Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 3. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Prentað upp.

Þingskjal 315  —  3. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014 (verðlagsbreytingar o.fl.).


Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið. Á fund hennar komu Guðrún Þorleifsdóttir, Ingibjörg Helga Helgadóttir, Margrét Ágústa Sigurðardóttir og Maríanna Jónasdóttir frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Halldór Árnason og Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins, Jón Þór Sturluson, Ingibjörg S. Stefánsdóttir og Ari Sigurðsson frá Fjármálaeftirlitinu, Drífa Snædal frá Starfsgreinasambandinu, Ólafur Darri Andrason frá Alþýðusambandi Íslands, Georg Brynjarsson frá Bandalagi háskólamanna, Runólfur Ólafsson frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Haraldur Ingi Birgisson frá Viðskiptaráði Íslands, Almar Guðmundsson frá Félagi atvinnurekenda, Jórunn Pála Jónasdóttir frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, María Rut Kristinsdóttir, Vigfús Rúnarsson og Jóna A. Pálmadóttir frá Stúdentaráði Háskóla Íslands, Hjalti Rúnar Ómarsson frá Vantrú og Gylfi Arnbjörnsson og Vigdís Jónsdóttir frá VIRK-starfsendurhæfingarsjóði. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Óháða söfnuðinum, Bændasamtökum Íslands, VIRK-starfsendurhæfingarsjóði, Bandalagi háskólamanna, Seðlabanka Íslands, Landssambandi eldri borgara, Fjármálaeftirlitinu, Samtökum atvinnulífsins, Hvítasunnukirkjunni á Íslandi, Jafnréttisstofu, Kennarasambandi Íslands, Samkeppniseftirlitinu, Samtökum ferðaþjónustunnar, Starfsgreinasambandi Íslands, Stúdentaráði Háskóla Íslands, Vantrú, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði, Viðskiptaráði Íslands, Félagi atvinnurekenda, Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og sameiginleg umsögn frá Samtökum atvinnulífsins, Samtökum sprotafyrirtækja, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum sem öllum er ætlað að skapa forsendur fyrir tekjuáætlun sem kemur fram í fjárlagafrumvarpi 2014. Fagnar meiri hlutinn þeim rúma tíma sem gefist hefur til að gaumgæfa málið.

Þjóðhagsspá Hagstofu Íslands frá 15. nóvember sl.
    Endurskoðuð þjóðhagsspá lá fyrir 15. nóvember 2013. Samkvæmt henni virðist þjóðarbúskapurinn í stórum dráttum hafa þróast eins og reiknað hafði verið með í þeirri þjóðhagsspá sem lá til grundvallar verð gerð fjárlagafrumvarps fyrir árið 2014. Gert er ráð fyrir að landsframleiðsla aukist 0,3% meira á þessu ári en áður hafði verið gert ráð fyrir auk þess sem atvinnuvegafjárfesting reyndist meiri og innflutningur minni á fyrri helmingi 2013. Gert er ráð fyrir 2,5% aukningu landsframleiðslu á árinu 2014. Verðbólguhorfur hafa versnað lítillega og efnahagshorfur í helstu viðskiptalöndum eru svipaðar og áður hafði verið gert ráð fyrir. Gert er ráð fyrir að kjarasamningar náist og að aukning kaupmáttar verði hófleg en starfandi fólki virðist vera að fjölga á vinnumarkaði og atvinnulausum að fækka. Atvinnuvegafjárfesting mun líklega dragast saman um 3,1% árið 2013 en stóriðjufjárfesting nær hámarki árin 2015–2016. Fjárhagsstaða heimila og fyrirtækja heldur áfram að batna.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Í umsögnum og á fundum nefndarinnar komu ýmis sjónarmið fram sem nefndin ræddi sérstaklega.

Verðlagsuppfærsla skatta og gjalda.
    Athugasemdir voru gerðar við að lagðar væru til hækkanir á sköttum og gjöldum til samræmis við vænta hækkun verðlags samkvæmt forsendum fjárlagafrumvarps fyrir árið 2014. Var því m.a. haldið fram að slíkar hækkanir hefðu verðbólguhvetjandi áhrif. Þá kom fram að vonir hefðu staðið til þess að verðbólga hjaðnaði á næstu mánuðum en ein forsenda þess væri að opinberir aðilar og einkaaðilar héldu að sér höndum, hækkuðu ekki gjaldskrár og vöruverð. Því sjónarmiði var einnig hreyft að samræmi þyrfti að nást í verðlagsuppfærslur, ef raunvirða ætti tekjuhlið fjárlaga þyrfti einnig að gera slíkt hið sama við gjaldahliðina. Þá voru einnig leiddar líkur að því að ekki væri víst að hækkanir skatta og gjalda skiluðu auknum tekjum enda mundu hærri gjöld almennt leiða til hærra verðlags á vörum sem aftur leiddi til minni eftirspurnar eftir vöru og þjónustu. Einnig var bent á að verðlagsforsendur fjárlaga standist yfirleitt ekki og séu jafnan of lágar.
    Skilningur meiri hlutans er að það sé rétt sem fram er haldið að verðlagsuppfærslur skatta og gjalda geti í raun verið verðbólguhvetjandi. Á móti kemur að ef látið er hjá líða að ráðast í slíkar hækkanir skapast veruleg hætta á að raungildi skatta breytist á handahófskenndan hátt eftir verðbólgu hvers árs. Gerist það má sjá fyrir að skattar og gjöld taki að hafa óæskileg áhrif á efnahagslífið. Til þess að bregðast við slíku verður þá nauðsynlegt að ráðast í sársaukafullar lagfæringar. Sjá má fyrir sér að slíkar lagfæringar verði óreglulegar. Í því ljósi telur meiri hlutinn að jafnan fari betur á því að þeirri reglu sé fylgt að uppfæra skatta og gjöld reglulega. Þrátt fyrir að þessi sé skoðun meiri hlutans er það álit hans að skoða mætti hvort ástæða og tilefni sé til að breyta grundvelli tiltekinna skatta og gjalda óháð verðbólgu. Slíkt kann t.d. að eiga við þegar kemur að sköttum sem snerta bifreiðanotkun og fjallað er um í 1.–3. og 6. gr. frumvarpsins. Þannig hefur verð á bensíni lækkað að undanförnu og af þeim sökum minnka tekjur ríkissjóðs. Meiri hlutinn telur brýnt að tekið verði til skoðunar hvaða aðrar leiðir séu færar til að mæla og skattleggja vegnotkun en nefna má að slíkar hugmyndir voru ræddar á fundum nefndarinnar fyrir allmörgum árum.

