Ferill 44. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 44  —  44. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um greiðsluþátttöku sjúklinga.


Flm.: Logi Einarsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Helga Vala Helgadóttir, Oddný G. Harðardóttir.

    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að kveða í reglugerð á um að ekki skuli taka gjald af sjúkratryggðum fyrir heilsugæslu samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, og að hámarksgreiðslur sjúkratryggðra fyrir læknisþjónustu utan heilsugæslu skuli vera 35.000 kr. á ári, svo og að draga úr hlutdeild aldraðra og öryrkja í kostnaði við tannlækningar.

Greinargerð.

    Tillagan var fyrst flutt á 146. löggjafarþingi (49. mál) en náði ekki fram að ganga og er nú endurflutt óbreytt. Skv. 2. mgr. 1. gr. laga um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997, er óheimilt að mismuna sjúklingum á grundvelli efnahags. Eigi að síður hefur kostnaður almennings vegna heilbrigðisþjónustu aukist umtalsvert á undanförnum árum og er orðinn mörgum þungur baggi. Íslendingar fresta því í auknum mæli að leita til læknis vegna kostnaðar og er staðan sérstaklega slæm meðal tekjulágra.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     Heimild: Eurostat.

    Á 145. löggjafarþingi varð að lögum frumvarp þáverandi heilbrigðisráðherra um greiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfinu með gildistöku 1. febrúar 2017 (lög nr. 77/2016). Mælt var fyrir um breytingu á lögum um sjúkatryggingar þannig að sett var þak á heilbrigðiskostnað sjúkratryggðra til að draga úr hæstu greiðslum, einkum langveikra. Lagabreytinguna átti þó að fjármagna eingöngu með tilfærslu kostnaðar yfir á aðra sjúklinga. Það leiðir til þess að kostnaður meginþorra sjúklinga með tilfallandi heilbrigðiskostnað hækkar talsvert, þar á meðal kostnaður lífeyrisþega og annarra viðkvæmra hópa sem sérstaklega hætt er við að sæki sér síður nauðsynlega heilbrigðisþjónustu vegna kostnaðar. Þannig mundi heildarkostnaður um 85.000 almennra sjúklinga hækka um 31% og heildarkostnaður um 37.000 aldraðra og lífeyrisþega hækka um 73% samkvæmt greinargerð með frumvarpinu.
    Í frumvarpinu var gert ráð fyrir að sjúklingar greiddu að hámarki 95.200 kr. á ári. Við meðferð málsins boðaði þáverandi heilbrigðisráðherra þó að hámarksgreiðslur yrðu ekki hærri en 50.000 kr. á ári. Flutningsmenn þessarar tillögu telja það enn of mikla greiðslubyrði, auk þess sem ekki er fast í hendi að loforðið standi, enda ný ríkisstjórn að taka við.
    Hér er lagt til að heilbrigðisráðherra verði falið að tryggja með reglugerð að sjúkratryggðir greiði ekki meira en 35.000 kr. á ári fyrir læknisþjónustu, að heilsugæsla verði gjaldfrjáls og að kostnaður vegna tannlækninga aldraðra og öryrkja verði lækkaður umtalsvert. Áætla má að kostnaður ríkissjóðs vegna breytinganna verði um 7 milljarðar kr. á ári.
    Ódýrri eða gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu er stundum andmælt með þeim rökum að hún verði þá misnotuð og tækifæri til að stýra henni glatist. Því er til að svara að það er mjög kostnaðarsamt fyrir samfélagið ef sjúklingar draga að leita sér lækninga og annarrar heilbrigðisþjónustu. Slík stýring tekur einnig fyrst og fremst til þeirra sem eiga ekki fyrir heilbrigðisþjónustu. Þeir sem hafa næg fjárráð þurfa ekki að hugsa sig um tvisvar.
    Þó að tillagan yrði samþykkt þyrfti að gera betur á næstu árum, enda yrði kostnaðarþátttaka sjúklinga enn of mikil. Lyf eru til dæmis aðskilin frá annarri heilbrigðisþjónustu og sérstakt greiðsluþátttökukerfi í gildi fyrir þau. Það leiðir til þess að kostnaður sjúklinga sem þurfa bæði meðferð með lyfjum og aðra heilbrigðisþjónustu getur numið samanlögðu hámarki innan beggja kerfa. Ekkert mið er tekið af samanlögðum heildarkostnaði fullorðinna einstaklinga innan sömu fjölskyldu. Þannig getur heildarkostnaður heimilis vegna heilbrigðisþjónustu og lyfja áfram verið umtalsverður. Kostnaður vegna sálfræðiþjónustu fullorðinna er áfram undanskilinn almennri greiðsluþátttöku sjúkratrygginga og getur verið mjög mikill. Algengt er þannig að hver meðferðartími hjá sjálfstætt starfandi sálfræðingi kosti á bilinu 12.000–15.000 krónur. Brýnt er því að fjölga sálfræðingum sem starfa hjá heilsugæslustöðvum um allt land. Til að bæta úr þarf að gera raunhæfa áætlun um hvernig og hvenær gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta getur orðið að veruleika.