Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 605. máls.

Þingskjal 947  —  605. mál.Tillaga til þingsályktunar

um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Svartfjallalands og landbúnaðarsamnings milli Íslands og Lýðveldisins Svartfjallalands.

(Lögð fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)
    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd fríverslunarsamning milli aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Svartfjallalands sem undirritaður var 14. nóvember 2011 í Genf og landbúnaðarsamning milli Íslands og Lýðveldisins Svartfjallalands sem einnig var undirritaður í Genf sama dag.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á fríverslunarsamningi milli aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og Lýðveldisins Svartfjallalands sem undirritaður var 14. nóvember 2011 í Genf. Jafnframt er leitað heimildar til fullgildingar á landbúnaðarsamningi milli Íslands og Lýðveldisins Svartfjallalands sem undirritaður var í Genf sama dag. Meginmál fríverslunarsamningsins er prentað sem fylgiskjal I með tillögu þessari og meginmál landbúnaðarsamningsins sem fylgiskjal II. Viðaukar og bókanir sem fylgja fríverslunarsamningnum og viðaukar við landbúnaðarsamninginn munu liggja frammi á lestrarsal Alþingis.
    EFTA-ríkin, Ísland, Liechtenstein, Noregur og Sviss, hafa gert 24 fríverslunarsamninga við ríki eða ríkjahópa, að meðtöldum samningnum við Svartfjallaland. Þar með nær fríverslunarnet EFTA-ríkjanna til 33 ríkja, að Evrópusambandinu frátöldu. Í tengslum við þessa samninga hafa verið gerðir sérstakir tvíhliða samningar á milli einstakra EFTA-ríkja og hvers ríkis eða ríkjahóps fyrir sig um viðskipti með óunnar landbúnaðarvörur.
    Fríverslunarviðræðurnar við Svartfjallaland voru rökrétt framhald í útfærslu fríverslunarnets EFTA-ríkjanna á Balkanskaga, en EFTA-ríkin hafa m.a. gert fríverslunarsamninga við nágrannaríkin Serbíu og Albaníu og viðræður standa yfir við Bosníu og Hersegóvínu.
    Samningaviðræðunum lauk í júní 2011. Fríverslunarsamningurinn við Svartfjallaland er af svokallaðri fyrstu kynslóð fríverslunarsamninga en slíkir samningar fela einkum í sér afnám eða lækkun tolla. Í fríverslunarsamningi EFTA-ríkjanna og Svartfjallalands eru jafnframt almenn ákvæði um vernd hugverka, fjárfestingar, þjónustuviðskipti og opinber innkaup.
    Viðskipti milli Íslands og Svartfjallalands hafa verið óveruleg fram til þessa. Hins vegar tryggir fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna og Svartfjallalands að íslenskir útflytjendur sitja við sama borð og samkeppnisaðilar þeirra í ríkjum Evrópusambandsins.
    Fríverslunarsamningurinn við Svartfjallaland kveður á um lækkun eða niðurfellingu tolla á iðnaðarvörur, sjávarafurðir og unnar landbúnaðarvörur. Þannig munu tollar á sjávarafurðir og allar helstu iðnaðarvörur frá Íslandi að meginreglu falla niður frá gildistöku samningsins eða að afloknu aðlögunartímabili sem lýkur 2018.
    Landbúnaðarsamningurinn milli Íslands og Svartfjallalands er viðbótarsamningur og gerður með vísan til fríverslunarsamnings EFTA-ríkjanna og Svartfjallalands. Landbúnaðarsamningurinn myndar hluta fríverslunarsvæðisins, ásamt slíkum samningum annars vegar milli Noregs og Svartfjallalands og hins vegar milli Sviss og Svartfjallalands, auk fríverslunarsamningsins. Viðskipti með óunnar landbúnaðarvörur falla undir landbúnaðarsamninginn og kveður hann á um að tollar á tilteknar landbúnaðarvörur verði lækkaðir eða felldir niður. Svartfjallaland mun m.a. lækka tolla á íslenskt lambakjöt, skyr og osta. Ísland mun m.a. fella niður tolla af ýmsum tegundum af matjurtum, grænmeti, ávöxtum, kaffi, kryddi, korni, hunangi, fræjum, plöntum, olíum, sósum og ávaxtasafa. Landbúnaðarsamningurinn öðlast gildi á sama degi og fríverslunarsamningurinn.

Fylgiskjal I.


FRÍVERSLUNARSAMNINGUR
MILLI
EFTA-RÍKJANNA
OG
SVARTFJALLALANDS


FORMÁLSORÐ


Ísland, Furstadæmið Liechtenstein, Konungsríkið Noregur og Svissneska ríkjasambandið (hér á eftir nefnd EFTA-ríkin) annars vegar


og Svartfjallaland hins vegar,

þar sem hvert einstakt ríki verður hér á eftir nefnt „samningsaðili“ og öll ríkin saman „samningsaðilarnir“,

SEM VIÐURKENNA gagnkvæman vilja til þess að efla tengsl milli EFTA-ríkjanna annars vegar og Svartfjallalands hins vegar með því að stofna til náinna og varanlegra tengsla,

SEM VÍSA til þess ásetnings síns að stuðla á virkan hátt að efnahagslegum samruna Evrópu og Miðjarðarhafslandanna og lýsa sig reiðubúin til að leita sameiginlegra leiða og aðferða til að styrkja þá þróun,

SEM ÁRÉTTA skuldbindingu sína um að virða lýðræði, réttarreglu, mannréttindi og mannfrelsi í samræmi við skyldur sínar að þjóðarétti, þ.m.t. meginreglur sem settar eru fram í sáttmála Sameinuðu þjóðanna og almennu mannréttindayfirlýsingunni,


SEM VILJA skapa hagstæð skilyrði fyrir þróun og fjölbreytni í viðskiptum sín á milli og fyrir aukna samvinnu, bæði viðskiptalega og efnahagslega, á sviðum þar sem samningsaðilar eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta, á grundvelli jafnréttis, gagnkvæms ávinnings, jafnræðis og þjóðaréttar,

SEM ERU STAÐRÁÐIN í að efla og stuðla að marghliða viðskiptakerfi á grundvelli viðkomandi réttinda og skuldbindinga í samræmi við Marakess- samninginn um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og aðra samninga, sem gerðir hafa verið á vettvangi hennar, og stuðla þar með að samstilltri þróun og eflingu alþjóðaviðskipta,


SEM ÁRÉTTA skuldbindingu sína um að framfylgja markmiðum með sjálfbærri þróun og viðurkenna mikilvægi samræmi í og gagnkvæms stuðnings við viðskipti og umhverfis- og atvinnumál í því tilliti,

SEM VÍSA TIL réttinda sinna og skuldbindinga samkvæmt marghliða samningum um umhverfismál sem gilda gagnvart þeim og til virðingar fyrir grundvallarreglum og réttindum við vinnu, þ.m.t. þær meginreglur viðeigandi samninga Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) sem gilda gagnvart þeim,


SEM HAFA AÐ MARKMIÐI að skapa ný atvinnutækifæri og bæta lífskjör, ásamt öflugri heilsu-, öryggis- og umhverfisvernd,


SEM ERU STAÐRÁÐIN í að beita þessum samningi í samræmi við það markmið að varðveita og vernda umhverfið með traustri umhverfisstjórnun og stuðla að sem hagkvæmastri nýtingu auðlinda í samræmi við markmiðið með sjálfbærri þróun,


SEM STAÐFESTA þá skuldbindingu sína að koma í veg fyrir og berjast gegn spillingu í alþjóðaviðskiptum og fjárfestingum og að halda á loft meginreglunni um gagnsæi og góða opinbera stjórnarhætti,

SEM VIÐURKENNA mikilvægi góðra stjórnarhátta og félagslegrar ábyrgðar fyrirtækja á sviði sjálfbærrar þróunar og staðfesta það markmið sitt að hvetja fyrirtæki til að taka tillit til alþjóðlegra viðurkenndra viðmiðunarreglna og meginreglna á þessu sviði, svo sem viðmiðunarreglna OECD fyrir fjölþjóðleg fyrirtæki, meginreglur OECD um stjórnarhætti fyrirtækja og til hins hnattræna samnings Sameinuðu þjóðanna,

SEM LÝSA SIG REIÐUBÚIN til að kanna hvort unnt sé að þróa og auka efnahagstengsl sín á milli í því skyni að þau megi ná til sviða sem samningur þessi tekur ekki til,

SEM ERU SANNFÆRÐ UM að samningur þessi muni efla samkeppnishæfni fyrirtækja sinna á heimsmarkaði og skapa skilyrði sem örva efnahagsleg tengsl, viðskiptatengsl og tengsl á sviði fjárfestinga sín á milli,

HAFA ÁKVEÐIÐ, í samræmi við markmið þessi, að gera með sér eftirfarandi fríverslunarsamning (sem nefnist hér á eftir „samningur þessi“):

1. KAFLI
ALMENN ÁKVÆÐI
1. GR.
Markmið.

1.     EFTA-ríkin og Svartfjallaland skulu koma á fríverslunarsvæði með samningi þessum og viðbótarsamningum um landbúnaðarafurðir, sem nú hafa verið gerðir milli hvers einstaks EFTA-ríkis og Svartfjallalands, með það í huga að örva hagsæld og sjálfbæra þróun á yfirráðasvæðum sínum.

2.     Samningur þessi, sem byggist á viðskiptatengslum milli markaðshagkerfa og á því að lýðræði og mannréttindi séu virt, miðar að því:

a)    að ná fram frelsi í vöruviðskiptum í samræmi við XXIV. gr. hins almenna samnings um tolla og viðskipti (hér á eftir nefndur „GATT-samningurinn frá 1994“),
b)    að auka gagnkvæm fjárfestingartækifæri samningsaðilanna og þróa í áföngum umhverfi sem stuðlar að auknum viðskiptum á sviði þjónustu,

c)    að skapa eðlileg samkeppnisskilyrði í viðskiptum milli samningsaðilanna og tryggja næga og áhrifaríka vernd hugverkaréttinda,

d)    að auka enn frekar og í áföngum gagnkvæmt frelsi á mörkuðum samningsaðilanna fyrir opinber innkaup,
e)    að þróa alþjóðaviðskipti þannig að markmiði sjálfbærrar þróunar verði náð og að tryggja að það sé samþætt viðskiptatengslum samningsaðilanna og

f)    að stuðla þannig að samstilltri þróun og auknum alþjóðaviðskiptum.

2. GR.
Viðskiptatengsl sem falla undir þennan samning.

1.     Samningur þessi gildir um viðskiptatengsl milli einstakra EFTA-ríkja annars vegar og Svartfjallalands hins vegar, en ekki um viðskiptatengsl milli einstakra EFTA-ríkja, nema kveðið sé á um annað í samningi þessum.

2.     Af tollabandalaginu, sem stofnað var með samningi frá 29. mars 1923 milli Sviss og Liechtenstein, leiðir að Sviss er fulltrúi Liechtenstein í málefnum sem falla undir gildissvið þess samnings.

3. GR.
Tengsl við aðra alþjóðasamninga.

1.     Samningsaðilar staðfesta réttindi sín og skyldur samkvæmt samningnum um Alþjóðaviðskiptastofnunina og öðrum samningum á grundvelli hans og samkvæmt öðrum milliríkjasamningum sem þeir eiga aðild að.
2.     Ákvæði samnings þessa eru með fyrirvara um hvernig réttindi og skyldur, samkvæmt öðrum milliríkjasamningum um fjárfestingar sem eitt eða fleiri EFTA-ríki og Svartfjallaland eru aðilar að, eru túlkuð eða þeim beitt.
3.     Ef samningsaðili telur að viðhald eða stofnun tollabandalags eða fríverslunarsvæðis eða gerð samnings um landamæraviðskipti eða annars fríðindasamnings af hálfu annars samningsaðila, og að slíkt hafi þau áhrif að breyti því viðskiptafyrirkomulagi sem kveðið er á um í þessum samningi, getur hann óskað eftir samráði við þann samningsaðila. Sá samningsaðili skal veita næg tækifæri til samráðs við þann samningsaðila sem leggur fram beiðnina.

4. GR.
Svæðisbundið gildissvið.

1.     Samningur þessi gildir, nema annað sé tilgreint í 8. gr.:
a)    um landsvæði, innhöf og landhelgi samningsaðila og loftrými yfir landsvæði samningsaðila í samræmi við reglur þjóðaréttar og

b)    um svæði utan landhelgi með tilliti til ráðstafana sem samningsaðili gerir í krafti fullveldisréttinda sinna eða lögsögu í samræmi við reglur þjóðaréttar.
2.     Samningur þessi gildir ekki um Svalbarðasvæðið, nema að því er varðar vöruviðskipti.


5. GR.
Ríkisvaldið, svæðisbundin og staðbundin stjórnvöld.

Sérhver samningsaðili skal sjá til þess að ríkisvald hans, svæðisbundin og staðbundin stjórnvöld og yfirvöld, svo og óopinberar stofnanir, sem fara með opinbert vald sem ríkisvaldið, svæðisbundin og staðbundin stjórnvöld eða yfirvöld fela þeim, uppfylli allar skyldur og skuldbindingar samkvæmt samningi þessum á yfirráðasvæði sínu.

6. GR.
Gagnsæi.

1.     Sérhver samningsaðili skal birta eða veita almenningi aðgang með öðrum hætti að lögum sínum, reglugerðum, dómsniðurstöðum, stjórnsýsluákvörðunum, sem hafa almennt gildi, og milliríkjasamningum, sem hann er aðili að, sem geta haft áhrif á rekstur samnings þessa.
2.     Samningsaðili skal þegar í stað svara sértækum spurningum og veita öðrum samningsaðila, að fenginni beiðni þar um, upplýsingar um málefni sem um getur í 1. mgr. Samningsaðilum er ekki gert að greina frá trúnaðarupplýsingum.

