Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 196. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Nr. 16/141.

Þingskjal 1149  —  196. mál.


Þingsályktun

um menningarstefnu.


     Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að starfa samkvæmt eftirfarandi stefnu er varðar listir og menningararf og aðkomu ríkisins að þeim málaflokkum.
    Stefnan er sett fram í leiðarljósum stjórnvalda og sex köflum með markmiðum.

Leiðarljós stjórnvalda í málefnum lista og menningararfs.
     a.      Íslensk stjórnvöld líta á það sem hlutverk sitt að skapa skilyrði fyrir fjölbreytni, sköpun og frumkvæði á sviði lista og menningararfs.
     b.      Stjórnvöld telja að aðgengi að menningarstarfi og vitund um menningararf séu mikilvægir þættir í samfélagsgerðinni. Rannsóknir og miðlun á menningararfinum efla vitund um sögulegt samhengi og styrkja sjálfsmynd landsmanna. Íslensk tunga er ríkur þáttur í þeirri sjálfsmynd en hana ber að efla á sem flestum sviðum samfélagsins í samræmi við íslenska málstefnu.
     c.      Stjórnvöld vilja stuðla að aukinni þátttöku og bættu aðgengi alls almennings að menningarstarfsemi sem starfrækt er með stuðningi hins opinbera.
     d.      Stjórnvöld setja ramma um þátttöku sína í menningarlífinu með löggjöf og stuðningsaðgerðum. Stuðningur stjórnvalda snýr einkum að starfsemi atvinnumanna á sviði lista og að varðveislu og miðlun menningararfs.
     e.      Stjórnvöld álíta fjölbreytta menningarstarfsemi vera mikilvægan þátt í atvinnulífi þjóðarinnar sem muni vega enn þyngra í framtíðinni. Menningarlíf landsmanna hefur víðtæk afleidd áhrif í efnahagslegu tilliti, m.a. í ferðaþjónustu, tæknigreinum, menntun og verslun og þjónustu.
     f.      Stjórnvöld viðurkenna sjálfstæði stofnana sinna á sviði menningar um leið og gerð er krafa til stjórnenda þeirra og starfsmanna um fagleg vinnubrögð.
     g.      Stjórnvöld leggja áherslu á að þeir aðilar sem njóta stuðnings á menningarsviðinu hafi í heiðri vönduð vinnubrögð og bjóði upp á faglega starfsemi og þjónustu.
     h.      Stjórnvöld hafa ekki beina aðkomu að dagskrá og daglegu starfi menningarstofnana ríkisins og annarra aðila sem njóta fjárstuðnings frá ríkinu. Þau meta hins vegar árangur starfsins og framfylgja ábyrgð stjórnenda, fulltrúa í stjórnum og annarra sem fara með opinbert fé.
     i.      Stjórnvöld leggja áherslu á að hlúa sérstaklega að þeim svæðum sem síst geta notið þjónustu frá helstu menningarstofnunum með gerð menningarsamninga, fjárfestingaráætlunar og þróunarverkefna.
     j.      Stjórnvöld haga stuðningi sínum við menningarstarfsemi í samræmi við regluna um hæfilega fjarlægð við úthlutun opinbers fjár til menningarstarfs, t.d. í starfi stofnana og sjóða og í úthlutunarnefndum starfslauna listamanna.
     k.      Stjórnvöld leggja sérstaka áherslu á að efla menningu barna og ungmenna á landinu öllu og stuðla að því að þau séu virkir þátttakendur í menningarlífinu. Menningarstofnanir ríkisins og aðrir aðilar sem njóta opinbers stuðnings eru hvattir til að skipuleggja dagskrá sína m.a. með börn og ungmenni í huga og haga starfsemi sinni þannig að þau eigi greiðan aðgang að listum og menningu, óháð efnahag.
     l.      Stjórnvöld greiða fyrir samstarfi ólíkra aðila í menningarlífinu. Sköpunargáfa ólíkra hópa og einstaklinga styrkir menningarlífið en grunnforsendur þeirrar sköpunar eru tjáningarfrelsi og lýðræði.
     m.      Stjórnvöld leggja áherslu á árangursríkt samstarf við sveitarfélög og landshlutasamtök þeirra á sviði menningarmála og hvetja til að þessir aðilar taki höndum saman um einstök menningarverkefni. Menningarsamningar eru gerðir við landshlutasamtök um stuðning við menningarstarf á landsbyggðinni. Samstarf við Reykjavíkurborg, sem höfuðborg landsins, er einkar mikilvægt.
     n.      Stjórnvöld leggja áherslu á stafræna miðlun á ólíkum þáttum menningarlífsins. Menningarstofnanir nýti upplýsingatækni á markvissan hátt í starfi sínu, ekki síst í miðlun menningararfs.
     o.      Stjórnvöld hvetja til samstarfs og þátttöku einstaklinga og atvinnulífs í menningarlífinu.
     p.      Stjórnvöld vilja stuðla að vandaðri kynningu á íslenskri menningu erlendis og alþjóðlegu menningarsamstarfi.
     q.      Stuðningur stjórnvalda við menningar- og listalíf í landinu þarf að vera í takt við tímann um leið og huga ber að fjölbreytni, samhengi, tungu, arfi og sögu.

