Ferill 434. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Nr. 16/146.

Þingskjal 1000  —  434. mál.


Þingsályktun

um stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017–2021.


    Alþingi ályktar að samþykkja eftirfarandi stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017–2021 og að gert verði ráð fyrir framkvæmd hennar við gerð fjárlaga.

I. Meginmarkmið og forsendur í málefnum fatlaðs fólks 2017–2021.
    Íslenskt samfélag byggist á því að virðing sé borin fyrir fötluðu fólki sem hluta af mannlegum margbreytileika.
    Full mannréttindi fatlaðs fólks verði efld, varin og tryggð til jafns við aðra og skilyrði sköpuð til að fatlað fólk geti lifað sjálfstæðu lífi á eigin forsendum. Allt fatlað fólk njóti grundvallarfrelsis og virðing verði borin fyrir mannlegri reisn þess, sjálfræði og sjálfstæði. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði innleiddur í alla lagaumgjörð og framkvæmd. Þannig megi tryggja að fatlað fólk, börn jafnt sem fullorðnir, geti lifað sjálfstæðu lífi með reisn.
    Lögð verði áhersla á mannréttindi og bann við mismunun á grundvelli fötlunar þannig að tryggt verði að fatlað fólk njóti mannréttinda og mannfrelsis til jafns við aðra og því tryggður stuðningur til að njóta þeirra réttinda.
    Fatlað fólk njóti góðs af öllum almennum aðgerðum stjórnvalda, svo sem á sviði húsnæðis-, mennta-, trygginga- og atvinnumála.

Undirmarkmið:
     1.      Að fatlað fólk hafi aðgengi að samfélaginu til jafns við aðra.
     2.      Að auka atvinnuþátttöku fatlaðs fólks.
     3.      Að efla almennt heilbrigði fatlaðs fólks.
     4.      Að stuðla að jákvæðu viðhorfi til málefna fatlaðs fólks.
     5.      Að fatlað fólk hafi sömu tækifæri til menntunar og aðrir.
     6.      Að fatlað fólk njóti mannréttinda til jafns við aðra, þ.m.t. réttarins til sjálfstæðs lífs.
     7.      Að þjónusta við fatlað fólk, börn og fullorðna, stuðli að sjálfstæði og þátttöku til jafns við aðra.

II. Framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks 2017–2021.
    Í framkvæmdaáætlun sem miðar að því að ná fram markmiðum stefnu í málefnum fatlaðs fólks verði áhersla lögð á ákveðin grunngildi, svo sem eitt samfélag fyrir alla, jöfn tækifæri og lífskjör, algilda hönnun sem gagnast öllum og því að fatlað fólk skuli vera við stjórnvölinn í eigin lífi. Skilyrði verði sköpuð fötluðu fólki til að lifa sjálfstæðu lífi með aðgengi til jafns við aðra, hvort sem um ræðir aðgengi að manngerðu umhverfi, samgöngum, þjónustu, upplýsingum eða möguleikum til tjáskipta, sem auðveldar samfélagsþátttöku og virkni í daglegu lífi.

A. Aðgengi.
     Undirmarkmið 1: Að fatlað fólk hafi aðgengi að samfélaginu til jafns við aðra.
     Mælikvarði: Hlutfall fatlaðs fólks sem telur að aðgengi að manngerðu umhverfi sé gott.

A.1. Algild hönnun verði leiðarljós við alla skipulagningu manngerðs umhverfis.
     Markmið: Að auka þekkingu á samfélagslegu gildi algildrar hönnunar.
     Lýsing: Unnið verði fræðsluefni um samfélagslegt gildi algildrar hönnunar. M.a. verði byggt á lögum og stefnu stjórnvalda um fjölbreytta íbúabyggð þar sem fólki er gert kleift að búa á eigin heimili. Fræðsluefni, fræðslan sjálf og framkvæmd hennar verði samstarfsverkefni faghópa á vegum velferðar- og skipulagsyfirvalda. Fræðslan nái til ábyrgðaraðila á sviði skipulags- og byggingarmála hjá ríki og sveitarfélögum, stjórnmálamanna á sveitarstjórnarstigi, alþingismanna sem og ráðuneyta og stofnana ríkis og sveitarfélaga.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
     Dæmi um samstarfsaðila: Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga og samtök fatlaðs fólks.
     Tímabil: 2017–2018.
     Kostnaður: 2 millj. kr. vegna fræðsluefnis.
     Mælanlegt markmið: Fjöldi kynninga og umfang fræðsluefnis.

A.2. Algild hönnun verði innleidd við breytingar á þegar byggðu húsnæði.
     Markmið: Að bæta aðgengi að húsnæði, einkum í þegar byggðum hverfum.
     Lýsing: Gefnar verði út leiðbeiningar um heimild til þess að víkja frá ákvæðum byggingarreglugerðar um algilda hönnun í þegar byggðu húsnæði. Jafnframt fari fram miðlæg skráning á þessum undanþágum, bæði varðandi breytingar á húsnæði sem og breytta notkun þess.
     Ábyrgð: Umhverfis- og auðlindaráðuneytið.
     Dæmi um samstarfsaðila: Velferðarráðuneytið, Mannvirkjastofnun, byggingarfulltrúar sveitarfélaga og Samband íslenskra sveitarfélaga.
     Tímabil: Frá og með 2017 (viðvarandi).
     Kostnaður: Kostnaðarmat hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.
     Mælanlegt markmið: Tímamörk þegar leiðbeiningar hafa verið gefnar út og miðlæg skráning hafin, eigi síðar en 1. janúar 2018.

A.3. Áætlanir um úrbætur á aðgengi og aðgengisfulltrúar.
     Markmið: Að aðgengi í víðum skilningi hindri ekki samfélagsþátttöku fatlaðs fólks.
     Lýsing: Hvatt verði til þess að opinberir aðilar skipi aðgengisfulltrúa. Hlutverk þeirra verði að sjá til þess að gerðar séu úttektir á aðgengi, þ.e. á þjónustu og starfsemi viðkomandi aðila í víðum skilningi. Leiði úttekt í ljós að úrbóta sé þörf hlutist aðgengisfulltrúi til um að gerðar séu tímasettar áætlanir um úrbætur.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneytið, en færist yfir til miðstöðvar innan stjórnsýslunnar skv. 1. mgr. 33. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
     Dæmi um samstarfsaðila: Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, sveitarfélög og Samband íslenskra sveitarfélaga.
     Tímabil: 2017–2021.
     Kostnaður: Kostnaður metinn hjá innanríkisráðuneytinu.
     Mælanlegt markmið: Hlutfallslegur fjöldi aðgengisfulltrúa hjá sveitarfélögum og ríkisstofnunum ásamt fjölda aðgerðaáætlana.