Kostnaður við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi (12. gr.).
    Í 12. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á álagningarhlutföllum og stærðum eftirlitsgjalds skv. 5. gr. laga um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Til grundvallar lækkununum liggja upplýsingar um áætlaðan rekstrarafgang Fjármálaeftirlitsins í árslok 2013 og hagræðingarkröfur fjárlagafrumvarps 2014.
    Í umsögn Fjármálaeftirlitsins eru gerðar athugasemdir við 12. gr. Þar kemur annars vegar fram að láðst hafi að gera ráð fyrir álagningarhlutfalli á viðskiptabanka í frumvarpsgreininni og hins vegar að forsendur fyrir tillögu um álagningarhlutfall og lágmarksgjald á fagfjárfestasjóði hafi breyst frá framlagningu frumvarpsins.
    Af hálfu fjármála- og efnahagsráðuneytisins kom fram að við framlagningu frumvarpsins hefði misfarist að færa inn lækkun á eftirlitsgjöldum sem næmi þeirri hagræðingarkröfu sem gert væri ráð fyrir í frumvarpi til fjárlaga 2014. Í kjölfarið lagði ráðuneytið til að brugðist yrði við með breytingum á frumvarpinu. Meiri hlutinn fellst á forsendur tillagna ráðuneytisins. Leggur meiri hlutinn til umtalsverðar breytingar á frumvarpsgreininni. Miða þær að því að tekjur Fjármálaeftirlitsins af eftirlitsgjaldi 2014, vegna opinbers eftirlits með fjármálastarfsemi, endurspegli tekjuheimild stofnunarinnar samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2014.

Stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki (17. gr.).
    Í 17. gr. frumvarpsins er lagt til að skattfrádráttur frá álögðum tekjuskatti lækki úr 20% í 15% af útlögðum kostnaði vegna rannsóknar- og þróunarverkefna nýsköpunarfyrirtækja.
Athugasemdir voru gerðar við þessa tillögu. Kom það sjónarmið fram að með henni væru fyrirtækjum send röng skilaboð enda væri þróunarstarf meginforsenda aukinnar verðmætasköpunar, aukins útflutnings og fjölgunar starfa hjá nýsköpunarfyrirtækjum. Þá kom það mat fram að áhrif gildandi ákvæða laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki á greiðslustöðu ríkissjóðs væru í raun jákvæð og að tekjuskattstekjur ríkissjóðs af starfsmönnum nýsköpunarfyrirtækja gerðu gott betur en að jafna heildarfjárhæð frádráttarins. Var jafnframt dregið í efa að lækkunin mundi skila ríkissjóði þeim tekjum sem áætlað væri á árinu 2015.
    Samkvæmt athugasemdum við frumvarpið er gert ráð fyrir að sú tillaga sem felst í frumvarpsgreininni muni lækka útgjöld ríkissjóðs um allt að 300 millj. kr. á árinu 2015. Vissulega er það ekki hafið yfir gagnrýni að dregið sé úr stuðningi við nýsköpunarfyrirtæki með þeim hætti sem lagt er til í 17. gr. frumvarpsins. Hjá því verður þó ekki litið að þrátt fyrir að hlutfall tekjuskattsfrádráttarins verði lækkað um 5% nemur heimill frádráttur enn 15%. Í samhengi við stöðu ríkissjóðs vegur lækkunin nokkuð þungt. Réttmætt er að stefna að því tekjumarkmiði sem gert er í frumvarpinu.
    Að mati meiri hlutans er hins vegar mögulegt að ná sama markmiði með öðrum hætti þannig að dregið verði úr áhrifum á minni nýsköpunarfyrirtæki sem oft eiga erfiðara um vik að sækja fjármögnun en þau sem stærri eru. Leggur meiri hlutinn til breytingu á frumvarpsgreininni, í stað þess að í henni verði kveðið á um lækkun frádráttarhlutfalls útlagðs kostnaðar verði þak hámarkskostnaðar til útreiknings á frádrætti lækkað, bæði almenns kostnaðar og rannsóknar- og þróunarkostnaðar. Með því móti verður útgjaldamarkmiðum frumvarpsgreinarinnar náð en á sama tíma dregið úr áhrifum breytinganna á smærri fyrirtæki.