2. KAFLI
VÖRUVIÐSKIPTI
7. GR.
Gildissvið.

1.     Þessi kafli gildir um eftirtaldar vörur:
a)    framleiðsluvörur, sem heyra undir 25. til 97. kafla í samræmdu vörulýsingar- og vöruheitaskránni (ST), með fyrirvara um I. viðauka,
b)    unnar landbúnaðarafurðir, sem tilgreindar eru í II. viðauka, að teknu tilhlýðilegu tilliti til þess fyrirkomulags er um getur í þeim viðauka og
c)    fisk og aðrar sjávarafurðir, eins og kveðið er á um í III. viðauka.
2.     Sérhvert EFTA-ríki og Svartfjallaland hafa gert með sér tvíhliða samninga um viðskipti með landbúnaðarafurðir. Þessir samningar eru hluti af gerningunum um stofnun fríverslunarsvæðis EFTA-ríkjanna og Svartfjallalands.


8. GR.
Upprunareglur og samvinna stjórnvalda.

1.     Réttindi og skuldbindingar samningsaðilanna að því er varðar upprunareglur og samvinnu milli tollyfirvalda samningsaðilanna skulu falla undir samninginn um upprunareglur sem eru sameiginlegar Evrópu og Miðjarðarhafslöndum og veita fríðindi (hér á eftir nefndur „samningurinn“), nema kveðið sé um annað í 2. mgr. og með fyrirvara um 15. gr.

2.     Um unnar landbúnaðarafurðir, sem um getur í II. viðauka, gildir 3. gr. I. viðbætis samningsins, að breyttu breytanda, þar sem einungis er gert ráð fyrir tvíhliða uppsöfnun milli samningsaðilanna.
3.     Segi samningsaðili sig frá samningnum skulu samningsaðilarnir tafarlaust hefja samningaviðræður um nýjar upprunareglur sem eiga við um samning þennan. Upprunareglur samningsins skulu, þar til slíkar reglur öðlast gildi, eiga við um samning þennan, að breyttu breytanda, þar sem einungis er gert ráð fyrir tvíhliða uppsöfnun milli samningsaðilanna.

9. GR.
Tollar.

1.     Við gildistöku samnings þessa skulu samningsaðilar fella niður alla tolla og gjöld, sem hafa samsvarandi áhrif, af innflutningi og útflutningi á vörum sem eru upprunnar í EFTA-ríku eða Svartfjallalandi og ákvæði a-liðar 1. undirgreinar 7. gr. tekur til. Óheimilt er að leggja á slíka tolla á nýjan leik.

2.     Til tolla teljast hvers konar tollar eða gjöld, sem hafa samsvarandi áhrif, sem eru lögð á í tengslum við inn- eða útflutning framleiðsluvöru, einnig hvers konar aukaskattar eða aukagjöld, að frátöldum gjöldum sem eru lögð á skv. III. og VIII. gr. GATT-samningsins frá 1994.


10. GR.
Magntakmarkanir.

Ákvæði XI. gr. GATT-samningsins frá 1994 gilda um réttindi og skyldur samningsaðilanna að því er varðar magntakmarkanir og eru þau hér með felld inn í samning þennan og eru hluti af honum, að breyttu breytanda.

11. GR.
Innlendir skattar og reglur.

1.     Samningsaðilarnir skulu leggja á innlenda skatta og önnur gjöld og beita innlendum fjármálareglum skv. III. gr. GATT-samningsins frá 1994 og aðra viðeigandi samninga Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.
2.     Útflytjendur skulu ekki njóta hærri endurgreiðslu á innlendum sköttum en nemur óbeinum sköttum á framleiðsluvörur sem eru fluttar út til yfirráðasvæðis samningsaðila.

12. GR.
Ráðstafanir á sviði hollustuhátta og heilbrigðis dýra og plantna.

1.     Farið skal með réttindi og skyldur samningsaðilanna, að því er varðar ráðstafanir um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna, í samræmi við samning Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna.
2.     Samningsaðilarnir skulu skiptast á nöfnum og heimilisföngum tengiliða með sérþekkingu á hollustuháttum og heilbrigði dýra og plantna í því skyni að auðvelda samskipti og upplýsingaskipti.

13. GR.
Tæknilegar reglur.

1.     Farið skal með réttindi og skyldur samningsaðilanna með tilliti til tæknilegra reglugerða og krafna og samræmismats, í samræmi við samning Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um tæknilegar viðskiptahindranir.
2.     Samningsaðilarnir skulu auka samvinnu á sviði tæknilegra reglugerða og krafna og samræmismats með það að markmiði að auka gagnkvæman skilning á kerfum hvers og eins og auðvelda aðgang að mörkuðum hvers og eins.


14. GR.
Greitt fyrir viðskiptum.

Samningsaðilarnir skulu, í því skyni að greiða fyrir verslunarviðskiptum milli EFTA-ríkjanna og Svartfjallalands í samræmi við ákvæðin sem sett eru fram í IV. viðauka:
a)    einfalda verklagsreglur um vöruviðskipti og tengda þjónustustarfsemi eftir því sem frekast er unnt,
b)    stuðla að samstarfi sín á milli í því skyni að auka þátttöku í gerð og framkvæmd alþjóðasamninga og alþjóðlegra tilmæla um að greiða fyrir viðskiptum og

c)    vinna saman að því að greiða fyrir viðskiptum á vettvangi sameiginlegu nefndarinnar.

15. GR.
Undirnefnd um upprunareglur, reglur um tollmeðferð og um að greiða fyrir viðskiptum.

1.     Með vísun til 8. og 14. gr. er hér með stofnuð undirnefnd sameiginlegu nefndarinnar um upprunareglur, tollmeðferð og greiðari viðskipti (hér á eftir nefnd „undirnefndin“).

2.     Í V. viðauka er gerð grein fyrir umboði undirnefndarinnar.

16. GR.
Ríkisrekin viðskiptafyrirtæki.

Farið skal með réttindi og skyldur samningsaðilanna, að því er varðar ríkisrekin viðskiptafyrirtæki, samkvæmt ákvæðum XVII. gr. GATT-samningsins frá 1994 og samkomulagi um túlkun XVII. gr. GATT- samningsins frá 1994, sem eru hér með felld inn í þennan samning og eru hluti af honum, að breyttu breytanda.

17. GR.
Reglur um samkeppni sem varða fyrirtæki.

1.     Eftirfarandi samrýmist ekki réttri framkvæmd samnings þessa að því leyti sem það hefur áhrif á viðskipti milli EFTA-ríkis og Svartfjallalands:

a)    allir samningar milli fyrirtækja, ákvarðanir samtaka fyrirtækja og samstilltra aðgerða fyrirtækja sem miða að því að koma í veg fyrir, takmarka eða raska samkeppni eða leiða til slíks og

b)    misnotkun eins eða fleiri fyrirtækja á yfirburðastöðu á öllu yfirráðasvæði samningsaðila eða á verulegum hluta þess.
2.     Ákvæði 1. mgr. gilda um starfsemi opinberra fyrirtækja og fyrirtækja, sem njóta sér- eða einkaréttinda sem samningsaðilar hafa veitt þeim, að því marki sem beiting þessara ákvæða hindrar ekki, að lögum eða í reynd, framkvæmd opinberra verkefna sem þessum fyrirtækjum hafa verið falin.
3.     Ákvæði 1. og 2. mgr. skal eigi túlka þannig að skapi fyrirtækjum beinar kvaðir.

4.     Telji samningsaðili að tilteknir starfhættir samrýmist ekki ákvæðum 1. og 2. mgr. getur hann óskað eftir samráði í sameiginlegu nefndinni. Hlutaðeigandi samningsaðilar skulu veita sameiginlegu nefndinni nauðsynlega aðstoð í því skyni að rannsaka málið og, ef við á, leggja af þá starfshætti sem er mótmælt. Leggi hlutaðeigandi samningsaðili ekki af þær starfsvenjur sem er mótmælt innan þess tímafrests sem sameiginlega nefndin ákveður, eða nái sameiginlega nefndin ekki samkomulagi að loknu samráði, eða 30 dögum eftir að málinu er vísað til hennar, er samningsaðilanum, sem óskar eftir samráði, heimilt að gera viðeigandi ráðstafanir til að fást við þann vanda sem umræddir starfhættir hafa skapað.


18. GR.
Styrkir og jöfnunarráðstafanir.

1.     Farið skal með réttindi og skyldur samningsaðilanna varðandi styrki og jöfnunarráðstafanir í samræmi við VI. og XVI. gr. GATT-samningsins frá 1994 og samning Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um styrki og jöfnunarráðstafanir, nema kveðið sé á um annað í 2. mgr.
2.     Áður en EFTA-ríki eða Svartfjallaland, eftir því sem við á, hefur rannsókn í því skyni að ákvarða hvort og að hve miklu leyti styrkir eru veittir í Svartfjallalandi eða EFTA-ríki og áhrif þess, eins og kveðið er á um í 11. gr. samningsins um styrki og jöfnunarráðstafanir, skal samningsaðilinn, sem hyggst hefja rannsókn, senda þeim samningsaðila sem vörurnar, sem rannsaka á, tilheyra skriflega tilkynningu um það og ákveða 45 daga frest til að leita lausnar sem báðir samningsaðilar geta sætt sig við. Efna skal til samráðs í sameiginlegu nefndinni, ef einhver samningsaðila fer fram á það, innan 20 daga frá viðtökudegi tilkynningarinnar.

19. GR.
Undirboð.

Samningsaðili skal ekki beita ráðstöfunum um undirboð, eins og kveðið er á um í VI. gr. GATT-samningsins frá 1994 og í samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um framkvæmd VI. gr. GATT-samningsins frá 1994, í tengslum við framleiðsluvörur sem eru upprunnar hjá öðrum samningsaðila.

20. GR.
Víðtækar verndarráðstafanir.

Farið skal með réttindi og skyldur samningsaðilanna, að því er varðar víðtækar verndarráðstafanir, samkvæmt ákvæðum XIX. gr. GATT-samningsins frá 1994 og samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um verndarráðstafanir. Þegar samningsaðili gerir víðtækar verndarráðstafanir skal hann undanþiggja innflutning upprunavöru frá einum eða nokkrum samningsaðilum, ef slíkur innflutningur veldur ekki í sjálfu sér eða leiðir til alvarlegs skaða. Samningsaðilinn, sem gerir fyrrnefndar ráðstafanir, skal sýna fram á að slík undanþága samræmist reglum og starfsháttum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

21. GR.
Tvíhliða verndarráðstafanir.

1.     Ef innflutningur framleiðsluvöru, sem er upprunnin hjá samningsaðila, inn á yfirráðasvæði annars samningsaðila eykst svo mjög, annaðhvort sem hrein aukning eða sem hlutfall af innlendri framleiðslu, á grundvelli þess að tollar hafa verið lækkaðir eða afnumdir samkvæmt samningi þessum, og við slík skilyrði að það veldur eða gæti valdið alvarlegum skaða fyrir innlenda framleiðendur sambærilegra vara eða samkeppnisvara á yfirráðasvæði samningsaðilans, sem flytur inn, er honum heimilt að grípa til tvíhliða verndarráðstafana, í eins litlum mæli og frekast er unnt, í því skyni að bæta skaðann, eða koma í veg fyrir hann, með fyrirvara um ákvæði 2. til 10. mgr.
2.     Því aðeins má gera tvíhliða verndarráðstafanir að óyggjandi sönnun sé fyrir því að aukinn innflutningur hafi valdið alvarlegum skaða eða að hætta sé á því samkvæmt rannsókn sem er gerð í samræmi við þá málsmeðferð sem mælt er fyrir um í samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um verndarráðstafanir.
3.     Samningsaðilinn, sem hyggst grípa til tvíhliða verndarráðstafana samkvæmt ákvæðum þessarar greinar, skal, þegar í stað og ætíð áður en gripið er til ráðstöfunar, tilkynna hinum samningsaðilunum þar um. Í tilkynningunni skulu koma fram allar viðeigandi upplýsingar, þar á meðal sönnunargögn um alvarlegan skaða eða hættu á slíku af völdum aukins innflutnings, nákvæm lýsing á þeirri vöru er um ræðir, upplýsingar um fyrirhugaða ráðstöfun og frá hvaða degi og hversu lengi ráðstöfunin gildir og á hve löngum tíma hún verður afnumin í áföngum.
4.     Sé skilyrðunum, sem sett eru fram í 1. mgr., fullnægt getur samningsaðilinn, sem fæst við innflutning, hækkað tolla af framleiðsluvörunni og skal miða við þann toll sem lægri er:
a)    bestukjaratollur sem er álagður á þeim tíma þegar aðgerðin er framkvæmd eða
b)    bestukjaratollur sem er álagður daginn fyrir gildistöku samnings þessa.

5.     Tvíhliða verndarráðstafanir skulu ekki vara lengur en eitt ár. Við mjög óvenjulegar aðstæður og að lokinni athugun sameiginlegu nefndarinnar er heimilt að gera ráðstafanir til þriggja ára að hámarki. Ekki skal gera tvíhliða verndarráðstöfun vegna innflutnings vöru, hafi slík ráðstöfun áður verið gerð vegna hennar.

6.     Sameiginlega nefndin skal, innan 30 daga frá dagsetningu tilkynningar þeirrar er um getur í 3. mgr., kanna þær upplýsingar sem eru veittar, í því skyni að greiða fyrir lausn málsins þannig að báðir aðilar geti við unað. Ef engin lausn finnst er samningsaðilanum, sem er innflytjandi, heimilt að samþykkja viðeigandi ráðstöfun skv. 4. mgr. til að ráða bót á vandanum. Tilkynna ber hinum samningsaðilunum án tafar um tvíhliða verndarráðstöfun og skal sameiginlega nefndin efna til reglubundins samráðs um þá ráðstöfun, einkum til að gera tímaáætlun um afnám hennar eins fljótt og aðstæður leyfa. Tvíhliða verndarráðstöfun skal fyrst og fremst velja með hliðsjón af því að valdi sem minnstri röskun á framkvæmd samnings þessa.
7.     Þegar tvíhliða verndarráðstöfun lýkur skal leggja þann toll á sem hefði verið gert hefði ekki verið gripið til ráðstöfunarinnar.

