Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1286, 148. löggjafarþing 425. mál: skipulag haf- og strandsvæða.
Lög nr. 88 26. júní 2018.

Lög um skipulag haf- og strandsvæða.


I. KAFLI
Almenn ákvæði.

1. gr.

Markmið.
     Markmið laga þessara er:
 1. að nýting og vernd auðlinda haf- og strandsvæða verði í samræmi við skipulag sem hefur efnahagslegar, félagslegar og menningarlegar þarfir landsmanna, heilbrigði þeirra og öryggi að leiðarljósi,
 2. að skipulag veiti grundvöll fyrir fjölbreyttri nýtingu auðlinda haf- og strandsvæða sem byggist á heildarsýn á málefni hafsins, vistkerfisnálgun og vernd náttúru og menningarminja, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi; enn fremur taki skipulag mið af áhrifum vegna loftslagsbreytinga,
 3. að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi,
 4. að tryggja samráð og samvinnu við sveitarfélög um skipulag strandsvæða og samræmi þess við skipulagsáætlanir samkvæmt skipulagslögum,
 5. að tryggja samráð við almenning og aðra hagsmunaaðila við skipulagsgerð,
 6. að tryggja faglegan undirbúning framkvæmda á haf- og strandsvæðum.


2. gr.

Gildissvið.
     Lög þessi gilda um stefnu um skipulag haf- og strandsvæða og um strandsvæðisskipulag.
     Lög þessi gilda þó ekki um nýtingu og vernd fiskstofna eða annarra lifandi auðlinda hafsins og hafsbotnsins, að undanskilinni nýtingu sem háð er leyfi til efnistöku og eldi eða ræktun nytjastofna.

3. gr.

Orðskýringar.
 1. Haf- og strandsvæði: Svæði frá netlögum að ytri mörkum efnahagslögsögunnar.
 2. Netlög: Sjávarbelti 115 m út frá stórstraumsfjöruborði landareignar.
 3. Stefna um skipulag haf- og strandsvæða: Sá hluti landsskipulagsstefnu sem fjallar um samræmda stefnu ríkisins í skipulagsmálum á haf- og strandsvæðum og þar sem grundvöllur er lagður fyrir gerð strandsvæðisskipulags.
 4. Strandsvæði: Svæði frá netlögum að þeirri viðmiðunarlínu sem tilgreind er í 1. mgr. 5. gr. laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997.
 5. Strandsvæðisskipulag: Skipulagsáætlun fyrir tiltekið strandsvæði þar sem koma fram markmið og ákvarðanir viðkomandi stjórnvalda um framtíðarnýtingu og vernd á tilteknu svæði og hvers konar framkvæmdir falla að nýtingu á svæðinu. Forsendum ákvarðana er einnig lýst. Skipulagssvæði strandsvæðisskipulags afmarkast við strandsvæði. Önnur afmörkun er ákveðin í stefnu um skipulag haf- og strandsvæða hverju sinni.

II. KAFLI
Stjórn skipulagsmála á haf- og strandsvæðum.

4. gr.

Stjórn og framkvæmd skipulagsmála.
     Ráðherra fer með yfirstjórn skipulagsmála samkvæmt lögum þessum. Ráðherra til aðstoðar er Skipulagsstofnun.
     Svæðisráð bera ábyrgð á gerð strandsvæðisskipulags.
     Skipulagsstofnun hefur eftirlit með framkvæmd laga þessara og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim. Hún er svæðisráðum til ráðgjafar og annast gerð strandsvæðisskipulags í þeirra umboði og þá málsmeðferð sem kveðið er á um í lögum þessum auk þess sem hún fylgist með þróun í starfsemi og öðrum athöfnum sem hafa áhrif á skipulagsmál á haf- og strandsvæðum. Þá gerir stofnunin tillögu að stefnu um skipulag haf- og strandsvæða sem hluta af landsskipulagsstefnu. Um hlutverk Skipulagsstofnunar að öðru leyti fer samkvæmt ákvæðum skipulagslaga eftir því sem við á.

5. gr.

