Ferill 467. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 750  —  467. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar ÖSE-þingsins fyrir árið 2015.

1. Inngangur.
    Á vettvangi þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE-þingsins, á árinu 2015 bar hæst neyðarástandið í Úkraínu, hlutdeild Rússlands í átökunum og viðbrögð ÖSE við ástandinu. Þá var flóttamannavandinn á Miðjarðarhafi einnig ofarlega á dagskrá sem og baráttan við hryðjuverk á ÖSE-svæðinu og rík þörf á endurbótum á starfsemi ÖSE.
    Á ársfundi ÖSE-þingsins í Helsinki var ályktað um brot Rússlands á meginreglum Helsinki-sáttmálans. Sendinefnd Rússlands hjá þinginu hætti við þátttöku í fundinum eftir að utanríkisráðuneyti Finnlands hafði neitað nokkrum þingmönnum nefndarinnar um vegabréfsáritun til landsins vegna þess að þeir voru á ferðabannlista Evrópusambandsins, sem er hluti af refsiaðgerðum sambandsins gegn Rússlandi vegna íhlutunar þess í átökunum í Úkraínu. Í ályktuninni er árás Rússlands á fullveldi og friðhelgi yfirráðasvæðis Úkraínu fordæmd, sem og áframhaldandi brot Rússlands á meginreglum Helsinki-sáttmálans. Lýst er yfir miklum áhyggjum af aukinni hervæðingu á Krímskaga og í Sevastopol sem og yfirlýsingum sumra rússneskra embættismanna sem benda á vilja landsins til að nota kjarnorkuvopn á svæðinu. Ítrekuð er beiðni þingsins um að Rússland dragi til baka innlimun svæðisins. Kallað er eftir fullri framkvæmd Minsk-sáttmálanna með alhliða vopnahléi og að aðilar deilunnar vinni saman að friðsamlegri og varanlegri lausn á átökunum í Úkraínu.
    Í ályktun um flóttamannavandann á Miðjarðarhafi er ítrekaður sterklega réttur allra manna sem eru að flýja ofsóknir og vopnuð átök til að sækja um hæli í ÖSE-ríki, eins og fram kemur í Genfarsáttmálanum og öðrum alþjóðasamningum. Kallað er eftir samstilltum, samræmdum og ákveðnum aðgerðum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna til að berjast gegn þeim sem smygla fólki. Óskað er eftir að ESB og sérstaklega Ítalía komi með hugmyndir að nýjum, víðtækum og skilvirkum leitar- og björgunaraðgerðum. Lýst er yfir stuðningi við viðleitni ESB til að setja móttökukvóta fyrir aðildarríki sambandsins undir nýrri flóttamannastofnun (e. Agency on Migration) og kallað eftir því að fleiri flóttamönnum verði boðin dvöl í ríkjum ESB.
    Í ályktun um endurbætur á starfi ÖSE er kallað eftir að tilkynnt verði opinberlega um þau ríki sem ekki fylgja meginreglum Helsinki-sáttmálans og hugsanlega þróaðar bindandi siðareglur fyrir aðildarríki ÖSE til að tryggja að reglum sáttmálans sé fylgt. Mælst er til þess að fundir fastaráðs ÖSE verði opnir fjölmiðlum og sýndir beint á netinu til að auka gagnsæi ákvarðanatöku stofnunarinnar. Kallað er eftir stærra hlutverki ÖSE-þingsins þegar kemur að starfi og ákvarðanatöku ÖSE, að fyrirmynd Evrópuráðsins, þar á meðal með því að ÖSE- þingið kjósi framkvæmdastjóra ÖSE, eigi hlut að því að samþykkja inngöngu nýrra aðildarríkja og samþykki fjárhagsáætlun stofnunarinnar. Jafnframt er kallað eftir betri samhæfingu og upplýsingamiðlun milli skrifstofu ÖSE í Vínarborg, annarra stofnana ÖSE og skrifstofu ÖSE-þingsins. Þá er hvatt til þess að ÖSE-þingið hafi stærra hlutverk þegar kemur að aðgerðum ÖSE til að fyrirbyggja átök, leysa deilur og miðla málum.
    Á haustfundi sínum ákvað ÖSE-þingið að taka ekki þátt í eftirliti með þingkosningunum í Aserbaídsjan 1. nóvember 2015. Sú ákvörðun var tekin í kjölfar þess að Lýðræðis- og mannréttindastofnun ÖSE, ODIHR, ákvað að senda ekki kosningaeftirlitsmenn til landsins vegna þeirra takmarkana sem stjórnvöld landsins hugðust setja á störf stofnunarinnar.

2. Almennt um ÖSE-þingið.
    Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE, (áður ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu, RÖSE, eða til ársins 1995) starfar á grundvelli Helsinki-sáttmálans (e. Helsinki Final Act) frá árinu 1975. Markmið ÖSE er að stuðla að friði, öryggi, lýðræði og samvinnu á starfssvæði sínu og standa vörð um virðingu fyrir mannréttindum og meginreglum réttarríkisins. ÖSE sinnir hlutverki sínu m.a. með baráttu gegn hryðjuverkum, mansali, þjóðernisofstæki, eiturlyfjasmygli og ólöglegri vopnasölu.
    Á leiðtogafundi ÖSE vorið 1990 var Parísarsáttmálinn samþykktur (e. Charter of Paris for a New Europe). Sáttmálinn kveður m.a. á um stofnun formlegs vettvangs fyrir þingmenn sem komi saman einu sinni á ári. ÖSE-þingið og ÖSE eru þannig greinar af sama meiði. Ólíkt öðrum fjölþjóðlegum stofnunum liggur hins vegar enginn hefðbundinn stofnsáttmáli þeim til grundvallar.
    Fyrsti fundur ÖSE-þingsins var haldinn í júlí 1992. Aðild að ÖSE-þinginu eiga 56 þjóðþing í Evrópu, Norður-Ameríku og Mið-Asíu. Þingið er skipað 320 fulltrúum. Þar af á Alþingi þrjá.
