Ferill 480. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Nr. 24/148.

Þingskjal 1242  —  480. mál.


Þingsályktun

um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018–2024.


    Alþingi ályktar, sbr. lög um byggðaáætlun og sóknaráætlanir, nr. 69/2015, að fela ríkisstjórninni að vinna að framkvæmd eftirfarandi stefnu og aðgerðaáætlunar í byggðamálum og að gert verði ráð fyrir framkvæmdinni við gerð fjárlaga hvers árs.

I. FRAMTÍÐARSÝN OG VIÐFANGSEFNI

    Ísland verði í fararbroddi með nútímainnviði, framsækna þjónustu, verðmætasköpun, jöfn lífsgæði og öflug sveitarfélög sem geti annast staðbundin verkefni og veitt íbúum hagkvæma og góða þjónustu með markmið sjálfbærrar þróunar að leiðarljósi. Nýjasta tækni tengi byggðir og Ísland við umheiminn í jafnvægi við umhverfið.
    Í öllum landshlutum verði blómlegar byggðir og öflugir byggðakjarnar þar sem stuðlað verði að bættum lífskjörum landsmanna með sem jöfnustu aðgengi að grunnþjónustu og atvinnutækifærum óháð efnahag og búsetu. Grunnþjónusta verði veitt íbúum sem mest í nærsamfélagi. Á höfuðborgarsvæðinu verði miðstöð opinberrar stjórnsýslu og miðlægrar þjónustu sem allir landsmenn hafi gott aðgengi að.
    Byggðamál verði samþætt við aðra málaflokka eftir því sem við á. Í allri stefnumörkun og áætlanagerð hins opinbera verði áhrif á þróun einstakra byggða og búsetu skoðuð og metin.
    Helstu viðfangsefni byggðaáætlunar verði að takast á við fækkun íbúa á einstökum svæðum, einhæft atvinnulíf, tæknibreytingar og þróun og aðlögun er varðar einstakar atvinnugreinar, að skilgreina nauðsynlegar mótvægisaðgerðir og aðlögun vegna áhrifa loftslagsbreytinga, að tryggja greiðar samgöngur og aðgengi að þjónustu og bregðast við harðnandi alþjóðlegri samkeppni um fólk og fyrirtæki. Lögð verði sérstök áhersla á svæði sem standa höllum fæti í þessu samhengi.

II. MARKMIÐ, ÁHERSLUR OG MÆLIKVARÐAR

    Markmið stjórnvalda eru að:
     a.      jafna aðgengi að þjónustu,
     b.      jafna tækifæri til atvinnu,
     c.      stuðla að sjálfbærri þróun byggða um allt land.
    Eftirfarandi áherslur leiði til beinna og skilgreindra aðgerða eða til samþættingar við aðgerðir í öðrum opinberum áætlunum til að framangreindum markmiðum verði náð.

A. Aðgengi að þjónustu.
     a.      Öll heimili og vinnustaðir eigi kost á tengingu við ljósleiðara eða háhraðanet árið 2020.
     b.      Stuðlað verði að því að verslun á dreifbýlum svæðum, fjarri stórum þjónustukjörnum, verði viðhaldið. Jafnframt verði skoðað hvernig netþjónusta geti nýst sem verslunarmáti.
     c.      Aðgengi landsmanna að grunnþjónustu verði jafnað og kostnaður við að sækja afþreyingu til höfuðborgarinnar verði lækkaður.
     d.      Net almenningssamgangna á landinu öllu verði skilgreint og reglur mótaðar um niðurgreiðslu fargjalda.
     e.      Hvatt verði til notkunar fjölbreyttra sjálfbærra samgöngumáta, svo sem göngu og hjólreiða.
     f.      Orkukostnaður heimila verði jafnaður, starf eflt við uppsetningu á varmadælum og hugað að nýtingu lífræns úrgangs til orkuvinnslu.
     g.      Áfram verði unnið að þróun dreifnáms á framhaldsskólastigi.
     h.      Grunngerð fræðsluneta og símenntunarstöðva verði efld með það að markmiði að bæta tæknilegan útbúnað stöðvanna, aðstöðu til fjarnáms og aðgengi að námsráðgjöf og að auka getu stöðvanna til að mæta þörfum nemenda fyrir þjónustu.
     i.      Tekið verði tillit til ólíkrar stöðu einstakra aðila sem koma að framhaldsfræðslu á landsbyggðinni, m.a. hvað varðar grunngerð stöðvanna og nauðsyn dreifðrar þjónustu.
     j.      Börn og ungmenni fái aðgang að menningu og listum óháð búsetu og efnahag, svo sem með auknu framboði á vönduðum og fjölbreyttum listviðburðum.
     k.      Sveitarfélög og landshlutasamtök þeirra verði hvött til að skoða möguleikana á því að styrkja rekstur safna, setra og sýninga með sameiningu eða samrekstri.
     l.      Heilbrigðis- og velferðaráætlanir fái þinglega meðferð sem opinberar áætlanir. Grunnþjónusta heilbrigðis- og velferðarþjónustu verði skilgreind sem og hvernig réttur landsmanna til hennar verði tryggður óháð búsetu. Heilbrigðisáætlanir lýsi glögglega fyrirhuguðum starfsháttum og samstarfi heilbrigðisstofnana.
     m.      Mótuð verði stefna um opinbera þjónustu með það að markmiði að íbúar landsins, óháð búsetu, njóti sama aðgengis að grunnþjónustu.
     n.      Öruggir sjúkraflutningar um land allt verði tryggðir.
    Mælikvarðar sem styðjast ber við til að meta framgang markmiðs:
     i.      Hlutfall heimila/fyrirtækja í dreifbýli með aðgang að ljósleiðaratengingu.
     ii.      Hlutfall þeirra sem eru í innan við 30 kílómetra fjarlægð frá heilsugæslustöð, grunnskóla og dagvöruverslun.

B. Tækifæri til atvinnu.
     a.      Fjármunir verði tryggðir til framkvæmda á tillögum í samgönguáætlun, einkum hvað varðar innanhéraðsvegi, tvíbreiðar brýr og öruggar samgöngur á grundvelli vinnu- og þjónustusóknarsvæða og stækkunar þeirra.
     b.      Flutnings- og dreifikerfi raforku mæti þörfum atvinnulífs og almennings alls staðar á landinu hvað varðar flutningsgetu og öryggi við afhendingu og kostir smávirkjana verði kannaðir.
     c.      Stuðlað verði að notkun á vistvænni orku í stað jarðefnaeldsneytis.
     d.      Tryggðir verði fjármunir til uppbyggingar og viðhalds ferðamannastaða með gjaldtöku og breyttri skiptingu á skatttekjum þannig að hlutur sveitarfélaga verði meiri.
     e.      Tryggður verði byggðalegur árangur af úthlutun byggðakvóta.
     f.      Bændum verði auðvelduð kynslóðaskipti í landbúnaði og að bregðast við kröfum um bættan aðbúnað bústofns með lánum á viðráðanlegum kjörum.
     g.      Veitt verði betra aðgengi að fjármagni til nýsköpunar.
     h.      Aðstöðumunur á millilandaflugvöllum verði jafnaður.
     i.      Opinberum aðilum verði falið að skilgreina störf og auglýsa þau án staðsetningar.
     j.      Metnir verði kostir þess að staðsetja nýja starfsemi á vegum ríkisins utan höfuðborgarsvæðisins.
     k.      Stuðlað verði að aukinni fullvinnslu afurða í héraði.
     l.      Áfram verði unnið að því að efla skapandi greinar sem vaxandi atvinnuveg á Íslandi.
     m.      Ríki og sveitarfélög vinni að því að auka möguleika listamanna til búsetu um allt land og skapi skilyrði til atvinnustarfsemi á sviði lista á öllu landinu.
     n.      Unnin verði stefnumótun og skilgreining á hlutverkum menningarmiðstöðva og sambærilegra stofnana á landsvísu líkt og gert er í nágrannalöndunum.
     o.      Gætt verði að misræmi milli þarfa atvinnulífs og framboðs háskólamenntaðra, eða svokölluðu færnimisræmi.
     p.      Skógrækt verði efld sem atvinnugrein með áherslu á landshlutaáætlanir í skógrækt og þróun nýtingar skógarafurða.
    Mælikvarðar sem styðjast ber við til að meta framgang markmiðs:
     i.      Atvinnuþátttaka og meðalatvinnutekjur á atvinnugreinasvæðum.
     ii.      Fjöldi starfa í ráðuneytum og stofnunum skilgreindur „án staðsetningar“.

