Ferill 155. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Prentað upp.

Þingskjal 541  —  155. mál.
Undirskriftir.

Síðari umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

Frá 1. minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.


    Samkvæmt stjórnarskrá skipar forsetinn ráðherra og veitir þeim lausn. Sömuleiðis ákveður hann tölu þeirra og skiptir með þeim störfum með forsetaúrskurði. Þetta gerir forseti að tillögu og á ábyrgð forsætisráðherra.
    Í lögum um Stjórnarráð Íslands er kveðið á um að það skiptist í ráðuneyti sem eru skrifstofur ráðherra og æðstu stjórnvöld framkvæmdarvaldsins á viðkomandi málefnasviði. Fjöldi og heiti ráðuneyta ásamt skiptingu stjórnarmálefna milli þeirra er ákveðinn í forsetaúrskurði að tillögu og á ábyrgð forsætisráðherra.
    Fyrsti minni hluti telur að stjórnarskrá og lög um Stjórnarráð Íslands feli í sér að forsætisráðherra hafi óskorað vald til þess að ákveða fjölda ráðuneyta, ráðherra og skiptingu stjórnarmálefna milli þeirra. Stjórnarskráin takmarkar ekki þetta vald þrátt fyrir að forsætisráðherra þurfi atbeina forseta.
    Fyrsti minni hluti telur að lögin um Stjórnarráð Íslands takmarki ekki þessa heimild forsætisráðherrans. Helst er að 2. mgr. 4. gr. laganna komi til skoðunar í þessu samhengi. Hún kveður á um að þess skuli jafnan gætt að eðlislík stjórnarmálefni heyri undir sama ráðuneyti. Ákvæðið er hins vegar svo opið að forsætisráðherra hefur nánast frjálsar hendur í þessum efnum.
    Fyrsti minni hluti bendir á að í 2. gr. laganna um Stjórnarráði Íslands eru engin fyrirmæli um efni, form eða rökstuðning þingsályktunartillögunnar sem lögð skuli fyrir Alþingi.
    Fyrsti minni hluti telur að eins og lagaumgjörðin um skipan ráðherra, ráðuneyti og skiptingu stjórnarmála er úr garði gerð sé í raun einungis gert ráð fyrir staðfestingu Alþingis að forminu til á fjölda og heitum ráðuneyta.
    Fyrsti minni hluti telur að gera verði ráð fyrir að forsætisráðherra setji ekki fram hugmyndir um skipan ráðuneyta og heiti þeirra í óþökk ríkisstjórnar sinnar og þar með þess meiri hluta sem ríkisstjórnin styðst við á Alþingi. Þegar af þeirri ástæðu sé ekki ástæða til þess að leita formlegrar staðfestingar Alþingis.
    Fyrsti minni hluti telur að það sé eðlilegur þáttur í aðgreiningu framkvæmdarvalds og löggjafarvalds að löggjafarvaldið hlutist ekki til um hvernig skipan, heitum eða fjölda ráðuneyta er háttað né heldur ráðstöfun stjórnarmálefna milli ráðuneyta. Löggjafarvaldið hefur aðrar leiðir til þess að veita framkvæmdarvaldinu aðhald og hafa með því eftirlit. Af þessum sökum telur 1. minni hluti rétt að lögin um Stjórnarráð Íslands verði endurskoðuð.
    Fyrsti minni hluti telur hvorki rétt að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd lýsi yfir stuðningi né leggi til að ætlan forsætisráðherra verði hindruð en leggi til að Alþingi álykti þess í stað einungis um að breytingin á skipan ráðuneytanna samrýmist lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011.
    Fyrsti minni hluti leggur til að þingsályktunartillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Tillögugreinin orðist svo:
    Alþingi ályktar að fyrirhuguð breyting á fjölda og heitum ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, sem felur í sér að í stað velferðarráðuneytis komi annars vegar heilbrigðisráðuneyti og hins vegar félagsmálaráðuneyti, samrýmist lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011.

Alþingi, 21. nóvember 2018.

Helga Vala Helgadóttir,
form.
Jón Steindór Valdimarsson,
frsm.