Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 539. máls.

Þingskjal 834  —  539. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 85/2011
um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 85/2011, frá 1. júlí 2011, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/98/EB frá 19. nóvember 2008 um úrgang og um niðurfellingu tiltekinna tilskipana.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 85/2011, frá 1. júlí 2011, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/98/EB frá 19. nóvember um úrgang og niðurfellingu tiltekinna tilskipana.
    Með tilskipun 2008/98/EB eru settar fram leiðir til að vernda umhverfið og heilsu manna með því að koma í veg fyrir eða draga úr óæskilegum áhrifum sem myndun og meðhöndlun úrgangs hefur og með því að minnka heildaráhrif af því og bæta nýtingu auðlinda.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem hér um ræðir, en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/98/EB frá 19. nóvember 2008 um úrgang og niðurfellingu tiltekinna tilskipana.
    Með tilskipun 2008/98/EB eru settar fram reglur til að vernda umhverfið og heilsu manna með því að draga úr óæskilegum áhrifum sem myndun og meðhöndlun úrgangs hefur, eins og áður segir.
    Tilskipunin kemur í stað þriggja eldri tilskipana sem falla úr gildi, þ.e. 2006/12/EB um úrgang, 91/689/EBE um hættulegan úrgang (breytt með tilskipun 94/31/EB) og 75/439/EBE um förgun olíuúrgangs. Um er að ræða uppfærslu (samþættingu) og endurskoðun eldri úrgangsgerða.
    Aðalmarkmið stefnu aðildarríkja í úrgangsmálum á að vera að lágmarka þau neikvæðu áhrif sem myndun og meðhöndlun úrgangs hefur á heilsu manna og umhverfið. Þá skal beita nauðsynlegum leiðum til að tryggja að meðhöndlun úrgangs skapi ekki hættu. Meginreglan í þeim efnum er svokölluð greiðsluregla, en inntak hennar er að sá borgi sem mengi eða sá sem hefur með höndum umsvif sem hafa áhrif á umhverfið. Í ljósi þess skal úrgangshafi, þ.e. framleiðandi úrgangs, sá sem hefur úrgang í vörslu sinni standa straum af kostnaði við meðhöndlun úrgangsins. Tilskipunin miðar að framangreindu sem og þeirri stefnu í úrgangsmálum að hafa að markmiði að draga úr nýtingu auðlinda. Í samræmi við það er sett fram forgangsröðun í tilskipuninni sem aðildarríki skulu leitast við að fylgja, þ.e. 1. að draga úr myndun úrgangs, 2. undirbúa fyrir endurnotkun, 3. endurvinnsla, 4. önnur endurnýting (t.d. orkuvinnsla) og 5. förgun.
    Tilskipunin kallar á að aðildarríki ráðist í áætlanagerð um meðhöndlun úrgangs. Þar eigi að koma fram mat á núverandi stöðu úrgangsmeðhöndlunar á viðkomandi landsvæði, þær leiðir sem valdar eru til að bæta umhverfisvæna endurnotkun, endurvinnslu, endurnýtingu og förgun úrgangs og mat á því hvernig áætlanir muni styðja við framkvæmd markmiða og ákvæða tilskipunarinnar. Í tilskipuninni er að finna nánari útlistun á þeim atriðum sem áætlunin skal taka til. Þá skal gefa út áætlanir sem fjalla um leiðir til að koma í veg fyrir myndun úrgangs, eigi síðar en 12. desember 2013, en áætlanir skulu endurmetnar á a.m.k. sex ára fresti og endurskoðaðar ef þurfa þykir.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Hluti af ákvæðum tilskipunar 2008/98/EB hefur þegar verið innleiddur með lögum nr. lögum nr. 58/2011, um breytingu á lögum nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs. Til þess að ljúka við innleiðingu á tilskipun 2008/98 þarf að breyta lögum nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, á nýjan leik m.a. markmiðsákvæði laganna og bæta þarf við skilgreiningum vegna innleiðingar tilskipunar 2008/98/EB. Þá þarf að setja inn ákvæði um forgangsröðun úrgangsmeðhöndlunar, ýmis ákvæði sem varða auknar skyldur starfsemi þeirra aðila sem meðhöndla úrgang, um þátttöku almennings og hagsmunaaðila í mótun áætlana um meðhöndlun úrgangs, ýmis ákvæði um úrgangsstjórnun og ábyrgð, sem og um meðferð spilliefna svo að eitthvað sé nefnt. Í kjölfarið þarf að breyta ýmsum reglugerðum sem hafa stoð í lögum nr. 55/2003, og fella aðrar brott.
    Víðtækt samráð um innleiðingu gerðarinnar og lagabreytingar verður haft við önnur stjórnvöld, atvinnulífið, almenning og hagsmunaaðila, m.a. Umhverfisstofnun, Samtök atvinnulífsins og Samband íslenskra sveitarfélaga. Ráðuneytið óskaði haustið 2011 eftir hugmyndum vegna innleiðingar á tilskipun 2008/98/EB frá almenningi, stjórnvöldum og hagsmunaaðilum og hefur jafnframt fundað með fjölmörgum aðilum vegna innleiðingarinnar á tilskipuninni. Umhverfisráðherra stefnir að því að leggja fram lagafrumvarp vorið 2012 til innleiðingar á ákvæðum tilskipunarinnar.
    Lagabreytingar munu hafa í för með sér óverulegan kostnað fyrir ríkissjóð en endanlegt mat á þeim kostnaði á eftir að fara fram. Kostnaðarmat umhverfisráðuneytis og fjármálaráðuneytis mun verða unnið áður en frumvarp um breytingu á lögum nr. 55/2003 verður lagt fram. Umhverfisstofnun hefur þó bent á að lagabreytingar muni leiða til fjölgunar verkefna t.a.m. vegna áætlanagerðar um leiðir til að draga úr myndun úrgangs og vegna kröfu tilskipunarinnar um að skrá skuli magn úrgangs af hálfu meðhöndlunaraðila, þ.e. söfnunar- og móttökustöðva en söfnun þeirra upplýsinga á landsvísu verður á hendi Umhverfisstofnunar. Verkefnin muni óumflýjanlega valda auknum rekstrarkostnaði stofnunarinnar.
    Lagabreytingar hafa í för með sér kröfu um skráningu á magni úrgangs en það fellur á meðhöndlunaraðila, sem eru í flestum tilvikum sveitarfélög. Sú framkvæmd kann að leiða til aukins kostnaðar af hálfu sveitarfélaganna.



Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 85/2011

frá 1. júlí 2011

um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN,

með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        XX. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 57/2011 frá 20. maí 2011 ( 1 ).
2)        Fella ber inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/98/EB frá 19. nóvember 2008 um úrgang og um niðurfellingu tiltekinna tilskipana ( 2 ).

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.


Ákvæði XX. viðauka við samninginn breytist sem hér segir:

1.        Texti 26. liðar (tilskipun ráðsins 75/439/EBE), 27. liðar (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/12/EB) og liðar 32a (tilskipun ráðsins 91/689/EBE) falli brott.

2.        Eftirfarandi liður bætist við á eftir lið 32fe (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/21/EB):

        „32ff.         32008 L 0098: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/98/EB frá 19. nóvember 2008 um úrgang og um niðurfellingu tiltekinna tilskipana (Stjtíð. ESB L 312, 22.11.2008, bls. 3).“


2. gr.



Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2008/98/EB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.

Ákvörðun þessi öðlast gildi 2. júlí 2011, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.

Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 1. júlí 2011.

Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar

Kurt Jäger


formaður.




    



Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2008/98/EB
frá 19. nóvember 2008
um úrgang og um niðurfellingu tiltekinna tilskipana

EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 1. mgr. 175. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 1 ),
með hliðsjón af áliti svæðanefndarinnar ( 2 ) ,
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 3 ) ,
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/12/EB frá 5. apríl 2006 um úrgang ( 4 ) er komið á lagaramma fyrir meðhöndlun á úrgangi í Bandalaginu. Í henni eru skilgreind lykilhugtök, svo sem úrgangur, endurnýting og förgun, og grunnkröfur settar um stjórnun úrgangs, einkum um að stöð eða fyrirtæki, sem fer með úrgangsstjórnun, sé skylt að hafa til þess leyfi eða vera skráð og að aðildarríkjunum sé skylt að gera áætlanir um úrgangsstjórnun. Með henni er einnig kveðið á um mikilvægar meginreglur, svo sem skyldu til að meðhöndla úrgang þannig að það hafi ekki neikvæð áhrif á umhverfið eða heilbrigði manna, hvatningu til að nota úrgangsmetakerfið (e. waste hierarchy) og kröfu um að handhafi úrgangs, fyrri handhafar úrgangs eða framleiðendur vörunnar, sem úrgangurinn varð til úr, beri kostnaðinn við förgun úrgangsins í samræmi við mengunarbótaregluna.
2)          Í ákvörðun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1600/2002/EB frá 22. júlí 2002 um sjöttu aðgerðaáætlun Bandalagsins á sviði umhverfismála ( 5 ) er sett fram krafa um þróun eða endurskoðun á löggjöf um úrgang, þ.m.t. nánari útlistun á aðgreiningunni á því sem telst vera úrgangur og því sem telst ekki vera úrgangur, og um þróun á ráðstöfunum er varða forvarnir gegn myndun úrgangs og sem varða úrgangsstjórnun, þ.m.t. setning markmiða.
3)          Í orðsendingu framkvæmdastjórnarinnar frá 27. maí 2003 um þemaáætlun um forvarnir gegn myndun úrgangs og um endurvinnslu hans er greint frá þörfinni fyrir að meta núgildandi skilgreiningar á endurnýtingu og förgun, þörfinni fyrir almenna skilgreiningu á endurvinnslu og umræðu um skilgreiningu á úrgangi.
4)          Í ályktun sinni frá 20. apríl 2004 um framangreinda orðsendingu ( 6 ) fór Evrópuþingið þess á leit við framkvæmdastjórnina að hún íhugaði að rýmka tilskipun ráðsins 96/61/EB frá 24. september 1996 um samþættar mengunarvarnir og eftirlit með mengun ( 7 ) þannig að hún næði til úrgangsgeirans í heild. Þingið bað einnig framkvæmdastjórnina um að greina skýrt á milli endurnýtingar og förgunar og að skýra nánar muninn á úrgangi og því sem telst ekki til úrgangs.
5)          Í niðurstöðu sinni frá 1. júlí 2004 fór ráðið þess á leit við framkvæmdastjórnina að hún kæmi fram með tillögu um endurskoðun á tilteknum atriðum í tilskipun 75/442/EBE, sem var felld úr gildi og í stað hennar kom tilskipun 2006/ 12/EB, til að skýra aðgreininguna á úrgangi og því sem telst ekki til úrgangs og aðgreininguna á endurnýtingu og förgun.
6)          Markmiðið með hvers kyns úrgangsstefnu skal fyrst og fremst vera það að lágmarka neikvæð áhrif af myndun og stjórnun úrgangs á heilbrigði manna og umhverfið. Einnig skal markmiðið með úrgangsstefnu vera að draga úr notkun auðlinda og hvetja til þess að úrgangsmetakerfinu verði beitt í reynd.
7)          Í ályktun frá 24. febrúar 1997 um áætlun Bandalagsins um stjórnun úrgangs ( 1 ) staðfesti ráðið að fyrsta forgangsatriðið við úrgangsstjórnun skyldi vera forvarnir gegn myndun úrgangs og að endurnotkun og endurvinnsla efniviðar skyldu tekin fram fyrir endurnýtingu orku úr úrgangi þegar og ef þeir kostir væru bestir í vistfræðilegu tilliti.
8)          Þess vegna er nauðsynlegt að endurskoða tilskipun 2006/12/EB til að skýra lykilhugtök, svo sem skilgreiningar á úrgangi, endurnýtingu og förgun, til að styrkja þær ráðstafanir sem gera þarf til að koma í veg fyrir myndun úrgangs, til að innleiða nálgun þar sem tekið er tillit til alls vistferils vara og efniviðar og ekki bara í úrgangsfasa þeirra og til að leggja áherslu á að draga úr umhverfisáhrifum vegna myndunar úrgangs og úrgangsstjórnunar og auka þannig efnahagslegt verðmæti úrgangs. Enn fremur skal hvetja til endurnýtingar úrgangs og notkunar á endurnýttum efniviði til að vernda náttúruauðlindir. Til glöggvunar og einföldunar skal tilskipun 2006/12/EB felld úr gildi og ný tilskipun koma í hennar stað.
9)          Þar eð mikilvægustu málefnin, er varða úrgangsstjórnun, falla nú undir löggjöf Bandalagsins á sviði umhverfismála er mikilvægt að þessi tilskipun sé löguð að þeirri nálgun. Áhersla á umhverfismarkmiðin, sem mælt er fyrir um í 174. gr. sáttmálans, myndi skerpa sýn á umhverfisáhrifin af myndun og stjórnun úrgangs í gegnum allan vistferil auðlindanna. Af þessum sökum skal 175. gr. vera lagagrundvöllur þessarar tilskipunar.
10)          Setja skal skilvirkar og samræmdar reglur um meðhöndlun úrgangs varðandi færanlegar eignir sem handhafi losar sig við, ætlar að losa sig við eða sem krafist er að hann losi sig við, með fyrirvara um tilteknar undantekningar.
11)          Vegið skal og metið hvort ómengaður, uppgrafinn jarðvegur og annar náttúrulegur efniviður, sem er notaður annars staðar en þar sem hann var tekinn, í samræmi við skilgreininguna á úrgangi og ákvæði um aukaafurðir eða um lok úrgangsfasans, fái stöðu úrgangs samkvæmt þessari tilskipun.
12)          Í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1774/2002 frá 3. október 2002 um heilbrigðisreglur um aukaafurðir úr dýrum sem ekki eru ætlaðar til manneldis ( 2 ) er m.a. mælt fyrir um eftirlit í viðeigandi hlutfalli að því er varðar söfnun, flutning, vinnslu, notkun og förgun allra aukaafurða úr dýrum, þ.m.t. úrgangur úr dýraríkinu, til að koma í veg fyrir að þær skapi áhættu fyrir heilbrigði dýra eða lýðheilsu. Því er nauðsynlegt að skýra tengslin við þá reglugerð og forðast tvítekningu reglna með því að undanskilja aukaafurðir úr dýrum gildissviði þessarar tilskipunar þegar þær eru ætlaðar til notkunar sem fellur ekki undir meðhöndlun úrgangs.
13)          Í ljósi fenginnar reynslu af beitingu reglugerðar (EB) nr. 1774/2002 þykir rétt að skýra gildissvið löggjafar um úrgang og ákvæða hennar um hættulegan úrgang að því er varðar aukaafurðir úr dýrum sem falla undir reglugerð (EB) nr. 1774/2002. Þegar heilbrigðisáhætta stafar hugsanlega af aukaafurðum úr dýrum er reglugerð (EB) nr. 1774/2002 viðeigandi lagagerningur til að taka á þessari áhættu og forðast skal óþarfa skörun við löggjöf um úrgang.
14)          Ef úrgangur er flokkaður sem hættulegur skal sú flokkun m.a. byggjast á löggjöf Bandalagsins um íðefni, sérstaklega að því er varðar það að flokka efnablöndur sem hættulegar, þ.m.t. gildi fyrir styrkleikamörk sem eru notuð í þeim tilgangi. Setja skal reglur um hættulegan úrgang samkvæmt ströngum skilgreiningum til að koma í veg fyrir eða takmarka, eins og kostur er, hugsanleg, neikvæð áhrif á umhverfið og á heilbrigði manna vegna óheppilegrar stjórnunar. Enn fremur er nauðsynlegt að viðhalda kerfinu sem hefur verið notað til að flokka úrgang og hættulegan úrgang í samræmi við skrána yfir tegundir úrgangs sem var síðast sett fram í ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2000/532/EB ( 3 ) til að ýta undir samræmda flokkun á hættulegum úrgangi innan Bandalagsins.
15)          Nauðsynlegt er að greina á milli bráðabirgðageymslu úrgangs fram að söfnun hans, söfnunar úrgangs og geymslu úrgangs fram að meðhöndlun. Stöðvar eða fyrirtæki þar sem úrgangur fellur til við starfsemina teljast ekki koma að úrgangsstjórnun og falla undir kröfu um leyfi til að geyma úrgang fram að söfnun.
16)          Bráðabirgðageymsla úrgangs, sem fellur undir skilgreininguna á söfnun, er geymsla fram að söfnun í aðstöðu þar sem úrgangur er losaður svo að unnt sé að undirbúa hann áður en hann er fluttur áfram til endurnýtingar eða förgunar annars staðar. Í ljósi markmiðsins með þessari tilskipun skal greina milli bráðabirgðageymslu á úrgangi fram að söfnun og geymslu úrgangs fram að meðhöndlun eftir tegund úrgangs, umfangi geymslunnar og geymslutímanum og markmiðinu með söfnuninni. Aðildarríkin skulu sjá um þessa aðgreiningu. Geymsla á úrgangi fyrir endurnýtingu í þrjú ár eða lengur og geymsla á úrgangi fyrir förgun í eitt ár eða lengur fellur undir gildissvið tilskipunar ráðsins 1999/31/EB frá 26. apríl 1999 um urðun úrgangs ( 1 ) .
17)          Kerfi til söfnunar úrgangs, sem ekki eru rekin í atvinnuskyni, falla ekki undir kröfur um skráningu þar eð þau skapa minni áhættu og eru framlag til sérstakrar söfnunar úrgangs. Dæmi um slík kerfi er móttaka lyfjaverslana á lyfjaúrgangi, endurviðtökukerfi verslana fyrir neysluvarning og samfélagsleg kerfi í skólum.
18)          Skilgreina skal forvarnir, endurnotkun, undirbúning fyrir endurnotkun, meðhöndlun og endurvinnslu í þessari tilskipun til að skýra gildissvið þessara hugtaka.
19)          Breyta þarf skilgreiningunum á endurnýtingu og förgun til að tryggja að skýr greinarmunur sé gerður á þessum tveimur hugtökum á grundvelli raunverulegs munar á umhverfisáhrifum þeirra vegna staðgöngu fyrir náttúruauðlindir í hagkerfinu og viðurkenningar á hugsanlegum ávinningi fyrir umhverfið og heilbrigði manna vegna þess að úrgangur er notaður sem auðlind. Þar að auki má þróa viðmiðunarreglur til glöggvunar í þeim tilvikum þegar erfitt er að gera þennan greinarmun í raun eða þegar það samræmist ekki raunverulegum umhverfisáhrifum starfseminnar að flokka hana sem endurnýtingu.
20)          Í þessari tilskipun skal jafnframt skýra nánar hvenær brennsla á heimilis- og rekstrarúrgangi í föstu formi er orkunýtin og hún getur talist vera endurnýtingaraðgerð.
21)          Förgunaraðgerðir, sem felast í losun í úthöf og önnur höf, þ.m.t. niðurgröftur á hafsbotni, eru einnig reglufestar í alþjóðasamningum, einkum í alþjóðasamningnum um varnir gegn mengun hafsins vegna losunar úrgangsefna og annarra efna í það sem gerður var í London 13. nóvember 1972 og í bókun við hann frá 1996, eins og henni var breytt 2006.
22)          Ekkert má vera óljóst að því er varðar hina ýmsu þætti skilgreiningarinnar á úrgangi og beita skal viðeigandi málsmeðferðum, ef nauðsyn krefur, að því er varðar annars vegar aukaafurðir, sem ekki eru úrgangur, og hins vegar úrgang sem hættir að vera vera úrgangur. Til að tilgreina tiltekna þætti skilgreiningarinnar á úrgangi skal í þessari reglugerð skýra:
        hvenær efni eða hlutir, sem verða til í framleiðsluferli þar sem aðaltilgangurinn er ekki að framleiða slík efni eða hluti, teljast vera aukaafurðir en ekki úrgangur. Þá ákvörðun að efni sé ekki úrgangur er einungis hægt að taka á grundvelli samræmdar nálgunar sem er í stöðugri uppfærslu og þegar það samræmist verndun umhverfisins og heilbrigðis manna. Ef notkun aukaafurðar er leyfð samkvæmt umhverfisleyfi eða almennum reglum um umhverfismál geta aðildarríkin nýtt sér það til að ákveða að ekki sé búist við neinum neikvæðum heildaráhrifum á umhverfið eða heilbrigði manna, en einungis skal líta svo á að hlutur eða efni sé aukaafurð þegar tiltekin skilyrði eru uppfyllt. Þar eð aukaafurðir falla undir flokkinn afurðir skal útflutningur á aukaafurðum uppfylla kröfur viðkomandi löggjafar Bandalagsins og
        þegar tiltekinn úrgangur hættir að vera úrgangur, með því að mæla fyrir um viðmiðanir fyrir lokum úrgangsfasa sem tryggja öfluga umhverfisvernd og umhverfislegan og efnahagslegan ávinning, en hugsanlegir flokkar úrgangs þar sem þróa þarf nákvæmar skilgreiningar og viðmiðanir varðandi það hvenær úrgangur hættir að vera úrgangur eru m.a. úrgangur frá byggingariðnaði og niðurrifi, sumar tegundir ösku og gjalls, brotamálmar, fylliefni, hjólbarðar, textílefni, molta, úrgangspappír og gler. Til að ná lokum úrgangsfasa getur endurnýtingaraðgerð einfaldlega verið sú að skoða úrganginn til að ganga úr skugga um að hann uppfylli viðmiðanirnar fyrir því að teljast ekki lengur vera úrgangur.
23)          Til að sannreyna eða reikna út hvort markmið um endurvinnslu og endurnýtingu, sem sett voru með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/62/EB frá 20. desember 1994 um umbúðir og umbúðaúrgang ( 1 ) , tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/53/EB frá 18. september 2000 um úr sér gengin ökutæki ( 2 ) , tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/96/EB frá 27. janúar 2003 um raf- og rafeindabúnaðarúrgang ( 3 ) og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/66/ EB frá 6. september 2006 um rafhlöður og rafgeyma og notaðar rafhlöður og rafgeyma ( 4 ) ásamt annarri löggjöf Bandalagsins sem við á, hafi verið uppfyllt skal færa það magn úrgangs, sem hætt er að vera úrgangur, undir endurunninn og endurnýttan úrgang, þegar kröfur þeirrar löggjafar um endurvinnslu eða endurnýtingu hafa verið uppfylltar.