    Hlutverk ÖSE-þingsins er að hafa áhrif á stefnumótun og áherslur í starfi ÖSE og að hafa eftirlit með og meta árangurinn af starfi stofnunarinnar. Í málefnanefndum þingsins er unnið að undirbúningi ályktana. Þær eru síðan afgreiddar á ársfundi og komið á framfæri við ráðherraráð ÖSE, sem er vettvangur utanríkisráðherra aðildarríkjanna, og fastaráð ÖSE en þar eiga sæti sendiherrar eða fastafulltrúar aðildarlandanna gagnvart ÖSE. Fastaráðið fundar vikulega í Vín. Í samspili við ÖSE er þingið hugmyndabanki fyrir áherslur í starfi ÖSE auk þess sem þingið veitir ÖSE bæði stuðning og aðhald með eftirliti sínu og umræðu um starf stofnunarinnar. Hvað viðvíkur formlegum samskiptum ÖSE-þingsins og ÖSE þá ávarpar formaður ráðherraráðs ÖSE-þingið og gefur skýrslu um verkefni sem unnið er að hjá ÖSE. Þá geta þingfulltrúar beint fyrirspurnum til ráðherrans. ÖSE-þingið tekur einnig þátt í því að þróa leiðir til að koma í veg fyrir ágreining milli ríkja og stuðla að eflingu lýðræðislegra stofnana á því svæði sem starfsemi ÖSE tekur til. Að lokum hefur kosningaeftirlit verið eitt helsta verkefni þingsins frá upphafi. Sú starfsemi hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin ár. ÖSE-þingið á samvinnu við lýðræðis- og mannréttindastofnun ÖSE (ODIHR) um kosningaeftirlit. Nokkur ágreiningur hefur ríkt um verkaskiptingu milli stofnananna þrátt fyrir samstarfssamning á milli þeirra frá árinu 1997. Einnig á ÖSE-þingið samvinnu um kosningaeftirlit við aðrar fjölþjóðlegar þingmannasamkundur, eins og Evrópuráðsþingið og Evrópuþingið.
    ÖSE-þingið kemur saman til ársfundar í allt að fimm daga í júlí. Einstök aðildarríki skiptast á að halda ársfund. Ársfundur afgreiðir mál úr öllum þremur málefnanefndum þingsins í formi ályktunar ársfundar. Auk þess geta einstakir þingmenn eða landsdeildir lagt fram ályktunartillögur sem verða hluti af ályktun ársfundar að gefnu samþykki í atkvæðagreiðslu.
    Málefnanefndirnar eru nefnd um stjórnmál og öryggismál (1. nefnd), nefnd um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál (2. nefnd) og nefnd um lýðræðis- og mannréttindamál (3. nefnd). Formaður, varaformaður og skýrsluhöfundur hverrar málefnanefndar eru kjörnir af viðkomandi nefnd í lok hvers ársfundar. Skýrsluhöfundur nefndar velur málefnið sem tekið verður fyrir í nefndinni það árið í samráði við formann og varaformann viðkomandi nefndar. Síðan undirbýr skýrsluhöfundur skýrslu og drög að ályktun sem lögð er fyrir nefndina til umræðu og að lokum til umræðu og afgreiðslu á ársfundi. Málefnanefndir þingsins koma einnig saman á vetrarfundinum sem haldinn er í Vín í febrúar ár hvert. Þar fá þingmenn einnig tækifæri til að hlýða á framlag fastafulltrúa og embættismanna ÖSE sem hafa aðsetur í Vín, eins og fyrr segir. Auk ársfundar og vetrarfundar er haldinn haustfundur þar sem stjórnarnefnd og framkvæmdastjórn þingsins koma saman auk þess sem árleg málefnaráðstefna þingsins fer fram á sama tíma.
    Fyrir utan fastanefndir þingsins, stjórnarnefnd og framkvæmdastjórn getur forseti þingsins skipað tímabundið sérstaka fulltrúa og þingið sérnefndir til að taka aðkallandi mál til skoðunar og vera ráðgefandi um þau. Sem dæmi var starfandi sérstakur fulltrúi vegna fangabúða Bandaríkjahers fyrir meinta hryðjuverkamenn í Guantanamo á Kúbu og sérnefnd vegna stjórnmálaástandsins í Hvíta-Rússlandi. Nú síðast var stofnaður sérstakur vettvangur vegna ástandsins í Úkraínu á ársfundinum í júlí 2014 í Bakú, sem fékk heitið Bakú-hópurinn (e. Baku group). Hópnum er ætlað að vinna að lausn deilu Rússlands og Úkraínu og styðja friðarviðræður á milli deiluaðila.

3. Íslandsdeild ÖSE-þingsins.
    Á fyrri hluta árs 2015 voru aðalmenn Elsa Lára Arnardóttir, formaður, þingflokki Framsóknarflokks, Pétur H. Blöndal, varaformaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Guðmundur Steingrímsson, þingflokki Bjartrar framtíðar. Varamenn voru Frosti Sigurjónsson, þingflokki Framsóknarflokks, Guðlaugur Þór Þórðarson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Björt Ólafsdóttir, þingflokki Bjartrar framtíðar. Á síðari hluta árs tók Sigríður Á. Andersen, þingflokki Sjálfstæðisflokks, sæti Péturs H. Blöndal sem aðalmaður og Haraldur Benediktsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, tók sæti Guðlaugs Þórs Þórðarsonar sem varamaður. Vilborg Ása Guðjónsdóttir var ritari Íslandsdeildar.
    Skipan málefnanefnda starfsárið 2015 var eftirfarandi:
1. Nefnd um stjórnmál og öryggismál: Elsa Lára Arnardóttir
2. Nefnd um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál: Pétur H. Blöndal/Sigríður Á. Andersen
3. Nefnd um lýðræðis- og mannréttindamál: Guðmundur Steingrímsson
    Elsa Lára Arnardóttir, formaður Íslandsdeildar, sótti samráðsfund Norðurlanda og Eystrasaltsríkja innan ÖSE-þingsins í Ósló í maí 2015. Sjá nánar um fundinn hér á eftir. Íslandsdeild fundaði ásamt þingmönnum allsherjar- og menntamálanefndar með Dunja Mijatovic, fulltrúa ÖSE fyrir frelsi fjölmiðla, 7. september 2015. Til umræðu á fundinum var fjölmiðlafrelsi á ÖSE-svæðinu og á Íslandi. Dunja greindi frá helstu áskorunum á ÖSE-svæðinu, þar á meðal þegar kæmi að gagnsæi í eignarhaldi á fjölmiðlum, starfsskilyrðum rannsóknablaðamanna og áhrifum efnahagskreppunnar á frjálsa fjölmiðlun. Hún sagði ÖSE geta gert meira til að vernda fjölmiðlafrelsi sem væri eitt af grunnskilyrðum lýðræðis. Ísland tilheyrði þeim ríkjum sem styddu starf ÖSE á þessu sviði. Hvað fjölmiðlafrelsi á Íslandi varðar var rætt um samþjappað eignarhald fjölmiðla, skort á rannsóknablaðamennsku, litla reynslu blaðamanna, of mikil tengsl milli stjórnamálamanna og Ríkisútvarpsins, skort á trausti á milli fræðimanna, stjórnmálamanna og fjölmiðla, og skort á góðri blaðamennsku. Dunja hvatti viðstadda þingmenn til að ljá fjölmiðlafrelsi rödd sína heima fyrir og á alþjóðavettvangi, þar á meðal með því að vekja athygli á alvarlegum brotum á fjölmiðlafrelsi víðs vegar um heiminn. Samhliða haustfundi ÖSE-þingsins stóð Íslandsdeild fyrir fundi þingmanna Norðurlanda og Eystrasaltsríkja með fulltrúum samtaka um mannréttindi og fjölmiðlafrelsi í Mongólíu sem Guðmundur Steingrímsson stýrði fyrir hönd Íslandsdeildar. Sjá nánar í umfjöllun um haustfund ÖSE-þingsins hér á eftir.

