Ferill 101. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1027  —  101. mál.
Nr. 19/145.


Þingsályktun

um landsskipulagsstefnu 2015–2026.


     Alþingi ályktar, með vísan til 10. gr. skipulagslaga, nr. 123/2010, að stjórnvöld skuli á árunum 2015–2026 vinna að skipulagsmálum í samræmi við landsskipulagsstefnu þessa sem felur í sér:
     1.      Stefnu um skipulag á miðhálendi Íslands.
     2.      Stefnu um skipulag í dreifbýli.
     3.      Stefnu um búsetumynstur og dreifingu byggðar.
     4.      Stefnu um skipulag á haf- og strandsvæðum.
    Í landsskipulagsstefnu er eftirfarandi lagt til grundvallar auk markmiða skipulagslaga:
     1.      Að skipulag byggðar og landnotkunar stuðli að sjálfbærri þróun.
     2.      Að skipulag byggðar og landnotkunar sé sveigjanlegt og stuðli að seiglu gagnvart samfélags- og um­hverfisbreytingum.
     3.      Að skipulag byggðar og landnotkunar stuðli að lífsgæðum fólks.
     4.      Að skipulag byggðar og landnotkunar styðji samkeppnishæfni landsins alls og einstakra landshluta.

1. SKIPULAG Á MIÐHÁLENDI ÍSLANDS

    Staðinn verði vörður um náttúru og landslag miðhálendisins vegna náttúruverndargildis og mikilvægis fyrir útivist. Uppbygging innviða á miðhálendinu taki mið af sérstöðu þess.

1.1 Víðerni og náttúrugæði.
    Viðhaldið verði sérkennum og náttúrugæðum miðhálendisins með áherslu á verndun víðerna hálendisins, landslagsheilda, mikilvægra vistgerða og gróðurlenda og verðmætra menningarminja.

Skipulagsgerð sveitarfélaga:
1.1.1 Skipulagsákvæði um náttúru og víðerni.
    
Sveitarfélög á miðhálendinu útfæri landsskipulagsstefnu um verndun víðerna- og náttúrugæða í skipulagsáætlunum sínum. Við skipulagsgerð sveitarfélaga verði þess gætt að mannvirki og umferð um hálendið skerði víðerni og önnur sérkenni og náttúrugæði hálendisins sem minnst. Jafnframt verði kannaðir möguleikar á endurheimt víðerna og náttúrugæða. Til grundvallar stefnumörkun verði lögð kortlagning á umfangi víðerna, vistgerðakort Náttúrufræðistofnunar Íslands og svæði sem njóta verndar vegna náttúrufars. Á svæðum sem flokkast sem víðerni verði svigrúm fyrir takmarkaða mannvirkjagerð, svo sem gönguskála, vegslóða og göngu- og reiðleiðir. Umfangsmeiri mannvirkjagerð verði beint að stöðum sem rýra ekki víðerni hálendisins.

1.1.2 Sjálfbær gróðurframvinda.
    
Áhersla landsskipulagsstefnu á sjálfbæra gróðurframvindu á miðhálendinu verði m.a. útfærð með ákvæðum í aðalskipulagi um beitarsvæði í samráði við bændur og Landgræðslu ríkisins. Þau miði að því að beitarálag sé í samræmi við ástand vistkerfa og markmið um að endurheimta og styrkja náttúruleg vistkerfi og stöðva jarðvegseyðingu. Með þeim verði stuðlað að því að beit á miðhálendinu verði stjórnað þannig að landnýting verði sjálfbær, valdi ekki gróður- eða jarðvegseyðingu eða hamli náttúrulegri framvindu vistkerfa á illa förnu landi. Einnig verði, eftir því sem við á, sett ákvæði í aðalskipulagi um landgræðslu og landgræðslusvæði til að bregðast við rofskemmdum. Skipulagsákvarðanir um beit og landgræðslu byggist á áætlunum um uppgræðslu lands.

1.1.3 Hverfisverndun víðerna og viðkvæmra svæða.
    Stefna um verndun víðerna og náttúrugæða hálendisins verði eftir því sem við á útfærð með hverfisvernd í skipulagsáætlunum sveitarfélaga, m.a. þannig að í aðalskipulagi verði þau svæði hverfisvernduð sem tilgreind eru í verndarflokki áætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða og náttúruverndaráætlun. Þá verði hverfisvernd eftir aðstæðum nýtt til að vernda land sem er talið viðkvæmt fyrir búfjárbeit.

Önnur verkefni stjórnvalda:
1.1.4 Kortlagning víðerna.
    Skipulagsstofnun og Um­hverfisstofnun hafi for­göngu um að reglulega liggi fyrir uppfærð kort af umfangi og þróun víðerna á miðhálendinu. Í því felst að ákveða viðmið fyrir mat á umfangi víðerna út frá skipulagssjónarmiðum og að hafa kort sem uppfærð eru reglulega um umfang víðerna aðgengileg fyrir skipulagsvinnu sveitarfélaga og annarra aðila.

