Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 612. máls.

Þingskjal 962  —  612. mál.Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 32/2012 um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)
    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 32/2012, frá 10. febrúar 2012, um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2011/30/ESB frá 19. janúar 2011 um jafngildi opinberra eftirlits-, gæðatryggingar-, rannsóknar- og viðurlagakerfa fyrir endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki í tilteknum þriðju löndum og umbreytingartímabil vegna endurskoðunarstarfsemi endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja í Evrópusambandinu sem eru frá tilteknum þriðju löndum.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 32/2012, frá 10. febrúar 2012, um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2011/30/ESB frá 19. janúar 2011 um jafngildi opinberra eftirlits-, gæðatryggingar-, rannsóknar- og viðurlagakerfa fyrir endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki í tilteknum þriðju löndum og umbreytingartímabil vegna endurskoðunarstarfsemi endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja í Evrópusambandinu sem eru frá tilteknum þriðju löndum.
    Markmiðið með fyrrgreindri ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar er að skapa gagnkvæmt traust milli lögbærra yfirvalda í aðildarríkjunum og tiltekinna þriðju ríkja hvað varðar opinbert eftirlit, gæðaeftirlit og rannsóknir, en jafnframt að tryggja að réttinda hlutaðeigandi aðila sé gætt.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem hér um ræðir, en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2011/30/ESB frá 19. janúar 2011 um jafngildi opinberra eftirlits-, gæðatryggingar-, rannsóknar- og viðurlagakerfa fyrir endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki í tilteknum þriðju löndum og umbreytingartímabil vegna endurskoðunarstarfsemi endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja í Evrópusambandinu sem eru frá tilteknum þriðju löndum.
    Í janúar 2011 var gefin út ákvörðun um jafngildi opinberra eftirlitskerfa, gæðatryggingarkerfa og rannsóknar- og viðurlagakerfa aðildarríkjanna annars vegar og tiltekinna þriðju ríkja hins vegar, þ.e. Ástralíu, Kanada, Kína, Króatíu, Japans, Singapúr, Suður-Afríku, Suður- Kóreu, Sviss og Bandaríkjanna, hvað varðar eftirlit með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum.
    Ákvörðunin kveður einnig á um aðlögunartímabil hvað varðar skyldu aðildarríkjanna til skráningar og eftirlits með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum sem árita reikningsskil félaga sem skráð eru í tilteknum þriðju ríkjum og svæðum, þ.e. Abú Dabí, Bermúdaeyjum, Brasilíu, Cayman-eyjum, Alþjóðlegu fjármálamiðstöðinni í Dúbaí, Egyptalandi, Guernsey, Hong Kong, Indlandi, Indónesíu, Mön, Ísrael, Jersey, Malasíu, Máritíus, Nýja-Sjálandi, Rússlandi, Taívan, Tælandi og Tyrklandi. Viðkomandi endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki skulu þó veita lögbærum yfirvöldum í aðildarríkjunum nánar tilteknar upplýsingar.
    Markmiðið með umræddri ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar er að skapa gagnkvæmt traust milli lögbærra yfirvalda í aðildarríkjunum og tiltekinna þriðju ríkja hvað varðar opinbert eftirlit, gæðaeftirlit og rannsóknir, en jafnframt að tryggja að réttinda hlutaðeigandi aðila sé gætt.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Innleiðing ákvörðunar 2011/30/ESB kallar á breytingar á lögum nr. 79/2008, um endurskoðendur. Efnahags- og viðskiptaráðherra hyggst leggja fram lagafrumvarp á yfirstandandi löggjafarþingi til innleiðingar á ákvæðum hennar. Ekki er gert ráð fyrir að þær lagabreytingar muni hafa í för með sér verulegan kostnað né heldur stjórnsýslulegar afleiðingar hér á landi. Ekki verður séð að breytingarnar hafi efnahagslegar afleiðingar fyrir einkaaðila.Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 32/2012

frá 10. febrúar 2012

um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)         XXII. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 161/2011 frá 2. desember 2011 ( 1 ).