I. Menningarþátttaka.
    Aðgengi að menningu er mikilvægur þáttur þess að lifa í frjálsu samfélagi. Menningarstarf styrkir þekkingarleit og nýsköpun í samfélaginu. Varðveisla og miðlun menningararfsins og mikilvægi íslenskrar tungu eru einnig lykilþættir í menningarlífinu.
    Menningarlæsi og menningarþátttaka eru veigamikil atriði í uppvexti barna og unglinga. Aðgengi þeirra að menningu eykur þeim víðsýni og umburðarlyndi, og þátttaka í menningarstarfi eykur vitund um lýðræði, réttlæti og sögulegt samhengi. Þannig er líklegt að þroski og færni borgaranna til samfélagslegrar þátttöku eflist.
    Menningarleg fjölbreytni styrkir samfélagið og er þáttur í lífsgæðum í landinu. Menningarstarf hvetur til félagslegra samskipta og dregur úr hættu á menningarlegri einangrun einstaklinga og hópa. Fjölmiðlar gegna þýðingarmiklu hlutverki í að miðla fjölbreytni og krafti menningarlífsins.
    Öflugt menningarlíf er ekki einungis mikilvægt fyrir íbúa á Íslandi heldur einnig fyrir alla gesti þeirra og ferðamenn sem vilja kynnast fólkinu sem landið byggir og sögu þess.
    Fjölbreytni og fagmennska eru lykilatriði þegar kemur að því að efla menningu fyrir alla og ýta undir virka þátttöku auk þess að vera leiðarljós fyrir alla menningartengda ferðaþjónustu.

Markmið.
     1.      Fjölbreytni menningarlífsins verði viðhaldið og hún efld í þeirri viðleitni að allir finni eitthvað við sitt hæfi í menningarlífinu.
     2.      Aðgengi að menningu verði sem best tryggt fyrir alla þjóðfélagshópa, óháð búsetu og efnahag.
     3.      Framboð á menningu fyrir börn og ungmenni verði eflt og stuðlað að þátttöku þeirra.
     4.      Listfræðsla og listkennsla verði efld í skólakerfinu og haldið áfram uppbyggingu á háskólanámi og rannsóknum á sviði menningar og lista.
     5.      Hvatt verði til virkrar þátttöku, sköpunar og frumkvæðis einstaklingsins í samræmi við aukna áherslu á gagnrýna hugsun, sköpun og umburðarlyndi í námskrám allra skólastiga.
     6.      Menningarstofnanir og þeir sem stjórnvöld styðja til starfa í menningarlífinu leitist sífellt við að breikka þann hóp sem þeir ná til með starfsemi sinni og sporni þannig gegn menningarlegri aðgreiningu.
     7.      Menningarstofnanir verði í fararbroddi á sínum sviðum við miðlun á fjölbreytni menningarlífsins.

