Ferill 529. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1333  —  529. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um eftirlit Fjármálaeftirlitsins með verðtryggðum lánum.


    Fyrirspurnin varðar að miklu leyti starfsemi Fjármálaeftirlitsins og eru svörin byggð á upplýsingum sem ráðuneytið aflaði frá stofnuninni.

     1.      Hversu oft frá gildistöku 19. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, hefur Fjármálaeftirlitið óskað eftir upplýsingum frá eftirlitsskyldum aðilum um útreikninga vaxta og verðtryggingar lánsfjár og gert sérstakar athuganir, þ.m.t. vettvangsathuganir ef tilefni er til, sbr. 9. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi?
    Fjármálaeftirlitið hefur einu sinni frá gildistöku 19. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sem tók gildi 1. júlí 2015, framkvæmt athugun hjá eftirlitsskyldum aðilum sem tengist ákvæðum laga um vexti og verðtryggingu. Það var í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli nr. 159/2017 þar sem rétturinn komst m.a. að þeirri niðurstöðu að Arion banki hf. hefði brotið gegn 7. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, með því að krefjast dráttarvaxta vegna vanskila á skuldum á því tímabili sem einstaklingur hefði notið frestunar greiðslna skv. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 1001/2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga.
    Þá hefur Fjármálaeftirlitið fylgt eftir niðurstöðum Hæstaréttar í máli nr. 623/2016. Þar komst rétturinn m.a. að þeirri niðurstöðu að Íslandsbanki hf. hefði brotið gegn 2. mgr. 6. gr. og 9. gr. laga nr. 121/1994, um neytendalán, með því að taka ekki fram í lánssamningi við hvaða aðstæður vextir breyttust, auk þess sem bankanum hefði verið talið óheimilt að breyta vöxtum samkvæmt ákvæðum samningsins.

     2.      Hversu oft frá aldamótum hefur Fjármálaeftirlitið talið sig þurfa að sinna leiðbeiningarskyldu og fylgja eftir ábendingum sem stofnuninni berast og varða verðtryggingu lánsfjár? Að hvaða þáttum verðtryggingar lánsfjár lúta leiðbeiningar stofnunarinnar og þær ábendingar sem hún hefur talið ástæðu til að fylgja eftir? Hvernig gerir Fjármálaeftirlitið grein fyrir niðurstöðum slíkra mála opinberlega og gagnvart hlutaðeigandi aðilum?
    Fjármálaeftirlitið hefur eingöngu samanteknar upplýsingar varðandi fyrirspurnir og ábendingar frá árinu 2012. Frá því ári hefur eftirlitið móttekið meira en 100 fyrirspurnir og ábendingar frá neytendum er varða með einhverjum hætti lög um vexti og verðtryggingu. Flestar þessara fyrirspurna bárust árin 2012 til 2014 í tengslum við svonefnd gengislán. Í því sambandi er rétt að taka fram að embætti umboðsmanns skuldara hafði það hlutverk að hafa eftirlit með endurútreikningi gengistryggðra lána samkvæmt reglugerð nr. 178/2011.
    Leiðbeiningarskylda Fjármálaeftirlitsins í þessum málum er skv. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, en í skyldunni felst að leitast er við að leiðbeina aðilum um þau úrræði sem þeir hafa til að ná fram rétti sínum, m.a. um það hverjir fari með úrskurðarvald í málum þeirra. Einnig felast í skyldunni aðrar almennar leiðbeiningar, svo sem um það hvaða lög, reglugerðir eða reglur gilda um málið. Rétt er að taka hér fram að Fjármálaeftirlitið hefur ekki úrskurðarvald í einstökum ágreiningsmálum og sker ekki úr um rétt eða skyldur aðila að einkarétti eða ágreiningi um sönnun málsatvika.
    Í þeim tilvikum sem Fjármálaeftirlitið taldi þörf á frekari athugun á ábendingu er varðaði verðtryggingu lánsfjár hefur athugun eftirlitsins snúið að því að skoða hvort fjármálafyrirtæki starfi í samræmi við lög, reglugerðir, reglur eða dómsniðurstöður sem málið varða.
    Í 9. gr. a. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, kemur fram að Fjármálaeftirlitinu sé heimilt að birta opinberlega niðurstöður í málum og athugunum nema slík birting verði talin stefna hagsmunum fjármálamarkaðarins í hættu, varði ekki hagsmuni hans sem slíks eða valdi hlutaðeigandi aðilum tjóni sem ekki er í eðlilegu samræmi við það brot sem um ræðir. Nánari upplýsingar má finna í gagnsæisstefnu Fjármálaeftirlitsins. 1 Gagnsæistilkynningar birtast á heimasíðu eftirlitsins, fme.is.