24)          Á grundvelli skilgreiningarinnar á úrgangi getur framkvæmdastjórnin, til að stuðla að vissu og samkvæmni, samþykkt viðmiðunarreglur til að skilgreina í sérstökum tilfellum hvenær efni eða hlutir verða úrgangur. Slíkar viðmiðunarreglur má þróa m.a. fyrir rafmagns- og rafeindabúnað og ökutæki.
25)          Rétt þykir að skipting kostnaðarins sé þannig að hún endurspegli raunverulegan kostnað fyrir umhverfið vegna úrgangsmyndunar og -stjórnunar.
26)          Mengunarbótareglan er leiðbeinandi meginregla í Evrópu og á alþjóðagrundvelli. Framleiðandi úrgangsins og handhafi úrgangsins skulu beita þannig úrgangsstjórnun að öflug vernd sé tryggð fyrir umhverfið og heilbrigði manna.
27)          Upptaka á rýmkaðri ábyrgð framleiðanda í þessari tilskipun er eitt af úrræðunum til að stuðla að hönnun og framleiðslu á vörum þar sem tekið er fullt tillit til skilvirkrar notkunar á auðlindum allan vistferil þeirra og greitt fyrir hana, þ.m.t. viðgerðir, endurnotkun, sundurhlutun og endurvinnsla, án þess að stofna í hættu frjálsri dreifingu vara á innri markaðnum.
28)          Þessi tilskipun ætti að stuðla að því að færa Evrópusambandið nær því að verða „endurvinnslusamfélag“ sem leitast við að komast hjá myndun úrgangs og að nota úrgang sem auðlind. Í sjöttu aðgerðaáætlun Bandalagsins á sviði umhverfismála er sérstaklega kallað eftir ráðstöfunum sem er ætlað að tryggja flokkun á myndunarstað, söfnun og endurvinnslu strauma forgangsúrgangs. Í samræmi við það markmið og til að greiða fyrir getu til endurnýtingar eða efla hana skal safna úrgangi sérstaklega ef það er gerlegt í tækni-, umhverfis- og efnahagslegu tilliti, áður en hann er settur í endurnýtingaraðgerð sem skilar bestu heildarniðurstöðunni fyrir umhverfið. Aðildarríkin skulu ýta undir aðskilnað á hættulegum efnasamböndum frá straumum úrgangs ef nauðsyn krefur til að ná umhverfisvænni úrgangsstjórnun.
29)          Aðildarríkin skulu stuðla að notkun á endurvinnanlegum efnum, t.d. endurheimtum pappír, í samræmi við úrgangsmetakerfið og með það að markmiði að skapa endurvinnslusamfélag og skulu hvorki styðja urðun né brennslu á slíkum endurvinnanlegum efnum hvenær sem hjá því verður komist.
30)          Til að koma í framkvæmd varúðarreglunni og meginreglunni um forvarnarstarf, sem er að finna í 2. mgr. 174. gr. sáttmálans, er nauðsynlegt að setja almenn umhverfismarkmið vegna úrgangsstjórnunar innan Bandalagsins. Með skírskotun til þessara meginreglna er það hlutverk Bandalagsins og aðildarríkjanna að kveða á um ramma til að koma í veg fyrir, draga úr og, eftir því sem kostur er, uppræta strax í upphafi mengunarvalda eða óþægindi með því að samþykkja ráðstafanir til að uppræta þekkta áhættu.
31)          Í úrgangsmetakerfinu er yfirleitt mælt fyrir um forgangsröðun á því hvað teljist vera besti umhverfislegi heildarkosturinn í löggjöf og stefnu í úrgangsmálum, en það getur verið nauðsynlegt með tilliti til tiltekinna úrgangsstrauma að víkja frá slíkri röðun þegar tæknileg hagkvæmni, fjárhagslegt raunhæfi, umhverfisverndarsjónarmið o.fl. réttlæta slíkt.
32)          Til að gera Bandalaginu í heild fært um að sjá sjálft um förgun eigin úrgangs og endurnýtingu blandaðs úrgangs frá einkaheimilum og til að gera sérhverju aðildarríki kleift að að ná þessu markmiði, er nauðsynlegt að gera ráð fyrir samstarfskerfi förgunarstöðva og stöðva þar sem blandaður úrgangur frá einkaheimilum er endurnýttur, m.t.t. landfræðilegra aðstæðna eða þeirrar þarfar sem er fyrir sérhæfðar stöðvar fyrir tilteknar tegundir úrgangs.
33)          Samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1013/2006 frá 14. júní 2006 um tilflutning úrgangs ( 1 ) heldur blandaður heimilis- og rekstrarúrgangur, sem um getur í 5. mgr. 3. gr. þeirrar reglugerðar, áfram að vera blandaður heimilis- og rekstrarúrgangur jafnvel eftir að hann hefur verið farið í gegnum meðhöndlun sem hefur ekki breytt eiginleikum hans umtalsvert.
34)          Mikilvægt er að hættulegur úrgangur sé merktur í samræmi við alþjóðlega staðla og staðla Bandalagsins. Ef slíkum úrgangi er safnað sérstaklega frá heimilum má það hins vegar ekki verða til þess að heimilin þurfi að útfylla tilskilin skjöl.
35)          Mikilvægt er, í samræmi við úrgangsmetakerfið og til að draga úr losun gróðurhúsaloft tegunda frá urðunarstöðum úrgangs, að greiða fyrir sérstakri söfnun og réttri meðhöndlun lífræns úrgangs til að framleiða umhverfisvæna moltu og annan efnivið sem byggist á lífrænum úrgangi. Framkvæmdastjórnin mun, að loknu mati á stjórnun í tengslum við lífrænan úrgang, leggja fram tillögur um lagaákvæði eftir því sem við á.
36)          Taka má upp lágmarkstæknistaðla fyrir starf semi við meðhöndlun úrgangs sem ekki fellur undir tilskipun 96/61/EB ef unnt er að sýna fram á að ávinningur næðist að því er varðar vernd fyrir heilbrigði manna og umhverfis og ef samræmd nálgun við framkvæmd þessarar tilskipunar myndi tryggja vernd heilbrigðis manna og umhverfisins.
37)          Nauðsynlegt er að tilgreina frekar gildissvið áætlana sem aðildarríkjunum er skylt að gera í tengslum við úrgangsstjórnun og hvað eigi að koma þar fram og að taka tillit til umhverfis áhrifa við myndun úrgangs og úrgangsstjórnun í ferlinu við þróun eða endurskoðun á áætl unum um úrgangsstjórnun. Einnig skal, eftir því sem við á, hafa hliðsjón af kröfunum um áætlanagerð varðandi úrgang sem mælt er fyrir um í 14. gr. tilskipunar 94/62/EB og áætluninni um að minnka magn þess lífbrjótanlega úrgangs (áður „lífrænn úrgangur“) sem berst til urðunarstaða sem um getur í 5. gr. tilskipunar 1999/31/EB.
38)          Aðildarríki geta beitt umhverfisleyfum eða sett almennar reglur í umhverfismálum fyrir til tekna framleiðendur úrgangs án þess að það setji eðlilega starfsemi innri markaðarins í hættu.
39)          Samkvæmt reglugerð (EB) nr. 1013/2006 geta aðildarríki gert þær ráðstafanir sem nauð syn legar eru til að koma í veg fyrir tilflutning á úrgangi sem ekki samræmist áætlunum þeirra um úrgangsstjórnun. Þrátt fyrir þá reglugerð skulu aðildarríkin hafa heimild til að takmarka tilflutning úrgangs inn í landið til brennslu stöðva, sem flokkaðar eru sem endurnýtingar stöðvar, ef sýnt hefur verið fram á að farga þurfi úrgangi viðkomandi lands eða að með höndla þurfi úrgang með aðferðum sem sam ræmast ekki áætlunum ríkjanna um úrgangs stjórnun. Viðurkennt er að tiltekin aðildarríki geti hugsanlega ekki boðið upp á kerfi sem tekur til allra tegunda stöðva til endanlegrar endurnýtingar innan yfirráðasvæðis síns.
40)          Til að bæta framkvæmd aðgerða til að koma í veg fyrir myndun úrgangs í aðildarríkjunum og til að stuðla að bestu starfsvenjum sem víðast á þessi sviði er nauðsynlegt að styrkja ákvæðin um forvarnir gegn myndun úrgangs og innleiða kröfu um að aðildarríkin þrói áætlanir um hvernig skuli koma í veg fyrir myndun úrgangs sem einkum beinast að mikilvægum umhverfis áhrifum og þar sem tekið er tillit til alls vistferils vara og efniviðar. Slíkar ráð stafanir ættu að hafa að markmiði að brjóta tengslin milli hagvaxtar og umhverfisáhrifa sem tengjast myndun úrgangs. Hagsmuna aðilar, svo og allur almenningur, ættu að hafa tækifæri til að taka þátt í samningu áætlananna og hafa aðgang að þeim fullgerðum, í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/35/ EB frá 26. maí 2003 um þátttöku almenn ings að því er varðar gerð tiltekinna skipulags- og framkvæmdaáætlana í tengslum við umhverfismál ( 2 ) . Þróa skal markmið um forvarnir gegn myndun úrgangs og um afteng ingu, sem ná, eftir því sem við á, til þess að dregið verði úr neikvæðum áhrifum vegna úrgangs og úr því magni úrgangs sem myndast.
41)          Í viðleitni til að færast nær evrópsku endur vinnslu samfélagi þar sem nýting auðlinda er sem best skal setja markmið til að undirbúa endurnotkun og endurvinnslu á úrgangi. Aðildar ríki nota mismunandi aðferðir við söfnun á húsasorpi og úrgangi sem er svipaðs eðlis og með líka samsetningu. Því er rétt að að við setningu slíkra markmiða sé tekið tillit til mis munandi viðtökukerfa í hinum ýmsu aðildarríkjum. Straumar úrgangs sem koma annars staðar að en líkjast húsasorpi eru m.a. úrgangur sem um getur í 20. færslu í skránni sem kveðið var á um í ákvörðun framkvæmda stjórnarinnar 2000/532/EB.
42)          Efnahagsleg stjórntæki geta gegnt úrslitahlutverki við að ná fram markmiðum um forvarnir gegn myndun úrgangs og um úrgangsstjórnun. Úrgangur er oft verðmæt auðlind og frekari beiting efnahagslegra stjórntækja getur hámarkað umhverfislegan ávinning. Því ætti að hvetja til beitingar slíkra stjórntækja á viðeigandi stigi en jafnframt leggja áherslu á að aðildarríkin geti hvert fyrir sig tekið ákvarðanir um beitingu þeirra.
43)          Breyta skal tilteknum ákvæðum um meðhöndlun úrgangs, sem mælt var fyrir um í tilskipun ráðsins 91/689/EBE frá 12. desember 1991 um hættulegan úrgang ( 1 ) , til að taka út ákvæði, sem eru orðin úrelt, og gera textann skýrari. Í þágu þess að einfalda löggjöf Bandalagsins skal fella þessi ákvæði inn í þessa tilskipun. Til að skýra hvernig bannið við blöndun, sem mælt er fyrir um í tilskipun 91/689/EBE, virkar og til að vernda umhverfið og heilbrigði manna skulu undantekningarnar frá banninu við blöndun einnig vera í samræmi við bestu, fáanlegu tækni eins og hún er skilgreind í tilskipun 96/61/EB. Því skal fella tilskipun 91/689/EBE úr gildi.
44)          Í þágu þess að einfalda löggjöf Bandalagsins og til að endurspegla ávinninginn fyrir umhverfið skal fella viðeigandi ákvæði í tilskipun ráðsins 75/439/EBE frá 16. júní 1975 um förgun olíuúrgangs ( 2 ) inn í þessa tilskipun. Því skal fella tilskipun 75/439/EBE úr gildi. Stjórnun í tengslum við olíuúrgang skal fara fram í samræmi við forgangsröðunina í úrgangsmetakerfinu og velja skal þá valkosti sem sem skila bestu heildarútkomunni fyrir umhverfið. Sérstök söfnun olíuúrgangs er enn þýðingarmikil fyrir rétta stjórnun í tengslum við hann og til að koma í veg fyrir umhverfisspjöll vegna rangrar förgunar hans.
45)          Aðildarríkin skulu kveða á um viðurlög, sem eru skilvirk, í réttu hlutfalli við brot og letjandi, sem leggja skal á einstaklinga og lögaðila sem bera ábyrgð á stjórnun úrgangs, s.s. framleiðendur úrgangs, úrgangshafa, miðlara, seljendur, flutningsaðila og þá sem hirða úrgang, stöðvar og fyrirtæki, sem sjá um meðhöndlun úrgangs og áætlanir um úrgangsstjórnun, í tilvikum þar sem þau brjóta í bága við ákvæði þessarar tilskipunar. Aðildarríkin geta, með fyrirvara um tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/35/EB frá 21. apríl 2004 um umhverfisábyrgð í tengslum við varnir gegn umhverfisspjöllum og úrbætur vegna þeirra ( 3 ) , gripið til aðgerða til að endurheimta kostnað vegna brota gegn ákvæðum og ráðstöfunum til úrbóta.
46)          Nauðsynlegar ráðstafanir til að koma þessari tilskipun í framkvæmd skulu samþykktar í samræmi við ákvörðun ráðsins 1999/468/EB frá 28. júní 1999 um reglur um meðferð framkvæmdavalds sem framkvæmdastjórninni er falið ( 4 ) .
47)          Framkvæmdastjórninni skal m.a. veitt umboð til að setja viðmiðanir varðandi ýmis atriði, svo sem skilyrði fyrir því að hlutur teljist vera aukaafurð, lok úrgangsfasa og ákvörðun um það hvort úrgangur sé álitinn hættulegur, sem og til að koma á ítarlegum reglum um notkunar- og reikniaðferðir til að sannreyna að staðið sé við endurvinnslumarkmiðin sem sett eru fram í þessari tilskipun. Enn fremur skal framkvæmdastjórninni veitt umboð til að laga viðaukana að framförum í tækni og vísindum og til að skilgreina notkunina á formúlunni fyrir brennslustöðvar sem um getur í lið R1 í II. viðauka. Þar eð þessar ráðstafanir eru almenns eðlis og er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar, með því að bæta við hana nýjum, veigalitlum þáttum, skulu þær samþykktar í samræmi við reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem kveðið er á um í 5. gr. a í ákvörðun 1999/468/EB.
48)          Í samræmi við 34. mgr. samstarfssamningsins milli stofnana um betri lagasetningu ( 1 ) eru aðildarríkin hvött til að taka saman, fyrir sig og í þágu Bandalagsins, eigin töflur sem sýna, eftir því sem við verður komið, samsvörun milli þessarar tilskipunar og ráðstafananna til að lögleiða hana og að birta þær.
49)          Aðildarríkin geta ekki fyllilega náð markmiði þessarar tilskipunar, þ.e. að tryggja vernd umhverfisins og heilbrigðis manna, og vegna umfangs hennar og áhrifa verður þeim betur náð á vettvangi Bandalagsins og af þeim sökum er Bandalaginu heimilt að samþykkja ráðstafanir í samræmi við dreifræðisregluna sem kveðið er á um í 5. gr. sáttmálans. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og hún er sett fram í þeirri grein, er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari tilskipun til að ná þessu markmiði.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