8.     Ef aðstæður eru tvísýnar og tafir myndu valda skaða, sem erfitt yrði að bæta, er samningsaðila heimilt að grípa til tvíhliða verndarráðstöfunar til bráðabirgða samkvæmt bráðabirgðamati þess efnis að allt bendi til þess að aukinn innflutningur valdi innlendum iðnaði alvarlegu tjóni eða að hætta sé á því. Samningsaðilinn, sem hyggst grípa til slíkrar ráðstöfunar, skal tilkynna það skriflega öllum samningsaðilunum án tafar. Hefja skal þá málsmeðferð er um getur í 2. til 6. mgr. innan 30 daga frá dagsetningu tilkynningarinnar.
9.     Öllum tvíhliða verndarráðstöfunum til bráðabirgða skal hætt í síðasta lagi innan 200 daga. Gildistími slíkrar tvíhliða verndarráðstöfunar til bráðabirgða skal teljast hluti af þeim tíma sem hin tvíhliða verndarráðstöfun, sem getið er í 5. mgr., varir og framlenging hennar ef við á. Endurgreiða skal tollahækkanir þegar í stað leiði sú athugun sem lýst er í 2. mgr. ekki í ljós að skilyrðum 1. mgr. sé fullnægt.


10.     Fimm árum eftir gildistöku samnings þessa skulu samningsaðilarnir endurskoða í sameiginlegu nefndinni hvort þörf sé á að viðhalda þeim möguleika að grípa til tvíhliða verndarráðastafana þeirra á milli. Ef samningsaðilarnir ákveða, að lokinni fyrstu endurskoðun, að viðhalda fyrrnefndum möguleika skal endurskoðun fara fram í sameiginlegu nefndinni annað hvert ár eftir það.

22. GR.
Undantekningar.

Ákvæði XX. og XXI. gr. GATT-samningsins frá 1994 gilda um réttindi og skyldur samningsaðilanna samkvæmt þessum kafla að því er varðar almennar undanþágur og undanþágur af öryggisástæðum og eru þau hér með felld inn í samning þennan og eru hluti af honum, að breyttu breytanda.

3. KAFLI
HUGVERKAVERND

23. GR.
Hugverkavernd.

1.     Samningsaðilunum ber að gera ráðstafanir til að veita og tryggja nægilega og árangursríka vernd hugverkaréttinda án mismununar og kveða á um ráðstafanir til að vernda þessi réttindi fyrir brotum gegn þeim, eftirlíkingu þeirra og ólöglegri nýtingu, í samræmi við ákvæði þessarar greinar, VI. viðauka og þeirra alþjóðasamninga sem þar er getið.

2.     Samningsaðilarnir skulu ekki veita ríkisborgurum annarra samningsaðila óhagstæðari meðferð en þeir veita eigin ríkisborgurum. Undanþágur frá þessari skyldu skulu vera í samræmi við efnisákvæði 3. og 5. gr. samningsins um Alþjóðaviðskiptastofnunina frá 15. apríl 1994 um hugverkarétt í viðskiptum (hér á eftir nefndur „samningurinn um hugverkarétt í viðskiptum“).
3.     Samningsaðilarnir skulu ekki veita ríkisborgurum annarra samningsaðila lakari meðferð en veitt er ríkisborgurum annarra ríkja. Undanþágur frá þessari skyldu skulu vera í samræmi við efnisákvæði samningsins um hugverkarétt í viðskiptum, einkum 4. og 5. gr.
4.     Samningsaðilarnir samþykkja, að fram kominni beiðni samningsaðila, að endurskoða ákvæði þessarar greinar og VI. viðauka með það í huga að auka þessa vernd enn frekar og forðast eða ráða bót á röskun í viðskiptum sem stafar af verndun hugverkaréttinda eins og hún er núna.

4. KAFLI
FJÁRFESTINGAR, ÞJÓNUSTA OG OPINBER INNKAUP
24. GR.
Fjárfestingar.

1.     Samningsaðilarnir skulu leitast við að skapa stöðug, sanngjörn og gagnsæ skilyrði fyrir fjárfesta hinna samningsaðilanna sem fjárfesta eða hyggjast fjárfesta á yfirráðasvæðum þeirra.
2.     Samningsaðilarnir skulu leyfa fjárfestingar fjárfesta hinna samningsaðilanna í samræmi við lög sín og reglur. Þeir viðurkenna að óviðeigandi er að hvetja til fjárfestinga með því að draga úr kröfum um heilsufar og öryggi eða kröfum á sviði umhverfismála.
3.     Samningsaðilarnir viðurkenna að mikilvægt er að auka flæði fjárfestinga og tækniþekkingar í þágu hagvaxtar og framþróunar. Samvinna á þessu sviði getur falist í:
a)    að finna réttar leiðir til að koma auga á tækifæri til fjárfestinga og upplýsingarásir um þær reglur sem gilda um fjárfestingar,
b)    upplýsingaskiptum um ráðstafanir til að stuðla að fjárfestingum erlendis og
c)    að þróa lagaumhverfi sem hvetur til aukins flæðis fjárfestinga.
4.     Samningsaðilarnir staðfesta þá skuldbindingu sína að endurskoða málefni varðandi fjárfestingar í sameiginlegu nefndinni eigi síðar en fimm árum eftir gildistöku samnings þessa, að meðtöldum staðfesturétti fjárfesta samningsaðila á yfirráðasvæði annars samningsaðila.
5.     Ísland, Liechtenstein og Sviss, annars vegar, og Svartfjallaland, hins vegar, skulu láta vera að grípa til geðþóttaráðstafana eða ráðstafana sem leiða til mismununar að því er varðar fjárfestingar fjárfesta annars samningsaðila sem um getur í þessari málsgrein og virða skuldbindingar sem þau hafa tekið á sig varðandi sérstakar fjárfestingar fjárfestis annars samningsaðila sem um getur í þessari málsgrein.

25. GR.
Þjónustuviðskipti.

1.     Samningsaðilar skulu stefna að því að auka í áföngum frelsi og opna markaði sína í þjónustuviðskiptum í samræmi við ákvæði hins almenna samnings um þjónustuviðskipti (hér á eftir nefndur „samningurinn um þjónustuviðskipti“ (GATS)), með hliðsjón af þeirri vinnu sem nú fer fram á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.
2.     Ef samningsaðili tryggir, eftir gildistöku samnings þessa, aðila, sem stendur utan þessa samnings, aukinn ávinning með tilliti til aðgangs að þjónustumarkaði, skal hann samþykkja að ganga til samningaviðræðna í því augnamiði að annar samningsaðili geti einnig notið þessa ávinnings með gagnkvæmum hætti.
3.     Samningsaðilarnir skuldbinda sig til að endurskoða ákvæði 1. og 2. mgr. í því skyni að koma á samningi um frjálsari þjónustuviðskipti sín á milli í samræmi við V. gr. samningsins um þjónustuviðskipti.

26. GR.
Opinber innkaup.

1.     Samningsaðilarnir skulu efla gagnkvæman skilning á lögum sínum og reglum um opinber innkaup í því skyni að auka stig af stigi viðskiptafrelsi á mörkuðum hvers annars fyrir opinber innkaup, á grundvelli banns við mismunun og á grundvelli gagnkvæmni.
2.     Sérhver samningsaðili skal birta eða veita almenningi aðgang með öðrum hætti að lögum sínum, reglugerðum og stjórnsýsluákvörðunum, sem hafa almennt gildi, og alþjóðasamningum sem hann er aðili að og geta haft áhrif á markaði fyrir innkaup. Sérhver samningsaðili skal þegar í stað svara ákveðnum spurningum og veita öðrum samningsaðila, að fenginni beiðni þar um, upplýsingar um slík málefni.
3.     Ef samningsaðili tryggir, eftir að samningur þessi öðlast gildi, aðila, sem stendur utan hans, aukinn álit með tilliti til aðgangs að mörkuðum fyrir opinber innkaup skal hann samþykkja að ganga til samningaviðræðna í því augnamiði að annar samningsaðili geti notið þessa ávinnings með gagnkvæmum hætti.

5. KAFLI
GREIÐSLUR VEGNA VIÐSKIPTA OG FJÁRMAGNSFLUTNINGAR
27. GR.
Greiðslur vegna yfirstandandi viðskipta.

Samningsaðilarnir skuldbinda sig, með fyrirvara um ákvæði 29. gr., til að heimila að allar greiðslur í yfirstandandi viðskiptum geti farið fram í auðskiptum gjaldmiðli.

28. GR.
Fjármagnsflutningar.

1.     Með fyrirvara um ákvæði 29. gr. skulu samningsaðilarnir tryggja frjálsar yfirfærslur á fé, sem er notað til að fjárfesta í félögum sem eru stofnuð samkvæmt lögum hvers um sig, ágóða af rekstri slíkra félaga og fjármunum sem eftir standa við lok fjárfestinga.
2.     Samningsaðilarnir skulu efna til samráðs í því skyni að greiða fyrir fjármagnsflutningum milli EFTA-ríkjanna og Svartfjallalands og ná fram fullkomnu frelsi í þeim, eins fljótt og aðstæður leyfa.


29. GR.
Erfiðleikar viðvíkjandi greiðslujöfnuði.

Eigi samningsaðili í alvarlegum erfiðleikum með greiðslujöfnuð, eða sé hætta á að slíkir erfiðleikar komi upp, getur hann, samkvæmt þeim skilmálum sem mælt er fyrir um í GATT-samningnum frá 1994, GATS samningnum um þjónustuviðskipti og samningnum um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, gert takmarkandi ráðstafanir viðvíkjandi greiðslum vegna yfirstandandi viðskipta og fjármagnsflutninga ef þær ráðstafanir eru bráðnauðsynlegar. Slíkar ráðstafanir skulu vera tímabundnar, sanngjarnar og án mismununar. Viðkomandi samningsaðila ber að tilkynna hinum samningsaðilunum þegar í stað um slíkar ráðstafanir og leggja fram, eins fljótt og aðstæður leyfa, tímaáætlun um afnám þeirra.

30. GR.
Undantekningar.

Ákvæði a- til c-liðar XIV. gr. og 1. mgr. XIV. gr. a í GATS-samningnum gilda um réttindi og skyldur samningsaðilanna með tilliti til almennra undantekninga og undantekninga af öryggisástæðum og eru þau hér með felld inn í samning þennan og eru hluti af honum, að breyttu breytanda.

6. KAFLI
VIÐSKIPTI OG SJÁLFBÆR ÞRÓUN
31. GR.
Samhengi og markmið.

1.     Samningsaðilarnir vísa til Stokkhólmsyfirlýsingarinnar um umhverfismál frá 1972, Ríó-yfirlýsingarinnar um umhverfi og þróun frá 1992, framkvæmdaráætlunar 21 um umhverfi og þróun frá 1992, yfirlýsingar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um grundvallarviðmið og réttindi við vinnu og ályktunar um hvernig henni verður fylgt eftir frá 1998, Jóhannesarborgar-áætlunarinnar um sjálfbæra þróun frá 2002, ráðherrayfirlýsingar efnahags- og félagsmálaráðs Sameinuðu þjóðanna frá 2006 um atvinnu fyrir alla og mannsæmandi vinnu og yfirlýsingar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um félagslegt réttlæti í þágu sanngjarnrar alþjóðavæðingar frá 2008.
2.     Samningsaðilarnir viðurkenna að efnahagsleg þróun, félagsleg þróun og umhverfisvernd eru sjálfstæðir þættir sem styðja með gagnkvæmum hætti við sjálfbæra þróun. Þeir leggja áherslu á þann ávinning sem felst í samstarfi um viðskiptatengd atvinnu- og umhverfismál sem lið í heildrænni aðkomu að viðskiptum og sjálfbærri þróun.
3.     Samningsaðilarnir árétta þá skuldbindingu sína að stuðla að þróun alþjóðaviðskipta með markmið sjálfbærrar þróunar að leiðarljósi og að fella það markmið inn í viðskiptatengsl samningsaðilanna þannig að það endurspeglist í þeim.


32. GR.
Gildissvið.

Sé ekki er kveðið á um annað í þessum kafla gilda ákvæði hans um þær ráðstafanir sem hafa áhrif á viðskipta- og fjárfestingatengda þætti atvinnu- 1 og umhverfismála og samningsaðilarnir samþykkja eða viðhalda.

33. GR.
Réttur til reglusetningar og verndarstig

1.     Um leið og réttur sérhvers samningsaðila til að ákveða eigin verndarstig umhverfis og atvinnu, með fyrirvara um ákvæði samnings þess, og að samþykkja eða breyta til samræmis viðeigandi lögum sínum og stefnumálum er viðurkenndur, skal sérhver samningsaðili leitast við að tryggja að í lögum hans, stefnumálum og starfsháttum sé gert ráð fyrir og hvatt til þess að komið verði á háu verndarstigi umhverfis og vinnu í samræmi við þær kröfur, meginreglur og samninga er um getur í 35. og 36. gr. og leggja sig fram um að hækka þau verndarstig sem mælt er fyrir um í fyrrnefndum lögum og stefnumálum.
2.     Samningsaðilarnir viðurkenna mikilvægi þess að tekið sé mið af vísindalegum, tæknilegum og öðrum upplýsingum, ásamt viðeigandi alþjóðlegum kröfum, viðmiðunarreglum og tilmælum, þegar þeir undirbúa og gera ráðstafanir vegna umhverfis- og vinnuskilyrði sem hafa áhrif á viðskipti og fjárfestingar þeirra í milli.