A.4. Aðgengilegar upplýsingar um réttindi, þjónustu og annað efni.
     Markmið: Að fatlað fólk geti nálgast upplýsingar um rétt sinn og þjónustu.
     Lýsing: Vefsíður, fræðsluefni og upplýsingar, svo sem um réttindi og þjónustu, séu aðgengilegar fötluðu fólki á auðskildu máli og byggist á aðferðafræði algildrar hönnunar. Táknmálstúlkun verði aðgengileg sem og punktaletur, textun og upplýsingar, bæði ritaðar og rafrænar, á auðskildu máli. Á vefjum sveitarfélaga verði upplýsingar um umferli og hjólastólaaðgengi. Opinberir aðilar geri tímasettar áætlanir um úrbætur á aðgengi á framangreindum sviðum sem séu endurmetnar annað hvert ár.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
     Dæmi um samstarfsaðila: Innanríkisráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið, skipulagsyfirvöld, embætti landlæknis, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Samband íslenskra sveitarfélaga, sveitarfélög og samtök fatlaðs fólks.
     Tímabil: Viðvarandi.
     Kostnaður: 3 millj. kr. á ári.
     Mælanlegt markmið: Hlutfall fatlaðs fólks sem telur sig geta nálgast upplýsingar um réttindi og þjónustu.

A.5. Starfsstöð fyrir auðlesinn texta.
     Markmið: Að auka framboð auðlesins texta, m.a. fyrir fólk með þroskahömlun og aðra sem geta nýtt sér hann.
     Lýsing: Í því skyni að greiða fyrir aðgengi fólks með þroskahömlun að upplýsingum og þar með tækifærum til virkrar þátttöku í samfélaginu til jafns við aðra verði komið á laggirnar starfsstöð þar sem veitt verði ráðgjöf, upplýsingar og kennsla varðandi auðlesinn texta. Þar verði m.a. orðabanki sem verði aðgengilegur á netinu til notkunar fyrir alla. Starfsstöðin gegni sambærilegu hlutverki gagnvart fólki sem þarf auðlesinn texta til að afla sér upplýsinga og Samskiptamiðstöð heyrnarlausa og heyrnarskertra hefur gagnvart döff-fólki og Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga hefur gagnvart fólki með sjónskerðingar.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
     Dæmi um samstarfsaðila: Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Háskóli Íslands, menntavísindasvið, Átak, félag fólks með þroskahömlun, Landssamtökin Þroskahjálp og Öryrkjabandalag Íslands.
     Tímabil: 2018 og svo viðvarandi.
     Kostnaður: 3 millj. kr.
     Mælanlegt markmið: Starfsstöð fyrir auðlesinn texta hefji starfsemi.

A.6. Auknir möguleikar fatlaðs fólks til að nýta almenningssamgöngur.
     Markmið: Að leið fatlaðs fólks verði greiðari á milli staða dagsdaglega.
     Lýsing: Aðgengi að biðskýlum og almenningsvögnum verði bætt. Á biðstöðvum sjáist skýrt hvenær næsta vagns er von. Í vögnum verði afmörkuð svæði fyrir hjólastóla. Fatlað fólk sem metið er í þörf fyrir akstursþjónustu fái kort sem gildir í almenningsvagna samhliða akstursþjónustunni. Ungir notendur akstursþjónustu njóti sömu afsláttarkjara og jafnaldrar þeirra. Áætlunarleiðir milli landshluta verði aðgengilegar fötluðu fólki með sama hætti og almenningssamgöngur innan sveitarfélaga.
     Ábyrgð: Sveitarfélög og landshlutasamtök þeirra.
     Dæmi um samstarfsaðila: Velferðarráðuneytið og Strætó bs.
     Tímabil: 2017–2021.
     Kostnaður: Kostnaðarmat hjá sveitarfélögum.
     Mælanlegt markmið: Hlutfall almenningsvagna með hjólastólaaðgengi.

A.7. Tölulegar upplýsingar um aðgengiskröfur.
     Markmið: Að alltaf sé hugað að aðgengi fyrir alla við skipulagningu nýs húsnæðis og íbúðabyggða.
     Lýsing: Unnin verði skýrsla með upplýsingum um áhrif aðgengiskrafna við skipulagningu íbúðahverfa þar sem áhersla er lögð á þéttingu byggðar. Teknar verði út aðgengiskröfur bæði í skipulagsskilmálum og lágmarkskröfum samkvæmt byggingarreglugerð. Skýrslan verði liður í framkvæmd landsskipulagsstefnu og sérstaklega tengd starfi aðgerðahóps sem gera á tillögur um samræmdar aðgerðir á sviði húsnæðismála til að greiða fyrir byggingu lítilla og hagkvæmra íbúða.
     Ábyrgð: Umhverfis- og auðlindaráðuneytið.
     Dæmi um samstarfsaðila: Mannvirkjastofnun, Skipulagsstofnun, Þjóðskrá Íslands, Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Samband íslenskra sveitarfélaga.
     Tímabil: 2017.
     Kostnaður: Innan ramma.
     Mælanlegt markmið: Tímamörk þegar skýrsla hefur verið lögð fram, eigi síðar en 1. janúar 2018.

B. Atvinna.
     Undirmarkmið 2: Að auka atvinnuþátttöku fatlaðs fólks.
     Mælikvarði: Að fjölga atvinnutækifærum fatlaðs fólks.

B.1. Ráðgjöf og fræðsla til atvinnurekenda um starfsfólk með fötlun.
     Markmið: Að fjölga atvinnutækifærum fatlaðs fólks.
     Lýsing: Gerð verði rannsókn til að kanna hvernig almennur vinnumarkaður og opinberar stofnanir mæta ólíkum þörfum fatlaðs starfsfólks og hvaða hindranir standi í vegi fyrir atvinnuþátttöku þess. Í framhaldinu verði leitað eftir samstarfi við fyrirtæki og samtök aðila vinnumarkaðarins um ráðgjöf og fræðslu til atvinnurekenda þar sem markmiðið verði að hvetja til fjölgunar atvinnutækifæra fatlaðs fólks og aukinnar þekkingar á aðstæðum og þörfum þess. Fyrirtæki sem ráðið hafa fatlað fólk til starfa geti fengið jafningjaráðgjöf frá teymi sem hafi það hlutverk að leiðbeina fyrirtækjum og vinnuveitendum í málefnum fatlaðra starfsmanna. Atvinnurekendur verði hvattir til að setja sér skýra stefnu í starfsmannamálum þar sem gert sé ráð fyrir fjölbreytileika í starfsmannahópnum sem búi við ólíkar aðstæður og þarfir.
     Ábyrgð: Vinnumálastofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Velferðarráðuneytið, samtök aðila vinnumarkaðarins, Festa, miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja, sveitarfélög, sérhæfðar þjónustustofnanir í málefnum fatlaðs fólks og samtök fatlaðs fólks.
     Tímabil: 2017–2021.
     Kostnaður: 5 millj. kr. vegna rannsóknar og 2 millj. kr. vegna fræðsluefnis.
     Mælanlegt markmið: Hlutfall fatlaðs fólks sem er skráð hjá Vinnumálastofnun og fær störf á vinnumarkaði.