I. KAFLI
EFNI, GILDISSVIÐ OG SKILGREININGAR

1. gr.
Efni og gildissvið

Í þessari tilskipun er mælt fyrir um ráðstafanir til að vernda umhverfið og heilbrigði manna með því að koma í veg fyrir myndun úrgangs eða draga úr neikvæðum áhrifum vegna myndunar úrgangs og úrgangsstjórnunar og með því að draga úr heildaráhrifum vegna nýtingar auðlinda og auka skilvirknina við nýtinguna.

2. gr.

Undanþágur frá gildissviði tilskipunarinnar
1.     Eftirfarandi skal vera undanskilið gildissviði þessarar tilskipunar:
a)    loftkennd efni sem losuð eru út í andrúmsloftið,
b)    landsvæði (á staðnum), þ.m.t. óuppgrafinn, mengaður jarðvegur og byggingar sem eru varanlegar á landsvæðinu,
c)    ómengaður jarðvegur og annar efniviður úr náttúrulegu umhverfi, sem grafinn er upp við byggingarstarfsemi, sé öruggt að efniviðurinn verður notaður í byggingarstarfsemi eins og hann kemur fyrir og á staðnum þar sem hann var grafinn upp,
d)    geislavirkur úrgangur,
e)    sprengiefni sem tekið hefur verið úr notkun,
f)    saurefni, sem ekki fellur undir b-lið 2. mgr., hálmur og annar náttúrulegur, hættulaus efniviður, sem tengist landbúnaði eða skógrækt og notaður er í búskap, við skógrækt eða slíkur lífmassi sem er notaður til orkuframleiðslu með vinnslu eða aðferðum sem skaða ekki umhverfið eða stofna heilbrigði manna í hættu.
2.     Eftirfarandi skal vera undanskilið gildissviði þessarar tilskipunar, svo fremi það falli undir aðra löggjöf Bandalagsins:
a)    skólp,
b)    aukaafurðir úr dýrum, þ.m.t. unnar vörur sem falla undir reglugerð (EB) nr. 1774/2002, að undanteknum þeim sem eiga að fara í brennslu, til urðunar eða til notkunar í lífgas- eða myltingarstöð,
c)    hræ af dýrum sem hafa drepist á annan hátt en við slátrun, þ.m.t. dýr sem hafa verið drepin til að útrýma dýrafarsóttum, og sem er fargað í samræmi við reglugerð (EB) nr. 1774/2002,
d)    úrgangur sem fellur til við leit, nám, meðhöndlun og geymslu verðmætra jarðefna og frá grjótnámi sem fellur undir tilskipun 2006/21/EB frá 15. mars 2006 um meðhöndlun úrgangs frá námuiðnaði ( 2 ) .
3.     Með fyrirvara um skuldbindingar samkvæmt annarri viðeigandi löggjöf Bandalagsins skal set sem flutt hefur verið til í yfirborðsvatni til að stjórna vatni og vatnaleiðum eða til að koma í veg fyrir flóð eða draga úr áhrifum flóða og þurrka land eða til að endurheima land falla utan gildissviðs þessarar tilskipunar ef sannað hefur verið að setið sé hættulaust.
4.     Mæla má fyrir með sértilskipunum um sértækar reglur, eða um frekari reglur sem koma til viðbótar ákvæðunum í þessari tilskipun, um stjórnun varðandi tiltekna flokka úrgangs vegna einstakra tilvika.

3. gr.
Skilgreiningar

Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
1.    „úrgangur“: hvers kyns efni eða hlutir sem handhafi losar sig við eða ætlar sér að losa sig við eða sem krafa er gerð um að hann losi sig við,
2.    „hættulegur úrgangur“: úrgangur sem býr yfir einum eða fleiri þeirra hættulegu eiginleika sem tilgreindir eru í III. viðauka,
3.    „olíuúrgangur“: hvers kyns smurefni úr jarðefnum eða tilbúið smurefni eða iðnaðarolíur sem eru orðin óhæf til þeirrar notkunar sem þau voru upphaflega ætluð, s.s. notaðar olíur fyrir brunahreyfla og gírolíur, smurolíur, olíur fyrir hverfla og vökvakerfisolíur,
4.    „lífrænn úrgangur“: lífbrjótanlegur úrgangur úr görðum og almenningsgörðum, matar- og eldhúsúrgangur frá heimilum, veitingastöðum, veisluþjónustufyrirtækjum og smásölum og sambærilegur úrgangur frá vinnslustöðvum fyrir matvæli,
5.    „framleiðandi úrgangs“: hver sá er stundar starfsemi þar sem úrgangur fellur til (upphaflegur framleiðandi úrgangs) eða hver sá sem stundar forvinnslu, blöndun eða aðra starfsemi sem veldur breytingum á eðli eða samsetningu þessa úrgangs,
6.    „úrgangshafi“: framleiðandi úrgangs eða einstaklingurinn eða lögaðilinn sem hefur hann í vörslu sinni,
7.    „seljandi“: hvert það fyrirtæki sem á eigin ábyrgð kaupir úrgang og selur hann síðan aftur, þ.m.t. þeir seljendur sem taka ekki úrganginn í vörslu sína í reynd,
8.    „miðlari“: hvert það fyrirtæki sem sér um endurnýtingu eða förgun úrgangs fyrir hönd annarra, þ.m.t. miðlarar sem taka ekki slíkan úrgang í vörslu sína í reynd,
9.    „úrgangsstjórnun“: söfnun, flutningur, endurnýting og förgun úrgangs, þ.m.t. eftirlit með slíkri starfsemi og umsjón með förgunarstöðum eftir að þeim er lokað, þ.m.t. starfsemi seljenda eða miðlara,
10.    „söfnun“: það að safna úrgangi saman, þ.m.t. forflokkun og bráðabirgðageymsla úrgangs fyrir flutning á úrgangsmeðhöndlunarstöð,
11.    „sérstök söfnun“: söfnun þar sem straumi úrgangs er haldið aðskildum eftir tegund og eðli til að auðvelda tiltekna meðhöndlun,
12.    „forvarnir“: ráðstafanir sem gerðar eru áður en efni, efniviður eða vara er orðin að úrgangi og sem draga úr:
    a)    magni úrgangs, m.a. með endurnotkun vara eða framlengingu á notkunartíma vara,
    b)    neikvæðum áhrifum á umhverfið og heilbrigði manna vegna úrgangs, sem hefur myndast, eða
    c)     magni skaðlegra efna í efniviði og vörum,
13.    „endurnotkun“: hvers kyns aðgerð þar sem vörur eða íhlutir, sem ekki eru úrgangur, eru notuð í sama tilgangi og til var ætlast í upphafi,
14.    „meðhöndlun“: endurnýtingar- eða förgunaraðgerðir, þ.m.t. undirbúningur fyrir endurnýtingu eða förgun,
15.    „endurnýting“: aðgerð þar sem aðalútkoman er sú að úrgangur verður til gagns, þar eð hann kemur í stað annars efniviðar, sem hefði annars verið notaður í tilteknum tilgangi, eða hann er útbúinn til þeirrar notkunar, í stöðinni eða úti í hagkerfinu. Í II. viðauka er skrá yfir endurnýtingaraðgerðir, en hún er ekki tæmandi,
16.    „undirbúningur fyrir endurnotkun“: hvers kyns endurnýtingaraðgerðir, sem felast í skoðun, hreinsun eða viðgerð, þar sem vörur eða íhlutir þeirra, sem eru orðin að úrgangi, eru útbúin þannig að þau megi endurnota án annarrar forvinnslu,
17.    „endurvinnsla“: hvers kyns endurnýtingaraðgerð sem felst í því að endurvinna úrgangsefni í vörur, efnivið eða efni, hvort sem er til notkunar í upphaflegum tilgangi eða í öðrum tilgangi. Undir þetta fellur uppvinnsla (e. reprocessing) á lífrænum efniviði, en ekki endurnýting orku, og uppvinnsla sem skilar efni sem á að nota sem eldsneyti eða til fyllingar,
18.    „endurmyndun olíuúrgangs“: hvers kyns endurvinnsla þar sem unnt er að framleiða grunnolíu með því að hreinsa olíuúrgang, einkum með því að fjarlægja aðskotaefnin, efni, sem myndast við oxun, og aukefnin sem finnast í slíkum olíuúrgangi,
19.    „förgun“: hvers kyns aðgerð sem er ekki endurnýting, jafnvel þótt aðgerðin hafi að auki í för með sér endurheimt efna eða orku. Í I. viðauka er skrá yfir förgunaraðgerðir, en hún er ekki tæmandi,
20.    „besta, fáanlega tækni“: sú tækni sem er skilgreind í 11. mgr. 2. gr. tilskipunar 96/61/EB.

4. gr.
Úrgangsmetakerfi

1.     Eftirfarandi úrgangsmetakerfi (e. waste hierarchy) er lagt til grundvallar við forgangsröðun í löggjöf og stefnumótun að því er varðar varnir gegn myndun úrgangs og meðhöndlun hans:
a)    forvarnir,
b)    undirbúningur fyrir endurnotkun,
c)    endurvinnsla,
d)    önnur endurnýting, t.d. endurnýting orku, og
e)    förgun.
2.     Þegar úrgangsmetakerfinu, sem um getur í 1. mgr., er beitt skulu aðildarríkin gera ráðstafanir til að hvetja til þess að þeir kostir séu valdir sem skila bestu heildarniðurstöðunni fyrir umhverfið. Þetta getur útheimt að tilteknir straumar úrgangs víki frá metakerfinu þegar slíkt er réttlætanlegt út frá hugsun um áhrif alls vistferilsins á myndun og stjórnun slíks úrgangs.
Aðildarríki skulu tryggja að þróun löggjafar og stefnu varðandi úrgang sé alveg gagnsætt ferli þar sem tekið er tillit til gildandi landsreglna um samráð og aðkomu borgara og hagsmunaaðila.
Aðildarríki skulu taka tillit til hinna almennu meginreglna um umhverfisvernd sem snúast um varúð og sjálfbærni, tæknilegan og efnahagslegan framkvæmanleika og verndun auðlinda, sem og heildaráhrifin á umhverfið, heilbrigði manna, hagkerfið og samfélagið, í samræmi við 1. og 13. gr.

5. gr.
Aukaafurðir

1.     Efni eða hlutur, sem verður til í framleiðsluferli þar sem frumtilgangurinn er ekki framleiðsla þess efnis eða hlutar, getur því aðeins talist vera aukaafurð en ekki úrgangur í skilningi 1. liðar 3. gr. að eftirfarandi skilyrði hafi verið uppfyllt:
a)    öruggt er að efnið eða hluturinn verður notaður áfram,
b)    nota má efnið eða hlutinn beint án frekari vinnslu, annarrar en þeirrar sem telst viðtekin venja í iðnaði,
c)    efnið eða hluturinn er framleiddur sem óaðskiljanlegur hluti í framleiðsluferli og
d)    frekari notkun er lögmæt, þ.e. efnið eða hluturinn uppfyllir allar sértækar vöru-, umhverfis- og heilsuverndarkröfur vegna viðkomandi notkunar og mun ekki hafa í för með sér neikvæð áhrif á umhverfið eða heilbrigði manna þegar á heildina er litið.
2.     Samþykkja má ráðstafanir á grundvelli skilyrðanna, sem mælt er fyrir um í 1. mgr., til að ákvarða viðmiðanirnar sem tiltekin efni eða hlutir þurfa að uppfylla til að teljast vera aukaafurðir en ekki úrgangur sem um getur í 1. lið 3. gr. Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að bæta við hana, skulu samþykktar í samræmi við þá reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem um getur í 2. mgr. 39. gr.

6. gr.
Lok úrgangsfasa

1.     Sérstakur úrgangur af tilteknu tagi hættir að vera úrgangur í skilningi 1. liðar 3. gr. þegar hann hefir farið í gegnum endurnýtingaraðgerð, m.a. endurvinnslu, og uppfyllir sértækar viðmiðanir sem þróa skal í samræmi við eftirfarandi skilyrði:
a)    efnið eða hluturinn er yfirleitt notaður í sérstökum tilgangi,
b)    markaður er fyrir slíkt efni eða hlut eða spurn er eftir efninu eða hlutnum,
c)    efnið eða hluturinn uppfyllir tæknilegu kröfurnar fyrir þennan sérstaka tilgang og samræmist þeirri löggjöf og þeim stöðlum, sem gilda um vörur, og
d)    notkun á efninu eða hlutnum hefur ekki neikvæð áhrif á umhverfið eða heilbrigði manna þegar á heildina er litið.
Viðmiðanirnar skulu m.a. felast í viðmiðunarmörkum fyrir mengunarvalda, ef nauðsyn krefur, og í þeim skal taka tillit til allra hugsanlegra neikvæðra umhverfisáhrifa af efninu eða hlutnum.
2.     Ráðstafanirnar, sem eiga að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að bæta við hana, sem varða samþykkt viðmiðananna sem settar eru fram í 1. mgr. og sem tilgreina þær tegundir úrgangs, sem slíkar viðmiðanir skulu gilda um, skulu samþykktar í samræmi við reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem um getur í 2. mgr. 39. gr. Meðal annars skal vega og meta hvort taka skuli upp sértækar viðmiðanir um lok úrgangsfasa, a.m.k. fyrir fylliefni, pappír, gler, málm, hjólbarða og textílefni.
3.     Úrgangur, sem hættir að vera úrgangur í samræmi við 1. og 2. mgr., hættir einnig að vera úrgangur að því er varðar markmið um endurnýtingu og endurvinnslu, sem sett eru fram í tilskipunum 94/62/EB, 2000/53/EB, 2002/96/EB og 2006/66/EB og annarri viðeigandi löggjöf Bandalagsins, þegar kröfur þeirrar löggjafar um endurnýtingu eða endurvinnslu hafa verið uppfylltar.
4.     Ef viðmiðanir hafa ekki verið settar fram á vettvangi Bandalagsins samkvæmt málsmeðferðinni sem sett er fram í 1. og 2. mgr., geta aðildarríkin ákveðið, í hverju tilviki fyrir sig, að tiltekinn úrgangur teljist ekki lengur úrgangur, að teknu tilliti til viðeigandi dómaframkvæmdar. Þeim ber að tilkynna framkvæmdastjórninni um slíkar ákvarðanir í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/34/ EB frá 22. júní 1998 sem setur reglur um tilhögun upplýsingaskipta á sviði tæknistaðla og reglugerða sem og reglna um þjónustu í upplýsingasamfélaginu ( 1 ) ef þess er krafist í þeirri tilskipun.

