Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 954, 144. löggjafarþing 102. mál: umferðarlög (EES-reglur).
Lög nr. 13 26. febrúar 2015.

Lög um breytingu á umferðarlögum, nr. 50/1987, með síðari breytingum (EES-innleiðing o.fl.).


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
 1. Í stað orðanna „innan við“ í a- og b-lið liðarins Bifhjól kemur: ekki yfir.
 2. Í stað orðanna „400 kg að eigin þyngd eða meira“ í a- og c-lið liðarins Bifreið kemur: yfir 400 kg að eigin þyngd.
 3. Liðurinn Létt bifhjól orðast svo:
 4.      Vélknúið ökutæki á tveimur eða þremur hjólum sem er ekki hannað til hraðari aksturs en 45 km á klst. og er með:
  1. sprengirými sem er ekki yfir 50 sm3 sé það búið brunahreyfli eða
  2. samfellt hámarksafl sem er ekki yfir 4 kW sé það búið rafhreyfli.

       Létt bifhjól greinast í létt bifhjól í flokki I sem er ekki hannað til hraðari aksturs en 25 km á klst. og létt bifhjól í flokki II sem er hannað til hraðari aksturs en 25 km á klst. Ákvæði laganna um bifhjól eiga einnig við um létt bifhjól nema annað sé tekið fram.
 5. Liðurinn Reiðhjól orðast svo:
  1. Ökutæki sem er knúið áfram með stig- eða sveifarbúnaði.
  2. Hjól með stig- eða sveifarbúnaði, búið rafknúinni hjálparvél þar sem samfellt hámarksafl er 0,25 kW og afköstin minnka smám saman og stöðvast alveg þegar hjólið hefur náð hraðanum 25 km á klst. eða fyrr ef hjólreiðamaðurinn hættir að stíga hjólið.
  3. Annað lítið vélknúið ökutæki sem ekki telst til létts bifhjóls og er hannað til aksturs á hraða frá 6 km á klst. upp í 25 km á klst. Undir þessa skilgreiningu fellur m.a. vélknúið hlaupahjól, tvíhjóla ökutæki á einum öxli og hjólastóll sem er ekki hannaður til hraðari aksturs en 15 km á klst. Slíkum farartækjum má ekki aka á akbraut.
  4. Í stað orðanna „innan við“ í a-, b- og c-lið liðarins Torfærutæki kemur: ekki yfir.


2. gr.

     41. gr. laganna orðast svo:
     Bifhjóli má ekki aka samhliða öðru ökutæki, nema þegar ekið er samhliða öðru bifhjóli á sömu akrein í þéttbýli, enda sé hámarkshraði þar eigi meiri en 50 km á klst. og aðstæður leyfa slíkt. Léttum bifhjólum í flokki I má þó eigi aka samsíða.
     Heimilt er að aka léttu bifhjóli í flokki I á gangstétt, hjólastíg eða gangstíg, enda valdi það ekki hættu eða óþægindum eða veghaldari hefur ekki lagt við því bann. Ef hjólastígur er samhliða gangstétt eða gangstíg er einungis heimilt að aka á hjólastígnum. Ökumaður á gangstétt eða gangstíg skal víkja fyrir gangandi vegfarendum. Ef ökumaður á léttu bifhjóli í flokki I á gangstétt þverar akbraut skal hann gæta að því að aka ekki hraðar en nemur venjulegum gönguhraða.
     Á bifhjóli og hliðarvagni þess má ekki flytja fleiri farþega en ökutækið er ætlað til. Farþega á bifhjólinu er óheimilt að sitja fyrir framan ökumann.
     Óheimilt er að flytja farþega á léttu bifhjóli nema ökumaður sé 20 ára eða eldri, enda sé bifhjólið til þess ætlað.
     Barn sjö ára eða yngra, sem er farþegi á bifhjóli, skal sitja í sérstöku sæti því ætluðu. Barn eldra en sjö ára skal ná með fætur niður að fóthvílum bifhjóls, en að öðrum kosti á fyrri málsliður við. Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða á um gerð og notkun viðurkennds öryggis- og verndarbúnaðar fyrir börn sem eru farþegar á bifhjóli.
     Ökumaður og farþegi bifhjóls skulu að jafnaði hafa báða fætur á fótstigum eða fóthvílum og ökumaður báðar hendur á stýri og að jafnaði bæði (öll) hjól bifhjólsins á vegi þegar það er á ferð.

3. gr.

     42. gr. laganna fellur brott.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 48. gr. laganna:
 1. Við 2. mgr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: hefur fasta búsetu hér á landi.
 2. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
 3.      Ákvæði þessarar greinar og 49.–54. gr. gilda ekki um létt bifhjól í flokki I.