B.2. Byggð verði brú milli framhaldsskóla/háskóla og atvinnulífs.
     Markmið: Að efla starfs- og námsráðgjöf við fötluð ungmenni að loknu námi og fjölga atvinnutækifærum þeirra.
     Lýsing: Að auka samfellu milli starfsbrauta framhaldsskóla, diplómanáms og atvinnulífs og bæta upplýsingagjöf til fatlaðra nemenda og aðstandenda þeirra varðandi náms- og atvinnumöguleika að loknu námi á framhaldsskólastigi. Við námslok geti fötluð ungmenni sótt um þjónustu hjá Vinnumálastofnun á grundvelli laga um vinnumarkaðsaðgerðir. Náms- og starfsráðgjafi boði viðkomandi til samráðsfundar innan tveggja vikna frá umsókn þar sem farið verði yfir þau störf sem eru í boði og eftir atvikum þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum. Hafið verði samstarf við fyrirtæki og stofnanir um fjölgun starfa fyrir fötluð ungmenni innan verkefnisins. Ráðning verði með stuðningi þar sem veitt verði ráðgjöf og stuðningur við ráðningu fatlaðs fólks, m.a. með því að þjálfa starfsfólk vinnustaðarins til að veita stuðning á vinnustaðnum. Stuðst verði við finnska og norska fyrirmynd og byggt á gagnreyndum aðferðum, svo sem Atvinnu með stuðningi og Virkjum hæfileikana – alla hæfileikana.
     Ábyrgð: Vinnumálastofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Velferðarráðuneytið, Samtök atvinnulífsins, fjármála- og efnahagsráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga auk einstakra sveitarfélaga og samtaka fatlaðs fólks.
     Tímabil: 2017–2021.
     Kostnaður: Innan ramma.
     Mælanlegt markmið: Til verði 20 ný störf á ári yfir tímabilið.

B.3. Betri atvinnumöguleikar fatlaðs fólks.
     Markmið: Að fatlað fólk eigi greiðari leið á vinnumarkað með auknum einstaklingsmiðuðum úrræðum á borð við Atvinnu með stuðningi (AMS).
     Lýsing: Starfsráðgjöf og vinnumiðlun fyrir fatlað fólk verði efld með mati á vinnufærni sem Vinnumálastofnun framkvæmir. Áætlun verði gerð um atvinnuleit og þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsúrræðum til samræmis við einstaklingsbundnar þarfir á grundvelli matsins. Unnið verði markvisst að aukinni kynningu á AMS hjá fyrirtækjum og stofnunum til að fjölga störfum innan verkefnisins. Fagleg vinnubrögð innan AMS verði samræmd, þar á meðal ráðgjöf og stuðningur við ráðningu. Fræðsluefni verði aukið og eftirfylgni með árangri. Þá verði stuðningur efldur við fatlað fólk í hæfingu og verndaðri vinnu með það að leiðarljósi að auka flæði milli úrræða. Samstarf sveitarfélaga og Vinnumálastofnunar miði sérstaklega að því að meta vinnufærni fólks (út frá starfsgetu) í þeim tilgangi að það geti tekið virkan þátt á innlendum vinnumarkaði, eftir atvikum með þjónustu verkefnisins AMS.
     Ábyrgð: Vinnumálastofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Velferðarráðuneytið, þjónustusvæði/sveitarfélög, samtök fatlaðs fólks og samtök aðila vinnumarkaðarins.
     Tímabil: 2017–2021.
     Kostnaður: 2 millj. kr. vegna fræðsluefnis.
     Mælanlegt markmið: Fjöldi fatlaðra einstaklinga sem tekur þátt í verkefninu Atvinna með stuðningi og fjöldi þeirra sem færast á milli úrræða á grundvelli mats.

B.4. Aðgangur fatlaðs fólks að hjálpartækjum og tæknibúnaði til að stunda vinnu.
     Markmið: Að auðvelda atvinnuþátttöku fatlaðs fólks.
     Lýsing: Skipaður verði starfshópur sem vinni að því að undirbúa reglugerð með tillögum að samræmdum viðmiðum um úthlutanir hjálpartækja og tæknibúnaðar til fatlaðra einstaklinga á vinnumarkaði. Greint verði hvaða aðgerða sé þörf til að heimila Sjúkratryggingum Íslands að úthluta hjálpartækjum og tæknibúnaði til samræmis við viðmiðin.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
     Dæmi um samstarfsaðila: Sjúkratryggingar Íslands, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, sveitarfélög, Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, Heyrnar- og talmeinastöð Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins og samtök fatlaðs fólks.
     Tímabil: 2018.
     Kostnaður: Innan ramma.
     Mælanlegt markmið: Viðmið um úthlutun hjálpartækja vegna atvinnu fatlaðs fólks liggi fyrir.

C. Heilsa.
     Undirmarkmið 3: Að efla almennt heilbrigði fatlaðs fólks.
     Mælikvarði: Hlutfall fatlaðs fólks sem metur líkamlega heilsu sína almennt góða.

C.1. Aukin hvatning til hreyfingar og holls mataræðis.
     Markmið: Að efla heilbrigði fatlaðs fólks.
     Lýsing: Fræðsluefni verði útbúið á myndrænu formi og fræðsla aukin til fatlaðs fólks um mikilvægi hreyfingar, mataræðis og heilbrigðisþjónustu. Kynningarefni verði á vefsíðum, í bæklingum, smáforritum, á kynningarfundum og ráðstefnum. Jafningjafræðsla verði alltaf nýtt þar sem við á. Við mótun allrar almennrar stefnu á sviði heilsu sé tekið mið af þörfum fatlaðs fólks sem og við gerð samstarfssamninga embættis landlæknis og sveitarfélaga á sviði lýðheilsu. Einnig er mikilvægt að það starf sem þegar er unnið, t.d. í íþróttafélögum fatlaðra, sé eflt en ekki síður að unnið sé markvisst að því að fatlað fólk hafi aðgengi að öllu almennu íþróttastarfi.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
     Dæmi um samstarfsaðila: Embætti landlæknis, íþróttafélög, líkamsræktarstöðvar, sveitarfélög, heilsugæslan og samtök fatlaðs fólks.
     Tímabil: 2017–2021.
     Kostnaður: 2 millj. kr. á ári á árunum 2019 og 2020.
     Mælanlegt markmið: Fræðsluefni tilbúið.

C.2. Innleiðing áætlunar sem unnin var á grundvelli aðgerðar í framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks 2012–2014 um að efla heilsugæslu til að mæta þörfum fatlaðs fólks.
     Markmið: Að bæta aðgang fatlaðs fólks að heilsugæsluþjónustu með jafnræði að leiðarljósi.
     Lýsing: Heilsugæslustöðvar bæti og auki þjónustu við fatlað fólk, einkum fólk með þroskahamlanir og geðræna sjúkdóma. Áhersluþættir séu að allt fatlað fólk hafi sinn heimilislækni, njóti samfellu í þjónustu og því séu boðnar reglubundnar heilbrigðisskoðanir og aðrar fyrirbyggjandi aðgerðir, svo sem skimanir og ónæmisaðgerðir. Málstjóri annist samhæfingu og eftirfylgni.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
     Dæmi um samstarfsaðila: Heilsugæslan, embætti landlæknis, sveitarfélög og samtök fatlaðs fólks.
     Tímabil: 2017–2021.
     Kostnaður: Innan ramma.
     Mælanlegt markmið: Mat fari fram í lok verkefnis út frá skilgreindum gæðaviðmiðum.

