Ferill 265. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 367  —  265. mál.
Stjórnartillaga.Tillaga til þingsályktunar


um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 46/2016 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn.


Frá utanríkisráðherra.    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 46/2016, frá 18. mars 2016, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn eftirtaldar gerðir:
     1.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/30/ESB frá 26. febrúar 2014 um samhæfingu laga aðildarríkjanna varðandi rafsegulsviðssamhæfi.
     2.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/34/ESB frá 26. febrúar 2014 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi búnað og verndarkerfi sem eru ætluð til notkunar í hugsanlega sprengifimu lofti.
     3.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/35/ESB frá 26. febrúar 2014 um samræmingu laga aðildarríkjanna um að bjóða rafföng fram á markaði sem notuð eru innan ákveðinna spennumarka.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 46/2016 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn frá 2. maí 1992 (sbr. fskj. I) og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/30/ESB frá 26. febrúar 2014 um samhæfingu laga aðildarríkjanna varðandi rafsegulsviðssamhæfi (sbr. fskj. II), tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/34/ESB frá 26. febrúar 2014 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi búnað og verndarkerfi sem eru ætluð til notkunar í hugsanlega sprengifimu lofti (sbr. fskj. III) og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/35/ESB frá 26. febrúar 2014 um samræmingu laga aðildarríkjanna um að bjóða rafföng fram á markaði sem notuð eru innan ákveðinna spennumarka (sbr. fskj. IV).
    Þar sem lagastoð var ekki fyrir hendi fyrir umræddar tilskipanir var ákvörðun nr. 46/2016 tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni gerðanna sem hér um ræðir. Hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið gerður þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþings fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/30/ESB frá 26. febrúar 2014 um samhæfingu laga aðildarríkjanna varðandi rafsegulsviðssamhæfi, tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/34/ESB frá 26. febrúar 2014 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi búnað og verndarkerfi sem eru ætluð til notkunar í hugsanlega sprengifimu lofti og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/35/ESB frá 26. febrúar 2014 um samræmingu laga aðildarríkjanna um að bjóða rafföng fram á markaði sem notuð eru innan ákveðinna spennumarka.
    Tilskipanirnar þrjár eru tæknilegs eðlis og er þeim ætlað að samræma skilyrði varðandi þann búnað sem um ræðir hverju sinni.
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/34/ESB gildir eins og heiti hennar gefur til kynna um búnað og verndarkerfi sem eru ætluð til notkunar í hugsanlega sprengifimu lofti. Í henni eru skilgreindar þær grunnkröfur sem uppfylla skal eftir því hversu mikil sprengihættan er. Beita skal skilgreindu samræmismati til að tryggja samræmi við grunnkröfur, festa CE-merki á vöruna og sérstakt merki sem gefur til kynna "sprengivörn" því til staðfestingar, auk þess að gefa út skriflega samræmisyfirlýsingu. Tilskipunin kemur í stað eldri tilskipunar, 94/9/EB. Helstu breytingar lúta að skipulagi markaðseftirlits, samræmingu viðbragða gagnvart búnaði sem ekki uppfyllir kröfur, skilgreiningu á hlutverki aðila í aðfangakeðjunni og aðkomu tollyfirvalda að eftirliti. Þá eru ákvæði er varða tilkynnta aðila mun ítarlegri í nýju tilskipuninni. Grunnkröfur breytast ekki.
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/35/ESB fjallar um öryggi raffanga sem notuð eru innan ákveðinna spennumarka, þ.e. 50–1000V AC og 75–1500V DC. Tilgangur hennar er að tryggja að rafföng á markaði uppfylli kröfur sem ætlað er að vernda heilbrigði og öryggi manna, húsdýra og eigna, auk þess sem henni er ætlað að tryggja starfsemi innri markaðarins. Samkvæmt tilskipuninni skulu rafföng sem undir hana falla uppfylla grunnkröfur sem þar eru skilgreindar. Beita skal skilgreindu samræmismati til að tryggja samræmi við grunnkröfur og festa CE-merki á öll eintök viðkomandi raffangs því til staðfestingar, auk þess að gefa út skriflega samræmisyfirlýsingu.
    Tilskipun 2014/30/ESB gildir um búnað, þ.e. tæki (rafföng) og fastan búnað, sem valdið getur rafsegultruflunum eða orðið fyrir áhrifum af slíkum truflunum. Tilgangur hennar er að tryggja starfsemi innri markaðarins með því að kveða á um fullnægjandi rafsegulsamhæfi, sem er skilgreint sem geta búnaðar til að starfa eðlilega í rafsegulumhverfi sínu án þess að valda óviðunandi rafsegultruflunum á öðrum búnaði í því umhverfi. Í tilskipuninni eru skilgreindar þær grunnkröfur sem búnaður skal uppfylla hvað varðar rafsegulsamhæfi. Beita skal skilgreindu samræmismati til að tryggja samræmi tækja við grunnkröfur og festa CE-merki á öll eintök þeirra því til staðfestingar, auk þess að gefa út skriflega samræmisyfirlýsingu.
    Tilskipanir 2014/35/ESB og 2014/30/ESB fela báðar í sér endurskoðun á eldri tilskipunum sem innleiddar voru í íslenska löggjöf með reglugerðum sem settar voru með stoð í lögum nr. 146/1996, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga. Tilskipanirnar eiga það sameiginlegt að með þeim verður innleitt skipulagt markaðseftirlit með þeim vörum sem falla undir gildissvið þeirra. Viðbrögð vegna raffanga eða búnaðar sem ekki uppfyllir kröfur eru samræmd og hlutverk aðila í aðfangakeðjunni og aðkoma tollyfirvalda að eftirliti er skilgreind. Með tilskipununum eru ekki gerðar breytingar á grunnkröfum né fela þær í sér umfangsmiklar breytingar á fyrirkomulagi markaðseftirlits frá því sem verið hefur hér á landi.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Innleiðing tilskipana 2014/30/ESB og 2014/35/ESB kallar á breytingar á lögum um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, nr. 146/1996. Þá kallar innleiðing tilskipunar 2014/34/ESB á breytingar á lögum um brunavarnir, nr. 75/2000.
    Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur nú þegar lagt fram frumvörp sem fela í sér innleiðingu framangreindra tilskipana. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 146/1996, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga var lagt fram á 145. löggjafarþingi og varð að lögum nr. 66/2016. Þá var frumvarp til laga um breytingu á lögum um brunavarnir, nr. 75/2000, einnig lagt fram á 145. löggjafarþingi og varð að lögum nr. 65/2016.Fylgiskjal I.


Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 46/2016 frá 18. mars 2016 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn.

www.althingi.is/altext/pdf/146/fylgiskjol/s0367-f_I.pdf
Fylgiskjal II.


Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/30/ESB frá 26. febrúar 2014 um samhæfingu laga aðildarríkjanna varðandi rafsegulsviðssamhæfi (endurútgefin).

www.althingi.is/altext/pdf/146/fylgiskjol/s0367-f_II.pdf
Fylgiskjal III.


Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/34/ESB frá 26. febrúar 2014 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi búnað og verndarkerfi sem eru ætluð til notkunar í hugsanlega sprengifimu lofti (endurútgefin).

www.althingi.is/altext/pdf/146/fylgiskjol/s0367-f_III.pdf
Fylgiskjal IV.


Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/35/ESB frá 26. febrúar 2014 um samræmingu laga aðildarríkjanna um að bjóða rafföng fram á markaði sem notuð eru innan ákveðinna spennumarka (endurútgefin).

www.althingi.is/altext/pdf/146/fylgiskjol/s0367-f_IV.pdf