Skrásetningargjald í háskóla (22. gr.).
    Segja má að efni 22. gr. frumvarpsins hafi sætt tvenns konar gagnrýni. Annars vegar var hækkun skráningargjalds gagnrýnd þar sem gjaldið hefði hækkað mikið á undanförnum árum. Kom sú skoðun m.a. fram að slíkar hækkanir torvelduðu jöfnun tækifæra til náms. Hins vegar var gagnrýnt að ekki væri gert ráð fyrir að hækkunin skilaði sér nema að litlu leyti til Háskóla Íslands þar sem framlag til hans væri lækkað samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2014 samanborið við framlag líðandi árs. Í þessu samhengi er þó rétt að benda á að gagnstæð sjónarmið komu fram fyrir nefndinni, sumir töldu hækkun skrásetningagjalda of litla og að nemendur opinberra háskóla greiddu of lítinn hluta námskostnaðar.
    Í almennum athugasemdum við frumvarpið er hækkunin rökstudd með vísan til óskar ríkisháskólanna um hækkun skrásetningargjalda. Sú ósk er aftur rökstudd með rauntölum frá Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri að teknu tilliti til verðlagsbreytinga.
    Að mati meiri hlutans er hækkunin studd sterkum rökum. Brýnt virðist orðið að koma til móts við fjárþörf opinberra háskóla. Með hvaða hætti það verður gert eru menn þó ekki sammála. Telur meiri hlutinn að hækkun skólagjalda kunni að hvetja námsmenn til að nýta betur það nám sem opinberir háskólar bjóða upp á.

Fæðingar- og foreldraorlof (24.–28. gr.).
    Margir umsagnaraðila fögnuðu áætlunum um hækkun á hámarki mánaðarlegra greiðslna Fæðingarorlofssjóðs til foreldra í fæðingarorlofi og að fallið yrði frá lengingu fæðingarorlofs. Kom sú skoðun fram að lenging fæðingarorlofs mundi ekki leiða til aukinnar töku feðraorlofs enda væru hámarksgreiðslur of lágar. Var talið líklegt að konur mundu nýta lengra orlof í meira mæli en karlar og því mundi misrétti kynjanna aukast.
    Aðrir lýstu andstöðu við að fallið yrði frá lengingu fæðingarorlofs. Kom sú skoðun fram að slík lenging væri líkleg til að auka jafnrétti kynjanna og með henni væri komið til móts við þarfir ungra barna og foreldra þeirra.
    Að mati meiri hlutans eru þær ráðstafanir sem lagðar eru til í frumvarpinu skynsamlegar. Stefnt er að lækkun útgjalda í málaflokknum. Tíðni foreldraorlofstöku meðal feðra hefur farið lækkandi og telja sumir skýringu þess vera að finna í of lágu hámarki orlofsgreiðslna. Aðrir telja aðra þætti, t.d. breytingar á stöðu launþega á vinnumarkaði, nærtækari skýringu.

Starfsendurhæfingarsjóðir (29. gr.).
    Í 29. gr. frumvarpsins er lagt til að þreföldun greiðslna til atvinnutengdra starfsendurhæfingarsjóða verði frestað um eitt ár. Á fundum nefndarinnar kom fram nokkur gagnrýni á að með því væri farið gegn því samkomulagi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins sem legið hefði til grundvallar við samþykkt laga um atvinnutengda starfsendurhæfingu en í því samkomulagi væri gert ráð fyrir því að ríkissjóður legði sjóðnum til ákveðið fjármagn í áföngum. Var sú skoðun látin í ljós að stjórnvöld hefðu átt að taka upp viðræður við aðila vinnumarkaðarins um fyrirhugaðar breytingar og ráðstöfun fjármuna. Þannig skapaði það óvissu að ekki lægi fyrir hvort breyta ætti um stefnu varðandi málefni starfsendurhæfingarsjóða. Þá var bent á að starf VIRK-starfsendurhæfingarsjóðs hafi ekki þróast eins og vænst var vegna þess að enn hefur ekki verið horfið frá löngu úreltu örorkumati og starfsgetumat tekið upp þess í stað. Fram kom að starfsgetumat og forsendur þess séu til umfjöllunar í nefnd sem velferðarráðherra hefur skipað.
    Miklir fjármunir hafa safnast upp hjá VIRK-starfsendurhæfingarsjóði án þess að þeir nýtist. Að mati meiri hlutans er slíkt ekki skynsamlegt þegar tekið er tillit til fjárhagsstöðu ríkissjóðs. Um síðustu áramót nam eigið fé VIRK-starfsendurhæfingarsjóðs um 1.500 millj. kr. og hafði vaxið um 400 millj. kr. á árinu 2012. Meiri hlutinn gerir sér þó grein fyrir að þegar grundvöllur starfsgetumats verður treystur með lögum frá Alþingi og starfsendurhæfingarsjóðir fá eðlilega virkni mun þörf fyrir fjármagn úr ríkissjóði verða knýjandi.