C.3. Fjölgun geðheilsuteyma.
     Markmið: Að bæta geðheilsu fatlaðs fólks.
     Lýsing: Þverfaglegum geðheilsuteymum félags- og heilbrigðisþjónustu, sem koma að greiningu og meðferð geðfatlaðra, verði komið á í öllum landshlutum og fjölgað á höfuðborgarsvæðinu, sbr. aðgerð A.2 í stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára. Teymin vinni á grundvelli þarfagreiningar og eftir hugmyndafræði valdeflingar með þarfir geðfatlaðra í huga. Ráðgjöf geðsviðs Landspítala við þennan hóp fyrir allt landið verði efld. Þekking fagstétta á þörfum þessa hóps verði efld og meðferðarúrræði þróuð.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
     Dæmi um samstarfsaðila: Heilsugæslan, Landspítali, Sjúkrahúsið á Akureyri, félagsþjónusta og samtök fatlaðs fólks.
     Tímabil: 2017–2020.
     Kostnaður: Sjá kostnaðarmat í tillögu til þingsályktunar um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum, sbr. þskj. 405 á 145. löggjafarþingi.
     Mælanlegt markmið: Geðheilsuteymi hafi tekið til starfa í öllum landshlutum árið 2020.

C.4. Geðsvið sjúkrahúsa veiti sérhæfða geðheilbrigðisþjónustu fyrir fatlaða einstaklinga með flókna og samsetta greiningu.
     Markmið: Að fatlað fólk hafi aðgang að sérhæfðri geðheilbrigðisþjónustu.
     Lýsing: Stofnaður verði starfshópur til að skoða hvernig eigi að byggja upp sérhæfða þekkingu innan geðsviðs Landspítalans og geðdeildar Sjúkrahússins á Akureyri til að unnt verði að veita einstaklingum með þroskahömlun og/eða einhverfu geðheilbrigðisþjónustu. Eitt af verkefnum hópsins verði að skoða og leggja mat á þörf fyrir sérhæfðar deildir sem geti sinnt einstaklingum með þroskahömlun og geðræna erfiðleika, einhverfum einstaklingum með þroskahömlun og einstaklingum með framheilaskaða. Tillögur innihaldi kostnaðarmat við að hrinda verkefninu í framkvæmd.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
     Dæmi um samstarfsaðila: Landspítalinn, Sjúkrahúsið á Akureyri, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, sveitarfélög, heilsugæslan og samtök fatlaðs fólks.
     Tímabil: 2017–2018.
     Kostnaður: Tillögugerð innan ramma.
     Mælanlegt markmið: Tillögur liggi fyrir.

C.5. Komið verði á sérhæfðu meðferðarúrræði fyrir fatlað fólk með fíknivanda.
     Markmið: Að fatlað fólk með fíknivanda eigi völ á sérhæfðum meðferðarúrræðum.
     Lýsing: Starfshópur skilgreini þörf á forvarnar- og meðferðartilboðum fyrir fólk með ólíkar þarfir, svo sem fólk með geðfötlun og/eða þroskahömlun. Hópurinn komi með tillögur um forvarnar- og meðferðartilboð fyrir fatlað fólk með fíknivanda og hvernig bæta megi aðgengi fyrir skyn- og hreyfihamlaða að meðferðarstofnunum. Tillögur innihaldi einnig áætlun um fræðslu fyrir meðferðaraðila til að geta mætt þörfum þessa hóps sem og kostnaðarmat við að hrinda verkefninu í framkvæmd.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
     Dæmi um samstarfsaðila: SÁÁ, Rótin, geðdeild Landspítala, aðrir meðferðaraðilar, Reykjavíkurborg, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og samtök fatlaðs fólks.
     Tímabil: 2018.
     Kostnaður: Tillögugerð innan ramma.
     Mælanlegt markmið: Tillögur liggi fyrir.

D. Ímynd og fræðsla.
     Undirmarkmið 4: Að stuðla að jákvæðu viðhorfi til málefna fatlaðs fólks.
     Mælikvarði: Hlutfall þeirra sem þekkja til samnings Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks.

D.1. Vakin verði athygli á fjölbreyttu lífi fatlaðs fólks.
     Markmið: Að auka skilning og þekkingu á lífi og aðstæðum fatlaðs fólks.
     Lýsing: Gerð verði þáttaröð til sýningar fyrir almenning um líf fatlaðra einstaklinga með fjölbreyttan bakgrunn og lífsstíl. Einnig verði fram haldið sýningum þáttanna Með okkar augum.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneytið/réttindavakt ráðuneytisins.
     Dæmi um samstarfsaðila: Kvikmyndasjóður Íslands, RÚV, aðrar sjónvarpsstöðvar og samtök fatlaðs fólks, mennta- og menningarmálaráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.
     Tímabil: 2017–2020.
     Kostnaður: Þáttaröð, 5 millj. kr. á ári árin 2019 og 2020. Sótt verði um mótframlög. Með okkar augum, 2 millj. kr. á ári yfir tímabilið.
     Mælanlegt markmið: Þættir sýndir.

D.2. Fræðsla um hugmyndafræði í málefnum fatlaðs fólks fyrir kjörna fulltrúa sveitarfélaga.
     Markmið: Að auka skilning og þekkingu stjórnmálamanna á málefnum fatlaðs fólks.
     Lýsing: Sveitarstjórnarmenn fái árlega kynningu um málefni fatlaðs fólks. Sérstök áhersla verði lögð á hugmyndafræði samfélags án aðgreiningar þar sem áhersla verði lögð á valdeflingu og notendasamráð. M.a. verði horft til þátttöku fatlaðs fólks og samtaka þeirra við skipulagningu og veitingu þjónustunnar og einstaklingsbundinna þjónustuáætlana í samráði við notandann.
     Ábyrgð: Samband íslenskra sveitarfélaga.
     Dæmi um samstarfsaðila: Velferðarráðuneytið/réttindavakt ráðuneytisins og samtök fatlaðs fólks.
     Tímabil: 2017–2021.
     Kostnaður: Innan ramma.
     Mælanlegt markmið: Fræðsla hafi farið fram.

D.3. Fræðsluefni og kynningaráætlanir fyrir heilbrigðisstarfsfólk.
     Markmið: Að auka þekkingu heilbrigðisstarfsfólks á fötlun.
     Lýsing: Fyrirliggjandi fræðsluefni sem unnið var samkvæmt aðgerð E.3 í framkvæmdaáætlun 2012–2014 verði lagað að þörfum starfsfólks heilbrigðisþjónustu. Niðurstöður könnunar um heilbrigði fatlaðs fólks, sem unnin var í samræmi við framkvæmdaáætlun 2012– 2014, verði höfð til hliðsjónar við aðlögunina. Áhersla verði lögð á ólíka fötlun og viðhorf gagnvart fötluðu fólki, samskiptaleiðir og nálgun varðandi þjónustu við fatlað fólk og heilsutengdar þarfir. Starfshópur skipaður fulltrúum faghópa og fulltrúum fatlaðs fólks komi að samningu efnisins. Fræðsluefni verði aðgengilegt á netinu.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
     Dæmi um samstarfsaðila: Embætti landlæknis, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og samtök fatlaðs fólks.
     Tímabil: 2017.
     Kostnaður: 2 millj. kr.
     Mælanlegt markmið: Fræðsluefni liggi fyrir.