C. Sjálfbær þróun byggða um land allt.
     a.      Mótuð verði höfuðborgarstefna sem skilgreini hlutverk Reykjavíkur fyrir byggðaþróun í landinu og stöðu hennar á landsvísu og gagnvart erlendum borgum.
     b.      Verkefninu „Brothættar byggðir“ verði haldið áfram.
     c.      Lögð verði til breyting á lögum um almennar íbúðir sem geri ríki og sveitarfélögum mögulegt að veita einstaklingum stofnstyrki til að byggja íbúðarhúsnæði á svæðum þar sem misgengi byggingarkostnaðar og söluverðs er mikið.
     d.      Skoðaðir verði kostir þess að nýta námslánakerfið og önnur kerfi sem hvata fyrir fólk til að setjast að í dreifðum byggðum.
     e.      Þjónusta við innflytjendur verði aukin og skilyrði þeirra til aðlögunar bætt vegna mikillar fyrirsjáanlegrar fjölgunar þeirra á næstu árum.
     f.      Stutt verði við nýsköpun og tækniþróun í velferðarþjónustu um land allt.
     g.      Starfsemi fjölmiðla utan höfuðborgarsvæðisins verði efld.
     h.      Háskólar leggi áherslu á fjölbreytt framboð námsleiða í fjarnámi. Háskólar efli enn frekar samstarf sitt um sameiginlegar prófgráður svo að nemendum gefist fleiri tækifæri til að setja saman nám sitt að eigin vali.
     i.      Unnið verði nánar úr samanburðarhæfum rannsóknum á högum, líðan og aðstæðum barna og ungmenna fyrir alla landshluta.
     j.      Tryggt verði að íþróttafélög sem hafa um lengstan veg að fara hafi mest vægi við úthlutun ferðastyrkja til íþrótta.
     k.      Íþróttaiðkun verði efld þannig að allir hafi jafna möguleika til að taka þátt í viðurkenndum mótum.
     l.      Aðferðafræði vegna sóknaráætlana verði þróuð áfram og byggð á virku samráði og samvinnu sveitarfélaga og samvinnu þeirra og ríkisins í gegnum stýrihóp Stjórnarráðsins um byggðamál og landshlutasamtök sveitarfélaga.
     m.      Sveitarfélög á hverju svæði sóknaráætlana verði hvött til samstarfs um gerð svæðisskipulags til að marka sameiginlega stefnu um málefni sem varða sameiginlega hagsmuni innan landshlutans. Sveitarfélögin eru jafnframt hvött til að skilgreina meginkjarna í hverjum landshluta og vinnusóknar- og þjónustusvæði þeirra. Í stefnumörkun fyrir eða innan landshluta verði fjallað um loftslagsbreytingar, möguleg áhrif þeirra, aðlögun og mótvægisaðgerðir, t.d. í svæðisskipulagi, þar sem m.a. verði horft til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda tengdri atvinnugreinum í héraði og breyttri landnotkun, svo sem með endurheimt votlendis eða annarra vistkerfa og bindingu í jarðvegi og gróðri eða með aðgerðum til vitundarvakningar meðal íbúa og gesta.
     n.      Unnar verði upplýsingar um þróun borgarsvæða á landinu, samanburðarhæfar við upplýsingar um erlend borgarsvæði, til grundvallar fyrir stefnumótun fyrir höfuðborgarsvæðið og aðra landshluta.
     o.      Fræðilegar rannsóknir á sviði byggðamála verði efldar til grundvallar allri stefnumótun.
     p.      Þátttaka í alþjóðlegu samstarfi á sviði byggðamála sé virk, svo sem á vettvangi NORA, Nordregio, norðurslóðaáætlunar Evrópusambandsins og ESPON.
     q.      Matvælaframleiðslu verði viðhaldið sem víðast um landið.
    Mælikvarðar sem styðjast ber við til að meta framgang markmiðs:
     i.      Framfærsluhlutfall.
     ii.      Lýðfræðilegir veikleikar.

III. SAMÞÆTTING VIÐ AÐRAR STEFNUR OG ÁÆTLANIR

    Alþingi ályktar að náið samráð milli ráðuneyta, stofnana ríkisins, sveitarfélaga, atvinnulífs og borgarsamfélags sé mikilvægt við framkvæmd byggðastefnu. Með því móti verði tryggð samhæfing við aðra stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera. Meðal aðgerða sem horft verði til í því sambandi eru eftirfarandi:
     a.      Regluleg umræða fari fram á vettvangi ríkisstjórnarinnar um stöðu og framkvæmd byggðaáætlunar og tækifæri til samþættingar.
     b.      Stýrihópur Stjórnarráðsins um byggðamál verði efldur.
     c.      Tryggð verði fagleg aðkoma Byggðastofnunar að framkvæmd og eftirfylgni byggðaáætlunar.
     d.      Þjónustukort sýni aðgengi landsmanna að opinberri þjónustu og útbúið verði mælaborð sem varpi ljósi á stöðu og framvindu byggðamála.
     e.      Samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga og landshlutasamtök sveitarfélaga sé virkt.
     f.      Tryggð verði regluleg skýrslugjöf til Alþingis.
     g.      Fram fari kerfisbundin miðlun upplýsinga, rannsóknir, fræðsla og alþjóðlegur samanburður.
    Við framkvæmd laga um opinber fjármál verði fjallað sérstaklega um byggðasjónarmið í tengslum við mótun og framlagningu fjármálaáætlunar og fjárlaga hvers árs.

IV. AÐGERÐAÁÆTLUN

    Alþingi ályktar að unnið skuli í samræmi við eftirfarandi aðgerðaáætlun til að tryggja framgang markmiða byggðaáætlunar:

A. Aðgengi að þjónustu.
A.1. Ísland ljóstengt.
     Verkefnismarkmið: Að öll lögheimili og fyrirtæki með heilsársbúsetu eða starfsemi í dreifbýli eigi kost á ljósleiðaratengingu.
    Veittir verði byggðastyrkir til tiltekinna strjálbýlla sveitarfélaga og þeim gert hægara um vik við lagningu ljósleiðarakerfa. Byggðarlög sem búa við veikan fjárhag, mjög dreifða byggð, neikvæða byggðaþróun og lágt hlutfall háhraðanettenginga njóti forgangs. Við lok verkefnis árið 2020 eigi 99,9% lögheimila/fyrirtækja með heilsársbúsetu/starfsemi í dreifbýli kost á minnst 100 Mb/s þráðbundinni nettengingu.
     Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið.
     Framkvæmdaraðili: Sveitarfélögin.
     Dæmi um samstarfsaðila: Fjarskiptasjóður.
     Tímabil: 2018–2020.
     Tillaga að fjármögnun: 300 millj. kr. úr byggðaáætlun.

A.2. Þjónustukort.
     Verkefnismarkmið: Að fá trausta sýn á aðgengi landsmanna að þjónustu.
    Unnið verði þjónustukort sem sýni með myndrænum hætti aðgengi landsmanna að þjónustu hins opinbera og einkaaðila. Við lok verkefnis liggi fyrir gagnagrunnur og myndræn framsetning sem hægt verði að nýta til frekari stefnumörkunar og mótunar aðgerðaáætlunar í byggðamálum.
     Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið.
     Framkvæmdaraðili: Byggðastofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Ráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, landshlutasamtök sveitarfélaga og sveitarfélög.
     Tímabil: 2018–2019.
     Tillaga að fjármögnun: 20 millj. kr. úr byggðaáætlun.

