jafnræði verður að vera milli fulltrúa starfsmanna, að því er varðar atvinnugreinar, starfsvið og kyn, og skipunartíma,
c)    hlutverk evrópska samstarfsráðsins og reglur um upplýsingamiðlun og samráð á þess vegum, ásamt því hvernig samhæfa megi upplýsingamiðlun og samráð milli evrópska samstarfsráðsins og innlendra fulltrúaráða starfsmanna, í samræmi við meginreglurnar sem eru settar fram í 3. mgr. 1. gr.,
d)    hvar evrópska samstarfsráðið skal koma saman, hve oft og hve lengi,
e)    ef nauðsyn krefur, skipan, reglur um tilnefningar, hlutverk og reglur um málsmeðferð framkvæmdanefndarinnar sem sett er á fót innan evrópska samstarfsráðsins,
f)    hvert fjármagn evrópska samstarfsráðsins skuli vera og aðbúnaður þess,
g)    gildistökudag samningsins og gildistíma hans, tilhögun við breytingar eða uppsögn samningsins og í hvaða tilvikum skuli gera nýjan samning og tilhögun við endurnýjun hans, einnig, ef nauðsyn krefur, þegar skipulag fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu er starfar á Bandalagsvísu breytist.
3.     Aðalstjórnin og sérstaka samningaráðið geta tekið skriflega ákvörðun um að setja reglur um upplýsingamiðlun og samráð í stað evrópska samstarfsráðsins.
Í samningnum skal mæla fyrir um reglur um rétt fulltrúa starfsmanna til að koma saman til fundar í því skyni að ræða þær upplýsingar sem þeim eru veittar.
Þessar upplýsingar skulu einkum vera um málefni er varða fleiri lönd og hafa umtalsverð áhrif á hagsmuni starfsmanna.
4.     Samningar samkvæmt 2. og 3. mgr. falla ekki undir varaákvæðin í I. viðauka, nema þau kveði á um annað.
5.     Sérstaka samningaráðið skal við gerð samninganna, sem um getur í 2. og 3. mgr., taka ákvarðanir þar sem meirihluti fulltrúa ræður.

7. gr.
Ákvæði til vara

1.     Til þess að unnt sé að ná markmiði 1. mgr. 1. gr. skulu ákvæði til vara, sem mælt er fyrir um í löggjöf aðildarríkisins þar sem aðalstjórnin hefur aðsetur, gilda:
–    ef aðalstjórnin og sérstaka samningaráðið ákveða það,
–    ef aðalstjórnin neitar að hefja samningaviðræður innan sex mánaða frá því að beiðni skv. 1. mgr. 5. gr. hefur borist,
    eða
–    ef ekki hefur tekist að ganga frá samningi þremur árum eftir dagsetningu beiðninnar, eins og mælt er fyrir um í 6. gr., og samningaráðið hefur ekki tekið ákvörðun sem kveðið er á um í 5. mgr. 5. gr.
2.     Ákvæði til vara skv. 1. mgr., sem hafa verið leidd í lög aðildarríkjanna, verða að vera í samræmi við ákvæði I. viðauka.

III. ÞÁTTUR
ÝMIS ÁKVÆÐI
8. gr.
Trúnaðarupplýsingar

1.     Aðildarríkin skulu kveða á um að fulltrúum í sérstökum samningaráðum eða evrópskum samstarfsráðum og sérfræðingum, sem eru þeim til aðstoðar, sé óheimilt að láta í té upplýsingar sem þeim hafa verið veittar í fyllsta trúnaði.
Hið sama gildir um fulltrúa starfsmanna sem starfa samkvæmt reglum um upplýsingamiðlun og samráð.
Þessi skuldbinding hvílir áfram á þeim einstaklingum sem um getur í fyrstu og annarri undirgrein hvar sem þeir eru, og einnig eftir að skipunartíma þeirra lýkur.
2.     Hvert aðildarríki um sig skal kveða á um, í sérstökum tilvikum og með þeim skilyrðum og takmörkunum sem mælt er fyrir um í landslögum, að aðalstjórnin, sem hefur aðsetur á yfirráðasvæði þess, sé ekki skuldbundin til að veita upplýsingar ef þær eru þess eðlis, samkvæmt hlutlægu mati, að þær geti haft skaðleg áhrif á starfsemi hlutaðeigandi fyrirtækja eða verið þeim skaðlegar.
Aðildarríki getur sett sem skilyrði fyrir slíkri undanþágu, að fyrst liggi fyrir stjórnsýslulegar eða réttarfarslegar heimildir.
3.     Hvert aðildarríki um sig getur mælt fyrir um sérstök ákvæði varðandi aðalstjórnir fyrirtækja með aðsetur á yfirráðasvæðum þeirra, sem vilja með beinum hætti veita hugmyndafræðilega leiðsögn að því er varðar upplýsingar og framsetningu álita, með því skilyrði að þau hafi þegar verið tekin upp í landslög áður en þessi tilskipun verður samþykkt.

