Ferill 106. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1162  —  106. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak, lögum um aukatekjur ríkissjóðs, áfengislögum og lögum um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum (smásala áfengis).

Frá minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar .


    Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að það hafi verið lagt fram tvisvar áður. Minni hlutinn telur það óþarfa hógværð hjá flutningsmönnum. Hér er um að ræða eitt vinsælasta mál hóps þingmanna sem aðhyllist þá trúarsetningu sem birtist í upphafi greinargerðarinnar: „Frumvarpið felur í sér aukið frelsi til smásölu á Íslandi en það er ekki hlutverk ríkisins að sinna smásölu […]“
    Mál sem snerta afnám einkasölu Áfengis- og tóbakssölu ríkisins (ÁTVR) á áfengi hafa gengið mann fram af manni undanfarinn einn og hálfan áratug í hópi meintra kyndilbera frjálslyndis á þingi. Fyrstu loturnar tók Guðlaugur Þór Þórðarson, sem var fyrsti flutningsmaður málsins á 130. löggjafarþingi (887. mál), 131. löggjafarþingi (241. mál), 132. löggjafarþingi (47. mál) og 133. löggjafarþingi (26. mál). Fast á hæla hans fylgdi Sigurður Kári Kristjánsson, sem lagði fram frumvörp um sölu léttvíns og bjórs á 135. löggjafarþingi (6. mál) og 136. löggjafarþingi (37. mál). Í síðara skiptið háttaði svo til að 1. umræða um málið var ráðgerð 20. janúar 2009, á fyrsta þingfundardegi eftir langt jólahlé Alþingis. Þessi forgangsröðun þeirra sem stýrðu dagskrá Alþingis á 136. löggjafarþingi vakti almenna reiði í samfélaginu, enda stóð efnahagshrunið þá sem hæst og flestum var ljóst hvílík fásinna það var að hefja þingstörf á svo fánýtu máli við þær aðstæður. Flutningur þessa máls á þeim tíma var eitt af þeim sprekum sem létu mótmælabálið brenna svo bjart í janúar 2009 og því rétt að þakka Sigurði Kára Kristjánssyni fyrir sinn þátt í að koma búsáhaldabyltingunni af stað – svo ekki hefur þessi síendurtekni málatilbúnaður verið til einskis.
    Viðbrögð almennings við frumvarpi Sigurðar Kára Kristjánssonar veturinn 2009 urðu til þess að nokkur friður skapaðist á þingi fyrir þessu ágenga áhugamáli fámenns styrktarfélags kaupmanna þar til haustið 2014 að nýr þingmaður tók við keflinu. Þá flutti Vilhjálmur Árnason mál þessa efnis í tvígang, á 144. löggjafarþingi (17. mál) og 145. löggjafarþingi (13. mál). Það mál sem nú er til umfjöllunar stendur á þessum gamla merg, málum sem hafa verið flutt átta sinnum áður, en nú hefur Teitur Björn Einarsson tekið við sem forsöngvari við endurflutninginn.

Umfjöllun í allsherjar- og menntamálanefnd.
    Áður en farið er yfir efni málsins telur minni hlutinn nauðsynlegt að reifa í stuttu máli þinglega meðferð þess á þessu þingi sem var með miklum ólíkindum.
    Undir lok þingvetrar kynnti meiri hlutinn víðtækar breytingartillögur við málið og beitti aflsmunum til að taka það úr nefndinni. Minni hlutinn átelur þessi vinnubrögð og telur tillögur meiri hlutans breyta það mörgum grundvallaratriðum málsins að eðlilegra hefði verið fyrir meiri hlutann að leggja þær fram sem sjálfstætt þingmál sem fengi þar með eðlilega þinglega meðferð. Breytingartillögur meiri hlutans byggjast hvorki á þeirri umfjöllun sem fór fram í nefndinni né þeim umsögnum sem bárust um málið og munu því ekki verða grundvöllur þessa álits minni hlutans.