7. gr.
Skrá yfir úrgang

1.     Ráðstafanirnar, sem eiga að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar í tengslum við uppfærslu á skránni yfir úrgang sem kveðið var á um í ákvörðun 2000/532/EB, skulu samþykktar í samræmi við reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem um getur í 2. mgr. 39. gr. Skráin yfir úrgang skal taka til hættulegs úrgangs og taka skal tillit til uppruna og samsetningar úrgangsins og, ef nauðsyn krefur, viðmiðunarmarka fyrir styrk hættulegra efna. Skráin yfir úrgang skal vera bindandi að því er varðar ákvörðun á því hvaða úrgangur telst vera hættulegur. Þótt efni eða hlutur sé tilgreindur í skránni þarf það ekki að merkja að efnið eða hluturinn teljist úrgangur í öllum tilvikum. Efni eða hlutur telst því aðeins úrgangur að hann uppfylli skilgreininguna í 1. lið 3. gr.
2.     Aðildarríki getur litið á úrgang sem hættulegan, jafnvel þó að hann sé ekki tilgreindur þannig í skránni yfir úrgang, ef hann býr yfir einum eða fleiri af eiginleikunum sem eru tilgreindir í III. viðauka. Aðildarríkið skal tilkynna framkvæmdastjórninni um slík tilvik án tafar. Það skal færa þau í skýrsluna sem kveðið er á um í 1. mgr. 37. gr. og veita framkvæmdastjórninni allar upplýsingar sem máli skipta. Skráin skal endurskoðuð í ljósi móttekinna tilkynninga til að taka megi ákvörðun um breytingar á henni.
3.     Ef aðildarríki hefur sannanir fyrir því að tiltekinn úrgangur, sem kemur fram í skránni sem hættulegur úrgangur, búi ekki yfir neinum af þeim eiginleikum sem tilgreindir eru í III. viðauka getur það litið svo á að sá úrgangur sé hættulaus. Aðildarríkið skal tilkynna framkvæmdastjórninni um öll slík tilvik án tafar og skal leggja nauðsynlegan rökstuðning fyrir framkvæmdastjórnina. Skráin skal endurskoðuð í ljósi móttekinna tilkynninga til að taka megi ákvörðun um breytingar á henni.
4.     Ekki má endurflokka hættulegan úrgang sem hættulausan úrgang með því að þynna úrganginn eða blanda hann með það fyrir augum að minnka upphafsstyrk hættulegra efna niður fyrir þau viðmiðunarmörk sem notuð eru til að skilgreina úrgang sem hættulegan.
5.     Ráðstafanirnar, sem eru ætlaðar til að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar að því er varðar uppfærslu á skránni til ákveða breytingar á henni í samræmi við 2. og 3. mgr., skulu samþykktar í samræmi við reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem um getur í 2. mgr. 39. gr.
6.     Aðildarríkin geta litið á úrgang sem hættulausan í samræmi við skrána yfir úrgang sem um getur í 1. mgr.
7.     Framkvæmdastjórnin skal tryggja að skráin yfir úrgang og endurskoðun á þeirri skrá samræmist meginreglum um skýrleika, skiljanleika og gott aðgengi fyrir notendur, eftir því sem við á, einkum lítil og meðalstór fyrirtæki.

II. KAFLI
ALMENNAR KRÖFUR

8. gr.

Rýmkuð ábyrgð framleiðenda

1.     Til að stuðla að endurnotkun og forvörnum, endurvinnslu og annars konar endurnýtingu úrgangs geta aðildarríkin gripið til þess að beita lagaákvæðum eða öðrum ráðstöfunum til að tryggja að einstaklingur eða lögaðili, sem í atvinnuskyni þróar, framleiðir, vinnur, meðhöndlar, selur eða flytur inn vörur (framleiðandi vörunnar), sé bundinn af rýmkaðri ábyrgð framleiðanda.
Slíkar ráðstafanir geta falist í því að taka við vörum sem er skilað og úrganginum, sem verður eftir þegar búið er að nota þessar vörur, sem og síðari stjórnun á úrganginum og fjárhagslegri ábyrgð á slíkri starfsemi. Þessar ráðstafanir geta falist í þeirri skyldu að leggja fram upplýsingar, sem eru öllum aðgengilegar, um það að hvaða marki varan er endurnotanleg og endurvinnanleg.
2.     Aðildarríkin geta gert viðeigandi ráðstafanir til að hvetja til þess að vörur séu hannaðar þannig að dregið sé úr umhverfisáhrifum þeirra og myndun úrgangs í framleiðsluferlinu og í síðari notkun vara og til að tryggja að endurnýting og förgun vara, sem eru orðnar að úrgangi, eigi sér stað í samræmi við 4. og 13. gr.
Slíkar ráðstafanir geta m.a. hvatt til þróunar, framleiðslu og markaðssetningar á vörum sem henta til endurtekinnar notkunar, sem eru tæknilega endingargóðar og sem henta til eðlilegrar og öruggrar endurnýtingar og umhverfisvænnar förgunar eftir að þær eru orðnar að úrgangi.
3.     Þegar rýmkaðri ábyrgð framleiðanda er beitt skulu aðildarríkin taka tillit til tæknilegs og efnahagslegs framkvæmanleika, sem og til heildaráhrifanna á umhverfið, heilbrigði manna og samfélagið og virða þörfina til að tryggja eðlilega starfsemi innri markaðarins.
4.     Beita skal rýmkaðri ábyrgð framleiðenda með fyrirvara um ábyrgð á úrgangsstjórnun, sem kveðið er á um í 1. mgr. 15. gr., og með fyrirvara um gildandi sértæka löggjöf um strauma úrgangs og vörur.

9. gr.
Forvarnir gegn myndun úrgangs

Að höfðu samráði við hagsmunaaðila skal framkvæmdastjórnin leggja fyrir Evrópuþingið og ráðið eftirfarandi skýrslur ásamt tillögum, ef við á, um ráðstafanir sem gera þarf til að styðja við forvarnarstarf og framkvæmd forvarna gegn myndun úrgangs sem um getur í 29. gr. og ná yfir eftirfarandi atriði:
a)    eigi síðar en í árslok 2011: bráðabirgðaskýrslu um þróun úrgangsmyndunar og umfang forvarna gegn myndun úrgangs, þ.m.t. mótun stefnu um vistvæna hönnun sem tekur bæði til myndunar úrgangs og tilvistar hættulegra efna í úrgangi, með það í huga að stuðla að tækni sem beinist að því að skapa endingargóðar, endurnotanlegar og endurvinnanlegar vörur,
b)    eigi síðar en í árslok 2011: mótun aðgerðaáætlunar um frekari stuðningsráðstafanir á evrópskum vettvangi sem miðar að því að breyta núverandi neyslumynstri,
c)    eigi síðar en í árslok 2014: að setja markmið um forvarnir gegn myndun úrgangs og um aftengingu fyrir árið 2020, sem byggist á bestu starfsvenjum, þ.m.t. endurskoðun á vísunum, sem um getur í 4. mgr. 29. gr., ef nauðsyn krefur.

10. gr.

Endurnýting

1.     Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að úrgangur fari í gegnum endurnýtingaraðgerðir í samræmi við 4. og 13. gr.
2.     Safna skal úrgangi sérstaklega, ef það er nauðsynlegt til að fara að 1. mgr. og til að auðvelda eða bæta endurnýtingu og ef það er tæknilega, umhverfislega og efnahagslega gerlegt, og ekki skal blanda honum saman við annan úrgang eða efnivið sem hefur aðra eiginleika.

11. gr.
Endurnotkun og endurvinnsla

1.     Aðildarríkin skulu gera ráðstafanir, eftir því sem við á, til að stuðla að endurnotkun á vörum og undirbúningi fyrir endurnotkun, einkum með því að hvetja til þess að komið verði á og stutt verði við endurnotkunar- og endurvinnslukerfi, notkun á efnahagslegum stjórntækjum, viðmiðunum fyrir innkaup, megindlegum markmiðum eða með öðrum ráðstöfunum.
Aðildarríkin skulu gera ráðstafanir til að stuðla að endurvinnslu í háum gæðaflokki og koma í því skyni upp sérstakri söfnun á úrgangi þar sem það er tæknilega, umhverfislega og efnahagslega gerlegt og viðeigandi til að uppfylla nauðsynlega gæðastaðla í viðkomandi endurvinnslugeira.
Eigi síðar en 2015 skal koma á sérstakri söfnun á a.m.k. eftirfarandi: pappír, málmum, plasti og gleri, með fyrirvara um 2. mgr. 10. gr.
2.     Til að uppfylla markmið þessarar tilskipunar og til að stefna megi að evrópsku endurvinnslusamfélagi með góðri nýtingu auðlinda skulu aðildarríkin gera nauðsynlegar ráðstafanir til að ná eftirfarandi markmiðum:
a)    eigi síðar en 2020: undirbúningur fyrir endurnotkun og endurvinnslu úrgangsefna, a.m.k. pappírs, málma, plasts og glers frá heimilum og hugsanlega frá öðrum upprunastöðum ef þeir straumar úrgangs líkjast úrgangi frá heimilum, skal að lágmarki aukast í heild upp í 50% miðað við þyngd,
b)    eigi síðar en 2020: undirbúningur fyrir endurnotkun, endurvinnslu og aðra endurnýtingu efniviðar, þ.m.t. við fyllingar þar sem úrgangur er notaður í stað annars efniviðar, í tengslum við hættulausan úrgang frá byggingar- og niðurrifsstarfsemi, annan en náttúrulegan efnivið sem er skilgreindur í flokki 17 05 04 í skránni yfir úrgang, skal aukast að lágmarki upp í 70% miðað við þyngd.
3.     Framkvæmdastjórnin skal setja nákvæmar reglur um notkunar- og reikniaðferðir til að sannreyna hversu vel tekst að uppfylla markmiðin sem sett eru fram í 2. mgr. þessarar greinar með hliðsjón af reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2150/2002 frá 25. nóvember 2002 um hagskýrslur um úrgang ( 1 ) . Reglurnar geta falist í aðlögunartímabilum fyrir aðildarríki sem endurunnu innan við 5% af öðrum hvorum úrgangsflokkinum, sem um getur í 2. mgr., á árinu 2008. Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að bæta við hana, skulu samþykktar í samræmi við reglunefndarmeðferðina með grannskoðun sem um getur í 2. mgr. 39. gr. þessarar tilskipunar.
4.     Framkvæmdastjórnin skal, eigi síðar en 31. desember 2014, rannsaka þær ráðstafanir og þau markmið sem um getur í 2. mgr. með það í huga að styrkja markmiðin, ef nauðsyn krefur, og vega og meta hvort setja skuli markmið fyrir aðra strauma úrgangs. Skýrsla framkvæmdastjórnarinnar skal send til Evrópuþingsins og ráðsins ásamt tillögu, ef við á. Í skýrslu sinni skal framkvæmdastjórnin taka tillit til umhverfislegra, efnahagslegra og félagslegra áhrifa af setningu markmiðanna.
5.     Í samræmi við 37. gr. skulu aðildarríkin senda framkvæmdastjórninni skýrslu þriðja hvert ár um það hvernig þeim gengur að ná markmiðunum. Ef ekki tekst að ná markmiðum skal koma fram í skýrslunni af hverju það tókst ekki og hvað aðildarríkið hyggst gera til að markmiðin náist.

12. gr.
Förgun

Þegar endurnýting í samræmi við 1. mgr. 10. gr. á sér ekki stað skulu aðildarríkin sjá til þess að úrgangur fari í örugga förgun sem uppfyllir ákvæði 13. gr. um verndun heilbrigðis manna og umhverfisins.

13. gr.
Vernd heilbrigðis manna og umhverfisins

Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að úrgangsstjórnun fari þannig fram að ekki skapist hætta fyrir heilbrigði manna, að hún skaði ekki umhverfið og einkum og sér í lagi að:
a)    ekki skapist áhætta að því er varðar vatn, loft, jarðveg, gróður eða dýr,
b)    ekki skapist óþægindi vegna hávaða eða ólyktar og
c)    ekki komi fram skaðleg áhrif á landslag eða staði sem hafa sérstakt gildi.

14. gr.
Kostnaður

1.     Í samræmi við mengunarbótaregluna skal upphaflegur framleiðandi úrgangsins eða núverandi eða fyrri handhafar úrgangsins bera kostnaðinn af úrgangsstjórnuninni.
2.     Aðildarríki geta ákveðið að framleiðandi vörunnar, sem úrgangurinn varð til úr, skuli bera kostnaðinn af úrgangsstjórnuninni að hluta til eða öllu leyti og að dreifingaraðilar slíkrar vöru geti þurft að taka þátt í kostnaðinum.