II. Lifandi menningarstofnanir.
    Menningarstofnanir eru mikilvægar í samfélaginu. Þær styrkja sjálfsmynd Íslendinga og gegna hlutverki við að treysta félagsleg tengsl.
    Menningarstofnanir gefa landsmönnum tækifæri á að njóta listsköpunar og kynnast menningararfinum og gegna veigamiklu hlutverki í menningarrannsóknum, söfnun, skráningu, varðveislu og stjórnsýslu. Þær eru þjónustustofnanir sem taka mið af fjölbreytni samfélagsins í starfi sínu og dagskrá, auk þess að gegna lykilhlutverki í fræðslumálum á sviði menningar, bæði fyrir börn og fullorðna. Samstarf háskóla og menningarstofnana við menningarrannsóknir er einnig forsenda nýjunga í rannsóknum og miðlun.
    Samkvæmt hefð og lögum eru menningarstofnanir ríkisins sjálfstæðar í starfi sínu. Þeim er m.a. settur rammi í lögum og reglugerðum og árangursstjórnunarsamningar segja fyrir um markmið og forgangsröðun verkefna.

Markmið.
     1.      Menningarstofnanir á Íslandi leggi áherslu á fagmennsku, fjölbreytni og gæði í starfi sínu.
     2.      Menningarstofnanir styðji við frumsköpun á sviði lista og leiti nýrra leiða við rannsóknir og miðlun á menningararfi.
     3.      Menningarstofnanir efni til samstarfs við sjálfstæða aðila, báðum til hagsbóta, og stefni að auknum sveigjanleika í starfsemi sinni og stefnu. Menningarstofnanir sækist eftir samstarfi við grasrótina í menningarlífinu til að efla starf sitt og stuðla að nýsköpun.
     4.      Menningarstofnanir leitist við að greina þann hóp sem þær þjóna og stefni að því að höfða til fleiri hópa samfélagsins.
     5.      Dagskrá menningarstofnana sé eftirsóknarverður valkostur í frístundum íslenskra fjölskyldna. Hugað sé sérstaklega að dagskrá fyrir börn og ungmenni, m.a. í samstarfi við skólastofnanir.
     6.      Menningarstofnanir á landsvísu þjónusti íbúa landsbyggðarinnar eins og kostur er.
     7.      Kannaðir verði kostir þess að sameina menningarstofnanir, þar sem við á, til að ná fram samlegðaráhrifum og til að efla faglegt starf.
     8.      Stjórnvöld setji sér langtímastefnu í húsnæðismálum menningarstofnana.
III. Samvinna í menningarmálum.
    Mikill hluti menningarstarfs í landinu fer fram án aðkomu ríkisins en framlög ríkis til menningarstofnana, sjóða og samninga treysta grundvöll fjölbreyttrar menningarstarfsemi sem stunduð er af atvinnumönnum.
    Einstaklingar og samtök þeirra eru meginhreyfiafl menningarlífsins og skapa grundvöll fyrir sköpun og samstarf. Framþróun og nýsköpun í menningarlífinu byggist á breiðri þátttöku og samvinnu ólíkra aðila. Samstarf opinberra aðila og einkaaðila er nauðsynlegt til að lista- og menningarlíf geti þrifist.
    Menningarlíf er ein af forsendum búsetu, rétt eins og atvinna, heilbrigðisþjónusta, menntun og félagslegt öryggi. Stjórnvöld stuðla að því að efla menningarstarf um allt land og forsenda þess er gott samstarf við sveitarfélögin, t.d. með fjárframlögum til menningarsamninga landshlutanna.
    Menningarstofnanir ríkisins eru miðstöðvar fyrir samvinnu og í fararbroddi í faglegum efnum hver á sínu sviði.