Ekki brugðist við umsagnarbeiðnum.
    Við 1. umræðu málsins í þingsal komu ítrekað fram þau sjónarmið að mikilvægt væri að greina áhrif frumvarpsins. Er þar til margs að líta.
    Fyrst ber að nefna áhrif breytinganna á lýðheilsu og opinbera stefnu í áfengis- og vímuvörnum. Hvað sem flutningsmönnum frumvarpsins kann að finnast er ljóst að breytt fyrirkomulag áfengissölu mun hafa áhrif á framkvæmd stefnu sem byggist m.a. á núverandi fyrirkomulagi sem einu af stjórntækjunum til að ná fram markmiðum stefnunnar. Vegna þessa óskaði allsherjar- og menntamálanefnd umsagnar velferðarnefndar um þá hlið breytinganna og fjallaði þar af leiðandi ekki jafnítarlega um lýðheilsusjónarmiðin og ella. Það er því óskiljanlegt að meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar hafi ákveðið að afgreiða málið úr nefnd án þess að velferðarnefnd hafi verið búin að skila sinni umsögn.
    Þá kom fram vilji til að fá Hagfræðistofnun til að skoða þjóðhagsleg áhrif breytinganna, t.d. kostnað vegna aukins álags á velferðarkerfi og löggæslu. Þar sem stofnunin fór fram á greiðslu fyrir greininguna þurfti að leita eftir fjárheimild hjá forsætisnefnd. Forseti veitti þá heimild ekki, þannig að nefndarmenn geta ekki talist hafa allar upplýsingar í höndunum til að afgreiða málið að svo stöddu.
    Í þriðja lagi var þess óskað að efnahags- og viðskiptanefnd legði mat á möguleg áhrif á tekjur ríkisins, en hún ákvað að senda ekki umsögn um málið til allsherjar- og menntamálanefndar.
    Rétt er að benda á það sem fram kemur í umsögn Samstarfs félagasamtaka í forvörnum (SAFF):
    „Stjórn SAFF væntir þess að alþingismenn, fulltrúar hagsmuna almennings á Alþingi, tryggi frumvarpinu vandaða málsmeðferð á grundvelli langtímastefnumörkunar í forvörnum og lýðheilsu og byggi afgreiðslu þess á rannsóknum, ráðgjöf og upplýsingum sérfræðinga í lýðheilsumálum, áfengis og vímuefnamálum og, ekki síst, þeirra sem sinna málefnum ungmenna. Það er eðlilegt að fram fari mat á lýðheilsuáhrifum og samfélagslegum kostnaði af þeim breytingum sem frumvarpið boðar áður en það kemur til kasta Alþingis. Það er eðlilegt að áfengi sé ekki flokkað sem venjuleg neysluvara og lúti öðrum viðmiðum en þær. Þetta endurspeglast meðal annars í andstöðu meirihluta almennings við frumvarpið, eins og fram kemur í könnunum.“
    Minni hlutinn tekur undir þessi orð og telur engan veginn réttlætanlegt að afgreiða málið úr nefnd án vandaðrar málsmeðferðar. Sú hættulega samfélagstilraun sem frumvarpið leggur til er engan veginn réttlætanleg án margfalt betri undirbúnings, greininga og áætlana um afleiðingar breytinga á sölufyrirkomulagi áfengis.