Svæðisráð.
     Þegar stefna um skipulag haf- og strandsvæða kveður á um gerð strandsvæðisskipulags á tilteknu svæði eða endurskoðun á strandsvæðisskipulagi skal ráðherra skipa eitt svæðisráð fyrir hvert slíkt strandsvæði. Svæðisráð hefur það hlutverk að vinna að tillögu að strandsvæðisskipulagi fyrir viðkomandi svæði eða endurskoðun þess.
     Ráðherra skipar átta manna svæðisráð til að annast gerð strandsvæðisskipulags á tilteknu svæði. Eftir að strandsvæðisskipulag hefur tekið gildi skal skipan svæðisráðsins gilda þar til að loknum alþingiskosningum og skal þá skipa nýtt svæðisráð. Ef endurskoða þarf strandsvæðisskipulag eða gera breytingu á því í samræmi við 14. gr. skal ráðherra óska eftir því við svæðisráð að það endurskoði skipulagið eða vinni tillögu að breytingu á því.
     Ráðherra er fer með orkumál og ferðamál, ráðherra er fer með sjávarútvegsmál og ráðherra er fer með samgöngumál skulu hver hafa einn fulltrúa í svæðisráði. Aðliggjandi sveitarfélög skulu einnig hafa alls þrjá fulltrúa í svæðisráðinu og Samband íslenskra sveitarfélaga einn fulltrúa. Þessir aðilar tilnefna sína fulltrúa. Ráðherra er fer með umhverfismál og auðlindamál skal einnig hafa einn fulltrúa í ráðinu sem skal skipaður formaður svæðisráðsins. Allir aðilar skulu einnig hafa jafnmarga varamenn sem eru tilnefndir og skipaðir með sama hætti. Taki nýr ráðherra við embætti á miðju kjörtímabili er honum heimilt að tilnefna nýja fulltrúa í svæðisráð. Sömu heimild hafa sveitarstjórnir viðkomandi sveitarfélaga að loknum sveitarstjórnarkosningum.
     Skipulagsstofnun leggur svæðisráðum til aðstöðu og starfsmann vegna funda svæðisráðanna.
     Samþykki að lágmarki sex fulltrúa þarf til að mál sem eru til afgreiðslu í svæðisráði teljist samþykkt.
     Ráðherra skipar fimm manna samráðshóp sem skal vera svæðisráði til ráðgjafar og samráðs við undirbúning að gerð strandsvæðisskipulags. Í samráðshópnum skulu vera einn fulltrúi ferðamálasamtaka, einn fulltrúi Samtaka atvinnulífsins, einn fulltrúi útivistarsamtaka og tveir fulltrúar umhverfisverndarsamtaka, annar þeirra frá umhverfisverndarsamtökum á landsvísu en hinn frá samtökum á viðkomandi svæði ef slík samtök eru til staðar, annars skulu báðir vera fulltrúar umhverfisverndarsamtaka á landsvísu. Svæðisráðum er heimilt að tilnefna allt að þrjá fulltrúa til viðbótar.

6. gr.

Ráðgefandi aðilar.
     Fagstofnanir sem fara með málaflokka er varða nýtingu og vernd á haf- og strandsvæðum skulu vera svæðisráðum og Skipulagsstofnun til ráðgjafar um atriði sem undir lög þessi heyra. Hið sama á við um vatnasvæðisnefndir samkvæmt lögum um stjórn vatnamála. Þessum aðilum ber að leggja fram nauðsynleg gögn vegna vinnu við gerð stefnu um skipulag haf- og strandsvæða og strandsvæðisskipulags samkvæmt lögum þessum og upplýsingar um hvaða gögn liggja fyrir. Þær fagstofnanir sem um er að ræða eru m.a. Ferðamálastofa, Fiskistofa, Hafrannsóknastofnun, Landgræðsla ríkisins, Landhelgisgæslan, Landmælingar Íslands, Mannvirkjastofnun, Matvælastofnun, Minjastofnun Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Orkustofnun, Samgöngustofa, Umhverfisstofnun, Veðurstofan og Vegagerðin.

III. KAFLI
Skipulagsskylda og framkvæmd skipulags.

7. gr.