D.4. Aukin þekking lögreglu, ákæruvalds og dómskerfis við rannsókn og meðferð ofbeldisbrota.
     Markmið: Að fatlað fólk njóti verndar réttarkerfisins til jafns við aðra.
     Lýsing: Tryggt verði að réttarkerfið, þ.e. lögregla, ákæruvald og dómsvald, taki nauðsynlegt tillit til þarfa og aðstæðna fatlaðs fólks hvort sem það hefur stöðu brotaþola, gerenda í brotamálum eða vitna. Sérstaklega verði skoðuð staða fatlaðs fólks sem meintra gerenda, ekki síst með tilliti til ákvarðana um gæsluvarðhald og fangelsisrefsingar. Einnig verði horft til verndar fatlaðra kvenna og barna gegn ofbeldi, svo sem kynferðislegs ofbeldis, þar sem rannsóknir sýna að fatlaðar konur og fötluð börn verða enn frekar fyrir ofbeldi en kynsystur/jafnaldrar. Á grundvelli niðurstaðna verði útbúið fræðsluefni fyrir starfsfólk.
     Ábyrgð: Innanríkisráðuneytið.
     Dæmi um samstarfsaðila: Velferðarráðuneytið/réttindavakt ráðuneytisins, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, lögreglan, saksóknarar, dómstólar og samtök fatlaðs fólks.
     Tímabil: 2017–2021.
     Kostnaður: Metinn í samráði aðila.
     Mælanlegt markmið: Fjöldi lögregluumdæma sem hefur við rannsókn mála tekið mið af og tileinkað sér aðferðafræði sem byggist á verklagi lögreglunnar á Selfossi.

D.5. Aukin þekking og skilningur heilbrigðisstarfsfólks á þörfum fatlaðs fólks.
     Markmið: Að áhersla sé lögð á málefni fatlaðs fólks í námi heilbrigðisstétta.
     Lýsing: Skoðað verði hvernig bæta megi menntun heilbrigðisstétta með það að markmiði að auka færni og skilning þeirra. Komið verði á samtali milli menntastofnana, mennta- og menningarmálaráðuneytisins og velferðarráðuneytisins til að vekja nemendur til meðvitundar og auka fræðslu um málefni fatlaðs fólks. Tekið verði mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og hann látinn endurspeglast í allri kennslu er varðar málaflokkinn.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
     Dæmi um samstarfsaðila: Mennta- og menningarmálaráðuneytið, menntastofnanir sem sjá um kennslu á heilbrigðisvísindasviði, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og samtök fatlaðs fólks.
     Tímabil: 2017–2020.
     Kostnaður: Innan ramma.
     Mælanlegt markmið: Námsefni verði skoðað með tilliti til umfjöllunar um fötlun.

D.6. Kynning á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
     Markmið: Að vekja almenning til meðvitundar um mannréttindi.
     Lýsing: Framhald verði á verkefni þar sem fatlað fólk kynnir samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í samstarfi við Fjölmennt. Framvinda verkefnisins er háð innleiðingu samningsins og verður endurmetin í lok árs 2018. Kostnaðar- og kynningaráætlun verði lögð fram árlega. Samhliða svokölluðu sendiherraverkefni verði undirbúið efni til kynningar á samningnum í opinberum fjölmiðlum.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
     Dæmi um samstarfsaðila: Innanríkisráðuneytið, Fjölmennt og samtök fatlaðs fólks.
     Tímabil: 2018–2019.
     Kostnaður: 3 millj. kr. á ári í tvö ár, samtals 6 millj. kr.
     Mælanlegt markmið: Fjöldi kynninga á tímabilinu 2018–2019.

E. Menntun.
     Undirmarkmið 5: Að fatlað fólk hafi sömu tækifæri til menntunar og aðrir.
     Mælikvarði: Hlutfall fatlaðs fólks sem lýkur námi á framhaldsskólastigi hækki.

E.1. Aukin samþætting og betri undirbúningur við flutning milli skólastiga.
     Markmið: Að bæta möguleika til náms.
     Lýsing: Þegar fatlaður nemandi flyst milli skólastiga verði gerð áætlun í samstarfi við nýja skólann. Félagsþjónusta, skólaskrifstofur og menntastofnanir vinni með samhæfðum hætti að því að tryggja að þegar nemandinn hefur nám í nýjum skóla hafi farið fram nægur undirbúningur þannig að allar aðstæður séu til fyrirmyndar. Áætlunin taki m.a. til hjálpartækja, sértækra úrræða í námi, námsefnis og persónulegrar aðstoðar á skólatíma. Áætlun sé unnin í samráði við nemanda þegar við á og sé valdeflandi. Þegar sótt er um framhaldsskóla eða háskóla skal málstjóri boða til fundar með nemanda og náms- og starfsráðgjafa þar sem námið er undirbúið.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
     Dæmi um samstarfsaðila: Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, skólaþjónusta sveitarfélaga, leikskólar, grunnskólar, framhaldsskólar, háskólar og samtök fatlaðs fólks.
     Tímabil: Viðvarandi.
     Kostnaður: Innan ramma.
     Mælanlegt markmið: Verklagsreglur um áætlun við móttöku fatlaðra nemenda liggi fyrir innan skóla.

E.2. Aukin fjölbreytni í námsframboði á starfsbrautum framhaldsskólanna.
     Markmið: Að fatlað fólk eigi val um nám á framhaldsskólastigi.
     Lýsing: Á grundvelli niðurstöðu úttektar á innleiðingu hugmyndafræði skóla án aðgreiningar verði hlutaðeigandi aðilar kallaðir saman við gerð umbótaáætlunar um fyrirkomulag starfsbrauta. Áætlunin taki m.a. til námsframboðs, staðsetningar og fjármögnunar.
     Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneytið.
     Dæmi um samstarfsaðila: Framhaldsskólar, velferðarráðuneytið, Vinnumálastofnun og samtök fatlaðs fólks.
     Tímabil: 2017–2019.
     Kostnaður: Gerð áætlunar innan ramma.
     Mælanlegt markmið: Að tillögur hafi verið lagðar fram og fjármögnun liggi fyrir vegna tveggja verkefna fyrir lok tímabils.

E.3. Aukin fjölbreytni í diplómanámi á háskólastigi fyrir fatlað fólk.
     Markmið: Að fatlað fólk eigi val um nám á háskólastigi.
     Lýsing: Gerð verði áætlun um hvernig auka megi fjölbreytni diplómanáms á háskólastigi. Hugað verði að því að nám á háskólastigi sé í boði í fleiri en einum háskóla.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
     Dæmi um samstarfsaðila: Háskólar, mennta- og menningarmálaráðuneytið, velferðarráðuneytið, Vinnumálastofnun og samtök fatlaðs fólks.
     Tímabil: 2017–2018.
     Kostnaður: Gerð áætlunar innan ramma.
     Mælanlegt markmið: Fyrir liggi greinargerð um hvernig auka megi fjölbreytni í námi á háskólastigi.