Gjörbreytt og afgreitt úr nefnd með aflsmunum.
    Allsherjar- og menntamálanefnd fjallaði um málið á sjö fundum. Þar af voru gestakomur á fimm fundum á tímabilinu 23. mars til 6. apríl 2017. Þegar gestakomum var lokið lét meiri hlutinn málið liggja í láginni um sex vikna skeið, uns álit hans um málið ásamt breytingartillögum birtist fyrirvaralaust. Ekkert samráð hafði verið haft við aðra fulltrúa í nefndinni, enda augljóslega ekki ætlun meiri hlutans að taka tillit til sjónarmiða minni hlutans sem m.a. taldi nauðsynlegt að fá umsögn velferðarnefndar um málið.
    Ekki var tekið tillit til þessara sjónarmiða minni hlutans sem greiddi atkvæði gegn því að málið yrði afgreitt úr allsherjar- og menntamálanefnd 19. maí 2017 og lagði fram eftirfarandi bókun:
    „Fulltrúar minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar mótmæla því að meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar hafi afgreitt mál nr. 106, verslun með áfengi og tóbak, út úr nefndinni á fundi 19. maí án þess að fyrir liggi umsagnir velferðar- og fjárlaganefnda, sem óskað hefur verið eftir. Auk þess hefur nefndinni ekki borist svar forsætisnefndar við beiðni um skýrslu frá Hagfræðistofnun um úttekt á þjóðhagslegum áhrifum breytinganna.
    Vegna þess hversu viðamiklar breytingartillögur meiri hlutinn vill gera á frumvarpinu telur minni hlutinn að það sé nauðsynlegt að fá nýjar umsagnir við þeim tillögum. Ekki er hægt að afgreiða málið úr nefnd án nýrra umsagna.“

Umfjöllun í öðrum þingnefndum.
    Eins og fram kemur hér að framan var leitað umsagna tveggja þingnefnda. Allsherjar- og menntamálanefnd samþykkti á fundi sínum 2. mars 2017 að leita umsagnar velferðarnefndar um málið. Þá samþykkti nefndin að leita jafnframt umsagnar efnahags- og viðskiptanefndar um málið eftir gestakomur 23. mars 2017.
    Velferðarnefnd fjallaði um málið á fundi 29. mars 2017. Á fund velferðarnefndar mættu Arnþór Jónsson, Ásgerður Björnsdóttir og Þórarinn Tyrfingsson frá SÁÁ, Guðrún Halla Jónsdóttir og Kristjana Gunnarsdóttir f.h. Samráðshóps um forvarnir hjá Reykjavíkurborg, Kristján Sturluson, Laufey Tryggvadóttir og Valgerður Sigurðardóttir frá Krabbameinsfélagi Íslands, Guðrún Halla Jónsdóttir og Ingibjörg Guðmundsdóttir f.h. Saman hópsins, Árni Guðmundsson frá Samstarfi félagasamtaka í forvörnum og Guðlaug B. Guðjónsdóttir frá Fræðslu og forvörnum.
    Lýsti minni hluti allsherjar- og menntamálanefndar ítrekað þeirri skoðun sinni að gríðarlega mikilvægt væri að fá umsögn velferðarnefndar áður en nokkuð yrði ákveðið með afgreiðslu málsins í allsherjar- og menntamálanefnd. Þau skilaboð hefðu átt nokkuð greiða leið á milli nefndanna, enda er Nichole Leigh Mosty hvort tveggja í senn formaður velferðarnefndar og 1. varaformaður allsherjar- og menntamálanefndar, jafnframt því sem Vilhjálmur Árnason er 1. varaformaður velferðarnefndar auk þess að vera 2. varaformaður allsherjar- og menntamálanefndar. Bæði eru raunar enn fremur flutningsmenn þessa máls.
    Það er því óskiljanlegt að velferðarnefnd hafi ekki unnið umsögn um málið, nema ástæðan kunni að vera sú að stuðningsmönnum málsins hafi þótt ljóst að slík umsögn yrði of neikvæð í garð málsins til að hún þyldi dagsins ljós. Sú var enda reyndin árið 2014 þegar meiri hluti velferðarnefndar lagðist gegn samþykkt frumvarps sama efnis sem þá lá fyrir á 144. löggjafarþingi (17. mál). 1
    Efnahags- og viðskiptanefnd fjallaði um málið á fundum 29. mars og 3. apríl 2017. Á síðari fundi sínum um málið ákvað nefndin að senda ekki umsögn um málið til allsherjar- og menntamálanefndar.
    Minni hlutinn vill halda því til haga að þessi vinnubrögð hafi orðið til þess að sjónarmið þeirra sem komu á fund velferðarnefndar hafi ekki fengið hljómgrunn við afgreiðslu málsins og að meiri hlutinn sé í raun að hundsa mikilvæg sjónarmið er varða lýðheilsuáhrif frumvarpsins.