Skipulagsskylda.
     Skylt er í landsskipulagsstefnu að marka stefnu um skipulag á haf- og strandsvæðum frá netlögum að ytri mörkum efnahagslögsögunnar. Skipulagsskylda á strandsvæðum tekur til þeirra afmörkuðu strandsvæða sem kveðið er á um í stefnu um skipulag haf- og strandsvæða. Nýting og vernd auðlinda haf- og strandsvæða, þ.m.t. mannvirkjagerð á slíkum svæðum og aðrar framkvæmdir og umferð sem hefur áhrif á umhverfið og breytir ásýnd þess eða hefur áhrif á aðra nýtingu og vernd, skal vera í samræmi við stefnu um skipulag haf- og strandsvæða og strandsvæðisskipulag þar sem það er fyrir hendi.
     Í strandsvæðisskipulagi skal m.a. lýsa umhverfi og aðstæðum á skipulagssvæðinu og forsendum þeirrar stefnu sem það felur í sér og gera grein fyrir áhrifum þess og einstakra stefnumiða á umhverfið með umhverfismati, m.a. með samanburði þeirra kosta sem til greina koma. Við gerð strandsvæðisskipulags skal leita eftir sjónarmiðum og tillögum viðkomandi stjórnvalda, almennings og annarra þeirra sem hagsmuna eiga að gæta um mörkun stefnu. Sérstakt samráð skal haft við viðkomandi sveitarfélög um samræmingu skipulags strandsvæða og skipulagsáætlana samkvæmt skipulagslögum og hafnarstjórnir vegna hafnarsvæða.

8. gr.

Framkvæmd skipulags.
     Leyfi fyrir framkvæmdum eða annarri starfsemi skal samræmast gildandi strandsvæðisskipulagi sé það fyrir hendi. Leyfisveitendur skulu senda Skipulagsstofnun upplýsingar um útgefin leyfi á haf- og strandsvæðum og birtir stofnunin upplýsingar um leyfin í landupplýsingagátt á vef Skipulagsstofnunar.
     Heimilt er að leggja fram fyrirspurn til Skipulagsstofnunar um hvort tiltekin framkvæmd eða starfsemi sé í samræmi við viðkomandi strandsvæðisskipulag. Stofnunin skal eftir atvikum leita upplýsinga um slíka framkvæmd eða starfsemi hjá framkvæmdaraðila eða rekstraraðila og leyfisveitanda til að ganga úr skugga um að hún samræmist viðkomandi strandsvæðisskipulagi.

IV. KAFLI
Stefna um skipulag haf- og strandsvæða.

9. gr.

Stefna um skipulag haf- og strandsvæða.
     Í stefnu um skipulag haf- og strandsvæða er lagður grundvöllur fyrir gerð strandsvæðisskipulags varðandi orkuvinnslu á hafi, mannvirkjagerð, eldi eða ræktun nytjastofna, efnistöku, haugsetningu, verndarsvæði, vatnsvernd, umferð og samgöngur, náttúruvá, útivist, ferðaþjónustu o.fl., í samræmi við markmið laga þessara. Þar skal mælt fyrir um á hvaða afmörkuðu svæðum gera skuli strandsvæðisskipulag og hvaða strandsvæðisskipulag skuli endurskoðað. Við slíka ákvörðun skulu hafa forgang þau svæði þar sem talið er brýnt að samþætta ólíka nýtingu og verndarsjónarmið. Í þeim tilvikum þegar gerð tiltekins hluta af strandsvæðisskipulagi hefur verið frestað, sbr. 2. mgr. 13. gr., skal sú ákvörðun endurskoðuð við gerð stefnunnar og þar mælt fyrir um hvort umrætt svæði skuli skipulagt eða hvort því skuli frestað til lengri tíma.
     Stefna um skipulag haf- og strandsvæða skal vera hluti af landsskipulagsstefnu samkvæmt skipulagslögum. Þar skal ávallt vera uppfærð stefna um skipulagsmál á haf- og strandsvæðum. Um stefnu um skipulag haf- og strandsvæða fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum skipulagslaga um landsskipulagsstefnu.

V. KAFLI
Strandsvæðisskipulag.

10. gr.

