Ferill 413. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 554  —  413. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum vegna brottfalls laga um kjararáð, nr. 130/2016, með síðari breytingum (launafyrirkomulag).

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.I. KAFLI

Breyting á lögum um laun forseta Íslands, nr. 10/1990, með síðari breytingum.

1. gr.

    1. gr. laganna orðast svo:
    Laun forseta Íslands nema 2.985.000 kr. á mánuði. Launin skulu taka breytingum 1. júlí ár hvert. Hagstofa Íslands reiknar og birtir fyrir 1. júní hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár. Við mat á launabreytingum aflar Hagstofan skýrslna og gagna sem hún telur nauðsynleg og gerir jafnframt eigin kjararannsóknir eftir því sem hún telur þörf á. Við launaafgreiðslu fyrir júlí uppfærir Fjársýsla ríkisins krónutölufjárhæð til samræmis við tölur Hagstofunnar. Ráðherra sem fer með starfsmannamál ríkisins getur ákveðið að launin hækki hlutfallslega 1. janúar til samræmis við áætlaða breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins sem Hagstofan birtir fyrir 1. júní.

II. KAFLI

Breyting á lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, nr. 88/1995, með síðari breytingum.

2. gr.

    13. gr. a laganna orðast svo:
    Í reglum forsætisnefndar um þingfararkostnað má kveða á um að reglur um almenn starfskjör sem gilda um embættismenn þar sem laun eru ákveðin í sérákvæðum, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins gildi einnig um alþingismenn, eftir því sem við getur átt.

3. gr.

    1. mgr. 15. gr. laganna orðast svo:
    Þingfararkaup skv. 1. gr. nemur 1.101.194 kr. á mánuði. Þingfararkaup skal taka breytingum 1. júlí ár hvert. Hagstofa Íslands reiknar og birtir fyrir 1. júní hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár. Við mat á launabreytingum aflar Hagstofan skýrslna og gagna sem hún telur nauðsynleg og gerir jafnframt eigin kjararannsóknir eftir því sem hún telur þörf á. Við launaafgreiðslu fyrir júlí uppfærir Fjársýsla ríkisins krónutölufjárhæð til samræmis við tölur Hagstofunnar. Ráðherra sem fer með starfsmannamál ríkisins getur ákveðið að launin hækki hlutfallslega 1. janúar til samræmis við áætlaða breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins sem Hagstofan birtir fyrir 1. júní.

III. KAFLI

Breyting á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, með síðari breytingum.

4. gr.

    Við 3. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Laun forsætisráðherra nema 2.021.825 kr. á mánuði en laun annarra ráðherra 1.826.273 kr. á mánuði. Launin skulu taka breytingum 1. júlí ár hvert. Hagstofa Íslands reiknar og birtir fyrir 1. júní hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár. Við mat á launabreytingum aflar Hagstofan skýrslna og gagna sem hún telur nauðsynleg og gerir jafnframt eigin kjararannsóknir eftir því sem hún telur þörf á. Við launaafgreiðslu fyrir júlí uppfærir Fjársýsla ríkisins krónutölufjárhæð til samræmis við tölur Hagstofunnar. Ráðherra sem fer með starfsmannamál ríkisins getur ákveðið að launin hækki hlutfallslega 1. janúar til samræmis við áætlaða breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins sem Hagstofan birtir fyrir 1. júní.

5. gr.

    Við 16. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Laun ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins nema 1.817.643 kr. á mánuði og þar af skal greiðsla fyrir yfirvinnu og álag sem starfinu fylgir nema 478.600 kr. á mánuði. Laun annarra ráðuneytisstjóra nema 1.725.433 kr. á mánuði og þar af skal greiðsla fyrir yfirvinnu og álag sem starfinu fylgir nema 430.740 kr. á mánuði. Launin skulu taka breytingum 1. júlí ár hvert. Hagstofa Íslands reiknar og birtir fyrir 1. júní hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár. Við mat á launabreytingum aflar Hagstofan skýrslna og gagna sem hún telur nauðsynleg og gerir jafnframt eigin kjararannsóknir eftir því sem hún telur þörf á. Við launaafgreiðslu fyrir júlí uppfærir Fjársýsla ríkisins krónutölufjárhæð til samræmis við tölur Hagstofunnar. Ráðherra sem fer með starfsmannamál ríkisins getur ákveðið að launin hækki hlutfallslega 1. janúar til samræmis við áætlaða breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins sem Hagstofan birtir fyrir 1. júní.