E.4. Námsstyrkir fyrir fatlað fólk vegna endur- og símenntunar.
     Markmið: Að auka möguleika fatlaðs fólks til að stunda nám á fullorðinsaldri.
     Lýsing: Samstarfshópur vinni tillögur að fyrirkomulagi starfs- og endurmenntunarsjóðs sem gegni sama hlutverki og slíkir sjóðir hjá stéttarfélögum og lífeyrissjóðum. Hlutverk sjóðsins verði að veita styrki til fatlaðs fólks á vinnualdri sem ekki á slík réttindi annars staðar.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
     Dæmi um samstarfsaðila: Samtök atvinnulífsins, stéttarfélög og samtök fatlaðs fólks.
     Tímabil: Árslok 2018.
     Kostnaður: Tillögugerð innan ramma.
     Mælanlegt markmið: Að tillögur liggi fyrir.

F. Sjálfstætt líf.
     Undirmarkmið 6: Að fatlað fólk njóti mannréttinda til jafns við aðra, þ.m.t. réttarins til sjálfstæðs lífs.
     Mælikvarði: Hlutfall fatlaðs fólks sem telur að sú þjónusta sem það fær geri því kleift að lifa sjálfstæðu lífi.

F.1. Heildræn þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir þar sem málstjóri tryggi öryggi og samfellu.
     Markmið: Að málstjóri tryggi samfellda, samhæfða, örugga og sveigjanlega þjónustu með einstaklingsbundinni þjónustuáætlun.
     Lýsing: Allt fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir sem á rétt á þjónustu samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks fari í mat á stuðningsþörfum sem er hlutlægt og víðtækt einstaklingsbundið mat á þjónustuþörf. Félagsþjónustan geri einstaklingsbundna þjónustuáætlun í samráði við notanda þar sem stuðst verði við niðurstöður mats á stuðningsþörf ef þær liggja fyrir. Áætlunin nái til þjónustu félags-, heilbrigðis- og menntamála, sé heildstæð, einstaklingsmiðuð, sveigjanleg og taki til allra þátta daglegs lífs. Í samráði við notanda verði skipaður málstjóri sem samhæfi þjónustuna og sé tengiliður milli þjónustukerfa. Gerð verði úttekt á einstaklingsbundnum áætlunum á tímabilinu.
     Ábyrgð: Sveitarfélög.
     Dæmi um samstarfsaðila: Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, heilsugæslan, sjúkrahús, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga, velferðarráðuneytið, Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, Heyrnar- og talmeinastöð Íslands og samtök fatlaðs fólks.
     Tímabil: Viðvarandi.
     Kostnaður: 10 millj. kr. á ári í tvö ár. Kostnaður vegna aðgerðar F.2 er sameiginlegur.
     Mælanlegt markmið: Hlutfall fatlaðs fólks með miklar stuðningsþarfir með einstaklingsbundna þjónustuáætlun.

F.2. Heildræn þjónusta við fötluð börn með miklar stuðningsþarfir og fjölskyldur þeirra með aðstoð málstjóra.
     Markmið: Að fötluð börn með miklar stuðningsþarfir og fjölskyldur þeirra fái heildstæða þjónustu.
     Lýsing: Í samvinnu við barnið og fjölskyldu þess verði skipaður málstjóri sem samhæfi þjónustuna og sé tengiliður milli þjónustukerfa. Gerð verði áætlun sem grundvallist á mati á þjónustuþörf og taki til þess hvernig samþætta skuli félagsþjónustu, heilsugæslu, skóla- og frístundaþjónustu sem og aðra þjónustu með hliðsjón af aldri, fötlun og þörfum barnsins og fjölskyldunnar. Gæta þarf að því að ekki verði rof á þjónustu við 18 ára aldur.
     Ábyrgð: Sveitarfélög.
     Dæmi um samstarfsaðila: Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, heilsugæsla, sjúkrahús, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga, velferðarráðuneytið, Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, Heyrnar- og talmeinastöð Íslands og samtök fatlaðs fólks.
     Tímabil: Viðvarandi.
     Kostnaður: Vísað er til kostnaðar við aðgerð F.1.
     Mælanlegt markmið: Hlutfall fatlaðra barna með miklar stuðningsþarfir sem hafa málstjóra.

F.3. Fatlað fólk njóti sjálfstæðs lífs á orlofstímum.
     Markmið: Að fatlað fólk með mikla og sértæka stuðningsþörf eigi völ á orlofstilboðum til jafns við aðra.
     Lýsing: Möguleikar fatlaðs fólks, barna og fullorðinna, til orlofsdvalar verði auknir verulega í samstarfi þjónustuaðila við ríki og sveitarfélög. Sett verði viðmið sem kveði á um hvaða kröfur aðilar sem reka slík orlofsúrræði þurfa að uppfylla til að tryggja öryggi og vellíðan fólks. Kannaðar verði leiðir til þess að starfsfólk geti fylgt notendum og veitt þeim stuðning í orlofsferðum, sbr. tillögur starfshóps um framtíðarfyrirkomulag orlofsmála fatlaðs fólks frá því í desember 2016.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
     Dæmi um samstarfsaðila: Samtök fatlaðs fólks, þjónustusvæði og einstök sveitarfélög.
     Tímabil: 2017–2021.
     Kostnaður: Innan ramma.
     Mælanlegt markmið: Fjöldi orlofstilboða sem fötluðu fólki standa til boða sem uppfylla skilgreind viðmið um aðgengi og þjónustu.

F.4. Opinber húsnæðisstuðningur vegna breytinga á heimilum fatlaðs fólks.
     Markmið: Að styðja fólk fjárhagslega til að gera breytingar á heimili sínu sem eru nauðsynlegar vegna fötlunar.
     Lýsing: Starfshópur greini þörf og komi með tillögur um lán og/eða styrki sem fötluðu fólki standi til boða til að fjármagna breytingar á heimilum sínum. Styrkir verði veittir vegna nauðsynlegra umbóta þegar þörfin er veruleg vegna fötlunar. Fjölskyldur fatlaðra barna geti einnig sótt um slík lán eða styrki til að breyta heimilum sínum eftir þörfum fatlaðra barna.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
     Dæmi um samstarfsaðila: Íbúðalánasjóður, fjármála- og efnahagsráðuneytið, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Alþýðusamband Íslands, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga og sveitarfélög.
     Tímabil: Frá 2018 og viðvarandi.
     Kostnaður: Innan ramma.
     Mælanlegt markmið: Að styrkir eða lán standi til boða.