Opinber stefna í áfengis- og vímuvörnum.
    Stefna heilbrigðisráðherra og ríkisstjórnarinnar í áfengis- og vímuvörnum til ársins 2020 var samþykkt í desember 2013. 2 Þar er eitt af yfirmarkmiðunum að takmarka aðgengi að áfengi og öðrum vímugjöfum, en um það markmið segir: „Ein mikilvægasta aðgerðin til að draga úr skaðlegum áhrifum og vandamálum tengdum neyslu áfengis og annarra vímugjafa er að takmarka aðgengi. Það er meðal annars gert með aðhaldsaðgerðum varðandi sölufyrirkomulag áfengis […]“
    Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar samþykkti lýðheilsustefnu og aðgerðir sem stuðla að heilsueflandi samfélagi – með sérstakri áherslu á börn og ungmenni að 18 ára aldri – í september 2016, 3 en hún var afrakstur vinnu ráðherranefndar sem forsætisráðherra stýrði þar sem einnig áttu sæti heilbrigðisráðherra, félags- og húsnæðismálaráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra. Í þeirri stefnu er vísað í fyrrgreinda stefnu í áfengis- og vímuvörnum til ársins 2020, „en meðal virkra aðgerða er stýring á áfengisneyslu með verði, einkasölu ríkis og háum aldursmörkum til áfengiskaupa“.
    Vegna þess frumvarps sem hér er til umfjöllunar sendi Zsuzsanna Jakab, svæðisstjóri Evrópuskrifstofu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, heilbrigðisráðherra bréf þar sem hún hvatti til þess að Íslendingar héldu fast við stefnu sína um ríkiseinkasölu enda drægi slíkt fyrirkomulag úr neyslu. Benti hún jafnframt á að áfengisneysla á Íslandi væri minni en að meðaltali í Evrópu og að mikill árangur hefði náðst í að draga úr drykkju ungmenna á Íslandi.
    Það er því engum vafa undirorpið að einkasölu ríkis á áfengi er ætlað að vera einn af hornsteinum opinberrar stefnumörkunar á þessu sviði. Það hlýtur að teljast háskalegt að kollvarpa því kerfi líkt og flutningsmenn frumvarpsins leggja til, án þess að bjóða raunverulegar mótvægisaðgerðir aðrar en óljós fyrirheit um aukin framlög til forvarnar- og meðferðarúrræða. Þetta sjónarmið kemur m.a. fram í umsögn velferðarráðuneytisins 4 , þar sem segir: „Miklir hagsmunir felast í árangri síðustu ára og tilslakanir í áfengismálum eru til þess fallnar að draga úr þeim árangri. Þá er ekki hægt að reikna með að auknar forvarnir geti bætt upp neikvæðar afleiðingar tilslakana í áfengismálum og afnáms eins öflugasta stýrikerfis til að draga úr heildarneyslu áfengis og þar með skaða í samfélaginu. Mikilvægt er að við alla ákvarðanatöku stjórnvalda er varðar lýðheilsu, áfengis- og vímuvarnir að lýðheilsusjónarmið séu höfð að leiðarljósi ásamt bestu þekkingu á virkum og árangursríkum aðgerðum.”
    Í ljósi þess að landlæknisembættið, velferðarráðuneytið og Alþjóðaheilbrigsðisstofnunin leggjast gegn afnámi einkasölu ríkisins á áfengi, með vísan til rannsókna á lýðheilsu, skyldi engan undra að talsmenn málsins í velferðarnefnd hafi ekki treyst sér til að skila jákvæðri umsögn um málið.

