Ferill 160. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 316  —  160. mál.




Svar


forseta Alþingis við fyrirspurn frá Karli Garðarssyni um greiðslur í tengslum
við störf rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.


     1.      Hvaða greiðslur fengu nefndarmenn í rannsóknarnefnd um Íbúðalánasjóð o.fl. fyrir störf sín við skýrslugerðina, sundurliðað eftir einstaklingum? Hvaða tímafjöldi lá að baki greiðslum til hvers og eins og hvert var tímakaupið?
    Laun nefndarmanna í rannsóknarnefndinni tóku mið af launum héraðsdómara eins og þau voru ákveðin af kjararáði. Laun héraðsdómara samanstanda af mánaðarlaunum auk eininga. Þótti sú viðmiðun eiga við þar sem í starfi rannsóknarnefndarmanna reynir m.a. á úrlausn lögfræðilegra viðfangsefna auk þess sem rannsóknarnefnd getur verið falið að meta lögfræðileg atriði til að varpa ljósi á hvort grundvöllur sé fyrir því að einstaklingar eða lögaðilar skuli sæta ábyrgð. Þá er rannsóknarnefnd enn fremur ætlað að tilkynna ríkissaksóknara og þar til bærum aðilum vakni grunur um refsiverða háttsemi eða að opinber starfsmaður hafi gerst brotlegur við starfsskyldur sínar. Til viðbótar var nefndarmönnum ákveðið álag sem hlutfall af launum héraðsdómara til þess að mæta álagi og yfirvinnu, enda viðbúið að vinna rannsóknarnefndarmanna yrði mun umfangsmeiri en störf héraðsdómara. Hjá formanni var álag ákveðið 25% og hjá nefndarmönnum 12,5%. Laun nefndarmanna voru því föst fjárhæð á mánuði. Mánaðarlaun nefndarmanna með álagi, miðað við 1. febrúar 2013, voru hjá formanni 1.224.529 kr. hjá öðrum nefndarmönnum 1.114.529 kr.
    Sigurður Hallur Stefánsson og Kirstín Flygenring hófu störf 1. september 2011 og Jón Þorvaldur Heiðarssonar 6. september 2011. Tveir nefndarmenn gátu í upphafi ekki helgað sig starfinu að fullu. Var Jón Þorvaldur Heiðarsson í 50% starfi frá 6. september til desemberloka 2011, í 80% starfi frá 1. janúar 2012 til marsloka 2012 og í 80% starfi frá 1. apríl til 31. maí 2013. Kirstín var í 75% starfi í nóvember 2011 og í 80% starfi í desember 2011. Nefndin skilaði skýrslu sinni 2. júlí 2013. Laun Sigurðar voru á 23 mánaða starfstíma nefndarinnar 29.618.421 kr. Laun Kirstínar voru 25.674.017 kr. og laun Jóns Þorvalds Heiðarssonar voru 24.016.393 kr. Inni í þessum tölum er uppgjör á orlofi til nefndarmanna. Jón Þorvaldur fékk enn fremur greidda dagpeninga vegna ferða og gistinga, þar sem hann var búsettur á Akureyri. Alls námu dagpeningagreiðslur til hans á starfstíma nefndarinnar 3.745.660 kr.
    Í fyrirspurninni er spurt hvaða tímafjöldi hafi legið að baki greiðslum til hvers og eins og hvert hafi verið tímakaupið. Greiðslur til nefndarmanna voru ákveðnar sem föst fjárhæð á mánuði sem samanstóð af mánaðarlaunum, tilteknum fjölda eininga og álagi. Með þessu var greitt fyrir alla vinnu nefndarmanna en ljóst er að stærstan hluta starfstíma þeirra hjá nefndinni var vinnutími þeirra verulega umfram hefðbundna vinnuviku, bæði virka daga og um helgar. Ekki var því um það að ræða að miðað væri við þann tímafjölda sem í raun lá að baki greiðslum til hvers og eins eða gerðir væru sérstakir útreikningar á tímakaupi.
     2.      Hvert var fyrirkomulag greiðslna til nefndarmanna og annarra sem tengdust nefndinni? Voru þetta verktakagreiðslur eða var þeim greitt með öðrum hætti? Fengu nefndarmenn eða aðrir greitt orlof eða í lífeyrissjóð eða aðrar launatengdar greiðslur? Ef svo var, af hverju?
    Í svari við 1. lið fyrirspurnarinnar var gerð grein fyrir fyrirkomulagi á greiðslum til nefndarmanna. Ekki var um að ræða greiðslur til „annarra sem tengdust nefndinni“, þ.e. ef átt er við tengsl við nefndarmenn, fyrir utan tvo einstaklinga: Systurdóttur Kirstínar, sem ráðin var á grundvelli kjarasamninga starfsmanna Alþingis og stofnana þess tímabilið 1. júní – 17. ágúst 2012 og aftur við lokafrágang í september 2013, og dóttur hennar, sem starfaði á grundvelli sama kjarasamnings við lokafrágang 25. september – 30. september 2013. Ekki var um að ræða verktakagreiðslur til þeirra. Um aðra sem störfuðu með eða í þágu nefndarinnar verður fjallað í svari við 4. lið.
    Rétt eins og öðrum launþegum bar samkvæmt lögum að greiða nefndarmönnum orlof og greiða iðgjald vinnuveitanda í lífeyrissjóð, sem og aðrar lögbundnar greiðslur af launum þeirra og greiðslur sem leiddi af ákvörðunum forseta Alþingis miðað við upphaflegar forsendur. Hér má að öðru leyti vísa til 11. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, fyrirmæla kjarasamninga opinberra starfsmanna, einkum 4. kafla þeirra, laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, og 2. mgr. 3. gr. laga, nr. 68/2011, um rannsóknarnefndir.