34. GR.
Verndunarstigi upphaldið þegar lögum, reglugerðum eða kröfum er beitt eða þeim framfylgt.

1.     Samningsaðili skal ekki láta hjá líða að framfylgja á skilvirkan hátt lögum sínum, reglugerðum eða kröfum um umhverfis- og atvinnumál þannig að hafi áhrif á viðskipti eða fjárfestingar milli samningsaðilanna.
2.     Samningsaðili skal ekki, með fyrirvara um ákvæði 33. gr.:
a)    draga úr eða lækka stig umhverfisverndar sem lög hans, reglugerðir eða kröfur mæla fyrir um, eingöngu í þeim tilgangi að hvetja til fjárfestingar frá öðrum samningsaðila eða að leita eftir eða auka samkeppnisyfirburði framleiðenda eða þjónustuveitenda sem stunda rekstur á yfirráðasvæði hans eðaHér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


1      Þegar vísað er til atvinnumála í þessum kafla er einnig átt við málefni sem varða framkvæmdaráætlunina um mannsæmandi vinnu eins og Alþjóðavinnumálastofnunin samþykkti hana.

b)    fella niður eða víkja með öðrum hætti frá, eða bjóðast til að fella niður eða víkja með öðrum hætti, frá slíkum lögum, reglugerðum eða kröfum í því skyni að hvetja til fjárfestingar frá öðrum samningsaðila eða að leita eftir eða auka samkeppnisyfirburði framleiðenda eða þjónustuveitenda sem stunda rekstur á yfirráðasvæði hans.

35. GR.
Alþjóðlegar kröfur og samningar á sviði atvinnumála.

1.     Samningsaðilarnir vísa til þeirra skuldbindinga sem leiðir af aðild að Alþjóðavinnumálastofnuninni og yfirlýsingar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um grundvallarviðmið og réttindi við vinnu og ályktunar um hvernig henni verður fylgt eftir, sem samþykktar voru á 86. Alþjóðavinnumálaþinginu árið 1998, þ.e. skuldbindinga um að virða, efla og framkvæma meginreglur um grundvallarréttindi, það er meginreglur um:
a)    félagafrelsi og raunhæfa viðurkenningu réttarins til að gera kjarasamninga,
b)    að útrýma þvingunar- eða nauðungarvinnu í hvaða mynd sem er,
c)    að afnema barnavinnu með virkum hætti og
d)    að útrýma mismunun með tilliti til atvinnu og starfa.
2.     Samningsaðilar árétta skuldbindingu sína, samkvæmt ráðherrayfirlýsingu efnahags- og félagsmálaráðs Sameinuðu þjóðanna frá 2006 um atvinnu fyrir alla og mannsæmandi vinnu, um að viðurkenna atvinnu fyrir alla og mannsæmandi vinnu fyrir alla sem meginþætti sjálfbærrar þróunar fyrir öll lönd og sem forgangsmarkmið alþjóðlegrar samvinnu, og um að ýta undir þróun alþjóðaviðskipta þannig að stuðli að atvinnu og mannsæmandi vinnu fyrir alla.


3.     Samningsaðilarnir vísa til skuldbindinga sem leiðir af aðild að Alþjóðavinnumálastofnuninni um að framkvæma með skilvirkum hætti samninga Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem þeir hafa fullgilt, og að halda áfram og með sjálfbærum hætti að fullgilda grundvallarsamninga Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og aðra samninga sem hún hefur flokkað sem uppfærða samninga.
4.     Eigi skal skírskota til brota á grundvallarviðmiðum og réttindum við vinnu eða nota á annan hátt sem lögmæta hlutfallslega yfirburði. Eigi skal nota reglur á sviði vinnumála með viðskiptavernd að markmiði.


36. GR.
Marghliða samningar og meginreglur um umhverfismál.

Samningsaðilarnir árétta skuldbindingu sína þess efnis að innleiða, með skilvirkum hætti, í landsrétt og starfshætti hvers og eins marghliða samninga um umhverfismál, sem þeir eiga aðild að, jafnframt aðild sína að meginreglum um umhverfismál sem birtast í alþjóðlegum gerningum sem um getur í 31. gr.

37. GR.
Efling viðskipta og fjárfestinga sem umhverfið nýtur góðs af.

1.     Samningsaðilarnir skulu kappkosta að greiða fyrir og ýta undir erlenda fjárfestingu og viðskipti með og útbreiðslu vöru og þjónustu, sem koma umhverfinu til góða, þ.m.t. umhverfistækni, sjálfbær endurnýjanleg orka, orkunýtnar og umhverfismerktar vörur og þjónusta, meðal annars með því að taka til skoðunar aðrar viðskiptahindranir en tolla að því er slíkar vörur og þjónustu varðar.
2.     Samningsaðilarnir skulu kappkosta að greiða fyrir erlendum fjárfestingum og viðskiptum með og útbreiðslu vöru og þjónustu, sem ýta undir sjálfbæra þróun, meðal annars vöru og þjónustu sem eru andlag áætlana á borð við heiðarleg og siðferðileg viðskipti.
3.     Samningsaðilar samþykkja, að því er varðar ákvæði 1. og 2. mgr., að skiptast á skoðunum og taka til athugunar, sameiginlega eða tvíhliða, samstarf á þessu sviði.
4.     Samningsaðilarnir skulu hvetja til samstarfs milli fyrirtækja með tilliti til vöru, þjónustu og tækni sem ýta undir sjálfbæra þróun og koma umhverfinu til góða.

38. GR.
Samstarf á alþjóðavettvangi.

Samningsaðilarnir skulu kappkosta að efla samvinnu í málum á sviði vinnu og umhverfis, sem varða viðskipti og fjárfestingar og þar sem um gagnkvæma hagsmuni er að ræða, á viðeigandi tvíhliða, svæðisbundnum og fjölhliða vettvangi þar sem þeir eru þátttakendur.

39. GR.
Framkvæmd og samráð.

1.     Samningsaðilar skulu tilgreina þær stjórnsýslustofnanir sem þjóna sem tengiliðir að því er framkvæmd þessa kafla varðar.
2.     Samningsaðilarnir geta, í gegnum tengiliðina sem um getur í 1. mgr., óskað eftir samráði sérfræðinga eða samráði innan sameiginlegu nefndarinnar vegna hvaða máls sem er sem upp kann að koma í tengslum við ákvæði þessa kafla. Samningsaðilarnir skulu gera sitt ítrasta til að finna lausn á málinu sem allir aðilar geta sætt sig við. Samningsaðilarnir geta leitað ráða hjá viðkomandi alþjóðastofnunum eða alþjóðlegum aðilum, þar sem það á við og með fyrirvara um samkomulag sín á milli.
3.     Telji samningsaðili að ráðstöfun annars samningsaðila samræmist ekki skuldbindingum samkvæmt þessum kafla, getur hann nýtt sér samráð skv. 1.–3. mgr. 42. gr.

40. GR.
Endurskoðun.

Samningsaðilarnir skulu leggja mat á, innan sameiginlegu nefndarinnar, hvernig hefur miðað að ná þeim markmiðum sem sett eru fram í þessum kafla og taka til athugunar alþjóðlega þróun á þessu sviði til þess að koma auga á þau svið þar sem frekari aðgerðir gætu stuðlað að þessum markmiðum.

7. KAFLI
STOFNANAÁKVÆÐI
41. GR.
Sameiginlega nefndin.

1.     Samningsaðilarnir koma hér með á fót sameiginlegri nefnd EFTA-ríkjanna og Svartfjallalands. Hún skal skipuð fulltrúum samningsaðilanna og skulu háttsettir embættismenn gegna formennsku í henni.
2.     Sameiginlega nefndin skal:
a)    hafa umsjón með og endurskoða framkvæmd samnings þessa, m.a. með því að fara ítarlega yfir það hvernig ákvæðum hans er beitt, að teknu tilhlýðilegu tilliti til sérstakrar endurskoðunar sem samningur þessi kveður á um,

b)    endurskoða reglulega þann kost að afnema enn frekar viðskiptahindranir og aðrar takmarkandi reglur í viðskiptum milli EFTA-ríkjanna og Svartfjallalands,
c)    hafa umsjón með frekari þróun þessa samnings,

d)    hafa yfirumsjón með starfi allra undirnefnda og vinnuhópa sem komið er á fót samkvæmt samningi þessum,
e)    leitast við að leysa deilumál sem upp kunna að koma í tengslum við túlkun eða beitingu ákvæða samnings þessa og
f)    taka til umfjöllunar hvert það mál annað sem gæti haft áhrif á framkvæmd samnings þessa.
3.     Sameiginlega nefndin getur ákveðið að skipa undirnefndir og vinnuhópa sem hún telur þörf á sér til aðstoðar við störf sín. Undirnefndirnar og vinnuhóparnir skulu starfa í umboði sameiginlegu nefndarinnar, nema kveðið sé sérstaklega á um annað í samningi þessum.

4.     Sameiginlega nefndin getur tekið ákvarðanir eins og kveðið er á um í samningi þessum. Í öðrum málum er sameiginlegu nefndinni heimilt að koma fram með tilmæli.
5.     Ákvarðanir og tilmæli sameiginlegu nefndarinnar skulu samþykkt samhljóða.
6.     Sameiginlega nefndin heldur fundi þegar nauðsyn krefur með gagnkvæmu samkomulagi, en að öllu jöfnu annað hvert ár. Eitt EFTA-ríkjanna og Svartfjallaland skulu gegna formennsku sameiginlega á fundum sameiginlegu nefndarinnar. Sameiginlega nefndin setur sér starfsreglur.
7.     Sérhver samningsaðili getur, hvenær sem er og með skriflegri tilkynningu til hinna samningsaðilanna, farið fram á að sérstakur fundur sé haldinn í sameiginlegu nefndinni. Slíkur fundur skal haldinn innan 30 daga frá viðtökudegi beiðninnar, nema samningsaðilar komi sér saman um annað.
8.     Sameiginlega nefndin getur ákveðið að breyta viðaukunum við samning þennan, þ.m.t. viðbætunum við þá. Hún getur ákveðið gildistökudag slíkra ákvarðana, sbr. þó ákvæði 9. mgr.

9.     Ef fulltrúi samningsaðila í sameiginlegu nefndinni hefur samþykkt ákvörðun með fyrirvara um að stjórnskipuleg skilyrði séu uppfyllt, skal ákvörðunin öðlast gildi á þeim degi þegar síðasti samningsaðilinn tilkynnir að innlend skilyrði hans hafi verið uppfyllt, nema síðari dagsetning sé tilgreind í ákvörðuninni sjálfri. Sameiginlega nefndin getur ákveðið að ákvörðunin skuli öðlast gildi að því er varðar þá samningsaðila sem hafa uppfyllt innlend skilyrði sín, að því tilskildu að Svartfjallaland sé einn þessara samningsaðila. Samningsaðila er heimilt að beita ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar til bráðabirgða þar til ákvörðunin öðlast gildi gagnvart þeim samningsaðila, með fyrirvara um stjórnskipuleg skilyrði hans.

8 . KAFLI
LAUSN DEILUMÁLA
42. GR.
Samráð.

1.     Komi í ljós að túlkun, framkvæmd og beiting samnings þessa sé með mismunandi hætti skulu samningsaðilarnir, á grundvelli samvinnu og samráðs, gera sitt ítrasta til að finna lausn sem samningsaðilar geta sætt sig við.
2.     Samningsaðili getur, með skriflegum hætti, farið fram á samráð við annan samningsaðila um ráðstafanir sem hafa verið gerðar eða eru fyrirhugaðar eða önnur málefni sem hann telur að haft geti áhrif á framkvæmd samnings þessa. Samningsaðili, sem fer fram á samráð, skal jafnframt tilkynna hinum samningsaðilunum skriflega um það og veita allar viðeigandi upplýsingar.
3.     Efna skal til samráðs í sameiginlegu nefndinni, ef einhver samningsaðilanna fer fram á það, innan 20 daga frá viðtökudegi tilkynningarinnar, sem um getur í 2. mgr., með það í huga að finna lausn sem allir samningsaðilar geta sætt sig við.
4.     Ef samningsaðili, sem beiðni er beint til skv. 2. mgr., svarar ekki innan tíu daga, eða hefur ekki viðræður innan 20 daga frá viðtökudegi beiðninnar, hefur samningsaðilinn, sem ber fram beiðnina, rétt til að krefjast þess að settur verði á stofn gerðardómur skv. 43. gr.


43. GR.
Gerðardómsmeðferð.

1.     Deilur milli samningsaðila, sem lúta að túlkun á réttindum og skyldum samkvæmt samningi þessum og ekki hefur tekist að leysa í beinum viðræðum í sameiginlegu nefndinni innan 60 daga frá viðtökudegi beiðni um samráð, getur sá samningsaðili sem ber fram kvörtun lagt í gerð með skriflegri beiðni til samningsaðilans sem kvörtun beinist gegn. Afrit af beiðninni skal senda öllum hinum samningsaðilunum þannig að þeir geti ákveðið hvort þeir vilji eiga hlut að deilumálinu.

2.     Ef fleiri en einn samningsaðili fer fram á stofnun gerðardóms vegna sama máls eða ef beiðnin varðar fleiri en einn samningsaðila, sem kvörtun beinist gegn, skal, ávallt þegar því verður komið við, stofna einn gerðardóm til þess að fjalla um slík deilumál. 2


3.     Samningsaðli, sem er ekki deiluaðili, skal, samhliða því að afhenda deiluaðilum skriflega beiðni, eiga rétt á að leggja skrifleg gögn fyrir gerðardóminn, fá afhent skrifleg gögn, þ.m.t. viðaukar, sem deiluaðilar leggja fram, vera viðstaddur málsmeðferð og gefa munnlegar yfirlýsingar.
4.     Í gerðardómi skulu sitja þrír gerðarmenn tilnefndir samkvæmt „valkvæðum reglum Alþjóðagerðardómsins í Haag um gerðardómsmeðferð deilna milli tveggja ríkja“, sem tóku gildi 20. október 1992, (hér á eftir nefndar „valkvæðu reglurnar“).