1.1.5 Um­hverfismat.
    Við um­hverfismat áætlana og framkvæmda á miðhálendinu verði lagt mat á áhrif áætlunar og framkvæmdar á víðerni og hve mikil rýrnun, eða eftir atvikum endurheimt, verður á víðernum.

1.2 Ferðaþjónusta í sátt við náttúru og um­hverfi.
    Uppbygging ferðamannaaðstöðu stuðli að góðri aðstöðu ferðafólks á miðhálendinu, en jafnframt verði gætt að því að óbyggðaupplifun og náttúrugæði skerðist sem minnst vegna mannvirkja og umferðar.

Skipulagsgerð sveitarfélaga:
1.2.1 Skipulag áfangastaða ferðamanna.
    Uppbygging ferðamannaaðstöðu verði takmörkuð á miðhálendinu og megináhersla lögð á uppbyggingu á jaðarsvæðum hálendisins og á nokkrum afmörkuðum svæðum við aðalvegi hálendisins. Gengið verði út frá eftirfarandi flokkun og staðsetningu þjónustustaða:
          Jaðarmiðstöðvar séu á tilteknum stöðum við meginleiðir inn á hálendið og í jaðri þess.
          Hálendismiðstöðvar séu á tilteknum stöðum við meginleiðir um hálendið.
          Skálasvæði séu á tilteknum stöðum í góðu vegasambandi.
          Fjallasel séu í takmörkuðu vegasambandi og taki mið af hæfilegum dagleiðum göngufólks.
    Við skipulagsgerð verði stuðlað að því að ferðafólki um miðhálendið standi til boða viðeigandi mannvirki og þjónusta og að ferðafólk dreifist þannig að álag á náttúru sé í samræmi við þol hennar. Við alla mannvirkjahönnun og framkvæmdir á hálendinu verði jafnframt lögð áhersla á að virðing sé borin fyrir náttúrulegu landslagi og viðhöfð sérstök aðgæsla sem tryggi að mannvirki falli sem best að um­hverfi og rýri sem minnst hlut náttúrunnar í heildarmyndinni.

Önnur verkefni stjórnvalda:
1.2.2 Kortlagning mannvirkja og þjónustu.
    Skipulagsstofnun í samvinnu við Þjóðskrá Íslands og sveitarfélög á hálendinu hafi for­göngu um skráningu mannvirkja og þjónustu á hálendinu.

1.2.3 Mat á þörf fyrir uppbyggingu ferðaþjónustumannvirkja.
    Skipulagsstofnun, í samvinnu við Ferðamálastofu, Samband íslenskra sveitarfélaga og ­sveitarfélög á hálendinu, safni upplýsingum um þörf fyrir breyttar áherslur í mannvirkjagerð fyrir næstu endurskoðun landsskipulagsstefnu, m.a. með hliðsjón af ferðamálastefnu og staðbundinni greiningu og stefnumótun á einstökum svæðum innan miðhálendisins. Haft verði samráð við hlutaðeigandi stofnanir og hagsmunaaðila.

1.3 Sam­göngur í sátt við náttúru og um­hverfi.
    Viðhald og frekari uppbygging sam­göngukerfis á miðhálendinu stuðli að góðu aðgengi að hálendinu og jafnvægi milli ólíkra ferðamáta. Mannvirki og umferð hafi lágmarksáhrif á víðerni og óbyggðaupplifun.

Skipulagsgerð sveitarfélaga:
1.3.1 Skipulag samgangna.
    Sveitarfélög á miðhálendinu geri grein fyrir og marki stefnu um þjóðvegi, þ.e. stofnvegi og landsvegi, í aðalskipulagi í samráði við Vegagerðina. Jafnframt geri þau grein fyrir og marki stefnu um aðra vegi en þjóðvegi á miðhálendinu í aðalskipulagi í samræmi við lög um náttúruvernd. Skipulagsákvæði um vegi á miðhálendinu feli í sér að vegaframkvæmdum verði haldið í lágmarki, möskvar vegakerfisins verði sem stærstir og að hönnun allra vega taki mið af náttúruvernd, sérstaklega með tilliti til landslags, víðerna og verndar viðkvæmra svæða. Við skipulagsgerð sveitarfélaga verði jafnframt leitað jafnvægis varðandi aðgengi að áhugaverðum stöðum með mismunandi ferðamátum þannig að ferðafólki á vélknúnum farartækjum sé tryggður aðgangur að fjölbreyttum svæðum en jafnframt verði tryggð kyrrlát svæði án umferðar vélknúinna farartækja. Ferðamannaleiðir (­gönguleiðir, reiðleiðir og reiðhjólaleiðir) verði eftir því sem kostur er aðskildar frá meginvegakerfi miðhálendisins. Þá verði í skipulagsáætlunum sveitarfélaga jafnframt tekin afstaða til þess hvar gera megi ráð fyrir lendingarstöðum þyrla og flugvéla og eftir atvikum afmörkuð kyrrlát svæði án umferðar vélknúinna farartækja á lofti og landi.