Markmið.
     1.      Árangur menningarsamninga ríkis og sveitarfélaga verði metinn með reglulegu millibili til að treysta samstarfið.
     2.      Í allri samvinnu í menningarlífinu verði unnið eftir faglegum forsendum og stuðst við meginreglu um hæfilega fjarlægð við úthlutun opinbers fjár.
     3.      Mennta- og menningarstofnanir vinni saman að því að efla menningarlæsi ungs fólks.
     4.      Samstarf listamanna og skóla verði aukið og áhersla lögð annars vegar á frekari möguleika barna og ungmenna til að njóta lista og hins vegar á að örva sköpun og gagnrýna hugsun þeirra.
     5.      Fyrirtæki og einkaaðilar verði hvattir til aukinnar samfélagslegrar þátttöku með stuðningi við menningarlífið.

IV. Ísland í alþjóðasamhengi.
    Menningarlífið á Íslandi nærist á erlendum straumum en leggur um leið til þeirra. Slíkt samspil er nauðsynlegt fyrir framþróun lista og menningarstarfs. Þátttaka íslenskra listamanna í alþjóðlegu samstarfi stækkar markað þeirra og eykur kröfur sem til þeirra eru gerðar, og stuðlar um leið að fjölbreyttara lista- og menningarlífi þjóðarinnar.
    Menningarlífið mótar upplifun margra af landinu og vel unnin menningarverkefni á alþjóðlegum vettvangi styrkja orðspor Íslands.
    Varðveisla menningararfsins, þ.m.t. íslenskrar tungu, er mikilvæg í hnattrænu samhengi auk þess sem menningararfurinn er grunnstoð í sjálfsmynd landsmanna.
    Eitt af hlutverkum stjórnvalda á sviði lista og menningar er að stuðla að þátttöku í alþjóðlegum samskiptum og samstarfi.

Markmið.
     1.      Alþjóðlegt menningarsamstarf verði aukið og þ.m.t. fagleg kynning á íslenskri menningu erlendis með virku samstarfi þeirra er málið varðar. Í því skyni verði kynningarmiðstöðvar listgreina efldar og þær leiti eftir auknu samstarfi við systurstofnanir annars staðar á Norðurlöndunum og víðar.
     2.      Þátttaka í alþjóðlegu samstarfi á sviði lista og kynningar á íslenskri list erlendis fari fram á forsendum listarinnar. Kynningarmiðstöðvar listgreinanna, Íslandsstofa, mennta- og menningarmálaráðuneyti og utanríkisráðuneyti gegna þar stóru hlutverki.
     3.      Íslenskum listamönnum verði gert auðveldara að taka þátt í erlendu listalífi og hlutverk kynningarmiðstöðva í að styðja við það starf verði eflt.
     4.      Við miðlun á íslenskum menningararfi verði fjölbreyttar leiðir nýttar og áhersla lögð á þátttöku, fræðslu og upplifun.
     5.      Stjórnvöld standi að virku samstarfi við fjölþjóðlegar stofnanir á sviði menningar.

V. Starfsumhverfi í menningarmálum.
    Tjáningarfrelsi er grundvallarforsenda menningarlífs og stjórnvöldum ber skylda til að standa vörð um það með öllum ráðum. Stjórnvöld eiga ekki að reyna að hafa áhrif á sköpun eða innihald lista og annars menningarlífs. Þau setja ramma um aðkomu sína að menningarlífinu með löggjöf og stuðningsaðgerðum sem snúa einkum að starfsemi stofnana og atvinnumanna á sviði lista og að varðveislu menningararfs. Þau virða reglur um hæfilega fjarlægð og eiga að skapa fordæmi um góð vinnubrögð og heilbrigða stjórnarhætti.
    Rekstur menningarstofnana, launasjóða og lögbundinna verkefnasjóða í menningarlífinu styður við fjölbreytni þess. Stjórnvöld eiga að tryggja að fjármagn nýtist vel og að faglega sé staðið að stefnumörkun og ákvörðunum. Góð yfirsýn og skilvirkni eru mikilvæg atriði við úthlutun opinbers fjár til lista og starfsemi á sviði menningararfs.