     3.      Hversu oft frá aldamótum hefur Fjármálaeftirlitið fylgt því eftir að brugðist sé með viðeigandi hætti við dómum sem lúta að ágreiningi um vexti og verðtryggingu þar sem eftirlitsskyldir aðilar eiga í hlut? Um hvaða dóma ræðir í þessu sambandi og hvernig hefur Fjármálaeftirlitið gert opinberlega grein fyrir mati sínu á áhrifum og fordæmisgildi umræddra dóma fyrir aðila að lánasamningum?
    Árin 2012 til 2014 gerði Fjármálaeftirlitið fjölda athugana á stöðu endurútreiknings gengislána hjá fjármálafyrirtækjum. Þar var fylgst með því hvort fjármálafyrirtæki störfuðu í samræmi við lög, reglugerðir, reglur og niðurstöður dómstóla er vörðuðu málin. 2
    Þá hefur Fjármálaeftirlitið í einstökum tilvikum, þar sem tilefni hefur verið til, óskað eftir upplýsingum frá eftirlitsskyldum aðilum vegna dóma Hæstaréttar. 3 Sjá einnig svar við 1. tölul. fyrirspurnarinnar.
    Fjármálaeftirlitið birtir á heimasíðu sinni gagnsæistilkynningar, sbr. svar við 2. tölul. fyrirspurnarinnar.

     4.      Hvaða viðmið, opinber eða önnur, notast Fjármálaeftirlitið við þegar athugað er hvort útreikningar á vöxtum og verðbótum sem eftirlitsskyldir aðilar innheimta samræmist heimildum í lögum? Hvers vegna hafa formúlur sem lýsa útreikningum sem heimilaðar eru í lögum ekki verið birtar opinberlega? Telur ráðherra koma til greina að birta opinbera vefreiknivél sem nota mætti til að sannreyna að útreikningar lánastofnana á vöxtum og verðtryggingu samræmist heimildum í lögum?
    Líkt og fram hefur komið hefur Fjármálaeftirlitið ekki úrskurðarvald í einstökum ágreiningsmálum og hefur eftirlitið því ekki lagt mat á útreikninga einstakra lána en slíkt er í höndum dómstóla og eftir atvikum úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Fjármálaeftirlitið hefur á hinn bóginn haft eftirlit með því að eftirlitsskyldir aðilar fari eftir niðurstöðum dómstóla. Við eftirlit á framangreindu hefur Fjármálaeftirlitið m.a. eftirfarandi til viðmiðunar:
     1.      Lög um vexti og verðtryggingu.
     2.      Reglur nr. 492/2001, sbr. reglur nr. 278/2010 og 369/2010.
     3.      Niðurstöður dómstóla.
    Í 2. mgr. 15. gr laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, kemur fram að Seðlabanki Íslands setji nánari reglur um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. Í framhaldi af gildistöku laganna setti Seðlabankinn reglur nr. 492/2001, um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár, og segir þar um verðtryggingu lánsfjár: „Höfuðstóll láns breytist í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs frá grunnvísitölu til fyrsta gjalddaga og síðan í hlutfalli við breytingar á vísitölunni milli gjalddaga. Skal höfuðstóll láns breytast á hverjum gjalddaga, áður en vextir og afborgun eru reiknuð út. Grunnvísitala skal vera vísitala sú, sem í gildi er þegar lán er veitt, nema samningur eða eðli máls leiði til annars.“
    Aðferðir við útreikning á greiðslum af verðtryggðum lánum koma fram í reglum Seðlabankans nr. 492/2001 og eru opinberar upplýsingar. Ítarlegri upplýsingar um hvernig reglur bankans hafa þróast í áranna rás koma fram í svari Seðlabanka Íslands til umboðsmanns Alþingis, dagsettu 30. ágúst 2011. 4 Í umræddu svari til umboðsmanns Alþingis eru sett fram sýnidæmi um það hvernig greiðslur af verðtryggðu láni eru reiknaðar. Þar kemur m.a. eftirfarandi fram: „Hvort sem farin er sú leið við framkvæmd verðtryggingar að verðbæta höfuðstól eða greiðslur verður efnisleg niðurstaða sú sama. Það er þess vegna jafngilt að segja að greiðslur af láni séu verðtryggðar og að segja að höfuðstóll láns sem afborganir og vextir reiknist af sé verðtryggður.“
    Í ljósi ofangreinds telur ráðherra ekki sérstaka ástæðu til að birta opinbera vefreiknivél sem nota mætti til að sannreyna að útreikningar lánastofnana á vöxtum og verðtryggingu samræmist heimildum í lögum.