Breyting á lögum um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks.
    Athygli nefndarinnar var vakin á því að 3. gr. laga nr. 19/1979, um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- eða slysaforfalla, hefði verið túlkuð á þann veg að fyrirtækjum í fiskvinnslu væri heimilt að senda fiskverkafólk heim fyrirvaralítið vegna hráefnisskorts án þess að til greiðslu launa í uppsagnarfresti kæmi. Var bent á að lögum um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks hefði verið ætlað að vega upp á móti þeirri réttindaskerðingu sem fælist í 3. gr. hinna fyrrnefndu laga.
    Sú skoðun kom fram að brottfall laga um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks mundi ekki hafa áhrif á greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði enda ætti fiskverkafólk rétt á bótum úr sjóðnum. Þess vegna var talið óljóst hvort brottfellingin hefði nokkurn sparnað í för með sér fyrir ríkissjóð. Kom það mat fram að brottfelling laganna mundi leiða til sparnaðar í launagreiðslum fiskvinnslufyrirtækja, þar sem fiskverkafólk mundi falla af launaskrá komi til hráefnisskorts, og skapa tjón fyrir fiskverkafólk. Þá var bent á að brottfelling laganna mundi óbeint leiða til sóunar þar sem fiskvinnslufyrirtæki þyrftu oftar að leita sér starfskrafta og fiskverkafólk oftar að leita sér atvinnu.
    Meiri hlutinn telur ljóst að draga verði úr útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna greiðslna til fiskverkafólks. Á meðan meðferð málsins stóð yfir var nefndin upplýst um að samráð hefði átt sér stað milli fulltrúa velferðarráðuneytis, Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka fiskvinnslustöðva. Voru þessir aðilar ásáttir um að þeim vinnudögum sem fiskvinnslufyrirtæki eiga rétt á greiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði verði fækkað. Þannig verði ekki greitt fyrir fyrstu fimm daga tímabundinnar vinnustöðvunar á fyrri hluta almanaksársins, 1. janúar til 30. júní. Þá yrði ekki greitt fyrir fyrstu fimm daga tímabundinnar vinnustöðvunar á síðari hluta ársins, 1. júlí til 31. desember. Þetta þýðir að fiskvinnslufyrirtæki sem greiða starfsfólki sínu föst laun fyrir dagvinnu í tímabundinni vinnslustöðvun í samræmi við ákvæði kjarasamninga eiga áfram rétt á greiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði fyrir hvern heilan vinnudag að framangreindum dögum undanskildum. Samtals yrði þannig ekki greitt fyrir tíu vinnudaga á almannaksárinu í stað sex eins og nú er.
    Meiri hlutinn leggur til breytingar á 30. gr. frumvarpsins sem byggjast á framangreindum tillögum. Með þeim leitast meiri hlutinn við að viðhalda því markmiði laganna að stuðla að starfsöryggi fiskvinnslufólks sem nýtur kauptryggingar á grundvelli kjarasamninga þegar vinna liggur niðri vegna hráefnisskorts á sama tíma og stuðlað er að lækkun útgjalda Atvinnuleysistryggingasjóðs.

Trúfélög og lífsskoðunarfélög (31. gr.).
    Á fundi nefndarinnar var gerð tæknileg athugasemd við 31. gr. frumvarpsins. Var bent á að í byrjun árs 2013 hafi lög nr. 108/1999, um skráð trúfélög, tekið breytingum þegar lífsskoðunarfélög voru felld undir gildissvið laganna. Láðst hefði hins vegar að gera ráð fyrir þessari breytingu við samningu frumvarpsins og því væri lífsskoðunarfélaga ekki getið í frumvarpsgreininni.
    Meiri hlutinn leggur til breytingu á 31. gr. frumvarpsins í ljósi framangreindrar athugasemdar.

Tillaga að nýjum köflum.
    Meiri hlutinn leggur til að þremur nýjum köflum verði bætt við frumvarpið.