5. Fundir ÖSE-þingsins.
    ÖSE-þingið kemur saman til reglulegra fundahalda þrisvar á ári. Yfirleitt er vetrarfundur haldinn í febrúar, ársfundur að sumri og haustfundur í október.

Vetrarfundur ÖSE-þingsins í Vín 18.–20. febrúar 2015.
    Af hálfu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins sóttu fundinn Elsa Lára Arnardóttir, formaður, Guðmundur Steingrímsson, auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur, alþjóðaritara. Fundinn sóttu um 250 þingmenn frá 50 ríkjum en að venju funduðu stjórnarnefnd og málefnanefndir þingsins með embættismönnum ÖSE, auk þess sem fram fór sameiginlegur fundur málefnanefndanna og fundur vettvangs Miðjarðarhafsríkja (e. Mediterranean Forum). Meginefni vetrarfundarins voru viðbrögð ÖSE við neyðarástandinu í Úkraínu, baráttan við hryðjuverk á ÖSE-svæðinu, samstarf til að bæta orkuöryggi og draga úr umhverfislegum og efnahagslegum áskorunum á ÖSE-svæðinu og mannréttindi farandverka- og flóttamanna.
    Fyrri sameiginlegan fund málefnanefndanna þriggja ávörpuðu varaforseti ÖSE-þingsins og fulltrúi austurríska þingsins, Christine Muttonen, forseti ÖSE-þingsins, Ilkka Kanerva, og utanríkisráðherra Serbíu, Ivica Dacic, en Serbía tók við formennsku í ÖSE í upphafi árs 2015. Í opnunarávarpi sínu sagði Muttonen reynsluna hafa sýnt að ÖSE væri eina stofnunin sem gæti tekist á við ástand eins og nú væri í Úkraínu. Þá vísaði hún í hryðjuverkaárásir í París og Kaupmannahöfn í janúar og febrúar 2015 og sagði mikilvægt að sýna samstöðu gegn hatri og hryðjuverkum. Kanerva sagði eftirlitssveit ÖSE í Úkraínu afar mikilvægan hluta af Minsk-ferlinu og að eftirlitsmenn stofnunarinnar yrðu að fá leyfi til að rannsaka öll svæði Úkraínu til að geta sinnt hlutverki sínu. Hann viðraði einnig þá hugmynd að fá alþjóðlegt friðargæslulið til starfa í Úkraínu samhliða eftirlitssveit ÖSE. Dacic kynnti formennskuáætlun Serbíu, þar á meðal varðandi málefni Úkraínu. Hann sagði meginmarkmið formennskunnar að styðja alla viðleitni til að koma á friði í landinu og lofaði þríhliða tengihóp Rússlands, Úkraínu og ÖSE (e. Trilateral Contact Group) sem og svonefndan Bakú-hóp þingmanna sendinefnda Rússlands, Úkraínu og fleiri aðildarríkja ÖSE-þingsins.
    Fund nefndar um stjórn- og öryggismál ávarpaði m.a. Astrid Thors, fulltrúi ÖSE í málefnum minnihlutahópa (e. OSCE High Commissioner on National Minorities). Í erindi sínu lagði Thors áherslu á að aðildarríki ÖSE litu sér nær þegar kæmi að mannréttindabrotum gegn minnihlutahópum í stað þess að vera sífellt að gagnrýna önnur ríki. Í kjölfarið fór fram sérstök umræða sem bar yfirskriftina „Fjölþjóðlegt öryggi á ÖSE-svæðinu: Baráttan gegn hryðjuverkum“. Erindi hélt Alexey Lyzhenkov, samræmingaraðili verkefna ÖSE gegn fjölþjóðlegum ógnum (e. OSCE Co-ordinator of Activities to Address Transnational Threats), sem kynnti starf ÖSE á því sviði. Hann sagði helstu áherslur ÖSE síðustu árin hafa verið á að styrkja svæðisbundið samstarf á ÖSE-svæðinu, og efla dómstóla og réttarríkið í aðildarríkjum stofnunarinnar til að koma í veg fyrir og berjast gegn hryðjuverkum og öfgahyggju sem leiddi til hryðjuverka. Það væri gert á grunni áætlunar frá árinu 2012 sem ber heitið Samræmd rammaáætlun ÖSE í baráttunni gegn hryðjuverkum (e. OSCE Consolidated Framework for the Fight against Terrorism). Lyzhenkov sagði hlutverk ÖSE-þingsins og þingmanna þess að styðja á virkan þátt við framkvæmd verkefna ÖSE gegn hryðjuverkum og hvetja til samstarfs bæði innan ríkja á þessu sviði og þeirra á milli. Þá hefðu þingmenn það mikilvæga hlutverk að stuðla að eflingu alþjóðlegs lagaramma gegn hryðjuverkum.
    Fund nefndar um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál ávörpuðu m.a. Tomislav Leko, formaður efnahags- og umhverfisnefndar ÖSE og fastafulltrúi Bosníu-Hersegóvínu hjá ÖSE, og dr. Halil Yurdakul Yigitguden sem stýrir verkefnum ÖSE á sviði efnahags- og umhverfismála. Í kjölfarið fór fram sérstök umræða sem bar yfirskriftina „Samstarf til að bæta orkuöryggi og draga úr umhverfislegum og efnahagslegum áskorunum á ÖSE-svæðinu“. Leko kynnti helstu áherslur formennsku Serbíu á sviði efnahags- og umhverfismála sem hann sagði að yrðu á búferlaflutninga, áhættustjórnun þegar kemur að hamförum, baráttuna gegn spillingu og peningaþvætti, orkuöryggi, samgöngumál og áhrif loftslagsbreytinga. Yigitguden sagði nánar frá verkefnum ÖSE á áherslusviðum formennsku Serbíu, þar á meðal útgáfu handbókar ÖSE gegn spillingu vorið 2015 og nýju verkefni sem ætti að stuðla að vitundarvakningu um hættur sem eru á svæðum þar sem áður var stunduð úraníumnámuvinnsla.