9. gr.
Starf evrópsks samstarfsráðs og reglur um upplýsingamiðlun og samráð við starfsmenn

Aðalstjórnin og evrópska samstarfsráðið skulu starfa í anda samvinnu með tilhlýðilegu tilliti til gagnkvæmra réttinda og skuldbindinga.
Hið sama gildir um samstarf milli aðalstjórnar og fulltrúa starfsmanna er starfa samkvæmt reglum um upplýsingamiðlun og samráð við starfsmenn.

10. gr.
Hlutverk og verndun fulltrúa starfsmanna

1.     Með fyrirvara um valdsvið annarra stofnana og samtaka hvað þetta varðar skulu fulltrúar evrópska samstarfsráðsins hafa nauðsynleg úrræði til að nýta þau réttindi sem af þessari tilskipun leiðir og til að gæta sameiginlegra hagsmuna starfsmanna fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu er starfar á Bandalagsvísu.
2.     Með fyrirvara um 8. gr. skulu fulltrúar evrópska samstarfsráðsins veita fulltrúum starfsmanna starfsstöðva eða fyrirtækja fyrirtækjasamstæðu, er starfar á Bandalagsvísu, eða ef ekki er um neina fulltrúa að ræða, öllum starfsmönnum, vitneskju um efni og niðurstöður upplýsingamiðlunarinnar og samráðsins sem fram fer í samræmi við þessa tilskipun.
3.     Fulltrúar í sérstaka samningaráðinu, fulltrúar í evrópska samstarfsráðinu og fulltrúar starfsmanna er starfa samkvæmt reglunum, sem um getur í 3. mgr. 6. gr., skulu við störf sín njóta sömu verndar og trygginga og kveðið er á um fyrir fulltrúa starfsmanna í gildandi landslögum og/eða venju í starfslandi þeirra.
Þetta á einkum við um fundarsetu í sérstökum samningaráðum eða evrópskum samstarfsráðum eða aðra fundi er falla undir samninginn, sem um getur í 3. mgr. 6. gr., og greiðslu launa til fulltrúa, sem starfa hjá fyrirtæki eða fyrirtækjasamstæðu, er starfar á Bandalagsvísu, fyrir nauðsynlega fjarveru vegna skyldustarfa þeirra.
4.     Að svo miklu leyti sem nauðsynlegt er til að fulltrúarnir geti rækt skyldur sína í alþjóðlegu umhverfi skal veita fulltrúum sérstaka samningaráðsins og evrópska samstarfsráðsins þjálfun án þess að þeir missi við það laun.

11. gr.
Ákvæði tilskipunarinnar uppfyllt

1.     Hvert aðildarríki um sig skal tryggja að stjórn starfsstöðva fyrirtækis og stjórn fyrirtækja, sem eru hluti af fyrirtækjasamstæðu er starfar á Bandalagsvísu, með aðsetur á yfirráðasvæðum þeirra og fulltrúar starfsmanna þeirra eða, eftir því sem við á, starfsmenn uppfylli þær skuldbindingar sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun, óháð því hvort aðalstjórnin hefur aðsetur á yfirráðasvæði þess.
2.     Aðildarríkin skulu kveða á um viðeigandi ráðstafanir ef ekki er farið að þessari tilskipun; einkum skulu þau tryggja að fyrir hendi sé stjórnsýsluleg og réttarfarsleg málsmeðferð svo að unnt sé að standa við þær skuldbindingar sem af henni leiðir.
3.     Ef aðildarríkin beita 8. gr. skulu þau setja ákvæði um málsmeðferð um áfrýjun til stjórnvalda eða dómstóla sem fulltrúar starfsmanna geta hafið ef aðalstjórnin krefst trúnaðar eða veitir ekki upplýsingar í samræmi við þá grein.
Slík málsmeðferð getur falið í sér reglur um trúnað vegna þeirra upplýsinga sem um er að ræða.