Þáttur ÁTVR í áfengisvörnum.
    Eitt af markmiðum laga um verslun með áfengi og tóbak er að takmarka og stýra aðgengi að áfengi og tóbaki og draga þannig úr skaðlegum áhrifum áfengis- og tóbaksneyslu. Núverandi fyrirkomulag áfengissölu er eitt af þeim verkfærum sem stjórnvöld hafa til að ná fram þeim markmiðum og því einn af lykilþáttum aðgerða í lýðheilsustefnu stjórnvalda. Fjöldi áfengisverslana og opnunartími er takmarkaður og verslunin stundar enga söluhvetjandi starfsemi, enda er hún ekki rekin í gróðaskyni. Þá starfar enginn undir tvítugu hjá ÁTVR og mikil áhersla er lögð á skilríkjaeftirlit.
    Því miður er reynslan af eftirliti einkaaðila með aldri þeirra sem reyna að kaupa tóbak síður en svo góð, líkt og fram kom í umsögnum heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis og heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis. Jafnframt kom fram við umfjöllun nefndarinnar að ýmis vandkvæði væru við eftirlit lögreglu með áfengissölu á veitinga- og skemmtistöðum. Ekki er ljóst af frumvarpinu hvort flutningsmenn ætli lögreglu eða heilbrigðiseftirliti það hlutverk að hafa eftirlit með áfengissölu, en miðað við reynslu beggja aðila þyrfti að búa mjög vel um slíkt eftirlit. Öðrum kosti væri hætt við að flutningsmenn þessa frumvarps létu þann góða árangur sem náðst hefur í baráttunni við unglingadrykkju fara fyrir lítið – baráttu þar sem ÁTVR er ein af meginstoðunum.
    Til að gera lítið úr neikvæðum áhrifum frumvarpsins af auknu aðgengi grípa talsmenn þess gjarnan til þesss ráðs að halda því fram að ÁTVR hafi sjálft aukið aðgengi fólks að áfengi á undanförnum árum með því að fjölga verslunum. Reyndin er sú að fjölgunin hefur mest verið í smæstu búðum ÁTVR sem þjóna smærri og afskekktari byggðarlögum.
    Vínbúðunum er skipt í flokka eftir vöruvali. Þær búðir sem hafa minnsta vöruvalið eru í flokki K1, búðir í K2 eru með meira úrval og svo koll af kolli. K1, K2 og K3 vínbúðir eru allar á landsbyggðinni en K6 vínbúðir eru á höfuðborgarsvæðinu, á Akureyri, Selfossi og í Reykjanesbæ. K8 og K9 vínbúðir eru stærstu vínbúðirnar, allar staðsettar á höfuðborgarsvæðinu.
    Eins og sjá má á eftirfarandi töflu fer langstærstur hluti sölu ÁTVR fram í stærstu vínbúðunum, þeim sem eru staðsettar í þéttbýlinu á suðvesturhorninu. Stærri vínbúðir – þ.e. þær sem eru í flokkum K6, K8 og K9 – eru 16 talsins, eða um þriðjungur af útsölustöðum áfengis, en í gegnum þær fara um 80% þess áfengis sem ÁTVR selur.

Fjöldi búða Hlutfall af heildarsölu
2014 2015 2016
K1 vínbúðir 13 2,4% 2,5% 2,6%
K2 vínbúðir 14 7,7% 7,8% 8,0%
K3 vínbúðir 7 9,9% 9,8% 9,8%
K6 vínbúðir 9 28,1% 28,4% 30,1%
K8 vínbúðir 3 26,8% 26,6% 26,2%
K9 vínbúðir 4 25,0% 24,9% 23,2%

