Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 570. máls.

Þingskjal 887  —  570. mál.Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 161/2011 um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)
    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 161/2011, frá 2. desember 2011, um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2010/485/ESB frá 1. september 2010 um hæfi lögbærra yfirvalda í Ástralíu og Bandaríkjunum samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/43/EB.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 161/2011, frá 2. desember 2011, um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2010/485/ESB frá 1. september 2010 um hæfi lögbærra yfirvalda í Ástralíu og Bandaríkjunum samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/ 43/EB.
    Markmið ákvörðunarinnar er að greiða fyrir samvinnu lögbærra yfirvalda aðildarríkjanna og lögbærra yfirvalda í tilteknum þriðju ríkjum, þ.e. Ástralíu og Bandaríkjunum, hvað varðar eftirlit, gæðaeftirlit og rannsóknir, en jafnframt að tryggja að réttinda hlutaðeigandi aðila sé gætt. Þau yfirvöld sem hér um ræðir eru þau sem gegna eftirlitshlutverki gagnvart endurskoðendum, hér á landi er það endurskoðendaráð.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem hér um ræðir, en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2010/485/ESB frá 1. september 2010 um hæfi lögbærra yfirvalda í Ástralíu og Bandaríkjunum samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/43/EB.
    Markmiðið með ákvörðun 2010/485/ESB er að greiða fyrir samvinnu lögbærra yfirvalda aðildarríkjanna og lögbærra yfirvalda í tilteknum þriðju ríkjum, þ.e. Ástralíu og Bandaríkjunum, hvað varðar eftirlit, gæðaeftirlit og rannsóknir, en jafnframt að tryggja að réttinda hlutaðeigandi aðila sé gætt. Þau yfirvöld sem hér um ræðir eru þau sem gegna eftirlitshlutverki gagnvart endurskoðendum, hér á landi er það endurskoðendaráð.
    Umrædd ákvörðun, um samstarf við lögbær yfirvöld í Ástralíu og Bandaríkjanna, var gefin út í september 2010 í samræmi við ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2006/43/ EB hvað varðar eftirlit með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum. Í samræmi við ákvæði þeirrar tilskipunar er kveðið á um að lögbær yfirvöld aðildarríkjanna geti heimilað afhendingu vinnuskjala við endurskoðun eða annarra skjala í vörslu endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis til lögbærra yfirvalda þriðju ríkja.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Innleiðing ákvörðunar 2010/485/ESB kallar á breytingar á lögum nr. 79/2008, um endurskoðendur. Efnahags- og viðskiptaráðherra hyggst leggja fram lagafrumvarp á yfirstandandi löggjafarþingi til innleiðingar á ákvæðum hennar. Lagabreytingarnar munu hafa í för með sér óverulegan kostnað sem hlýst af milligöngu endurskoðendaráðs við afhendingu skjala. Ekki er gert ráð fyrir að breytingarnar hafi stjórnsýslulegar afleiðingar hér á landi né heldur efnahagslegar fyrir einkaaðila.Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 161/2011

frá 2. desember 2011

um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        XXII. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 27/2011 frá 1. apríl 2011 ( 1 ).

2)         Fella ber inn í samninginn ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2010/485/ESB frá 1. september 2010 um hæfi lögbærra yfirvalda í Ástralíu og Bandaríkjunum samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/43/EB ( 2 ).

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.


Eftirfarandi liður bætist við á eftir lið 10fb (ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2010/64/ ESB) í XXII. viðauka við samninginn:

„10fc.          32010 D 0485: Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2010/485/ESB frá 1. september 2010 um hæfi lögbærra yfirvalda í Ástralíu og Bandaríkjunum samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/43/EB (Stjtíð. ESB L 240, 11.9.2010, bls. 6).“

2. gr.


Íslenskur og norskur texti ákvörðunar 2010/485/ESB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.

Ákvörðun þessi öðlast gildi 3. desember 2011, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 2. desember 2011.

Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
Kurt Jäger
formaður.Sameiginleg yfirlýsing samningsaðila

vegna ákvörðunar nr. 161/2011 um að fella ákvörðun 2010/485/ESB inn í samninginn


„Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2010/485/ESB frá 1. september 2010 um hæfi lögbærra yfirvalda í Ástralíu og Bandaríkjunum samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/43/EB fjallar um samskipti við ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins. Þessi ákvörðun er felld inn í EES-samninginn með fyrirvara um gildissvið samningsins.“

Fylgiskjal II.


Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar
frá 1. september 2010
um hæfi lögbærra yfirvalda í Ástralíu og Bandaríkjunum samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/43/EB
(tilkynnt með númeri C(2010) 5676)
(Texti sem varðar EES)
(2010/485/ESB)

FRAMKVÆMDASTJÓRN EVRÓPUSAMBANDSINS HEFUR,
með hliðsjón af sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins,
með hliðsjón af tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/43/EB frá 17. maí 2006 um lögboðna endurskoðun ársreikninga og samstæðureikningsskila, um breytingu á tilskipunum ráðsins 78/660/EBE og 83/ 349/EBE og um niðurfellingu á tilskipun ráðsins 84/ 253/EBE ( 1 ), einkum fyrsta undirlið 3. mgr. 47. gr.,
að höfðu samráði við Evrópsku persónuverndarstofnunina,
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Í samræmi við 1. mgr. 47. gr. og 53. gr. tilskipunar 2006/43/EB, mega lögbær yfirvöld aðildarríkja frá 29. júní 2008, komi til skoðunar eða rannsókna á löggiltum endurskoðendum eða endurskoðunarfyrirtækjum, því aðeins heimila flutning vinnuskjala við endurskoðun eða annarra skjala, sem eru í vörslum endurskoðenda eða endurskoðunarfyrirtækja, til lögbærra yfirvalda þriðja lands að framkvæmdastjórnin hafi lýst því yfir að þau yfirvöld teljist hæf og að um gagnkvæma vinnutilhögun milli þeirra og lögbærra yfirvalda viðkomandi aðildarríkja sé að ræða. Því þarf að ákvarða hvaða lögbæru yfirvöld þriðju landa teljast hæf að því er varðar flutning vinnuskjala við endurskoðun eða önnur skjöl, sem eru í vörslum endurskoðenda eða endurskoðunarfyrirtækja, til lögbærra yfirvalda þriðja lands.
2)          Flutningur vinnuskjala við endurskoðun eða annarra skjala, sem eru í vörslum löggiltra endurskoðenda eða endurskoðunarfyrirtækja, til lögbærra yfirvalda þriðja lands varða mikilvæga hagsmuni almennings í tengslum við framkvæmd óháðs, opinbers eftirlits. Af þeim sökum skal hver slíkur flutningur á vegum lögbærra yfirvalda aðildarríkjanna eiga sér stað í þeim eina tilgangi að framkvæmt verði opinbert eftirlit og ytri gæðatrygging ásamt rannsókn endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja á vegum lögbærs yfirvalds í viðkomandi þriðja ríki. Aðildarríki eiga að tryggja að tvíhliða vinnutilhögun sem gerir flutning vinnuskjala við endurskoðun eða annarra skjala, sem eru í vörslum löggiltra endurskoðenda eða endurskoðunarfyrirtækja á milli sinna lögbæru yfirvalda og lögbærra yfirvalda í Ástralíu og Bandaríkjunum, feli í sér viðeigandi verndarráðstafanir að því er varðar vernd persónuupplýsinga, sem og vernd atvinnuleyndarmála og viðkvæmra viðskiptaupplýsinga í tengslum við þau fyrirtæki sem reikningsskil eru endurskoðuð hjá, sem og endurskoðenda slíkra fyrirtækja sem hafa slík skjöl að geyma. Einstaklingar, sem starfa eða hafa starfað hjá lögbæru yfirvaldi í þriðja landi, sem veitir upplýsingunum viðtöku, eru bundnir þagnarskyldu.