    Fund nefndar um lýðræðis- og mannréttindamál ávörpuðu m.a. Isabel Santos, formaður nefndarinnar, og Robert Kvile, formaður nefndar ÖSE um málaflokkinn og sendiherra Noregs hjá stofnuninni. Í kjölfarið fór fram umræða um mannréttindi farandverka- og flóttamanna. Santos ræddi m.a. um nýlega heimsókn sína í fangabúðir Bandaríkjamanna við Guantanamo-flóa á Kúbu og nýja skýrslu nefndarinnar um búðirnar. Hún sagði búðirnar svartan blett í sögunni sem öfgamenn notuðu til að safna nýliðum í sínar raðir. Hún kallaði eftir endanlegri lokun búðanna og hvatti aðildarríki ÖSE til að styðja ferlið með því að taka á móti föngum. Kvile sagði frá áherslum nefndar ÖSE um lýðræðis- og mannréttindamál fyrir árið 2015, sem voru m.a. á skoðana- og tjáningarfrelsi, trúfrelsi, funda- og samkomufrelsi, vernd minnihlutahópa, jafnrétti, dauðarefsingar og mansal. Að mati Kvile ætti nefndin að vera vettvangur skoðanaskipta og til að deila sem bestum starfsvenjum. Hann hefði því hvatt sendinefndir til að skrifa skýrslur að eigin frumkvæði um starf sinna ríkja á sviði nefndarinnar og hvernig þau framfylgdu tilmælum ÖSE.
    Á síðari sameiginlegum fundi málefnanefndanna þriggja var sérstök umræða um viðbrögð ÖSE við neyðarástandinu í Úkraínu. Fundinn ávörpuðu Heidi Tagliavini, sérlegur fulltrúi formanns ÖSE í málefnum Úkraínu og í þríhliða tengihópi Rússlands, Úkraínu og ÖSE, og Ertugrul Apakan, aðaleftirlitsmaður ÖSE í sérstökum eftirlitsaðgerðum stofnunarinnar í Úkraínu. Tagliavini sagði mikið óvissuástand ríkja í Úkraínu og sá ótti kæmi reglulega upp að ástandið í austurhluta Úkraínu gæti farið algjörlega úr böndunum. Ástandið væri fyrst og fremst mannlegur harmleikur. Ekki væri einungis um austurhluta Úkraínu að ræða, deilan gæti stefnt öryggi og samstarfi í allri Evrópu í hættu. Full framkvæmd Minsk-samkomulagsins væri lykilatriði í lausn deilunnar. Apakan hvatti alla aðila að deilunni til að viðurkenna að þær skuldbindingar sem fælust í Minsk-samkomulaginu væru ekki túlkunaratriði, það væri aðeins eitt Minsk-ferli.
    Sérlegur fulltrúi ÖSE-þingsins á sviði jafnréttismála, dr. Hedy Fry, ávarpaði einnig síðari sameiginlegan fund málefnanefndanna. Hún sagði breytingar á úreltum og óskilvirkum kerfum lykilinn að því að fá breytingar í gegn á sviði jafnréttismála. ÖSE-þingið ætti að þrýsta á kerfisbundnari og skilvirkari aðferðir til samþættingar kynja- og jafnréttissjónarmiða í aðildarríkjum ÖSE. Hægt væri að ná þessu markmiði í gegnum verkefnið Helsinki +40, en svo nefndist endurskoðunar- og umbótaferlið sem unnið var að hjá ÖSE í tilefni 40 ára afmælis stofnunarinnar árið 2015, og með því að auka pólitískan vilja til þess að innleiða viðauka við jafnréttisáætlun ÖSE frá árinu 2004. Viðaukinn var fyrst lagður fram á fundi ráðherraráðs ÖSE haustið 2014 en hefur ekki verið samþykktur.
    Á fundi stjórnarnefndar ÖSE-þingsins var m.a. rætt um þá ákvörðun framkvæmdastjórnar þingsins að hafna tilnefningu rússneska þingsins á Olgu Kovitidi til setu í landsdeild Rússlands hjá stofnuninni, en Kovitidi situr í efri deild rússneska þingsins fyrir hönd Krímskaga. Í rökstuðningi kjörbréfanefndar ÖSE-þingsins segir m.a. að þingmenn sem tilnefndir séu til setu á ÖSE-þinginu verði að vera fulltrúar af yfirráðasvæði þess ríkis sem tilnefnir þá en ekki fulltrúar landsvæðis sem viðkomandi ríki hefur innlimað með aðferðum sem yfirgnæfandi meiri hluti aðildarríkja ÖSE telur ólöglegan. Pétur H. Blöndal, sérlegur fulltrúi forseta ÖSE- þingsins í fjárreiðum ÖSE, sendi í fjarveru sinni stjórnarnefnd skriflega skýrslu um störf sín. Í henni ítrekaði hann gagnrýni sína á fjárhagsáætlun ÖSE fyrir árið 2015, þar á meðal aukin framlög til skrifstofu ÖSE í Vín á kostnað framlaga til vettvangsskrifstofa.

Samráðsfundur Norður- og Eystrasaltslandanna innan ÖSE-þingsins í Ósló 7. maí 2015.
    Af hálfu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins sótti fundinn Elsa Lára Arnardóttir, formaður, auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur, alþjóðaritara. Helstu mál á dagskrá var nýjasta þróun mála innan ÖSE-þingsins og undirbúningur fyrir ársfund þingsins í Helsinki í júlí 2015. Þá héldu tveir fræðimenn erindi, annars vegar um samstarf milli Norður- og Eystrasaltslanda á sviði öryggismála og hins vegar um svæðisbundin átök í Miðausturlöndum og áhrif þeirra á öryggi í Evrópu.