2)         Fella ber inn í samninginn ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2011/30/ESB frá 19. janúar 2011 um jafngildi opinberra eftirlits-, gæðatryggingar-, rannsóknar- og viðurlagakerfa fyrir endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki í tilteknum þriðju löndum og umbreytingartímabil vegna endurskoðunarstarfsemi endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja í Evrópusambandinu sem eru frá tilteknum þriðju löndum ( 2 ).

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.


Eftirfarandi liður bætist við á eftir lið 10fc (ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2010/485/ ESB) í XXII. viðauka við samninginn:

„10fd.     32011 D 0030: Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2011/30/ESB frá 19. janúar 2011 um jafngildi opinberra eftirlits-, gæðatryggingar-, rannsóknar- og viðurlagakerfa fyrir endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki í tilteknum þriðju löndum og umbreytingartímabil vegna endurskoðunarstarfsemi endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja í Evrópusambandinu sem eru frá tilteknum þriðju löndum (Stjtíð. ESB L 15, 20.1.2011, bls. 12).“

2. gr.


Íslenskur og norskur texti ákvörðunar 2011/30/ESB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi 11. febrúar 2012, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 10. febrúar 2012.

Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
Gianluca Grippa
starfandi formaður.Sameiginleg yfirlýsing samningsaðila

vegna ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 32/2012 frá 10. febrúar 2012 um að fella inn í samninginn ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2011/30/ESB


„Í ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2011/30/ESB frá 19. janúar 2011 eru nokkrar greinar sem lúta að jafngildi að því er varðar þriðju lönd. Ákvörðun þessi er felld inn í EES-samninginn með fyrirvara um gildissvið hans.“

Fylgiskjal II.


Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar frá 19. janúar 2011
um jafngildi opinberra eftirlits-, gæðatryggingar-, rannsóknar- og viðurlagakerfa fyrir endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki í tilteknum þriðju löndum og umbreytingartímabil vegna endurskoðunarstarfsemi endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja í Evrópusambandinu sem eru frá tilteknum þriðju löndum
(tilkynnt með númeri C(2011) 117)
(Texti sem varðar EES)
(2011/30/ESB)

