Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 3. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 324  —  3. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014 (verðlagsbreytingar o.fl.).


Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Að aflokinni umfjöllun um málið í nefndinni telur minni hluti nefndarinnar mikilvægt að fjalla sérstaklega um ákveðna þætti frumvarpsins.

Verðlagsuppfærsla í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2014.
    Minni hlutinn telur hættu á að full verðlagsuppfærsla einstakra skatta og gjalda verði verðbólguhvetjandi við núverandi aðstæður. Almennt má segja að æskilegt sé að einstakir tekjustofnar taki reglulegri verðlagsuppfærslu. Á hinn bóginn er veruleg hætta á að regluleg verðlagsuppfærsla, sem undirbúningsaðgerð fjárlaga í ljósi verðbólguspár, ýti undir verðlagshækkanir og skapi sífelldan óstöðugleika sem aftur geti stuðlað að verðlagshækkunum. Að mati minni hlutans hefði nú einmitt verið lag að rjúfa vítahring verðbólgu og verðlagshækkana í beinu samhengi við kjarasamningsgerð. Aðilar vinnumarkaðarins hafa beinlínis kallað á að opinberir aðilar haldi að sér höndum við núverandi aðstæður í efnahagslífinu. Stjórnarmeirihlutinn sýnir hins vegar litla viðleitni í þá átt. Segja má að honum hefði a.m.k. verið í lófa lagið að sýna ákveðna viðleitni, huga að öðrum og mildari kostum í stöðunni og miða verðlagsuppfærsluna að þessu sinni við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands en ekki verðbólguspána. Í þessu samhengi verður ekki hjá því komist að vekja athygli á því frumkvæði sem Reykjavíkurborg sýndi nýverið þegar ákveðið var að falla frá þegar boðuðum gjaldskrárhækkunum. Þessu frumkvæði hafa Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands fagnað og lýst því sem lóði á vogarskálar kjarasamningsviðræðna. Að mati minni hlutans ber þetta frumkvæði borgarinnar vott um jákvæða nýja hugsun við stjórn opinberra fjármála.

Lækkun endurgreiðsluhlutfalls til nýsköpunarfyrirtækja.
    Minni hlutinn lýsir sig algerlega mótfallinn því að dregið verði úr stuðningi við nýsköpunarfyrirtæki. Með því að draga úr stuðningi eru röng skilaboð send til þeirra fyrirtækja sem leggja stund á nýsköpun og þróunarstarf. Að mati minni hlutans á sér stað öflugt starf á þessum vettvangi og er það meginforsenda aukinnar verðmætasköpunar í íslensku atvinnulífi um þessar mundir. Sérstök ástæða er til að standa einmitt vörð um þennan þátt í fyrirgreiðslu við verðmætaskapandi atvinnulíf. Með þessari breytingu eru send neikvæð og röng skilaboð inn í framtíðina að mati minni hlutans auk þess sem benda má á að breytingarnar hafa ekki áhrif á afkomu ríkisins fyrr en á árinu 2015.
    Minni hlutinn tekur undir sjónarmið sem koma fram í sameiginlegri umsögn Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins og Samtaka sprotafyrirtækja en þar er einmitt bent á að áhrif ákvæða gildandi laga á greiðslustöðu ríkissjóðs hafi í raun verið jákvæð enda leggi nýsköpunarfyrirtæki út fyrir kostnaði fyrir fram, en fái 20% hans endurgreidd við skattauppgjör, einu til einu og hálfu ári síðar. Vinnulaun eru langstærsti kostnaðarliðurinn í rekstri slíkra fyrirtækja. Tekjur ríkissjóðs af tekjuskattsskyldum launum greiða frádráttinn sem fyrirtækin njóta og rúmlega það löngu áður en kemur til endurgreiðslu úr ríkissjóði. Með því að draga úr þeim hvata sem endurgreiðslan skapar er því í raun dregið úr verðmætasköpun, útflutningi og fjölgun starfa til lengri tíma litið auk þess sem skatttekjur ríkissjóðs eru rýrðar.
    Standi valið um að halda áfram hagvaxtarhvetjandi verkefnum eða að ná jöfnuði í ríkisrekstri má deila um hvort sé skynsamlegra við núverandi aðstæður. Auk þess stendur valið alls ekki um þetta, sbr. þær tekjur sem ríkisstjórnin sjálf áformar eða hefur þegar ákveðið að afsala ríkissjóði. Rétt er í þessu sambandi að minna á nýlega úttekt Viðskiptaráðs Íslands (sjá á vefslóðinni: www.vi.is/um-vi/frettir/nr/1599/) þar sem færð eru sannfærandi rök fyrir því að ekki sé skynsamlegt við núverandi aðstæður að leggja höfuðáherslu á jöfnuð í ríkisfjármálum, ef það kostar að hagvaxtarhvetjandi verkefnum sé fórnað til að ná þeim árangri. Ekkert verkefni virðist hafa í för með sér augljósari ávinning fyrir land og þjóð, svo semvegna fjölgunar verðmætra starfa, en stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