F.5. Húsnæðisþörfum fatlaðs fólks verði mætt með fjölbreyttum íbúðarkostum.
     Markmið: Að fötluðu fólki standi til boða öruggt íbúðarhúsnæði í samræmi við þarfir sínar.
     Lýsing: Öll tækifæri verði nýtt samhliða innleiðingu á nýrri framtíðarskipan húsnæðismála til þess að auka framboð á öruggu og viðeigandi húsnæði til leigu, eða eftir atvikum eignar, fyrir fatlað fólk. Samhliða verði unnið áfram að því að fatlað fólk, sem býr við óboðlegar húsnæðisaðstæður, fái tilboð um betra húsnæði. Enn fremur verði stuðlað að því að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu fatlaðs fólks.
    Sveitarfélög geri áætlanir til fjögurra ára um að vinna á biðlistum, m.a. með uppbyggingu sértækra húsnæðisúrræða þar sem þörf er á viðbótarrými vegna fötlunar. Herbergjasambýli verði lögð niður. Fram fari ítarleg þarfagreining sem lögð verði til grundvallar þessum áætlunum. Eftirfylgni með gerð og framkvæmd áætlananna fari fram á samhæfingarvettvangi þar sem haldið verði utan um niðurstöðu þarfagreiningar og aðra skráningu, svo sem vegna biðlista eftir húsnæði.
     Ábyrgð: Sveitarfélög/þjónustusvæði
     Dæmi um samstarfsaðila: Velferðarráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið, Íbúðalánasjóður og samtök fatlaðs fólks.
     Tímabil: 2017–2021.
     Kostnaður: Samkvæmt áætlunum sveitarfélaga til fimm ára.
     Mælanlegt markmið: Hlutfall fatlaðs fólks á biðlista eftir leiguhúsnæði í eigu sveitarfélagsins lækki.

F.6. Áhrif fjárveitingar til félags-, heilbrigðis- og menntamála hafa á líf fatlaðs fólks verði skoðuð.
     Markmið: Heildarmynd af samfélagslegum stuðningi við fatlað fólk sé ljós.
     Lýsing: Við fjárlagagerð verði skoðað hvernig fjárveitingar koma við fatlað fólk eins og gert er í kynjaðri fjárlagagerð með jafnrétti í huga. Áhrif útgjaldabreytinga á sviði velferðar, heilbrigðis og menntunar á stöðu og líf fatlaðs fólks verði skoðuð. Sérstaklega verði hugað að stöðu ungs fólks þegar það hefur sjálfstætt líf og áætlunum framfylgt um að útrýma herbergjasambýlum í áföngum. Skipaður verði stýrihópur með fulltrúum samstarfsaðila.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
     Dæmi um samstarfsaðila: Fjármála- og efnahagsráðuneytið, innanríkisráðuneytið, samtök fatlaðs fólks og sveitarfélög.
     Tími: 2017–2021.
     Kostnaður: Innan ramma.
     Mælanlegt markmið: Breyttu verklagi komið á.

F.7. Notendaráð starfi á öllum þjónustusvæðum.
     Markmið: Að auka áhrif fatlaðs fólks á skipulag og framkvæmd þjónustu og önnur hagsmunamál í sínu sveitarfélagi.
     Lýsing: Fötluðu fólki verði gert kleift að hafa aukin áhrif á skipulag og framkvæmd þjónustu sem og önnur hagsmunamál sín. Á hverju þjónustusvæði verði sett á laggirnar notendaráð skipað fötluðu fólki sem sé ráðgefandi fyrir þjónustusvæðið varðandi stefnumótun í málaflokknum. Þjónustusvæðið vinni alla stefnumótun í málefnum fatlaðs fólks með ráðinu og geti auk þess tekið upp mál að eigin frumkvæði. Boðið verði upp á stuðning og ráðgjöf til að mæta sértækum þörfum fatlaðra fulltrúa sem sitji í notendaráðunum, m.a. sé gætt að því að efni sé sett fram á auðskildu máli.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
     Dæmi um samstarfsaðila: Samband íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélög.
     Tímabil: Viðvarandi.
     Kostnaður: 5 millj. kr. á ári.
     Mælanlegt markmið: Hlutfall sveitarfélaga/þjónustusvæða með starfandi notendaráð.

G. Þróun þjónustu.
     Undirmarkmið 7: Að þjónusta við fatlað fólk, börn og fullorðna, stuðli að sjálfstæði og þátttöku þess til jafns við aðra.
     Mælikvarði: Hlutfall fatlaðra barna sem fær frístundaþjónustu sem er samþætt almennri frístundaþjónustu þegar skóli er starfandi og í skólafríum.

G.1. Breytt verklag vegna tilvísana frá skólaþjónustu til Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, barna- og unglingageðdeildar Landspítala (BUGL) og Þroska- og hegðunarstöðvar.
     Markmið: Að börn sem grunur leikur á að séu fötluð og fötluð börn fái í leik- og grunnskóla snemmtæka, markvissa og viðeigandi þjónustu.
     Lýsing: Vakni grunur um misbrest í hegðun, líðan eða þroska barns á leik- eða grunnskólaaldri verði send beiðni til skólaþjónustu sveitarfélags. Skólaþjónustan sinni viðeigandi stuðningi, inngripi eða úrræði með þverfaglegu samstarfi sérfræðinga, svo sem félagsráðgjafa, kennsluráðgjafa og sálfræðings. Brugðist verði við mismunandi þörfum barna áður og á meðan unnið er að frumgreiningu og í sumum tilfellum í stað þess að gera hana. Bendi frumgreining til þess að þörf sé á frekari greiningu skuli samhliða íhlutun senda tilvísun til Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, barna- og unglingageðdeildar Landspítala, BUGL, eða Þroska- og hegðunarstöðvar.
     Ábyrgð: Skólaþjónusta sveitarfélaga.
     Dæmi um samstarfsaðila: Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, heilsugæslan, grunn- og leikskólar, BUGL, Þroska- og hegðunarstöð og Jöfnunarsjóður sveitarfélaga.
     Tímabil: Viðvarandi.
     Kostnaður: Kostnaðarmat hjá sveitarfélögum.
     Mælanlegt markmið: Lækkað hlutfall erinda frá leik- og grunnskólum til skólaþjónustu sem leiði til umsókna um greiningu hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

G.2. Sett verði viðmið um biðtíma eftir greiningu hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.
     Markmið: Að skilgreina hámarksbið eftir greiningu.
     Lýsing: Með hliðsjón af þeim árangri sem næst með því að fötluð börn fái snemmtæka, markvissa og viðeigandi þjónustu í leik- og grunnskóla (sbr. aðgerð G.1) og með starfi landshlutateyma sem samþætti þjónustu við börn í heimabyggð (sbr. aðgerð G.3) verði sett viðmið um bið eftir þjónustu Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins.
     Ábyrgð: Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.
     Dæmi um samstarfsaðila: Velferðarráðuneytið, sveitarfélög og heilbrigðisþjónusta.
     Tímabil: 2018.
     Kostnaður: Innan ramma.
     Mælanlegt markmið: Að fyrir liggi viðmið um hlutfall barna á biðlista eftir greiningu.

G.3. Þjónusta við fötluð börn með sértækar þarfir verði veitt í nærumhverfi þeirra.
     Markmið: Að styrkja grunnþjónustu í héraði.
     Lýsing: Landshlutateymi verði mynduð í því skyni að auka þekkingu og efla og samþætta þjónustu við börn í heimabyggð. Teymi geti einnig starfað innan hverfa í stærri sveitarfélögum. Um tilraunaverkefni verði að ræða en stefnt verði að því að teymin festi sig í sessi og starfsemi þeirra verði viðvarandi.
     Ábyrgð: Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.
     Dæmi um samstarfsaðila: Skólaþjónusta sveitarfélaga, BUGL, Reykjavíkurborg, félagsþjónusta sveitarfélaga, heilsugæslan og skólar.
     Tímabil: Tilraunaverkefni í tvö ár.
     Kostnaður: 5 millj. kr. á ári.
     Mælanlegt markmið: Tvö teymi starfi árin 2018 og 2019.