FRAMKVÆMDASTJÓRN EVRÓPUSAMBANDSINS HEFUR,
með hliðsjón af sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins,
með hliðsjón af tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/43/EB frá 17. maí 2006 um lögboðna endurskoðun ársreikninga og samstæðureikningsskila, um breytingu á tilskipunum ráðsins 78/660/EBE og 83/349/EBE og um niðurfellingu á tilskipun ráðsins 84/253/EBE ( 1 ), einkum 2. mgr. 46. gr.,
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)    Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. tilskipunar 2006/43/ EB skulu lögbær yfirvöld aðildarríkjanna skrá alla endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki sem veita áritun endurskoðanda varðandi ársreikninga eða samstæðureikningsskil tiltekinna fyrirtækja sem hafa réttarstöðu lögaðila utan Bandalagsins og eru með framseljanleg verðbréf sem eru skráð á skipulegan markað innan Bandalagsins. Í 3. mgr. 45. gr. tilskipunar 2006/43/EB er þess krafist að aðildarríkin setji slíka skráða endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki undir opinber eftirlits-, gæðatryggingar-, rannsóknar- og viðurlagakerfi.
2)    Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2008/627/ EB frá 29. júlí 2008 um aðlögunartímabil fyrir endurskoðunarstarfsemi tiltekinna endurskoðenda og endurskoðunareininga í þriðja landi ( 2 ) gerði endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum frá þeim þriðju löndum sem tilgreind eru í viðauka við þá ákvörðun kleift að halda starfsemi sinni áfram í Evrópusambandinu í tengslum við áritanir endurskoðenda varðandi ársreikninga eða samstæðureikningsskil fyrir fjárhagsár sem hefjast á tímabilinu frá 29. júní 2008 til 1. júlí 2010.
3)    Framkvæmdastjórnin hefur látið fara fram mat á opinberum eftirlits-, gæðatryggingar-, rannsóknar- og viðurlagakerfum fyrir endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki í þriðju löndum og á yfirráðasvæðum sem tilgreind eru í viðaukanum við ákvörðun 2008/627/EB. Matið fór fram með aðstoð Evrópuhóps eftirlitsaðila endurskoðenda (e. the European Group of Auditors' Oversight Bodies). Meginreglurnar sem gilda um opinber eftirlits-, gæðatryggingar-, rannsóknar- og viðurlagakerfi fyrir endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki þeirra þriðju landa og yfirráðasvæða sem voru metin í ljósi viðmiðananna sem sett voru fram í 29., 30. og 32. gr. tilskipunar 2006/43/EB, sem gilda um opinber eftirlits-, gæðatryggingar-, rannsóknar- og viðurlagakerfi fyrir endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki aðildarríkjanna. Lokamarkmið samvinnu á milli aðildarríkja og opinberra eftirlits-, gæðatryggingar-, rannsóknar- og viðurlagakerfa fyrir endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki í þriðju löndum á að vera að gagnkvæmt traust ríki á eftirlitskerfum landanna sem byggist á jafngildi kerfanna.
4)    Í kjölfar slíks mats kemur í ljós að Ástralía, Kanada, Kína, Króatía, Japan, Singapúr, Suður- Afríka, Suður-Kórea og Sviss búa yfir opinberum eftirlits-, gæðatryggingar-, rannsóknar- og viðurlagakerfum fyrir endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki sem eru starfrækt samkvæmt svipuðum reglum og þeim sem settar eru fram í 29., 30. og 32. gr. tilskipunar 2006/43/EB. Því er við hæfi að telja opinber eftirlits-, gæðatryggingar-, rannsóknar- og viðurlagakerfi fyrir endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki þessara þriggja landa jafngild opinberu eftirlits-, gæðatryggingar-, rannsóknar- og viðurlagakerfum endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja aðildarríkjanna.