12. gr.
Samhæfing við önnur ákvæði Bandalagsins og ákvæði landslaga

1.     Upplýsingamiðlun og samráð evrópska samstarfsráðsins skal samhæft upplýsingamiðlun og samráði innlendra fulltrúaráða starfsmanna, að teknu tilhlýðilegu tilliti til valdsviðs og aðgerðasviða þeirra og meginreglnanna sem settar eru fram í 3. mgr. 1. gr.
2.     Fyrirkomulag á samhæfingu upplýsingamiðlunar og samráðs evrópska samstarfsráðsins og innlendra fulltrúaráða starfsmanna skal ákvarðað með samningnum sem um getur í 6. gr. Samningurinn skal ekki hafa áhrif á ákvæði landslaga og/eða venju um upplýsingamiðlun til starfsmanna og samráð við þá.
3.     Þar sem ekkert slíkt fyrirkomulag hefur verið skilgreint með samningi, skulu aðildarríki tryggja að upplýsingamiðlunin og samráðið fari fram í evrópska samstarfsráðinu og jafnframt í innlendum fulltrúaráðum starfsmanna, þegar ákvarðanir sem líklega leiða til verulegra breytinga á skipulagi vinnunnar eða á samningsbundnum tengslum eru fyrirhugaðar.
4.     Þessi tilskipun skal ekki hafa áhrif á reglurnar um upplýsingamiðlun og samráð, sem um getur í tilskipun 2002/14/EB, og sérstöku reglurnar, sem um getur í 2. gr. tilskipunar 98/59/EB, og 7. gr. tilskipunar 2001/23/EB.
5.     Framkvæmd þessarar tilskipunar, á þeim sviðum sem hún nær til, telst ekki næg ástæða til þess að réttlæta afturför frá því sem nú tíðkast í hverju aðildarríki að því er varðar almenna vernd launafólks.

13. gr.
Aðlögun

Þegar skipulag fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu, er starfar á Bandalagsvísu, breytist verulega og ákvæði í gildandi samningum eru annaðhvort ekki fyrir hendi, eða viðkomandi ákvæði í tveimur eða fleiri gildandi samningum stangast á, skal aðalstjórnin, sem um getur í 5. gr., að eigin frumkvæði eða að skriflegri beiðni minnst 100 starfsmanna eða fulltrúa þeirra í a.m.k. tveimur fyrirtækjum eða starfsstöðvum í minnst tveimur aðildarríkjum, hefja samningaviðræðurnar sem um getur í 5. gr.
Að minnsta kosti þrír fulltrúar frá núverandi evrópsku samstarfsráði eða frá hverju núverandi evrópskum samstarfsráðum skulu vera fulltrúar sérstaka samningaráðsins auk kjörins eða tilnefnds fulltrúa skv. 2. mgr. 5. gr.
Meðan á samningaviðræðum stendur skal evrópska samstarfsráðið eða evrópsku samstarfsráðin halda áfram að starfa í samræmi við fyrirkomulagið sem hefur verið aðlagað í samningnum milli fulltrúa evrópska samstarfsráðsins eða evrópsku samstarfsráðanna og aðalstjórnarinnar.

14. gr.
Gildandi samningar

1.     Með fyrirvara um ákvæði 13. gr. eiga skuldbindingarnar, sem hljótast af þessari tilskipun, ekki við um fyrirtæki eða fyrirtækjasamstæður er starfa á Bandalagsvísu,
a)    þegar samningur eða samningar, sem gilda um alla starfsmenn, um upplýsingamiðlun og samráð við starfsmenn milli landa hafa verið gerðir, skv. 1. mgr. 13. gr. tilskipunar 94/95/EB eða 1. mgr. 3. gr. tilskipunar 97/74/EB, eða þegar slíkum samningum er breytt vegna skipulagsbreytinga fyrirtækja eða fyrirtækjasamstæðna,
    eða
b)    þegar samningur, gerður skv. 6. gr. tilskipunar 94/45/EB, er undirritaður eða endurskoðaður á tímabilinu frá 5. júní 2009 til 5. júní 2011.
Þau landslög sem í gildi eru þegar samningurinn er undirritaður eða endurskoðaður skulu gilda áfram um fyrirtækið eða fyrirtækjasamstæðurnar sem um getur í b-lið fyrstu undirgreinar.
2.     Þegar samningarnir, sem um getur í 1. mgr., falla úr gildi geta aðilar að þessum samningum ákveðið sameiginlega að endurnýja eða endurskoða þá. Ef það gerist ekki gilda ákvæði þessarar tilskipunar.