G.4. Leik- og grunnskólar á landsvísu fái í auknum mæli aðgang að miðlægri þekkingu og ráðgjöf, m.a. með starfsemi svonefndra ráðgjafarleikskóla og -grunnskóla.
     Markmið: Að þjónusta við fötluð börn í leik- og grunnskóla sé góð og markviss.
     Lýsing: Möguleikar leik- og grunnskóla um land allt verði auknir með fjölbreyttum aðferðum til að veita góða og markvissa þjónustu við fötluð börn. Stuðningsnet verði til staðar á grunnskólastigi þannig að skólar með sérhæfingu miðli reynslu og veiti öðrum skólum ráðgjöf af gagnreyndri þekkingu. Þessi verkefni verði unnin samkvæmt samningi með aðkomu Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Fest verði í sessi hliðstætt net og er á þremur leikskólum Reykjavíkurborgar, sem hafa gegnt hlutverki svonefndra ráðgjafarleikskóla, þannig að leikskólar á landsvísu geti sótt þangað þekkingu og leitað ráða þegar börn þurfa aðstoð vegna heyrnarskerðingar, mikillar hreyfihömlunar eða einhverfu.
     Ábyrgð: Skólaþjónusta sveitarfélaga.
     Dæmi um samstarfsaðila: Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, heilsugæslan, grunn- og leikskólar, Klettaskóli, BUGL, Þroska- og hegðunarstöð, Reykjavíkurborg og Jöfnunarsjóður sveitarfélaga.
     Tímabil: Viðvarandi.
     Kostnaður: Kostnaðarmat verði unnið í framhaldinu.
     Mælanlegt markmið: Aukin ánægja foreldra fatlaðra barna með þjónustu grunn- og leikskóla.

G.5. Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins sinni þjónustu við aldurshópinn 18–24 ára.
     Markmið: Að þjónusta við ungt fatlað fólk verði bætt.
     Lýsing: Til að fyrirbyggja rof á þjónustu nái verkefni Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins einnig til aldurshópsins 18–24 ára en til þess að svo geti orðið þarf lagabreytingu.
     Ábyrgð: Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.
     Dæmi um samstarfsaðila: Skólaþjónusta sveitarfélaga, BUGL, félagsþjónusta sveitarfélaganna og heilsugæslan.
     Tímabil: 2017–2019.
     Kostnaður: Kostnaður metinn samhliða gerð frumvarps.
     Mælanlegt markmið: Lögum verði breytt.

G.6. Fötluð börn og ungmenni eigi kost á sértækri frístundaþjónustu.
     Markmið: Að tryggja samfellda þjónustu yfir daginn og rjúfa félagslega einangrun fatlaðra barna.
     Lýsing: Fötluð börn og ungmenni á grunn- og framhaldsskólaaldri eigi kost á frístundaþjónustu yfir daginn meðan skóli er starfandi, í skólafríum og á próftímum þegar hefðbundnir skóladagar eru stuttir. Frístundaþjónusta verði samþætt almennri frístundaþjónustu fyrir börn og ungmenni á sama aldri, þegar við á.
     Ábyrgð: Sveitarfélög.
     Dæmi um samstarfsaðila: Mennta- og menningarmálaráðuneytið og samtök fatlaðs fólks.
     Tímabil: Viðvarandi.
     Kostnaður: Kostnaðarmat fari fram hjá sveitarfélögum.
     Mælanlegt markmið: Hlutfall fatlaðra nemenda í grunn- og framhaldsskólum sem eru í frístund að loknum skóladegi hækki.

G.7. Bætt þjónusta við fatlað fólk með aðstoð hjálpartækja og tæknitengdra lausna.
     Markmið: Að lífsgæði fatlaðs fólks aukist og fjármunir nýtist betur.
     Lýsing: Við mat og skipulagningu þjónustu við fatlað fólk verði kannað hvort hjálpartæki og tæknitengdar lausnir styðji við framkvæmd þjónustunnar. Starfsfólk sveitarfélaga og heilsugæslu með þekkingu á hjálpartækjum meti þörf fyrir hjálpartæki og sæki um til Hjálpartækjamiðstöðvar Sjúkratrygginga Íslands og eftir atvikum Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga og Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands, í samvinnu við hinn fatlaða einstakling og eftir atvikum fjölskyldu hans. Fyrrgreindir aðilar úthluti hjálpartækjum og tæknitengdum lausnum á grundvelli umsókna. Hjálpartækjamiðstöðin veiti fræðslu um reglur og umsóknarferli sem gilda um hjálpartæki sem og fræðslu og leiðbeiningar um hjálpartæki og samninga sem eru í gildi hverju sinni. Starfsfólk sveitarfélaga og heilsugæslu annist endurmat eftir þörfum og eftirfylgni til að hjálpartæki komi að sem bestum notum.
     Ábyrgð: Sjúkratryggingar Íslands.
     Dæmi um samstarfsaðila: Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra, Grensásdeild, Reykjalundur, heilsugæslan, sveitarfélög, Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, Heyrnar- og talmeinastöð Íslands, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Endurhæfing – þekkingarsetur og samtök fatlaðs fólks.
     Tímabil: 2017–2021.
     Kostnaður: Innan ramma.
     Mælanlegt markmið: Aukið samstarf þjónustuaðila og Hjálpartækjamiðstöðvar Sjúkratrygginga Íslands, Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga og Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands.

III. Eftirfylgni, framkvæmd og endurmat.
    Framkvæmdaáætlunin myndi ramma utan um stöðumat og frekari áætlanagerð í málaflokknum og þjóni mikilvægu hlutverki í samvinnu ríkis og sveitarfélaga um framkvæmd og endurmat í þjónustu við fatlað fólk á Íslandi. Tryggt verði að fatlað fólk, samtök þess og aðildarfélög komi að stefnumörkun og ákvörðunum sem varða málefni þess.
    Heildarumsjón með eftirfylgni og framkvæmd stefnu verði í höndum ráðherraskipaðs starfshóps í málefnum fatlaðs fólks skipuðum fulltrúum velferðarráðuneytisins, innanríkisráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Landssamtakanna Þroskahjálpar og Öryrkjabandalags Íslands. Velferðarráðuneytið hafi umsjón með tilteknum aðgerðum en önnur ráðuneyti, stofnanir, Samband íslenskra sveitarfélaga, sveitarfélög og eftir atvikum aðrir aðilar beri ábyrgð á öðrum einstökum aðgerðum. Velferðarráðuneytið beri ábyrgð á stöðumati og öflun upplýsinga um þjónustu við fatlað fólk frá sveitarfélögum, á þróun lykiltalna og samhæfðs árangursmats á grundvelli laga, stefnu í málefnum fatlaðs fólks og samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks svo að unnt sé að vakta þjónustuna og meta árangur með tilliti til jafnræðis og mannréttinda. Víðtækt samstarf verði haft við fatlað fólk og samtök þess, atvinnulíf, stofnanir og ráðuneyti um framkvæmd stefnunnar til að þekking og reynsla nýtist sem best.

Samþykkt á Alþingi 31. maí 2017.