Ferill 317. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 367  —  317. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um rannsókn á vinnuhælinu á Kleppjárnsreykjum og aðgerðum íslenskra yfirvalda gegn samskiptum íslenskra stúlkna við erlenda hermenn á árum síðari heimsstyrjaldar.


Flm.: Heiða Kristín Helgadóttir, Brynhildur Pétursdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Óttarr Proppé, Páll Valur Björnsson, Róbert Marshall, Katrín Jakobsdóttir, Ásta Guðrún Helgadóttir, Helgi Hjörvar, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Katrín Júlíusdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Birgitta Jónsdóttir, Oddný G. Harðardóttir.


    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að setja vistheimilisnefnd erindisbréf þess efnis að nefndin kanni starfsemi vinnuhælisins á Kleppjárnsreykjum á árunum 1942–1943. Ráðherra hlutist jafnframt til um að sérstaklega verði rannsakaðar aðgerðir yfirvalda til að sporna við samskiptum íslenskra kvenna við erlenda hermenn í kjölfar hernámsins 1940. Áhersla verði lögð á að kanna hvort mannréttindabrot hafi verið framin af hálfu íslenskra yfirvalda.

Greinargerð.

    Koma breskra og bandarískra herliða til Reykjavíkur á árum síðari heimsstyrjaldar olli örum og margvíslegum breytingum á íslensku samfélagi. Samskipti erlendra hermanna við íslenskar stúlkur og konur voru á meðal þess sem olli sérstöku fjaðrafoki og áhyggjum yfirvalda. Til að sporna við „ástandinu“ var sérstöku ungmennaeftirliti komið á fót innan lögreglunnar og lög sett árið 1942 um eftirlit með ungmennum o.fl., nr. 62/1942. Eftirlitið leiddi til þess að tugir stúlkna voru leiddir fyrir dóm og margar þeirra úrskurðaðar til hælisvistar á grundvelli áðurnefndra laga. Alls munu 14 stúlkur hafa sætt vistun á vinnuhælinu á Kleppjárnsreykjum í Borgarfirði. Fram hafa komið vísbendingar um að stúlkurnar hafi sætt illri meðferð á hælinu.
    Flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu telja fyllstu ástæðu til að opinber rannsókn fari fram á starfsemi vinnuhælisins á Kleppjárnsreykjum 1942–1943 og leggja til að ráðherra setji vistheimilisnefnd erindisbréf þess efnis, sbr. 5. gr. laga um skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn, nr. 26/2007. Jafnframt telja þeir ærna ástæðu til að rannsakað verði hvernig staðið var að aðgerðum yfirvalda til að sporna við því sem þau töldu óæskilegan umgang íslenskra kvenna við erlenda hermenn. Verði í því skyni sérstaklega rannsakaðar skýrslur Jóhönnu Knudsen, yfirmanns ungmennaeftirlits lögreglunnar, setning laga nr. 62/1942 og úrskurðir ungmennadómstólsins svokallaða, sem fjallaði um meint brot á þeim lögum. Rétt þykir að ráðherra meti hvort vistheimilisnefnd verði falin bæði rannsóknarefnin eða hvort betur fari að sérstök nefnd verði skipuð til að rannsaka aðgerðir yfirvalda aðrar en starfsemi vinnuhælisins á Kleppjárnsreykjum.

Tilefni umræðunnar.
    Yfirmaður fyrrgreinds ungmennaeftirlits lögreglunnar var Jóhanna Knudsen, hjúkrunarkona og fyrsta lögreglukonan á Íslandi. Að Jóhönnu látinni voru skjöl í hennar fórum, er vörðuðu starf hennar í þágu ungmennaeftirlitsins, færð Þjóðskjalasafni Íslands til vörslu en aðgangur að þeim lokaður í hálfa öld. Þeirri lokun var aflétt að hluta árið 2012 og hafa fræðimenn síðan haft að þeim aðgang sem þó sætir nokkrum takmörkunum.
    Á meðal fræðimanna sem hafa skoðað og fjallað um gögnin er Þór Whitehead sagnfræðiprófessor sem m.a. hefur sagt aðgerðir lögreglunnar árið 1941, sem beindust að ungum konum, víðtækustu njósnir um einkalíf manna hér á landi og að þær eigi sér enga hliðstæðu. 1 Þá hefur Alma Ómarsdóttir, fréttamaður, rannsakað gögnin og málavöxtu alla til hlítar og unnið upp úr þeim heimildamyndina Stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum, sem frumsýnd var 8. október 2015. Með sanni má segja að kvikmynd þessi hafi vakið umræðuna um málefnið rækilega til lífsins enda virðist hún sýna að yfirvöld hafi með skipulögðum hætti brotið gegn friðhelgi einkalífs tuga eða hundruða kvenna á þessum árum, beitt margar þeirra frelsissviptingu á hæpnum lagalegum forsendum og stuðlað markvisst að því að þær og fjölskyldur þeirra upplifðu skömm.