Önnur verkefni stjórnvalda:
1.3.2 Skrá yfir aðra vegi en þjóðvegi í náttúru Íslands .
     Á hverjum tíma skal Vegagerðin veita aðgang að skrá í stafrænum kortagrunni um vegi aðra en þjóðvegi í náttúru Íslands. Í samræmi við lög um náttúruvernd skal hún byggð á tillögum sveitarfélaga og samráð haft við einstakar stofnanir eða samþykkis þeirra aflað þegar um er að ræða friðlýst svæði og þjóðgarða.

1.3.3 Nánari stefnumótun um vegakerfi miðhálendisins.
    Við endurskoðun landsskipulagsstefnu og sam­gönguáætlunar vinni skipulags- og sam­gönguyfirvöld með hlutaðeigandi stofnunum og hagsmunaaðilum að nánari greiningu á kostum varðandi þróun sam­göngukerfis og útfærslu vega á miðhálendinu. Þar verði m.a. metið ástand vega og sú stefna sem sett var um sam­göngukerfi á hálendinu með svæðisskipulagi miðhálendisins. Einnig verði höfð hliðsjón af afrakstri vinnu sem iðnaðar- og við­skipta­ráðherra setti af stað haustið 2014 við mótun stefnu og framtíðarsýnar fyrir ferðaþjónustu á Íslandi.

1.4 Sjálfbær nýting orkulinda.
    Orkulindir á miðhálendinu verði nýttar með sjálfbærni og um­hverfisvernd að leiðarljósi, sérstaklega með tilliti til verndunar víðerna.

Skipulagsgerð sveitarfélaga:
1.4.1 Orkunýting í skipulagsáætlunum.
    Skipulagsákvarðanir um landnýtingu og mannvirkjagerð vegna orkuvinnslu og orkuflutnings taki mið af áherslu landsskipulagsstefnu á sjálfbæra nýtingu orkulinda og verndun víðerna og náttúru miðhálendisins. Meiri háttar mannvirkjagerð verði beint að stöðum sem rýra ekki víðerni eða landslagsheildir hálendisins.

Önnur verkefni stjórnvalda:
1.4.2 Um­hverfismat virkjunarkosta.
    Við um­hverfismat verndar- og orkunýtingaráætlunar verði metin samlegðaráhrif virkjunarkosta á víðerni og náttúru hálendisins. Lagt verði mat á áhrif orkuflutningsmannvirkja og samlegðaráhrif nýrra virkjunarkosta og annarra mannvirkja sem fyrir eru eða þegar ákveðin.

1.4.3 Um­hverfismat orkuflutningskosta.
    Við um­hverfismat kerfisáætlunar verði lagt mat á áhrif mismunandi kosta varðandi legu og útfærslu orkuflutningsmannvirkja á víðerni og náttúru hálendisins. Á miðhálendinu taki slíkt um­hverfismat til kosta sem felast í lagningu jarðstrengja auk loftlína.

1.5 Trygg fjarskipti í sátt við náttúru og um­hverfi.
    Skipulag gefi kost á uppbyggingu fjarskiptamannvirkja til að tryggja örugg fjarskipti, um leið og gætt verði að áhrifum á náttúru og landslag.

Skipulagsgerð sveitarfélaga:
1.5.1 Fjarskipti í skipulagsáætlunum.
    Skipulagsákvarðanir um fjarskiptamannvirki geri kleift að byggja upp traust fjarskiptakerfi og taki mið af landsskipulagsstefnu um víðerni og náttúru miðhálendisins.

1.6 Skipulag með tilliti til náttúruvár.
    Við skipulagsgerð á miðhálendinu verði tekið tillit til öryggis vegna náttúruvár.

Skipulagsgerð sveitarfélaga:
1.6.1 Skipulag með tilliti til náttúruvár.
    Við ákvarðanir um mannvirkjagerð á miðhálendinu verði tekið tillit til hættu sem talin er stafa af náttúruvá, svo sem snjóflóðum, skriðuföllum, vatnsflóðum, eldgosum, jökulhlaupum og jarðskjálftum.

2. SKIPULAG Í DREIFBÝLI

    Skipulag í dreifbýli gefi kost á fjölbreyttri nýtingu lands, svo sem til ræktunar, ferðaþjónustu og útivistar, í sátt við náttúru og landslag.

2.1 Sjálfbær byggð í dreifbýli.
    Skipulag landnotkunar styðji við búsetu og samfélag í dreifbýli með langtímasýn um ráðstöfun lands til nýtingar og verndar og samþættri stefnu um byggðaþróun í þéttbýli og dreifbýli.