III. KAFLI
MEÐHÖNDLUN ÚRGANGS

15. gr.
Ábyrgð á úrgangsstjórnun

1.     Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að upphaflegur framleiðandi úrgangs eða annar úrgangshafi annist sjálfur meðhöndlun úrgangsins eða fái til þess seljanda eða stöð eða fyrirtæki, sem annast meðhöndlun úrgangs, eða að hún sé í umsjón einkaaðila eða opinbers aðila sem safnar úrgangi í samræmi við 4. og 13. gr.
2.     Þegar úrgangurinn er fluttur frá upphaflega framleiðandanum eða úrgangshafanum til einhvers af þeim einstaklingum eða lögaðilum, sem um getur í 1. mgr., skal ábyrgðin á framkvæmd fullrar endurnýtingar- eða förgunaraðgerðar að jafnaði ekki falla niður.
Með fyrirvara um reglugerð (EB) nr. 1013/2006 geta aðildarríkin tilgreint nákvæmlega skilyrði fyrir ábyrgð og ákveðið í hvaða tilvikum upphaflegi framleiðandinn beri ábyrgð á allri meðhöndlunarkeðjunni eða í hvaða tilfellum framleiðandinn og handhafi úrgangsins deili ábyrgðinni eða hún dreifist á milli aðila sem koma að meðhöndlunarkeðjunni.
3.     Aðildarríki geta ákveðið, í samræmi við 8. gr., að framleiðandi vörunnar sem úrgangurinn varð til úr skuli bera ábyrgð á umsjón úrgangsstjórnuninnar að hluta til eða öllu leyti og að dreifingaraðilar slíkrar vöru geti þurft að bera ábyrgðina að einhverju leyti.
4.     Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir innan yfirráðasvæðis síns til að tryggja að stöðvar eða fyrirtæki, sem safna eða flytja úrgang í atvinnuskyni, afhendi úrganginn, sem þau safna og flytja, til viðeigandi meðhöndlunarstöðva sem virða ákvæði 13. gr.

16. gr.
Meginreglur um sjálfsnægtir og nálægð

1.     Aðildarríki skulu, í samstarfi við önnur aðildarríki ef slíkt er nauðsynlegt eða ráðlegt, gera viðeigandi ráðstafanir til að koma upp samþættu og fullnægjandi kerfi förgunarstöðva fyrir úrgang og stöðvum fyrir endurnýtingu á blönduðum úrgangi sem safnað er frá einkaheimilum, einnig þegar slík söfnun nær til slíks úrgangs frá öðrum framleiðendum, að teknu tilliti til bestu, fáanlegrar tækni.
Þrátt fyrir reglugerð (EB) nr. 1013/2006 geta aðildarríkin, til að vernda kerfi sín, takmarkað flutning inn í landið á úrgangi sem fara á til brennslustöðva sem flokkaðar eru sem endurnýtingarstöðvar, ef sýnt hefur verið fram á að slíkur tilflutningur leiddi til þess að farga þurfi eigin úrgangi viðkomandi lands eða að meðhöndla þurfi úrgang með aðferðum sem samræmast ekki áætlunum ríkjanna um úrgangsstjórnun. Aðildarríki skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um slíkar ákvarðanir án tafar. Aðildarríki geta einnig takmarkað flutning úrgangs út úr landinu af umhverfislegum ástæðum eins og sett er fram í reglugerð (EB) nr. 1013/2006.
2.     Kerfið skal hannað til að gera Bandalaginu í heild kleift að annast sjálft alla förgun úrgangs svo og endurnýtingu úrgangs, sem um getur í 1. mgr., og til að gera hverju aðildarríki um sig það kleift að færa sig nær því markmiði, að teknu tilliti til landfræðilegra aðstæðna eða þarfarinnar fyrir sérhæfðar stöðvar fyrir tilteknar tegundir úrgangs.
3.     Til að tryggja hátt verndarstig fyrir umhverfið og lýðheilsu skal kerfið gera mögulegt að endurnýta úrgang sem á að farga eða úrgang, sem um getur í 1. mgr., í einhverri heppilegri, nálægri stöð með þeim aðferðum og tækni sem henta best til þess.
4.     Meginreglurnar um nálægð og sjálfsnægtir skulu ekki þýða að hvert aðildarríki þurfi að ráða yfir öllum tegundum stöðva fyrir endanlega endurnýtingu innan viðkomandi ríkis.

17. gr.
Eftirlit með hættulegum úrgangi

Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að framleiðsla, söfnun og flutningur hættulegs úrgangs, sem og geymsla hans og meðhöndlun, fari fram við þannig aðstæður að umhverfið og heilbrigði manna njóti verndar, til að farið sé að ákvæðum 13. gr., þ.m.t. aðgerðir til að tryggja rekjanleika frá framleiðslu og til lokaákvörðunarstaðar og eftirlit með hættulegum úrgangi til að uppfylla kröfurnar í 35. og 36. gr.

18. gr.
Bann við blöndun hættulegs úrgangs

1.     Aðildarríki skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að hættulegum úrgangi sé hvorki blandað saman við aðra flokka hættulegs úrgangs né við annan úrgang, efni eða efnivið. Þynning hættulegra efna telst vera blöndun.
2.     Þó geta aðildarríkin, þrátt fyrir 1. mgr., heimilað blöndun að því tilskildu að:
a)    stöð eða fyrirtæki, sem hefur fengið leyfi í samræmi við 23. gr., annist blöndunina,
b)    farið sé að ákvæðum 13. gr. og og neikvæðar afleiðingar af meðhöndlun úrgangsins á heilbrigði manna og umhverfið aukist ekki og
c)    bestu, fáanlegu tækni sé beitt við blöndunina.
3.     Ef hættulegum úrgangi hefur verið blandað þannig að það samræmist ekki 1. mgr. skal skilja hann frá ef unnt er og ef það er nauðsynlegt til að farið sé að 13. mgr., með fyrirvara um viðmiðanir um tæknilegan og efnahagslegan framkvæmanleika.

19. gr.
Merking hættulegs úrgangs

1.     Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að við söfnun, flutning og tímabundna geymslu hættulegs úrgangs sé hann settur í réttar umbúðir og merktur í samræmi við gildandi alþjóðastaðla eða staðla Bandalagsins.
2.     Alltaf þegar hættulegur úrgangur er fluttur á milli staða innan aðildarríkis skal fylgja honum auðkennisskírteini, sem má vera á rafrænu formi, þar sem er að finna viðeigandi gögn sem tilgreind eru í IB. viðauka við reglugerð (EB) nr. 1013/2006.

20. gr.
Hættulegur úrgangur frá heimilum

Ákvæði 17., 18., 19. og 35. gr. gilda ekki um blandaðan úrgang frá heimilum.
Ákvæði 19. og 35. gr. gilda ekki um flokkaðan, hættulegan úrgang frá heimilum fyrr en stöð eða fyrirtæki, sem hefur aflað sér leyfis eða verið skráð í samræmi við 23. eða 26. gr., hefur samþykkt að taka við honum til söfnunar, förgunar eða endurnýtingar.

21. gr.
Olíuúrgangur

1.     Með fyrirvara um skyldurnar, sem tengjast stjórnun hættulegs úrgangs sem mælt er fyrir um í 18. og 19. gr., skulu aðildarríkin gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að:
a)    olíuúrgangi sé safnað sérstaklega þegar það er tæknilega mögulegt,
b)    olíuúrgangur sé meðhöndlaður í samræmi við 4. og 13. gr.,
c)    þegar það er tæknilega og efnahagslega framkvæmanlegt sé olíuúrgangi með mismunandi eiginleika ekki blandað saman og olíuúrgangi sé ekki blandað saman við annars konar úrgang eða efni ef slík blöndun hindrar meðhöndlun þeirra.
2.     Að því er varðar sérstaka söfnun olíuúrgangs og rétta meðhöndlun hans geta aðildarríkin, samkvæmt skilyrðum hvers lands um sig, samþykkt viðbótarráðstafanir, s.s. tæknilegar kröfur, ábyrgð framleiðenda, efnahagsleg stjórntæki eða frjálsa samninga.
3.     Ef kröfur eru gerðar um endurmyndun olíuúrgangs í landslöggjöf geta aðildarríkin mælt fyrir um að slíkur olíuúrgangur skuli endurmyndaður ef slíkt er tæknilega mögulegt og, ef 11. eða 12. gr. reglugerðar (EB) nr. 1013/2006 gilda, takmarka flutning á olíuúrgangi yfir landamæri frá yfirráðasvæði sínu til brennslu- eða sambrennslustöðva til að setja endurmyndun olíuúrgangs í forgang.

22. gr.
Lífrænn úrgangur

Aðildarríkin skulu gera ráðstafanir, eins og við á og í samræmi við 4. og 13. gr., til að stuðla að:
a)    sérstakri söfnun lífræns úrgangs með myltingu og meltun hans í huga,
b)    meðhöndlun lífræns úrgangs á þann hátt að samræmist öflugri umhverfisvernd,
c)    notkun á efnum, sem eru örugg fyrir umhverfið og framleidd úr lífrænum úrgangi.
Framkvæmdastjórnin skal vinna mat á stjórnun lífræns úrgangs með það í huga að leggja fram tillögu ef við á. Í matinu skal kanna tækifæri til að setja lágmarkskröfur vegna stjórnunar lífræns úrgangs og gæðaviðmiðanir fyrir moltu og meltu úr lífrænum úrgangi til að tryggja hátt verndarstig fyrir heilbrigði manna og umhverfið.

IV. KAFLI
LEYFI OG SKRÁNINGAR

23. gr.
Útgáfa leyfa

1.     Aðildarríki skulu krefjast þess að stöðvar eða fyrirtæki, sem hyggjast meðhöndla úrgang, afli sér leyfis frá lögbæru yfirvaldi.
Í slíkum leyfum skal tilgreina a.m.k. eftirfarandi:
a)    tegundir og magn úrgangs sem meðhöndla á,
b)    fyrir hverja tegund aðgerðar sem leyfð er: tæknilegar kröfur og aðrar kröfur sem skipta máli fyrir viðkomandi stað,
c)    öryggis- og varúðarráðstafanir sem gera skal,
d)    hvaða aðferð skuli beita fyrir hverja tegund aðgerðar,
e)    þær vöktunar- og eftirlitsaðgerðir sem kunna að vera nauðsynlegar,
f)    þau ákvæði um lokun og umsjón eftir lokun sem kunna að vera nauðsynleg.
2.     Veita má leyfi til tiltekins tíma og þau geta verið endurnýjanleg.
3.     Ef lögbæra yfirvaldið telur að aðferðin, sem ætlunin er að beita við meðhöndlunina, sé óviðunandi frá sjónarmiði umhverfisverndar og einkum ef aðferðin samræmist ekki 13. gr., skal það neita að gefa út leyfið.
4.     Það skal vera skilyrði fyrir öllum leyfum sem ná til brennslu eða sambrennslu með endurnýtingu orku að orkunýtnin sé mjög góð.
5.     Með fyrirvara um að allar kröfur í þessari grein séu uppfylltar má sameina öll leyfi, sem gefin eru út samkvæmt annarri löggjöf einstakra aðildarríkja eða Bandalagsins, leyfinu sem krafist er samkvæmt 1. mgr. þannig að til verði eitt leyfi, ef unnt er með því móti að komast hjá óþarfri tvítekningu upplýsinga og tvíverknaði rekstraraðilans eða lögbæra yfirvaldsins.

24. gr.
Undanþágur frá kröfum um leyfi

Aðildarríkin geta veitt undanþágu frá kröfunum, sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 23. gr., fyrir stöðvar eða fyrirtæki vegna eftirfarandi aðgerða:
a)    förgunar eigin hættulauss úrgangs á framleiðslustað eða
b)    endurnýtingar úrgangs.

25. gr.
Skilyrði fyrir undanþágum

1.     Ef aðildarríki vill veita undanþágur, eins og kveðið er á um í 24. gr., skal það mæla fyrir um almennar reglur fyrir hverja tegund starfsemi þar sem tilgreindar eru þær tegundir og það magn úrgangs sem undanþága má ná til og hvaða aðferð skuli notuð við meðhöndlunina.
Þessum reglum skal ætlað að tryggja að úrgangur sé meðhöndlaður í samræmi við 13. gr. Ef um er að ræða förgunaraðgerð, sem um getur í a-lið 24. gr., skal í þessum reglum taka tillit til bestu, fáanlegu tækni.
2.     Auk almennu reglnanna, sem kveðið er á um í 1. mgr., skulu aðildarríkin mæla fyrir um sérstök skilyrði fyrri veitingu undanþágna sem varða hættulegan úrgang, þ.m.t. tegundir starfsemi, sem og aðrar nauðsynlegar kröfur um framkvæmd á mismunandi tegundum endurnýtingar og, þar sem við á, viðmiðunarmörk fyrir innihald hættulegra efna í úrganginum og viðmiðunarmörk fyrir losun.
3.     Aðildarríki skulu upplýsa framkvæmdastjórnina um almennu reglurnar sem mælt er fyrir um skv. 1. og 2. mgr.