3)          Með fyrirvara um 4. mgr. 47. gr. tilskipunar 2006/43/EB skulu aðildarríki tryggja, að því er varðar opinbert eftirlit, gæðamat og rannsóknir á endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum og að tengsl á milli endurskoðenda eða endurskoðunarfyrirtækja aðildarríkjanna og lögbærra yfirvalda í Ástralíu og Bandaríkjunum fari fram í gegnum lögbær yfirvöld hlutaðeigandi aðildarríkis.
4)          Aðildarríki geta ákveðið að samþykkja sameiginlegar skoðanir í undantekningartilvikum þar sem þörf er á til að tryggja skilvirkt eftirlit. Aðildarríki geta leyft að samstarf við lögbær yfirvöld í Ástralíu og Bandaríkjunum fari fram í formi sameiginlegra skoðana eða með skoðunaraðila sem hefur ekki heimild til skoðunar eða rannsóknar og án aðgangs að trúnaðarvinnuskjölum við endurskoðun eða öðrum skjölum í vörslum löggiltra endurskoðenda eða endurskoðunarfyrirtækja. Slíkt samstarf skal ávallt fara fram samkvæmt skilyrðunum sem eru sett fram í 2. mgr. 47. gr. tilskipunar 2006/ 43/EB og í þessari ákvörðun, einkum að því er varðar nauðsyn þess að virða fullveldi, trúnaðarkvöð og gagnkvæmni. Aðildarríki skulu sjá til þess að sameiginlegar skoðanir á hendi lögbærra yfirvalda þeirra og lögbærra yfirvalda í Ástralíu og í Bandaríkjunum á yfirráðasvæði aðildarríkja samkvæmt 47. gr. tilskipunar 2006/43/EB séu undir stjórn lögbærs yfirvalds hlutaðeigandi aðildarríkis.
5)          Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 95/46/EB frá 24. október 1995 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga ( 1 ) gildir um vinnslu á persónuupplýsingum við beitingu þeirrar tilskipunar. Þegar flutningur vinnuskjala við endurskoðun eða annarra skjala, sem eru í vörslum löggiltra endurskoðenda eða endurskoðunarfyrirtækja, til lögbærra yfirvalda í Ástralíu eða í Bandaríkjunum felur í sér birtingu persónuupplýsinga skal hann ávallt fara fram í samræmi við ákvæði tilskipunar 95/46/ EB. Aðildarríki skulu tryggja viðeigandi verndarráðstafanir, að því er varðar vernd fluttra persónuupplýsinga, einkum með bindandi samkomulagi á milli sinna lögbæru yfirvalda og lögbærra yfirvalda í Ástralíu og í Bandaríkjunum, í samræmi við IV. kafla tilskipunar 95/46/ EB, og að hin síðarnefndu greini ekki frekar frá persónuupplýsingum, sem flutt vinnuskjöl við endurskoðun eða önnur skjöl, sem eru í vörslum endurskoðenda eða endurskoðunarfyrirtækja, hafa að geyma, án undanfarandi samkomulags við lögbær yfirvöld hlutaðeigandi aðildarríkja.
6)          Meta skal hæfi lögbærra yfirvalda þriðja lands með hliðsjón af samstarfskröfum skv. 36. gr. tilskipunar 2006/43/EB eða samkvæmt raunverulegum niðurstöðum sem eru í meginatriðum sambærilegar. Sérstaklega skal meta hæfi með hliðsjón af því hvernig lögbær yfirvöld í Ástralíu og í Bandaríkjunum beita valdi sínu og verndarráðstöfunum gegn brotum á reglum, sem það setur, um þagnarskyldu og trúnaðarkvaðir og getu þess samkvæmt eigin lögum og reglum til að vinna í samstarfi við lögbær yfirvöld aðildarríkjanna.