Skipulagsgerð sveitarfélaga:
2.1.1 Sjálfbær byggð í skipulagsáætlunum.
    Við skipulagsgerð sveitarfélaga verði miðað að því að styðja og styrkja samfélag viðkomandi byggðarlags með því að beina vexti að þeim kjörnum sem fyrir eru. Í dreifbýli tengist fjölgun íbúða fremur búrekstri eða annarri staðbundinni landnýtingu eða atvinnustarfsemi.

2.2 Um­hverfis- og menningargæði.
    Skipulag landnotkunar stuðli að heilnæmu um­hverfi og verndun og varðveislu sérstæðrar náttúru og menningar og sögu sem felst m.a. í byggingararfi og landslagi.

Skipulagsgerð sveitarfélaga:
2.2.1 Byggð falli að landslagi og náttúru.
    Skipulagsáætlanir sveitarfélaga marki stefnu um gæði og yfirbragð byggðar og annarra mannvirkja í dreifbýli. Skipulagsákvarðanir um staðsetningu og hönnun nýrra mannvirkja í dreifbýli taki mið af byggingarhefðum, landslagi og staðháttum. Um leið verði gætt að hagkvæmni varðandi sam­göngur og veitur og að byggð gangi ekki að óþörfu á svæði sem eru verðmæt til landbúnaðar eða vegna náttúruverndar. Við skipulag frístundabyggðar verði almennt miðað að afmörkuðum en samfelldum frístundabyggðarsvæðum sem gefi notendum þeirra kost á góðum tækifærum til útiveru um leið og gætt er að því að frístundabyggðin skerði ekki mikilvæg eða viðkvæm svæði með tilliti til landbúnaðar eða náttúruverndar. Flokkun landbúnaðarlands, landslagsgreining og vistgerðaflokkun verði lögð til grundvallar skipulagsákvörðunum.

2.2.2 Náttúra, menningararfur og heilnæmt um­hverfi.
    Við skipulagsgerð sveitarfélaga verði leitast við að varðveita náttúru- og menningargæði sem hafa staðbundið, eða víðtækara, gildi út frá sögu, náttúrufari eða menningu. Það getur m.a. falist í stefnu um vistheimt og verndun og eflingu gróðurs og jarðvegs. Jafnframt verði gætt að álagi á vatn og vatnsvernd. Landslagsgreining og vistgerðaflokkun ásamt áætlunum um uppgræðslu lands og vatnaáætlun verði lagðar til grundvallar skipulagsákvörðunum.

2.3 Sjálfbær nýting landbúnaðarlands.
    Skipulag landnotkunar stuðli að möguleikum á fjölbreyttri og hagkvæmri nýtingu landbúnaðarlands í sátt við um­hverfið.

Skipulagsgerð sveitarfélaga:
2.3.1 Skipulag landbúnaðarlands.
    Í aðalskipulagi byggist skipulagsákvarðanir um ráðstöfun lands í dreifbýli til landbúnaðar og annarrar nýtingar á flokkun landbúnaðarlands. Landi sem hentar vel til ræktunar verði almennt ekki ráðstafað til annarra nota með óafturkræfum hætti. Val á svæðum til skógræktar og stefna um þau taki mið af því að skógrækt falli vel að landi og að eftir því sem við á séu samþætt sjónarmið skógræktar, annars landbúnaðar og útivistar. Flokkun landbúnaðarlands, landslagsgreining og vistgerðaflokkun verði lögð til grundvallar skipulagsákvörðunum um landbúnaðarland.

Önnur verkefni stjórnvalda:
2.3.2 Flokkun landbúnaðarlands.
    Um­hverfis- og auðlindaráðuneytið, í samstarfi við Skipulagsstofnun, Samband íslenskra ­sveitarfélaga, Landgræðslu ríkisins, Skógrækt ríkisins og Bændasamtök Íslands, standi fyrir gerð leiðbeininga um flokkun landbúnaðarlands til nota við skipulagsgerð og aðra stefnumótun um landnýtingu.

2.4 Ferðaþjónusta í sátt við náttúru og um­hverfi.
    Skipulag landnotkunar stuðli að eflingu ferðaþjónustu í dreifbýli um leið og gætt verði að því að varðveita þau gæði sem eru undirstaða ferðaþjónustu.

Skipulagsgerð sveitarfélaga:
2.4.1 Ferðaþjónusta á grunni sérstöðu og um­hverfisgæða.
    Við skipulagsgerð sveitarfélaga verði leitast við að greina sérstöðu, styrkleika og staðaranda viðkomandi svæðis með tilliti til tækifæra í ferðaþjónustu. Skipulagsákvarðanir um ferðaþjónustu taki mið af náttúruverndarsjónarmiðum og kortlagningu á auðlindum ferðaþjónustunnar og miði jafnframt að því að ferðaþjónustuuppbygging nýtist jafnt íbúum á svæðinu og ferðamönnum.