15. gr.
Skýrsla

Eigi síðar en 5. júní 2016 skal framkvæmdastjórnin leggja fyrir Evrópuþingið, ráðið og efnahags- og félagsmálanefnd Evrópubandalaganna skýrslu um framkvæmd þessarar tilskipunar og leggja fram viðeigandi tillögur ef nauðsyn krefur.

16. gr.
Lögleiðing

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að ákvæðum 1. gr. (2., 3. og 4. mgr.), 2. gr. (f- og g-liður 1. mgr.), 3. gr. (4. mgr.), 4. gr. (4. mgr.), 5. gr. (b- og c-liður 2. mgr.), 5. gr. (4. mgr.), 6. gr. (b-, c-, e- og g-liður 2. mgr.) og 10., 12., 13. og 14. gr., sem og ákvæðum 1. liðar (a-, c- og d-liður) og ákvæðum 2. og 3. liðar I. viðauka eigi síðar en 5. júní 2011 eða skulu sjá til þess að aðilar vinnumarkaðarins innleiði á þeim degi nauðsynleg ákvæði með samkomulagi sín í milli þar sem aðildarríkin eru skuldbundin til þess að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir svo þau séu í stakk búin til að tryggja þann árangur sem náðst hefur með þessari tilskipun.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessi ákvæði skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þau verða birt opinberlega. Í þeim skal einnig vera yfirlýsing um að líta beri á tilvísanir í gildandi lögum og stjórnsýslufyrirmælum í tilskipunina, sem er felld niður með þessari tilskipun, sem tilvísanir í þessa tilskipun. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun og hvernig yfirlýsingin skal sett fram.
2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til.

17. gr.
Niðurfelling

Tilskipun 94/45/EB, eins og henni var breytt með tilskipunum sem eru tilgreindar í A-hluta II. viðauka, er felld úr gildi frá og með 6. júní 2011 með fyrirvara um skuldbindingar aðildarríkjanna að því er varðar þá fresti til lögleiðingar tilskipananna, sem settir eru fram í B-hluta II. viðauka.
Líta ber á tilvísanir í niðurfelldu tilskipunina sem tilvísanir í þessa tilskipun og skulu þær lesnar með hliðsjón af samsvörunartöflunni í III. viðauka.

18. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
Ákvæði 1. gr. (1., 5., 6. og 7. mgr.), 2. gr. (a- til e- liður, h- og i-liður 1. mgr.), 2. gr. (2. mgr.), 3. gr. (1., 2., 3., 5., 6. og 7. mgr.), 4. gr. (1., 2. og 3. mgr.), 5. gr. (1., 3., 5. og 6. mgr.), 5. gr. (a-liður 2. mgr.), 6. gr. (1. mgr.), 6. gr., (a-, d- og f-liðir 2. mgr.) og 6. gr. (3., 4. og 5. mgr.) og 7., 8., 9. og 11. gr. ásamt ákvæðum 1. liðar (b-, e- og f-liður) og ákvæðum 4., 5. og 6. liðar I. viðauka skulu gilda frá 6. júní 2011.

19. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Strassborg 6. maí 2009.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
H.-G. PÖTTERING J. KOHOUT
forseti. forseti.