Úrvinnslugjald.
    Lögð er til hækkun á fjárhæð úrvinnslugjalds fyrir plast, leysiefni, olíumálningu og framköllunarefni. Endurskoðun gjalda í þessum flokkum miðar að því að draga úr sjóðshalla sem hefur orðið í þeim, enda er ætlunin að hver vöruflokkur standi undir sér. Skal tekjum hvers uppgjörsflokks eingöngu varið til að mæta gjöldum þess flokks.
    Lögð er til lækkun á fjárhæð úrvinnslugjalds fyrir blýsýrurafgeyma vegna hækkaðs endursöluverðs á blýi til endurvinnslu. Lögð er til hækkun á greiðslu skilagjalds til síðasta skráða eiganda ökutækis er hann skilar úrsérgengnu ökutæki til úrvinnslu. Er það gert til að mæta auknum kostnaði eiganda ökutækis við að koma því á söfnunar- eða móttökustöð til meðhöndlunar. Breytingartillagan byggist á tillögum stjórnar Úrvinnslusjóðs í samræmi við 2., sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 162/2002, um úrvinnslugjald.
    Breytingartillögurnar eru lagðar fram í kjölfar samráðs Úrvinnslusjóðs og hagsmunaaðila. Í stjórn sjóðsins sitja, auk fulltrúa ráðherra umhverfis- og auðlindamála, fulltrúar tilnefndir af Samtökum iðnaðarins, Samtökum verslunar og þjónustu, Félagi atvinnurekenda og Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einn fulltrúi eftir sameiginlegri tilnefningu Samtaka fiskvinnslustöðva og Landssambands íslenskra útvegsmanna. Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 162/2002, um úrvinnslugjald, kemur fram að umhverfis- og auðlindaráðherra leggur að fenginni tillögu stjórnar Úrvinnslusjóðs fram tillögu til fjármála- og efnahagsráðherra um breytingar á fjárhæðum úrvinnslugjalds.
    Tekjur Úrvinnslusjóðs af úrvinnslugjaldi ráðast af innflutningi og innlendri framleiðslu á vörum sem falla undir lögin og upphæð úrvinnslugjalds (kr./kg) í hverjum vöruflokki. Kostnaður af rekstri Úrvinnslusjóðs, utan kostnaðar við rekstur skrifstofu, ræðst af magni úrgangs sem er safnað og ráðstafað (endurnýting, endurvinnsla eða förgun) af þjónustuaðilum annars vegar og hins vegar upphæð þjónustugjalds (kr./kg) sem greitt er til þeirra þegar staðfesting á ráðstöfun liggur fyrir. Greitt er fyrir flutning og ráðstöfun. Í áætlun Úrvinnslusjóðs er safnað magn áætlað út frá þróun sl. ár. Við mat á ráðstöfuðu magni er auk þess stuðst við þróun skilahlutfalls síðustu ára (ráðstafað magn deilt með magni sem úrvinnslugjald hefur verið lagt á). Nokkur tími líður frá því að vara er sett á markað þar til úrgangur fellur til. Þessi tími er frá einhverjum mánuðum upp í mörg ár, eftir vörum. Stærsti kostnaðarliður Úrvinnslusjóðs er greiðsla til þjónustuaðila (skilagjald í tilfelli ökutækja) fyrir ráðstöfun (endurnýting/endurvinnsla/förgun). Í öllum vöruflokkum nema smurolíu og ökutækjum er breyting á þessum greiðslum ákveðin hverju sinni af stjórn sjóðsins. Samningur er við olíufélögin um söfnun smurolíuúrgangs og eru greiðslur þar vísitölubundnar. Upphæð skilagjalds á ökutæki er bundin í lög.
    Breytingar þær sem meiri hlutinn leggur til munu fyrst og fremst hafa áhrif á þá sem nota framköllunarefni en í öðrum tilvikum er úrvinnslugjald óverulegur hluti af verði vörunnar og því mun það ekki hafa veruleg áhrif.
    Tillögur um breytingar á úrvinnslugjaldi miðast við að ná viðunandi sjóðsstöðu vöruflokka á næstu þremur árum. Miðað er við að sjóðir verði að jafnaði ekki lægri en um 30% af árskostnaði við vöruflokkinn. Um tillögur um gjaldabreytingar vöruflokka er vísað til umfjöllunar um einstakar greinar.
    Í tillögu að nýrri 39. gr. er gerð tillaga að hækkun á upphæð skilagjalds til síðasta skráða eiganda ökutækis, þegar hann afskráir ökutækið. Upphæð skilagjaldsins hefur verið óbreytt frá því 1. janúar 2006. Hækkun skilagjaldsins úr 15.000 kr. í 20.000 kr. er lögð til í þeim tilgangi að mæta auknum kostnaði eiganda ökutækis við að koma því á söfnunar- eða móttökustöð til meðhöndlunar með hliðsjón af yfir 60% verðbólgu á tímanum frá því að gjaldið var ákvarðað.
    Í tillögum að nýjum 40. og 41. gr. er lögð til breyting á úrvinnslugjaldi fyrir plast.