Þjóðhagslegar afleiðingar breytinga.
    Við 1. umræðu málsins í þingsal kom ítrekað fram það sjónarmið að mikilvægt væri að skoða ofan í kjölinn hvaða afleiðingar afnám einkasölu ríkisins á áfengi gæti haft fyrir lýðheilsu og ekki síður hverjar þjóðhagslegar afleiðingar slíkra breytinga kunni að verða. Því var þess farið á leit strax við fyrstu umfjöllun allsherjar- og menntamálanefndar um málið að Hagfræðistofnun yrði fengin til að leggja mat á samfélagslegan kostnað þess ef frumvarpið yrði samþykkt. Sú beiðni var afgreidd í nefndinni 2. mars 2017 og var send forseta Alþingis með beiðni um fjárheimild til að kaupa þjónustu Hagfræðistofnunar 31. mars. Svar forseta barst 22. maí og kom þar fram að ekki yrði veitt heimild til að fá Hagfræðistofnun til að meta áhrif frumvarpsins. Þessi niðurstaða barst þremur dögum eftir að meiri hlutinn beitti aflsmunum til að taka málið út úr nefndinni sem bendir ekki til þess að fyrir meiri hlutanum hafi vakað að rannsaka málið ofan í kjölinn.
    Minni hlutinn telur þjóðhagslegar afleiðingar breytinganna síst geta verið vanmetnar. Þannig má benda á nýlega áskorun 5 læknafélags Nýja-Sjálands sem hefur skorað á þarlend stjórnvöld að banna sölu léttvíns og bjórs í stórmörkuðum. Þar í landi hefur áfengi verið selt í matvöruverslunum frá 1990 og áætla félagasamtökin Alcohol Healthwatch að samfélagslegur kostnaður í tengslum við áfengisneyslu nemi um 5 milljörðum nýsjálenskra dala á ári hverju – og er þar talið með aukið álag á löggæslu, aukin slysatíðni og langtímaafleiðingar fyrir heilsufar þjóðarinnar. Þótt ekki sé hægt að heimfæra þessar áætlanir beint á íslenskan veruleika gefa þessar niðurstöður hugmynd um umfang vandans, en sé miðað við höfðatölu væri sambærilegur kostnaður 28 milljarðar kr. á ári á Íslandi. Sérhver breyting í átt til aukinnar neyslu áfengis gæti því orðið dýrkeypt.
    Minni hlutinn bendir einnig á ítarlega sænska úttekt sem reifuð var í umsögn meiri hluta velferðarnefndar um málið þegar það var áður flutt á 144. löggjafarþingi (17. mál). Þar kom m.a. fram að áfengisneysla mundi aukast um u.þ.b. 30% ef ríkiseinokun á áfengissölu yrði afnumin og sala leyfð í matvöruverslunum. Var þar lagt mat á afleiðingar af afnámi ríkiseinkasölu á áfengi, annars vegar miðað við að einkaaðilum yrði falin sala áfengis í sérstökum verslunum eingöngu og hins vegar miðað við að áfengi yrði selt í almennum matvöruverslunum. Í eftirfarandi töflu sjást niðurstöður þessa sérfræðihóps.

Eðli tjóns Sérverslanir Hlutfallsleg aukning Matvöruverslanir Hlutfallsleg aukning
Dauðsföll af völdum áfengistengdra sjúkdóma 430 26% 1.000 61%
Banaslys 120 10% 250 22%
Sjálfsmorð 130 14% 290 30%
Manndráp 20 18% 40 40%
Heildarfjöldi dauðsfalla af framangreindum orsökum 700 18% 1.580 41%
Árásir sem ekki eru banvænar 6.700 10% 14.200 22%
Veikindadagar 7.300.000 18% 16.100.000 40%