Strandsvæðisskipulag.
     Strandsvæðisskipulag er skipulagsáætlun fyrir afmarkað strandsvæði sem tilgreint er í stefnu um skipulag haf- og strandsvæða. Í strandsvæðisskipulagi er sett fram stefna og ákvæði varðandi orkuvinnslu á hafi, mannvirkjagerð, eldi eða ræktun nytjastofna, efnistöku, haugsetningu, verndarsvæði, vatnsvernd, umferð og samgöngur, náttúruvá, útivist, ferðaþjónustu o.fl., í samræmi við markmið laga þessara, þar á meðal með tilliti til sjálfbærrar þróunar, áhrifa á umhverfið og ásýnd þess, öryggissjónarmiða sem og annarra skipulagsforsendna sem þurfa að liggja fyrir vegna starfsemi eða framkvæmda á svæðinu.
     Strandsvæðisskipulag skal byggt á og vera í samræmi við stefnu um skipulag haf- og strandsvæða. Þar er stefnan útfærð á grundvelli nánari upplýsinga um viðkomandi svæði. Eftir atvikum skal einnig gæta samræmis við annað strandsvæðisskipulag samkvæmt lögunum. Við gerð strandsvæðisskipulags skal jafnframt gæta samræmis við skipulagsáætlanir samkvæmt skipulagslögum. Einnig ber að taka mið af stjórnvaldsfyrirmælum, öðrum lögum og lögbundnum ákvörðunum um nýtingu og vernd haf- og strandsvæða þar sem tiltekin starfsemi er t.d. takmörkuð eða bönnuð.
     Strandsvæðisskipulag skal setja fram á skipulagsuppdrætti ásamt skipulagsgreinargerð. Í greinargerð strandsvæðisskipulags er forsendum þess lýst og sett fram stefna og ákvæði skipulagsins og umhverfismat áætlunarinnar. Á skipulagsuppdrætti strandsvæðisskipulags skal setja fram þá stefnu og ákvæði sem sett eru fram í skipulagsgreinargerð fyrir skipulagssvæðið að svo miklu leyti sem það getur átt við.
     Strandsvæðisskipulag skal unnið á stafrænu formi og skal Skipulagsstofnun gera það aðgengilegt með stafrænum hætti.
     Um gerð og framsetningu strandsvæðisskipulags gilda að öðru leyti ákvæði 7. gr. og nánari ákvæði í reglugerð um skipulagsgerðina.
     Strandsvæðisskipulag er háð staðfestingu ráðherra.

11. gr.

Gerð strandsvæðisskipulags, kynning og samráð.
     Þegar vinna við gerð strandsvæðisskipulags hefst skal svæðisráð taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu þar sem fram kemur hvaða áherslur svæðisráð hafi við gerð skipulagsins, upplýsingar um forsendur og fyrirliggjandi stefnu og fyrirhugað skipulagsferli, svo sem um kynningu og samráð við skipulagsgerðina gagnvart stjórnvöldum, almenningi og öðrum hagsmunaaðilum og hvernig staðið verður að umhverfismati áætlana. Svæðisráð skal bera drög að lýsingu undir fagstofnanir og viðkomandi vatnasvæðisnefndir, sbr. 6. gr. Þegar samkomulag liggur fyrir í svæðisráði um lýsingu á gerð strandsvæðisskipulagsins skal hún kynnt opinberlega og skal svæðisráðið leita eftir sjónarmiðum hagsmunaaðila og einstakra sveitarfélaga um efni hennar.

12. gr.

Auglýsing tillögu að strandsvæðisskipulagi.
     Þegar endanleg tillaga að strandsvæðisskipulagi liggur fyrir samþykkir svæðisráð hana til auglýsingar.
     Þegar svæðisráð hefur samþykkt að auglýsa tillögu að strandsvæðisskipulagi skal hún auglýst með áberandi hætti, bæði í fjölmiðli sem gefinn er út svæðisbundið og á landsvísu. Tillagan skal einnig auglýst í Lögbirtingablaðinu. Tillagan skal liggja frammi hjá Skipulagsstofnun og vera aðgengileg á vef auk þess sem hún skal liggja frammi hjá aðliggjandi sveitarfélögum eða á öðrum opinberum stað.
     Í auglýsingu skal tilgreina hvar tillagan er til sýnis og hve lengi og skal sá tími ekki vera skemmri en athugasemdafrestur. Í auglýsingu skal hverjum þeim aðila sem telur sig eiga hagsmuna að gæta gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna innan ákveðins frests sem eigi skal vera skemmri en átta vikur frá birtingu auglýsingar. Tekið skal fram hvert skila skuli athugasemdum.

13. gr.