I. VIÐAUKI
ÁKVÆÐI TIL VARA
(sem um getur í 7. gr.)

1.    Til þess að ná markmiði 1. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar og í þeim tilvikum sem kveðið er á um í 1. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar skulu eftirfarandi reglur gilda um stofnun, skipan og valdsvið evrópska samstarfsráðsins:
    a)    Valdsvið evrópska samstarfsráðsins skal ákvarðað í samræmi við 3. mgr. 1. gr.
        Upplýsingamiðlun evrópska samstarfsráðsins skal einkum varða skipulag, efnahagslega og fjárhagslega stöðu, líklega þróun, framleiðslu og sölu fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu er starfar á Bandalagsvísu. Upplýsingamiðlun og samráð skal einkum tengjast ástandi og horfum í atvinnumálum, fjárfestingum og hugsanlegum breytingum á skipulagi, innleiðingu nýrra starfshátta eða framleiðsluaðferða, flutningi framleiðslu, samruna, niðurskurði eða lokun fyrirtækja, starfsstöðva eða annarra mikilvægra hluta þeirra og hópuppsögnum.
        Samráðið skal fara fram á þann hátt að fulltrúar starfsmanna geti fundað með aðalstjórninni og fengið viðbrögð við öllum álitum sem þeir kunna að setja fram og ástæðurnar að baki þeim.
    b)    Evrópska samstarfsráðið skal skipað starfsmönnum fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu, er starfar á Bandalagsvísu, sem fulltrúar starfsmanna eða, ef því verður ekki við komið, allir starfsmenn kjósa eða tilnefna úr sínum röðum.
        Kosning eða tilnefning fulltrúa í evrópska samstarfsráðið skal fara fram í samræmi við landslög og/eða venju.
    c)    Fulltrúar evrópska samstarfsráðsins skulu kosnir eða tilnefndir í hlutfalli við fjölda starfsmanna sem eru ráðnir af fyrirtækinu eða fyrirtækjasamstæðunni er starfar á Bandalagsvísu í hverju aðildarríki fyrir sig, með því að úthluta hverju aðildarríki einu sæti fyrir hvern hluta starfsmanna í því ríki sem jafngildir tíu af hundraði starfsmanna, eða broti af því, sem ráðnir eru í öllum aðildarríkjunum samanlagt.
    d)    Til að tryggja samræmingu í starfsemi sinni skal evrópska samstarfsráðið kjósa framkvæmdanefnd úr röðum fulltrúa sinna, sem í eru mest fimm nefndarmenn, og verður hún að vera í stakk búin að annast starfsemi sína með reglubundnum hætti.
        Hún skal setja sér starfsreglur.
    e)    Aðalstjórn eða stjórnendur á öðru stjórnunarstigi, sem á betur við, skulu fá upplýsingar um skipan evrópska samstarfsráðsins.
    f)    Fjórum árum eftir að evrópska samstarfsráðinu hefur verið komið á fót skal það kanna hvort hefja eigi viðræður um gerð samningsins sem um getur í 6. gr. tilskipunarinnar eða halda áfram að beita ákvæðunum til vara sem samþykkt eru í samræmi við þennan viðauka.
        Ákvæði 6. og 7. gr. gilda að breyttu breytanda hafi ákvörðun verið tekin um samningaviðræður í samræmi við 6. gr. tilskipunarinnar, þar sem „evrópskt samstarfsráð“ komi í stað „sérstaka samningaráðsins“.