6. gr.

    Fyrirsögn II. kafla laganna orðast svo: Um skipan og laun ráðherra og verkaskiptingu milli þeirra.

IV. KAFLI

Breyting á lögum um dómstóla, nr. 50/2016, með síðari breytingum.

7. gr.

    44. gr. laganna orðast svo:
    Laun forseta Hæstaréttar nema 2.008.085 kr. á mánuði og þar af skal greiðsla fyrir yfirvinnu og álag sem starfinu fylgir nema 526.460 kr. á mánuði. Laun varaforseta Hæstaréttar nema 1.891.910 kr. á mánuði og þar af skal greiðsla fyrir yfirvinnu og álag sem starfinu fylgir nema 459.456 kr. á mánuði. Laun annarra hæstaréttardómara nema 1.844.401 kr. á mánuði og þar af skal greiðsla fyrir yfirvinnu og álag sem starfinu fylgir nema 459.456 kr. á mánuði.
    Laun forseta Landsréttar nema 1.817.643 kr. á mánuði og þar af skal greiðsla fyrir yfirvinnu og álag sem starfinu fylgir nema 478.600 kr. á mánuði. Laun varaforseta Landsréttar nema 1.735.005 kr. á mánuði og þar af skal greiðsla fyrir yfirvinnu og álag sem starfinu fylgir nema 440.312 kr. á mánuði. Laun annarra landsréttardómara nema 1.692.155 kr. á mánuði og þar af skal greiðsla fyrir yfirvinnu og álag sem starfinu fylgir nema 440.312 kr. á mánuði.
    Laun dómstjórans í Reykjavík nema 1.689.042 kr. á mánuði og þar af skal greiðsla fyrir yfirvinnu og álag sem starfinu fylgir nema 478.600 kr. á mánuði. Laun varadómstjórans í Reykjavík nema 1.447.669 kr. á mánuði og þar af skal greiðsla fyrir yfirvinnu og álag sem starfinu fylgir nema 315.876 kr. á mánuði. Laun dómstjóra utan Reykjavíkur nema 1.533.817 kr. á mánuði og þar af skal greiðsla fyrir yfirvinnu og álag sem starfinu fylgir nema 402.024 kr. á mánuði. Laun annarra héraðsdómara nema 1.410.328 kr. á mánuði og þar af skal greiðsla fyrir yfirvinnu og álag sem starfinu fylgir nema 315.876 kr. á mánuði.
    Laun skv. 1.–3. mgr. skulu taka breytingum 1. júlí ár hvert. Hagstofa Íslands reiknar og birtir fyrir 1. júní hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár. Við mat á launabreytingum aflar Hagstofan skýrslna og gagna sem hún telur nauðsynleg og gerir jafnframt eigin kjararannsóknir eftir því sem hún telur þörf á. Við launaafgreiðslu fyrir júlí uppfærir Fjársýsla ríkisins krónutölufjárhæð til samræmis við tölur Hagstofunnar. Ráðherra sem fer með starfsmannamál ríkisins getur ákveðið að launin hækki hlutfallslega 1. janúar til samræmis við áætlaða breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins sem Hagstofan birtir fyrir 1. júní.
    Gangi dómari gæsluvaktir skal dómstólasýslan ákvarða laun fyrir það.
    Í reglum sem settar eru af dómstólasýslunni má kveða á um að reglur um almenn starfskjör sem gilda um embættismenn þar sem laun eru ákveðin í sérákvæðum, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, gildi einnig um dómara eftir því sem við getur átt að undanskildum ákvæðum um endurmenntun, sbr. 7. mgr.
    Dómari á annars vegar rétt á námsleyfi á launum til endurmenntunar og hins vegar styrk til starfsmenntunar. Dómari á rétt á launuðu námsleyfi á fjögurra ára fresti til að stunda endurmenntun, fyrst eftir fjögur ár í starfi. Dómari ávinnur sér þriggja vikna leyfi á hverju ári. Þó getur uppsafnaður réttur mest orðið sex mánuðir og greiðist ekki út við starfslok. Dómari heldur launum í námsleyfi og fær greiddan ferða- og dvalarkostnað samkvæmt reglum ferðakostnaðarnefndar. Dómstólasýslan setur nánari reglur um námsleyfi dómara, þar á meðal um hámark ferða- og dvalarkostnaðar.
    Ríkissjóður greiðir sem svarar til 0,92% af heildarlaunum hvers dómara í sérstakan starfsmenntunarsjóð dómara. Kostnaður dómara við námskeið, námsstefnur, ráðstefnur eða sambærilega þekkingaröflun sem telja má til starfsmenntunar greiðist úr sjóðnum. Ráðherra skipar þrjá menn í stjórn sjóðsins, þar af einn án tilnefningar og skal hann vera formaður sjóðsstjórnar, einn samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar Íslands og annan samkvæmt tilnefningu dómstólasýslunnar. Stjórn sjóðsins semur reglur fyrir úthlutun úr honum og tekur ákvarðanir um varðveislu sjóðsins og ávöxtun.