    Í ársbyrjun 2008 voru heyrúlluplast og plastumbúðir sameinaðar í einn vöruflokk með sama gjaldi. Við þetta lækkaði gjald á heyrúlluplast. Verð á plasti var hátt á endurvinnslumarkaði erlendis en féll verulega í lok árs 2008 samhliða því að markaðir lokuðust. Endurvinnslumarkaðir hafa síðan verið að taka við sér. Á árinu 2009 var um 3.400 tonnum safnað af þeim 11.800 tonnum sem úrvinnslugjald var lagt á og þau flutt til endurvinnslu eða endurnýtingar.
    Lagt er til að úrvinnslugjaldið hækki úr 12,00 kr./kg í 16,00 kr./kg. Um er að ræða hækkun til að mæta tapi á endurvinnslu vöruflokksins. Mun meiri kostnaður er við innsöfnun og meðhöndlun heyrúlluplasts en umbúðaplasts annarrar gerðar. Felst það í því að heyrúlluplast dreifist um allt land á um 3.000 lögbýli og fylgir innsöfnun mikill flutningskostnaður. Heyrúlluplastið er þriggja laga plast sem gerir endurvinnslu dýrari en ella. Innsöfnun er jafnframt ákaflega góð og safnast nú ríflega 80% af heyrúlluplasti sem sett er á markað, en samsvarandi árangur í öðrum gerðum plastumbúða er 25%. Aukning hefur verið í meðhöndlun á blönduðu plasti frá heimilum. Er það í takt við aukinn áhuga almennings og bættrar aðstöðu sveitarfélaga til að flokka og endurvinna plast sem fellur til á heimilum. Dýrara er að endurvinna blandað plast en það sem er einsleitt. Reiknað er með að jöfnuður náist í sjóðnum í lok árs 2015.
    Í tillögu að nýrri 42. gr. er gerð tillaga um breytingu á úrvinnslugjaldi fyrir leysiefni.
    Innflutningur á leysiefnum hefur verið sveiflukenndur á liðnum árum og heldur farið minnkandi. Skilahlutfall hefur verið hátt síðan 2006 vegna breyttrar notkunar á hluta af efnunum þar sem sá hluti leysiefna skilar sér nánast allur til endurnýtingar að notkun lokinni.
Lagt er til að úrvinnslugjald á leysiefni verði hækkað úr 15,00 kr./kg í 30,00 kr./kg í lægra þrepinu og úr 120,00 kr./kg í 170 kr./kg í hærra þrepinu. Um er að ræða hækkun til að mæta sjóðstapi og er reiknað með að jöfnuður í sjóðnum náist á árinu 2015.
    Í tillögu að nýrri 43. gr. er gerð tillaga um breytingu á úrvinnslugjaldi fyrir olíumálningu.
    Rekstur vöruflokks olíumálningar hefur verið erfiður undanfarin ár. Samstarf hefur átt sér stað milli framleiðenda, innflytjenda og þjónustuaðila um leiðir til að ná niður kostnaði við meðhöndlun og förgun á málningarúrgangi. Meðalkostnaður hefur lækkað nánast stöðugt frá árinu 2003. Aðeins er lagt gjald á olíumálningu, ekki vatnsmálningu.
    Gerð er tillaga um hækkun úrvinnslugjalds úr 35,00 kr./kg í 42,00 kr./kg. Um er að ræða hækkun til að mæta sjóðstapi og er reiknað með að jöfnuður í sjóðnum náist á árinu 2015.
    Í tillögu að nýrri 44. gr. er gerð tillaga um breytingu á úrvinnslugjaldi fyrir blýsýrurafgeyma. Undanfarið ár hefur verið hátt endurgjald á blýi á heimsmarkaði. Það skapar skilyrði til lækkunar á greiðslu fyrir innsöfnun og meðhöndlun á blýsýrurafgeymum til þjónustuaðila Úrvinnslusjóðs. Um 36% af heildarþyngd blýsýrurafgeyma eru blý. Gerð er tillaga um 43% lækkun úrvinnslugjalds á blýsýrurafgeyma. Um er að ræða lækkun til að mæta hækkuðu heimsmarkaðsverði á blýi sem fer til endurvinnslu.
    Í tillögu að nýrri 45. gr. er gerð tillaga um breytingu á úrvinnslugjaldi fyrir framköllunarefni. Undanfarin ár hefur taprekstur verið nokkur á rekstri sjóðs framköllunarefna. Erfitt hefur reynst að láta úrvinnslugjald standa undir rekstri vöruflokksins og vinna jafnframt á viðvarandi tapi. Skýringin er sú að notkun framköllunarefna fer stöðugt minnkandi vegna stafrænnar tækni við ljósmyndun hvers konar. Sjóðurinn hefur gert ráðstafanir á undanförnum árum til að mæta þessari þróun. Framköllunarefni eru flutt inn í mismunandi styrkleika og með mismunandi úrvinnslugjaldi sem reiknað er út frá grunngjaldi framköllunarefna.
    Gerð er tillaga um 78% hækkun úrvinnslugjalds á framköllunarvökva. Um er að ræða hækkun til að mæta sjóðstapi og er reiknað með að jöfnuður í sjóðnum náist á árinu 2015.