A.3. Efling rannsókna og vísindastarfsemi.
     Verkefnismarkmið: Að auka rannsóknavirkni, vísindastarfsemi og nýsköpun á landsbyggðinni.
    Efla skal grunngerð og afl þekkingar- og rannsóknasetra sem byggjast á svæðisbundinni sérstöðu samfélags, atvinnulífs og/eða náttúru. Stuðlað verði að faglegum tengslum þeirra á milli og við háskóla, rannsóknastofnanir og fyrirtæki. Með enn frekara samstarfi verði mannauður og aðstaða nýtt betur og aðgengi nemenda og fræðimanna að auðlindum menningar og náttúru landsins stóraukið. Árangur af verkefninu verði mældur með fjölda samstarfssamninga, fjölda nemenda í meistara- og doktorsnámi sem nýta starfsaðstöðu og umhverfi setranna og þátttöku í rannsóknaverkefnum.
     Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.
     Dæmi um samstarfsaðila: Háskólar, rannsóknastofnanir, þekkingar- og rannsóknasetur, Þjóðminjasafnið og bókasöfn.
     Tímabil: 2018–2024.
     Tillaga að fjármögnun: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.

A.4. Þverfagleg landshlutateymi.
     Verkefnismarkmið: Að styrkja og auka heildstæða þjónustu á sviði félags-, heilbrigðis- og menntamála.
    Ráðist verði í tilraunaverkefni sem miði að því að koma á fót þverfaglegum landshlutateymum sem sinni samhæfingu, ráðgjöf, gæðamálum og fleiru á sviði félags-, heilbrigðis- og menntamála. Um gæti verið að ræða miðstöðvar sem verði hluti af heildstæðri þjónustukeðju sveitarfélaga og ríkis á umræddum sviðum. Þar gæti t.d. byggst upp kunnátta til að veita starfsfólki sveitarfélaga og foreldrum sérhæfða stað- og fjarbundna ráðgjöf sem miði m.a. að því að fyrr megi beita snemmtæku og fyrirbyggjandi inngripi. Þá verði hægt að vinna að verkefnum sem miði að því að styðja notendur í dreifðum byggðum til sjálfshjálpar þar sem ekki er auðveldur aðgangur að sérfræðingum. Þetta verði gert með þróun nýrra tæknilausna sem geri þeim mögulegt að eiga samskipti við starfsmenn félagsþjónustu á sviði barnaverndar og þjónustu við fatlað fólk og aldraða auk innflytjenda. Stefnt verði að því koma á fót a.m.k. tveimur landshlutateymum á þessum forsendum.
     Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, velferðarráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Ýmsir.
     Dæmi um samstarfsaðila: Stofnanir á sviði félags-, heilbrigðis- og menntamála, sveitarfélög, landshlutasamtök sveitarfélaga og Samband íslenskra sveitarfélaga.
     Tímabil: 2019–2024.
     Tillaga að fjármögnun: 60 millj. kr. úr byggðaáætlun.

A.5. Fjarheilbrigðisþjónusta.
     Verkefnismarkmið: Að bæta heilbrigðisþjónustu með því að nýta nýjustu tækni og fjarskipti við framkvæmd þjónustu.
    Með innleiðingu fjarheilbrigðisþjónustu verði leitast við að jafna aðgengi almennings að almennri og sérhæfðri heilbrigðisþjónustu, svo sem að læknum, hjúkrunarfræðingum, ljósmæðrum, sálfræðingum og talmeinafræðingum. Jafnframt verði rafræn miðlun heilbrigðisþjónustu nýtt til að auka aðgengi að sérfræðiþekkingu og þar með gagnkvæmri faglegri ráðgjöf, samráði og samstarfi og með þeim hætti verði teymisvinna auðvelduð innan heilbrigðisþjónustunnar. Árangur af verkefninu verði t.d. mældur með fjölda þeirra sem nýta sér sérfræðiþjónustu í gegnum netið.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Þróunarmiðstöð heilsugæslunnar.
     Dæmi um samstarfsaðila: Heilbrigðisstofnanir um land allt, landshlutasamtök sveitarfélaga og sveitarfélög.
     Tímabil: 2018–2024.
     Tillaga að fjármögnun: 140 millj. kr. úr byggðaáætlun.

A.6. Héraðslækningar.
     Verkefnismarkmið: Að fjölga heilsugæslulæknum á landsbyggðinni með því að koma á tveggja ára námi sem býr heilsugæslulækna undir starf í dreifbýli.
    Unnið verði að frekari kortlagningu, greiningu og þróun náms sem býr heilsugæslulækna undir starf í dreifbýli. Ráðinn verði kennslustjóri og skipuð kennslunefnd. Stefnt verði að því að bjóða upp á námið eigi síðar en 2020.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Þróunarmiðstöð heilsugæslunnar.
     Dæmi um samstarfsaðila: Mennta- og menningarmálaráðuneyti, heilbrigðisstofnanir utan höfuðborgarsvæðisins, vinnuhópur Félags íslenskra heimilislækna um gerð marklýsingar, mats- og hæfisnefnd um starfsnám til að öðlast almennt lækningaleyfi og um sérnám í læknisfræði og Háskólinn á Akureyri.
     Tímabil: 2019–2020.
     Tillaga að fjármögnun: 2,5 millj. kr. úr byggðaáætlun.

A.7. Fæðingarþjónusta og mæðravernd.
     Verkefnismarkmið: Að tryggja aðgengi að þjónustu vegna meðgöngu og fæðingar.
    Aðgengi að almennri heilbrigðisþjónustu vegna meðgöngu og fæðingar verði skilgreint fyrir hvern landshluta auk þess sem öryggisþjónusta verði tryggð. Settar verði reglur um styrki til greiðslu ferðakostnaðar til foreldra sem bíða fæðingar barns fjarri heimabyggð.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Landspítali.
     Dæmi um samstarfsaðila: Sjúkrahúsið á Akureyri og aðrar heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni.
     Tímabil: 2018–2019.
     Tillaga að fjármögnun: Velferðarráðuneyti.

A.8. Jöfnun flutningskostnaðar vegna verslunar.
     Verkefnismarkmið: Að skjóta styrkari stoðum undir verslun í dreifbýli og minna þéttbýli.
    Skipaður verði starfshópur til þess að gera tillögu að endurgreiðslu á kostnaði verslana við flutning aðfanga. Tillögurnar miði að því að verslanir sem eru í a.m.k. 150 km akstursfjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu, 75 km akstursfjarlægð frá Akureyri og 40 km akstursfjarlægð frá byggðakjörnum með yfir 1.000 íbúa, auk Grímseyjar og Hríseyjar, eigi kost á endurgreiðslu á hluta flutningskostnaðar endursöluvara. Starfshópurinn skili tillögum eigi síðar en 1. desember 2018.
     Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.
    Framkvæmdaraðili: Byggðastofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Sveitarfélög og atvinnuráðgjöf landshluta.
     Tímabil: 2018–2024.
     Tillaga að fjármögnun: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.

A.9. Verslun í strjálbýli.
     Verkefnismarkmið: Að styðja verslun í strjálbýli.
    Verslunarrekendum á tilteknum stöðum í strjálbýli verði boðið upp á sérhæfða ráðgjöf til að bæta rekstur verslana sinna og skjóta frekari stoðum undir hann, m.a. með samspili við aðra þjónustu, breyttri uppsetningu í verslunum og bættri aðkomu. Leitað verði fyrirmyndar í svokölluðu Merkur-verkefni í Noregi þar sem er víða boðið upp á aðra þjónustu, svo sem póstafgreiðslu, kaffihorn, sölu lottómiða, þjónustu við ferðafólk, upplýsingamiðstöð o.s.frv. Jafnframt verði stuðst við fyrirmynd í rekstri Blábankans á Þingeyri.
     Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Byggðastofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Sveitarfélög og atvinnuráðgjöf landshluta.
     Tímabil: 2019–2021.
     Tillaga að fjármögnun: 55 millj. kr. úr byggðaáætlun.

A.10. Almenningssamgöngur um land allt.
     Verkefnismarkmið: Að styðja við áframhaldandi þróun almenningssamgangna um land allt.
    Stutt verði við leiðir sem hafa mikilvægu hlutverki að gegna út frá byggðalegum sjónarmiðum. Hugað verði að nýtingu vistvænna orkugjafa. Árangur af verkefninu verði m.a. mældur með fjölda þeirra sem nota almenningssamgöngur.
     Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Landshlutasamtök sveitarfélaga og Vegagerðin.
     Dæmi um samstarfsaðila: Sveitarfélög og ferðaþjónustufyrirtæki.
     Tímabil: 2019–2022.
     Tillaga að fjármögnun: 107,5 millj. kr. úr byggðaáætlun.