    Rætt var um viðleitni ÖSE til að miðla málum í Úkraínu. Formaður landsdeildar Litháen taldi ekki nóg gert og sagðist vilja sjá Vesturlönd styrkja Úkraínu með vopnum og vinna með úkraínska hernum. Formenn sænsku og finnsku landsdeildanna sögðu slíkt afar erfitt þar sem spillingin í landinu væri svo mikil. Frekari endurbætur yrðu að eiga sér stað þar áður en hugað yrði að slíku. Að senda vopn væri þar að auki ekki einfalt, til að mynda þyrfti að þjálfa úkraínska herinn til að nota þau. Eins væri líklegt að Rússar mundu í kjölfarið senda tvöfalt fleiri vopn til aðskilnaðarsinna. Einn af þingmönnum eistnesku landsdeildarinnar taldi þá líklegt að Rússland reyndi næst að ná yfirráðum í Moldóvu og Aserbaídsjan. Formaður finnsku landsdeildarinnar sagði Aserbaídsjan mjög vel varið hernaðarlega og formaður sænsku landsdeildarinnar sagði Rússa ekki hafa efnahagslega burði til slíkra aðgerða.
    Því næst var fjallað um ráðningu nýs framkvæmdastjóra ÖSE-þingsins, en Spencer Oliver, sem hefur sinnt starfinu síðastliðin 23 ár eða frá stofnun ÖSE-þingsins árið 1992, tilkynnti fyrr á árinu að hann hygðist ekki sækjast eftir endurkjöri. Forseti ÖSE-þingsins, Ilkka Kanerva, sem jafnframt er formaður finnsku landsdeildarinnar, sagði frá því að framkvæmdastjórn þingsins hefði ákveðið á fundi sínum í lok apríl 2015 að tilnefna Roberto Montella sem næsta framkvæmdastjóra ÖSE-þingsins. Montella starfar sem staðgengill sérstaks fulltrúa ÖSE-þingsins í Vínarborg. Það væri svo stjórnarnefndar að samþykkja tilnefninguna á fundi sínum í Helsinki 5. júlí 2015.
    Næst á dagskrá fundarins var undirbúningur fyrir ársfund ÖSE-þingsins í Helsinki 4.–9. júlí 2015. Danir dreifðu drögum að ályktun um viðurkenningu á sjálfstæði Palestínu og Norðmenn drögum að ályktun um möguleika og áskoranir á norðurslóðum.
    Því næst tóku til máls tveir fræðimenn, Janne Haaland Matlary, prófessor við stjórnmálafræðideild Óslóarháskóla, og Cecilie Hellestveit, ráðgjafi og fræðimaður við Stofnun alþjóðalaga og stefnumótunar (e. International Law and Policy Institute). Matlary kynnti nýtt mat sérfræðingahóps norska varnarmálaráðuneytisins á helstu öryggisáskorunum landsins. Hann sagði að Rússland yrði áfram einn af þáttum norskra varnarmála, ekki síst vegna ástandsins í Úkraínu, en á sama tíma væri Kyrrahafs- og Asíusvæðið að verða sífellt mikilvægara út frá landfræðipólitík og efnahagsmálum. Hryðjuverk, tölvuárásir og langdræg flugskeyti sönnuðu að landfræðileg fjarlægð væri ekki eins mikilvæg og áður. Sérfræðingahópurinn kallaði eftir að norski herinn, samfélagið í heild sinni og samstarfsaðilar Noregs tækju höndum saman til að vinna gegn þessum ógnum. Noregur ætti enn fremur að vera virkur þátttakandi í Atlantshafsbandalaginu. Fimm forgangsatriði væru sérstaklega mikilvæg, þ.e. betri leyniþjónusta og eftirlit, öflugari ákvarðanatökuferli við krísustjórnun, trúverðug varnaðaráhrif (e. deterrence) og skjótari viðbrögð hersins og bandamanna þeirra. Til þess að fyrrnefnd atriði væru möguleg þyrfti að auka fjármagn til varnarmála töluvert. Hellestveit fór yfir stöðu mála í Miðausturlöndum, þar á meðal yfirstandandi átök, aðgerðir Bandaríkjahers á svæðinu, deilur sunní- og shía-múslima, arabíska vorið og aðgerðir hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki. Helstu áhrif á Evrópu væru mikill straumur flóttamanna til álfunnar og mögulegar aðgerðir evrópskra hryðjuverkamanna sem snúa til baka til síns heima frá þessu stríðshrjáða svæði. Helstu áskoranir Evrópu væru að ákveða hvaða ríki væri best að vinna með til að takast á við þessar öryggisáskoranir, finna leiðir til að takast á við mikinn straum flóttamanna til álfunnar á mannúðlegan hátt og jafnframt að berjast gegn hryðjuverkum og takast á við endurkomu evrópskra hryðjuverkamanna.

Ársfundur ÖSE-þingsins í Helsinki 10.–14. júlí 2015.
    Af hálfu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins sóttu fundinn Elsa Lára Arnardóttir formaður og Guðmundur Steingrímsson, auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur alþjóðaritara. Fundinn sóttu um 300 þingmenn frá yfir 50 ríkjum en yfirskrift fundarins var líkt og árið 2014 Helsinki +40, en svo nefndist ferli sem sneri að stefnumótun fyrir verkefni ÖSE til ársins 2015. Meginviðfangsefni fundarins var hlutdeild Rússlands í átökunum í Úkraínu, flóttamannavandinn á Miðjarðarhafi, kynferðisofbeldi gegn og misnotkun á varnarlausum konum og börnum og rík þörf á endurbótum á starfsemi ÖSE. Sendinefnd Rússlands hjá ÖSE-þinginu hætti við þátttöku í ársfundinum nokkrum dögum fyrir upphaf fundarins, eftir að utanríkisráðuneyti Finnlands hafði neitað nokkrum þingmönnum nefndarinnar um vegabréfsáritun til landsins vegna þess að þeir voru á ferðabannlista Evrópusambandsins, sem er hluti af refsiaðgerðum sambandsins gegn Rússlandi vegna íhlutunar þess í átökunum í Úkraínu.
    Málefnanefndirnar þrjár tóku fyrir fram ákveðin mál til umfjöllunar með áherslu á yfirskrift ársfundarins Helsinki +40. Elsa Lára Arnardóttir tók þátt í störfum 1. nefndar um stjórn- og öryggismál. Í ályktun nefndarinnar var Rússland hvatt til að endurskoða úrsögn sína úr samningi um hefðbundinn herafla í Evrópu (e. Treaty on Conventional Armed Forces in Europe, CFE) og virða skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum, ásamt því að hætta við innlimun Krímskaga og borgarinnar Sevastopol. Virkri þátttöku formennsku ÖSE við að finna lausn á átökunum í Úkraínu var fagnað, sem og sérstakri eftirlitssveit ÖSE í landinu. Lögð var áhersla á mikilvægi þess að tryggja eftirlitsmönnum ÖSE fullan aðgang að austurhéruðum landsins og tryggja ótakmarkaða afhendingu mannúðaraðstoðar til svæðisins.