     3.      Var lögaðilum í eigu nefndarmanna, eða tengdum þeim, greitt fyrir störf fyrir nefndina? Ef svo var, hver voru tengsl lögaðilanna við nefndarmenn, fyrir hvaða vinnu var greitt, hvert var tímakaupið og hversu háar fjárhæðir var um að ræða?
    Nei.

     4.      Hverjir aðrir en nefndarmenn, og þeir sem nefndir eru að framan, fengu greitt fyrir störf í tengslum við störf rannsóknarnefndarinnar? Um hvers konar störf var að ræða, hvaða upphæð var um að ræða í hverju tilviki fyrir sig (átt er við bæði einstaklinga og lögaðila) og hvert var tímakaupið?
    Í 12. viðauka í 4. bindi skýrslu rannsóknarnefndarinnar er birtur listi yfir þá einstaklinga sem störfuðu fyrir nefndina, sbr. fylgiskjal. Eru þar taldir starfsmenn nefndarinnar, verktakar sem unnu sjálfstætt og starfsmenn fyrirtækja (lögaðila) sem unnu á þeirra vegum fyrir nefndina. Í yfirlitinu koma einnig fram upplýsingar um menntun og/eða starfsheiti viðkomandi einstaklinga og þar með á hvaða grundvelli þeir voru fengnir til starfa eða ráðgjafar fyrir nefndina.
    Til viðbótar þeim starfsmönnum sem nefndir eru í skýrslu nefndarinnar naut nefndin einnig aðstoðar starfsmanna Alþingis, þ.e. fjármálaskrifstofu, tölvudeildar og eignaumsýslu. Störf þessi voru unnin á vegum ransóknarnefndarinnar og á ábyrgð hennar og birti nefndin því ekki nánari upplýsingar um störf hvers og eins en fram koma í skýrslu hennar.
    Fyrir nefndina störfuðu einnig fjórir einstaklingar sem unnu einnig fyrir rannsóknarnefnd um aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna. Er gerð grein fyrir störfum þeirra og greiðslum til þeirra í svari forseta Alþingis við fyrirspurn um greiðslur við störf rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna (162. mál).
    Alls voru 17 starfsmenn á launaskrá hjá nefndinni á starfstíma hennar. Eru þeir allir taldir upp í áðurnefndum viðauka D í 7. bindi í skýrslu nefndarinnar. Verður fjallað nánar um störf þeirra og laun hér á eftir. Alls fengu 22 aðilar (verktakar) greitt samkvæmt reikningi fyrir vinnu sína. Átta þeirra unnu við endurritun, tveir við yfirlestur. Þá keypti nefndin vinnu af sex lögaðilum.