5)    Að því er varðar Suður-Afríku er farið fram á fyrirframsamþykki endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis í löggjöf þess, vegna flutnings upplýsinga frá lögbærum yfirvöldum í Suður-Afríku til lögbæru yfirvaldanna í aðildarríkjum. Sú krafa um fyrirframsamþykki getur valdið erfiðleikum við skilvirka framkvæmd 1. mgr. 46. gr. tilskipunar 2006/43/EB. Því skulu lögbær yfirvöld aðildarríkja krefjast þess að endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki falli frá rétti sínum til fyrirframsamþykkis við skráningu endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja sem veita fyrirtækjum með réttarstöðu lögaðila áritun endurskoðanda í Suður-Afríku, þar til nauðsynlegar breytingar hafa verið gerðar á löggjöf Suður-Afríku.
6)    Bandaríki Ameríku búa yfir opinberum eftirlits-, gæðatryggingar-, rannsóknar- og viðurlagakerfum fyrir endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki sem eru starfrækt samkvæmt svipuðum reglum og þeim sem settar eru fram í 29., 30. og 32. gr. tilskipunar 2006/43/EB. Lögbær yfirvöld Bandaríkja Ameríku telja samt sem áður ekki að lokamarkmið samvinnu við aðildarríki sé að gagnkvæmt traust ríki við lögbær yfirvöld vegna opinberra eftirlits-, gæðatryggingar-, rannsóknar- og viðurlagakerfa fyrir endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki aðildarríkjanna. Svo fremi sem gagnkvæmt traust ríkir ekki, geta aðildarríki ekki beitt ákvæðum 1. mgr. 46. gr. að fullu til frambúðar varðandi endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki sem veita áritun endurskoðanda varðandi ársreikninga eða samstæðureikningsskil fyrirtækja með réttarstöðu lögaðila í Bandaríkjum Ameríku. Því þarf að endurskoða opinber eftirlits-, gæðatryggingar-, rannsóknar- og viðurlagakerfi fyrir endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki Bandaríkja Ameríku í þeim tilgangi að meta framvindu þess að gagnkvæmt traust náist. Af þessum sökum þarf að setja tímamörk á þessa ákvörðun og fellur hún úr gildi 31. júlí 2013 að því er varðar opinber eftirlits-, gæðatryggingar-, rannsóknar- og viðurlagakerfi fyrir endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki Bandaríkja Ameríku.
7)    Þegar framkvæmdastjórnin hefur tekið ákvörðun sem viðurkennir að opinber eftirlits-, gæðatryggingar-, rannsóknar- og viðurlagakerfi fyrir endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki í þriðja landi eða yfirráðasvæði séu jafngild að því er varðar 1. mgr. 46. gr. tilskipunar 2006/43/EB, geta aðildarríki ákveðið að beita henni ekki eða breyta á grundvelli gagnkvæmni 1. og 3. mgr. 45. gr., í tengslum við endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki viðkomandi þriðja lands eða yfirráðasvæðis. Skilyrðin sem á að uppfylla til að beita ekki eða breyta kröfunum í 1. mgr. og 3. mgr. 45. gr. verður að fastsetja í samstarfssamningi sem um getur í 3. mgr. 46. gr. tilskipunar 2006/43/EB á milli aðildarríkisins og viðkomandi þriðja lands eða yfirráðasvæðis og tilkynna hann til framkvæmdastjórnarinnar.
8)    Abú Dabí, Brasilía, alþjóðlega fjármálamiðstöðin í Dúbaí, Guernsey, Hong Kong, Indland, Indónesía, Mön, Jersey, Malasía, Máritíus, Rússland, Taívan, Taíland og Tyrkland hafa komið á fót eða eru að koma á fót opinberum eftirlits-, gæðatryggingar-, rannsóknar- og viðurlagakerfum fyrir endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki. Samt sem áður eru upplýsingar um virkni og reglur sem stýra slíkum kerfum ekki fullnægjandi. Til að framkvæma frekara mat í þeim tilgangi að taka endanlega jafngilda ákvörðun að því er varðar slík kerfi er nauðsynlegt að fá viðbótarupplýsingar frá þessum þriðju löndum og yfirráðasvæðum. Því er viðeigandi að framlengja umbreytingartímabilið sem var veitt með ákvörðun 2008/627/EB að því er varðar endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki sem veita áritun endurskoðanda varðandi ársreikninga eða samstæðureikningsskil fyrirtækja sem hafa réttarstöðu lögaðila í viðkomandi þriðju löndum og yfirráðasvæðum.