26. gr.
Skráning

Ef eftirfarandi atriði falla ekki undir kröfur um leyfi skulu aðildarríkin tryggja að lögbæra yfirvaldið haldi skrá yfir:
a)    stöðvar eða fyrirtæki sem safna eða flytja úrgang í atvinnuskyni,
b)    seljendur eða miðlara og
c)    stöðvar eða fyrirtæki sem njóta undanþágu frá kröfum um leyfi skv. 24. gr.
Ef mögulegt er skal nota fyrirliggjandi skrár, sem lögbært yfirvald heldur, til að afla viðeigandi upplýsinga fyrir þetta skráningarferli til að draga úr stjórnsýslubyrðinni.

27. gr.
Lágmarkskröfur

1.     Samþykkja má lágmarkstæknikröfur fyrir meðhöndlunarstarfsemi sem leyfi þarf fyrir skv. 23. gr. ef ljóst er að ávinningur af slíkum lágmarkskröfum yrði betri vernd fyrir heilbrigði manna og umhverfið. Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að bæta við hana, skulu samþykktar í samræmi við þá reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem um getur í 2. mgr. 39. gr.
2.     Slíkar lágmarkskröfur skulu einungis ná til þeirrar starfsemi við meðhöndlun úrgangs sem ekki fellur undir tilskipun 96/61/EB eða sem ekki þykir rétt að fella undir þá tilskipun.
3.     Slíkar lágmarkskröfur skulu:
a)    beinast að helstu umhverfisáhrifum starfseminnar við meðhöndlun úrgangs,
b)    tryggja að úrgangurinn sé meðhöndlaður í samræmi við 13. gr.,
c)    taka tillit til bestu, fáanlegu tækni og
d)    taka til þátta er varða gæði meðhöndlunar og kröfur vegna vinnslunnar, eftir því sem við á.
4.     Samþykkja skal lágmarkskröfur vegna starfsemi sem leyfi þarf fyrir skv. a og b-liðum 26. gr. ef ljóst er að ávinningur verði af slíkum lágmarkskröfum fyrir heilsuvernd manna og verndun umhverfisins eða þannig megi komast hjá röskun á innri markaðinum, þ.m.t. þættir er varða tæknimenntun söfnunaraðila, flytjenda, seljenda eða miðlara.
Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að bæta við hana, skulu samþykktar í samræmi við þá reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem um getur í 2. mgr. 39. gr.

V. KAFLI
ÁÆTLANIR

28. gr.
Úrgangsstjórnunaráætlanir

1.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að lögbær yfirvöld þeirra kveði á um eina eða fleiri úrgangsstjórnunaráætlanir í samræmi við 1., 4., 13. og 16. gr.
Þessar áætlanir skulu, einar sér eða saman, ná til alls landfræðilegs yfirráðasvæðis hlutaðeigandi aðildarríkis.
2.     Í úrgangsstjórnunaráætlununum skal koma fram greining á núverandi ástandi varðandi úrgangsstjórnun, sem og ráðstafanir sem gera skal til að bæta umhverfisvænan undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu, endurnýtingu og förgun úrgangs og mat á því hverning viðkomandi áætlun muni styðja við framkvæmd þessarar tilskipunar að því er varðar markmið og ákvæði.
3.     Eftir því sem við á og að teknu tilliti til landfræðilegs þreps og umfangs áætlunarsvæðisins skulu a.m.k. koma fram eftirfarandi atriði í úrgangsstjórnunaráætlununum:
a)    tegund, magn og myndunarstaðir úrgangs sem verður til innan yfirráðasvæðisins, hvaða úrgangur er líklegt að verði fluttur frá yfirráðasvæði viðkomandi ríkis eða til þess og mat á þróun á straumum úrgangs í framtíðinni,
b)    gildandi kerfi fyrir söfnun úrgangs og stórar förgunar- og endurnýtingarstöðvar, þ.m.t. sérstakt fyrirkomulag vegna úrgangsolíu, hættulegs úrgangs eða strauma úrgangs sem fjallað er um í sértækri löggjöf Bandalagsins,
c)    mat á þörfinni fyrir ný söfnunarkerfi, lokun núverandi úrgangsstöðva, viðbótargrunnvirki fyrir úrgangsstöðvar í samræmi við 16. gr. og, ef nauðsyn krefur, fjárfestingar í tengslum við þetta,
d)    fullnægjandi upplýsingar um staðarviðmiðanir fyrir auðkenningu staða og um afkastagetu förgunarstöðva eða stórra endurnýtingarstöðva í framtíðinni, ef þörf er á,
e)    almenn stefna varðandi úrgangsstjórnun, þ.m.t. áætluð tækni og aðferðir til úrgangsstjórnunar, eða stefna vegna úrgangs sem skapar sérstök vandamál við stjórnun.
4.     Með tilliti til landfræðilegs þreps og umfangs skipulagssvæðisins geta skipulagsáætlanirnar um meðhöndlun úrgangs tekið til eftirfarandi:
a)    skipulagsþátta, sem tengjast úrgangsstjórnun, þ.m.t. lýsing á því hvernig ábyrgð dreifist á opinbera aðila og einkaaðila sem fara með úrgangsstjórnun,
b)    mats á gagnsemi og heppileika þess að nota efnahagsleg stjórntæki og önnur stjórntæki til að takast á við ýmist vandamál er varða úrgang, með tilliti til þarfarinnar fyrir að viðhalda hnökralausri starfsemi innri markaðarins,
c)    beitingar herferða til vitundarvakningar og upplýsingamiðlunar til almennings eða tiltekins hóps neytenda,
d)    aflagðra, mengaðra úrgangslosunarstaða og ráðstafana til að endurmóta þá.
5.     Úrgangsstjórnunaráætlanir skulu samræmast kröfunum um áætlanagerð í úrgangsmálum, sem mælt er fyrir um í 14. gr. tilskipunar 94/62/EB, og áætluninni sem miðar að því að minnka magn þess lífbrjótanlega úrgangs [áður lífræna úrgangs] sem berst til urðunarstaða, sem um getur í 5. gr. tilskipunar 1999/31/EB.

29. gr.
Áætlanir um forvarnir gegn myndun úrgangs

1.     Aðildarríkin skulu kveða á um áætlanir um forvarnir gegn myndun úrgangs, í samræmi við 1. og 4. gr., eigi síðar en 12. desember 2013.
Slíkar áætlanir skulu annaðhvort felldar inn í úrgangsstjórnunaráætlanirnar, sem kveðið er á um í 28. gr., eða aðrar áætlanir varðandi umhverfisstefnu, eftir því sem við á, eða þær skulu vera sérstakar áætlanir. Ef slík áætlun er felld inn í úrgangsstjórnunaráætlun eða aðrar áætlanir skal tilgreina ráðstafanirnar um forvarnir gegn myndun úrgangs með skýrum hætti.
2.     Setja skal fram markmiðin um forvarnir gegn myndun úrgangs í áætlununum sem kveðið er á um í 1. mgr. Aðildarríkin skulu lýsa þeim forvarnarráðstöfunum sem þegar eru fyrir hendi og meta gagnsemi dæmanna um ráðstafanir, sem koma fram í IV. viðauka, eða annarra viðeigandi ráðstafana.
Tilgangurinn með slíkum markmiðum og ráðstöfunum er að rjúfa tengslin milli hagvaxtar og umhverfisáhrifanna sem tengjast myndun úrgangs.
3.     Aðildarríkin skulu ákvarða viðeigandi, sértækar, eigindlegar og megindlegar viðmiðanir fyrir forvarnir gegn myndun úrgangs sem samþykkja skal til að vakta og meta framþróun ráðstafananna og þau geta ákvarðað sértæk, eigindleg og megindleg markmið og vísa, önnur en þau sem um getur í 4. mgr., í sama tilgangi.
4.     Samþykkja má vísa fyrir ráðstafanir vegna forvarna gegn myndun úrgangs í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 3. mgr. 39. gr.
5.     Framkvæmdastjórnin skal búa til kerfi til að deila upplýsingum um bestu starfsvenjur varðandi forvarnir gegn myndun úrgangs og þróa leiðbeiningar til að aðstoða aðildarríkin við undirbúning áætlananna.

30. gr.
Mat og endurskoðun á áætlunum

1.     Aðildarríkin skulu tryggja að úrgangsstjórnunaráætlanirnar og áætlanirnar um forvarnir gegn myndun úrgangs séu metnar a.m.k. sjötta hvert ár og endurskoðaðar eftir þörfum og, eftir því sem við á, í samræmi við 9. og 11. gr.
2.     Umhverfisstofnun Evrópu er hvött til þess að hafa með í ársskýrslu sinni endurskoðun á framvindunni í lokafrágangi og framkvæmd áætlana um forvarnir gegn myndun úrgangs.

31. gr.
Þátttaka almennings

Aðildarríkin skulu tryggja að viðkomandi hagsmunaaðilar og yfirvöld og almenningur fái tækifæri til að taka þátt í mótun úrgangsstjórnunaráætlana og áætlana um forvarnir gegn myndun úrgangs og að þessir aðilar hafi aðgang að þeim fullmótuðum, í samræmi við tilskipun 2003/35/EB eða, ef við á, tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/42/EB frá 27. júní 2001 um mat á áhrifum tiltekinna skipulags- og framkvæmdaáætlana á umhverfið ( 1 ) . Þau skulu birta áætlanirnar á vefsetri sem er aðgengilegt öllum.

32. gr.
Samstarf

Aðildarríki skulu vinna, eins og við á, með öðrum aðildarríkjum, sem málið varðar, og með framkvæmdastjórninni til að gera úrgangsstjórnunaráætlanir og áætlanir um forvarnir gegn myndun úrgangs í samræmi við 28. og 29. gr.

33. gr.

Upplýsingar sem leggja skal fyrir framkvæmdastjórnina

1.     Aðildarríkin skulu upplýsa framkvæmdastjórnina um úrgangsstjórnunaráætlanirnar og áætlanirnar um forvarnir gegn myndun úrgangs, sem um getur í 28. og 29. gr., þegar þær hafa verið samþykktar og um allar mikilvægar breytingar á áætlununum.
2.     Eyðublaðið, sem nota skal til að tilkynna um samþykkt þessara áætlana og umtalsverðar breytingar á þeim, skal samþykkt í samræmi við reglunefndarmeðferðina sem um getur í 3. mgr. 39. gr.

VI. KAFLI
SKOÐANIR OG SKJALAHALD

34. gr.
Skoðanir

1.     Stöðvar eða fyrirtæki sem sem sjá um meðhöndlun úrgangs, stöðvar eða fyrirtæki, sem safna eða flytja úrgang í atvinnuskyni, miðlarar og seljendur og stöðvar eða fyrirtæki, sem framleiða hættulegan úrgang, skulu sæta viðeigandi reglubundnum skoðunum lögbærs yfirvalds.
2.     Skoðanir, er varða söfnunar- og flutningsstarfsemi, skulu ná til uppruna, eðlis, magns og áfangastaðar þess úrgangs sem safnað er og fluttur.
3.     Aðildarríkin geta haft hliðsjón af skráningum í tengslum við umhverfisstjórnunarkerfi Bandalagsins (EMAS), sérstaklega að því er varðar tíðni og umfang skoðananna.

35. gr.
Skráahald

1.     Stöðvarnar eða fyrirtækin, sem um getur í 1. mgr. 23. gr., framleiðendur hættulegs úrgangs og stöðvarnar og fyrirtækin, sem safna eða flytja hættulegan úrgang í atvinnuskyni eða sem starfa sem seljendur og miðlarar hættulegs úrgangs, skulu halda skrá í réttri tímaröð yfir magn, eðli og uppruna úrgangsins og, ef við á, áfangastað hans, tíðni söfnunar, flutningsmáta og aðferðina við væntanlega meðhöndlun á úrganginum og skulu koma þeim upplýsingum á framfæri við lögbær yfirvöld, sé þess óskað.
2.     Þegar um hættulegan úrgang er að ræða skal geyma skrárnar í minnst þrjú ár, en þó þurfa stöðvar og fyrirtæki, sem flytja hættulegan úrgang, aðeins að geyma skrárnar í a.m.k. tólf mánuði.
Afhenda verður skrifleg sönnunargögn um að stjórnunaraðgerðir hafi verið inntar af hendi ef lögbær yfirvöld eða fyrri handhafi fer fram á það.
3.     Aðildarríkin geta krafist þess að framleiðendur hættulauss úrgangs fari að 1. og 2. mgr.

36. gr.
Framfylgd og viðurlög

1.     Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að banna að úrgangur sé skilinn eftir, hann losaður án eftirlits eða að stjórnun hans sé eftirlitslaus.
2.     Aðildarríkin skulu mæla fyrir um ákvæði um viðurlög við brotum gegn ákvæðum þessarar tilskipunar og gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að þeim sé beitt. Þessi viðurlög skulu vera skilvirk, í réttu hlutfalli við brotið og letjandi.

