Ferill 321. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Nr. 11/144.

Þingskjal 1355  —  321. mál.


Þingsályktun

um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína.


    Alþingi ályktar að við uppbyggingu dreifi- og flutningskerfis raforku, þ.m.t. við gerð kerfisáætlunar, verði stefna sú sem fram kemur í þingsályktun þessari höfð að leiðarljósi að því er varðar þau álitamál hvenær leggja skuli raflínur í jörð og hvenær reisa þær sem loftlínur, auk annarra atriða.

1. Viðmið varðandi lagningu raflína.
    Alþingi ályktar að eftirfarandi viðmið og meginreglur verði lagðar til grundvallar við uppbyggingu á dreifi- og flutningskerfi raforku:

1.1. Lágspennt dreifikerfi raforku.
    Í hinu lágspennta dreifikerfi raforku skal meginreglan vera sú að notast sé við jarðstrengi við lagningu raflína eða endurnýjun eldri lagna. Í rökstuddum undantekningartilvikum skal vera heimilt að notast við loftlínur, vegna sérstakra ástæðna.

1.2. Landshlutakerfi raforku.
    Í landshlutakerfi raforku skal meginreglan vera sú að notast sé við jarðstrengi við lagningu raflína eða endurnýjun eldri lagna, að því gefnu að það sé tæknilega raunhæft og að kostn­aður við slíka lausn sé ekki meiri en tvisvar sinnum kostn­aður við loftlínu. Í rökstuddum undantekningartilvikum verði heimilt að víkja frá þessari meginreglu, t.d. ef í um­hverfismati kemur fram að loftlína sé talin betri kostur út frá um­hverfissjónarmiðum.

1.3. Meginflutningskerfi raforku.
    Í meginflutningskerfi raforku skal meginreglan vera sú að notast sé við loftlínur nema annað sé talið hagkvæmara eða æskilegra, m.a. út frá tæknilegum atriðum eða um­hverfis- eða öryggissjónarmiðum. Með tilliti til um­hverfis- og öryggissjónarmiða skal meta í hverju tilviki fyrir sig hvort rétt sé að nota jarðstrengi á viðkomandi línuleið, eða afmörkuðum köflum hennar, á grundvelli eftirfarandi viðmiða sem réttlæta þá að dýrari kostur sé valinn:
     1.      Ef línuleið er innan skilgreinds þéttbýlis, sbr. skilgreiningu á þéttbýli í 2. gr. skipulagslaga, nr. 123/2010.
     2.      Ef línuleið er innan friðlands sem verndað er sökum sérstaks landslags, sbr. 53. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd.
     3.      Ef línuleið er við flugvöll þar sem sýnt er að loftlína geti haft áhrif á flugöryggi.
     4.      Ef línuleið er innan þjóðgarðs.
     5.      Ef línuleið er innan friðlands sem verndað er af öðrum sökum en sérstaks landslags, sbr. 53. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd.
    Í framangreindum tilvikum skal meta hve langan jarðstreng er tæknilega mögulegt að vera með á viðkomandi stað í meginflutningskerfinu, kostnað og hvaða áhrif útfærslan hefur á afhendingaröryggi og gæði raforku. Ef í framangreindum tilvikum kostn­aður við að leggja jarðstreng er ekki meiri en tvisvar sinnum kostn­aður við loftlínu á viðkomandi kafla skal miða við að leggja jarðstreng, nema ef ekki er talið tæknilega mögulegt að leggja jarðstreng eða ef loftlína er í um­hverfismati talin betri kostur á grundvelli um­hverfissjónarmiða. Við samanburð á kostnaði skal miða við núvirtan stofnkostnað. Reglan um hámarkskostnaðarmun gildir þó ekki þegar um er að ræða skilgreint þéttbýli eða friðland sem verndað er sökum sérstaks landslags eða að teknu tilliti til flugöryggis, sbr. 1.–3. tölul.
    Taka skal mið af afhendingaröryggi raforku og kostnaði við að tryggja það.

1.4. Markmið um hlutfall jarðstrengja árin 2020, 2025 og 2035.
    Við uppbyggingu og þróun flutningskerfis raforku skal stefnt að því að árið 2020 verði samanlagt heildarhlutfall jarðstrengja í landshluta- og meginflutningskerfi raforku á 11 kV spennustigi eða hærra orðið a.m.k. 50% af lengd raflína, 65% árið 2025 og 80% árið 2035. Náist þessi markmið ekki skal endurskoða þingsályktun þessa.

1.5. Önnur atriði.
    Til viðbótar við framangreint skal hafa eftirfarandi sjónarmið að leiðarljósi við uppbyggingu dreifi- og flutningskerfis raforku:
     1.      Við val á línuleið fyrir raflínur skal forðast eins og kostur er röskun friðlýstra svæða og svæða sem njóta sérstakrar verndar skv. 37. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd.
     2.      Leita skal leiða til að draga úr sjónrænum áhrifum með þróun nýrra flutningsmannvirkja sem falla betur að um­hverfinu og velja stæði þannig að sjónræn áhrif eða önnur um­hverfisáhrif séu sem minnst.
     3.      Leitast skal við að halda línugötum í lágmarki og raska ekki ósnortnu svæði ef aðrar lausnir koma til greina, m.a. með tilliti til kostnaðar og um­hverfisáhrifa.
     4.      Jarðstrengi skal svo sem kostur er leggja meðfram vegum.
     5.      Nýta skal núverandi línustæði við lausnir á aukinni flutningsþörf ef aðstæður leyfa, með endurbyggingu og/eða spennuhækkun, fjölgun eða stækkun leiðara á línum eða öðrum þekktum aðferðum.
     6.      Afhendingaröryggi skal metið samhliða sem og kostn­aður við að tryggja það.
     7.      Horfa skal til styrkingar og uppbyggingar raforkukerfisins með tilliti til þarfa allra landsmanna.
     8.      Tryggja skal að flutningstakmarkanir hafi ekki áhrif á aðgengi og að horft verði til við­skipta­hagsmuna.
     9.      Tryggja skal, eins og kostur er, hagkvæmt flutnings- og dreifiverð til raforkukaupenda.

2. Vörugjöld af raflínum.
    Alþingi ályktar að afnumið verði með breytingu á lögum það misræmi sem er á vörugjöldum af jarðstrengjum og loftlínum þannig að tryggt sé að slíkir þættir hafi ekki áhrif á þá leið sem valin er við útfærslu framkvæmda í flutningskerfinu.

3. Auknar ­rannsóknir.
    Alþingi ályktar að gerðar verði frekari ­rannsóknir á þjóðhagslegri hagkvæmni þess að aukið hlutfall flutningskerfis raforku verði haft í jörðu, með tilliti til raforkuverðs til heimila og atvinnulífs, afhendingaröryggis, byggðaþróunar, tæknilegra lausna og um­hverfiskostnaðar. Eftir því sem niðurstöður slíkra rannsókna gefa tilefni til skal endurskoða og uppfæra stefnu stjórnvalda um lagningu raflína.

Samþykkt á Alþingi 28. maí 2015.