7)          Þar sem endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki félaga í Bandalaginu, sem hafa gefið út verðbréf í Ástralíu eða í Bandaríkjunum, eða mynda hluta samstæðu, sem birtir lögboðna samstæðureikninga í þessum löndum lúta landslögum þessara landa, skal ákvarða hvort lögbær yfirvöld aðildarríkja megi flytja vinnuskjöl við endurskoðun eða önnur skjöl, sem eru í vörslum löggiltra endurskoðenda eða endurskoðunarfyrirtækja, til lögbærra yfirvalda þessara landa eingöngu í þeim tilgangi að framkvæma opinbert eftirlit og ytra gæðamat og vegna rannsóknar á endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum.
8)          Hæfismat að því er varðar 47. gr. tilskipunar 2006/43/EB hefur farið fram gagnvart lögbærum yfirvöldum í Ástralíu og í Bandaríkjunum. Hæfisúrskurður skal kveðinn upp á grundvelli þess mats að því er varðar þau yfirvöld.
9)          Verðbréfa- og fjárfestingarnefnd Ástralíu annast opinbert eftirlit, ytra gæðamat og rannsóknir á endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum. Hún gerir fullnægjandi verndarráðstafanir sem fela í sér bann og viðurlög við því að núverandi eða fyrrverandi starfsmenn láti þriðja aðila eða yfirvaldi trúnaðarupplýsingar í té. Hún skal eingöngu nota flutt vinnuskjöl við endurskoðun eða önnur skjöl, sem eru í vörslum löggiltra endurskoðenda eða endurskoðunarfyrirtækja, vegna opinbers eftirlits, ytra gæðamats og rannsókna á endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum. Samkvæmt áströlskum lögum og reglum má hún flytja vinnuskjöl við endurskoðun eða önnur skjöl, sem eru í vörslum ástralskra endurskoðenda eða endurskoðunarfyrirtækja, til lögbærra yfirvalda hvaða aðildarríkis sem er. Á þessum grunni skal lýsa verðbréfa- og fjárfestingarnefnd Ástralíu hæfa, að því er varðar 1. mgr. 47. gr. tilskipunar 2006/43/EB.
10)          Verðbréfa- og kaupþingsnefnd Bandaríkjanna (e. The Securities and Exchange Commission of the United States of America) annast rannsóknir á endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum; þessi ákvörðun skal einungis taka til þess valdsviðs verðbréfa- og kaupþingsnefndar Bandaríkjanna sem varðar rannsóknir á endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum. Verðbréfa- og kaupþingsnefnd Bandaríkjanna gerir fullnægjandi verndarráðstafanir sem fela í sér bann og viðurlög við því að núverandi og fyrrverandi starfsmenn láti þriðja aðila eða yfirvaldi trúnaðarupplýsingar í té. Nefndin skal nota flutt vinnuskjöl við endurskoðun eða önnur skjöl, sem eru í vörslum löggiltra endurskoðenda eða endurskoðunarfyrirtækja, eingöngu vegna rannsókna á endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum. Samkvæmt bandarískum lögum hefur verðbréfa- og kaupþingsnefndin heimild til að flytja vinnuskjöl við endurskoðun eða önnur skjöl, sem eru í vörslum bandarískra endurskoðenda eða endurskoðunarfyrirtækja sem tengjast mögulegum rannsóknum á slíkum endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum til lögbærra yfirvalda hvaða aðildarríkis sem er. Á þessum grundvelli skal lýsa verðbréfa- og kaupþingsnefnd Bandaríkjanna hæfa að því er varðar 1. mgr. 47. gr. tilskipunar 2006/43/EB.