Greiðslur til starfsmanna og sérfræðinga.
    Greiðslur fyrir störf þeirra einstaklinga sem unnu í þágu rannsóknarnefndarinnar tóku mið af því hvernig greitt væri fyrir sambærileg störf hjá ríkinu. Þeir einstaklingar sem fengu greidd mánaðarlaun, full eða að hluta, fyrir störf í þágu nefndarinnar fengu laun sín greidd í gegnum launakerfi ríkisins samkvæmt kjarasamningi starfsmanna Alþingis og stofnana þess. Við ákvörðun launa var leitast við að starfsmenn sem komu úr öðrum störfum tímabundið héldu sömu launum í störfum sínum fyrir nefndina. Var þá litið til þess að starfsmenn voru fengnir til sérhæfðra starfa með stuttum fyrirvara í skamman tíma og því oft um takmarkaða ávinnslu réttinda að ræða samkvæmt gildandi kjarasamningi. Við aðra starfsmenn var samið sérstaklega á grundvelli fyrrnefnds kjarasamnings. Við röðun þeirra var byggt á menntun og starfsreynslu og leitast við að taka tillit til þess að um tímabundið starf var að ræða og að teknu tilliti til sambærilegra starfa hjá ríkinu. Í upphafi ráðningar var almennt gert ráð fyrir þriggja mánaða reynslutíma og eftir þann tíma voru laun starfsmanna endurskoðuð. Í þeim tölum sem raktar eru hér á eftir er miðað við laun starfsmanna að loknum reynslutíma.
    Starfstími þeirra sem komu að störfum hjá nefndinni var í heild mjög mismunandi og það eitt hvaða upphæð var um að ræða í hverju tilviki fyrir sig gefur takmarkaða mynd af því hvert tímakaupið var í raun. Greiðslum til hvers og eins var hagað í samræmi við vinnuframlag hans og fyrirmæli kjarasamninga starfsmanna Alþingis og stofnana þess.
    Alls fengu 17 einstaklingar greidd laun samkvæmt kjarasamningi starfsmanna Alþingis og stofnana þess fyrir störf sín. Fóru greiðslur til þeirra í gegnum launakerfi ríkisins. 12 þeirra fengu greidd full mánaðarlaun eða hluta þeirra og tveir fengu greitt tímakaup í dagvinnu. Tímafjöldi þeirra var afar mismunandi. Á 21 mánaðar tímabili fékk annar þeirra sem svarar 87.141 kr. á mánuði og hinn 77.049 kr. Enn fremur fengu tveir einstaklingar sem höfðu starfað fyrir nefndina greitt tímakaup í dagvinnu fyrir tilfallandi vinnu eftir að ráðningu þeirra var lokið hjá nefndinni. Tímakaup greitt á fimm mánaða tímabili var sem nam 49.500 kr. á mánuði til annars þeirra og 87.770 kr. á mánuði til hins. Þeir sem eingöngu fengu greitt tímakaup unnu tilfallandi störf, m.a. við yfirlestur og frágang. Þá fékk einn starfsmaður Alþingis við ræstingar, sem vann jafnframt fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna, greidd laun samkvæmt uppmælingu. Voru heildarlaun hans með launatengdum gjöldum 1.342.903 kr.
    Af framangreindum 17 einstaklingum voru þrír starfsmenn Alþingis sem unnu fyrir nefndina. Tveir þeirra unnu við yfirlestur við lokafrágang skýrslu nefndarinnar og einn við hugbúnaðargerð. Heildargreiðslur til þeirra ásamt orlofi voru á bilinu 125.000–490.000 kr. Fóru greiðslurnar í gegnum launakerfi ríkisins almennt sem yfirvinna enda um að ræða starf utan daglegrar vinnuskyldu. Loks ber þess að geta að fjórir starfsmenn rannsóknarnefndar um aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna störfuðu einnig fyrir nefndina. Kostnaður vegna starfa þeirra var felldur undir rannsóknarnefnd Alþingis um aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna.
    Mánaðarlaun þeirra einstaklinga sem áður er ógetið voru samkvæmt launatöflu sem fylgdi kjarasamningi starfsmanna Alþingis og stofnana þess. 12 þessara einstaklinga voru með fjölbreytta menntun á háskólastigi. Flestir, eða sjö, voru á sviði hagfræði, viðskipta og fjármála, einn stjórnmálafræðingur, einn skipulagsfræðingur, einn félagsfræðingur, einn markaðsfræðingur og einn háskólanemi. Voru greiðslur til þeirra miðaðar við fullt starf, í tilviki eins starfsmanns voru þær á bilinu 280.000–360.000 kr. Hjá fjórum einstaklingum voru mánaðarlaun á bilinu 420.000–500.000 kr. Hjá þremur einstaklingum voru mánaðarlaun á bilinu 500.000–580.000 kr. Hjá tveimur einstaklingum voru mánaðarlaun á bilinu 580.000–660.000 kr. og hjá einum einstaklingi voru mánaðarlaun á bilinu 660.000–740.000 kr.
    Til viðbótar mánaðarlaunum fékk einn starfsmaður greiddar 39 fastar einingar á mánuði. Hver greidd eining var 4.576 kr. Alls fengu þrír starfsmenn greidda fasta yfirvinnu. Fastar einingar og föst yfirvinna voru í upphafi ákveðnar til þess að mæta yfirvinnu og álagi. Upphæð yfirvinnustunda er samkvæmt kjarasamningi tiltekið hlutfall (1,0385%) af þeim launaflokki sem starf starfsmanns tekur til. Mánaðarlegar greiðslur vegna fastrar yfirvinnu voru á bilinu 73.938 kr. til 156.570 kr. Alls fengu tveir starfsmenn greidda mælda yfirvinnu. Þegar á nefndarstarfið leið og undir lok þess kom í ljós að yfirvinna eins starfsmanns með fasta yfirvinnu var orðin meiri en gert hafði verið ráð fyrir við ákvörðun yfirvinnu hans. Mæld yfirvinna starfsmanna var afar mismunandi. Starfsmenn skiluðu mánaðarlega tímaskýrslum fyrir yfirvinnu sína sem voru staðfestar af formanni nefndarinnar áður en til greiðslu kom. Inni í heildartölum með launatengdum gjöldum eru til að mynda tölur um yfirvinnu, einingar og orlof.
    Auk framangreindra einstaklinga unnu starfsmenn Alþingis á fjármálaskrifstofu, í tölvudeild og í eignaumsýslu ýmis störf fyrir nefndina. Þessir starfsmenn fengu ekki greitt sérstaklega fyrir störf sín. Til þess að mæta kostnaði skrifstofu Alþingis af þessum sökum og öðrum rekstrarkostnaði var hann áætlaður í lokauppgjöri.