A.11. Flug sem almenningssamgöngur.
     Verkefnismarkmið: Að innanlandsflug verði raunhæfur kostur fyrir íbúa landsbyggðarinnar.
    Innanlandsflug verði skilgreint sem hluti almenningssamgangnakerfisins. Starfshópur móti reglur sem geri innanlandsflug að raunhæfum valkosti fyrir íbúa með lögheimili á tilteknum svæðum. Styrkur verði veittur einstaklingum en ekki fyrirtækjum eða stofnunum, m.a. mætti hafa hina svokölluðu „skosku leið“ til hliðsjónar. Stefnt skal að því að vinnu starfshóps verði lokið fyrir árslok 2018 og niðurgreiðslur hefjist árið 2019.
     Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.
     Dæmi um samstarfsaðila: Vegagerðin, landshlutasamtök sveitarfélaga, stéttarfélög og flugrekendur.
     Tímabil: 2018–2024.
     Tillaga að fjármögnun: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.

A.12. Akstursþjónusta í dreifbýli.
     Verkefnismarkmið: Að auka aðgengi að skipulagðri akstursþjónustu í dreifbýli.
    Unnið verði að gerð tillagna um stuðning við skipulagða akstursþjónustu í dreifbýli sem einkum mæti þörfum fatlaðs fólks og annarra sem búa við aðstöðumun gagnvart almenningssamgöngum. Horft verði til núverandi fyrirkomulags á miðlægum stuðningi við skólaakstur úr dreifbýli.
     Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Jöfnunarsjóður sveitarfélaga.
     Dæmi um samstarfsaðila: Velferðarráðuneyti, Öryrkjabandalag Íslands og sveitarfélög.
     Tímabil: 2019–2021.
     Tillaga að fjármögnun: Jöfnunarsjóður sveitarfélaga.

A.13. Nærþjónusta við innflytjendur.
     Verkefnismarkmið: Að auðvelda aðgengi innflytjenda að opinberri þjónustu.
    Undirbúa skal fræðslu og þjálfun sem efli starfsfólk ríkis og sveitarfélaga til að veita sérfræðiaðstoð og stuðning í málefnum innflytjenda. Hugað verði sérstaklega að nýjum innflytjendum að því er varðar upplýsingagjöf um þjónustu og íslenskukennslu í heimabyggð. Fjölmenningarsetur fái það hlutverk á grundvelli fjárframlags að veita sérfræðiaðstoð og stuðning til sveitarfélaga. Gerð verði tilraun með þekkingarbókhald hjá sveitarfélögum með fleiri en 1.000 íbúa þar sem menntun og færni hvers og eins verði kortlögð og greind með tilliti til framtíðarstarfa í sveitarfélaginu. Byrjað verði með tilraunaverkefni hjá fimm sveitarfélögum.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Fjölmenningarsetrið og símenntunarstöðvar.
     Dæmi um samstarfsaðila: Samband íslenskra sveitarfélaga, sveitarfélög og Vinnumálastofnun.
     Tímabil: 2018–2021.
     Tillaga að fjármögnun: 20 millj. kr. úr byggðaáætlun.

A.14. Jöfnun orkukostnaðar.
     Verkefnismarkmið: Að stuðla að aukinni jöfnun orkukostnaðar í dreifbýli og þéttbýli, bæði hvað varðar dreifingu á raforku og húshitunarkostnað.
    Unnið verði að því að jafna mun á orkukostnaði, t.d. hvað varðar húshitunarkostnað, sem er mun hærri á þeim stöðum sem ekki búa við möguleika á hitaveitu með jarðvarma.
     Ábyrgð: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Orkustofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Byggðastofnun.
     Tímabil: Viðvarandi.
     Tillaga að fjármögnun: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

A.15. Uppbygging innviða fyrir endurnýjanlega orku á landi og í höfnum.
     Verkefnismarkmið: Að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka hlutfall vistvænna orkugjafa.
    Haldið verði áfram uppbyggingu innviða fyrir vistvænar bifreiðar, t.d. hleðslustöðvar, og innviðir fyrir rafvæðingu hafna styrktir, þ.m.t. aðgengi að raforkutengingum í höfnum. Árangur verkefnisins verði mældur í fjölda innviða og aukinni notkun vistvænna orkugjafa.
     Ábyrgð: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Orkusjóður.
     Dæmi um samstarfsaðila: Orkustofnun, Orkusetur, Íslensk nýorka, Græna orkan, Hafnasamband Íslands, Samorka, Hafið og Landsnet.
     Tímabil: 2019–2021 (fyrra tímabil var 2016–2018).
     Tillaga að fjármögnun: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

A.16. Hagnýting upplýsingatækni til háskólanáms.
     Verkefnismarkmið: Að bæta aðgengi að námi á háskólastigi.
    Aukin áhersla verði lögð á fjölbreytt námsframboð háskóla í fjarnámi, m.a. með auknu samstarfi háskóla um sameiginlegar prófgráður. Efla skal grunngerð fræðsluaðila með það að markmiði að bæta tæknilegan útbúnað þeirra, aðstöðu fyrir nemendur, námsráðgjöf og fleira. Árangur af verkefninu verði m.a. mældur í fjölda háskólanema í stað- og fjarkennslu, námsframboði háskóla í fjarnámi og hækkuðu menntunarstigi.
     Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Háskólar og fræðsluaðilar.
     Dæmi um samstarfsaðila: Þekkingarsetur, háskólafélög, þekkingarnet, símenntunarstöðvar, fræðslunet, framhaldsskólar og landshlutasamtök sveitarfélaga.
     Tímabil: 2018–2024.
     Tillaga að fjármögnun: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.

A.17. Svæðisbundin flutningsjöfnun.
     Verkefnismarkmið: Að endurskoða lög um svæðisbundna flutningsjöfnun, nr. 160/2011.
    Skoðaðir verða möguleikar til breytinga á styrkjum til framleiðslufyrirtækja, svo sem svigrúm til hækkunar á hlutfalli styrks vegna ástands vega, stytting á lágmarksvegalengd og það að bæta við atvinnugreinum. Stefnt verði að því að breyting á lögum verði samþykkt á Alþingi fyrir árslok 2018.
     Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.
     Dæmi um samstarfsaðila: Byggðastofnun.
     Tímabil: 2018.
     Tillaga að fjármögnun: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.

A.18. Skilgreining opinberrar þjónustu og jöfnun aðgengis.
     Verkefnismarkmið: Að íbúar landsins, óháð búsetu, hafi jafnt aðgengi að opinberri grunnþjónustu með bættum aðstæðum og tæknilausnum.
    Skilgreindur verði réttur fólks til opinberrar grunnþjónustu, svo sem heilbrigðisþjónustu, löggæslu, menntunar, samgangna og fjarskipta. Þegar skilgreining liggur fyrir verði unnar tillögur um tæknilega framkvæmd og jöfnun kostnaðar við að sækja einstaka þætti þjónustu á vegum ríkisins og gerðar tillögur um það í langtímaáætlun eigi síðar en árið 2021.
     Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið.
     Framkvæmdaraðili: Byggðastofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Ráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, landshlutasamtök sveitarfélaga og sveitarfélög.
     Tímabil: 2019–2021.
     Tillaga að fjármögnun: 3 millj. kr. úr byggðaáætlun.

A.19. Aðgangur að geðheilbrigðisþjónustu.
     Verkefnismarkmið: Að styðja við stefnu og aðgerðaáætlun velferðarráðuneytisins í geðheilbrigðismálum.
    Komið verði á laggirnar geðheilsuteymum í þeim landshlutum þar sem þau eru ekki þegar starfandi og áhersla lögð á sálfræðiþjónustu við börn og ungmenni. Sérstaklega verði hugað að því að nemar í framhaldsskólum hafi aðgang að viðeigandi geðheilbrigðisþjónustu. Einnig verði hugað vel að geðheilsu og vellíðan aldraðs fólks, m.a. í ljósi vísbendinga um vaxandi einangrun og einmanaleika meðal þess. Þá verði geðheilbrigðisþjónusta við aðra hópa efld, t.d. fanga, fólk með þroskahömlun og fólk með áfengis- og vímuvanda. Stefnt verði að því að geðheilsuteymi hafi tekið til starfa í öllum landshlutum í lok árs 2019.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
     Framkvæmdaraðili: Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og heilbrigðisstofnanir um land allt.
     Dæmi um samstarfsaðila: Heilbrigðisstofnanir, Samband íslenskra sveitarfélaga, sveitarfélög, Öryrkjabandalag Íslands og notendasamtök.
     Tímabil: 2018–2020.
     Tillaga að fjármagni: 5 millj. kr. úr byggðaáætlun.

