Ferill 116. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 185  —  116. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um úttekt á stofnun vestnorrænna eftirskóla.


Frá Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.


    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta gera úttekt á því hvernig hægt sé á hagkvæman hátt að stofna vestnorræna eftirskóla á Grænlandi, í Færeyjum og á Íslandi.

Greinargerð.

    Tillaga þessi er lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 2/2016 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 22. ágúst 2016 í Qaqortoq á Grænlandi.
    Vestnorræna ráðið hefur beitt sér fyrir því að íbúar Vestur-Norðurlanda öðlist aukna þekkingu á samfélögum hver annars og hefur m.a. í samstarfi við sveitarfélög og ríkisstjórnir haldið vestnorræna daga þar sem hvert land hefur staðið fyrir viðburðum sem miða að því að fræða almenning um hin löndin.
    Vestnorræna ráðið telur mikilvægt að stofnaðir séu skólar sem stuðli að því að ungmenni alist upp með vitund um vestnorrænu löndin og íbúa þeirra og jafnframt að ungmenni á Vestur-Norðurlöndum kynnist og fræðist um menningu og tungumál nágrannalandanna.
    Hægt er að byggja á fyrirkomulagi danskra eftirskóla (d. efterskoler), en þeir eru þekktir á Grænlandi og í Færeyjum. Á Íslandi er ekki algengt að ungmenni fari í eftirskóla, en hefð hefur verið fyrir því síðan á sjöunda áratugnum að grænlensk ungmenni stundi slíkt nám í Danmörku. Einnig hafa verið stofnaðir tveir eftirskólar á Grænlandi, þ.e. í Qasigiannguit og Maniitsoq. Nemendur þar eru á aldrinum fjórtán til sautján ára. Ungmennin upplifa þar nýja hluti, búa sig undir menntaskólanám eða annað nám og kynnast því að vera að heiman og læra að bjarga sér sjálf. Sama á við um Færeyjar, en þaðan fara ungmenni oft í eftirskóla í Danmörku að loknum grunnskóla eða taka síðasta ár grunnskólans þar.
    Fyrirkomulag námsins í hverju landi ætti að byggjast á menningu og tungumáli þess lands enda er meginmarkmiðið að miðla þessum þáttum til nemenda.
    Skólakerfi vestnorrænu landanna eru að sumu leyti ólík. Það þarf því að hafa samráð um fyrirkomulag eftirskólanna í löndunum þremur og taka tillit til þessa munar þegar og ef þessi tilmæli verða að veruleika.