Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 697. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1129  —  697. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um menntareikninga.

Flm.: Magnús M. Norðdahl, Lúðvík Geirsson, Árni Páll Árnason,
Ólína Þorvarðardóttir, Mörður Árnason,
Jónína Rós Guðmundsdóttir, Skúli Helgason.

    Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra sameiginlega að skipa nefnd, sem m.a. skal skipuð aðilum vinnumarkaðarins samkvæmt tilnefningu þeirra, sem leggi fram tillögur til lagabreytinga sem tryggi launafólki raunhæfan möguleika á að sækja sér aukna menntun með því m.a. að heimilt verði að nýta séreignarsparnað/viðbótarsparnað sem menntareikning án þess að skattfrelsi innborgana raskist. Nefndin ljúki störfum og skili tillögum sínum fyrir 1. október 2012.

Greinargerð.


    Í desember 2002 gerðu Hagfræðistofnun, Efling, VR, ASÍ og Starfsmenntaráð samning um að stofnunin tæki að sér að gera skýrslu um kosti og galla svokallaðra menntareikninga. Samningurinn kvað á um að fjallað yrði um áhrif menntareikninga á íslenskt samfélag og að tillögur yrðu útfærðar að slíkum reikningum fyrir Ísland. Skýrslunni var skilað í desember 2003 og fylgir hún tillögu þessari. Í henni er gerð grein fyrir reynslu annarra þjóða, símenntun hér á landi og á hinum Norðurlöndunum auk þess sem fjallað er um þjóðhagsleg áhrif menntunar og hugsanleg markmið með menntareikningum og framkvæmd hér á landi.
    Í skýrslunni kemur fram að almennt er talið að menntun auki hagvöxt og framleiðni og bæti lífskjör fólks. Kröfur um menntun og starfsþekkingu hafi enn fremur vaxið á síðustu árum og tekjubil milli faglærðra og ófaglærðra breikkað. Þessa þróun megi að einhverju leyti rekja til aukinna tækniframfara og alþjóðaviðskipta en hennar gæti um allan hinn vestræna heim. Íslendingar standi að sumu leyti vel í samanburði við aðrar þjóðir hvað menntun áhrærir, einkum hvað varðar fjölda háskólamenntaðs fólks en hins vegar sé ekki sömu sögu að segja um lægri skólastig, en vegna mikils brottfalls úr framhaldsskólum sé framhaldsskólamenntun ekki jafn almenn hérlendis og meðal annarra vestrænna ríkja. Þessar niðurstöður skýrslunnar standa enn, sbr. úttekt Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) á menntun í aðildarríkjum stofnunarinnar 2011. 1
    Þetta hljóti að teljast áhyggjuefni fyrir íslenskt samfélag þar sem möguleikar og hæfileikar margra einstaklinga eru ekki nýttir sem skyldi vegna skorts á menntun og starfsþjálfun. Af þeim sökum megi færa rök fyrir því að nauðsyn sé á nýjum úrræðum í menntamálum sem nái til þeirra sem hafa hætt námi eftir grunnskóla en vildu gjarnan bæta við sig þekkingu.
    Markmið menntareikninganna á Íslandi mundi verða ein leið til að jafna möguleika launafólks til náms og menntunar auk þess sem sérstaklega yrði horft til endurskoðunar á núverandi námslána- og námsstyrkjakerfi. Reikningunum yrði einkum ætlað að auðvelda almennu launafólki og þeim sem eiga styttri skólagöngu að baki að greiða fyrir dýrara og lengra nám og sporna þannig gegn misvægi í menntun á Íslandi. Eins og nú háttar til er eldra launafólk, og þeir sem eiga stutta skólagöngu að baki, síst líklegir til þess að sækja sér símenntun hérlendis, en með menntareikningum í formi eignasöfnunarreikninga er hugsanlega hægt að efla þátttöku þeirra sem hefja starfsævina snemma og eiga langan starfsferil að baki þar sem tíminn vinnur með eignamyndun.
    Með tilkomu menntareikninga taka einstaklingar sjálfir ábyrgð á sinni eigin menntun en það hefur sýnt sig að slíkt eykur bæði þátttöku og áhuga og hvetur einstaklinga til að standa sig vel. Auk þess leiðir það til þess að símenntun verður gagnsæ að því leyti að einstaklingar gera sér grein fyrir kostnaði við námskeið og þjálfun sem þeir sækja og munu gera kröfur til samræmis við kostnað.
    Markmið menntareikninga væri einnig að auðvelda fyrirtækjum að takast á við breytingar á vinnumarkaði með því að auka hæfni starfsmanna. Ríkisvald og atvinnurekendur sæju sér hag í að leggja sitt af mörkum fyrir betur menntaða og hæfari starfsmenn og öflugra atvinnulíf. Framlög atvinnurekenda gætu virkað sem hvatning til starfsmanna um að sækja sér frekari menntun en kæmi einnig fyrirtækjunum til góðs með hæfara og jafnvel ánægðara starfsfólk úr býtum.
    Ríkisvaldið hlýtur einnig að sjá sér hag í því að styðja við símenntun einstaklinga með þátttöku í menntareikningum þar sem aukin símenntun ætti öllu jöfnu að auka menntunarstig þjóðarinnar, en það hefur jákvæð áhrif á hagvöxt og tekjujöfnuð í þjóðfélaginu. Símenntunarkerfi byggt á eignasöfnum minnkar þess vegna þörf fyrir skatta og millifærslur til þess að ná fram jöfnuði í menntun og tekjum og mun þannig auka skilvirkni.
    Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að nefndin leggi fram tillögur að lagabreytingum sem feli m.a. í sér að launafólki verði gert heimilt að nýta sér núverandi kerfi séreignarsparnaðar/viðbótarsparnaðar til þess að ná þeim markmiðum sem gerð hefur grein fyrir hér að framan. Slíkar breytingar þarf að gera í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins sem fara með forræði á lífeyrismálum í gegnum kjarasamninga sína. Jafnframt gæti nefndin lagt til sjálfstætt kerfi menntareikninga til hliðar við núverandi kerfi séreignasparnaðar/viðbótarsparnaðar þar sem skattfrelsi greiðslna verði tryggt með sama hætti og við á um þann sparnað.
Neðanmálsgrein: 1
1     www.oecd.org/document/2/0,3746,en_2649_37455_48634114_1_1_1_37455,00.html .