Ferill 788. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1425  —  788. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu viðbótarsamnings við Norður- Atlantshafssamninginn um aðild Svartfjallalands (Montenegró).

Frá meiri hluta utanríkismálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jörund Valtýsson og Axel Nikulásson frá utanríkisráðuneyti.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á viðbótarsamningi við Norður-Atlantshafssamninginn frá 4. apríl 1949 um aðild lýðveldisins Svartfjallalands sem gerður var í Brussel 19. maí 2016.
    Samkvæmt ákvæðum samningsins öðlast hann gildi þegar allir aðilar Norður-Atlantshafssamningsins hafa tilkynnt ríkisstjórn Bandaríkjanna, vörsluaðila samningsins, um staðfestingu sína á honum. Í kjölfarið mun framkvæmdastjóri NATO bjóða ríkisstjórn hins nýja aðildarríkis að gerast aðili að Norður-Atlantshafssamningnum.
    Svartfjallaland lýsti yfir sjálfstæði 3. júní 2006 og varð Ísland fyrst til að viðurkenna hið nýja sjálfstæða ríki. Samstarf Svartfjallalands við NATO hófst sama ár og frá árinu 2009 hefur Svartfjallaland tekið þátt í svokallaðri aðgerðaáætlun Atlantshafsbandalagsins sem miðar að því að aðstoða umsóknarríki við undirbúning aðildar, en umsóknarríki þurfa að uppfylla ýmis pólitísk, efnahagsleg og hernaðarleg skilyrði áður en af henni getur orðið.
    Í desember 2015 samþykktu utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins að bjóða Svartfjallalandi inngöngu í bandalagið, enda hefði Svartfjallaland uppfyllt skilyrði aðgerðaáætlunarinnar. Samningur um aðild var undirritaður 19. maí sl. Ríkið mun sjálft greiða kostnað við aðlögun eigin varna að samræmdu varnarkerfi bandalagsins og er ekki gert ráð fyrir að núverandi aðildarríki þurfi að bera á nokkurn hátt viðbótarkostnað af inngöngu Svartfjallalands.
    Við þetta fjölgar aðildarríkjum bandalagsins úr 28 í 29 og hefur Atlantshafsbandalagið ávallt lagt áherslu á að stækkun þess leiði til aukins stöðugleika og öryggis í Evrópu og ýti enn frekar undir þá lýðræðisþróun sem orðið hefur í nýju aðildarríkjunum.
    Meiri hlutinn leggur til að málið verði samþykkt.
    Silja Dögg Gunnarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 1. júní 2016.

Hanna Birna Kristjánsdóttir,
form., frsm.
Karl Garðarsson. Vilhjálmur Bjarnason.
Frosti Sigurjónsson. Elín Hirst. Óttarr Proppé.
Silja Dögg Gunnarsdóttir. Össur Skarphéðinsson.