A.20. Aðgangur að þjónustu sérfræðilækna.
     Verkefnismarkmið: Að jafna aðgang að heilbrigðisþjónustu, óháð búsetu.
    Stefnt verði að því að þjónusta sérfræðilækna á heilbrigðisstofnunum utan höfuðborgarsvæðisins verði í auknum mæli veitt af sérfræðingum starfandi á heilbrigðisstofnunum, með samningum við sérhæfðu sjúkrahúsin.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
     Framkvæmdaraðili: Heilbrigðisstofnanir ásamt sérhæfðu sjúkrahúsunum.
     Dæmi um samstarfsaðila: Sjúkratryggingar Íslands, samtök sérfræðilækna.
     Tímabil: 2018–2020.
     Tillaga að fjármagni: 5 millj. kr. úr byggðaáætlun.

B. Tækifæri til atvinnu.
B.1. Þrífösun rafmagns.
     Verkefnismarkmið: Að dreifikerfi rafmagns mæti þörfum heimila og fyrirtækja, með sérstakri áherslu á dreifingu raforku og afhendingaröryggi raforku í dreifbýli.
    Skoðað verði að veita styrki úr Orkusjóði til að greiða hluta af flýtigjaldi sem Rarik tekur fyrir að færa framkvæmdir framar í röðina. Jafnframt verði kannað að veita beina styrki til sveitarfélaga og skoða samlegðaráhrif með lagningu ljósleiðarakerfa.
     Ábyrgð: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Orkusjóður.
     Dæmi um samstarfsaðila: Orkustofnun, Rarik, Orkubú Vestfjarða og landshlutasamtök sveitarfélaga.
     Tímabil: 2019–2024.
     Tillaga að fjármögnun: 400 millj. kr. úr byggðaáætlun.
    
B.2. Flutningskerfi raforku og aukið orkuöryggi.
     Verkefnismarkmið: Að auka orkuöryggi og efla flutningskerfi raforku.
    Áfram verði unnið að því að liðka fyrir nauðsynlegri uppbyggingu og viðhaldi á flutnings- og dreifikerfi raforku, tengja betur lykilsvæði og tryggja afhendingaröryggi um land allt til að mæta þörfum almennings og atvinnulífs.
     Ábyrgð: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
     Dæmi um samstarfsaðila: Orkustofnun, Landsnet og landshlutasamtök sveitarfélaga.
     Tímabil: 2019–2024.
     Tillaga að fjármögnun: 60 millj. kr. úr byggðaáætlun.

B.3. Stuðningur við byggingu smávirkjana.
     Verkefnismarkmið: Að kanna og styðja möguleika á aukinni raforkuframleiðslu á landsbyggðinni með smávirkjunum og efla þar með orkuöryggi á landsvísu.
    Orkustofnun og sveitarfélög kanni möguleika á staðbundnum lausnum í orkumálum með því að kortleggja mögulega smærri virkjunarkosti á landsbyggðinni (allt að 10 MW). Ráðist verði í uppfærslu á gagnagrunni Orkustofnunar um smærri vatnsaflsvirkjanir og samvinnu við Veðurstofuna um rennslislíkan. Verkefnið feli einnig í sér forhönnun virkjunarkosta og fræðsluátak. Verkefnið verði ekki bundið við vatnsaflsvirkjanir.
     Ábyrgð: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Orkustofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Landshlutasamtök sveitarfélaga.
     Tímabil: 2018–2022.
     Tillaga að fjármögnun: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

B.4. Hagstæð lán fyrir landbúnað.
     Verkefnismarkmið: Að stuðla að nýliðun, nýsköpun og nýfjárfestingum í landbúnaði um land allt.
    Tryggt verði aðgengi að hagstæðum langtímalánum sem stuðli að nýliðun og nýfjárfestingum í landbúnaði. Árangur af verkefninu verði m.a. mældur í fjölda lána og upphæð lánveitinga.
     Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Byggðastofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Bændasamtök Íslands.
     Tímabil: 2018–2024.
     Tillaga að fjármögnun: Byggðastofnun.

B.5. Nýsköpun í matvælaiðnaði.
     Verkefnismarkmið: Að efla nýsköpun og auka sóknarfæri í matvælaframleiðslu.
    Starfsemi rannsóknar- og þróunarsjóða á sviði matvælaframleiðslu verði tekin til endurskoðunar og kannaðir möguleikar á sameiningu þeirra. Komið verði á fót öflugum matvælasjóði á árinu 2019 sem styðji nýsköpun og þróun í matvælaframleiðslu.
     Ábyrgð: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.
     Dæmi um samstarfsaðila: Framleiðnisjóður landbúnaðarins, AVS-rannsóknasjóður, Bændasamtök Íslands og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi.
     Tímabil: 2018–2020.
     Tillaga að fjármögnun: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

B.6. Frádráttur vegna aksturs til og frá vinnu.
     Verkefnismarkmið: Að auðvelda fólki utan höfuðborgarsvæðisins að sækja vinnu frá heimili.
    Þeir íbúar landsins sem búa á styrkjasvæði ESA-kortsins og sækja vinnu um langan veg fái hluta kostnaðar við ferðir til og frá vinnu endurgreiddan í gegnum skattkerfið eftir reglum sem samdar verði af starfshópi sem falið verði það verkefni. Árangur af verkefninu verði m.a. mældur með fjölda þeirra sem njóta endurgreiðslu eftir svæðum.
     Ábyrgð: Fjármála- og efnahagsráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Ríkisskattstjóri.
     Dæmi um samstarfsaðila: Byggðastofnun.
     Tímabil: 2019–2024.
     Tillaga að fjármögnun: Fjármála- og efnahagsráðuneyti.

B.7. Störf án staðsetningar.
     Verkefnismarkmið: Að 10% allra auglýstra starfa í ráðuneytum og stofnunum þeirra verði án staðsetningar árið 2024 þannig að búseta hafi ekki áhrif við val á starfsfólki í ráðuneytum.
    Ráðuneyti og stofnanir skilgreini störf sem geta verið án sérstakrar staðsetningar þannig að búseta hafi ekki áhrif við val á starfsfólki. Þegar slíkt starf er auglýst skal vakin athygli á að um starf án staðsetningar sé að ræða. Verði starfsmaður ráðinn sem býr utan daglegrar vinnusóknar frá viðkomandi ráðuneyti/stofnun leitist vinnuveitandi við að finna viðunandi starfsaðstöðu nærri heimili. Fyrir árslok 2019 skal hvert ráðuneyti hafa skilgreint hvaða störf verður hægt að vinna utan ráðuneytis. Fyrir árslok 2021 skulu 5% auglýstra starfa vera án staðsetningar og í árslok 2024 skulu 10% auglýstra starfa vera án staðsetningar. Árangur af verkefninu verði mældur í fjölda starfa í einstökum ráðuneytum og stofnunum sem eru unnin utan veggja þeirra borið saman við 1. janúar 2018.
     Ábyrgð: Fjármála- og efnahagsráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Ráðuneyti og stofnanir.
     Dæmi um samstarfsaðila: Byggðastofnun, sveitarfélög og stofnanir á landsbyggðinni.
     Tímabil: 2018–2024.
     Tillaga að fjármögnun: Fjármála- og efnahagsráðuneyti.

B.8. Fjarvinnslustöðvar.
     Verkefnismarkmið: Að koma opinberum gögnum á stafrænt form og fjölga atvinnutækifærum á landsbyggðinni.
    Komið verði á laggirnar starfsstöðvum á nánar tilgreindum svæðum sem fái það verkefni að koma opinberum gögnum stjórnvalda á stafrænt form. Ríkið styðji við þær stofnanir sem fara í slík átaksverkefni, t.d. með því að endurgreiða allt að 80% af kostnaði við hvert stöðugildi. Meðal stofnana sem geta nýtt sér þetta úrræði verði Þjóðskjalasafn Íslands, Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, sýslumenn, utanríkisráðuneytið og Þjóðminjasafn Íslands. Árangur af verkefninu verði mældur með fjölda fjarvinnslustöðva, fjölda stofnana sem nýta þjónustuna og fjölda stöðugilda.
     Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Byggðastofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Mennta- og menningarmálaráðuneyti, dómsmálaráðuneyti, utanríkisráðuneyti, önnur ráðuneyti, stofnanir og sveitarfélög.
     Tímabil: 2018–2024.
     Tillaga að fjármögnun: 300 millj. kr. úr byggðaáætlun.