Sögulegt yfirlit og aðstæður á Kleppjárnsreykjum.
    Eins og áður segir sköpuðu samskipti erlendra hermanna við innlendar stúlkur ólgu í samfélaginu. Fjölmiðlaumræða varð snemma einsleit í þá veru að um þjóðfélagsmein væri að ræða og það yrði að uppræta. 2 Leiða má líkur að því að fjölmiðlaumfjöllunin hafi mótað almenningsálitið sem þróaðist á sömu lund og þær konur sem áttu í hlut máttu í daglegu tali þola niðrandi uppnefni og smánarorð.
    Á meðal aðgerða sem yfirvöld gripu til voru ítarlegar og persónulegar rannsóknir, sem óhætt er að kalla njósnir, á stúlkum og konum sem talið var að hefðu átt í sambandi við hermenn. Munu njósnirnar hafa náð til um 500 kvenna á aldrinum 12 til 61 árs. Jóhanna Knudsen var í fararbroddi rannsóknanna; skráði upplýsingar og yfirheyrði stúlkur eftir þörfum. Sumar þeirra stúlkna sem neituðu að hafa átt samneyti við hermenn voru látnar sæta læknisskoðun til að skera úr um hvort meyjarhaft þeirra væri rofið. Í grein sinni um málið segir Þór Whitehead afstöðu Jóhönnu til stúlknanna hafa verið einkar fjandsamlega. Hún hafi litið svo á að brot þeirra væru tvíþætt, annars vegar hefðu þær framið landráð og hins vegar siðferðisbrot með gjörðum sínum.
    Sem áður greinir voru sett sérstök lög um eftirlit með ungmennum og þrátt fyrir almennt orðalag voru lögin eingöngu notuð til að ná yfir stúlkur í „ástandinu“. Til að ná höndum yfir sem stærstan hóp hækkuðu yfirvöld sjálfræðisaldur úr 16 árum í 18. Sérstakur ungmennadómstóll sá um að úrskurða stúlkurnar í vistun á vafasömum lagagrundvelli. 3 Úrskurðir þessa dóms voru síðar felldir úr gildi.
    Vinnuhælið á Kleppjárnsreykjum var starfrækt í tæplega eitt ár, frá nóvember 1942 fram í október 1943. Á tímabilinu sættu 14 stúlkur vistun á hælinu. Frásagnir þeirra af vistinni bera með sér að vistin hafi verið þeim afar þungbær. Á hælinu var m.a. að finna glugga- og ljóslaust kjallaraherbergi sem kallað var „klefinn“. Stúlkur sem vistaðar voru á hælinu hafa lýst klefanum sem myrku og skítugu herbergi fullu af skordýrum þar sem ekkert væri að finna annað en dýnu á gólfinu. Heimildir herma að stúlkur hafi verið einangraðar í klefanum jafnvel sólarhringum saman. Í heimildarmynd Ölmu kemur jafnframt fram að vísbendingar séu um að stúlkur hafi reynt að svipta sig lífi í opinberri vistun og að a.m.k. ein af stúlkunum sem vistaðar voru á Kleppjárnsreykjum hafi framið sjálfsvíg síðar á lífsleiðinni, þá ríflega fertug að aldri.

Nauðsyn og tilgangur sérstakrar rannsóknar.
    Brýna nauðsyn ber til þess að upplýst verði með opinberri rannsókn hvað raunverulega átti sér stað á Kleppjárnsreykjum og við lögreglurannsóknir á ungum konum í kjölfar komu erlendra herliða til landsins. Enn eimir af fordómum í garð þeirra kvenna sem voru viðfangsefni þessara rannsókna og sættu jafnvel frelsissviptingu í kjölfarið. Sumar þessara kvenna eru enn á lífi og ekki of seint að þeim verði veitt opinber afsökunarbeiðni. Nauðsynlegt er að uppræta fordómana og skömmina sem þessar konur máttu þola alla sína tíð, og þola jafnvel enn. Þeim og aðstandendum þeirra ber að veita uppreist æru sinnar eins fljótt og auðið er.
    Flutningsmenn leggja áherslu á að úr því verði skorið með tilhlýðilegum hætti hvort yfirvöld hafi brotið á rétti þeirra kvenna sem áttu í hlut. Þeir telja þetta í fyrsta lagi nauðsynlegan grunn opinberrar afsökunarbeiðni svo að fórnarlömb og aðstandendur þeirra hljóti viðurkenningu á að brotið hafi verið gegn þeim. Í öðru lagi telja þeir að skýr niðurstaða um þetta atriði sé nauðsynleg til að upplýsa megi almenning tryggilega um það sem raunverulega átti sér stað og viðurkenna opinberlega mistökin. Upplýsing og vitneskja um það sem miður hefur farið í sögunni sé grundvöllur þess að fyrirbyggja að sagan endurtaki sig.
Neðanmálsgrein: 1
1     Þór Whitehead: Ástandið og yfirvöldin: stríðið um konurnar 1940–1941. Saga; 2013; 51 (2): s. 92–142.
Neðanmálsgrein: 2
2     Alma Ómarsdóttir: „Ástandið“ í fjölmiðlum. Lokaverkefni til MA-gráðu í blaða- og fréttamennsku. Háskóli Íslands 2013.
Neðanmálsgrein: 3
3     Fram kemur í kvikmynd Ölmu Ómarsdóttur Stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum að ekki sé annað að sjá en að ungmennadómurinn svokallaði hafi farið á skjön við 2. gr. laganna, sem kvað á um að reyndar skyldu aðgerðir á borð ábendingar til foreldra og kennara barna til betrunar á hegðun þeirra, í málum þeirra stúlkna sem hann úrskurðaði til vistunar á Kleppjárnsreykjum. Dómurinn hafi þess í stað úrskurðað strax á grundvelli 3. gr., sem sagði: „Ef úrræði þau, sem í 2. gr. getur, koma ekki að haldi […], má beita hæfilegum uppeldisráðstöfunum og öryggis, t.d. vistun ungmennis á góðu heimili, hæli eða skóla.“