2.5 Orkumannvirki og örugg afhending raforku í sátt við náttúru og um­hverfi.
    Skipulag gefi kost á að nýta orkulindir í dreifbýli með sjálfbærni og um­hverfisvernd að leiðarljósi. Jafnframt gefi skipulag kost á uppbyggingu flutningsmannvirkja raforku sem tryggi örugga afhendingu raforku. Mannvirki vegna orkuvinnslu og orkuflutnings falli sem best að landslagi og annarri landnotkun.

Skipulagsgerð sveitarfélaga:
2.5.1 Orkunýting og raforkuflutningur í skipulagsáætlunum.
    Við skipulagsgerð sveitarfélaga verði tekin afstaða til möguleika á orkuframleiðslu með ­vatnsafli, jarðvarma og vindorku í sátt við náttúru og samfélag. Skipulagsákvarðanir um raforkuflutningsmannvirki geri kleift að tryggja örugga afhendingu raforku, um leið og tekið er tillit til áhrifa á náttúru og landslag. Við skipulagsákvarðanir um nýja orkuvinnslukosti og lagningu raflína verði lagt mat á um­hverfisáhrif, þar á meðal sjónræn áhrif, og leitast við að velja þann kost sem valdi minnstum neikvæðum um­hverfisáhrifum.

Önnur verkefni stjórnvalda:
2.5.2 Skipulag vindorkunýtingar.
    Skipulagsstofnun í samstarfi við hlutaðeigandi stofnanir standi fyrir fræðslu og miðlun upplýsinga um skipulagsmál og um­hverfismat vindorkunýtingar.

2.6 Sjálfbærar sam­göngur.
    Skipulag landnotkunar feli í sér samþætta stefnu um byggðaþróun í þéttbýli og dreifbýli með áherslu á greiðar, öruggar og vistvænar sam­göngur og fjölbreyttan ferðamáta.

Skipulagsgerð sveitarfélaga:
2.6.1 Sam­göngur innan vinnusóknarsvæða.
    Skipulagsgerð sveitarfélaga stuðli að greiðum sam­göngum innan skilgreindra vinnusóknar- og þjónustusvæða meginkjarna, með styrkingu byggðar að leiðarljósi.

2.6.2 Ferðamannaleiðir.
    Sveitarfélög nýti skipulagsgerð til þess að skilgreina meginleiðir ferðamanna, gangandi, ríðandi og hjólandi.

2.6.3 Skipulag annarra vega en þjóðvega í náttúru Íslands.
    Sveitarfélög geri grein fyrir og marki stefnu um aðra vegi en þjóðvegi í aðalskipulagi í samræmi við lög um náttúruvernd.

Önnur verkefni stjórnvalda:
2.6.4 Skrá yfir aðra vegi en þjóðvegi í náttúru Íslands.

    Á hverjum tíma skal Vegagerðin veita aðgang að skrá í stafrænum kortagrunni um vegi aðra en þjóðvegi í náttúru Íslands. Í samræmi við lög um náttúruvernd skal hún byggð á tillögum sveitarfélaga og samráð haft við einstakar stofnanir eða samþykkis þeirra aflað þegar um er að ræða friðlýst svæði og þjóðgarða.

2.7 Trygg fjarskipti í sátt við um­hverfið.
    Skipulag gefi kost á uppbyggingu fjarskiptamannvirkja til að tryggja örugg fjarskipti, um leið og gætt verði að áhrifum á náttúru og landslag.

Skipulagsgerð sveitarfélaga:
2.7.1 Fjarskipti í skipulagsáætlunum.
    Skipulagsákvarðanir um fjarskiptamannvirki geri kleift að byggja upp traust fjarskiptakerfi en taki jafnframt tillit til áhrifa á náttúru og landslag.

2.8 Skipulag með tilliti til náttúruvár og loftslagsbreytinga.
    Skipulag landnotkunar stuðli að öryggi almennings gagnvart náttúruvá og loftslagsbreytingum.

Skipulagsgerð sveitarfélaga:
2.8.1 Skipulagsgerð sveitarfélaga með tilliti til náttúruvár og loftslagsbreytinga.

    Við skipulagsgerð sveitarfélaga verði tekið tillit til þeirrar hættu sem stafar af náttúruvá, svo sem snjóflóðum, skriðuföllum, vatnsflóðum, eldgosum, jökulhlaupum og jarðskjálftum. Sérstaklega verði hugað að hættu sem fylgir gróðureldum og hugað að flóttaleiðum og brunavörnum í frístundabyggð og á skógræktarsvæðum. Einnig verði, eftir því sem við á, tekið tillit til loftslagsbreytinga, svo sem þar sem þær leiða til breytinga á rennsli eða farvegum jökuláa, flóðahættu eða sandfoks.

3. BÚSETUMYNSTUR OG DREIFING BYGGÐAR

    Þróun þéttbýlis og fyrirkomulag byggðar stuðli að sjálfbærni með áherslu á gæði í hinu byggða um­hverfi og markvissu og samþættu skipulagi byggðar og samgangna.