9)    Þótt Egyptaland væri ekki talið með í ákvörðun 2008/627/EB, hefur það síðan þá komið á fót opinberu eftirlits-, gæðatryggingar-, rannsóknar- og viðurlagakerfi fyrir endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki. Til að framkvæma frekara mat í þeim tilgangi að taka endanlega jafngilda ákvörðun að því er varðar Egyptaland er nauðsynlegt að fá viðbótarupplýsingar frá því þriðja landi. Því er viðeigandi að telja með á umbreytingartímabilinu þá endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki sem veita áritun endurskoðanda varðandi ársreikninga eða samstæðureikningsskil fyrirtækja með réttarstöðu lögaðila í Egyptalandi.
10)    Bermúdaeyjar, Cayman-eyjar, Ísrael og Nýja- Sjáland búa enn ekki yfir opinberu eftirlits-, gæðatryggingar-, rannsóknar- og viðurlagakerfi fyrir endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki. Þessi þriðju lönd og yfirráðasvæði hafa samt sem áður skuldbundið sig opinberlega með skýrum hætti gagnvart framkvæmdastjórninni með markvissri aðgerðaráætlun til að koma á fót opinberu eftirlits- gæðatryggingar- rannsóknar- og viðurlagakerfi fyrir endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki samkvæmt jafngildum reglum og þeim sem settar eru fram í 29., 30. og 32. gr. tilskipunar 2006/43/EB. Því er viðeigandi að framlengja umbreytingartímabilið sem var veitt með ákvörðun 2008/627/EB að því er varðar endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki sem veita áritun endurskoðanda varðandi ársreikninga eða samstæðureikningsskil fyrirtækja sem hafa réttarstöðu lögaðila í viðkomandi þriðju löndum og yfirráðasvæðum. Samt sem áður ætti framkvæmdastjórnin að endurskoða framvinduna sem orðið hefur á árinu 2011 hjá þessum löndum og yfirráðasvæðum við samþykkt lagasetningar til að koma á fót opinberu eftirlits-, gæðatryggingar-, rannsóknar- og viðurlagakerfi fyrir endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki, og meta þörfina á að stytta umbreytingartímabilið að því er varðar þessi þriðju lönd og yfirráðasvæði.
11)    Endurskoðendurnir og endurskoðunarfyrirtækin sem veita áritun endurskoðanda varðandi ársreikninga eða samstæðureikningsskil tiltekinna fyrirtækja sem hafa réttarstöðu lögaðila í Argentínu, á Bahamaeyjum, í Síle, Kasakstan, Marokkó, Mexíkó, Pakistan og Úkraínu geta nýtt sér umbreytingartímabilið sem veitt var með ákvörðun 2008/627/EB. Síðan þá hafa þeir ekki veitt upplýsingar varðandi löggjöf um endurskoðun og eftirlitskerfi. Við þessar kringumstæður virðist sem þessi þriðju lönd séu ekki reiðubúin að halda áfram í átt að því að endurskoðunarreglur þeirra verði viðurkenndar af framkvæmdastjórninni sem jafngildar opinberum eftirlits-, gæðatryggingar-, rannsóknar- og viðurlagakerfum fyrir endurskoðendur og endurskoðendafyrirtæki í aðildarríkjunum. Því ætti ekki að framlengja umbreytingartímabilið sem þeim var veitt með ákvörðun 2008/627/EB að því er varðar endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki sem veita áritun endurskoðanda varðandi ársreikninga eða samstæðureikningsskil fyrirtækja sem hafa réttarstöðu lögaðila í þessum þriðju löndum.
12)    Til að vernda fjárfesta, endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki sem veita áritun endurskoðanda varðandi ársreikninga eða samstæðureikningsskil fyrirtækja sem hafa réttarstöðu lögaðila í þeim þriðju löndum sem eru tilgreind í viðaukanum við þessa ákvörðun, eiga þeir/þau einungis að geta haldið áfram endurskoðun á umbreytingartímabilinu í Evrópusambandinu án þess að vera skráð samkvæmt 45. gr. tilskipunar 2006/ 43/EB ef þau veita tilskildar upplýsingar. Veiti þeir/þau upplýsingarnar, skulu endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki geta haldið starfsemi sinni áfram með tilliti til áritunar endurskoðanda vegna ársreikninga eða samstæðureikningsskila fyrir fjárhagsár sem hefjast á tímabilinu frá 2. júlí 2010 til 31. júlí 2012. Þessi ákvörðun skal ekki hafa áhrif á rétt aðildarríkja til að beita rannsóknar- og viðurlagakerfum sínum að því er varðar slíka endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki.