V. KAFLI

Breyting á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, með síðari breytingum.

8. gr.

    Við 20. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Laun vararíkissaksóknara nema 1.545.462 kr. á mánuði og þar af skal greiðsla fyrir yfirvinnu og álag sem starfinu fylgir nema 335.020 kr. á mánuði. Laun annarra saksóknara hjá ríkissaksóknara nema 1.358.535 kr. á mánuði og þar af skal greiðsla fyrir yfirvinnu og álag sem starfinu fylgir nema 335.020 kr. á mánuði.
    Laun skv. 3. mgr. skulu taka breytingum 1. júlí ár hvert. Hagstofa Íslands reiknar og birtir fyrir 1. júní hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár. Við mat á launabreytingum aflar Hagstofan skýrslna og gagna sem hún telur nauðsynleg og gerir jafnframt eigin kjararannsóknir eftir því sem hún telur þörf á. Við launaafgreiðslu fyrir júlí uppfærir Fjársýsla ríkisins krónutölufjárhæð til samræmis við tölur Hagstofunnar. Ráðherra sem fer með starfsmannamál ríkisins getur ákveðið að launin hækki hlutfallslega 1. janúar til samræmis við áætlaða breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins sem Hagstofan birtir fyrir 1. júní.

9. gr.

    Við 22. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Laun héraðssaksóknara nema 1.553.322 kr. á mánuði og þar af skal greiðsla fyrir yfirvinnu og álag sem starfinu fylgir nema 382.880 kr. á mánuði. Laun varahéraðssaksóknara nema 1.429.472 kr. á mánuði og þar af skal greiðsla fyrir yfirvinnu og álag sem starfinu fylgir nema 335.020 kr. á mánuði. Laun annarra saksóknara hjá héraðssaksóknara nema 1.358.535 kr. á mánuði og þar af skal greiðsla fyrir yfirvinnu og álag sem starfinu fylgir nema 335.020 kr. á mánuði.
    Laun skv. 3. mgr. skulu taka breytingum 1. júlí ár hvert. Hagstofa Íslands reiknar og birtir fyrir 1. júní hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár. Við mat á launabreytingum aflar Hagstofan skýrslna og gagna sem hún telur nauðsynleg og gerir jafnframt eigin kjararannsóknir eftir því sem hún telur þörf á. Við launaafgreiðslu fyrir júlí uppfærir Fjársýsla ríkisins krónutölufjárhæð til samræmis við tölur Hagstofunnar. Ráðherra sem fer með starfsmannamál ríkisins getur ákveðið að launin hækki hlutfallslega 1. janúar til samræmis við áætlaða breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins sem Hagstofan birtir fyrir 1. júní.

VI. KAFLI

Breyting á lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, með síðari breytingum.

10. gr.