3.1 Heildstætt búsetumynstur og jafnvægi í byggðaþróun.
    Skipulag byggðar og þróun þéttbýlis stuðli að samkeppnishæfni og þoli samfélags í einstökum landshlutum og á landinu í heild.

Skipulagsgerð sveitarfélaga og sóknaráætlanir landshluta:
3.1.1 Skilgreining meginkjarna.
    Við skipulagsgerð sveitarfélaga og gerð sóknaráætlana landshluta verði skilgreindir meginkjarnar í hverjum landshluta og vinnusóknar- og þjónustusvæði þeirra. Uppbyggingu, þar á meðal samgangna, verði hagað þannig að hún sé til þess fallin að styrkja kjarnana sem sjálfbæra burðarása viðkomandi nærsamfélags.

Önnur verkefni stjórnvalda:
3.1.2 Greining vinnusóknar- og þjónustusvæða.
    Skipulagsstofnun, í samstarfi við Byggðastofnun, innanríkisráðuneytið, Vegagerðina, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök sveitarfélaga á höfuð­borgar­svæðinu, vinni að samræmdri greiningu á vinnusóknar- og þjónustusvæðum stærstu þéttbýlisstaða og kortlagningu virkra borgarsvæða.

3.2 Sjálfbært skipulag þéttbýlis.
    Skipulag byggðar stuðli að sjálfbærri þróun þéttbýlisstaða með þéttri, samfelldri byggð, endurskipulagningu vannýttra svæða og eflingu nærsamfélags. Uppbygging íbúðar- og atvinnuhúsnæðis verði í samræmi við þarfir samfélagsins á hverjum tíma og til framtíðar.

Skipulagsgerð sveitarfélaga:
3.2.1 Vöxtur þéttbýlisstaða.
    Sveitarfélög skilgreini í aðalskipulagi vaxtarmörk þéttbýlisstaða með það fyrir augum að efla viðkomandi þéttbýlisstað og standa vörð um verðmæt náttúrusvæði og landbúnaðarland. Skýr skil verði milli þéttbýlis og dreifbýlis. Almennt verði haft að leiðarljósi að þétta byggð og blanda atvinnustarfsemi, verslun og þjónustu, og tengja við íbúðarbyggð í þágu sjálfbærni daglegs lífs og aukinna lífsgæða.

3.2.2 Hagkvæm uppbygging.
    Í skipulagsáætlunum sveitarfélaga verði mörkuð stefna um uppbyggingu íbúðar- og atvinnuhúsnæðis sem taki mið af fyrirsjáanlegum þörfum samfélagsins og lýðfræðilegum breytingum til framtíðar. Stuðlað verði að fjölbreyttum húsnæðiskostum, svo sem hvað varðar húsagerðir og stærðir. Tryggt verði fjölbreytt og sveigjanlegt húsnæði sem stuðli að félagslegri fjölbreytni og í því samhengi verði hugað sérstaklega að framboði á húsnæði fyrir alla tekjuhópa.

Önnur verkefni stjórnvalda:
3.2.3 Upplýsingar um húsnæðismál.
    Þjóðskrá Íslands, í samstarfi við Skipulagsstofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök sveitarfélaga á höfuð­borgar­svæðinu, vinni að úrbótum í skráningu, miðlun og greiningu upplýsinga um húsnæðismál með tilliti til skipulagsákvarðana.

3.3 Gæði hins byggða um­hverfis.
    Skipulag byggðar og bæjahönnun stuðli að gæðum í hinu byggða um­hverfi og að yfirbragð og mælikvarði nýrrar byggðar falli að bæjarmynd viðkomandi staðar og sögulegri byggð. Jafnframt verði stuðlað að heilnæmu um­hverfi sem veiti góð skilyrði til búsetu og möguleika til fjölbreyttrar útiveru.

Skipulagsgerð sveitarfélaga:
3.3.1 Gæði byggðar og bæjarrýma.
    Við skipulagsgerð sveitarfélaga verði sérstaklega hugað að gæðum hins byggða um­hverfis og sett fram stefna og ákvæði um mælikvarða byggðar, byggðamynstur og samspil byggðar, bæjarrýma og ferðamáta. Einnig verði sérstaklega hugað að almenningsrýmum og útivistarsvæðum með það að markmiði að hvetja til útiveru og hreyfingar, matjurtaræktunar og náttúruupplifunar og varðveita verðmæt náttúrusvæði. Jafnframt verði tekið tillit til sögulegs samhengis í þróun byggðar og menningararfurinn nýttur til að styrkja sérkenni og staðaranda.