Afgreiðsla og gildistaka strandsvæðisskipulags.
     Þegar frestur til athugasemda er liðinn skal svæðisráð fjalla um tillöguna á nýjan leik. Í þeirri umfjöllun skal taka afstöðu til athugasemda sem borist hafa og þess hvort gera skuli breytingar á tillögunni. Ákveði svæðisráð að breyta tillögu að strandsvæðisskipulagi í grundvallaratriðum skal hin breytta tillaga auglýst á nýjan leik skv. 12. gr.
     Svæðisráði er heimilt með samþykki ráðherra að fresta gerð strandsvæðisskipulags fyrir ákveðið svæði innan strandsvæðisins ef óvissa ríkir um atriði sem haft geta veruleg áhrif á framkvæmd skipulagsins. Ákvörðun um frestun skal endurskoðuð við gerð stefnu um skipulag haf- og strandsvæða, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 9. gr.
     Þegar svæðisráð hefur samþykkt tillögu að strandsvæðisskipulagi skal senda ráðherra tillöguna ásamt athugasemdum og umsögn svæðisráðs um þær, innan tólf vikna frá því að frestur til að gera athugasemdir skv. 12. gr. rann út. Jafnframt skal senda þeim aðilum er athugasemdir gerðu afgreiðslu og umsögn svæðisráðs um athugasemdir og auglýsa niðurstöðu svæðisráðs.
     Þegar ráðherra berst tillaga að strandsvæðisskipulagi skal hann innan tólf vikna staðfesta tillöguna, staðfesta frestun hennar að hluta eða hafna staðfestingu hennar. Við yfirferð tillögunnar metur hann hvort á henni séu form- eða efnisgallar, þar á meðal hvort tillagan sé í samræmi við stefnu um skipulag haf- og strandsvæða. Ef ráðherra telur að tillagan sé haldin form- eða efnisgalla skal hann gefa svæðisráði færi á að koma að athugasemdum áður en hann tekur ákvörðun um afgreiðslu tillögunnar.
     Staðfest strandsvæðisskipulag skal auglýst í B-deild Stjórnartíðinda. Strandsvæðisskipulag tekur gildi þegar það hefur verið samþykkt af svæðisráði, hlotið staðfestingu ráðherra og verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.

14. gr.

Breytingar á strandsvæðisskipulagi.
     Telji Skipulagsstofnun að gera þurfi breytingar á strandsvæðisskipulagi tilkynnir hún ráðherra þar um. Fallist ráðherra á það skipar hann svæðisráð í samræmi við 5. gr. sem tekur ákvörðun um gerð tillögu um breytingu á skipulaginu. Ráðherra getur einnig skipað svæðisráð að eigin frumkvæði, að höfðu samráði við Skipulagsstofnun, telji hann þörf á breytingum á strandsvæðisskipulagi.
     Telji Skipulagsstofnun eða aðliggjandi sveitarfélag þörf á breytingum á fyrirliggjandi strandsvæðisskipulagi, tilkynnir viðkomandi aðili ráðherra þar um. Ráðherra skal þá óska eftir því við svæðisráð að það endurskoði strandsvæðisskipulag, sbr. 5. gr., og geri tillögu um breytingu telji það þörf á því. Ráðherra getur einnig að eigin frumkvæði óskað eftir því við svæðisráð að það vinni tillögu að breytingu á strandsvæðisskipulagi.
     Nú telur svæðisráð að þær breytingar sem gera þarf á gildandi strandsvæðisskipulagi séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 11.–13. gr. og skal þá svæðisráð senda rökstudda tillögu um breytinguna til ráðherra. Niðurstaða svæðisráðs skal auglýst. Við mat á því hvort breyting á strandsvæðisskipulagi geti talist óveruleg skal taka mið af því hvort hún hafi verulegar breytingar á nýtingu umrædds svæðis í för með sér eða sé líkleg til að hafa mikil áhrif á einstaka aðila eða hafa áhrif á stór svæði.
     Fallist ráðherra á tillögu svæðisráðs skal hann staðfesta tillöguna innan fjögurra vikna frá því að tillagan barst honum og auglýsa hana í B-deild Stjórnartíðinda. Fallist ráðherra ekki á að um óverulega breytingu sé að ræða skal hann tilkynna svæðisráðinu um það og fer þá um málsmeðferð skv. 11.–13. gr.

VI. KAFLI
Reglugerð, bætur o.fl.

15. gr.

Reglugerðir.
     Ráðherra setur reglugerð um gerð strandsvæðisskipulags. Í reglugerðinni skal m.a. kveðið nánar á um efni og kynningu lýsingar, efni og framsetningu strandsvæðisskipulags og samráð og kynningu við gerð og afgreiðslu strandsvæðisskipulags.
     Ráðherra er jafnframt heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um starfsreglur svæðisráðs.
     Þær reglugerðir sem kveðið er á um í lögum þessum skulu settar að fengnum tillögum Skipulagsstofnunar og að höfðu samráði við ráðuneyti orkumála, ferðamála, sjávarútvegsmála og samgöngumála og Samband íslenskra sveitarfélaga.

16. gr.