    Á eftir 2. mgr. 23. gr. laganna koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Laun seðlabankastjóra nema 1.936.202 kr. á mánuði.
    Laun aðstoðarseðlabankastjóra nema 1.742.581 kr. á mánuði.
    Laun skv. 3. og 4. mgr. skulu taka breytingum 1. júlí ár hvert. Hagstofa Íslands reiknar og birtir fyrir 1. júní hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár. Við mat á launabreytingum aflar Hagstofan skýrslna og gagna sem hún telur nauðsynleg og gerir jafnframt eigin kjararannsóknir eftir því sem hún telur þörf á. Við launaafgreiðslu fyrir júlí uppfærir Seðlabankinn krónutölufjárhæð til samræmis við tölur Hagstofunnar. Ráðherra sem fer með starfsmannamál ríkisins getur ákveðið að launin hækki hlutfallslega 1. janúar til samræmis við áætlaða breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins sem Hagstofan birtir fyrir 1. júní.

11. gr.

    2. málsl. b-liðar 1. mgr. 28. gr. laganna fellur brott.

VII. KAFLI

Breyting á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938, með síðari breytingum.

12. gr.

    7. mgr. 20. gr. laganna orðast svo:
    Laun ríkissáttasemjara nema 1.593.322 kr. á mánuði og þar af skal greiðsla fyrir yfirvinnu og álag sem starfinu fylgir nema 382.880 kr. á mánuði. Launin skulu taka breytingum 1. júlí ár hvert. Hagstofa Íslands reiknar og birtir fyrir 1. júní hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár. Við mat á launabreytingum aflar Hagstofan skýrslna og gagna sem hún telur nauðsynleg og gerir jafnframt eigin kjararannsóknir eftir því sem hún telur þörf á. Við launaafgreiðslu fyrir júlí uppfærir Fjársýsla ríkisins krónutölufjárhæð til samræmis við tölur Hagstofunnar. Ráðherra sem fer með starfsmannamál ríkisins getur ákveðið að launin hækki hlutfallslega 1. janúar til samræmis við áætlaða breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins sem Hagstofan birtir fyrir 1. júní. Ráðherra ákveður laun vararíkissáttasemjara og aðstoðarsáttasemjara og þóknun sáttanefndarmanna.

13. gr.

    Í stað orðsins „Kjararáð“ í 2. málsl. 1. mgr. 66. gr. laganna kemur: Stjórn dómstólasýslunnar.

VIII. KAFLI

Breyting á lögum um yfirskattanefnd, nr. 30/1992, með síðari breytingum.

14. gr.

    Við 9. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Um laun og önnur starfskjör þeirra nefndarmanna sem hafa starfið að aðalstarfi fer skv. 39. gr. a laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

IX. KAFLI

Breyting á lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, nr. 130/2011, með síðari breytingum.

15. gr.

    Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Um laun og önnur starfskjör formanns og varaformanns nefndarinnar fer skv. 39. gr. a laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

X. KAFLI

Breyting á lögum um útlendinga, nr. 80/2016, með síðari breytingum.

16. gr.

    5. málsl. 3. mgr. 6. gr. laganna orðast svo: Um laun og önnur starfskjör þeirra fer skv. 39. gr. a laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

XI. KAFLI

Breyting á lögum um úrskurðarnefnd velferðarmála, nr. 85/2015.

17. gr.

    Í stað orðanna „af kjararáði“ í 4. málsl. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna kemur: skv. 39. gr. a laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

XII. KAFLI

Breyting á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum.

18. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „ákvörðun kjararáðs“ í 1. mgr. kemur: sérákvæðum í lögum.
     b.      Í stað orðsins „kjararáð“ í 2. mgr. kemur: fá greidd laun samkvæmt sérákvæðum í lögum.

19. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 39. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „af kjararáði“ í 1. málsl. kemur: samkvæmt sérákvæðum í lögum.
     b.      2. málsl. orðast svo: Laun og önnur launakjör skrifstofustjóra og sendiherra í Stjórnarráði Íslands, lögreglumanna, tollvarða og fangavarða skulu fara eftir kjarasamningum sem stéttarfélög eða samtök þeirra gera við ríkið, sbr. 47. gr.
     c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Ráðherra er heimilt að setja almennar reglur um starfskjör þeirra sem fá laun samkvæmt sérákvæðum í lögum.

20. gr.