3.3.2 Heilnæmt um­hverfi.
    Við skipulagsgerð sveitarfélaga verði stuðlað að heilnæmi um­hverfis með viðeigandi ráðstöfunum varðandi vatnsvernd, vatn­sveitu, fráveitu, úrgangsmeðhöndlun, hljóðvist og loftgæði. Sérstaklega verði hugað að um­hverfisvænum lausnum þar sem það á við, svo sem varðandi möguleika til flokkunar og endurvinnslu, sjálfbærar ofan­vatnslausnir og aukna nýtni við auðlindanotkun.

3.4 Samkeppnishæf samfélög og atvinnulíf.
    Skipulag byggðar og landnotkunar stuðli að samkeppnishæfni og eflingu samfélags og atvinnulífs.

Skipulagsgerð sveitarfélaga:
3.4.1 Öflugir innviðir.
    Skipulagsgerð sveitarfélaga stuðli að uppbyggingu atvinnulífs til framtíðar, með áherslu á gæði í hinu byggða um­hverfi og öflugum innviðum. Sérstaklega verði hugað að fjölbreytni atvinnulífs með tilliti til þols gagnvart samfélags- og um­hverfisbreytingum. Skipulagsákvarðanir um raforkuflutningsmannvirki geri kleift að tryggja örugga afhendingu raforku, um leið og tekið er tillit til áhrifa á landslag og aðra landnotkun.

3.5 Sjálfbærar sam­göngur.
    Skipulag byggðar og landnotkunar feli í sér samþætta stefnu um byggð og sam­göngur með áherslu á greiðar, öruggar og vistvænar sam­göngur og fjölbreytta ferðamáta.

Skipulagsgerð sveitarfélaga:
3.5.1 Sam­göngur innan vinnusóknarsvæða.
    Skipulagsgerð sveitarfélaga stuðli að greiðum sam­göngum innan skilgreindra vinnusóknar- og þjónustusvæða, með styrkingu byggðar að leiðarljósi. Við skipulag byggðar og samgangna verði miðað við að sem flestir íbúar komist til næsta meginkjarna á innan við einni klukkustund. Skipulag feli einnig í sér stefnu um almennings­sam­göngur. Jafnframt verði mótuð stefna um tengingar milli helstu meginkjarna í samræmi við sam­gönguáætlun.

3.5.2 Sam­göngur í þéttbýli.
    Sveitarfélög marki í skipulagi samþætta stefnu um byggð og sam­göngur. Áhersla verði lögð á göngu- og hjólavænt um­hverfi og að tvinna saman almennings­sam­göngur og byggðaskipulag. Gatnaskipulag og gatnahönnun miði að því að skapa bæjarrými og umferðarrými fyrir akandi, hjólandi og gangandi vegfarendur.

Önnur verkefni stjórnvalda:
3.5.3 Úrlausn ágreiningsmála um innviði.
    Í þeim tilvikum þegar staðfestingu aðalskipulags hefur verið frestað vegna ágreinings um uppbyggingu og legu sam­göngu- eða veitumannvirkja getur um­hverfis- og auðlindaráðherra að beiðni viðkomandi sveitarfélags og í samvinnu við hlutaðeigandi ráðherra haft for­göngu um að settur verði á laggirnar samráðshópur til að leita sátta um lausn.

3.5.4 Sjálfbærar sam­göngur í sam­gönguáætlun.
    Við mótun sam­gönguáætlunar verði tekið mið af áherslum landsskipulagsstefnu varðandi sjálfbærar sam­göngur í þéttbýli.

3.6 Trygg fjarskipti í sátt við um­hverfið.
    Skipulag gefi kost á uppbyggingu fjarskiptamannvirkja til að tryggja örugg fjarskipti, um leið og gætt verði að um­hverfisáhrifum.

Skipulagsgerð sveitarfélaga:
3.6.1 Fjarskipti í skipulagsáætlunum.
    Skipulagsákvarðanir um fjarskiptamannvirki geri kleift að byggja upp traust fjarskiptakerfi, en taki jafnframt tillit til um­hverfisáhrifa.

Önnur verkefni stjórnvalda:
3.6.2 Mælikvarðar fyrir fjarskipti.
    Póst- og fjarskiptastofnun hafi for­göngu um gerð mælikvarða á sviði fjarskiptamála fyrir skipulagsgerð.

3.7 Náttúruvá og loftslagsbreytingar.
    Við skipulag byggðar verði tekið tillit til náttúruvár og loftslagsbreytinga.

Skipulagsgerð sveitarfélaga:
3.7.1 Skipulag með tilliti til náttúruvár og um­hverfisbreytinga.
    Við skipulagsgerð sveitarfélaga verði hugað að því hvernig megi með skipulagsaðgerðum draga úr losun gróðurhúsaloftteg­unda. Jafnframt verði tekið tillit til áhrifa loftslagsbreytinga, svo sem vegna hækkunar sjávarborðs, og náttúruvár, svo sem snjóflóða, skriðufalla, vatnsflóða, eldgosa, jökulhlaupa og jarðskjálfta, með það að markmiði að varna slysum á fólki og tjóni á mannvirkjum. Upplýsingar Veðurstofu Íslands um náttúruvá og loftslagsbreytingar verði lagðar til grundvallar skipulagsákvörðunum.