Hækkun skráningargjalda opinberra háskóla.
    Minni hlutinn leggst gegn hækkun skráningargjalda opinberra háskóla. Það er vítavert að slík hækkun skili sér ekki nema að litlu leyti til Háskóla Íslands vegna þess að framlag til hans lækkar milli ára samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2014. Með aðgerðum sem þessum er í raun verið að leggja sérstakan skatt á námsmenn í opinberum háskólum sem ekki er lagður á aðra borgara.
    Stjórnarmeirihlutinn virðist ætla sér að ganga sífellt meira á markaða tekjustofna og ráðstafa þeim til annarra verkefna en til er ætlast. Önnur nærtæk dæmi um slíkar ráðstafanir er að finna í tillögum um breytingar á tryggingagjaldi og sérstöku útvarpsgjaldi. Minni hlutinn er alfarið á móti þessari þróun og telur að með slíku sé bæði grafið undan tekjustofnunum, þar sem fólk fær ekki það sem það telur sig vera að greiða fyrir, og beinlínis unnið gegn tekjujöfnunarhlutverki almenna tekjuskattskerfisins, þar sem allir borga jafnt þegar kemur að mörkuðum tekjustofnum og njóta ekki persónuafsláttar eða mismunandi skatthlutfalla milli skattþrepa.

Hámark mánaðarlegra greiðslna í fæðingarorlofi.
    Sú hækkun hámarks mánaðarlegra greiðslna í fæðingarorlofi sem boðuð er í frumvarpinu er smávægileg. Í stað þess að standa við lengingu foreldra- og fæðingarorlofs er tekjustofn Fæðingarorlofssjóðs nær helmingaður samkvæmt tillögu sem kemur fram í 10. gr. frumvarps um tekjuaðgerðir frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014 (sjá 2. mál á líðandi þingi). Í umfjöllun nefndarinnar kom fram að engar óyggjandi upplýsingar liggi fyrir sem styðja þá fullyrðingu að fjárhæð hámarksins ráði því hvort feður taka foreldraorlof eða ekki. Að sama skapi liggja engar slíkar upplýsingar fyrir sem styðja það að lenging fæðingarorlofs leiði ekki til aukinnar töku foreldraorlofs af hálfu feðra. Andspænis jafnréttissjónarmiðum eru marklaus þau rök sem hafa verið færð fyrir smávægilegri hækkun hámarksgreiðslna og afnámi lengingar foreldra- og fæðingarorlofs.

Frestun hækkunar framlags til starfsendurhæfingarsjóða.
    Í tengslum við frestun á þreföldun greiðslna til atvinnutengdra starfsendurhæfingarsjóða skv. 29. gr. frumvarpsins kom fram að tilteknir fjármunir hafi safnast saman hjá VIRK Starfsendurhæfingarsjóði án þess að þeir hafi nýst. Minni hlutinn minnir á að framlög til VIRK byggjast á þríhliða samkomulagi aðila vinnumarkaðarins og ríkisins og telur það ekki sæmandi ríkisvaldinu að breyta einhliða slíku samkomulagi. Eðlilegt er að samið sé við aðila vinnumarkaðarins um breytingu á framlögum í VIRK en ekki að ríkið takmarki greiðslur sínar í sjóðinn einhliða.

Tillögur meiri hlutans um að bæta þremur nýjum köflum við frumvarpið.
    Minni hlutinn gagnrýnir þau vinnubrögð sem meiri hlutinn viðhefur þegar hann leggur til að þremur nýjum köflum verði bætt við frumvarpið á milli umræðna, þ.e. köflum um hækkun úrvinnslugjalds, komugjald vegna innlagnar á sjúkrahús og slysatryggingar. Í ljósi tillagna meiri hlutans má halda því fram að ráðherra hafi lagt fram hálfunnið frumvarp. Ljóst er að þeir þættir málsins sem bætast við á þennan hátt fá ekki þrjár umræður á Alþingi eins og kveðið er á um í stjórnarskrá og þingsköpum.

Komugjöld á sjúkrahús.
    Minni hlutinn getur ekki stutt áform um sérstök komugjöld á sjúkrahús. Skoða þarf alla gjaldtöku af þessum toga í heildarsamhengi. Eðlilegra hefði verið að láta tillögur um komugjald bíða yfirstandandi heildarendurskoðunar á kostnaðarhlutdeild sjúklinga.
    Auk þess ber að geta þess að komugjöld á sjúkrahús fá ekki þá umræðu sem þau nauðsynlega þurfa. Þá vekur minni hlutinn einnig athygli á þeirri staðreynd að nú um þessar mundir tekst Landspítalanum ekki að innheimta þau gjöld sem honum er gert að innheimta samkvæmt gildandi reglum. Því er umhugsunarefni hvort yfir höfuð sé raunhæft að bæta í slíka gjaldheimtu að óbreyttu.

Slysatryggingar og lögboðin ábyrgðartrygging.
    Að mati minni hlutans eru þau ákvæði sem meiri hlutinn leggur til og varða gildissvið slysatrygginga og lögboðna ábyrgðartryggingu óljós og í raun er óskýrt hvort í þeim felist að verið sé að rýra réttindi manna. Að áliti minni hlutans kalla þessi ákvæði á frekari skoðun nefndarinnar á milli 2. og 3. umræðu.

Alþingi, 10. desember 2013.



Árni Páll Árnason,


frsm.


Guðmundur Steingrímsson.


Steingrímur J. Sigfússon.