     5.      Geta einstaklingar og lögaðilar, sem telja að ekki sé rétt staðið að útreikningi á vöxtum eða verðtryggingu samkvæmt lánasamningi, beint kvörtunum þar að lútandi til Fjármálaeftirlitsins og fengið leyst úr þeim með formlegri málsmeðferð sem leidd væri til lykta með stjórnvaldsákvörðun? Ef ekki, hvert geta þeir leitað slíkrar úrlausnar? Telur ráðherra fullnægjandi úrræði vera fyrir hendi fyrir einstaklinga og lögaðila til að leita slíkrar úrlausnar?
    Fjármálaeftirlitið sinnir leiðbeiningarskyldu sinni skv. 7. gr. stjórnsýslulaga með því að leiðbeina aðilum um þau úrræði sem þeir hafa til að ná fram rétti sínum, m.a. um það hverjir fari með úrskurðarvald í málum þeirra, og með því að veita aðrar almennar leiðbeiningar. Utan leiðbeiningarskyldu Fjármálaeftirlitsins fellur sérfræðileg eða lagaleg ráðgjöf, m.a. um túlkun lagaákvæða.
    Til að sinna eftirlitshlutverki sínu tekur Fjármálaeftirlitið við ábendingum um starfshætti eftirlitsskyldra aðila. Allar ábendingar sem berast eftirlitinu eru metnar og skoðað hvort tilefni sé til frekari athugunar. Telji stofnunin ástæðu til að taka mál til frekari athugunar er það gert á grundvelli almenns eftirlits. Slík athugun myndi þá byggjast á þeim eftirlitsúrræðum og heimildum sem lög kveða á um. Yrði niðurstaða athugunarinnar að hlutaðeigandi eftirlitsskyldur aðili hafi brotið gegn lögum, reglum eða eðlilegum og heilbrigðum viðskiptaháttum gæti Fjármálaeftirlitið eingöngu beitt þeim úrræðum sem lög kveða á um, sem geta m.a. verið athugasemd, stjórnvaldssekt, afturköllun starfsleyfis o.s.frv., allt eftir alvarleika brots.
    Þetta þýðir að þrátt fyrir að ábending um starfshætti eftirlitsskylds aðila leiði til frekari athugunar af hálfu Fjármálaeftirlitsins á starfsemi félagsins telst sá hinn sami og lagði fram ábendinguna ekki til aðila máls og ekki er víst að slík athugun leiði sjálfkrafa til lausnar á úrlausnarefni hans. 5
    Á hinn bóginn geta einstaklingar og lögaðilar leitað til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki en nefndin fjallar um ágreining viðskiptamanna við fjármálafyrirtæki. 6

     6.      Telur ráðherra að eftirlit með hinum verðtryggða hluta fjármálamarkaðarins hér á landi hafi borið tilætlaðan árangur? Hvernig rökstyður ráðherra svar sitt í þessu efni?
    Eitt af markmiðum laga nr. 58/2015, um breytingar á lagaákvæðum um viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl., var að skerpa á því að Fjármálaeftirlitið skyldi hafa eftirlit með því að eftirlitsskyldir aðilar skv. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, færu að ákvæðum vaxtalaga en fyrir þann tíma var ekkert stjórnvald sem annaðist slíkt sértækt eftirlit samkvæmt lögunum. Þá hvíla ýmsar skyldur á lánveitendum samkvæmt lögum nr. 33/2013, um neytendalán, og lögum nr. 118/2016, um fasteignalán til neytenda, þ.m.t. að veita fjölbreyttar upplýsingar til lántakenda, t.d. upplýsingar sem sérstaklega eiga við um verðtryggð lán. Fer Neytendastofa með eftirlit samkvæmt þessum síðarnefndu lögum.
    Framangreindar nýlegar lagabreytingar voru ekki síst settar með hagsmuni neytenda í huga og ráðuneytinu er ekki kunnugt um að sérstakt tilefni sé til þess að ganga lengra en gert er ráð fyrir í þeim að því er varðar eftirlit með verðtryggðum lánum.
1    Sjá nánar: www.fme.is/media/um-fme/Gagnsaeisstefna-FME-16.4.2014.pdf
2    Sjá nánar: www.fme.is/utgefid-efni/frettir-og-tilkynningar/frettir/nr/1814 og www.fme.is/ut gefid-efni/frettir-og-tilkynningar/frettir/fjarmalaeftirlitid-fylgist-grannt-med-malum-er-varda-urlausn-a greiningsmala-um-gengislan
3    Sjá t.d.: www.fme.is/utgefid-efni/frettir-og-tilkynningar/gagnsaeistilkynningar/nr/1996 og www.fme.is/utgefid-efni/frettir-og-tilkynningar/gagnsaeistilkynningar/nr/1972
4    Sjá nánar: www.sedlabanki.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=8964
5    Sjá nánar: www.fme.is/eftirlitsstarfsemi/neytendavernd
6     Sjá nánar: www.fme.is/eftirlitsstarfssemi/urskurdarnefndir/urskurdanefnd-um-vidskipti-vid-fjarmalafyrirtaeki