Ferill 480. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1134  —  480. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018–2024.

Frá minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Minni hluti umhverfis- og samgöngunefndar telur nauðsynlegt að hlutur skógræktar verði skrifaður inn í byggðaáætlun með meira afgerandi hætti en gert er ráð fyrir í tillögunni.
    Þó skal tekið skýrt fram að minni hlutinn styður álit meiri hlutans að öðru leyti, nema þegar kemur að þætti skógræktarinnar.
    Minni hlutinn telur að markmið í skógrækt þurfi að vera skýrari og leggur til að skógrækt verði stórefld og þannig verði lagður grunnur að því að skógar framtíðarinnar verði undirstaða að gjöfulli, umhverfisvænni og arðbærri atvinnugrein hér á landi.
    Að auki telur minni hlutinn að skrifa þurfi aðgerðaáætlun inn í byggðaáætlunina til þess að ljóst sé til hvaða aðgerða þurfi að grípa til að ná markmiðunum, hverjir beri ábyrgð á verkefninu og hverjir séu samstarfsaðilar í því. Þetta er nauðsynlegt svo að unnt verði að hefja undirbúning að samstarfi viðkomandi aðila sem allra fyrst. Markmiðum verður ekki náð, að mati minni hlutans, nema a.m.k. 12 milljónum trjáa verði plantað árlega frá og með árinu 2023. Nauðsynlegt sé í þessu skyni að byggja upp á næstu fimm árum aðstöðu til ræktunar á trjám til gróðursetningar en nokkur ár tekur að ná því umfangi. Þess vegna er áríðandi að hefjast strax handa til þess að umræddu markmiði verði náð á tilsettum tíma.
    Tillögur minni hlutans um aukna áherslu á skógrækt í byggðaáætlun falla vel að áliti meiri hluta fjárlaganefndar um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun, þar sem segir m.a. um málefnasviðið 17 Umhverfismál: „Gert er ráð fyrir stórauknum fjárframlögum til að uppfylla markmið málefnasviðsins. Hér koma glögglega fram áherslur ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum og úrbætur á því sviði. Meiri hlutinn leggur áherslu á að forgangsraðað verði til skógræktarmála.“
    Um síðustu aldamót, er lög um landshlutabundin skógræktarverkefni voru samþykkt, voru sett fram markmið í lögunum um að rækta skóg á 5% láglendis (215.500 ha) fyrir árið 2040. Þessu markmiði verður ekki náð fyrr en 2130 miðað við þann hraða sem nú er á þessum framkvæmdum. Nú eru 3,1 milljónir plantna gróðursettar árlega. Ef framkvæmdahraði yrði hins vegar fjórfaldaður og árlegar gróðursetningar færu í eða yfir 12 milljónir plantna næst framangreint markmið árið 2055.
    Nýskógrækt með sjálfbærum skógarnytjum og endurheimt birkiskóga fellur vel að byggðaáætlun að mati minni hlutans.
    Skógræktarátak á síðustu áratugum 20. aldar er þegar farið að skila tekjum og efni til iðnaðar og húsagerðar sem sparar þannig gjaldeyri fyrir þjóðarbúið. Allt það sem gert verður í skógrækt skilar sér margfalt til baka næstu ár og áratugi.
    Íbúar þessa lands hafa um aldir búið við atvinnuvegi sem hafa sveiflast eftir árferði. Nú um stundir byggist velmegun í landinu á fáheyrðum vexti ferðaþjónustu sem enginn veit hvenær lægð kemur í. Skógar framtíðarinnar eru auðlind sem er ekki næm fyrir sveiflum í veðurfari og þannig geta skógarnir lagt grunn til langrar framtíðar að traustum atvinnuvegi vítt og breitt um landið. Skógarnir taka að skapa atvinnu og arð um leið og grisjun hefst.
    Um umhverfisþátt skógræktar þarf ekki að fjölyrða hér.
    Skógrækt til framtíðar styrkir dreifbýli og atvinnusköpun sérstaklega, og skilar þjóðarbúinu þeim mun hærri skatttekjum eftir því sem lengra líður. Einnig eykur skógrækt verðmæti bújarða og hækkar lánshæfismat bænda. Skógrækt gefur aukna möguleika á uppbyggingu nýrra atvinnuvega í dreifbýli. Skógur bætir búsetu- og ræktunarskilyrði fyrir akurrækt og húsdýr fá skjól í skógum og við skjólbelti.
    Samhliða því verkefni að fjórfalda nýskógrækt á Íslandi þarf að vinna landshluta- og landsáætlun í skógrækt í samvinnu ríkis og sveitarfélaga.
    Að framansögðu virtu leggur minni hlutinn til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi:

BREYTINGU:


     1.      Við B-lið II. kafla bætist nýr stafliður, p-liður, svohljóðandi: Skógrækt verði stórefld sem atvinnugrein til langrar framtíðar með áherslu á landshlutaáætlanir í skógrækt og þróun og nýtingu skógarafurða.
     2.      Við B-lið IV. kafla bætist nýr liður, B.19, svohljóðandi:

B.19. Atvinnuuppbygging með skógrækt.

Verkefnismarkmið: Að stórefla skógrækt á Íslandi (12 milljónum trjáa plantað á ári frá 2023) með það að markmiði að styðja við atvinnuuppbyggingu í byggðum landsins til framtíðar.
    Jarðeigendur fái faglega og fjárhagslega aðstoð frá landshlutaverkefnum í skógrækt til að efla skógrækt sem auki atvinnu við ræktun, grisjun, umhirðu og nýtingu skóga til langrar framtíðar í dreifðari byggðum. Skógræktin taki ákvörðun um einstök verkefni á grundvelli svæðisbundinna skógræktaráætlana sem unnar verða með landshlutaverkefnum og í samráði við sveitarfélög, skógarbændur og hagsmunaaðila á hverju svæði fyrir sig.
    Árangur af verkefninu verði mældur með fjölda plantaðra trjáa og fjölda skógræktarverkefna á tímabilinu.
     Ábyrgð: Umhverfis- og auðlindaráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Skógræktin.
     Dæmi um samstarfsaðila: Sveitarfélög, landeigendur, landshlutaverkefni í skógrækt.
     Tímabil: 2019–2024.
     Tillaga að fjármögnun: Umhverfis- og auðlindaráðuneyti.

Alþingi, 6. júní 2018.

Karl Gauti Hjaltason.