Ferill 301. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 451  —  301. mál.




Svar


félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn frá Vigdísi Hauksdóttur um lífeyrissjóðsiðgjöld og stéttarfélagsgjöld.


     1.      Á grunni hvaða laga innheimta fyrirtæki lífeyrissjóðsiðgjöld af ólögráða og ófjárráða börnum og draga frá launum þeirra?
    Samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, er öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi rétt og skylt að tryggja sér lífeyrisréttindi með aðild að lífeyrissjóði frá og með 16 ára til 70 ára aldurs, sbr. 4. mgr. 1. gr. laganna. Lögin heyra undir málefnasvið fjármála- og efnahagsráðherra og er því vísað til hans um frekari svör hvað þetta varðar.

     2.      Eru dæmi þess að börn séu látin greiða félagsgjöld til stéttarfélaga og ef svo er, á hvaða lagagrunni byggist það og er það í samræmi við ákvæði stjórnarskrár um félagafrelsi?
    Samkvæmt stjórnarskrá má engan skylda til aðildar að félagi en með lögum má þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra, sbr. 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar. Í lögum er ekki kveðið á um skyldu launamanna til aðildar að stéttarfélagi en þó er rík hefð fyrir stéttarfélagsaðild launamanna hérlendis þar sem viðkomandi launamenn njóta þá þeirra réttinda sem í félagsaðildinni felast.
    Það er hlutverk stéttarfélaga að semja við samtök atvinnurekenda um kaup og kjör fyrir félagsmenn sína, þ.m.t. þá félagsmenn sem eru undir átján ára aldri, og að hafa eftirlit með því að ekki sé brotið gegn ákvæðum gildandi kjarasamninga hverju sinni. Samkvæmt lögum um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980, er öllum atvinnurekendum skylt að greiða í fræðslusjóði atvinnulífsins sem og sjúkrasjóði og orlofssjóði viðkomandi stéttarfélaga iðgjöld þau sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um hverju sinni og samkvæmt þeim reglum sem kjarasamningar greina, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna. Þá er atvinnurekanda skylt að halda eftir af launum starfsmanns iðgjaldi hans til viðkomandi stéttarfélags samkvæmt þeim reglum sem kjarasamningar greina, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna.
    Í ljósi framangreinds telur ráðuneytið að dæmi geti verið um að börn undir átján ára aldri sem eru þátttakendur á vinnumarkaði greiði félagsgjöld til stéttarfélaga og njóti þar með þeirra réttinda sem félagsaðildin veitir þeim, enda velji þau félagsaðildina umfram það að standa utan stéttarfélags. Ráðuneytið hefur þó ekki nákvæmar upplýsingar um slík tilvik þar sem það hefur ekki eftirlit með starfsemi stéttarfélaga, enda um almenn félög að ræða og hvorki er kveðið á um slíka eftirlitsskyldu í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938, né í öðrum lögum. Ráðuneytið hefur því ekki heimild lögum samkvæmt til að kalla eftir upplýsingum um hvort þess séu dæmi að börn undir átján ára aldri séu félagsmenn í stéttarfélögum og greiði þar með félagsgjöld til þeirra.