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


2      Í þessum kafla geta hugtökin „samningsaðili“, „deiluaðili“, „samningsaðili sem ber fram kvörtun“ og „samningsaðili sem kvörtun beinist gegn“ merkt einn samningsaðila eða fleiri.

5.     Gerðardómurinn skal fjalla um það mál er um getur í beiðninni um stofnun gerðardóms í samræmi við ákvæði samnings þessa sem er beitt og eru túlkuð samkvæmt reglum um túlkun ákvæða þjóðaréttar. Úrskurður gerðardóms er endanlegur og bindandi fyrir deiluaðila. Úrskurðir gerðardóms skulu birtir opinberlega, nema deiluaðilarnir komi sér saman um annað.


6.     Málsmeðferð skal fara fram á ensku. Málflutningur fyrir gerðardómi skal fara fram fyrir opnum tjöldum, nema deiluaðilarnir komi sér saman um annað. Sérhver samningsaðili skal fara með upplýsingar, sem aðrir samningsaðilar senda gerðardómi og merkja trúnaðarupplýsingar, sem trúnaðarmál.

7.     Enginn skal hafa einhliða samskipti við gerðardóminn um þau mál sem hann hefur til umfjöllunar.

8.     Úrskurður gerðardóms skal liggja fyrir innan 180 daga frá því að forseti gerðardómsins var skipaður. Framlengja má þennan frest um aðra 90 daga ef deiluaðilar samþykkja það.

9.     Deiluaðilar skulu skipta jafnt með sér útgjöldum gerðardómsins, þ.m.t. þóknanir til gerðarmanna.

10.     Valkvæðu reglurnar gilda, að breyttu breytanda, nema annað sé tekið fram í samningi þessum eða deiluaðilar samþykki annað.

44. GR.
Fullnusta úrskurðar.

1.     Sá samningsaðili sem kvörtun beinist gegn skal hlíta úrskurði gerðardóms þegar í stað. Ef ekki reynist unnt að hlíta úrskurði gerðardóms þegar í stað, skulu deiluaðilar leitast við að semja um hæfilegan frest til þess. Liggi slíkt samkomulag ekki fyrir innan 30 daga frá dagsetningu gerðardómsúrskurðar, getur annar deiluaðila farið fram á það, innan tíu daga áður en fresturinn rennur út, að upphaflegi gerðardómurinn úrskurði um hæfilegan frest.

2.     Viðkomandi samningsaðili skal tilkynna hinum deiluaðilanum skriflega um þá ráðstöfun sem samþykkt hefur verið til fullnustu gerðardómsúrskurðar.
3.     Hlíti viðkomandi samningsaðili ekki gerðardómsúrskurði innan hæfilegs frests og hafi deiluaðilar ekki samið um bætur, getur hinn deiluaðilinn, uns gerðardómsúrskurði hefur verið hlítt eða deilumálið leyst á annan hátt og að því tilskildu að hann tilkynni um það með 30 daga fyrirvara, frestað ávinningi sem veittur hefur verið samkvæmt samningi þessum, en aðeins að jafngildi þess ávinnings sem ráðstöfunin, sem gerðardómur hefur ákveðið að brjóti í bága við ákvæði samnings þessa, hefur haft áhrif á.
4.     Upprunalegi gerðardómurinn skal taka ákvörðun um sérhvert deilumál, sem varðar fullnustu úrskurðar hans eða þá frestun sem hefur verið tilkynnt, að beiðni annars hvors deiluaðila áður en unnt er fresta ávinningi. Gerðardómur getur einnig úrskurðað um það hvort framkvæmdarráðstafanir, sem samþykktar eru eftir frestun ávinnings, samræmist gerðardómsúrskurðinum og hvort frestun ávinnings skulu hætt eða henni breytt. Úrskurður gerðardóms samkvæmt þessari málsgrein skal að öllu jöfnu felldur innan 45 daga frá viðtökudegi beiðninnar.


9. KAFLI
LOKAÁKVÆÐI
45. GR.
Efndir skuldbindinga.

Samningsaðilarnir skulu gera allar almennar eða sértækar ráðstafanir til að efna skuldbindingar sínar samkvæmt samningi þessum.

46. GR.
Viðaukar.

Viðaukar við samning þennan, að meðtöldum viðbætum við þá, eru óaðskiljanlegur hluti hans.

47. GR.
Þróunarákvæði.

Samningsaðilarnir skuldbinda sig til að endurskoða samning þennan í ljósi frekari þróunar samskipta á alþjóðavettvangi í efnahagslegu tilliti, meðal annars á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, og kanna, í þessu samhengi og í ljósi annarra þátta sem máli skipta, tækifæri til að þróa frekar og efla samstarf sín á milli samkvæmt samningi þessum og til að færa það út til sviða sem hann tekur ekki til. Sameiginlega nefndin skal kanna þennan kost reglulega og senda samningsaðilunum tilmæli, þegar það á við, einkum í því augnamiði að hefja samningsviðræður.

48. GR.
Breytingar.

1.     Samningsaðilarnir geta komið sér saman um breytingar á samningi þessum. Breytingar á samningi þessum, aðrar en þær er um getur í 8. mgr. 41. gr., skal senda samningsaðilunum til fullgildingar, staðfestingar eða samþykkis. Breytingarnar öðlast gildi á fyrsta degi þriðja mánaðar eftir að síðasta skjalið um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki hefur verið afhent til vörslu, nema samningsaðilarnir ákveði annað.
2.     Texta breytinga og skjöl um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki skal afhenda vörsluaðila til vörslu.

49. GR.
Aðild.

1.     Sérhvert ríki, sem gerist aðili að Fríverslunarsamtökum Evrópu, getur gerst aðili að samningi þessum, svo fremi sameiginlega nefndin samþykki aðild þess með þeim skilmálum og skilyrðum sem samningsaðilarnir verða ásátt um. Aðildarskjalið skal afhenda vörsluaðila til vörslu.
2.     Að því er varðar ríki sem gerist aðili skal samningur þessi öðlast gildi á fyrsta degi þriðja mánaðar eftir að skjal þess um aðild hefur verið afhent til vörslu eða þeir samningsaðilar sem fyrir eru hafa samþykkt aðildarskilmála, hvort sem síðar verður.

50. GR.
Úrsögn og gildislok.

1.     Samningsaðili getur sagt sig frá samningi þessum með því að tilkynna vörsluaðila um það skriflega. Úrsögn tekur gildi sex mánuðum eftir þann dag þegar vörsluaðili veitir tilkynningunni viðtöku.

2.     Þann dag þegar Svartfjallaland verður aðili að Evrópusambandinu fellur samningur þessi úr gildi, af þeim sökum.
3.     Ef EFTA-ríki segir sig frá samningnum um stofnun Fríverslunarsamtaka Evrópu fellur aðild þess að samningi þessum af þeim sökum niður sama dag og úrsögnin tekur gildi.


51. GR.
Gildistaka.

1.     Samningur þessi er með fyrirvara um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki í samræmi við stjórnskipuleg skilyrði hvers samningsaðila. Skjöl um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki skulu afhent vörsluaðila til vörslu.
2.     Samningur þessi öðlast gildi 1. júlí 2012 gagnvart þeim samningsaðilum sem hafa afhent vörsluaðila skjöl sín um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki til vörslu, eða tilkynnt honum um að þeir beiti ákvæðum samningsins til bráðabirgða, eigi síðar en tveimur mánuðum fyrir fyrrnefnda dagsetningu og að því tilskildu að að minnsta kosti eitt EFTA-ríki og Svartfjallaland séu í hópi þeirra samningsaðila.
3.     Öðlist samningur þessi ekki gildi 1. júlí 2012 öðlast hann gildi fyrsta dag þriðja mánaðar eftir að a.m.k. eitt EFTA-ríki og Svartfjallaland hafa afhent vörsluaðila til vörslu skjöl sín um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki.

4.     Fyrir EFTA-ríki, sem afhendir skjal sitt um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki til vörslu eftir að samningur þessi öðlast gildi, skal samningur þessi öðlast gildi fyrsta dag þriðja mánaðar eftir að skjal þess um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki hefur verið afhent til vörslu.
5.     Samningsaðili getur, sé það heimilt samkvæmt stjórnskipulegum skilyrðum hans, beitt ákvæðum samnings þessa til bráðabirgða meðan þess er beðið að hann fullgildi samninginn, staðfesti hann eða samþykki. Vörsluaðila skal tilkynnt um beitingu ákvæða samnings þessa til bráðabirgða.

52. GR.
Vörsluaðili

Ríkisstjórn Noregs skal vera vörsluaðili.


ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa undirrituð, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað samning þennan.


Gjört í Genf 14. nóvember 2011 í einu frumriti á ensku. Vörsluaðili skal senda öllum samningsaðilunum staðfest endurrit.


Fyrir hönd Íslands     Fyrir hönd Svartfjallalands
.....................................     ............................................

Fyrir hönd Furstadæmisins Liechtensteins
.....................................

Fyrir hönd Konungsríkisins Noregs
.....................................

Fyrir hönd Ríkjasambandsins Sviss
.....................................

FREE TRADE AGREEMENT
BETWEEN
THE EFTA STATES
AND
MONTENEGRO


PREAMBLE


Iceland, the Principality of Liechtenstein, the Kingdom of Norway, and the Swiss Confederation (hereinafter referred to as the “EFTA States”), on the one part,

and Montenegro, on the other,

hereinafter individually referred to as a “Party” or collectively as the “Parties”:


RECOGNISING the common wish to strengthen the links between the EFTA States on the one part and Montenegro on the other by establishing close and lasting relations;

RECALLING their intention to participate actively in the process of Euro-Mediterranean economic integration and expressing their preparedness to cooperate in seeking ways and means to strengthen this process;

REAFFIRMING their commitment to democracy, the rule of law, human rights and fundamental freedoms in accordance with their obligations under international law, including as set out in the United Nations Charter and the Universal Declaration of Human Rights;

DESIRING to create favourable conditions for the development and diversification of trade between them and for the promotion of commercial and economic cooperation in areas of common interest on the basis of equality, mutual benefit, non-discrimination and international law;

DETERMINED to promote and further strengthen the multilateral trading system, building on their respective rights and obligations under the Marrakesh Agreement establishing the World Trade Organisation (hereinafter referred to as the “WTO Agreement”) and the other agreements negotiated thereunder, thereby contributing to the harmonious development and expansion of world trade;

REAFFIRMING their commitment to pursue the objective of sustainable development and recognising the importance of coherence and mutual supportiveness of trade, environment and labour policies in this respect;

RECALLING their rights and obligations under multilateral environmental agreements to which they are party, and the respect for the fundamental principles and rights at work, including the principles set out in the relevant International Labour Organisation (hereinafter referred to as the “ILO”) Conventions to which they are party;

AIMING to create new employment opportunities and to improve living standards, along with high levels of protection of health and safety and of the environment;

DETERMINED to implement this Agreement in line with the objective to preserve and protect the environment through sound environmental management and to promote an optimal use of the world's resources in accordance with the objective of sustainable development;

AFFIRMING their commitment to prevent and combat corruption in international trade and investment, and to promote the principles of transparency and good public governance;

ACKNOWLEDGING the importance of good corporate governance and corporate social responsibility for sustainable development, and affirming their aim to encourage enterprises to observe internationally recognised guidelines and principles in this respect, such as the OECD Guidelines for Multinational Enterprises, the OECD Principles of Corporate Governance and the UN Global Compact;

DECLARING their readiness to examine the possibility of developing and deepening their economic relations in order to extend them to fields not covered by this Agreement;

CONVINCED that this Agreement will enhance the competitiveness of their firms in global markets and create conditions encouraging economic, trade and investment relations between them;


HAVE DECIDED, in pursuit of the above, to conclude the following Free Trade Agreement (hereinafter referred to as “this Agreement”):

CHAPTER 1
GENERAL PROVISIONS
ARTICLE 1
Objectives

1.     The EFTA States and Montenegro shall establish a free trade area by means of this Agreement and the complementary Agreements on Agriculture, concurrently concluded between each individual EFTA State and Montenegro, with a view to spurring prosperity and sustainable development in their territories.
2.     The objectives of this Agreement, which is based on trade relations between market economies and on the respect of democratic principles and human rights, are:
(a)    to achieve the liberalisation of trade in goods, in conformity with Article XXIV of the General Agreement on Tariffs and Trade 1994 (hereinafter referred to as the “GATT 1994”);
(b)    to mutually increase investment opportunities between the Parties, and to gradually develop an environment conducive to enhanced trade in services;
(c)    to provide fair conditions of competition for trade between the Parties and to ensure adequate and effective protection of intellectual property rights;
(d)    to gradually achieve further liberalisation on a mutual basis of the government procurement markets of the Parties;
(e)    to develop international trade in such a way as to contribute to the objective of sustainable development and to ensure that this objective is integrated and reflected in the Parties' trade relationship; and
(f)    to contribute in this way to the harmonious development and expansion of world trade.

ARTICLE 2
Trade Relations Governed by this Agreement

1.     This Agreement shall apply to trade relations between, on the one side, the individual EFTA States and, on the other side, Montenegro, but not to the trade relations between individual EFTA States, unless otherwise provided for in this Agreement.
2.     As a result of the customs union established by the Customs Treaty of 29 March 1923 between Switzerland and Liechtenstein, Switzerland shall represent Liechtenstein in matters covered thereby.