Bætur vegna skipulags.
     Leiði strandsvæðisskipulag eða breyting á strandsvæðisskipulagi til sérstakrar skerðingar á nýtingu rétthafa á viðkomandi svæði, umfram það sem teljast má til almennra takmarkana eignarréttar, skal rétthafi eiga rétt á bótum fyrir fjárhagslegt tjón sem hann verður fyrir.
     Rétthafar sem telja sig hafa rétt til bóta skv. 1. mgr. skulu bera fram bótakröfu við ráðherra innan sex mánaða frá birtingu strandsvæðisskipulags. Viðurkenni ríkið bótaskyldu og ekki næst samkomulag um bætur skal það annast um að dómkvaddir verði matsmenn til að ákveða bætur.

17. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi.

18. gr.

Breyting á öðrum lögum.
     Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
 1. Skipulagslög, nr. 123/2010, með síðari breytingum:
  1. Á eftir orðinu „landnotkun“ í 1. málsl. 2. mgr. 10. gr. laganna kemur: og nýtingu og vernd auðlinda haf- og strandsvæða; og á eftir orðinu „landnotkunar“ í sama málslið kemur: og haf- og strandsvæða.
  2. Við 2. málsl. 3. mgr. 10. gr. laganna bætist: og stefna um skipulagsmál á haf- og strandsvæðum, sbr. lög um skipulag haf- og strandsvæða.
  3. Við 1. málsl. 1. mgr. 11. gr. laganna bætist: og setur fram hverjar áherslur landsskipulagsstefnu skuli vera.
  4. Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 11. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra skal setja fram sameiginlega áherslu með ráðherrum sjávarútvegsmála, orkumála, ferðamála og samgöngumála um það á hvaða afmörkuðu svæðum gera skuli strandsvæðisskipulag.
  5. Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
  6.      Þrátt fyrir ákvæði 18. gr. er heimilt að greiða kostnað við gerð strandsvæðisskipulags fyrir Vestfirði og Austfirði úr Skipulagssjóði, sbr. ákvæði til bráðabirgða I í lögum um skipulag haf- og strandsvæða.
 2. Lög um varnir gegn mengun hafs og stranda, nr. 33/2004, með síðari breytingum: Við 2. mgr. 9. gr. laganna bætist: og skal samræmast skipulagi samkvæmt skipulagslögum eða lögum um skipulag haf- og strandsvæða. Hafi tillaga að strandsvæðisskipulagi verið auglýst þegar umsókn er lögð fram er Umhverfisstofnun heimilt að fresta afgreiðslu á beiðni þar til strandsvæðisskipulag hefur tekið gildi fyrir viðkomandi svæði. Frestunin skal þó ekki vera lengri en sjö mánuðir nema sérstakar ástæður mæli með því.
 3. Lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, með síðari breytingum:
  1. Á eftir 2. málsl. 1. mgr. 6. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Allur atvinnurekstur sem sótt er um starfsleyfi fyrir skal vera í samræmi við skipulag samkvæmt skipulagslögum eða lögum um skipulag haf- og strandsvæða.
  2. Við 4. mgr. 7. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Varði umsókn um leyfi strandsvæði samkvæmt lögum um skipulag haf- og strandsvæða þar sem tillaga að strandsvæðisskipulagi hefur verið auglýst þegar umsókn er lögð fram er leyfisveitanda heimilt að fresta afgreiðslu á leyfisumsókn þar til strandsvæðisskipulag hefur tekið gildi fyrir svæðið. Frestunin skal þó ekki vera lengri en sjö mánuðir nema sérstakar ástæður mæli með því.
  3. Á eftir 3. málsl. 33. gr. laganna koma þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Sú starfsemi sem sótt er um starfsleyfi fyrir skal vera í samræmi við skipulag samkvæmt skipulagslögum eða lögum um skipulag haf- og strandsvæða. Hafi tillaga að strandsvæðisskipulagi verið auglýst þegar umsókn er lögð fram er leyfisveitanda heimilt að fresta afgreiðslu á leyfisumsókn þar til strandsvæðisskipulag hefur tekið gildi fyrir svæðið. Frestunin skal þó ekki vera lengri en sjö mánuðir nema sérstakar ástæður mæli með því.
 4. Lög um mannvirki, nr. 160/2010, með síðari breytingum:
  1. Á eftir orðinu „sveitarfélags“ í 1. málsl. 2. mgr. 10. gr. laganna kemur: eða Skipulagsstofnunar, sé um að ræða svæði utan netlaga.
  2. Við 3. málsl. 2. mgr. 10. gr. laganna bætist: og Skipulagsstofnunar vegna mannvirkja á svæðum utan netlaga.
  3. Við 2. málsl. 11. gr. laganna bætist: eða skipulag á haf- og strandsvæðum sé um að ræða svæði utan netlaga.
  4. Við 1. tölul. 1. mgr. 13. gr. laganna bætist: eða skipulagi á haf- og strandsvæðum sé um að ræða svæði utan netlaga.
  5. Við 13. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  6.      Leyfisveitandi getur frestað afgreiðslu leyfisumsóknar sé um að ræða mannvirkjagerð á strandsvæði samkvæmt lögum um skipulag haf- og strandsvæða þar sem tillaga að strandsvæðisskipulagi hefur verið auglýst þegar umsókn er lögð fram. Frestunin skal þó ekki vera lengri en sjö mánuðir nema sérstakar ástæður mæli með því.
 5. Lög um fiskeldi, nr. 71/2008, með síðari breytingum:
  1. Við 3. mgr. 4. gr. a laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Varði umsókn um leyfi strandsvæði samkvæmt lögum um skipulag haf- og strandsvæða þar sem tillaga að strandsvæðisskipulagi hefur verið auglýst þegar umsókn er lögð fram er leyfisveitendum heimilt að fresta afgreiðslu á leyfisumsókn þar til strandsvæðisskipulag hefur tekið gildi fyrir viðkomandi svæði. Frestunin skal þó ekki vera lengri en sjö mánuðir nema sérstakar ástæður mæli með því.