2.    Evrópska samstarfsráðið skal eiga rétt á að funda með aðalstjórninni einu sinni á ári, til upplýsingar og samráðs á grundvelli skýrslu sem aðalstjórnin tekur saman um framvindu rekstrar fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu, er starfar á Bandalagsvísu, og horfur þess. Stjórnendur á viðkomandi stöðum skulu jafnframt fá upplýsingar.
3.    Ef fyrir hendi eru sérstakar aðstæður eða ákvarðanir sem hafa umtalsverð áhrif á hagsmuni starfsmanna, einkum flutningur, lokun starfsstöðva eða fyrirtækja eða hópuppsagnir, skal framkvæmdanefndin eða, ef hún er ekki fyrir hendi, evrópska samstarfsráðið eiga rétt á að fá vitneskju um það. Hún skal hafa rétt á, fari hún fram á það, að funda með aðalstjórn, eða stjórnendum á öðru stjórnunarstigi, sem á betur við, innan fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu er starfar á Bandalagsvísu sem hefur eigin ákvörðunarrétt, í því skyni að fá upplýsingar og hafa samráð.
    Þeir fulltrúar í evrópska samstarfsráðinu, sem hafa verið kjörnir eða tilnefndir af starfsstöðvum og/eða fyrirtækjum sem viðkomandi ráðstafanir hafa bein áhrif á, skulu einnig eiga rétt á að taka þátt í fundum sem ráðgerðir eru með framkvæmdanefndinni.
    Þessi upplýsinga- og samráðsfundur skal haldinn eins fljótt og unnt er á grundvelli skýrslu sem aðalstjórn, eða stjórnendur á öðru stjórnunarstigi sem á betur við, í fyrirtæki eða fyrirtækjasamstæðu er starfar á Bandalagsvísu tekur saman. Heimilt er að leggja fram álit á skýrslunni í fundarlok eða innan hæfilegs frests.
    Þessi fundur hefur ekki áhrif á heimildir aðalstjórnarinnar.
    Reglur um upplýsingamiðlun og samráð, sem settar eru fram í ofangreindum aðstæðum, skal framfylgt með fyrirvara um 2. mgr. 1. gr. og 8. gr.
4.    Aðildarríkjunum er heimilt að mæla fyrir um reglur um forsæti á fundum sem varða upplýsingamiðlun og samráð.
    Áður en fundur er haldinn með aðalstjórn er evrópska samstarfsráðinu eða framkvæmdanefndinni, með þeirri víðtækari skipan sem nauðsynleg er í samræmi við aðra málsgrein 3. liðar, heimilt að halda fund án viðveru hlutaðeigandi stjórnar.
5.    Evrópska samstarfsráðið eða framkvæmdanefndin getur kallað til sérfræðinga að eigin vali sé það nauðsynlegt vegna verkefna ráðsins.
6.    Aðalstjórn greiðir rekstrarkostnað evrópska samstarfsráðsins.
    Hlutaðeigandi aðalstjórn skal útvega fulltrúum evrópska samstarfsráðsins það fjármagn og þá aðstöðu sem þeim er nauðsynleg til að sinna skyldum sínum.
    Einkum skal aðalstjórn greiða kostnað af skipulagningu funda og aðstöðu vegna túlkunar og gisti- og ferðakostnað fulltrúa evrópska samstarfsráðsins og framkvæmdanefndar hennar nema samið sé um annað.
    Í samræmi við þessar meginreglur geta aðildarríkin mælt fyrir um reglur um fjárhagsáætlun vegna starfsemi evrópska samstarfsráðsins. Þau geta m.a. ákveðið að gera aðeins ráð fyrir greiðslu til eins sérfræðings.