ARTICLE 3
Relation to Other International Agreements

1.     The Parties confirm their rights and obligations under the WTO Agreement, the other agreements negotiated thereunder to which they are party, and any other international agreement to which they are party.
2.     The provisions of this Agreement shall be without prejudice to the interpretation or application of rights and obligations under any other international agreement relating to investment to which one or several EFTA States and Montenegro are parties.
3.     If a Party considers that the maintenance or establishment of a customs union, a free trade area, an arrangement for frontier trade or another preferential agreement by another Party has the effect of altering the trade regime provided for by this Agreement, it may request consultations with that Party. That Party shall afford adequate opportunity for consultations with the requesting Party.


ARTICLE 4
Territorial Application

1.     This Agreement shall, except as otherwise specified in Article 8, apply:
(a)    to the land territory, internal waters, and the territorial sea of a Party, and the air-space above the territory of a Party, in accordance with international law; and
(b)    beyond the territorial sea, with respect to measures taken by a Party in the exercise of its sovereign rights or jurisdiction in accordance with international law.
2.     This Agreement shall not apply to the Norwegian territory of Svalbard, with the exception of trade in goods.

ARTICLE 5
Central, Regional and Local Government

Each Party shall ensure within its territory the observance of all obligations and commitments under this Agreement by its respective central, regional and local governments and authorities, and by non- governmental bodies in the exercise of governmental powers delegated to them by central, regional and local governments or authorities.

ARTICLE 6
Transparency

1.     Each Party shall publish or otherwise make publicly available its laws, regulations, judicial decisions, administrative rulings of general application and the international agreements to which it is party that may affect the operation of this Agreement.
2.     A Party shall promptly respond to specific questions and provide, upon request, information to an other Party on matters referred to in paragraph 1. The Parties are not required to disclose confidential information.

CHAPTER 2
TRADE IN GOODS
ARTICLE 7
Scope

1.     This Chapter applies to the following products:
(a)    products classified under Chapters 25 to 97 of the Harmonized Commodity Description and Coding System (HS), subject to Annex I;
(b)    processed agricultural products specified in Annex II, with due regard to the arrangements provided for in that Annex; and
(c)    fish and other marine products as provided for in Annex III.
2.     Each EFTA State and Montenegro have concluded agreements concerning trade in agricultural products on a bilateral basis. These agreements form part of the instruments establishing a free trade area between the EFTA States and Montenegro.

ARTICLE 8
Rules of Origin and Administrative Cooperation

1.     The rights and obligations of the Parties in respect of rules of origin and administrative cooperation between the customs authorities of the Parties shall be governed by the Regional Convention on Pan-Euro-Mediterranean Preferential Rules of Origin (hereinafter referred to as the “Convention”), except as provided for under paragraph 2 and without prejudice to Article 15.
2.     For processed agricultural products referred to in Annex II, Article 3 of Appendix I to the Convention shall apply, mutatis mutandis, allowing only for bilateral cumulation between the Parties.
3.     If a Party withdraws from the Convention, the Parties shall immediately enter into negotiations on new rules of origin applicable to this Agreement. Until such rules enter into force, the rules of origin contained in the Convention shall apply to this Agreement, mutatis mutandis, allowing only for cumulation between the Parties.

ARTICLE 9
Customs Duties

1.     Upon entry into force of this Agreement, the Parties shall abolish all customs duties and charges having equivalent effect to customs duties on imports and exports of products originating in an EFTA State or in Montenegro covered by subparagraph 1 (a) of Article 7. No new customs duties shall be introduced.
2.     Customs duties and charges having equivalent effect to customs duties include any duty or charge of any kind imposed in connection with the importation or exportation of a product, including any form of surtax or surcharge, but does not include any charge imposed in conformity with Articles III and VIII of the GATT 1994.

ARTICLE 10
Quantitative Restrictions

With respect to the rights and obligations of the Parties concerning quantitative restrictions, Article XI of the GATT 1994 shall apply and is hereby incorporated into and made part of this Agreement, mutatis mutandis.

ARTICLE 11
Internal Taxation and Regulations

1.     The Parties commit themselves to apply any internal taxes and other charges and regulations in accordance with Article III of the GATT 1994 and other relevant WTO Agreements.

2.     Exporters may not benefit from repayment of internal taxes in excess of the amount of indirect taxation imposed on products exported to the territory of a Party.

ARTICLE 12
Sanitary and Phytosanitary Measures

1.     The rights and obligations of the Parties in respect of sanitary and phytosanitary measures shall be governed by the WTO Agreement on the Application of Sanitary and Phytosanitary Measures.

2.     The Parties shall exchange names and addresses of contact points with sanitary and phytosanitary expertise in order to facilitate communication and the exchange of information.

ARTICLE 13
Technical Regulations

1.     The rights and obligations of the Parties in respect of technical regulations, standards and conformity assessment shall be governed by the WTO Agreement on Technical Barriers to Trade.

2.     The Parties shall strengthen their cooperation in the field of technical regulations, standards and conformity assessment, with a view to increasing the mutual understanding of their respective systems and facilitating access to their respective markets.

ARTICLE 14
Trade Facilitation

With the aim to facilitate trade between the EFTA States and Montenegro in accordance with the provisions set out in Annex IV, the Parties shall:

(a)    simplify, to the greatest extent possible, procedures for trade in goods and related services;

(b)    promote cooperation among them in order to enhance their participation in the development and implementation of international conventions and recommendations on trade facilitation; and
(c)    cooperate on trade facilitation within the framework of the Joint Committee.

ARTICLE 15
Sub-Committee on Rules of Origin, Customs Procedures and Trade Facilitation

1.     With reference to Articles 8 and 14, a Sub- Committee of the Joint Committee on Rules of Origin, Customs Procedures and Trade Facilitation (hereinafter referred to as the “Sub-Committee”) is hereby established.
2.     The mandate of the Sub-Committee is set out in Annex V.

ARTICLE 16
State Trading Enterprises

With respect to the rights and obligations of the Parties concerning state trading enterprises, Article XVII of the GATT 1994 and the Understanding on the Interpretation of Article XVII of the GATT 1994 shall apply and are hereby incorporated into and made part of this Agreement, mutatis mutandis.


ARTICLE 17
Rules of Competition Concerning Undertakings

1.     The following are incompatible with the proper functioning of this Agreement in so far as they may affect trade between an EFTA State and Montenegro:
(a)    all agreements between undertakings, decisions by associations of undertakings and concerted practices between undertakings which have as their object or effect the prevention, restriction or distortion of competition; and
(b)    abuse by one or more undertakings of a dominant position in the territory of a Party as a whole or in a substantial part thereof.
2.     The provisions of paragraph 1 shall apply to the activities of public undertakings and undertakings for which a Party grants special or exclusive rights, in so far as the application of these provisions does not obstruct the performance, in law or in fact, of the particular public tasks assigned to them.
3.     The provisions of paragraphs 1 and 2 shall not be construed to create any direct obligations for undertakings.
4.     If a Party considers that a given practice is incompatible with the provisions of paragraphs 1 and 2, it may request consultations in the Joint Committee. The Parties concerned shall give to the Joint Committee all the assistance required in order to examine the case and, where appropriate, eliminate the practice objected to. If the Party concerned fails to put an end to the practice objected to within the period set by the Joint Committee, or if the Joint Committee fails to reach an agreement after consultations, or after 30 days following referral for such consultations, the Party requesting consultations may adopt appropriate measures to deal with the difficulties resulting from the practice in question.

ARTICLE 18
Subsidies and Countervailing Measures

1.     The rights and obligations of the Parties relating to subsidies and countervailing measures shall be governed by Articles VI and XVI of the GATT 1994 and the WTO Agreement on Subsidies and Countervailing Measures, except as provided for in paragraph 2.
2.     Before an EFTA State or Montenegro, as the case may be, initiates an investigation to determine the existence, degree and effect of any alleged subsidy in an EFTA State or in Montenegro, as provided for in Article 11 of the WTO Agreement on Subsidies and Countervailing Measures, the Party considering initiating an investigation shall notify in writing the Party whose goods are subject to investigation and allow for a 45-day period with a view to finding a mutually acceptable solution. The consultations shall take place in the Joint Committee if any Party so requests within 20 days from the date of receipt of the notification.

ARTICLE 19
Anti-dumping

A Party shall not apply anti-dumping measures as provided for under Article VI of the GATT 1994 and the WTO Agreement on Implementation of Article VI of the GATT 1994 in relation to products originating in another Party.


ARTICLE 20
Global Safeguard Measures

The rights and obligations of the Parties in respect of global safeguards shall be governed by Article XIX of the GATT 1994 and the WTO Agreement on Safeguards. In taking global safeguard measures, a Party shall exclude imports of an originating product from one or several Parties if such imports do not in and of themselves cause or threaten to cause serious injury. The Party taking the measure shall demonstrate that such exclusion is in accordance with WTO rules and practice.ARTICLE 21
Bilateral Safeguard Measures

1.     Where, as a result of the reduction or elimination of a customs duty under this Agreement, any product originating in a Party is being imported into the territory of another Party in such increased quantities, in absolute terms or relative to domestic production, and under such conditions as to constitute a substantial cause of serious injury or threat thereof to the domestic industry of like or directly competitive products in the territory of the importing Party, the importing Party may take bilateral safeguard measures to the minimum extent necessary to remedy or prevent the injury, subject to the provisions of paragraphs 2 to 10.

2.     Bilateral safeguard measures shall only be taken upon clear evidence that increased imports have caused or are threatening to cause serious injury pursuant to an investigation in accordance with the procedures laid down in the WTO Agreement on Safeguards.
3.     The Party intending to take a bilateral safeguard measure under this Article shall immediately, and in any case before taking a measure, make notification to the other Parties. The notification shall contain all pertinent information, including evidence of serious injury or threat thereof caused by increased imports, a precise description of the product concerned and the proposed measure, as well as the proposed date of introduction, expected duration and timetable for the progressive removal of the measure.
4.     If the conditions set out in paragraph 1 are met, the importing Party may increase the rate of customs duty for the product to a level not exceeding the lesser of:
(a)    the MFN rate of duty applied at the time the action is taken; or
(b)    the MFN rate of duty applied on the day immediately preceding the date of the entry into force of this Agreement.
5.     Bilateral safeguard measures shall be taken for a period not exceeding one year. In very exceptional circumstances, after review by the Joint Committee, measures may be taken up to a total maximum period of three years. No bilateral safeguard measure shall be applied to the import of a product which has previously been subject to such a measure.
6.     The Joint Committee shall, within 30 days from the date of notification referred to in paragraph 3, examine the information provided in order to facilitate a mutually acceptable resolution of the matter. In the absence of such resolution, the importing Party may adopt a measure pursuant to paragraph 4 to remedy the problem. The bilateral safeguard measure shall be immediately notified to the other Parties and shall be the subject of periodic consultations in the Joint Committee, particularly with a view to establishing a timetable for their abolition as soon as circumstances permit. In the selection of the bilateral safeguard measure, priority must be given to the measure which least disturbs the functioning of this Agreement.
7.     Upon termination of the bilateral safeguard measure, the rate of customs duty shall be the rate which would have been in effect but for the measure.
8.     In critical circumstances, where delay would cause damage which would be difficult to repair, a Party may take a provisional bilateral safeguard measure pursuant to a preliminary determination that there is clear evidence that increased imports constitute a substantial cause of serious injury, or threat thereof, to its domestic industry. The Party intending to take such a measure shall immediately notify in writing the other Parties. Within 30 days of the date of the notification, the procedures set out in paragraphs 2 to 6 shall be initiated.
9.     Any provisional bilateral safeguard measures shall be terminated within 200 days at the latest. The period of application of any such provisional bilateral safeguard measure shall be counted as part of the duration of the bilateral safeguard measure set out in paragraph 5 and any extension thereof. Any tariff increases shall be promptly refunded if the investigation described in paragraph 2 does not result in a finding that the conditions of paragraph 1 are met.
10.     Five years after the date of entry into force of this Agreement, the Parties shall review in the Joint Committee whether there is need to maintain the possibility to take bilateral safeguard measures be tween them. If the Parties decide, after the first review, to maintain such possibility, they shall thereafter conduct biennial reviews of this matter in the Joint Committee.

ARTICLE 22
Exceptions

With respect to the rights and obligations of the Parties under this Chapter concerning general and security exceptions, Articles XX and XXI of the GATT 1994 shall apply and are hereby incorporated into and made part of this Agreement, mutatis mutandis.

CHAPTER 3
PROTECTION OF INTELLECTUAL PROPERTY
ARTICLE 23
Protection of Intellectual Property

1.     The Parties shall grant and ensure adequate, effective and non-discriminatory protection of intellectual property rights, and provide for measures for the enforcement of such rights against infringement thereof, counterfeiting and piracy, in accordance with the provisions of this Article, Annex VI and the international agreements referred to therein.
2.     The Parties shall accord to each other's nationals treatment no less favourable than that they accord to their own nationals. Exemptions from this obligation must be in accordance with the substantive provisions of Articles 3 and 5 of the WTO Agreement of 15 April 1994 on Trade-Related Aspects of Intellectual Property Rights (hereinafter referred to as the “TRIPS Agreement”).
3.     The Parties shall grant to each other's nationals treatment no less favourable than that accorded to nationals of any other State. Exemptions from this obligation must be in accordance with the substantive provisions of the TRIPS Agreement, in particular Articles 4 and 5 thereof.
4.     The Parties agree, upon request of any Party, to review this Article and Annex VI with a view to further improving the levels of protection and to avoiding or remedying trade distortions caused by the current levels of protection of intellectual property rights.

CHAPTER 4
INVESTMENT, SERVICES AND GOVERNMENT PROCUREMENT
ARTICLE 24
Investment

1.     The Parties shall endeavour to provide stable, equitable and transparent investment conditions for investors of the other Parties that are making or seeking to make investments in their territories.
2.     The Parties shall admit investments by investors of the other Parties in accordance with their laws and regulations. They recognise that it is inappropriate to encourage investment by relaxing health, safety or environmental standards.

