Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 600. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1295  —  600. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit



um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu samnings um afhendingu vegna
refsiverðrar háttsemi milli Norðurlandanna (norræn handtökuskipun).


Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigríði Eysteinsdóttur frá utanríkisráðuneyti og Gunnlaug Geirsson frá innanríkisráðuneyti. Umsögn barst nefndinni frá Svavari Kjarrval Lútherssyni. Við umfjöllun málsins óskaði utanríkismálanefnd eftir minnisblaði frá innanríkisráðuneyti um tilgreinda þætti þess og birtist minnisblaðið sem fylgiskjal með áliti þessu.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd samning um afhendingu vegna refsiverðrar háttsemi milli Norðurlandanna (norræn handtökuskipun) sem undirritaður var í Kaupmannahöfn 15. desember 2005.
    Markmið samningsins eru breytingar á því fyrirkomulagi sem gilt hefur um framsal manna milli Norðurlandanna þar sem hugtakinu framsal er skipt út fyrir afhendingu. Með því er lögð áhersla á að kerfið er gert fljótvirkara og einfaldara. Afhendingarfyrirkomulagið er frábrugðið gildandi framsalsfyrirkomulagi í fjórum atriðum, þ.e. norræn handtökuskipun kemur í stað venjubundinnar framsalsbeiðni. Norrænu ríki ber að handtaka mann og afhenda því ríki sem gaf beiðnina út nema til staðar séu nánar tilgreindar synjunarástæður, t.d. ef afbrotið getur sætt sakaruppgjöf í landinu þar sem beðið er um fullnustu og landið er valdbært til saksóknar vegna afbrotsins samkvæmt eigin löggjöf. Þá kemur innanríkisráðuneytið ekki að málsmeðferðinni heldur er ákæruvaldinu eða öðrum stjórnvöldum í réttarkerfinu falið að sjá um hana með útgáfu og móttöku handtökuskipunar, umfjöllun um hana og ákvörðunartöku um hvort afhending skuli eiga sér stað. Slíkt mál verður einungis lagt fyrir dómstól ef viðkomandi samþykkir ekki afhendingu. Enn fremur munu stuttir frestir gilda um málsmeðferð og afhendingu.
    Við umfjöllun málsins óskaði utanríkismálanefnd eftir nánari skýringum frá innanríkisráðuneyti um tvo þætti þess, þ.e. hvaða heimildir ríkið sem fær mann afhentan frá Íslandi hefur til afhendingar eða framsals á viðkomandi til ríkis utan norrænu ríkjanna og hugtakið „stjórnmálaafbrot“. Hvað snertir áframhaldandi afhendingu eða framsal verður slíkt ekki heimilt samkvæmt samningnum nema að uppfylltum skilyrðum samningsins og laga nr. 12/ 2010, sbr. næstu málsgrein. Hvað varðar stjórnmálaafbrot verður ekki hægt að synja um afhendingu á grundvelli þess að um slíkt afbrot sé að ræða. Nefndin áréttar í þessu sambandi að hið nýja kerfi, sem Alþingi hefur þegar tekið efnislega afstöðu til með setningu fyrrnefndra laga, byggist á gagnkvæmri viðurkenningu og trausti á réttarkerfum annarra norrænna ríkja. Nánari grein er gerð fyrir framangreindum atriðum málsins í fylgiskjali með áliti þessu.
    Gerðar hafa verið þær lagabreytingar sem nauðsynlegar eru til þess að Ísland geti staðið við þær skuldbindingar sem samningurinn um hina norrænu handtökuskipun leggur samningslöndum á herðar. Voru þær samþykktar samhljóða á Alþingi með lögum um handtöku og afhendingu manna milli Norðurlandanna vegna refsiverðra verknaða (norræn handtökuskipun), nr. 12/2010, með síðari breytingum. Lögin munu öðlast gildi við gildistöku samningsins.
    Hvorki er gert ráð fyrir að staðfesting samningsins né gildistaka fyrrgreindra laga muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Helgi Hjörvar var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 10. maí 2012.



Árni Þór Sigurðsson,


form.


Árni Páll Árnason,


frsm.


Bjarni Benediktsson.



Gunnar Bragi Sveinsson.


Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.


Ólöf Nordal.



Mörður Árnason.


Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.




Fylgiskjal.


Minnisblað frá innanríkisráðuneyti til utanríkismálanefndar
um norræna handtökuskipun, dags. 20. apríl 2012.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.