Ferill 131. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1487  —  131. mál.
Nr. 46/145.


Þingsályktun

um stofnun loftslagsráðs.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að setja á fót loftslagsráð sem hafi það meginhlutverk að gera ráðstafanir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Ráðið hafi m.a. eftirtalin verkefni:
     a.      að fylgjast með þróun loftslagsmála og beina að eigin frumkvæði tilmælum og ráðleggingum um markmið og leiðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til stjórnvalda og annarra aðila, svo sem opinberra stofnana, eftir því sem tilefni þykir til,
     b.      að fylgjast með eftirfylgni við löggjöf um losun gróðurhúsalofttegunda,
     c.      að veita ráðgjöf um rannsóknarþörf og viðbrögð á þeim sviðum sem mestu varða fyrir það verkefni að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, þar á meðal um mannvirkjagerð, skipulag byggðar, samgöngur, atvinnuhætti og ástand og þróun lífríkis,
     d.      að mynda og rækja alþjóðatengsl til framdráttar viðfangsefnum ráðsins,
     e.      að miðla fræðslu og veita einstaklingum, fyrirtækjum, stofnunum og sveitarfélögum aðstoð við að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og veita ráðgjöf um viðbrögð við áhrifum loftslagsbreytinga,
     f.      að birta árlega á opinberum vettvangi greinargerð um störf ráðsins, upplýsingar um magn, uppruna og þróun útblásturs gróðurhúsalofttegunda og stuðla að vitund almennings um loftslagsmál með fræðslu og miðlun.
    Í loftslagsráði eigi sæti, samkvæmt tilnefningu, fulltrúi Umhverfisstofnunar, Veðurstofu Íslands, líf- og umhverfisvísindadeildar Háskóla Íslands, Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, umhverfisdeildar Landbúnaðarháskóla Íslands, Náttúruverndarsamtaka Íslands, Landverndar, Skipulagsstofnunar, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Hagstofu Íslands. Umhverfis- og auðlindaráðherra skipi formann ráðsins og veiti því nauðsynlega starfsaðstöðu. Kostnaður við störf ráðsins greiðist úr ríkissjóði.
    Á fimmta starfsári loftslagsráðs skipi umhverfis- og auðlindaráðherra nefnd sem leggi mat á skipan þess og starfshætti og geri, eftir atvikum, tillögur um breytingar.

Samþykkt á Alþingi 2. júní 2016.