Ferill 163. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1394  —  163. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Bjarna Jónssyni um innflutning á hráum og ógerilsneyddum matvælum.


     1.      Hvernig hyggst ráðherra tryggja sjálfsákvörðunarrétt Íslendinga til að takmarka innflutning á hráum, ófrosnum kjötvörum, eggjum og ógerilsneyddum mjólkurafurðum með tilliti til matvælaöryggis, lýðheilsu og þeirrar niðurstöðu EFTA-dómstólsins í sameinuðum málum E-2/17 og E-3/17 frá 14. nóv. 2017 að íslenskar reglur varðandi innflutning á hrárri og unninni kjötvöru, eggjum og mjólk samrýmist ekki almennum viðskiptaákvæðum EES-samningsins?
    Í upphafi þykir rétt að taka fram að hugtakið sjálfsákvörðunarréttur hefur í þjóðarétti fyrst og fremst merkingu varðandi rétt ríkja til sjálfstæðis. Það á því ekki vel við að nota það hugtak í samhengi við niðurstöðu EFTA-dómstólsins í framangreindum dómsmálum.
    Til svars við fyrirspurninni er rétt að gera grein fyrir hlutverki og verksviði utanríkisráðuneytisins gagnvart málshöfðunum ESA gegn íslenskum stjórnvöldum vegna samningsbrota á EES-samningnum. Samkvæmt g-lið 8. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 84/2017, fer utanríkisráðuneytið með aðild Íslands að alþjóðlegum samtökum, stofnunum, ráðstefnum og fundum er varða opinbera hagsmuni og eigi ber undir annað ráðuneyti samkvæmt forsetaúrskurði eða eðli máls. Á grundvelli þessa fer ráðuneytið með málarekstur fyrir EFTA-dómstólnum vegna samningsbrotamála sem ESA höfðar gegn íslenskum stjórnvöldum. Eðli málsins samkvæmt snertir málshöfðun í samningsbrotamáli ávallt verksvið annars ráðuneytis samkvæmt áðurnefndum forsetaúrskurði og því er málsvörn Íslands í slíkum málum ávallt unnin í fullri samvinnu utanríkisráðuneytis og þess ráðuneytis sem í hlut á. Kalli niðurstaða í máli fyrir EFTA-dómstólnum á að íslensk stjórnvöld geri ráðstafanir til að bregðast við henni fellur það í hlut þess ráðuneytis sem fer með ábyrgð á viðkomandi málaflokki að undirbúa slíkar ráðstafanir.
    Málsvarnir Íslands í framangreindum málum ESA gegn Íslandi voru unnar í samvinnu ráðuneytisins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, sem fer með málefni er varða innflutning landbúnaðarafurða, sbr. d-lið 6. tölul. 2. gr. forsetaúrskurðar. Vegna svars við fyrirspurninni fékk utanríkisráðuneytið þær upplýsingar frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu að unnið væri að því að tryggja varnir Íslands gegn salmonellu og kampýlóbakter. Þá hefur ráðherra sett á fót fimm manna ráðgjafahóp til að aðstoða við úrlausn málsins og ýmissa verkefna sem því tengjast.

     2.      Hvernig telur ráðherra vænlegast að tryggja á vettvangi utanríkismála að þau ákvæði laga nr. 143/2009 sem banna innflutning á hráum og ógerilsneyddum matvælum, sem geta reynst sýkingarvaldar, haldi gildi sínu og ákvörðun Alþingis um þetta, sem í lögunum felst, standi?
     3.      Hyggst ráðherra taka þessi mál upp á pólitískum og lagalegum grunni við forystu Evrópusambandsins til að kynna henni forsendur þeirrar afstöðu sem felst í lögum nr. 143/2009 og þá hagsmuni sem í húfi eru fyrir íslenska landbúnaðarframleiðslu, hollustuhætti og lýðheilsu, dýraheilbrigði og verndun íslenskra búfjárstofna?

    Með lögum nr. 143/2009 heimilaði Alþingi að staðfesta ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 133–138 frá 2007 sem mæltu fyrir um breytingar á I. viðauka EES-samningsins (sbr. 78. gr. laganna). Í sameinuðum málum E-2/17 og E-3/17 komst EFTA-dómstóllinn hins vegar að þeirri niðurstöðu að þau ákvæði laganna sem vísað er til í fyrirspurninni samræmdust ekki þeim breytingum á EES-samningnum sem Alþingi staðfesti með sömu lögum. Þessi niðurstaða var fengin að lokinni áralangri málsmeðferð milli íslenskra stjórnvalda og Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) þar sem íslensk stjórnvöld leituðust við að færa ítarleg rök fyrir þeirri afstöðu að umrædd ákvæði laga nr. 143/2009 stæðust skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum. Hins vegar féllust hvorki ESA né EFTA-dómstóllinn á þær röksemdir.
    Íslensk stjórnvöld hafa lýst því yfir að þau virði niðurstöðu EFTA-dómstólsins. Hins vegar er afar mikilvægt að vandað sé vel verka við breytingar á núgildandi fyrirkomulagi og hafa íslensk stjórnvöld af þeim sökum átt í samskiptum við bæði ESA og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og óskað eftir samstarfi við þessa aðila um viðbrögð við dómnum, m.a. um hvernig tryggja megi þau sjónarmið sem vísað er til í fyrirspurninni við framkvæmd framangreinds dóms EFTA-dómstólsins.