4. SKIPULAG Á HAF- OG STRANDSVÆÐUM

    Skipulag haf- og strandsvæða veiti grundvöll fyrir fjölbreyttri nýtingu á haf- og strandsvæðum um leið og viðhaldið verði mikilvægum auðlindum hafsvæða við Ísland.

4.1 Sjálfbær nýting auðlinda.
    Skipulag nýtingar á haf- og strandsvæðum grundvallist á heildarsýn á málefni hafsins þar sem viðhaldið verði heilbrigði, líffræðilegri fjölbreytni og framleiðslugetu hafsins. Skipulagsákvarðanir um staðbundna nýtingu á haf- og strandsvæðum byggist á vistkerfisnálgun og stuðli þannig að viðhaldi vistkerfa og sjálfbærri nýtingu auðlinda.

4.1.1 Öflun upplýsinga um vernd og nýtingu.
    Skipulagsstofnun vinni að landfræðilegum gagnagrunni/vefgátt í samráði við hlutaðeigandi stofnanir sem hafi að geyma upplýsingar um siglingaleiðir, verndarsvæði og starfsemi á haf- og strandsvæðum.

4.1.2 Stefnumótun.
    Þegar löggjöf um skipulagsmál haf- og strandsvæða hefur tekið gildi verði mörkuð nánari stefna um skipulagsmál haf- og strandsvæða í samræmi við þá umgjörð og fyrirmæli sem þar verða sett.

4.2 Skýr og skilvirk stjórnsýsla skipulagsmála.
    Stjórnsýsla skipulagsmála á haf- og strandsvæðum verði skýr og samræmd. Aðkoma ólíkra stjórnvalda og hagsmunaaðila að skipulagsvinnunni verði tryggð og leitast við að koma í veg fyrir árekstra ólíkrar nýtingar og verndarsjónarmiða.

4.2.1 Stjórnsýsla.
    Með nýrri löggjöf um skipulagsmál á haf- og strandsvæðum verði ákveðið hvernig stjórnsýslu skipulagsmála á haf- og strandsvæðum skuli háttað.

4.2.2 Kynning fyrir nágrannaríkjum.
    Tryggt verði að áform á íslenska hafsvæðinu sem líkleg eru til að hafa um­hverfisáhrif út fyrir efnahagslögsögu Íslands fái viðeigandi kynningu fyrir viðkomandi nágrannaríki samkvæmt lögum um um­hverfismat áætlana og mat á um­hverfisáhrifum framkvæmda.

4.2.3 Skilgreining á strandlínu.
    Landmælingar Íslands, í samráði við hlutaðeigandi stofnanir, vinni að því að skilgreina strandlínu, eða núll-hæðarlínu, við þéttbýli og önnur byggð svæði þar sem hætta stafar af sjávarflóðum og vegna breytinga á sjávarborði í kjölfar loftslagsbreytinga.

4.2.4 Endurskoðun landnotkunarflokka á hafnar- og iðnaðarsvæðum.
    Skipulagsstofnun í samráði við Hafnasamband Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga vinni að endurskoðun á skilgreiningu landnotkunarflokka í skipulagsreglugerð vegna hafnar- og iðnaðarsvæða utan þéttbýlis þannig að ákvæði taki betur mið af eðli og umfangi starfsemi á slíkum svæðum.

4.3 Svæðisbundin skipulagsgerð.
    Komið verði á fót svæðisbundinni skipulagsgerð fyrir haf- og strandsvæði næst landi sem veiti grundvöll fyrir nýtingu haf- og strandsvæða, taki mið af mismunandi hagsmunum og samþættingu nýtingar og verndar við ströndina, þar sem gæta þarf samræmis milli skipulags á landi og hafi.

4.3.1 Svæðisbundin skipulagsgerð.
    Þegar umgjörð svæðisbundinnar skipulagsgerðar hefur verið ákveðin í lögum verði þegar hafist handa við skipulagsvinnu á þeim svæðum þar sem hún er mest aðkallandi vegna samræmingar staðbundinnar nýtingar mismunandi atvinnustarfsemi og frístundaiðju, sam­gönguleiða og verndarsjónarmiða. Slík svæðisbundin skipulagsgerð greini núverandi nýtingu og fyrirliggjandi ákvarðanir um nýtingu og setji fram stefnu um sjálfbæra nýtingu og staðbundin skipulagsákvæði, eftir því sem við á, um framtíðarnýtingu og verndun. Þannig verði tekið saman landfræðilegt yfirlit og mörkuð stefna um svæðisnýtingu til sjávareldis, orkuvinnslu, frístunda og ferðaþjónustu, efnistöku, samgangna og veitna og vernd náttúru og menningarminja.

Samþykkt á Alþingi 16. mars 2016.