Greiðslur til verktaka.
    Greiðslur til verktaka eru hér á eftir tilgreindar án virðisaukaskatts, þar sem hann fékkst endurgreiddur af vinnu sérfræðinga.
    Af þeim 22 aðilum sem fengu greidd verktakalaun, fengu átta einstaklingar greitt fyrir endurritun á framburði þeirra sem komu fyrir nefndina. Greiddar voru 0,5 kr. fyrir hvert slag. Heildarfjárhæð þessara greiðslna nam 1.488.098 kr. Tímagjald verktaka var ákveðið á grundvelli rammaútboðs Ríkiskaupa í tilviki eins lögaðila (PricewaterhouseCoopers ehf.). Samningar við einstaklinga í verktöku tóku mið af menntun, reynslu, þekkingu og hæfni þeirra og einnig umfangi verks. Fjárhæð tímagjalds var því mismunandi. Einn verktaki fékk greitt fyrir yfirlestur þar sem tímagjaldið var á bilinu 3.000–5.500 kr. Alls fengu fjórir sérfræðingar, á sviði lögfræði, fjármála og stjórnsýslu, greitt samkvæmt reikningi þar sem tímagjaldið var 9.000–12.500 kr. Enginn þessara aðila gerði reikning yfir 600.000 kr. fyrir vinnu sína. Þrír sérfræðingar komu að úttektum á stjórnsýslu og rekstri Íbúðalánasjóðs og að skýrsluskrifum. Tímagjald þeirra var 3.200–9.000 kr.
    Þá var sex lögaðilum (einkahlutafélögum) greitt fyrir ýmsa sérfræðiaðstoð, þar af einu fyrir lögfræðiráðgjöf og tveimur fyrir vinnu á sviði endurskoðunar og fjármála. Tímagjaldið hjá þessum aðilum var á bilinu 9.000–18.000 kr. Samtals námu greiðslur til nefndra þriggja aðila 11.998.985 kr. Aðrar greiðslur voru til PricewaterhouseCoopers ehf., 5.218.595 kr., Kvant ehf., 6.390.390 kr., og Góðra stjórnsýsluhátta ehf., 3.793.500 kr.
    Samtals námu greiðslur til verktaka 23.202.001 kr. Á eftirfarandi yfirliti eru upplýsingar um þá verktaka sem fengu hærri greiðslur en 1,5 millj. kr.:

Verktaki Upphæð Viðfangsefni
Góðir stjórnsýsluhættir ehf. 3.793.500 Ráðgjöf og textavinna
Kvant ehf. 6.390.390 Textavinna og rannsóknir
PricewaterhouseCoopers ehf. 5.218.595 Rannsóknarvinna
Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir 1.773.000 Ráðgjöf og rannsóknarvinna



Fylgiskjal.


Starfsfólk nefndarinnar.


          Alexander Lapas, MS í fjármálum fyrirtækja, viðskiptafræðingur Landsbanka Íslands.
          Ása Ólafsdóttir, lögfræðingur, lektor við lagadeild Háskóla Íslands.
          Bjarnveig Eiríksdóttir, cand. iur. Háskóla Íslands, LLM í Evrópu- og alþjóðaviðskiptarétti, lögmaður.
          Björg Flygenring Finnbogadóttir, háskólanemi.
          Bryndís Ásbjarnardóttir, MS í fjármálahagfræði, hagfræðingur í Seðlabanka Íslands.
          Egill Þórarinsson, MS í skipulagsfræði.
          Elín Guðjónsdóttir, cand. oecon. í viðskiptafræði, sérfræðingur í fjármálaráðuneyti.
          Gestur Páll Reynisson, Bach. í stjórnmálafræði, meistaragráða í stjórnsýslufræði.
          Hersir Sigurgeirsson, Ph.D. í stærðfræði, lektor í fjármálum við Háskóla Íslands.
          Hildur Erna Sigurðardóttir, MSc í hagfræði
          Íris Björk Ásbjarnardóttir, BS í markaðsfræði.
          Jón Rúnar Sveinsson, Phil.Lic. í félagsfræði, Uppsala-háskóla, sérfræðingur Reykjavíkur Akademíunni.
          Lúðvík Elíasson, Ph.D. hagfræði, hagfræðingur í Seðlabanka Íslands.
          Magnús Orri Haraldsson, cand.oecon., viðskiptafræðingur á endurskoðunarsviði PWC.
          Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, Ph.D. stjórnsýslufræðingur, lektor í opinberri stjórnsýslu.
          Sigurður Jóhannesson, Ph.D. í alþjóðaviðskiptum, hagfræðingur Hagfræðistofnun Háskóla Íslands.