B.9. Fjölbreytt atvinnutækifæri um allt land.
     Verkefnismarkmið: Að stuðla að fjölbreyttum störfum og atvinnulífi sem víðast um landið.
    Skoðað verði þegar ný starfsemi hefst á vegum ríkisins að starfseminni verði valinn staður utan höfuðborgarsvæðisins. Árangur af verkefninu verði mældur í fjölda starfa og starfsstöðva sem settar verða á laggirnar utan höfuðborgarsvæðisins.
     Ábyrgð: Forsætisráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Forsætisráðuneyti.
     Dæmi um samstarfsaðila: Byggðastofnun.
     Tímabil: 2018–2024.
     Tillaga að fjármögnun: Forsætisráðuneyti.

B.10. Jöfnun á aðstöðumun á millilandaflugvöllum.
     Verkefnismarkmið: Að jafna aðstöðumun til þjónustu á millilandaflugvöllum landsins.
    Skipaður verði starfshópur til þess að vinna tillögu um verðjöfnun á flugvélaeldsneyti á millilandaflugvöllum landsins. Stefnt verði að því að hópurinn skili tillögum fyrir árslok 2018.
     Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.
     Dæmi um samstarfsaðila: Olíufélögin, Isavia og Flugþróunarsjóður Íslands.
     Tímabil: 2018.
     Tillaga að fjármögnun: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.

B.11. Flughlið inn í landið.
     Verkefnismarkmið: Að ferðamenn dreifist betur um landið.
    Flugþróunarsjóður styðji við uppbyggingu nýrra flugleiða til Íslands þannig að koma megi á reglulegu millilandaflugi um alþjóðaflugvellina á Akureyri og á Egilsstöðum. Árangur verði mældur í fjölgun ferðamanna sem koma með flugi/fjölda lendinga.
     Ábyrgð: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Flugþróunarsjóður.
     Dæmi um samstarfsaðila: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, Isavia, landshlutasamtök sveitarfélaga og markaðsstofur.
     Tímabil: 2018–2024.
     Tillaga að fjármögnun: Flugþróunarsjóður.

B.12. Ratsjáin.
     Verkefnismarkmið: Að efla ferðaþjónustufyrirtæki á landsbyggðinni.
    Ratsjáin verði nýtt til að efla þekkingu og hæfni stjórnenda ferðaþjónustufyrirtækja með þjálfun og kennslu sem stuðli að heilbrigðari rekstri, betri framlegð með bættri tæknigetu og aukinni hæfni í notkun stafrænna miðla. Árangur af verkefninu verði mældur í fjölda fyrirtækja sem taka þátt í verkefninu, fjölda vinnustofa og fjölda greininga á nýsköpunarhæfni fyrirtækja.
     Ábyrgð: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Íslenski ferðaklasinn og Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
     Dæmi um samstarfsaðila: Markaðsstofur landshluta.
     Tímabil: 2019–2022.
     Tillaga að fjármögnun: 30 millj. kr. úr byggðaáætlun.

B.13. Stafrænt forskot á landsbyggðinni.
     Verkefnismarkmið: Að auka getu fyrirtækja á landsbyggðinni til að nýta stafræna tækni til vaxtar.
    Námsefni um hagnýtingu stafrænnar tækni, sem þegar hefur verið þróað, verði nýtt til þess að gera sérstakt átak meðal fyrirtækja á landsbyggðinni í því skyni að auka getu þeirra til að hagnýta netið í viðskiptum. Efnt verði til vinnustofa sem fylgt verði eftir með leiðsögn. Unnið verði út frá þörfum smærri fyrirtækja sem þurfa að auka markaðssókn og efla viðskiptatengsl. Samstarf verði við markaðsstofur, atvinnuráðgjöf landshluta og símenntunarmiðstöðvar um allt land til að ná til sem flestra. Árangur verði mældur í fjölda fyrirtækja sem taka þátt í verkefninu, fjölda vinnustofa og fjölda greininga á nýsköpunarhæfni fyrirtækja.
     Ábyrgð: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
     Dæmi um samstarfsaðila: Íslenski ferðaklasinn, atvinnuráðgjöf landshluta, markaðsstofur og símenntunarmiðstöðvar.
     Tímabil: 2018–2024.
     Tillaga að fjármögnun: 35 millj. kr. úr byggðaáætlun.

B.14. Fjármagn til nýsköpunar.
     Verkefnismarkmið: Að auka nýsköpun í atvinnulífi í dreifðum byggðum með sérstökum flokki útlána Byggðastofnunar sem hvetur til nýsköpunar í atvinnulífi og auðveldar frumkvöðlum að koma hugmyndum sínum og verkefnum af þróunarstigi í framkvæmd.
    Fyrirtæki fái aðstoð og greiningu frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands þar sem m.a. verði litið til nýsköpunarskala, að heildarfjármögnun verkefnis af þróunarstigi á tekjuöflunarstig sé tryggð og að verkefnið sé framkvæmanlegt. Árangur af verkefninu verði mældur með fjölda nýsköpunarverkefna á hverju ári.
     Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Byggðastofnun og Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
     Dæmi um samstarfsaðila: Atvinnuráðgjöf landshluta.
     Tímabil: 2018–2024.
     Tillaga að fjármögnun: Byggðastofnun.

B.15. Úthlutun byggðakvóta.
     Verkefnismarkmið: Að meta árangur af byggðakvóta.
    Byggðastofnun verði falið að framkvæma mat á byggðalegum árangri af úthlutun byggðakvóta og hvort breyta eigi því fyrirkomulagi sem verið hefur til að tryggja að byggðakvóti nái sem best þeim markmiðum sem að er stefnt. Matinu verði lokið fyrir árslok 2019.
     Ábyrgð: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Byggðastofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Fiskistofa, sveitarfélög og atvinnuráðgjöf landshluta.
     Tímabil: 2018–2019.
     Tillaga að fjármögnun: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

B.16. Nýting menningarminja.
     Verkefnismarkmið: Að nýta menningarminjar til stuðnings byggðaþróun á svæðum sem standa höllum fæti í byggðalegu tilliti.
    Leitast verði við að fá heildarsýn yfir minjaarfinn til að greina nýtingarmöguleika og sóknartækifærin sem í honum felast. Menningarminjar (fornleifar, mannvirki og hús) verði kortlagðar á tilteknum svæðum og þau gögn notuð sem forsenda fyrir hönnun verkefna. Minjastofnun aðstoði byggðarlögin við að leita fjármagns fyrir þau verkefni sem sett verða í gang í kjölfarið, svo sem með því að benda á viðeigandi sjóði, styðja umsóknir og veita faglega ráðgjöf. Árangur af verkefninu verði mældur með fjölda kortlagninga og verkefna.
     Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Minjastofnun Íslands.
     Dæmi um samstarfsaðila: Byggðastofnun, sveitarfélög, markaðsstofur, ferðaþjónustuaðilar og Þjóðminjasafn Íslands.
     Tímabil: 2019–2024.
     Tillaga að fjármögnun: 16,5 millj. kr. úr byggðaáætlun.

B.17. Bújarðir í eigu ríkisins.
     Verkefnismarkmið: Að móta eigendastefnu fyrir bújarðir í eigu ríkisins.
    Gerð verði úttekt á nýtingu bújarða í eigu ríkisins. Að því loknu verði mótuð eigendastefna með það að markmiði að auðvelda fólki að hefja búskap og treysta innviði og búsetu í sveitum. Stefnt verði að því að þingsályktunartillaga um eigendastefnu ríkisins verði lögð fram eigi síðar en 1. nóvember 2018.
     Ábyrgð: Fjármála- og efnahagsráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Fjármála- og efnahagsráðuneyti.
     Dæmi um samstarfsaðila: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Bændasamtök Íslands, Samtök ungra bænda, Samband íslenskra sveitarfélaga, Skógræktin, Landgræðslan og Umhverfisstofnun.
     Tímabil: 2018.
     Tillaga að fjármögnun: Fjármála- og efnahagsráðuneyti.

