Ferill 286. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 388  —  286. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012,
með síðari breytingum (EES-reglur).


Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


1. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða V í lögunum orðast svo:
    Líta skal svo á að allar kröfur sem gerðar eru til flugrekenda í 17. og 21. gr. séu uppfylltar að því er varðar:
     1.      alla losun flugs til og frá flugvöllum sem staðsettir eru í löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins, á tímabilinu frá 1. janúar 2018 til 31. desember 2023,
     2.      alla losun flugs á milli flugvalla sem staðsettir eru á Gvadelúpeyjum, Mayotte, Frönsku Gíneu, Martiník, Sankti Martins-eyjum, Asoreyjum, Madeira og Kanaríeyjum og flugvallar sem staðsettur er á Evrópska efnahagssvæðinu, á tímabilinu frá 1. janúar 2018 – 31. desember 2023,
     3.      alla losun flugs á milli flugvalla í ríkjum og á landsvæðum sem tilheyra ríki á Evrópska efnahagssvæðinu en eru ekki aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu, svo sem á við um Grænland og Færeyjar, á tímabilinu frá 1. janúar 2018 til 31. desember 2023.
    Enn fremur skal ekki gripið til aðgerða gegn flugrekendum að því er varðar alla losun frá flugi í 1.–3. tölul. 1. mgr.
    Frá 1. janúar 2013 til 31. desember 2030 er flug á vegum flugrekenda sem eru ekki með flugrekstur í atvinnuskyni og annast flugferðir þar sem heildarlosun á ári er minni en 1.000 tonn undanskilið gildissviði viðskiptakerfisins og laga þessara.
    Umhverfisstofnun skal á tímabilinu 1. janúar 2018 til 31. desember 2020 endurúthluta árlega endurgjaldslausum losunarheimildum til flugrekenda í samræmi við breytt gildissvið viðskiptakerfisins skv. 1. mgr. þessa ákvæðis.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 20. gr. skal úthlutun losunarheimilda 2018 fara fram eigi síðar en 30. apríl 2018.
    Ráðherra skal setja reglugerð til innleiðingar á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/2392 frá 13. desember 2017, sem breytir tilskipun 2003/87/EB um áframhald takmörkunar gildissviðs flugstarfsemi til þess að undirbúa innleiðingu hnattræns samkomulags frá 2021.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Ákvæði V til bráðabirgða við loftslagslög rann út 31. desember 2017 sem hefur í för með sér að gildissvið viðskiptakerfisins hvað flug varðar fór lögformlega í upprunalegt form 1. janúar 2018. Miðað við gildandi ákvæði laganna ætti úthlutun losunarheimilda sem skv. 20. gr. laganna skal fara fram 28. febrúar ár hvert, að miðast við upprunalegt gildissvið flugstarfsemi innan viðskiptakerfisins en samkvæmt reglugerð framkvæmdastjórnarinnar 2017/2392 skal hún miðast við áframhaldandi þrengt gildissvið viðskiptakerfisins eins og það var á árunum 2013–2016.
    Frumvarp um breytingu á loftslagslögum nr. 70/2012, sem var samþykkt á 146. löggjafarþingi sem lög nr. 45/2017, innihélt breytingu á bráðabirgðaákvæði V. við lögin sem fjallar um takmörkun á gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir hvað varðar flugstarfsemi. Breytingin var tilkomin vegna framkominnar tillögu framkvæmdastjórnar ESB um breytingu á tilskipun 2003/87/EB til að framlengja núverandi þrengt gildissvið flugstarfsemi innan viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir og til undirbúnings innleiðingar á alþjóðlegum markaðstengdum ráðstöfunum frá og með árinu 2021. Í ákvæðinu er tekið fram að líta skuli svo á að allar kröfur sem gerðar séu til flugrekenda hvað varðar skil á skýrslu um losun koldíoxíðs skv. 21. gr. og skil á losunarheimildum skv. 17. gr. séu uppfylltar frá 1. janúar 2018 til 31. desember 2023 hvað varði alla losun:
          Í fyrsta lagi frá flugi til og frá flugvöllum sem staðsettir eru í löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins.
          Í öðru lagi frá flugi til og frá flugvöllum sem staðsettir eru á svokölluðum ystu svæðum (e. outermost region). Evrópusambandið er með níu svæði sem liggja fjarri meginlandi Evrópu en eru eigi að síður hluti sambandsins. Hér undir falla fimm frönsk umdæmi handan hafsins (e. overseas department): Martiník, Gvadelúpeyjar, Franska Gínea, Réunion og Mayotte; eitt franskt samfélag (e. overseas community): Sankti Martins-eyjar; tvö portúgölsk sjálfstjórnarsvæði (e. autonomous region): Madeira og Asoreyjar; eitt spænskt sjálfstjórnarsvæði (e. autonomous region): Kanaríeyjar.
          Í þriðja lagi frá flugi til og frá flugvöllum í ríkjum og á landsvæðum sem tilheyra ríki á Evrópska efnahagssvæðinu en tilheyra ekki Evrópska efnahagssvæðinu, svo sem Grænlandi, Færeyjum, Svalbarða, Arúbaeyju, Jerseyeyju, Bermúdaeyjum og Cayman-eyjum.
    Enn fremur er tekið fram í ákvæðinu að ekki skuli gripið til aðgerða skv. XIII. kafla laganna gegn flugrekendum að því er varðar alla losun frá flugi til og frá framangreindum svæðum.
    Undanþága vegna flugs flugrekenda sem eru ekki með flugrekstur í atvinnuskyni og annast flugferðir þar sem heildarlosun á ári er minni en 1.000 tonn verður framlengt til 31. desember 2030 í samræmi við tölulið 9 í 1. gr. reglugerðar ESB 2017/2392.
    Þá er lagt til að skýrt verði kveðið á um það að Umhverfisstofnun beri skylda til að endurúthluta losunarheimildum til flugrekenda á árinu 2018–2020 í samræmi við þrengt gildissvið viðskiptakerfisins.
    Með framlagningu ákvæðis til bráðabirgða, þar sem áfram verður kveðið á um þrengt gildissvið viðskiptakerfisins 2018–2023, verður dregið úr réttaróvissu varðandi úthlutun losunarheimilda í flugi 2018–2020. Umhverfisstofnun verður veitt heimild til að fresta úthlutun losunarheimilda líkt og gert var árið 2017 og tekinn verður af allur vafi um það hvaða skyldur hvíla á flugrekendum varðandi umfang skýrsluskila og skil á losunarheimildum vegna losunar frá flugstarfsemi á árinu 2018 til 2023.