    Guðmundur Steingrímsson tók þátt í störfum 3. nefndar um lýðræðis- og mannréttindamál. Í ályktun nefndarinnar voru fordæmdar viðvarandi ofsóknir og fangelsun blaðamanna og verndara mannréttinda í nokkrum aðildarríkjum ÖSE. Einnig var lýst yfir áhyggjum af hvarfi fjölda gagnrýnenda stjórnvalda innan ÖSE-svæðisins og skorti á upplýsingum um þá og kallað eftir að stjórnvöld veiti allar mögulegar upplýsingar um afdrif þessara einstaklinga. Kallað var eftir að aðildarríki ÖSE felldu úr gildi alla löggjöf sem gengur gegn réttindum LGBT-fólks, þar á meðal löggjöf sem refsivæðir upplýsingagjöf um málefni LGBT. Innlimun Rússlands á Krímskaga var fordæmd, sem og áframhaldandi brot á réttindum minnihlutahópa þar, sér í lagi krímverskra tatara, og tilraunir rússneskra stjórnvalda til að þagga niður í verndurum mannréttinda og sjálfstæðum fjölmiðlum í landinu.
    Í ályktun 2. nefndar um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál voru aðildarríki hvött til að vinna áfram að því að draga úr loftslagsbreytingum og að samningaviðræðum í átt að nýjum alþjóðlegum loftslagssamningi með bindandi takmörkunum á losun gróðurhúsalofttegunda til samþykktar á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París í desember.
    Ályktanir nefndanna voru síðan samþykktar á þingfundum ÖSE-þingsins. Til viðbótar þeim voru samþykktar 13 aukaályktanir, sem ásamt ályktunum nefndanna mynda yfirlýsingu ársfundarins. Á meðal aukaályktana var ályktun um brot Rússlands á meginreglum Helsinki- sáttmálans sem var lögð fram af kanadíska þingmanninum Dean Allison og var sú mest rædda á þinginu. Í henni var árás Rússlands á fullveldi og friðhelgi yfirráðasvæðis Úkraínu fordæmd, sem og áframhaldandi brot Rússlands á meginreglum Helsinki-sáttmálans. Þjóðaratkvæðagreiðsla á Krímskaga og í Sevastopol var sögð hafa ekkert lagalegt gildi og ítrekað var kall eftir að Rússland hætti við innlimun svæðisins. Lýst var yfir miklum áhyggjum af aukinni hervæðingu á Krímskaga og í Sevastopol sem og yfirlýsingum sumra rússneskra embættismanna sem benda á vilja landsins til að nota kjarnorkuvopn á svæðinu. Kallað var eftir fullri framkvæmd Minsk-sáttmálanna með alhliða vopnahléi og að aðilar deilunnar vinni saman að friðsamlegri og varanlegri lausn á átökunum í Úkraínu.
    Í ályktun um endurbætur á starfi ÖSE var kallað eftir að tilkynnt verði opinberlega um þau ríki sem ekki fylgja meginreglum Helsinki-sáttmálans og ef til vill þróaðar bindandi siðareglur fyrir aðildarríki ÖSE til að tryggja að reglum sáttmálans sé fylgt. Mælst var til þess að fundir fastaráðs ÖSE verði opnir fjölmiðlum og sýndir beint á netinu til að auka gagnsæi ákvarðanatöku stofnunarinnar. Kallað var eftir stærra hlutverki ÖSE-þingsins í starfi og ákvarðanatöku ÖSE, að fyrirmynd Evrópuráðsins, þar á meðal með því að ÖSE-þingið kjósi framkvæmdastjóra ÖSE, eigi hlut að því að samþykkja inngöngu nýrra aðildarríkja og samþykki fjárhagsáætlun stofnunarinnar. Jafnframt var kallað eftir betri samhæfingu og upplýsingamiðlun milli skrifstofu ÖSE í Vínarborg, annarra stofnana ÖSE og skrifstofu ÖSE- þingsins. Þá var hvatt til þess að ÖSE-þingið hefði stærra hlutverk í aðgerðum ÖSE við að fyrirbyggja átök, leysa deilur og miðla málum. Undirstrikað var mikilvægi þess að hlutverk ÖSE-þingsins, staða þess og þátttaka í starfi ÖSE sem ein af stofnunum ÖSE séu rétt skilgreind.
    Í ályktun um flóttamannavandann á Miðjarðarhafi var sterklega ítrekaður réttur allra manna sem flýja ofsóknir og vopnuð átök til að sækja um hæli í ÖSE-ríki, eins og fram kemur í Genfarsáttmálanum og öðrum alþjóðasamningum. Kallað er eftir samstilltum, samræmdum og ákveðnum aðgerðum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna til að berjast gegn þeim sem smygla fólki. Óskað er eftir að ESB, og Ítalía sérstaklega, komi með hugmyndir að nýjum, víðtækum og skilvirkum leitar- og björgunaraðgerðum. Lýst er yfir stuðningi við viðleitni ESB til að þróa gerð móttökukvóta fyrir aðildarríki sambandsins undir nýrri flóttamannastofnun (e. Agency on Migration) og kallað eftir því að fleiri flóttamönnum verði boðin dvöl í ríkjum ESB.
    Í ályktun um umhverfisáskoranir og efnahagstækifæri á norðurslóðum var hvatt til gagnkvæms skilnings á rétti íbúa norðurslóða til að nýta auðlindir sínar á sjálfbæran hátt og mikilvægi þess að tryggja lífsviðurværi þeirra með því að stækka markaði fyrir hefðbundnar vörur. Þá var kallað eftir að aðildarríki ÖSE á norðurslóðum hefji sameiginlegar rannsóknir á þeim áskorunum sem fylgja olíuborunum og flutningi olíu á hafsvæðum norðurslóða.
    Í ályktun um kynferðisofbeldi gegn og misnotkun á varnarlausum konum og börnum var kallað eftir að aðildarríki tryggðu að sérstakar þarfir kvenna og stúlkna væru hluti af öllum mannúðaraðstoðaráætlunum og að það væri sett í forgang að taka á ofbeldi gegn konum og stúlkum, þar á meðal kynferðisofbeldi. Kallað var eftir að þjóðþing og þingmenn aðildarríkja ÖSE hæfi eða yki söfnun kyngreindra upplýsinga og notaði skilvirkar kynjaðar greiningar við alla stefnumótun. ÖSE og aðildarríki stofnunarinnar voru loks hvött til að samþykkja aðgerðaáætlanir um framkvæmd ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi, og þingmenn hvattir til að taka virkan þátt í því að fylgjast með skilvirkri framkvæmd hennar.
