Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 196. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1063  —  196. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um menningarstefnu.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Vilberg Guðjónsson, Guðna Tómasson og Karitas Gunnarsdóttur frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Eirík Guðmundsson frá Þjóðskjalasafni Íslands, Gunnar Gunnsteinsson frá Bandalagi sjálfstæðra leikhúsa, Margréti Steinarsdóttur frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, Elísabetu Haraldsdóttur frá Menningarráði Vesturlands og Aðalstein Óskarsson og Jón Jónsson frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga. Umsagnir bárust frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga og Menningarráði Vesturlands, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Menningarráði Norðurlands vestra, Menningarráði Vesturlands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, SAVÍST – Samtökum atvinnuveitenda í sviðslistum og tónlist, sjálfstæðu leikhúsunum, Þjóðleikhúsinu og Þjóðskjalasafni Íslands.
    Með tillögunni er lögð fram sérstök stefna íslenska ríkisins á sviði lista- og menningararfs en hún er sett fram í samhengi við almenna markmiðasetningu stjórnvalda sem birtist í sóknaráætluninni Ísland 2020. Stefnunni er ætlað að lýsa á breiðum grunni aðkomu ríkisins að málefnum lista og menningararfs og nýtast stjórnvöldum og Alþingi við frekari umræðu, stefnumótun á afmörkuðum sviðum og ákvarðanatöku. Í tillögunni eru fjórir meginþættir lagðir til grundvallar: sköpun og þátttaka í menningarlífinu, gott aðgengi að listum og menningararfi, samvinna stjórnvalda við þá fjölmörgu aðila sem starfa á sviði menningar og þátttaka barna og ungmenna í menningarlífinu. Ekki er um aðgerðaáætlun að ræða heldur leiðarljós til að fylgja í menningarmálum.
    Í kaflanum um menningarþátttöku kemur fram að eitt af markmiðum tillögunnar er að aðgengi að menningu verði sem best tryggt fyrir alla þjóðfélagshópa, óháð búsetu og efnahag. Nefndin áréttar þann skilning sinn að hér sé einnig átt við fatlaða og aðra þá sem þurfi sérstaklega að koma til móts við til þess að aðgengi þeirra sé tryggt til jafns við aðra.
    Í leiðarljósum stjórnvalda í málefnum lista og menningararfs kemur fram að stjórnvöld skuli leggja sérstaka áherslu á að efla menningu barna og ungmenna og stuðla að því að þau séu virkir þátttakendur í menningarlífinu. Fram kom í máli nokkurra umsagnaraðila að mjög kostnaðarsamt og erfitt væri að fá sýningar og viðburði frá menningarstofnunum á höfuðborgarsvæðinu út á land. Nefndin tekur undir áhyggjur umsagnaraðila hvað þetta varðar og bendir á að í leiklistarlögum, nr. 138/1998, kemur fram í 3. mgr. 5. gr. að á vegum Þjóðleikhússins skuli árlega farnar leikferðir sem víðast um landið. Þessu til áréttingar leggur nefndin til þá breytingartillögu að stjórnvöld hlúi sérstaklega að þeim svæðum sem síst geta notið þjónustu frá helstu menningarstofnunum, með gerð menningarsamninga, fjárfestingaráætlana og þróunarverkefna. Nefndin áréttar mikilvægi góðs aðgengis að listum og menningu óháð búsetu og efnahag fólks. Leggur nefndin því til breytingartillögu þess efnis að menning barna og ungmenna verði efld á landinu öllu.
    Nefndin tekur heils hugar undir mikilvægi menningarstofnana í samfélaginu og að tryggja verði aðgengi almennings að menningararfi þjóðarinnar. Í þessu sambandi leggur nefndin til að við markmið lifandi menningarstofnana bætist að menningarstofnanir á landsvísu þjónusti íbúa landsbyggðarinnar eins og kostur er.
    Nefndinni bárust tillögur frá Bandalagi sjálfstæðra leikhúsa þar sem komu fram nokkrar ábendingar varðandi tillöguna, m.a. um mikilvægi þess að tryggja réttlátt starfsumhverfi fyrir sjálfstætt starfandi listamenn. Nefndin bendir á að í leiðarljósum tillögunnar kemur fram að íslensk stjórnvöld skuli líta á það sem hlutverk sitt að skapa skilyrði fyrir fjölbreytni, sköpun og frumkvæði á sviði lista og menningararfs. Slíkt er einkum gert með rekstri faglegra sjóða, en það er sérstaklega áréttað í 1. og 2. tölul. V. kafla tillögunnar sem snýr að starfsumhverfi í menningarmálum. Það er álit nefndarinnar að réttlátt starfsumhverfi fyrir sjálfstætt starfandi listamenn verði best tryggt með sjóðum sem reknir eru á faglegum forsendum.
    Nefndin tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í tillögunni að stjórnvöld vandi aðkomu sína að málaflokknum og hafi virkt samráð við sem flesta aðila á menningarsviðinu en hlutverk ríkisins í menningarmálum snýr einkum að því að skapa skilyrði fyrir fjölbreytni, sköpun og frumkvæði á sviði lista og menningar. Nefndin vill einnig árétta mikilvægi þess að hugað verði að grunnmenntun á sviði menningar, þá sér í lagi á landsbyggðinni, sem og starfsemi áhugafólks á sviði menningar og lista.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við kaflann „Leiðarljós stjórnvalda í málefnum lista og menningararfs“.
              a.      Á eftir h-lið komi nýr stafliður, svohljóðandi: Stjórnvöld leggja áherslu á að hlúa sérstaklega að þeim svæðum sem síst geta notið þjónustu frá helstu menningarstofnunum með gerð menningarsamninga, fjárfestingaráætlunar og þróunarverkefna.
              b.      Á eftir orðinu „ungmenna“ í fyrri málslið j-liðar komi: á landinu öllu.
     2.      Á eftir 5. tölul. markmiða í II. kafla komi nýr töluliður, svohljóðandi: Menningarstofnanir á landsvísu þjónusti íbúa landsbyggðarinnar eins og kostur er.

    Tryggvi Þór Herbertsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Þorgerður K. Gunnarsdóttir skrifar undir álitið með þeim fyrirvara að menningarstefna hljóti að vera sett fram vegna mikilvægis menningar fyrir samfélagið til lengri og skemmri tíma. Menningarstefnu eigi ekki að móta í tengslum við pólitíska áætlun ríkisstjórnar hverju sinni. Einnig lýtur fyrirvarinn að því að menningaráætlun verði að vera raunsæ en ekki innantómt orðskrúð rétt fyrir kosningar. Síðast en ekki síst verði menningarstefna að byggjast á ábyrgri ríkisfjármálastefnu, sem og stefnu í efnahags- og atvinnumálum svo að fjármögnun stefnunnar verði í tengslum við raunveruleikann.

Alþingi, 18. febrúar 2013.

Björgvin G. Sigurðsson,
form.
Sigmundur Ernir Rúnarsson,
frsm.
Skúli Helgason.

Þráinn Bertelsson.
Ólafur Þór Gunnarsson.
Þorgerður K. Gunnarsdóttir, með fyrirvara.

Siv Friðleifsdóttir.
Birgitta Jónsdóttir.