13)    Þegar félag sem hefur réttarstöðu lögaðila í einu af þriðju löndunum eða á yfirráðasvæðunum sem tilgreind eru í 1. gr. þessarar ákvörðunar er með framseljanleg verðbréf sem eru skráð á skipulegan markað aðildarríkis, en er ekki skráð á markað í því þriðja landi eða á því yfirráðasvæði þar sem það hefur réttarstöðu lögaðila, ættu aðildarríki að tryggja að allt endurskoðunarstarf sem tengist reikningsskilum slíks félags falli undir samstarfssamninga sem hafa verið gerðir við hlutaðeigandi þriðja land eða yfirráðasvæði til að ákvarða hvaða opinbera eftirlits-, gæðatryggingar-, rannsóknar- og viðurlagakerfi mun gilda um endurskoðendur slíkra félaga. Þegar endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki annars aðildarríkis hefur skuldbundið sig til slíks endurskoðunarstarfs, ættu aðildarríki að vinna saman til að tryggja að endurskoðunarstarfið falli innan gildissviðs opinberra eftirlits-, gæðatryggingar-, rannsóknar- og viðurlagakerfa þeirra.
14)    Þegar félag sem er skráð í einu af þriðju löndunum eða á yfirráðasvæðunum sem tilgreind eru í viðaukanum við þessa ákvörðun, er með framseljanleg verðbréf sem eru skráð á skipulegan markað aðildarríkis, en er ekki skráð á markað í því þriðja landi eða á því yfirráðasvæði þar sem það hefur réttarstöðu lögaðila, ættu aðildarríki að vinna með hlutaðeigandi þriðja landi eða yfirráðasvæði til að tryggja að allt endurskoðunarstarf í tengslum við reikningsskil slíks félags falli undir opinbert eftirlits-, gæðatryggingar-, rannsóknar- og viðurlagakerfi. Þegar endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki annars aðildarríkis hefur skuldbundið sig til slíks endurskoðunarstarfs, ættu aðildarríki að vinna saman til að tryggja að endurskoðunarstarfið falli innan gildissviðs opinberra eftirlits-, gæðatryggingar-, rannsóknar- og viðurlagakerfa þeirra.
15)    Á umbreytingartímabilinu skulu aðildarríkin ekki taka jafngildisákvarðanir á landsvísu. Sú staðreynd að endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki, sem veita áritun endurskoðanda varðandi ársreikninga eða samstæðureikningsskil félaga sem hafa réttarstöðu lögaðila í þriðju löndum og á yfirráðasvæðum sem tiltekin eru í viðaukanum við þessa ákvörðun, geta samkvæmt þessari ákvörðun haldið endurskoðunarstarfsemi sinni áfram að því er varðar fyrirtæki sem um getur í 45. gr. tilskipunar 2006/43/EB, skal ekki koma í veg fyrir að aðildarríkin komi á samvinnufyrirkomulagi um einstakar endurskoðanir á gæðatryggingum milli lögbærra yfirvalda aðildarríkis og lögbærra yfirvalda í þriðja landi.
16)    Framkvæmdastjórnin skal vakta beitingu umbreytingarfyrirkomulagsins og meta framvindu þriðju landa og yfirráðasvæða sem hafa hlotið umbreytingartímabil eða það framlengt. Við lok umbreytingartímabilsins getur framkvæmdastjórnin úrskurðað um jafngildi opinberra eftirlits-, gæðatryggingar-, rannsóknar- og viðurlagakerfa fyrir hlutaðeigandi endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki þriðju landa og yfirráðasvæða. Framkvæmdastjórnin skal endurskoða hvort aðildarríkin hafi átt í erfiðleikum með að hljóta viðurkenningu um jafngildi frá þriðju löndum og yfirráðasvæðum sem þessi ákvörðun varðar í tengslum við opinber eftirlits-, gæðatryggingar-, rannsóknar- og viðurlagakerfi fyrir endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki aðildarríkjanna.
17)    Ráðstafanirnar, sem kveðið er á um í þessari ákvörðun, eru í samræmi við álit nefndarinnar sem komið var á fót skv. 1. mgr. 48. gr. tilskipunar 2006/43/EB.
SAMÞYKKT ÁKVÖRÐUN ÞESSA:

1. gr.

Að því er varðar 1. mgr. 46. gr. tilskipunar 2006/43/ EB skal telja opinber eftirlits-, gæðatryggingar-, rannsóknar- og viðurlagakerfi fyrir endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki eftirfarandi þriðju landa jafngild opinberum eftirlits-, gæðatryggingar-, rannsóknar- og viðurlagakerfum fyrir endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki aðildarríkja í tengslum við endurskoðunarstarfsemi varðandi ársreikninga eða samstæðureikningsskil fyrir fjárhagsár sem hefjast frá 2. júlí 2010:
1.     Ástralíu
2.     Kanada
3.     Kína
4.     Króatíu
5.     Japan
6.     Singapúr
7.     Suður-Afríku
8.     Suður-Kóreu
9.     Sviss
10. Bandaríkja Norður-Ameríku

2. gr.

1.     Aðildarríki skulu ekki beita 45. gr. tilskipunar 2006/43/EB í tengslum við endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki sem veita áritun endurskoðanda varðandi ársreikninga eða samstæðureikningsskil félaga sem hafa réttarstöðu lögaðila í þriðju löndum og á yfirráðasvæðum sem tiltekin eru í viðaukanum við þessa ákvörðun, sem um getur í 1. mgr. 45. gr. þeirrar tilskipunar, fyrir fjárhagsár sem hefjast á tímabilinu frá 2. júlí 2010 til 31. júlí 2012 í tilvikum þegar hlutaðeigandi endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki veitir lögbærum yfirvöldum aðildarríkisins allar eftirfarandi upplýsingar:
a)    nafn og heimilisfang endurskoðanda eða viðkomandi endurskoðunarfyrirtækis og upplýsingar um lagalegt rekstrarform þess,
b)    lýsing á netinu ef endurskoðandinn eða endurskoðunarfyrirtækið tilheyrir neti,
c)    reikningsskilastaðlar og óhæðiskröfur sem beitt hefur verið við viðkomandi endurskoðun,
d)    lýsing á innri gæðaeftirlitskerfum endurskoðunarfyrirtækisins,
e)    upplýsingar um hvort og hvenær síðasta endurmat á gæðatryggingu endurskoðandans eða endurskoðunarfyrirtækisins var gert og, nema þessar upplýsingar séu veittar af lögbæru yfirvaldi þriðja lands, nauðsynlegar upplýsingar um niðurstöðu endurskoðunarinnar. Ef nauðsynlegar upplýsingar um niðurstöðu síðasta endurmats á gæðatryggingu eru ekki opinberar, skulu lögbær yfirvöld aðildarríkis fara með slíkar upplýsingar sem trúnaðarmál.
2.     Aðildarríki skulu tryggja að almenningur sé upplýstur um nafn og heimilisfang endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja sem veita áritun endurskoðanda varðandi ársreikninga eða samstæðureikningsskil félaga sem hafa réttarstöðu lögaðila í þriðju löndum og á yfirráðasvæðum sem tiltekin eru í viðaukanum við þessa ákvörðun og um þá staðreynd að opinber eftirlits-, gæðatryggingar-, rannsóknar- og viðurlagakerfi þessara landa og yfirráðasvæða hafa enn ekki verið viðurkennd sem jafngild samkvæmt 2. mgr. 46. gr. tilskipunar 2006/43/EB. Í því skyni geta lögbær yfirvöld aðildarríkja sem um getur í 45. gr. tilskipunar 2006/43/EB einnig skráð endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki sem annast endurskoðun ársreikninga eða samstæðureikningsskila félaga sem hafa réttarstöðu lögaðila í þeim þriðju löndum og yfirráðasvæðum sem talin eru upp í viðaukanum við þessa ákvörðun.
3.     Þrátt fyrir 1. mgr. geta aðildarríki notað rannsóknar- og viðurlagakerfi sín á endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki sem annast endurskoðun ársreikninga eða samstæðureikningsskila félaga sem hafa réttarstöðu lögaðila í þeim þriðju löndum og yfirráðasvæðum sem talin eru upp í viðaukanum.
4.     Ákvæði 1. mgr. skulu vera með fyrirvara um samstarfsfyrirkomulag um gæðatryggingaathuganir lögbærra yfirvalda aðildarríkis og lögbærra yfirvalda þriðja lands eða yfirráðasvæðis, sem talin eru upp í viðaukanum, að því tilskildu að slíkt fyrirkomulag uppfylli allar eftirfarandi viðmiðanir:
a)    í því felst framkvæmd gæðatryggingaathugana á grundvelli jafnrar meðferðar,
b)    það hafi áður verið tilkynnt framkvæmdastjórninni,
c)    það hefur ekki áhrif á ákvarðanir framkvæmdastjórnarinnar skv. 47. gr. tilskipunar 2006/43/EB.