VII. KAFLI
LOKAÁKVÆÐI

37. gr.
Skýrslugjöf og endurskoðun

1.     Þriðja hvert ár skulu aðildarríkin upplýsa framkvæmdastjórnina um framkvæmd þessarar tilskipunar með sviðsskýrslu sem lögð er fram á rafrænu formi. Í skýrslunni skulu einnig vera upplýsingar um stjórnun olíuúrgangs og um framfarir, sem náðst hafa í framkvæmd áætlana um forvarnir gegn myndun úrgangs og, eftir því sem við á, upplýsingar um ráðstafanir, sem gert er ráð fyrir í 8. gr., um rýmkaða ábyrgð framleiðenda.
Skýrslan skal byggjast á spurningalista eða eyðublaði sem framkvæmdastjórnin tekur saman í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 6. gr. tilskipunar ráðsins 91/692/EBE frá 23. desember 1991 um að staðla og einfalda skýrslur um framkvæmd vissra tilskipana um umhverfismál ( 1 ) . Skýrslan skal lögð fyrir framkvæmdastjórnina innan níu mánaða frá lokum þriggja ára tímabilsins sem hún tekur til.
2.     Framkvæmdastjórnin skal senda spurningalistann eða eyðublaðið til aðildarríkjanna sex mánuðum fyrir upphaf tímabilsins sem sviðsskýrslan tekur til.
3.     Framkvæmdastjórnin skal birta skýrslu um framkvæmd þessarar tilskipunar innan níu mánaða frá því að sviðsskýrslur aðildarríkjanna hafa borist henni, í samræmi við 1. mgr.
4.     Í fyrstu skýrslunni, sem leggja skal fram eigi síðar en 12. desember 2014, skal framkvæmdastjórnin endurskoða framkvæmd þessarar tilskipunar, þ.m.t. ákvæðin um orkunýtni, og mun hún leggja fram tillögu um endurskoðun ef við á. Í skýrslunni skal einnig meta fyrirliggjandi áætlanir aðildarríkjanna um forvarnir gegn myndun úrgangs, markmið þeirra og vísa og skoða möguleikann á áætlunum á vettvangi Bandalagsins, þ.m.t. ábyrgðarkerfi fyrir framleiðendur vegna tiltekinna strauma úrgangs, markmið, vísa og ráðstafanir sem tengjast endurvinnslu, sem og endurnýtingu á efniviði og orku sem getur orðið skref í þá átt að uppfylla á skilvirkari hátt markmiðin sem sett eru fram í 1. og 4. gr.

38. gr.
Túlkun og aðlögun að tækniframförum

1.     Framkvæmdastjórnin getur sett fram leiðbeiningar um túlkun á skilgreiningunum á endurnýtingu og förgun.
Ef nauðsyn krefur skal skilgreina sérstaklega notkun formúlunnar fyrir brennslustöðvar sem um getur í lið R1 í II. viðauka. Taka má tillit til staðbundinna veðurfarsskilyrða, svo sem hversu kalt getur orðið og hversu mikil þörf er fyrir upphitun að því marki sem það hefur áhrif á magn orkunnar sem tæknilega er unnt að nota eða framleiða í formi rafmagns, upphitunar, kælingar eða vinnslugufu. Einnig má taka tillit til staðbundinna aðstæðna á ystu svæðum eins og viðurkennt er í fjórðu undirgrein 2. mgr. 299. gr. sáttmálans og svæðanna sem kveðið er á um í 25. gr. laganna um aðild frá 1985. Þessi ráðstöfun, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar, skal samþykkt í samræmi við þá reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem um getur í 2. mgr. 39. gr.
2.     Breyta má viðaukanum í ljósi framfara á sviði vísinda og tækni. Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigaminni þáttum tilskipunar þessarar, skal samþykkja í samræmi við þá reglunefndarmeðferð með grannskoðun er um getur í 2. mgr. 39. gr.

39. gr.
Nefndarmeðferð

1.     Framkvæmdastjórnin skal njóta aðstoðar nefndar.
2.     Þegar vísað er til þessarar málsgreinar gilda ákvæði 1. til 4. mgr. 5. gr. a og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB, með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. í þeirri ákvörðun.
3.     Þegar vísað er til þessarar málsgreinar gilda ákvæði 5. og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. í þeirri ákvörðun.
Fresturinn, sem mælt er fyrir um í 6. mgr. 5. gr. ákvörðunar 1999/468/EB, skal vera þrír mánuðir.

40. gr.
Lögleiðing

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 12. desember 2010.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.
2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni texta helstu ákvæða landslaga sem þau samþykkja um þau málefni sem tilskipun þessi tekur til.

41. gr.
Niðurfelling og bráðabirgðaákvæði

Tilskipanir 75/439/EBE, 91/689/EBE og 2006/12/ EB eru hér með felldar úr gildi frá og með 12. desember 2010.
Hins vegar gildir eftirfarandi frá 12. desember 2008:
a)     Í stað 4. mgr. 10. gr. tilskipunar 75/439/EBE komi eftirfarandi:
    „4.     Framkvæmdastjórnin ákveður hvaða tilvísunarmæliaðferð skuli notuð til að ákvarða innihald fjölklóraðra bífenýla/fjölklóraðra terfenýla (PCB/PCT) í olíuúrgangi. Þessi ráðstöfun, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að bæta við hana, skal samþykkt í samræmi við þá reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem um getur í 4. mgr. 18. gr. í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/12/ EB frá 5. apríl 2006 um úrgang( * ).“
_____________
( *)     Stjtíð. ESB L 114, 27.4.2006, bls. 9.,
b)     Tilskipun 91/689/EBE er hér með breytt sem hér segir:
i.     Í stað 4. mgr. 1. gr. komi eftirfarandi:
    „4.    Í þessari tilskipun merkir „hættulegur úrgangur“:
        –    úrgang, sem flokkaður er sem hættulegur úrgangur í skránni sem kveðið var á um í ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2000/ 532/EB( * ) á grundvelli I. og II. viðauka við þessa tilskipun. Þessi úrgangur verður að búa yfir einum eða fleiri þeirra eiginleika sem tilgreindir eru í III. viðauka. Við gerð skrárinnar skal hafa hliðsjón af uppruna og samsetningu úrgangsins og, ef nauðsyn krefur, viðmiðunarmörk fyrir styrk. Skráin skal yfirfarin reglulega og hún endurskoðuð ef þörf er á. Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að bæta við hana, skulu samþykktar í samræmi við þá reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem um getur í 4. mgr. 18. gr. í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/12/EB frá 5. apríl 2006 um úrgang( * * ),
        –    annan úrgang, sem aðildarríki telur að hafi einhverja þá eiginleika sem tilgreindir eru í III. viðauka. Tilkynna skal framkvæmdastjórninni um slík tilvik og þau endurskoðuð með það í huga að aðlaga skrána. Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að bæta við hana, skulu samþykktar í samræmi við þá reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem um getur í 4. mgr. 18. gr. tilskipunar 2006/12/EB.“
_____________
( * )          Stjtíð. EB L 226, 6.9.2000, bls. 3.
( * * )          Stjtíð. ESB L 114, 27.4.2006, bls. 9.
ii.     Í stað 9. gr. komi eftirfarandi:
    „9. gr.
    Ráðstafanirnar, sem nauðsynlegar eru til að laga viðaukana við þessa tilskipun að framförum á sviði vísinda og tækni og til að endurskoða skrána yfir úrgang sem um getur í 4. mgr. 1. gr. og sem ætlað er að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar, m.a. með því að bæta við hana, skulu samþykktar í samræmi við reglunefndarmeðferðina með grannskoðun sem um getur í 4. mgr. 18. gr. tilskipunar 2006/12/EB.“
c)     Tilskipun 2006/12/EB er breytt sem hér segir:
i.     Í stað 2. mgr. 1. gr. komi eftirfarandi:
    „2.     Að því er varðar a-lið 1. mgr. gildir ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2000/532/EB(*) þar sem finna má skrána um úrgang í þeim flokkum sem tilgreindir eru í I. viðauka við þessa tilskipun. Skráin skal yfirfarin reglulega og hún endurskoðuð ef þörf er á. Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að bæta við hana, skulu samþykktar í samræmi við þá reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem um getur í 4. mgr. 18. gr.“
_____________
( * )     Stjtíð. EB L 226, 6.9.2000, bls. 3;
ii.     Í stað 17. gr. komi eftirfarandi:
    „17. gr.
    Samþykkja skal ráðstafanirnar, sem nauðsynlegar eru til að aðlaga viðaukana að framförum á sviði vísinda og tækni og sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar, í samræmi við reglunefndarmeðferðina með grannskoðun sem um getur í 4. mgr. 18. gr.“
iii.     Í stað 4. mgr. 18. gr. komi eftirfarandi:
    „4.      Þegar vísað er til þessarar málsgreinar gilda ákvæði 1. til 4. mgr. 5. gr. a og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. þeirrar ákvörðunar.“.
Líta ber á tilvísanir í niðurfelldu tilskipunina sem tilvísanir í þessa tilskipun og skulu þær lesnar með hliðsjón af samsvörunartöflunni í V. viðauka.

42. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

43. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Strassborg 19. nóvember 2008.

Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
H.-G. PÖTTERING J.-P. JOUYET
forseti. forseti.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 196, 28.7.2011, bls. 39, og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 43, 28.7.2011, bls. 18.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L 312, 22.11.2008, bls. 3.
Neðanmálsgrein: 3
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 4
(1)    Stjtíð. ESB C 309, 16.12.2006, bls. 55.
Neðanmálsgrein: 5
(2)    Stjtíð. ESB C 229, 22.9.2006, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 6
(3)    Álit Evrópuþingsins frá 13. febrúar 2007 (Stjtíð. ESB C 287 E, 29.11.2007, bls. 135), sameiginleg afstaða ráðsins frá 20. desember 2007 (Stjtíð. ESB C 71 E, 18.3.2008, bls. 16) og afstaða Evrópuþingsins frá 17. júní 2008 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindunum). Ákvörðun ráðsins frá 20. október 2008.
Neðanmálsgrein: 7
(4)    Stjtíð. ESB L 114, 27.4.2006, bls. 9.
Neðanmálsgrein: 8
(5)    Stjtíð. EB L 242, 10.9.2002, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 9
(6)    Stjtíð. ESB C 104 E, 30.4.2004, bls. 401.
Neðanmálsgrein: 10
(7)    Stjtíð. EB L 257, 10.10.1996, bls. 26. Í stað tilskipunarinnar kemur tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/1/EB (Stjtíð. ESB L 24, 29.1.2008, bls. 8).
Neðanmálsgrein: 11
(1)    Stjtíð. EB C 76, 11.3.1997, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 12
(2)    Stjtíð. EB L 273, 10.10.2002, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 13
(3)    Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2000/532/EB frá 3. maí 2000 sem kemur í stað ákvörðunar 94/3/EB um skrá yfir úrgang samkvæmt a-lið 1. gr. tilskipunar ráðsins 75/442/EBE um úrgang og ákvörðunar ráðsins 94/904/ EB um skrá yfir hættulegan úrgang samkvæmt 4. mgr. 1. gr. tilskipunar ráðsins 91/689/EBE um hættulegan úrgang (Stjtíð. EB L 226, 6.9.2000, bls. 3).
Neðanmálsgrein: 14
(1)    Stjtíð. EB L 182, 16.7.1999, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 15
(1)    Stjtíð. EB L 365, 31.12.1994, bls. 10.
Neðanmálsgrein: 16
(2)    Stjtíð. EB L 269, 21.10.2000, bls. 34.
Neðanmálsgrein: 17
(3)    Stjtíð. ESB L 37, 13.2.2003, bls. 24.
Neðanmálsgrein: 18
(4)    Stjtíð. ESB L 266, 26.9.2006, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 19
(1)    Stjtíð. ESB L 190, 12.7.2006, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 20
(2)    Stjtíð. ESB L 156, 25.6.2003, bls. 17.
Neðanmálsgrein: 21
(1)    Stjtíð. EB L 377, 31.12.1991, bls. 20.
Neðanmálsgrein: 22
(2)    Stjtíð. EB L 194, 25.7.1975, bls. 23.
Neðanmálsgrein: 23
(3)    Stjtíð. ESB L 143, 30.4.2004, bls. 56.
Neðanmálsgrein: 24
(4)    Stjtíð. EB L 184, 17.7.1999, bls. 23.
Neðanmálsgrein: 25
(1)    Stjtíð. ESB C 321, 31.12.2003, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 26
(2)    Stjtíð. ESB L 102, 11.4 2006, bls. 15.
Neðanmálsgrein: 27
(1)    Stjtíð. EB L 204, 21.7.1998, bls. 37.
Neðanmálsgrein: 28
(1)    Stjtíð. EB L 332, 9.12.2002, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 29
(1)    Stjtíð. EB L 197, 21.7.2001, bls. 30.
Neðanmálsgrein: 30
(1)    Stjtíð. EB L 377, 31.12.1991, bls. 48.