Ferill 327. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1166  —  327. mál.
Nr. 26/145.


Þingsályktun

um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að fylgja eftirfarandi stefnu um þjóðaröryggi sem tryggi sjálfstæði, fullveldi og friðhelgi landamæra Íslands, öryggi borgaranna og vernd stjórnkerfis og grunnvirkja samfélagsins.
    Stefnan byggist á tillögum þingmannanefndar um mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sem Alþingi fól utanríkisráðherra að setja á fót með þingsályktun nr. 45/139 frá 16. september 2011.
    Stefna stjórnvalda um þjóðaröryggi byggist á þeim skuldbindingum sem felast í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og hafi grunngildi þjóðarinnar að leiðarljósi, lýðræði og virðingu fyrir réttarríkinu og alþjóðalögum, mannúð og verndun mannréttinda, jafnrétti allra og sjálfbæra þróun, afvopnun og friðsamlega lausn deilumála. Grundvallarforsenda stefnunnar sé staða Íslands sem fámennrar eyþjóðar sem hvorki hefur burði né vilja til að ráða yfir her og tryggir öryggi sitt og varnir með virkri samvinnu við önnur ríki og innan alþjóðastofnana.
    Stefnan taki til hnattrænna, samfélagslegra og hernaðarlegra áhættuþátta og felist í virkri utanríkisstefnu, almannaöryggi og varnarsamstarfi við önnur ríki.
    Þjóðaröryggisstefnan feli í sér eftirfarandi áherslur sem hafi jafnt vægi:
     1.      Að tryggja víðtæka öryggishagsmuni Íslands með virku alþjóðasamstarfi á grundvelli alþjóðalaga og með friðsamlega lausn deilumála, afvopnun, virðingu fyrir mannréttindum og réttarríkinu, jafnrétti kynjanna og baráttu gegn ójöfnuði, hungri og fátækt að leiðarljósi.
     2.      Að horft verði sérstaklega til um­hverfis- og öryggishagsmuna Íslands á norðurslóðum í alþjóðasamvinnu og innlendum viðbúnaði.
     3.      Að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu verði áfram lykilstoð í vörnum Íslands og meginvettvangur vestrænnar samvinnu sem Ísland tekur þátt í á borgaralegum forsendum til að efla eigið öryggi og annarra bandalagsríkja.
     4.      Að varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna frá 1951 tryggi áfram varnir Íslands og áfram verði unnið að þróun samstarfsins á grundvelli samningsins þar sem tekið verði mið af hernaðarlegum ógnum, sem og öðrum áhættuþáttum þar sem gagnkvæmir varnar- og öryggishagsmunir eru ríkir.
     5.      Að efla og þróa enn frekar norræna samvinnu um öryggis- og varnarmál og annað grannríkjasamstarf sem lýtur að svæðisbundnum hagsmunum og þátttöku í alþjóðasamstarfi á því sviði.
     6.      Að tryggja að í landinu séu til staðar varnarmannvirki, búnaður, geta og sérfræðiþekking til að mæta þeim áskorunum sem Ísland stendur frammi fyrir í öryggis- og varnarmálum og til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar Íslands.
     7.      Að stefna stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum, sem mótuð er af almannavarna- og öryggismálaráði, sé hluti af þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland og þar verði tekið mið af ógnum sem tengjast loftslagsbreytingum, náttúruhamförum, fæðu- og matvælaöryggi, heilbrigðisöryggi og farsóttum.
     8.      Að stuðla að auknu netöryggi með áfram­haldandi uppbyggingu á eigin getu og í samstarfi við önnur ríki.
     9.      Að stefna stjórnvalda taki mið af öðrum ógnum sem þarfnast fullrar athygli, svo sem hryðjuverkum, skipulagðri glæpastarfsemi og ógnum við fjármála- og efnahagsöryggi.
     10.      Að Ísland og íslensk landhelgi sé friðlýst fyrir kjarnavopnum, að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga, í því augnamiði að stuðla að afvopnun og friði af Íslands hálfu.
     11.      Að sett verði á laggirnar með sérstökum lögum þjóðaröryggisráð sem meti ástand og horfur í öryggis- og varnarmálum með reglulegum hætti, hafi eftirlit með framfylgd þjóðaröryggisstefnunnar, endurspegli þá breiðu sýn á þjóðaröryggi sem birtist í stefnunni og standi fyrir endurskoðun hennar eigi sjaldnar en á fimm ára fresti.

Samþykkt á Alþingi 13. apríl 2016.