Ferill 743. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1299  —  743. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Jóni Þór Ólafssyni
um takmörkun á launagreiðslum ljósmæðra.


     1.      Af hverjum og hvenær var ákvörðun um að takmarka launagreiðslur ljósmæðra tekin, af hverjum var hún studd og hverjir hefðu getað komið í veg fyrir eða takmarkað þessa miklu skerðingu á launagreiðslum?
    Um verkföll ríkisstarfsmanna gilda lög nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, og eftir atvikum lög nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. Þegar tilkynning um verkfall berst fjármála- og efnahagsráðuneytinu sem viðsemjanda viðkomandi stéttarfélags í kjarasamningsviðræðum, þá upplýsir ráðuneytið Fjársýslu ríkisins um þá boðun, til hverra hún taki og í hve langan tíma verkfall standi yfir.
    Meginreglan er sú að í verkfalli falla launagreiðslur niður. Í verkfalli er starfsmanni ekki skylt að inna af hendi vinnuframlag og að sama skapi er þá vinnuveitanda jafnframt ekki skylt að greiða laun fyrir þann tíma sem ekki er unninn. Þeir sem ekki hafa heimild til verkfalls, sbr. 19. gr. laga nr. 94/1986, halda óskertum launum. Þá eru ekki skertar launagreiðslur vegna biðlauna eða lausnarlauna af völdum veikinda eða andláts starfsmanns, enda er ekki vinnuskylda að baki slíkum greiðslum. Um orlof og önnur launuð leyfi gildir að orlofstaka og orlofslaun falla niður í verkfalli og verður að taka þá daga síðar. Á sama hátt falla niður launagreiðslur vegna veikinda eða slysa á meðan verkfalli stendur, svo og talning fjarvistardaga af sömu ástæðu. Ríkisstarfsmaður í verkfalli nýtur ekki launagreiðslna í veikindaforföllum, hvort sem veikindin hófust fyrir eða eftir að verkfall kom til framkvæmda, sbr. niðurstöðu héraðsdóms í máli nr. 93/1995.
    Varðandi þá sem kallaðir eru til starfa á grundvelli undanþáguheimildar 20. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, þá kemur þar skýrt fram að heimilt sé að kalla starfsmenn, sem eru í verkfalli, tímabundið til vinnu til að afstýra neyðarástandi. Ákvæði kjarasamnings um launagreiðslur eiga þannig ekki við þar sem starfsmaður í verkfalli er ekki í vinnusambandi við launagreiðanda þann tíma sem verkfall stendur yfir. Þannig er starfsmanninum skylt að hlíta úrskurði nefndarinnar um vinnu samkvæmt ákvæðinu, sem og að þiggja greiðslu fyrir þann tíma sem vinnan var innt af hendi, þ.e. tímagjald. Í þeim efnum er tekið mið af ákvæðum viðkomandi kjarasamnings um tímakaupsfólk.
    Þegar verkföll standa yfir er um félagslega aðgerð að ræða af hálfu stéttarfélags. Því verða allir félagsmenn að sitja við sama borð um frádrátt launa og skiptir þá ekki máli hvort um tímabundið eða ótímabundið verkfall er að ræða. Frádráttur á launum þeirra sem taka þátt í verkfalli byggist á framangreindu og þeirri reglu sem framfylgt hefur verið við launaútreikning í verkföllum ríkisstarfsmanna, sbr. t.d. viðmiðunarreglur sem koma fram í dreifibréfi ráðuneytisins nr. 6/2001.
    Ráðuneytið telur þessa framkvæmd m.a. vera í samræmi við Félagsdóm nr. 8/1984, frá 17. desember 1984, sem og síðari túlkun á þessu álitaefni.

     2.      Hvað voru launaskerðingarnar miklar og á grundvelli hvaða laga, reglna, reglugerða eða annarra réttarheimilda voru launagreiðslurnar takmarkaðar í hverju tilfelli fyrir sig?
    Í þeim mánuði sem verkfall hefst eða því lýkur reiknast fastar launa- og kostnaðargreiðslur fyrir þann tíma sem unninn er þannig, að deilt er með 21,67 í mánaðarlaunin og margfaldað með fjölda almanaksdaga annarra en laugardaga og sunnudaga frá upphafi eða til loka starfstíma, sbr. 1.1.2 eða 1.1.3 gr. í kjarasamningi ríkisstarfsmanna. Þessi regla er óháð því hvort viðkomandi starfsmaður eigi vinnuskyldu eða ekki, það dregst jafnt af launum allra starfsmanna félagsins. Fyrirframgreidd laun skerðast með sama hætti, sbr. dóm Félagsdóms í máli nr. 8/1984.
    Starfsmenn Landspítala í fjórum félögum BHM hafa nú verið í verkfalli í tæpar sex vikur. Fyrstu launagreiðslur frá því að verkfall hófst voru um síðustu mánaðamót. Fjársýsla ríkisins sér um frádrátt í verkföllum í samræmi við framangreint. Samkvæmt þeim á frádráttur vegna verkfalls sér stað óháð því hvort um vinnuskyldu á verkfallsdögum er að ræða eða ekki.
    Verkfall ljósmæðra er boðað á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum. Ef starfsmaður á ekki vinnuskyldu á þessum dögum kann sá hinn sami að álíta að enginn frádráttur eigi að eiga sér stað. Svo er þó ekki. Það eru 12 virkir dagar sem falla á boðaða verkfallsdaga í apríl. Það gera 55% af meðalmánuðinum (21,67 dagar). Því eru dregin af öllum 55% af reglulegum mánaðarlaunum vegna verkfalla í apríl.
    Ríkið kærði verkfallsboðun Ljósmæðrafélags Íslands og Félags íslenskra náttúrufræðinga og dróst málarekstur fram yfir launavinnslu. Vegna þessa var ekki dregið af fyrirframgreiddum launum 1. apríl sl., eins og annars hefði verið gert, og því fá félagsmenn þessara félaga sem fá fyrirframgreidd laun tvöfaldan frádrátt nú, þ.e. eftir á vegna apríl og fyrir fram vegna maí. Því miður varð þetta til þess að laun urðu „neikvæð“ hjá nokkrum starfsmönnum um þessi mánaðamót. Sá mismunur er þó ekki innheimtur sérstaklega heldur gerður upp þegar verkfall leysist.

     3.      Hvernig og hvenær geta ljósmæður sótt þessi laun sín til ríkisféhirðis? Leggjast vextir á laun sem haldið var eftir og mun ríkið hafa frumkvæði að því að bæta ljósmæðrum skaðann sem af þessum aðgerðum hlýst fyrir fjárhag heimilis þeirra?

    Hafa ber í huga að Ljósmæðrafélag Íslands ákvað að efna til verkfalls og nýta sér þannig heimild félagsmanna til að leggja niður vinnu þegar kjarasamningur er laus, í því skyni að knýja á um gerð nýs kjarasamnings. Af þeim sökum á við sú meginregla að laun fást ekki greidd fyrir þann tíma sem starfsmaður er í verkfalli, þar sem starfsmaður innir ekki af hendi vinnuskyldu sína. Því er ekki um launakröfu á hendur íslenska ríkinu að ræða að verkfalli loknu. Af því leiðir að ekki er um að ræða að ríkið beri neina vexti eða bæti neitt launatap vegna verkfallsins þar sem ákvörðun um boðun verkfalls var tekin af félagsmönnum Ljósmæðrafélags Íslands.