3.     The Parties recognise the importance of promoting investment and technology flows as a means for achieving economic growth and development. Cooperation in this respect may include:
(a)    appropriate means of identifying investment opportunities and information channels on investment regulations;
(b)    exchange of information on measures to promote investment abroad; and
(c)    the furthering of a legal environment conducive to increased investment flows.
4.     The Parties affirm their commitment to reviewing issues related to investment in the Joint Committee no later than five years after the entry into force of this Agreement, including the right of establishment of investors of a Party in the territory of another Party.
5.     Iceland, Liechtenstein and Switzerland, on the one part, and Montenegro, on the other, shall refrain from arbitrary or discriminatory measures regarding investments by investors of another Party mentioned in this paragraph and shall observe obligations they have entered into with regard to specific investments by an investor of another Party mentioned in this paragraph.

ARTICLE 25
Trade in Services

1.     The Parties shall aim at gradually liberalising and opening their markets for trade in services in accordance with the provisions of the General Agreement on Trade in Services (hereinafter referred to as the “GATS”), taking into account ongoing work under the auspices of the WTO.

2.     If a Party grants to a non-Party, after the entry into force of this Agreement, additional benefits with regard to the access to its services markets, it shall agree to enter into negotiations with a view to extending these benefits to another Party on a reciprocal basis.

3.     The Parties undertake to keep under review paragraphs 1 and 2 with a view to establishing an agreement liberalising trade in services between them in accordance with Article V of the GATS.

ARTICLE 26
Government Procurement

1.     The Parties shall enhance their mutual understanding of their government procurement laws and regulations with a view to progressively liberalising their respective procurement markets on the basis of non-discrimination and reciprocity.

2.     Each Party shall publish its laws, or otherwise make publicly available its laws, regulations and administrative rulings of general application as well as the international agreements to which it is party that may affect its procurement markets. Each Party shall promptly respond to specific questions and provide, upon request, information to another Party on such matters.
3.     If a Party grants to a non-Party, after the entry into force of this Agreement, additional benefits with regard to the access to its procurement markets, it shall agree to enter into negotiations with a view to extending these benefits to another Party on a reciprocal basis.

CHAPTER 5
PAYMENTS AND CAPITAL MOVEMENTS
ARTICLE 27
Payments for Current Transactions

Subject to the provisions of Article 29, the Parties undertake to allow all payments for current transactions to be made in a freely convertible currency.


ARTICLE 28
Capital Movements

1.     Subject to the provisions of Article 29, the Parties shall ensure that capital for investments made in companies formed in accordance with their respective laws, any returns stemming therefrom, and the amounts resulting from liquidations of investments are freely transferable.
2.     The Parties shall hold consultations with a view to facilitating the movement of capital between the EFTA States and Montenegro and achieving its complete liberalisation as soon as conditions permit.

ARTICLE 29
Balance of Payments Difficulties

Where a Party is in serious balance of payments difficulties, or under threat thereof, it may, in conformity with the conditions laid down within the framework of the GATT 1994, the GATS and the Agreement of the International Monetary Fund, take restrictive measures with regard to current payments and capital movements if such measures are strictly necessary. Such measures shall be applied on a temporary, equitable and non-discriminatory basis. The Party concerned shall inform the other Parties immediately of such measures and shall provide as soon as possible a timetable for their removal.


ARTICLE 30
Exceptions

With respect to the rights and obligations of the Parties under this Chapter concerning general and security exceptions, subparagraphs (a) to (c) of Article XIV and paragraph 1 of Article XIV bis of the GATS shall apply and are hereby incorporated into and made part of this Agreement, mutatis mutandis.

CHAPTER 6
TRADE AND SUSTAINABLE DEVELOPMENT

ARTICLE 31
Context and Objectives

1.     The Parties recall the Stockholm Declaration on the Human Environment of 1972, the Rio Declaration on Environment and Development of 1992, Agenda 21 on Environment and Development of 1992, the ILO Declaration on Fundamental Principles and Rights at Work and its Follow-up of 1998, the Johannesburg Plan of Implementation on Sustainable Development of 2002, the Ministerial Declaration of the UN Economic and Social Council on Full Employment and Decent Work of 2006 and the ILO Declaration on Social Justice for a Fair Globalization of 2008.

2.     The Parties recognise that economic development, social development and environmental protection are interdependent and mutually supportive components of sustainable development. They underline the benefit of cooperation on trade-related labour and environmental issues as part of a global approach to trade and sustainable development.
3.     The Parties reaffirm their commitment to promote the development of international trade in such a way as to contribute to the objective of sustainable development and to ensure that this objective is integrated and reflected in the Parties' trade relationship.

ARTICLE 32
Scope

Except as otherwise provided for in this Chapter, this Chapter applies to measures adopted or main tained by the Parties affecting trade-related and investment-related aspects of labour 1 and environmental issues.

ARTICLE 33
Right to Regulate and Levels of Protection

1.     Recognising the right of each Party, subject to the provisions of this Agreement, to establish its own levels of environmental and labour protection, and to adopt or modify accordingly its relevant laws and policies, each Party shall seek to ensure that its laws, policies and practices provide for and encourage high levels of environmental and labour protection, consistent with standards, principles and agreements referred to in Articles 35 and 36, and shall strive to further improve the levels of protection provided for in those laws and policies.


2.     The Parties recognise the importance, when preparing and implementing measures related to the environment and labour conditions that affect trade and investment between them, of taking account of scientific, technical and other information, and relevant international standards, guidelines and recommendations.

ARTICLE 34
Upholding Levels of Protection in the Application and Enforcement of Laws, Regulations or Standards

1.     A Party shall not fail to effectively enforce its environmental and labour laws, regulations or standards in a manner affecting trade or investment between the Parties.

2.     Subject to Article 33, a Party shall not

(a)    weaken or reduce the levels of environmental or labour protection provided by its laws, regulations or standards with the sole intention to encourage investment from another Party or to seek or to enhance a competitive trade advantage of producers or service providers operating in its territory; orHér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


1      When labour is referred to in this Chapter, it includes the issues relevant to the Decent Work Agenda as agreed on in the ILO.

(b)    waive or otherwise derogate from, or offer to waive or otherwise derogate from, such laws, regulations or standards in order to encourage investment from another Party or to seek or to enhance a competitive trade advantage of producers or service providers operating in its territory.

ARTICLE 35
International Labour Standards and Agreements

1.     The Parties recall the obligations deriving from membership of the ILO and the ILO Declaration on Fundamental Principles and Rights at Work and its Follow-up adopted by the International Labour Conference at its 86th Session in 1998, to respect, promote and realise the principles concerning the fundamental rights, namely:


(a)    the freedom of association and the effective recognition of the right to collective bargaining;
(b)    the elimination of all forms of forced or compulsory labour;
(c)    the effective abolition of child labour; and
(d)    the elimination of discrimination in respect of employment and occupation.
2.     The Parties reaffirm their commitment, under the Ministerial Declaration of the UN Economic and Social Council on Full Employment and Decent Work of 2006, to recognising full and productive employment and decent work for all as a key element of sustainable development for all countries and as a priority objective of international cooperation, and to promoting the development of international trade in a way that is conducive to full and productive employment and decent work for all.
3.     The Parties recall the obligations deriving from membership of the ILO to effectively implementing the ILO Conventions which they have ratified and to make continued and sustained efforts towards ratifying the fundamental ILO Conventions as well as the other Conventions that are classified as “up-to-date” by the ILO.

4.     The violation of fundamental principles and rights at work shall not be invoked or otherwise used as a legitimate comparative advantage. Labour standards shall not be used for protectionist trade purposes.

ARTICLE 36
Multilateral Environmental Agreements and Environmental Principles

The Parties reaffirm their commitment to the effective implementation in their laws and practices of the multilateral environmental agreements to which they are party, as well as their adherence to environmental principles reflected in the international instruments referred to in Article 31.

ARTICLE 37
Promotion of Trade and Investment Favouring Sustainable Development

1.     The Parties shall strive to facilitate and promote foreign investment, trade in and dissemination of goods and services beneficial to the environment, including environmental technologies, sustainable renewable energy, energy-efficient and eco-labelled goods and services, including through addressing related non-tariff barriers.

2.     The Parties shall strive to facilitate and promote foreign investment, trade in and dissemination of goods and services that contribute to sustainable development, including goods and services that are the subject of schemes such as fair and ethical trade.
3.     For the purposes of paragraphs 1 and 2, the Parties agree to exchange views and may consider, jointly or bilaterally, cooperation in this area.

4.     The Parties shall encourage cooperation between enterprises in relation to goods, services and technologies that contribute to sustainable development and are beneficial to the environment.

ARTICLE 38
Cooperation in International Fora

The Parties shall strive to strengthen their cooperation on trade- and investment- related labour and environmental issues of mutual interest in relevant bilateral, regional and multilateral fora in which they participate.


ARTICLE 39
Implementation and Consultations

1.     The Parties shall designate the administrative entities which shall serve as contact points for the purpose of implementing this Chapter.
2.     A Party may, through the contact points referred to in paragraph 1, request expert consultations or consultations within the Joint Committee regarding any matter arising under this Chapter. The Parties shall make every attempt to arrive at a mutually satisfactory resolution of the matter. Where relevant, and subject to the agreement of the Parties, they may seek advice of the relevant international organisations or bodies.

3.     If a Party considers that a measure of another Party does not comply with the obligations under this Chapter, it may have recourse to consultations according to paragraphs 1 to 3 of Article 42.

ARTICLE 40
Review

The Parties shall periodically review in the Joint Committee progress achieved in pursuing the objectives set out in this Chapter, and consider relevant international developments to identify areas where further action could promote these objectives.

CHAPTER 7
INSTITUTIONAL PROVISIONS
ARTICLE 41
Joint Committee

1.     The Parties hereby establish the EFTA-Montenegro Joint Committee. It shall be composed of representatives of the Parties which shall be headed by senior officials.
2.     The Joint Committee shall:
(a)    supervise and review the implementation of this Agreement, inter alia by means of a comprehensive review of the application of the provisions of this Agreement, with due regard to any specific reviews provided for in this Agreement;
(b)    keep under review the possibility of further removal of barriers to trade and other restrictive measures concerning trade between the EFTA States and Montenegro;
(c)    oversee the further development of this Agreement;
(d)    supervise the work of any sub-committees and working groups established under this Agreement;
(e)    endeavour to resolve disputes that may arise regarding the interpretation or application of this Agreement; and
(f)    consider any other matter that may affect the operation of this Agreement.
3.     The Joint Committee may decide to set up such sub-committees and working groups as it considers necessary to assist it in accomplishing its tasks. Except where otherwise provided for in this Agreement, the sub-committees and working groups shall work under a mandate established by the Joint Committee.
4.     The Joint Committee may take decisions as provided for in this Agreement. On other matters the Joint Committee may make recommendations.

5.     The Joint Committee shall take decisions and make recommendations by consensus.
6.     The Joint Committee shall meet whenever necessary upon mutual agreement but normally every two years. Its meetings shall be chaired jointly by one of the EFTA States and Montenegro. The Joint Committee shall establish its rules of procedure.

7.     Each Party may request at any time, through written notice to the other Parties, that a special meeting of the Joint Committee be held. Such a meeting shall take place within 30 days from the date of receipt of the request, unless the Parties agree otherwise.
8.     The Joint Committee may decide to amend the Annexes to this Agreement, including their Appendices. Subject to paragraph 9, the Joint Committee may set a date for the entry into force of such decisions.
9.     If a representative of a Party in the Joint Committee has accepted a decision subject to the fulfilment of constitutional requirements, the decision shall enter into force on the date the last Party notifies that its internal requirements have been fulfilled, unless the decision itself specifies a later date. The Joint Committee may decide that the decision shall enter into force for those Parties that have fulfilled their internal requirements, provided that Montenegro is one of those Parties. A Party may apply a decision of the Joint Committee provisionally until such decision enters into force for that Party, subject to its constitutional requirements.


CHAPTER 8
DISPUTE SETTLEMENT
ARTICLE 42
Consultations

1.     In case of any divergence with respect to the interpretation, implementation and application of this Agreement, the Parties shall make every attempt through cooperation and consultations to arrive at a mutually satisfactory solution.
2.     A Party may request in writing consultations with any other Party regarding any actual or proposed measure or any other matter that it considers might affect the operation of this Agreement. The Party requesting consultations shall at the same time notify the other Parties in writing thereof and supply all relevant information.
3.     The consultations shall take place in the Joint Committee if any of the Parties so requests within 20 days from the date of receipt of the notification referred to in paragraph 2, with a view to finding a commonly acceptable solution.
4.     If the Party to which a request is made in accordance with paragraph 2 does not reply within ten days or does not enter into consultations within 20 days from the date of receipt of the request, the Party making the request is entitled to request the establishment of an arbitration panel in accordance with Article 43.

ARTICLE 43
Arbitration

1.     Disputes between the Parties relating to the interpretation of rights and obligations under this Agreement, which have not been settled through direct consultations or in the Joint Committee within 60 days from the date of receipt of the request for consultations, may be referred to arbitration by the complaining Party by means of a written request to the Party complained against. A copy of this request shall be communicated to all other Parties so that they may determine whether to participate in the arbitration.
2.     Where more than one Party requests the establishment of an arbitration panel relating to the same matter, or where the request involves more than one Party complained against, a single arbitration panel should, whenever feasible, be established to consider such disputes. 2

3.     A Party that is not a party to the dispute shall be entitled, on delivery of a written request to the parties to the dispute, to make written submissions to the arbitration panel, receive written submissions, including annexes, from the parties to the dispute, attend hearings and make oral statements.
4.     The arbitration panel shall comprise three members, who shall be nominated in accordance with the “Optional Rules for Arbitrating Disputes between Two States of the Permanent Court of Arbitration”, effective 20 October 1992 (hereinafter referred to as the “Optional Rules”).