Markmið.
     1.      Framlög ríkisins til verkefna á sviði menningarmála fari í gegnum lögbundna sjóði með faglegum úthlutunarnefndum sem byggja úthlutun á vönduðu jafningjamati. Í stjórnum sjóða séu viðhafðir góðir stjórnunarhættir, regla um hæfilega fjarlægð virt og almennum hæfisreglum fylgt.
     2.      Starfslaunasjóðir og verkefnasjóðir verði vel skilgreindir og endurspegli fjölbreytni og þróun menningarlífsins, m.a. er varðar samstarfsverkefni.
     3.      Leitað verði leiða til að efla enn frekar stuðning einkaaðila við menningarstarf og hann gerður eftirsóknarverður. Unnið verði að gagnkvæmum skilningi og viðurkenningu á sameiginlegum hagsmunum menningarlífs og atvinnulífs.
     4.      Starfsumhverfi sjálfstætt starfandi listamanna verði bætt á sviði skattamála, almannatrygginga, sjúkratrygginga o.s.frv.
     5.      Rannsóknir á mikilvægi menningar í atvinnulífi landsmanna verði studdar til að treysta grundvöll lista og menningar í atvinnu- og þjóðlífi.
     6.      Þjóðhagslegt vægi lista og menningar verði hluti af reglubundinni skráningu hagtalna.

VI. Stafræn menning.
    Upplýsingatækni og stafrænar miðlunarleiðir hafa mikil áhrif á menningu samtímans, hvort sem horft er til afþreyingar, sköpunar, samskipta, rannsókna, varðveislu eða miðlunar á hvers kyns menningarefni. Sífellt fleiri nota netið til að leita sér upplýsinga um íslenska menningu sem verður sífellt aðgengilegri með stafrænum miðlunarleiðum. Ísland er netvætt land og netnotkun almennings er ein sú mesta í heimi miðað við mannfjölda. Forsendur eru því góðar til að ná frekari árangri á þessu sviði.
    Gott aðgengi að íslenskri menningu og upplýsingum um hana í stafrænum miðlum er afar mikilvægt fyrir öflugt menningarlíf í samfélaginu. Til að opna enn frekari aðgang almennings að þeim fjársjóðum sem felast í listum og menningararfi okkar þarf að auka framboð á nýju stafrænu efni og færa gamalt efni í stafrænt horf. Aðgengi að menningarefni styður menningar- og listfræðslu, spornar gegn ólögmætri notkun á lögvernduðu efni og stuðlar að auknum áhuga og þekkingu á íslenskri menningu.
    Listsköpun með hjálp stafrænnar tækni eykst hröðum skrefum og mikilvægt er að stuðla að frumsköpun á þessu sviði, samhliða því að auka færni fólks í notkun stafrænna miðla. Hröð tækniþróun gerir varðveislu menningarefnis á stafrænu formi vandasama og nauðsynlegt er að huga vel að lausnum í þeim efnum.

Markmið.
     1.      Menningararfur þjóðarinnar verði gerður aðgengilegur á sem flestum sviðum á stafrænu formi. Í þessu efni þurfa menningarstofnanir sem vinna með stafrænt efni að starfa saman, forgangsraða og gera áætlanir.
     2.      Framboð á íslenskri menningu í stafrænu formi verði vandað og sýnilegt.
     3.      Menningarstofnanir standi faglega að kynningu á starfi sínu á vefnum bæði á íslensku og erlendum tungumálum.
     4.      Stuðlað verði að virkri þátttöku og sköpun landsmanna í gegnum netið. Miðlalæsi í skólakerfinu er mikilvægur grunnur að slíkri þátttöku enda er áhersla lögð á upplýsinga- og miðlalæsi í nýjum námskrám skólastiganna.
     5.      Leitað verði lausna á höfunda- og hugverkaréttindamálum á netinu og unnið með samtökum listamanna og stjórnvöldum í nágrannalöndunum á því sviði.
     6.      Menningarstofnanir efli miðlun á listum og menningararfi með stafrænum hætti og stuðli að góðu samstarfi við hagsmunaaðila á þessu sviði.


Samþykkt á Alþingi 6. mars 2013.