    Í töflunni kemur fram að dauðsföllum sem rekja má til sjúkdóma í tengslum við áfengisneyslu, auk banaslysa, sjálfsvíga og manndrápa, mundi fjölga um 18% annars vegar ef áfengi yrði selt í einkavæddum sérverslunum og 41% ef það yrði selt í matvöruverslunum. Talið er að árásum sem ekki væru banvænar gæti fjölgað um 10–22% og veikindadögum um 18–40%. Ekki þarf að taka fram að Svíar hættu við að afnema ríkiseinkasölu og ákváðu að færa sölu áfengis ekki í almennar verslanir.
    Ljóst er að ekki er hægt að færa slíkar niðurstöður beint yfir á íslenskt samfélag án frekari skoðunar en þær undirstrika mikilvægi þess að vinna greiningu eða rannsókn á áhættunni og afleiðingunum af breytingunum sem lagðar eru til í frumvarpinu sem hér er til umfjöllunar.
    Fyrir utan þann mannlega harmleik sem felst í hverju dauðsfalli eða alvarlegu óhappi hefur Hagfræðistofnun metið samfélagslegan kostnað við slys. Þannig kemur fram í svari 6 Kristjáns Þórs Júlíussonar, þáverandi heilbrigðisráðherra, við fyrirspurn Vilhjálms Árnsonar um kostnað heilbrigðiskerfisins af umferðarslysum sem var lögð fram á 145. löggjafarþingi (452. mál) að samfélagslegur heildarkostnaður við hvert banaslys í umferðinni er um 659,6 millj. kr. og hvert alvarlegt slys 86,4 millj. kr. Af þeim 18 einstaklingum sem létust í umferðinni árið 2016 létust þrír vegna ölvunaraksturs. 7 Öll aukning á alvarlegum slysum og banaslysum vegna ölvunar hefur gríðarlegan beinan kostnað í för með sér fyrir samfélagið.

Mál er að linni.
    Mál er að linni tilraunum til að kollvarpa farsælu fyrirkomulagi smásölu á áfengi sem hefur reynst vel við að halda aftur af aukningu í áfengissölu og hefur þannig styrkt lýðheilsu, velferð og efnahag þjóðarinnar. Breytingarnar sem lagðar eru til í fyrirliggjandi frumvarpi og öðrum af sama toga sem komið hafa fram á undanförnum áratug eru til þess fallnar að auka áfengisneyslu í landinu. Þær eru því beinlínis illkynja og bera vott um ábyrgðarleysi þeirra sem barist hafa fyrir þeim.
    Það ætti ávallt að vera markmið breytinga á ríkjandi fyrirkomulagi að þær spretti af nauðsyn og horfi til heilla. Hvorugu er til að dreifa í þessu tilviki. Ef gera ætti breytingar á hlutverki ÁTVR gætu þær falist í auknu hlutverki stofnunarinnar á sviði lýðheilsu og forvarna. Þar er mörg verk að vinna.
    Minni hlutinn leggst gegn því að frumvarpið verði að lögum og hvetur flutningsmenn til þess að leggja hugmyndir sínar um afnám einkasölu ríkisins á áfengi á hilluna. Það er ljóst að frumvarpið er í algjörri andstöðu við niðurstöður allra rannsókna helstu sérfræðinga um skaðleg áhrif áfengisneyslu sem mæla staðfastlega með ríkiseinkasölu áfengis. Þá er það í hróplegu ósamræmi við alla stefnumörkun hins opinbera á sviði lýðheilsu. Auk þess hafa niðurstöður skoðanakannana ítrekað sýnt að mikill meiri hluti þjóðarinnar er fylgjandi núverandi fyrirkomulagi á smásölu áfengis.

Alþingi, 4. september 2017.

Andrés Ingi Jónsson.


1     www.althingi.is/altext/erindi/144/144-756.pdf
2     stjornarradid.is/media/velferdarraduneyti-media/media/rit-og-skyrslur-2014/Stefna-i-afengis--og-vimuvornum-desember-2013.pdf
3     www.stjornarradid.is/media/velferdarraduneyti-media/media/skyrslur2016/Lydheilsustefna_og_adgerdaaaetlun_30102016.pdf
4     www.althingi.is/altext/erindi/146/146-529.pdf
5     www.theguardian.com/world/2017/aug/07/ban-alcohol-from-supermarkets-urges-new-zealand-medical-authority
6     www.althingi.is/altext/145/s/0815.html
7     www.samgongustofa.is/media/umferd/skyrslur/Slysaskyrsla2016.pdf