    Í ályktun um framlög aðildarríkja til ÖSE og ÖSE-þingsins var lýst yfir óánægju með að ekki hefðu verið gerðar breytingar á framlagakerfi ÖSE frá árinu 2005. Fram kom að ekki væri samræmi milli framlaga hvers ríkis og núverandi efnahagsástands viðkomandi ríkja. Jafnframt var lagt til að þau þjóðþing sem greiða minnst til ÖSE-þingsins greiddu fasta greiðslu að upphæð 10.000 evra, eða um 1,55 millj. kr., og að aukatekjur sem þannig fáist bætist við gildandi fjárhagsáætlun þingsins.
    Aðrar aukaályktanir sneru m.a. að siðareglum ÖSE, skyldunni til að berjast gegn mansali í samningum ríkisstjórna um kaup á vörum og þjónustu, úkraínskum borgurum sem hefur verið rænt og er haldið ólöglega í Rússlandi og alhliða lagaendurbótum þegar kemur að hryðjuverkamönnum frá ÖSE-svæðinu sem hafa gengið til liðs við hryðjuverkasamtök í Miðausturlöndum.
    Í lok ársfundar var Finninn Ilkka Kanerva endurkjörinn forseti ÖSE-þingsins til eins árs. Eftir fundinn var yfirlýsing ársfundar send áfram til utanríkisráðherra og þjóðþinga aðildarríkja með von um að hún efli frekar áframhaldandi umræður um Helsinki +40-ferlið og hafi áhrif á ákvarðanir ráðherranefndar ÖSE og þar með pólitískar skuldbindingar aðildarríkja.

Haustfundur ÖSE-þingsins í Úlan Bator 16.–18. október 2015.
    Af hálfu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins sóttu fundinn Guðmundur Steingrímsson og Sigríður Á. Andersen, auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur alþjóðaritara. Í setningarávarpi sínu ræddi Ilkka Kanerva, forseti þingsins, um mikilvægi þess að styðja framkvæmd Minsk- sáttmálanna sem væru eina leiðin til að takast á við ástandið í Úkraínu. Hann fagnaði því að vopnahléið í Austur-Úkraínu hefði að mestu verið virt vikurnar á undan. Annað neyðarástand væri yfirvofandi, flóttamannavandinn í Evrópu, og Kanerva hvatti álfuna til að bregðast við vandanum með samstöðu og samkennd. Kanerva hrósaði Mongólíu fyrir friðsamlega og skjóta aðlögun að lýðræðislegum stöðlum og vilja stjórnvalda til frekari þróunar, aukins lýðræðis og betri stjórnunarhátta og félags- og efnahagslegrar stefnumótunar. Kanerva tilkynnti þingmönnum jafnframt um þá ákvörðun ÖSE-þingsins að taka ekki þátt í eftirliti með þingkosningunum í Aserbaídsjan 1. nóvember 2015. Sú ákvörðun var tekin í kjölfar þess að Lýðræðis- og mannréttindastofnun ÖSE, ODIHR, ákvað að senda ekki kosningaeftirlitsmenn til landsins vegna þeirra takmarkana sem stjórnvöld landsins hugðust setja á störf stofnunarinnar. Samhliða haustfundi hitti Kanerva sendinefndir Rússlands og Úkraínu til að ræða hvernig ÖSE-þingið gæti stutt framkvæmd Minsk-sáttmálanna.
    Ráðstefnu haustfundar var skipt í þrjá hluta eftir málefnaáherslum nefnda þingsins. Í fyrsta hluta, sem tilheyrði vídd stjórn- og öryggismála, var sérstök áhersla á svæðisbundið öryggi og baráttuna gegn hryðjuverkum og mansali á ÖSE-svæðinu. Þá var ástandið í Úkraínu sérstaklega til umræðu. Formaður sendinefndar Rússlands og forseti neðri deildar rússneska þingsins, Sergey Naryshkin, gagnrýndi þá ákvörðun finnskra stjórnvalda að neita þingmönnum sendinefndar Rússlands um vegabréfsáritun til landsins fyrir þátttöku í ársfundi ÖSE- þingsins í júlí 2015. Hann sagði ákvörðunina árás á gildi alþjóðlegs þingmannasamstarfs. ÖSE-þingið ætti að upplýsa um afstöðu sína og staðfesta að refsiaðgerðum yrði ekki aftur beitt gegn einstökum þingmönnum samstarfsins og að allir þingmenn gætu framvegis tekið þátt í fundum þess. Formaður sendinefndar Úkraínu hjá ÖSE-þinginu, Artur Gerasymov, sagði að forsenda þess að milda refsiaðgerðir gegn Rússlandi væri að Rússland sleppti úr haldi pólitískum föngum frá Úkraínu sem haldið væri í fangelsum í Rússlandi. ÖSE-þingið ætti að halda áfram að berjast gegn árásarhneigð Rússa sem væri ógn við öryggi og frið í Evrópu. Formaður dönsku sendinefndarinnar sagði að á meðan Rússar framfylgdu ekki Minsk-sáttmálunum ætti ekki að milda refsiaðgerðir vesturveldanna gegn þeim.