B.18. Atvinnuþátttaka og tekjumunur eftir búsetu.
     Verkefnismarkmið: Að auka möguleika kvenna til atvinnuþátttöku á landsbyggðinni.
    Ráðist verði í að gera úttekt á stöðu og tækifærum kvenna og karla á vinnumarkaði í dreifbýli. Í úttektinni verði skoðað hvernig hægt sé að auka möguleika kvenna á atvinnu sem hæfir háu menntunarstigi þeirra. Einnig verði skoðað hvernig megi draga úr mun á atvinnutekjum karla og kvenna í dreifbýli og jafnvægi í búsetu eftir kyni þannig aukið, þ.e. dregið verði úr kynjahalla þar sem hann er til staðar. Stefnt verði að því að niðurstöður úttektar liggi fyrir í lok árs 2020.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
     Framkvæmdaraðili: Jafnréttisstofa.
     Dæmi um samstarfsaðila: Aðgerðahópur stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti, Háskóli Íslands og Hagstofa Íslands.
     Tímabil: 2019–2020.
     Tillaga að fjármögnun: 5 millj. kr. úr byggðaáætlun.

C. Sjálfbær þróun byggða um land allt.
C.1. Sértæk verkefni sóknaráætlanasvæða.
     Verkefnismarkmið: Að færa heimamönnum aukna ábyrgð á ráðstöfun fjármuna og tengja sóknaráætlanir landshluta við byggðaáætlun.
    Sérstök áhersla verði lögð á svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf með gerð viðaukasamninga við sóknaráætlanir viðkomandi landshluta um tiltekin verkefni eftir forgangsröðun heimamanna.
     Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Byggðastofnun og landshlutasamtök sveitarfélaga.
     Dæmi um samstarfsaðila: Stýrihópur Stjórnarráðsins um byggðamál, ráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, sveitarfélög og stofnanir.
     Tímabil: 2018–2024.
     Tillaga að fjármögnun: 870 millj. kr. úr byggðaáætlun.

C.2. Brothætt byggðarlög.
     Verkefnismarkmið: Að sporna við viðvarandi fólksfækkun í smærri byggðakjörnum.
    Haldið verði áfram með verkefnið „Brothættar byggðir“ þar sem leitað er lausna á bráðum vanda á tilteknum svæðum vegna fólksfækkunar og erfiðleika í atvinnulífi undangengin ár. Árangur af verkefninu verði mældur með íbúaþróun í viðkomandi byggðum og öðrum mælikvörðum sem Byggðastofnun skilgreinir.
     Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Byggðastofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Íbúar viðkomandi byggðarlaga, sveitarfélög, landshlutasamtök sveitarfélaga, ráðuneyti og stofnanir.
     Tímabil: 2018–2024.
     Tillaga að fjármögnun: 700 millj. kr. úr byggðaáætlun.

C.3. Stuðningur við einstaklinga – námslán.
     Verkefnismarkmið: Að nýta námslánakerfið sem hvata fyrir fólk til að setjast að í dreifðum byggðum.
    Verkefnisstjórn um endurskoðun laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna skoði kosti þess að búa til sérstaka hvata fyrir fólk, í gegnum námslánakerfið, til að setjast að í dreifðum byggðum. Með því verði stuðlað að aukinni sérfræðiþekkingu vítt og breitt um landið, að framhaldsmenntuðu fólki fjölgi í dreifðum byggðum og fjölbreytni aukist.
     Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.
     Dæmi um samstarfsaðila: Lánasjóður íslenskra námsmanna, Byggðastofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga.
     Tímabil: 2018–2019.
     Tillaga að fjármögnun: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.

C.4. Höfuðborgarstefna.
     Verkefnismarkmið: Að mótuð verði höfuðborgarstefna sem skilgreini hlutverk Reykjavíkurborgar sem höfuðborgar allra landsmanna, réttindi og skyldur borgarinnar sem höfuðborgar Íslands og stuðli að aukinni samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins og landsins alls.
    Skipuð verði nefnd sem falið verði að vinna drög að höfuðborgarstefnu. Drög að þingsályktunartillögu um höfuðborgarstefnu verði send til umsagnar fyrir árslok 2018 og fullmótuð tillaga lögð fyrir Alþingi vorið 2019. Í kjölfarið verði undirritaðir samningar milli ríkisins og Reykjavíkurborgar.
     Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið.
     Framkvæmdaraðili: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og Reykjavíkurborg.
     Dæmi um samstarfsaðila: Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Byggðastofnun og ýmsir haghafar.
     Tímabil: 2018–2019.
     Tillaga að fjármögnun: 7,3 millj. kr. úr byggðaáætlun.

C.5. Varmadæluvæðing á köldum svæðum.
     Verkefnismarkmið: Að draga úr raforkunotkun á köldum svæðum og auka orkuöryggi.
    Dregið verði úr raforkunotkun kyntra hitaveitna og orkuöryggi aukið með varmadæluvæðingu á köldum svæðum með því að styðja uppsetningu varmadælna. Árangur af verkefninu verði mældur í lægri orkukostnaði á landsvísu og auknu orkuöryggi.
     Ábyrgð: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Orkusjóður.
     Dæmi um samstarfsaðila: Sveitarfélög.
     Tímabil: 2019–2023.
     Tillaga að fjármögnun: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

C.6. Húsnæðismál.
     Verkefnismarkmið: Að fjölga íbúðum á svæðum þar sem eru sóknarfæri til þess að rjúfa stöðnun í atvinnumálum en skortur á hentugu íbúðarhúsnæði hamlar uppbyggingu.
    Íbúum byggðarlaga sem búa við misgengi í byggingarkostnaði og söluverði fasteigna verði gert kleift að bregðast við húsnæðiseklu með nýbyggingum, endurbótum eða breyttri notkun húsnæðis sem fyrir er. Notast verði við sérstök landsbyggðarverkefni Íbúðalánasjóðs í samvinnu við einstök sveitarfélög þar sem horft verði til styrkja eða niðurgreiðslu vaxta til byggingar á íbúðarhúsnæði í byggðum sem standa höllum fæti. Markaðsbrestur á mismunandi svæðum verði greindur, m.a. til að nýta megi sem best húsnæðisstuðning í formi viðbótarstofnframlaga.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Íbúðalánasjóður.
     Dæmi um samstarfsaðila: Samband íslenskra sveitarfélaga, sveitarfélög og Byggðastofnun.
     Tímabil: 2018–2022.
     Tillaga að fjármögnun: Íbúðalánasjóður.

C.7. Húsnæðisáætlanir sveitarfélaga.
     Verkefnismarkmið: Að raunhæfar og markvissar húsnæðisáætlanir verði í gildi hjá öllum sveitarfélögum.
    Stuðlað verði að formlegum samstarfsvettvangi sveitarfélaga um gerð húsnæðisáætlana, t.d. á vettvangi landshlutasamtaka, þar sem framkvæmd verði sameiginleg þarfagreining, m.a. í tengslum við landsskipulagsstefnu, svæðisskipulag og þá þætti í aðalskipulagi sem snúa að framboði og eftirspurn eftir hentugu íbúðarhúsnæði, einkum til leigu. Árangur af verkefninu komi fram í fjölda sveitarfélaga sem hefur samþykkta húsnæðisáætlun, hvort sem er sjálfstætt eða á sameiginlegum vettvangi.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Íbúðalánasjóður.
     Dæmi um samstarfsaðila: Samband íslenskra sveitarfélaga, landshlutasamtök sveitarfélaga og sveitarfélög.
     Tímabil: 2019–2021.
     Tillaga að fjármögnun: 20 millj. kr. úr byggðaáætlun.
    
C.8. Efling fjölmiðlunar í héraði.
     Verkefnismarkmið: Að efla staðbundna fjölmiðla.
    Við athugun á möguleikum á að styrkja fjölmiðlun taki stjórnvöld til sérstakrar athugunar stöðu svæðisbundinna fjölmiðla utan höfuðborgarsvæðisins enda gegni þeir stóru hlutverki við að tryggja aðgengi almennings að upplýsingum um menningar- og samfélagsmál og styðji með þeim hætti við lýðræðisþátttöku og menningarstarf.
     Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.
     Dæmi um samstarfsaðila: Fjölmiðlanefnd og Byggðastofnun.
     Tímabil: 2018–2024.
     Tillaga að fjármögnun: 25 millj. kr. úr byggðaáætlun.