Komugjald vegna innlagnar á sjúkrahús.
    Tilefni tillögunnar er að í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2014 er gert ráð fyrir að innheimt verði gjald fyrir legudaga á sjúkrahúsum. Þær áætlanir hafa breyst og er nú lögð til sú breyting á lögum um sjúkratryggingar að tekið verði upp nýtt gjald vegna heilbrigðisþjónustu, þ.e. komugjald vegna innlagnar á sjúkrahús. Í samræmi við það er lagt til í tillögu að nýrri 46. gr. að í 1. málsl. 1. mgr. 18. gr. laga um sjúkratryggingar verði vísað til 2. tölul. 1. mgr. 29. gr. laganna þar sem kveðið er á um komugjaldið.
    Í tillögu að nýrri 47. gr. er lögð til breyting á 29. gr. laga um sjúkratryggingar en sú grein fjallar um gjaldtöku fyrir heilbrigðisþjónustu og aðstoð sem sjúkratryggðir hafa rétt til á grundvelli laga eða samninga. Lagt er til að við 2. tölul. 1. mgr. verði bætt ákvæði er heimilar upptöku komugjalds við innlögn á sjúkrahús sem nái m.a. til kostnaðar við innritun og aðstöðu. Sérstaklega er lagt til að gjaldið skuli vera lægra hjá öldruðum, öryrkjum og börnum. Eðli málsins samkvæmt skal komugjald aðeins innheimt einu sinni vegna hverrar innlagnar og legu á sjúkrahúsi og önnur gjaldtaka af inniliggjandi sjúklingi er ekki heimil. Ekki er gert ráð fyrir innheimtu gjalds fyrir innlögn vegna fæðingar í samræmi við núgildandi ákvæði 1. og 2. tölul. 1. mgr. 29. gr. laganna sem kveða á um að ekki sé heimilt að taka gjald fyrir mæðra- og ungbarnavernd.
    Heimild ráðherra skv. 1. mgr. 29. gr. laganna til að kveða nánar á um gjald í reglugerð, þar á meðal fjárhæð þess, nær til þessa gjalds eins og annarra þjónustugjalda sem kveðið er á um í þeirri málsgrein. Í reglugerð getur ráðherra þannig t.d. kveðið á um hámark komugjalds fyrir þá einstaklinga sem þurfa að leggjast inn á sjúkrahús oft á ári.
    Með töku komugjalds vegna innlagnar á sjúkrahús skapast meira samræmi og jafnræði í gjaldtöku, enda er tekið komugjald vegna komu á slysadeild, bráðamóttöku og göngudeild, auk gjalds vegna rannsókna hjá þeim sem ekki eru inniliggjandi. Þess má geta að gjöld vegna innlagnar eru innheimt á sjúkrahúsum í Svíþjóð, Finnlandi og Þýskalandi.