3. gr.

Framkvæmdastjórnin skal vakta stöðu þriðju landa og yfirráðasvæða sem talin eru upp í viðaukanum. Framkvæmdastjórnin skal einkum vakta hvort lögbær stjórnvöld þessara þriðju landa og yfirráðasvæða sem talin eru upp í viðaukanum sem hafa skuldbundið sig opinberlega gagnvart framkvæmdastjórninni til að koma á fót opinberum eftirlits-, gæðatryggingar-, rannsóknar- og viðurlagakerfum fyrir endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki hafi komið slíkum kerfum á fót, á grundvelli eftirfarandi meginreglna:
a)    kerfin eru óháð endurskoðunarstarfsgreininni,
b)    þau tryggja fullnægjandi eftirlit með endurskoðunum skráðra fyrirtækja,
c)    starfsemi þeirra er gagnsæ og tryggir að niðurstaða gæðatryggingaathugananna er áreiðanleg,
d)    þau njóta stuðnings af rannsóknum og viðurlögum með skilvirkum hætti.
Að því er varðar Bermúdaeyjar, Cayman-eyjar, Ísrael og Nýja-Sjáland skal framkvæmdastjórnin einkum endurskoða framvinduna sem orðið hefur við samþykkt löggjafar til að koma á opinberu eftirlits-, gæðatryggingar-, rannsóknar- og viðurlagakerfi fyrir endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki árið 2011. Framkvæmdastjórnin skal breyta viðaukanum að þessari ákvörðun á viðeigandi hátt, ef nauðsyn krefur.

4. gr.

Ákvæði 10. liðar 1. gr. falla úr gildi þann 31. júlí 2013.

5. gr.

Ákvörðun þessari er beint til aðildarríkjanna.

Gjört í Brussel, 19. janúar 2011.

Fyrir hönd framkvæmdastjórnarinnar,
Michel Barnier
framkvæmdastjóri.


VIÐAUKI
SKRÁ YFIR ÞRIÐJU LÖND OG YFIRRÁÐASVÆÐI

    Abú Dabí
    Bermúdaeyjar
    Brasilía
    Cayman-eyjar
    Alþjóðlega fjármálamiðstöðin í Dúbaí
    Egyptaland
    Guernsey
    Hong Kong
    Indland
    Indónesía
    Mön
    Ísrael
    Jersey
    Malasía
    Máritíus
    Nýja-Sjáland
    Rússland
    Taívan
    Taíland
    Tyrkland
Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L xx, 8.3.2012, bls. xx, og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. xx, 8.3.2012, bls. xx.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L 15, 20.1.2011, bls. 12.
Neðanmálsgrein: 3
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 4
(1)    Stjtíð. ESB L 157, 9.6.2006, bls. 87.
Neðanmálsgrein: 5
(2)    Stjtíð. ESB L 202, 31.7.2008, bls. 70.