II. VIÐAUKI
A-HLUTI
Niðurfelld tilskipun með síðari breytingum
(sem um getur í 17. gr.)

Tilskipun ráðsins 94/45/EB (Stjtíð. EB L 254, 30.9.1994, bls. 64)
Tilskipun ráðsins 97/74/EB (Stjtíð. EB L 10, 16.1.1998, bls. 22)
Tilskipun ráðsins 2006/109/EB (Stjtíð. ESB L 363, 20.12.2006, bls. 416)

B-HLUTI
Frestir til lögleiðingar í aðildarríkjunum
(sem um getur í 17. gr.)

Tilskipun Frestur til lögleiðingar
94/45/EB 22.9.1996
97/74/EB 15.12.1999
2006/109/EB 1.1.2007

III. VIÐAUKI
Samsvörunartafla

Tilskipun 94/45/EB Þessi tilskipun
1. mgr. 1. gr. 1. mgr. 1. gr.
2. mgr. 1. gr. Fyrsti málsliður 2. mgr. 1. gr.
Annar málsliður 2. mgr. 1. gr.
3. og 4. mgr. 1. gr.
3. mgr. 1. gr. 5. mgr. 1. gr.
4. mgr. 1. gr. 6. mgr. 1. gr.
5. mgr. 1. gr. 7. mgr. 1. gr.
a- til e-liður 1. mgr. 2. gr. a- til e-liður 1. mgr. 2. gr.
f-liður 1. mgr. 2. gr.
f-liður 1. mgr. 2. gr. g-liður 1. mgr. 2. gr.
g- og h-liður 1. mgr. 2. gr. h- og i-liður 1. mgr. 2. gr.
2. mgr. 2. gr. 2. mgr. 2. gr.
3. gr. 3. gr.
1., 2. og 3. mgr. 4. gr. 1., 2. og 3. mgr. 4. gr.
2. mgr. 11. gr. 4. mgr. 4. gr.
1. mgr. og a-liður 2. mgr. 5. gr. 1. mgr. og a-liður 2. mgr. 5. gr.
b- og c-liður 2. mgr. 5. gr. b-liður 2. mgr. 5. gr.
d-liður 2. mgr. 5. gr. c-liður 2. mgr. 5. gr.
3. mgr. 5. gr. 3. mgr. 5. gr.
Fyrsta undirgrein 4. mgr. 5. gr. Fyrsta undirgrein 4. mgr. 5. gr.
Önnur undirgrein 4. mgr. 5. gr.
Önnur undirgrein 4. mgr. 5. gr. Þriðja undirgrein 4. mgr. 5. gr.
5. og 6. mgr. 5. gr. 5. og 6. mgr. 5. gr.
1. mgr. og a-liður 2. mgr. 6. gr. 1. mgr. og a-liður 2. mgr. 6. gr.
b-liður 2. mgr. 6. gr. b-liður 2. mgr. 6. gr.
c-liður 2. mgr. 6. gr. c-liður 2. mgr. 6. gr.
d-liður 2. mgr. 6. gr. d-liður 2. mgr. 6. gr.
e-liður 2. mgr. 6. gr.
e-liður 2. mgr. 6. gr. f-liður 2. mgr. 6. gr.
f-liður 2. mgr. 6. gr. g-liður 2. mgr. 6. gr.
3., 4. og 5. mgr. 6. gr. 3., 4. og 5. mgr. 6. gr.
7. gr. 7. gr.
8. gr. 8. gr.
9. gr. 9. gr.
1. og 2. mgr. 10. gr.
10. gr. 3. mgr. 10. gr.
4. mgr. 10. gr.
1. mgr. 11. gr. 1. mgr. 11. gr.
2. mgr. 11. gr. 4. mgr. 4. gr.
3. mgr. 11. gr. 2. mgr. 11. gr.
4. mgr. 11. gr. 3. mgr. 11. gr.
1. og 2. mgr. 12. gr.
1. til 5. mgr. 12. gr.
13. gr.
1. mgr. 13. gr. 1. mgr. 14. gr.
2. mgr. 13. gr. 2. mgr. 14. gr.
15. gr.
14. gr. 16. gr.
17. gr.
18. gr.
16. gr. 19. gr.
Viðauki I. viðauki
Inngangsorðin í 1. lið Inngangsorðin í 1. lið
a-liður 1. liðar (að hluta) og önnur málsgrein 2. liðar (að hluta) a-liður 1. liðar (að hluta)
b-liður 1. liðar b-liður 1. liðar
c-liður 1. liðar (að hluta) og d-liður 1. liðar c-liður 1. liðar
c-liður 1. liðar (að hluta) d-liður 1. liðar
e-liður 1. liðar e-liður 1. liðar
f-liður 1. liðar f-liður 1. liðar
Fyrsta málsgrein 2. liðar 2. liður
3. liður 3. liður
4. liður 4. liður
5. liður
6. liður 5. liður
7. liður 6. liður
II. og III. viðauki
Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 62, 11.3.2010, bls. 45, og EES-viðbætir nr. 12, 11.3.2010, bls. 44.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L 122, 16.5.2009, bls. 28.
Neðanmálsgrein: 3
(3)    Stjtíð. EB L 254, 30.9.1994, bls. 64.
Neðanmálsgrein: 4
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 5
(1)    Álit frá 4. desember 2008 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum ESB).
Neðanmálsgrein: 6
(2)    Álit Evrópuþingsins frá 16. desember 2008 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum ESB) og ákvörðun ráðsins frá 17. desember 2008.
Neðanmálsgrein: 7
(3)    Stjtíð. EB L 254, 30.9.1994, bls. 64.
Neðanmálsgrein: 8
(1)    Stjtíð. EB L 80, 23.3.2002, bls. 29.
Neðanmálsgrein: 9
(2)    Stjtíð. EB L 225, 12.8.1998, bls. 16.
Neðanmálsgrein: 10
(3)    Stjtíð. EB L 82, 22.3.2001, bls. 16.
Neðanmálsgrein: 11
(4)    Tilskipun ráðsins 97/74/EB frá 15. desember 1997 um rýmkun tilskipunar 94/45/EB um stofnun evrópsks samstarfsráðs eða samþykkt reglna í fyrirtækjum og fyrirtækjahópum er starfa á Bandalagsvísu varðandi upplýsingamiðlun og samráð við starfsmenn, svo að hún nái til hins sameinaða konungsríkis Stóra-Bretlands og Norður- Írlands (Stjtíð. EB L 10, 16.1.1998, bls. 22).
Neðanmálsgrein: 12
(1)    Stjtíð. ESB C 321, 31.12.2003, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 13
(1)    Stjtíð. ESB L 24, 29.1.2004, bls. 1.