    Annar hluti ráðstefnunnar tilheyrði efnahags- og umhverfisvíddinni og var áhersla lögð á efnahagslegar áskoranir, fæðuöryggi og áhættustjórnun á ÖSE-svæðinu. Í umræðum gagnrýndi Sigríður Á. Andersen harðlega viðskiptabann Rússa gegn Vesturlöndum og vakti athygli á mikilvægi frjálsra viðskipta varðandi fæðuöryggi. Nefndi hún að fá ef nokkur ríki gætu tryggt borgurum sínum fæðuöryggi til langs tíma án frjálsra viðskipta við önnur ríki. Því væri miður að ríki eins og Rússland legði bann við innflutningi á matvælum frá Evrópu og Bandaríkjunum vegna aðgerða ríkjanna í tengslum við ástandið í Úkraínu. Sigríður sagði augljóst að viðskiptaþvinganir Rússlands brytu gegn reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Það væri þó ekki aðalatriðið heldur áhrif bannsins á þegna landsins. Hún hvatti ÖSE-þingið til að berjast fyrir frjálsum viðskiptum og mótmæla viðskiptabanninu. Nikolay Kovalev, þingmaður sendinefndar Rússlands, sagði í kjölfarið að Rússland væri á móti hvers kyns refsiaðgerðum ríkja, bæði pólitískum og efnahagslegum. Rússland hefði hins vegar verið neytt til þess að bregðast við refsiaðgerðum Bandaríkjanna og Evrópusambandsins. Vesturlönd bæru þannig ábyrgð á minnkandi fæðuöryggi og óánægju með innflutningsbann Rússa, t.d. meðal bænda á Íslandi og í Frakklandi. Á sama tíma hefði innflutningsbannið í raun verið Rússlandi til hagsbóta og aukið fæðuöryggi í landinu sem væri nú farið að framleiða nýjar tegundir af matvælum. Rússland væri reiðubúið til að gera allt sem hægt væri til að koma á eðlilegum samskiptum á ný og að um leið og Vesturlönd drægju til baka refsiaðgerðir sínar mundi Rússland gera slíkt hið sama.
     Loks tilheyrði þriðji hluti ráðstefnunnar vídd mannréttinda og lýðræðis og áhersla var þá lögð á þróun lýðræðisstofnana, mannréttindi, fjölmiðlafrelsi, trúfrelsi og jafnrétti á ÖSE- svæðinu. Þá voru málefni flóttamanna sérstaklega til umræðu. Lögð var áhersla á að flóttamannavandinn væri alþjóðlegur og þögn annarra heimshluta en Evrópu var gagnrýnd. Þingmaður ungversku sendinefndarinnar ræddi um þann vara sem þyrfti að hafa á til að tryggja að ekki leyndust hryðjuverkamenn meðal þeirra flóttamanna sem hleypt væri til Evrópu. Flóttamenn væru ekki allir með gott eitt í huga og ríki þyrftu að vernda borgara sína. Til að gera ríkjum það betur kleift lagði hann til að Schengen-samstarfið yrði tímabundið leyst upp og landamæraeftirlit tekið upp. Þingmaður rússnesku sendinefndarinnar sagði undarlegt að verið væri að kenna Rússum um straum flóttamanna frá Sýrlandi þegar Rússland hefði tekið á móti þremur milljónum flóttamanna frá Úkraínu. Þingmaður írsku sendinefndarinnar sagði neyðarástandið ekki snúast um landamæri heldur samstöðuskort og þingmaður bresku sendinefndarinnar benti á mikilvægi þess að styðja þau ríki sem tækju á móti miklum fjölda flóttamanna, ásamt því að takast á við ástæður þess að fólkið væri á flótta.
    Samhliða haustfundi stóð Íslandsdeild fyrir fundi þingmanna Norðurlanda og Eystrasaltsríkja með fulltrúum samtaka um mannréttindi og fjölmiðlafrelsi í Mongólíu, Globe International NGO og Open Society Forum Mongolia, sem Guðmundur Steingrímsson stýrði fyrir hönd Íslandsdeildar. Að sögn fulltrúa samtakanna er tjáningarfrelsi takmarkað í Mongólíu, vefsíðum sé lokað sé á þeim að finna gagnrýni á yfirvöld eða stórfyrirtæki í landinu og ný löggjöf geri yfirvöldum kleift að fylgjast náið með netnotkun almennra borgara. Erfitt sé fyrir óháða aðila að stofna fjölmiðla, auglýsingamarkaðurinn sé vanþróaður og fjármögnun því afar erfið. Fjölmiðlar séu að mestu fjármagnaðir af ríkisstjórnarflokkunum og stórum fyrirtækjum. Fundafrelsi sé einnig takmarkað og samtök eigi erfitt með að fá leyfi fyrir mótmæla- eða samstöðufundum. Löggjöf um fundafrelsi sé til staðar en stjórnvöld komi sér undan því að framfylgja henni. Þá sé gögnum oft stolið af samtökum sem rannsaka alvarleg spillingarmál. Aðskilnaður valds sé takmarkaður og hagmunatengsl tíð. Dómstólar séu þá nátengdir stjórnmálum og lögregluyfirvöldum í landinu, ekki síst eftir valdarán hersins árið 2008 þegar mótmælendur voru handteknir og dæmdir til fangelsisvistar án haldbærra lagalegra raka. Dómstólar í landinu hafi ekki þekkingu á alþjóðasáttmálum og mikil þörf sé á þjálfun fyrir dómara við dómstóla landsins.

Alþingi, 25. janúar 2016.

Elsa Lára Arnardóttir,
form.
Guðmundur Steingrímsson. Sigríður Á. Andersen.



Fylgiskjal.


Ályktanir ÖSE-þingsins árið 2015.


    Eftirfarandi ályktanir voru samþykktar á ársfundi ÖSE-þingsins árið 2015:
          Ályktun um fylgni við meginreglur Helsinki-sáttmálans í milliríkjasamskiptum á ÖSE- svæðinu.
          Ályktun um siðareglur ÖSE fyrir stjórnmála- og hernaðarhlið öryggis.
          Ályktun um Helsinki +40: Að byggja ÖSE framtíðarinnar.
          Ályktun um skylduna til að berjast gegn mansali í samningum ríkisstjórna um kaup á vörum og þjónustu.
          Ályktun um týnda einstaklinga í tengslum við vopnuð átök.
          Ályktun um úkraínska borgara sem hefur verið rænt og er haldið ólöglega í Rússlandi.
          Ályktun um samstarf um skilgreiningu landamæra eftir átök: Ný tæki til að sjá ferli átaka með nýjum hætti.
          Ályktun um ákall um aðkallandi lausnir á hörmulegum dauðsföllum í Miðjarðarhafi.
          Ályktun um alhliða lagaendurbætur varðandi hryðjuverkamenn frá ÖSE-svæðinu sem ganga til liðs við hryðjuverkasamtök í Miðausturlöndum.
          Ályktun um umhverfisáskoranir og efnahagstækifæri á norðurslóðum.
          Ályktun um konur og stúlkur sem eru varnarlausar vegna vopnaðra átaka, hættuástands eða af því þær tilheyra minnihlutahópi.
          Ályktun um nútímavæðingu kerfis um framlög aðildarríkja til fjárhagsáætlunar ÖSE.
          Ályktun um stöðug, augljós, alvarleg og óleiðrétt brot Rússlands á skuldbindingum sínum gagnvart ÖSE og alþjóðareglum.