Ferill 675. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Nr. 32/148.

Þingskjal 1364  —  675. mál.


Þingsályktun

um verkefni í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands í þágu barna og ungmenna og rannsókna er stuðli að sjálfbærni auðlinda hafsins.


    Alþingi ályktar eftirfarandi, í tilefni af aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands:
     a.      Stofnaður verði Barnamenningarsjóður Íslands sem njóti framlaga af fjárlögum næstu fimm ár, 2019–2023, 100 millj. kr. á ári.
                      Barnamenningarsjóður Íslands hafi að markmiði að fjármagna og styrkja verkefni á sviði barnamenningar. Jafnframt verði lögð áhersla á verkefni sem efli samfélagsvitund og stuðli að lýðræðislegri þátttöku barna í samfélaginu og verkefni er stuðli að áframhaldandi innleiðingu barnasáttmálans, samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Annað hvert ár verði efnt til Barnaþings sem taki til umfjöllunar málefni tengd börnum og ungmennum og hagsmunum þeirra.
                      Forsætisráðherra skipi fimm manna stjórn sjóðsins og fimm varamenn. Stjórn sjóðsins tilkynni um úthlutun úr sjóðnum á degi barnsins ár hvert.
                      Forsætisráðherra setji nánari reglur um starfsemi sjóðsins að fengnum tillögum sjóðstjórnar. Reglurnar verði birtar í Stjórnartíðindum.
                      Rannís, Rannsóknamiðstöð Íslands, sjái um umsýslu og vörslu sjóðsins.
     b.      Hafin verði smíði hafrannsóknaskips með framlagi af fjárlögum næstu þrjú ár, 2019– 2021, sem skiptist þannig að 300 millj. kr. verði varið til hönnunar og undirbúnings á árinu 2019 og 1.600 millj. kr. hvort ár 2020 og 2021 til smíði skipsins. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra verði falin framkvæmd þessa.

Samþykkt á Alþingi 18. júlí 2018.