11)          Opinbert eftirlitsráð Bandaríkjanna með reikningsskilum félaga (e. The Public Company Accounting Oversight Board of the United States of America) annast opinbert eftirlit, ytra gæðamat og rannsóknir á endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum. Ráðið gerir fullnægjandi verndarráðstafanir sem fela í sér bann og viðurlög við því að núverandi og fyrrverandi starfsmenn láti þriðja aðila eða yfirvaldi trúnaðarupplýsingar í té. Ráðið skal nota flutt vinnuskjöl við endurskoðun eða önnur skjöl, sem eru í vörslum löggiltra endurskoðenda eða endurskoðunarfyrirtækja, eingöngu vegna opinbers eftirlits, ytra gæðamats og rannsóknar á endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum. Samkvæmt bandarískum lögum getur ráðið veitt lögbærum yfirvöldum hvaða aðildarríkis sem er beinan aðgang að vinnuskjölum við endurskoðun, eða öðrum skjölum sem eru í vörslum bandarískra endurskoðenda eða endurskoðunarfyrirtækja, en það getur samkvæmt bandarískum lögum ekki flutt slík skjöl til lögbærra yfirvalda aðildarríkja.
12)          Verðbréfa- og kaupþingsnefnd Bandaríkjanna getur samt sem áður lagt skoðunarskýrslur fram fyrir lögbær yfirvöld hvaða aðildarríkis sem er, útgefnar af opinberu eftirlitsráði Bandaríkjanna með reikningsskilum félaga að því er varðar bandaríska endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki, og að undangenginni beiðni og rökum fyrir ástæðu hennar, önnur vinnuskjöl við endurskoðun eða önnur skjöl sem eru í vörslum bandarískra endurskoðenda eða endurskoðunarfyrirtækja sem skipta máli við slíkar skoðanir. Samvinna lögbærra yfirvalda aðildarríkjanna og opinbers eftirlitsráðs Bandaríkjanna með reikningsskilum félaga um skoðanir á endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum leiðir því í grundvallaratriðum til sambærilegra niðurstaða við bein skipti á vinnuskjölum við endurskoðun eða öðrum skjölum sem eru í vörslum löggiltra endurskoðenda eða endurskoðunarfyrirtækja sem kveðið er á um í 36. gr. tilskipunar 2006/43/EB. Á þessum grundvelli skal lýsa opinbert eftirlitsráð Bandaríkjanna með reikningsskilum félaga hæft að því er varðar 1. mgr. 47. gr. tilskipunar 2006/43/EB.
13)          Flutningur vinnuskjala við endurskoðun eða annarra skjala sem eru í vörslum löggiltra endurskoðenda eða endurskoðunarfyrirtækja skal taka til aðgangs að eða flutnings á þeim til yfirvalda, sem eru lýst hæf samkvæmt þessari ákvörðun um vinnuskjöl við endurskoðun eða önnur skjöl, sem eru í vörslum löggiltra endurskoðenda eða endurskoðunarfyrirtækja, samkvæmt undanfarandi samkomulagi lögbærra yfirvalda aðildarríkja og aðgangi lögbærra yfirvalda aðildarríkja að slíkum skjölum eða flutningi þeirra á þeim. Því skal löggiltum endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum, komi til skoðana eða rannsókna, ekki heimilað að veita aðgang að eða senda vinnuskjöl við endurskoðun eða önnur skjöl, sem eru í vörslum löggiltra endurskoðenda eða endurskoðunarfyrirtækja, til þessara yfirvalda samkvæmt öðrum skilyrðum en þeim sem eru sett fram í þessari ákvörðun og í 47. gr. tilskipunar 2006/ 43/EB, t.d. á grundvelli samþykkis löggilts endurskoðanda, endurskoðunarfyrirtækja eða félags viðskiptavinar.