C.9. Náttúruvernd og efling byggða.
     Verkefnismarkmið: Að náttúruvernd stuðli að eflingu byggða.
    Greind verði tækifæri og ávinningur í héraði af þjónustu sem byggist á nýtingu náttúruverndarsvæða, svo sem í náttúrutengdri ferðaþjónustu. Hugað verði að því að verulegur ávinningur getur falist í friðlýsingu svæða og rekstri þeirra, svo sem með stofnun þjóðgarða eða jarðvanga. Árangur af verkefninu verði mældur í fjölda fyrirtækja í náttúrutengdri ferðaþjónustu innan landshluta.
     Ábyrgð: Umhverfis- og auðlindaráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Landshlutasamtök sveitarfélaga.
     Dæmi um samstarfsaðila: Markaðsstofur, háskólar, atvinnuráðgjöf landshluta, Umhverfisstofnun, Skógræktin og Landgræðslan.
     Tímabil: 2018–2022.
     Tillaga að fjármögnun: 57 millj. kr. úr byggðaáætlun.

C.10. Fagmennska á sviði innviða á náttúruverndarsvæðum.
     Verkefnismarkmið: Að efla fagþekkingu þeirra sem vinna að uppbyggingu innviða í náttúrunni.
    Gæði uppbyggingar innviða verði aukin, dregið úr hættu á ónauðsynlegu raski og fjármagn nýtt betur með því að auka fagþekkingu á sviði hönnunar innviða í náttúrunni þannig að þeir falli sem best að landslagi og stuðli að jákvæðri upplifun gesta. Stutt verði við verkefni sem samræmast stefnu landsáætlunar um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum 2018–2029.
     Ábyrgð: Umhverfis- og auðlindaráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Landshlutasamtök sveitarfélaga.
     Dæmi um samstarfsaðila: Umhverfisstofnun, Landgræðsla ríkisins, Skógræktin, Þjóðminjasafn Íslands, þjóðgarðar og háskólar.
     Tímabil: 2018–2020.
     Tillaga að fjármögnun: 15 millj. kr. úr byggðaáætlun.

C.11. Fleiri konur í sveitarstjórnir.
     Verkefnismarkmið: Að fjölga konum í sveitarstjórnum.
    Konur verði hvattar til þátttöku í stjórnun nærsamfélagsins. Unnið verði markvisst að því að bæta kynjahlutfall í sveitarstjórnum. Farið verði í fræðslu- og auglýsingaherferð með góðum fyrirvara fyrir sveitarstjórnarkosningar árið 2022. Árangur af verkefninu verði mældur í fjölda kvenna í sveitarstjórnum.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Jafnréttisstofa.
     Dæmi um samstarfsaðila: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, jafnréttisnefndir sveitarfélaga, Kvenréttindafélag Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélög.
     Tímabil: 2018–2022.
     Tillaga að fjármögnun: 11 millj. kr. úr byggðaáætlun.

C.12. Kynning og innleiðing áfangastaðaáætlana.
     Verkefnismarkmið: Að stýra uppbyggingu og þróun ferðamannastaða.
    Gert verði átak í að kynna og innleiða áfangastaðaáætlanir sem verði heildstætt ferli þar sem litið verði til skipulags og samhæfingar í þróun og stýringu allra þeirra þátta sem geta haft áhrif á upplifun ferðamanna á viðkomandi svæði/áfangastað, þ.m.t. þarfir gesta, heimamanna, fyrirtækja og umhverfis. Landshlutarnir vinni sameiginlega stefnulýsingu sem hafi það markmið að stýra uppbyggingu og þróun svæðis yfir ákveðinn tíma, skilgreina hlutverk hagsmunaaðila, tiltaka beinar aðgerðir sem hver og einn beri ábyrgð á og hvaða bjargir/auðlindir þeir hyggist nýta við þá vinnu. Gerð áætlananna ljúki vorið 2018 og verði þær kynntar vel í landshlutunum og gerðar aðgengilegar fyrir haghafa. Þá verði unnið markvisst að því í samvinnu við sveitarfélög að áætlanirnar séu í samræmi við aðalskipulagsáætlanir og landsáætlun um uppbyggingu innviða.
     Ábyrgð: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Markaðsstofur landshluta.
     Dæmi um samstarfsaðila: Ferðamálastofa, sveitarfélög, haghafar á svæðunum, Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun.
     Tímabil: 2018.
     Tillaga að fjármögnun: 30 millj. kr. úr byggðaáætlun.

C.13. Opinberar upplýsingar á sviði byggðamála.
     Verkefnismarkmið: Að stefnumótun á sviði byggðamála og framkvæmd hennar byggist á traustum gögnum.
    Efnt verði til samstarfs opinberra stofnana, sérstaklega Hagstofu Íslands og háskóla, um að byggja upp tölfræðilegan gagnagrunn á sviði byggðamála þar sem upplýsingar um þætti á borð við íbúaþróun, atvinnuþátttöku, tekjur, menntun og afkomu atvinnugreina verði aðgengilegar og samhæfðar við alþjóðlega gagnagrunna. Upplýsingar um byggðaþróun og þróun borgarsvæða verði samanburðarhæfar við slíkar upplýsingar annars staðar á Norðurlöndum.
     Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Byggðastofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Háskólar, stofnanir og Samband íslenskra sveitarfélaga.
     Tímabil: 2018–2024.
     Tillaga að fjármögnun: 140 millj. kr. úr byggðaáætlun.

C.14. Samstarf safna – ábyrgðarsöfn.
     Verkefnismarkmið: Að efla safnastarf í landshlutum.
    Landshlutasamtökum sveitarfélaga verði falið að gera fýsileikakönnun um aukið samstarf eða sameiningu safna á sínu svæði í samstarfi og samráði við höfuðsafn og viðurkennt safn með vísan til 13. gr. safnalaga, nr. 141/2011, auk safnaráðs. Árangur af verkefninu verði mældur í fjölda safna sem hefja samstarf eða sameinast.
     Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Landshlutasamtök sveitarfélaga.
     Dæmi um samstarfsaðila: Safnaráð, Þjóðminjasafn Íslands, Listasafn Íslands og Náttúruminjasafn.
     Tímabil: 2018–2022.
     Tillaga að fjármögnun: 22,5 millj. kr. úr byggðaáætlun.

C.15. List fyrir alla.
     Verkefnismarkmið: Að öllum árgöngum grunnskóla verði gert kleift að njóta listverkefna Listar fyrir alla.
    List fyrir alla er ætlað að velja og miðla listviðburðum um land allt og jafna þannig aðgengismun barna á grunnskólaaldri að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag. Höfuðáhersla verði lögð á menningu fyrir börn og menningu með börnum. Árangur af verkefninu verði mældur í fjölda skóla sem taka þátt í verkefninu og fjölda árganga skólabarna sem býðst þátttaka.
     Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: List fyrir alla.
     Dæmi um samstarfsaðila: Sveitarfélög, menningarfulltrúar og grunnskólar.
     Tímabil: 2018–2024.
     Tillaga að fjármögnun: 32,5 millj. kr. úr byggðaáætlun.

C.16. Vaxtarsvæði.
     Verkefnismarkmið: Að gera ríki og sveitarfélög færari um að bregðast við þenslu á vaxtarsvæðum.
    Komið verði á fót samráðsteymum ráðuneyta, viðkomandi sveitarfélaga, Byggðastofnunar og eftir atvikum fleiri aðila fyrir þau svæði sem skilgreind eru sem vaxtarsvæði utan höfuðborgarsvæðisins, svo sem Suðurnes, suðurfirði Vestfjarða og Árnessýslu. Verkefni teymanna verði að draga fram áskoranir sem svæðin standa frammi fyrir og leiða saman lykilaðila varðandi stefnumótun og aðgerðir fyrir svæðið til lengri og skemmri tíma.
     Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.
     Dæmi um samstarfsaðila: Forsætisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, velferðarráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, sveitarfélög og Byggðastofnun.
     Tímabil: 2018–2024.
     Tillaga að fjármögnun: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.

Samþykkt á Alþingi 11. júní 2018.