  2. Á eftir 2. mgr. 10. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  3.      Skilyrði fyrir útgáfu rekstrarleyfis er að fyrirhuguð starfsemi samræmist skipulagi á svæðinu samkvæmt skipulagslögum eða lögum um skipulag haf- og strandsvæða.
 6. Lög um skeldýrarækt, nr. 90/2011, með síðari breytingum:
  1. Á eftir orðinu „sveitarfélags“ í 4. málsl. 3. mgr. 7. gr. laganna kemur: eða Skipulagsstofnunar sé um að ræða svæði utan netlaga.
  2. Við 3. mgr. 7. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Varði umsókn um leyfi strandsvæði samkvæmt lögum um skipulag haf- og strandsvæða þar sem tillaga að strandsvæðisskipulagi hefur verið auglýst þegar umsókn er lögð fram er Matvælastofnun heimilt að fresta afgreiðslu á leyfisumsókn þar til strandsvæðisskipulag hefur tekið gildi fyrir svæðið. Frestunin skal þó ekki vera lengri en sjö mánuðir nema sérstakar ástæður mæli með því.
  3. Á eftir orðinu „sveitarfélags“ í 5. málsl. 4. mgr. 9. gr. laganna kemur: eða Skipulagsstofnunar sé um að ræða svæði utan netlaga.
  4. Við 4. mgr. 9. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Varði umsókn um leyfi strandsvæði samkvæmt lögum um skipulag haf- og strandsvæða þar sem tillaga að strandsvæðisskipulagi hefur verið auglýst þegar umsókn er lögð fram er Matvælastofnun heimilt að fresta afgreiðslu á leyfisumsókn þar til strandsvæðisskipulag hefur tekið gildi fyrir svæðið. Frestunin skal þó ekki vera lengri en sjö mánuðir nema sérstakar ástæður mæli með því.
 7. Raforkulög, nr. 65/2003, með síðari breytingum: Á eftir 2. mgr. 34. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
 8.      Varði umsókn um leyfi strandsvæði samkvæmt lögum um skipulag haf- og strandsvæða þar sem tillaga að strandsvæðisskipulagi hefur verið auglýst þegar umsókn er lögð fram er Orkustofnun heimilt að fresta afgreiðslu á leyfisumsókn þar til strandsvæðisskipulag hefur tekið gildi fyrir svæðið. Frestunin skal þó ekki vera lengri en sjö mánuðir nema sérstakar ástæður mæli með því.
 9. Lög um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990, með síðari breytingum:
  1. Við 1. mgr. 2. gr. laganna bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Varði umsókn um leyfi svæði utan netlaga skal útgefið leyfi samræmast skipulagi á haf- og strandsvæðum. Hafi tillaga að strandsvæðisskipulagi verið auglýst þegar umsókn er lögð fram er Umhverfisstofnun heimilt að fresta afgreiðslu á beiðni þar til strandsvæðisskipulag hefur tekið gildi fyrir viðkomandi svæði. Frestunin skal þó ekki vera lengri en sjö mánuðir nema sérstakar ástæður mæli með því.
  2. Í stað 1. málsl. 1. mgr. 4. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Leyfi til hagnýtingar efna á, í eða undir hafsbotni skal samræmast skipulagi á haf- og strandsvæðum sé um að ræða svæði utan netlaga. Leyfið skal bundið við ákveðið svæði og gilda til ákveðins tíma sem ekki má vera lengri en 30 ár.
  3. Við 2. mgr. 4. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Varði umsókn um leyfi strandsvæði þar sem tillaga að strandsvæðisskipulagi hefur verið auglýst þegar umsókn er lögð fram er Orkustofnun heimilt að fresta afgreiðslu á leyfisumsókn þar til strandsvæðisskipulag hefur tekið gildi fyrir svæðið. Frestunin skal þó ekki vera lengri en sjö mánuðir nema sérstakar ástæður mæli með því.
 10. Lög um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, nr. 13/2001, með síðari breytingum:
  1. Við 2. mgr. 4. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Varði umsókn um leyfi strandsvæði samkvæmt lögum um skipulag haf- og strandsvæða þar sem tillaga að strandsvæðisskipulagi hefur verið auglýst þegar umsókn er lögð fram er Orkustofnun heimilt að fresta afgreiðslu á leyfisumsókn þar til strandsvæðisskipulag hefur tekið gildi fyrir svæðið. Frestunin skal þó ekki vera lengri en sjö mánuðir nema sérstakar ástæður mæli með því.
  2. Við 4. mgr. 7. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Varði umsókn um leyfi strandsvæði samkvæmt lögum um skipulag haf- og strandsvæða þar sem tillaga að strandsvæðisskipulagi hefur verið auglýst þegar umsókn er lögð fram er Orkustofnun heimilt að fresta afgreiðslu á leyfisumsókn þar til strandsvæðisskipulag hefur tekið gildi fyrir svæðið. Frestunin skal þó ekki vera lengri en sjö mánuðir nema sérstakar ástæður mæli með því.
  3. Við 10. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  4.      Varði umsókn um leyfi svæði utan netlaga skal útgefið leyfi samræmast skipulagi á haf- og strandsvæðum.
 11. Hafnalög, nr. 61/2003, með síðari breytingum: Við 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. laganna bætist: og samkvæmt lögum um skipulag haf- og strandsvæða.


Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Þrátt fyrir að í lögum þessum sé kveðið á um að í stefnu um skipulag haf- og strandsvæða skuli mælt fyrir um á hvaða afmörkuðu svæðum gera skuli strandsvæðisskipulag, sbr. 1. mgr. 9. gr., skal 1. september 2018 hafin vinna við gerð strandsvæðisskipulags á Vestfjörðum og Austfjörðum. Ráðherra skal því eigi síðar en 1. september 2018 skipa svæðisráð til að gera strandsvæðisskipulag fyrir Vestfirði frá Bjargtöngum að Straumnesi eins og það er nánar afmarkað á uppdrætti I í viðauka við ákvæði þetta. Ráðherra skal á sama tíma skipa svæðisráð til að gera strandsvæðisskipulag fyrir Austfirði frá Almenningsfles að Hvítingum eins og það er nánar afmarkað á uppdrætti II í viðauka við ákvæði þetta. Mæli sérstakar ástæður með því skal skipuðum svæðisráðum heimilt að vinna að strandsvæðisskipulaginu í áföngum með því að fresta gerð skipulagsins fyrir ákveðin svæði innan Vestfjarða og Austfjarða.

II.
     Lög þessi skulu endurskoðuð í ljósi reynslunnar þegar vinnu við gerð strandsvæðisskipulags samkvæmt ákvæði til bráðabirgða I er lokið en þó eigi síðar en þremur árum eftir gildistöku laga þessara. Við þá endurskoðun verði m.a. horft til afmörkunar haf- og strandsvæða landmegin, viðmiðunarlínu ytri afmörkunar strandsvæðisskipulags, stjórnar og framkvæmdar skv. 4. gr. og skipanar svæðisráða skv. 5. gr.

     
Viðauki.
     
     Uppdráttur I. Strandsvæðisskipulag á Vestfjörðum samkvæmt ákvæði til bráðabirgða I.
     
     Uppdráttur II. Strandsvæðisskipulag á Austfjörðum samkvæmt ákvæði til bráðabirgða I.
     

Samþykkt á Alþingi 12. júní 2018.