Gildissvið slysatryggingar og lögboðin ábyrgðartrygging.
    Tilefni tillögunnar er að í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2014 er gert ráð fyrir 50 millj. kr. lækkun á fjárheimild til slysatrygginga almannatrygginga, og er það ein af þeim sértæku aðhaldsráðstöfunum sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu í því skyni að bæta afkomu ríkissjóðs. Tillagan í fjárlagafrumvarpinu gerir ráð fyrir að ákvæði slysatrygginga í lögum um almannatryggingar sem fjallar um réttindi þeirra sem slasast á leið til og frá vinnu falli brott. Viðkomandi ætti að vera tryggður samkvæmt lögboðinni ábyrgðartryggingu ökutækis eða slysatryggingu ökumanns og eiganda hjá tryggingafélagi og fá tjón sitt bætt frá þeirri tryggingu, sbr. 91.– 93. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, með síðari breytingum.
    Efni tillögunnar:
     1.      Lagt er til að sá sem verður fyrir slysi og nýtur tryggingar skv. IV. kafla laganna og einnig samkvæmt lögboðinni ábyrgðartryggingu ökutækis eða slysatryggingu ökumanns og eiganda sæki framvegis rétt sinn til hlutaðeigandi tryggingafélags ef bótaskylda er fyrir hendi samkvæmt lögboðinni ábyrgðartryggingu ökutækis eða slysatryggingu ökumanns og eiganda en ekki til sjúkratrygginga almannatrygginga.
     2.      Gert er ráð fyrir að kostnaður vegna sjúkrahjálpar skv. 32. gr. laga um almannatryggingar greiðist í fimm ár frá slysdegi en þá taki sjúkratryggingar almannatrygginga við.
    Áhrif tillögunnar:
    Breyting samkvæmt þessari tillögu hefði ekki mikil áhrif á heildarbótarétt hins tryggða þar sem hann er í flestu tilliti betur tryggður samkvæmt lögboðnum tryggingum vátryggingafélaganna. Má segja að í þessum tilvikum sé um tvöfalda tryggingavernd að ræða og eru eingreiðslubætur sem viðkomandi fær greiddar úr slysatryggingu almannatrygginga dregnar frá við uppgjör bóta tryggingafélaga til hins vátryggða úr lögboðinni ábyrgðartryggingu ökutækis og slysatryggingu ökumanns og eiganda, sbr. ákvæði 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993. Breytingin er til þess fallin að einfalda málarekstur hins tryggða og spara honum fyrirhöfn og ríkinu kostnað. Hafa Danir farið þessa leið í vinnuslysatryggingum. Ekki verður séð að frumvarpið hafi bein áhrif á jafnrétti kynjanna en karlar og konur njóta sömu tryggingaverndar slysatrygginga almannatrygginga við vinnu sína. Ekki er talið að frumvarpið sé til þess fallið að hafa áhrif á möguleika einstaklinga eða fyrirtækja til að hafa samskipti þvert á norræn landamæri. Þá er ekki búist við því að frumvarpið hafi neikvæð fjárhagsleg áhrif á sveitarfélög.
    Í tillögu að nýrri 48. gr. er lagt til að nýju ákvæði ákvæði verði bætt við 27. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum. Í ákvæðinu er fjallað um það hvenær einstaklingur er talinn vera í vinnu og slysatryggður skv. IV. kafla laganna. Skv. a-lið 2. mgr. 27. gr. laganna telst maður vera við vinnu þegar hann er á vinnustað. Skv. b-lið sömu lagagreinar telst maður einnig vera við vinnu í sendiferð í þágu atvinnurekstrar eða í nauðsynlegum ferðum til vinnu og frá, enda sé aðeins um að ræða ferðir sem farnar eru samdægurs milli vinnustaðar og heimilis eða matstaðar. Sama gildi um lengri ferðir af þessu tagi ef starfsmaður er á launum hjá vinnuveitanda í ferðinni.
    Í 1. mgr. tillögunnar segir að ákvæði 27. gr. gildi ekki ef slasaði er einnig tryggður samkvæmt lögboðinni ábyrgðartryggingu ökutækis eða slysatryggingu ökumanns og eiganda, sbr. 91.–93. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, með síðari breytingum, og bótaskylda er fyrir hendi samkvæmt þeirri tryggingu. Reynist bótaskylda hins vegar ekki vera fyrir hendi nýtur viðkomandi lágmarkstryggingaverndar slysastrygginga almannatrygginga.
    Þeir sem slasast á ferðum og nota ferðamáta sem gerir það að verkum að þeir falla ekki undir lögboðna ábyrgðartryggingu ökutækis eða slysatryggingu ökumanns eða eiganda njóta því áfram tryggingar skv. IV. kafla laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, nema slys verði með þeim hætti að einstaklingur eigi rétt úr lögboðinni ábyrgðartryggingu ökutækis og bótaskylda sé fyrir hendi samkvæmt þeirri tryggingu.
    Ákvæðinu sem tillagan felur í sér er ætlað að ná til slysa sem eiga sér stað eftir að frumvarpið fær lagagildi.
    Um tillögu að nýrri 49. gr. er það að segja að sambærileg ákvæði var að finna í 4. mgr. og 1. tölul. 5. mgr. 9. gr. frumvarps til laga um slysatryggingar almannatrygginga sem velferðarráðherra lagði fram á 141. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu (635. mál). Lagt er til að ný málsgrein bætist við 32. gr. laganna þar sem kveðið verði á um að kostnaður vegna sjúkrahjálpar sem fellur til þegar liðin eru fimm ár eða meira frá slysdegi greiðist ekki. Ef alveg sérstaklega stendur á verði þó heimilt að greiða kostnað sem fellur til í allt að tíu ár frá slysdegi enda séu skýr læknisfræðileg orsakatengsl milli slyssins og kostnaðarins. Talið er nauðsynlegt að setja tímamörk á greiðslu þessa kostnaðar, sem nú er greiddur ótímabundið, óháð því hversu langt er liðið frá slysi enda erfitt að staðreyna orsakasamband milli slyss og kostnaðar þegar langt er liðið frá slysi. Óeðlilegt má telja að kostnaður sem hlýst af slysum sem ákvæðið tekur til sé greiddur án nokkurra takmarkana hvað varðar tímamörk. Því er lagt til að útgjöld vegna sjúkrakostnaðar sem falla til innan fimm ára frá slysi verði greidd úr slysatryggingum almannatrygginga en eftir það fari að jafnaði um rétt hins slasaða eftir ákvæðum laga um sjúkratryggingar. Þessi breyting mundi aðallega snerta minni háttar slys sem hafa að jafnaði ekki í för með sér mikil útgjöld fyrir hinn tryggða. Í flestum tilvikum eru útgjöldin sem um ræðir greiðsluhluti sjúklings við heilbrigðisþjónustu, svo sem komugjöld, en slík þjónusta er að öðru leyti greidd af sjúkratryggingum samkvæmt gildandi lögum um sjúkratryggingar. Þó er lagt til að heimilt verði að greiða kostnað hins tryggða úr slysatryggingum í allt að tíu ár í alveg sérstökum undantekningartilvikum enda sé orsakasamband við slysið ljóst. Hér gæti til dæmis verið um að ræða tilvik þegar um er að ræða verulegan kostnað sem ekki fæst greiddur samkvæmt lögum um sjúkratryggingar, t.d. tannplanta, plantakrónur eða dýr hjálpartæki sem þurfa endurnýjunar við og hinn sjúkratryggði þarf sjálfur að standa straum af. Þannig verði mætt þeim útgjöldum sem hinn tryggði kann að verða fyrir en sjúkratryggingar greiða ekki samkvæmt lögum um sjúkratryggingar. Þessi breyting kæmi ekki fram fyrr en eftir fimm ár frá gildistöku laganna og þá aðeins vegna nýrra slysamála. Ekki er gert ráð fyrir að þessi breyting hafi mikil áhrif á viðkomandi hóp slysatryggðra enda taka sjúkratryggingar til þess kostnaðar sem um ræðir og með undanþáguheimildinni er unnt að mæta því ef upp kunna að koma sérstök ófyrirséð tilvik.
    Þá er lögð til ný málsgrein, 5. mgr., um að einungis skuli greiða nauðsynlegan sjúkrakostnað sem verður til hér á landi nema annað leiði af milliríkjasamningum. Einnig er gert ráð fyrir að að greiða skuli nauðsynlegan kostnað sem til fellur erlendis ef slys verður þar og hinn slasaði nýtur tryggingaverndar við störf erlendis, sbr. 2. málsl. b-liðar 2. mgr. 27. gr. og 1. mgr. 13. gr. laganna. Er það í samræmi við gildandi framkvæmd.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Ragnheiður Ríkharðsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. desember 2013.



Frosti Sigurjónsson,


form.


Pétur H. Blöndal,


frsm.


Willum Þór Þórsson.



Líneik Anna Sævarsdóttir.


Vilhjálmur Bjarnason.