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


2      For the purpose of this Chapter, the terms “Party”, “party to the dispute”, “complaining Party” and “Party complained against” can denote one or more Parties.

5.     The arbitration panel shall examine the matter referred to it in the request for the establishment of an arbitration panel in light of the provisions of this Agreement applied and interpreted in accordance with the rules of interpretation of public international law. The ruling of the arbitration panel shall be final and binding upon the parties to the dispute. Any ruling of the arbitration panel shall be made public, unless the parties to the dispute agree otherwise.
6.     The language of any proceedings shall be English. The hearings of the arbitration panel shall be open to the public, unless the parties to the dispute agree otherwise. Each Party shall treat as confidential the information submitted by any other Party to the arbitration panel which that Party has designated as confidential.
7.     There shall be no ex parte communications with the arbitration panel concerning matters under its consideration.
8.     The ruling of the arbitration panel shall be rendered within 180 days of the date on which the presiding arbitrator of the panel was appointed. This period may be extended by a maximum of 90 days, if the parties to the dispute so agree.
9.     The expenses of the arbitration panel, including the remuneration of its members, shall be borne by the parties to the dispute in equal shares.
10.     Unless otherwise specified in this Agreement or agreed between the parties to the dispute, the Optional Rules shall apply, mutatis mutandis.

ARTICLE 44
Implementation of the Ruling

1.     The Party complained against shall promptly comply with the ruling of the arbitration panel. If it is impracticable to comply immediately, the parties to the dispute shall endeavour to agree on a reasonable period of time to do so. In the absence of such agreement within 30 days from the date of the ruling, either party to the dispute may, within ten days from the expiration of such period, request the original arbitration panel to determine the length of the reasonable period of time.
2.     The Party concerned shall notify in writing the other party to the dispute of the measure adopted in order to implement the ruling.
3.     If the Party concerned fails to comply with the ruling within a reasonable period of time and the parties to the dispute have not agreed on any compensation, the other party to the dispute may, until the ruling has been properly implemented or the dispute has been otherwise resolved, and subject to a prior notification of 30 days, suspend the application of benefits granted under this Agreement, but only equivalent to those affected by the measure that the arbitration panel has found to violate this Agreement.
4.     Any dispute regarding the implementation of the ruling or the notified suspension shall be decided by the original arbitration panel upon request of either party to the dispute before suspension of benefits can be applied. The arbitration panel may also rule on the conformity with the ruling of any implementing measures adopted after the suspension of benefits and whether the suspension of benefits should be terminated or modified. The ruling of the arbitration panel under this paragraph shall normally be given within 45 days from the date of receipt of the request.

CHAPTER 9
FINAL PROVISIONS
ARTICLE 45
Fulfilment of Obligations

The Parties shall take any general or specific measures required to fulfil their obligations under this Agreement.

ARTICLE 46
Annexes

The Annexes to this Agreement, including their Appendices, are an integral part thereof.

ARTICLE 47
Evolutionary Clause

The Parties undertake to review this Agreement in light of further developments in international economic relations, inter alia in the framework of the WTO, and to examine in this context and in light of any other relevant factor the possibility of further developing and deepening their cooperation under this Agreement and of extending it to areas not covered therein. The Joint Committee shall regularly examine this possibility and, where appropriate, make recommendations to the Parties, particularly with a view to opening negotiations.

ARTICLE 48
Amendments

1.     The Parties may agree on any amendment to this Agreement. Amendments to this Agreement other than those referred to in paragraph 8 of Article 41 shall be submitted to the Parties for ratification, acceptance or approval. Unless otherwise agreed by the Parties, amendments shall enter into force on the first day of the third month following the deposit of the last instrument of ratification, acceptance or approval.
2.     The text of the amendments as well as the instruments of ratification, acceptance or approval shall be deposited with the Depositary.

ARTICLE 49
Accession

1.     Any State becoming a member of the European Free Trade Association may accede to this Agreement, provided that the Joint Committee approves its accession, on terms and conditions to be agreed upon by the Parties. The instrument of accession shall be deposited with the Depositary.
2.     In relation to an acceding State, this Agreement shall enter into force on the first day of the third month following the deposit of its instrument of accession, or the approval of the terms of accession by the existing Parties, whichever is later.

ARTICLE 50
Withdrawal and Expiration

1.     A Party may withdraw from this Agreement by means of a written notification to the Depositary. The withdrawal shall take effect six months after the date on which the notification is received by the Depositary.
2.     On the day of accession of Montenegro to the European Union, this Agreement shall, ipso facto, cease to be effective.
3.     Any EFTA State which withdraws from the Convention establishing the European Free Trade Association shall, ipso facto, on the same day as the withdrawal takes effect, cease to be a Party to this Agreement.

ARTICLE 51
Entry into Force

1.     This Agreement is subject to ratification, acceptance or approval in accordance with the respective constitutional requirements of the Parties. The instruments of ratification, acceptance or approval shall be deposited with the Depositary.
2.     This Agreement shall enter into force on 1 July 2012 in relation to those Parties which have deposited their instruments of ratification, acceptance or approval, or notified provisional application to the Depositary, at least two months before that date, and provided that at least one EFTA State and Montenegro are among them.

3.     In case this Agreement does not enter into force on 1 July 2012, it shall enter into force on the first day of the third month after at least one EFTA State and Montenegro have deposited their instruments of ratification, acceptance or approval, or notified provisional application to the Depositary.
4.     In relation to an EFTA State depositing its instrument of ratification, acceptance or approval after this Agreement has entered into force, this Agreement shall enter into force on the first day of the third month following the deposit of its instrument of ratification, acceptance or approval.
5.     If its constitutional requirements permit, a Party may apply this Agreement provisionally pending ratification, acceptance or approval by that Party. Provisional application of this Agreement shall be notified to the Depositary.


ARTICLE 52
Depositary

The Government of Norway shall act as Depositary.

IN WITNESS WHEREOF the undersigned, being duly authorised thereto, have signed this Agreement.

Done at Geneva, this 14 th day of November 2011, in one original in the English language. The Depositary shall transmit certified copies to all the Parties.

For Iceland     For Montenegro
.......................................     .....................................

For the Principality of Liechtenstein
.......................................

For the Kingdom of Norway
.......................................

For the Swiss Confederation
.......................................
Fylgiskjal II.


Landbúnaðarsamningur
milli Íslands og Svartfjallalands.


1. GR.
Gildissvið.

1.     Samningur þessi um viðskipti með landbúnaðarafurðir milli Íslands og Svartfjallalands (hér á eftir nefnd „samningsaðilar“) er gerður með vísan til fríverslunarsamnings EFTA-ríkjanna og Svartfjallalands (hér á eftir nefndur „fríverslunarsamningurinn“), sem var undirritaður 14. nóvember 2011, einkum samkvæmt 1. mgr. 7. gr. þess samnings.
2.     Samningur þessi gildir um viðskipti milli samningsaðila að því er varðar landbúnaðarafurðir:
a)    sem heyra undir 1. til 24. kafla í samræmdu vörulýsingar- og vörunúmeraskránni (hér á eftir nefnd „samræmda tollskráin“ (ST)) og ekki er getið í II. eða III. viðauka við fríverslunarsamninginn og
b)    sem I. viðauki við fríverslunarsamninginn tekur til.

2. GR.
Tollaívilnanir.

Ísland skal veita tollaívilnanir fyrir landbúnaðarafurðir, sem eru upprunnar í Svartfjallalandi, eins og tilgreint er í I. viðauka. Svartfjallaland skal veita tollaívilnanir fyrir landbúnaðarafurðir, sem eru upprunnar á Íslandi, eins og tilgreint er í II. viðauka.

3. GR.
Upprunareglur og samvinna stjórnvalda.

1.     Ákvæði 8. gr. fríverslunarsamningsins gildir um samning þennan, að breyttu breytanda, nema kveðið sé á um annað í 2. mgr.
2.     Að því er samning þennan varðar gildir 3. gr. I. viðbætis samnings Evrópu og Miðjarðarhafslandanna um upprunareglur sem veita fríðindi, að breyttu breytanda, þar sem einungis er gert ráð fyrir tvíhliða uppsöfnun milli samningsaðilanna.

4. GR.
Viðræður.

Samningsaðilarnir skulu skoða þá erfiðleika sem kunna að koma upp í viðskiptum þeirra með landbúnaðarafurðir og freista þess að leita viðunandi lausna.

5. GR.
Aukið viðskiptafrelsi.

Samningsaðilarnir skuldbinda sig til þess að vinna áfram að því að auka frelsi í viðskiptum sínum með landbúnaðarafurðir, að teknu tilliti til fyrirkomulags slíkra viðskipta sín á milli, þess hve slíkar afurðir eru viðkvæmar og til þróunar í landbúnaðarstefnu hvors aðila um sig. Samningsaðilarnir skulu, að beiðni hvors samningsaðila sem er, hafa samráð í þeim tilgangi að ná þessu markmiði, þ.m.t. úrbætur á markaðsaðgangi með því að lækka eða afnema tolla á landbúnaðarvörum og með því að útvíkka vörusvið sem fellur undir samning þennan.


6. GR.
Samningur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um landbúnað.

Samningsaðilarnir staðfesta réttindi sín og skyldur samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um landbúnað.

7. GR.
Ákvæði fríverslunarsamningsins.

Ákvæði um svæðisbundið gildissvið (4. gr.), ríkisstjórnir, héraðsstjórnir og sveitarfélög (5. gr.), ráðstafanir á sviði hollustuhátta og heilbrigði dýra og plantna (12. gr.), tæknilegar reglur (13. gr.), undirboð (19. gr.) og tvíhliða verndarráðstafanir (21. gr.), auk 8. kafla um lausn deilumála fríverslunarsamningsins, skulu taka til samnings þessa, að breyttu breytanda.

8. GR.
Gildistaka og uppsögn.

1.     Samningur þessi öðlast gildi sama dag og fríverslunarsamningur milli Íslands og Svartfjallalands öðlast gildi. Hann gildir eins lengi sem fríverslunarsamningurinn á milli þeirra er í gildi.

2.     Samningur þessi fellur úr gildi ef samningsaðili segir upp fríverslunarsamningnum, þá telst samningur þessi falla úr gildi sama dag og uppsögn fríverslunarsamningsins öðlast gildi.


ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa undirrituð, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað samning þennan.


Gjört í Genf, 14. nóvember 2011, í tveimur frumritum.


___________________     _____________________
Fyrir hönd Íslands     Fyrir hönd Svartfjallalands

Agreement on Agriculture
Between Iceland and Montenegro


ARTICLE 1
Scope and Coverage

1.     This Agreement concerning trade in agricultural products between Iceland and Montenegro is concluded further to the Free Trade Agreement between the EFTA States and Montenegro (hereinafter referred to as “the Free Trade Agreement”), which was signed on 14 November 2011, and in particular pursuant to paragraph 2 of Article 7 of the Free Trade Agreement.
2.     This Agreement applies to trade between the Parties relating to agricultural products:
(a)    classified in Chapters 1 to 24 of the Harmonized Commodity Description and Coding System (hereinafter referred to as the “HS”) and not included in Annex II or Annex III to the Free Trade Agreement; and
(b)    covered by Annex I to the Free Trade Agreement.

ARTICLE 2
Tariff Concessions

Iceland shall grant tariff concessions to agricultural products originating in Montenegro as specified in Annex I. Montenegro shall grant tariff concessions to agricultural products originating in Iceland as specified in Annex II.


ARTICLE 3
Rules of Origin and Administrative Cooperation

1.     Article 8 of the Free Trade Agreement shall apply to this Agreement, mutatis mutandis, except as provided for in paragraph 2.
2.     For the purposes of this Agreement, Article 3 of Appendix I to the Regional Convention on Pan- Euro-Mediterranean Preferential Rules of Origin shall apply mutatis mutandis, allowing only for bilateral cumulation between the Parties.

ARTICLE 4
Dialogue

The Parties shall examine any difficulties that might arise in their trade in agricultural products and shall endeavour to seek appropriate solutions.


ARTICLE 5
Further Liberalisation

The Parties undertake to continue their efforts with a view to achieving further liberalisation of their trade in agricultural products, taking account of the pattern of such trade between them, the particular sensitivities of such products, and the development of agricultural policies on either side. At the request of either Party, the Parties shall consult to achieve this objective, including through improvements in market access by reduction or elimination of customs duties on agricultural products and through extension of the scope of agricultural products covered by this Agreement.

ARTICLE 6
WTO Agreement on Agriculture

The Parties confirm their rights and obligations under the WTO Agreement on Agriculture.


ARTICLE 7
Provisions of the Free Trade Agreement

The provisions on Territorial Application (Article 4), Central, Regional and Local Government (Article 5), Sanitary and Phytosanitary Measures (Article 12), Technical Regulations (Article 13), Anti- dumping (Article 19) and Bilateral Safeguard Measures (Article 21) as well as Chapter 8 on Dispute Settlement of the Free Trade Agreement shall apply to this Agreement, mutatis mutandis.

ARTICLE 8
Entry into Force and Termination

1.     This Agreement shall enter into force on the same date as the Free Trade Agreement enters into force between Iceland and Montenegro. It shall remain in force as long as the Free Trade Agreement remains in force between them.
2.     This Agreement shall be terminated if a Party withdraws from the Free Trade Agreement, in which case this Agreement shall be considered terminated on the same date the withdrawal from the Free Trade Agreement takes effect.

IN WITNESS WHEREOF the undersigned, being duly authorised thereto, have signed this Agreement.

Done at Geneva, this 14 th day of November 2011, in two originals.


____________________     __________________
For Iceland     For Montenegro