5. gr.

     Á eftir 3. mgr. 50. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
     Ökumenn sem stjórna ökutækjum í C1-, C-, D1- og D-flokki til farþega- og vöruflutninga í atvinnuskyni skulu gangast undir endurmenntun á fimm ára fresti. Ráðherra kveður nánar á um tilhögun endurmenntunar í reglugerð. Heimilt er að ljúka endurmenntun með fjarnámi.

6. gr.

     3. mgr. 55. gr. laganna orðast svo:
     Enginn má stjórna léttu bifhjóli í flokki II nema hann hafi gilt ökuskírteini til þess eða til að mega stjórna bifreið eða bifhjóli. Ökuskírteini til að mega stjórna léttu bifhjóli í flokki II má ekki veita þeim sem er yngri en 15 ára, enda hafi hann áður fengið tilskilda ökukennslu. Enginn sem er yngri en 13 ára má stjórna léttu bifhjóli í flokki I.

7. gr.

     2. mgr. 63. gr. laganna orðast svo:
     Í reglugerð sem ráðherra setur skal kveðið á um undanþágu frá skráningu ökutækis sem er ætlað til aksturs utan almennrar umferðar. Í reglugerðinni skal einnig kveðið á um hvar nota megi slíkt ökutæki.

8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 64. gr. laganna:
 1. Orðin „sem ávallt skal fylgja ökutækinu“ í d-lið falla brott.
 2. Við bætist nýr stafliður, svohljóðandi: skráningu ökutækis sem er ætlað til aksturs á afmörkuðum, skilgreindum svæðum.


9. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 71. gr. laganna:
 1. Í stað „150“ í 2. mgr. kemur: 135.
 2. 2. málsl. 2. mgr. fellur brott.
 3. Við 3. mgr. bætist: nema púðinn hafi verið gerður óvirkur.
 4. 4. mgr. fellur brott.
 5. Í stað orðanna „1.–4. mgr.“ í 6. mgr. kemur: 1.–3. mgr.


10. gr.

     Á eftir 90. gr. laganna kemur ný grein, 90. gr. a, svohljóðandi:
     Ákvæði 88.–90. gr. gilda ekki um létt bifhjól í flokki I.

11. gr.

     Á eftir 94. gr. b laganna kemur ný grein, 94. gr. c, svohljóðandi:
     Létt bifhjól í flokki I eru undanþegin vátryggingarskyldu skv. 91.–94. gr.

12. gr.

     Á eftir 117. gr. laganna kemur ný grein, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Innleiðing.
     Innleiddar eru eftirfarandi tilskipanir:
 1. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/24/EB frá 18. mars 2002, um gerðarviðurkenningu á vélknúnum ökutækjum á tveimur eða þremur hjólum og um niðurfellingu á tilskipun ráðsins 92/61/EBE, eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 159/2002 frá 6. desember 2002.
 2. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/59/EB frá 15. júlí 2003, um grunnþjálfun og reglubundna þjálfun ökumanna tiltekinna ökutækja til vöru- eða farþegaflutninga, um breytingu á reglugerð ráðsins (EBE) nr. 3820/85 og tilskipun ráðsins 91/439/EBE og um niðurfellingu á tilskipun ráðsins 76/914/EBE, eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 64/2006 frá 2. júní 2006.
 3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/126/EB frá 20. desember 2006, um ökuskírteini, eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 29/2008 frá 14. mars 2008.
 4. Tilskipun ráðsins 91/671/EBE frá 16. desember 1991, um skyldubundna notkun öryggisbelta og aðhaldsbúnaðar fyrir börn í ökutækjum samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 21. mars 1994, eins og henni var breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/20/EB um breytingu á tilskipun ráðsins 91/671/EBE um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi skyldubundna notkun öryggisbelta í ökutækjum innan við 3,5 tonn, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn nr. 155/2003 frá 7. nóvember 2003.
 5. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/30/EB frá 6. júní 2000, um tæknilegt eftirlit á vegum með aksturshæfni vöruflutningabifreiða í bandalaginu, eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 111/2000 frá 22. desember 2000.


13. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Ákvæði 1. og 2. gr. hvað varðar létt bifhjól í flokki I taka gildi 1. apríl 2015.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Skylda til endurmenntunar skv. 5. gr. laga þessara nær til allra sem hafa réttindi til að stjórna ökutækjum í þargreindum flokkum í atvinnuskyni við gildistöku laga þessara, sem og þeirra sem hljóta slík réttindi eftir gildistökuna. 10. september 2018 skulu allir þessir hafa undirgengist endurmenntun skv. 5. gr.

Samþykkt á Alþingi 17. febrúar 2015.