14)          Þessi ákvörðun skal ekki hafa áhrif á það samstarfsfyrirkomulag sem um getur í 4. mgr. 25. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2004/ 109/EB frá 15. desember 2004 um samhæfingu krafna um gagnsæi í tengslum við upplýsingar um útgefendur verðbréfa sem eru skráð á skipulegan markað og um breytingu á tilskipun 2001/34/EB ( 1 ).
15)          Þar eð þessi ákvörðun er tekin í tengslum við aðlögunartímabil sem er veitt tilteknum endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum þriðja lands með ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2008/627/EB frá 29. júlí 2008 um aðlögunartímabil fyrir endurskoðunarstarfsemi tiltekinna endurskoðenda og endurskoðunareininga í þriðja landi ( 1 ), skal þessi ákvörðun ekki hafa forgang fram yfir neinar jafngildar lokaákvarðanir sem framkvæmdastjórnin gæti hafa samþykkt samkvæmt 46. gr. tilskipunar 2006/43/EB.
16)          Ákvörðun þessi miðar að því að greiða fyrir skilvirkri samvinnu á milli lögbærra yfirvalda í aðildarríkjunum og í Ástralíu og Bandaríkjunum til að þau gegni hlutverki sínu við opinbert eftirlit, ytri gæðatryggingu og rannsóknir, og gæti jafnframt réttinda þeirra aðila sem hlut eiga að máli. Aðildarríkin eiga að tilkynna framkvæmdastjórninni um vinnutilhögun, sem samið hefur verið um við þessi yfirvöld, til að gera framkvæmdastjórninni kleift að meta hvort samvinna fari fram í samræmi við 47. gr. tilskipunar 2006/43/EB.
17)          Lokamarkmið samvinnu við Ástralíu og Bandaríkin vegna eftirlits með endurskoðun er að skapa gagnkvæmt traust á eftirlitskerfum landanna svo að einungis þurfi að flytja vinnuskjöl við endurskoðun eða önnur skjöl sem eru í vörslum löggiltra endurskoðenda eða endurskoðunarfyrirtækja í undantekningartilvikum. Gagnkvæmt traust byggist á jafngildi endurskoðunareftirlitskerfa Sambandsins og eftirlitskerfa þessara landa.
18)          Opinbert eftirlitsráð Bandaríkjanna með reikningsskilum félaga myndi vilja meta endurskoðunareftirlitskerfi aðildarríkjanna frekar áður en það ákveður að treysta á það eftirlit sem er framkvæmt af lögbærum yfirvöldum þeirra. Því þarf að endurskoða fyrirkomulag samstarfs á milli lögbærra yfirvalda aðildarríkjanna og opinbers eftirlitsráðs Bandaríkjanna með reikningsskilum félaga og verðbréfa- og kaupþingsnefndar Bandaríkjanna til að meta framvindu þess að gagnkvæmt traust náist á milli aðila. Af þessum sökum fellur þessi ákvörðun úr gildi þann 31. júlí 2013, að því er varðar opinbert eftirlitsráð Bandaríkjanna með reikningsskilum félaga og verðbréfa- og kaupþingsnefnd Bandaríkjanna.
19)          Ráðstafanirnar, sem kveðið er á um í þessari ákvörðun, eru í samræmi við álit nefndarinnar sem komið var á fót skv. 1. mgr. 48. gr. tilskipunar 2006/43/EB.
SAMÞYKKT ÁKVÖRÐUN ÞESSA:

1. gr.

Eftirfarandi lögbær yfirvöld þriðju landa skal telja hæf að því er varðar 1. mgr. 47. gr. tilskipunar 2006/ 43/EB:
1.    Verðbréfa- og fjárfestingarnefnd Ástralíu (e. The Australian Securities and Investments Commission),
2.    Opinbert eftirlitsráð Bandaríkjanna með reikningsskilum félaga (e. The Public Company Accounting Oversight Board of the United States of America),
3.    Verðbréfa- og kaupþingsnefnd Bandaríkjanna (e. The Securities and Exchange Commission of the United States of America).

2. gr.

1.     Í samræmi við 53. mgr. tilskipunar 2006/43/EB frá 29. júní 2008, komi til skoðunar eða rannsókna á löggiltum endurskoðendum eða endurskoðunarfyrirtækjum, skal flutningur vinnuskjala við endurskoðun eða annarra skjala, sem eru í vörslum endurskoðenda eða endurskoðunarfyrirtækja, annaðhvort fara fram að fengnu samþykki lögbærs yfirvalds hlutaðeigandi aðildarríkis eða að lögbært yfirvald hlutaðeigandi aðildarríkis annast hann.
2.     Tilgangur með flutningi vinnuskjala við endurskoðun eða annarra skjala, sem eru í vörslum löggiltra endurskoðenda eða endurskoðunarfyrirtækja, skal ekki vera annar en opinbert eftirlit, ytra gæðamat eða rannsóknir á endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum.
3.     Þegar vinnuskjöl við endurskoðun eða önnur skjöl, sem eru í vörslum endurskoðenda eða endurskoðunarfyrirtækja, eru einungis í vörslu endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis, sem er skráð í öðru aðildarríki en því aðildarríki þar sem endurskoðandi samstæðu er skráður og lögbært yfirvald hefur fengið beiðni frá einhverju af þeim yfirvöldum, sem um getur í 1. gr., skal einungis flytja slík skjöl til lögbærs yfirvalds hlutaðeigandi þriðja lands hafi lögbært yfirvald í fyrra aðildarríkinu veitt skýlaust samþykki fyrir flutningnum.
4.     Aðildarríki eiga að tryggja að tvíhliða vinnutilhögun sem gerir flutning vinnuskjala við endurskoðun eða annarra skjala, sem eru í vörslum löggiltra endurskoðenda eða endurskoðunarfyrirtækja á milli sinna lögbæru yfirvalda og lögbærra yfirvalda í Ástralíu og Bandaríkjunum, feli í sér viðeigandi verndarráðstafanir að því er varðar vernd persónuupplýsinga, sem og vernd atvinnuleyndarmála og viðkvæmra viðskiptaupplýsinga í tengslum við þau fyrirtæki sem reikningsskil eru endurskoðuð hjá, sem og endurskoðenda slíkra fyrirtækja sem slík skjöl hafa að geyma.
5.     Með fyrirvara um 4. mgr. 47. gr. tilskipunar 2006/43/EB skulu aðildarríki tryggja, að því er varðar opinbert eftirlit, gæðamat og rannsóknir á endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum, tvíhliða vinnutilhögun sem gerir flutning vinnuskjala við endurskoðun eða annarra skjala, sem eru í vörslum löggiltra endurskoðenda eða endurskoðunarfyrirtækja á milli sinna lögbæru yfirvalda og lögbærra yfirvalda í Ástralíu og Bandaríkjunum, að því gefnu að tengsl á milli endurskoðenda eða endurskoðunarfyrirtækja aðildarríkjanna og lögbærra yfirvalda í Ástralíu og Bandaríkjunum fari fram í gegnum lögbær yfirvöld hlutaðeigandi aðildarríkis.
6.     Aðildarríki geta samþykkt sameiginlegar skoðanir þegar þess er þörf. Aðildarríki skulu sjá til þess að sameiginlegar skoðanir á hendi lögbærra yfirvalda þeirra og lögbærra yfirvalda í Ástralíu og í Bandaríkjunum á yfirráðasvæði aðildarríkja samkvæmt 47. gr. tilskipunar 2006/43/EB séu almennt undir stjórn lögbærs yfirvalds hlutaðeigandi aðildarríkis.
7.     Aðildarríki skulu tryggja að tvíhliða vinnutilhögun á milli eigin lögbærra yfirvalda og lögbærra yfirvalda í Ástralíu og í Bandaríkjunum sé í samræmi við framsettu skilyrðin í þessari ákvörðun.

3. gr.

Að því er varðar þau lögbæru yfirvöld sem um getur í 2. og 3. mgr. 1. gr., fellur þessi ákvörðun úr gildi þann 31. júlí 2013.

4. gr.

Ákvörðun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Brussel 1. september 2010.

Fyrir hönd framkvæmdastjórnarinnar,
Michel Barnier
framkvæmdastjóri.


Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 171, 30.6.2011, bls. 25, og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 37, 30.6.2011, bls. 29.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L 240, 11.9.2010, bls. 6.
Neðanmálsgrein: 3
(*)    Engin stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 4
(1)    Stjtíð. ESB L 157, 9.6.2006, bls. 87.
Neðanmálsgrein: 5
(1)    Stjtíð. EB L 281, 23.11.1995, bls. 31.
Neðanmálsgrein: 6
(1)    Stjtíð. ESB L 390, 31.12.2004, bls. 38.
Neðanmálsgrein: 7
(1)    Stjtíð. ESB L 202, 31.7.2008, bls. 70.