    Í stað orðanna „þeirra er falla undir kjararáð“ í 5. mgr. 39. gr. a laganna kemur: þjóðkjörinna fulltrúa, dómara, saksóknara, ráðuneytisstjóra, seðlabankastjóra og ríkissáttasemjara.

XIII. KAFLI

Breyting á lögum um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara, nr. 141/2003, sbr. lög nr. 12/2009.

21. gr.

    Orðin „af kjararáði“ í 1. málsl. 2. mgr. 2. gr. laganna falla brott.

XIV. KAFLI

Breyting á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 94/1986, með síðari breytingum.

22. gr.

    1. tölul. 2. mgr. 1. gr. laganna orðast svo: Þeirra embættismanna ríkisins sem fá laun samkvæmt sérákvæðum í lögum sem um þá gilda og 39. gr. a laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins auk embættismanna og starfsmanna fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem vinna að stefnumörkun í mannauðs- og kjaramálum.

23. gr.

    1. tölul. 1. mgr. 19. gr. laganna orðast svo: Þeirra embættismanna ríkisins sem fá laun samkvæmt sérákvæðum í lögum sem um þá gilda og 39. gr. a laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

XV. KAFLI

Breyting á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr. 1/1997, með síðari breytingum.

24. gr.

    Í stað orðanna „ákvarðanir kjararáðs“ og „lögum um kjararáð“ í 6. mgr. 23. gr. laganna kemur: samkvæmt sérákvæðum í lögum.

25. gr.

    Í stað orðanna „lögum um kjararáð“ í 2. mgr. 35. gr. laganna kemur: samkvæmt sérákvæðum í lögum.

XVI. KAFLI

Breyting á lögum um ríkislögmann, nr. 51/1985, með síðari breytingum.

26. gr.

    3. málsl. 4. mgr. 2. gr. laganna fellur brott.

27. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Þrátt fyrir ákvæði laga þessara um að ráðherra sem fer með starfsmannamál sé heimilt að hækka laun 1. janúar ár hvert skal hann ekki beita þessari heimild fyrr en í fyrsta lagi 1. janúar 2020.
    Ákvarðanir bankaráðs Seðlabanka Íslands um rétt núverandi seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra til biðlauna og eftirlauna og ákvarðanir um önnur réttindi sem varða fjárhagslega hagsmuni seðlabankastjóra halda gildi sínu.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 60/2018, um brottfall laga um kjararáð, nr. 130/2016, með síðari breytingum, og 4. mgr. 60 gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr.78/1997, skulu laun þeirra sem ríkið stendur skil á skv. 60. gr. síðarnefndu laganna ekki taka breytingum fyrr en samkomulag næst við þjóðkirkjuna um breytt fyrirkomulag á framlagi ríkisins til þjóðkirkjunnar. Almenn og önnur starfskjör sem fram koma í ákvörðunarorði kjararáðs frá 17. desember 2017 gilda þar til samkomulag hefur náðst.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Ríkisstjórnin ákvað í janúar 2018, að höfðu samráði við heildarsamtök á vinnumarkaði, að skipa starfshóp um málefni kjararáðs. Forsætisráðherra skipaði starfshópinn 23. janúar 2018. Skyldi hann bera saman fyrirkomulag um ákvörðun launa hjá kjörnum fulltrúum, dómurum og embættismönnum í nágrannalöndum okkar og leggja fram tillögur að breyttu fyrirkomulagi launaákvarðana kjararáðs, væri annað fyrirkomulag talið líklegra til betri sáttar í þjóðfélaginu til framtíðar um ákvörðun launa þeirra sem stöðu sinnar vegna njóta ekki samningsréttar. Þá átti starfshópurinn að taka til skoðunar úrskurði kjararáðs, meta með hliðsjón af launasetningu og launabreytingum þeirra stétta sem samningsfrelsis njóta og launastefnu sem samið var um við meginþorra launafólks og eftir atvikum leggja fram tillögur um úrbætur. Formaður hópsins var Jóhannes Karl Sveinsson hrl. Auk hans sátu í hópnum fyrir hönd ríkisins Benedikt Árnason, skrifstofustjóri í forsætisráðuneyti, Guðrún Þorleifsdóttir, skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneyti, og Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, skrifstofustjóri í velferðarráðuneyti. Fyrir hönd aðila vinnumarkaðarins sátu í starfshópnum þau Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Helga Jónsdóttir, framkvæmdastjóri BSRB, og Magnús Norðdahl, lögfræðingur Alþýðusambands Íslands.
    Með lögum nr. 60/2018, um brottfall laga um kjararáð, nr. 130/2016, með síðari breytingum, var kjararáð lagt niður 1. júlí 2018. Með þessu frumvarpi er stefnt að breyttu fyrirkomulagi launaákvarðana þeirra sem heyrðu undir ákvörðunarvald kjararáðs, sbr. 1. gr. laga nr. 130/2016, sem felst í því að ákvörðun launa þeirra er skipað að mestu með hliðsjón af þeim tillögum sem starfshópurinn um málefni kjararáðs lagði til í skýrslu sinni.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Starfshópurinn skilaði skýrslu til forsætisráðherra 15. febrúar 2018. Í skýrslunni, dags. 1. febrúar 2018, er að finna samanburð fyrirkomulags við launaákvarðanir hjá kjörnum fulltrúum, dómurum og æðstu embættismönnum á Íslandi og í nágrannalöndunum, greining á úrskurðum kjararáðs og samanburður við launaþróun annarra starfsgreina. Þá var hópnum falið að gera tillögur að breyttu fyrirkomulagi og úrbótum.
    Í skýrslu starfshópsins kemur fram (bls. 13):
    „Að ákvörðun launa fyrir þjóðkjörna fulltrúa og æðstu embættismenn ríkja verður alltaf erfitt og umdeilt viðfangsefni. Þessar starfsgreinar fara með æðstu völd í samfélaginu og hafa því engan viðsemjanda um laun. Þá tengjast æðstu embættismenn einnig hinu pólitíska sviði á ýmsan hátt. Loks er almennt viðurkennt að ákvörðun launa dómara og nokkurra annarra starfsgreina njóti sérstöðu vegna þess að tryggja þarf starfskjör og sjálfstæði þeirra gagnvart öðrum greinum ríkisvaldsins. Þessi sjónarmið hafa í ýmsum ríkjum verið talin gilda um þá sem fara með saksóknarvald og forsvarsmenn ýmissa opinberra eftirlitsstofnana.
    Mismunandi er eftir ríkjum hvernig þetta er leyst en hér á landi hefur ákvörðunarvaldið um nokkurt skeið verið í höndum óháðs úrskurðaraðila, um tíma kjaranefndar og Kjaradóms, en nú kjararáðs. Þessir aðilar hafa, a.m.k. í orði kveðnu, fengið nokkuð gott svigrúm til ákvörðunar um kjör, þar með talið hvernig starfsgreinunum er raðað upp.
    Þessar ákvarðanir hafa valdið deilum í samfélaginu fyrr og nú. Í desember árið 2005 greip Alþingi til lagasetningar vegna umdeildra úrskurða Kjaradóms og var hann, ásamt kjaranefnd, lagður niður um leið. Við tók kjararáð árið 2006 og hefur löggjafinn gripið inn í störf ráðsins þegar þörf hefur þótt á. Fyrst með lækkun launa um 5–15% í kjölfar bankahrunsins 2008 og síðan með því að kveða á um frystingu launa þeirra sem heyrðu undir ráðið. Launalækkanirnar og frysting launa voru afnumin í úrskurði kjararáðs sem tók gildi í október árið 2011. Nánar er gerð grein fyrir þessu hér síðar.
    Frá lokum árs 2011 til loka árs 2015 ákvað kjararáð launabreytingar að mestu í samræmi við kjarasamningsbundnar hækkanir og almenna launaþróun. Í lok árs 2015 var hins vegar tekin ákvörðun um breytingar á launum dómara sem hafði í för með sér umtalsverðar hækkanir. Hið sama var uppi á teningnum árið 2016 þegar kjörnir fulltrúar og ýmsir embættismenn voru hækkaðir í nokkru samhengi við þær ákvarðanir sem teknar höfðu verið árið áður um dómara. Þessar hækkanir námu tugum prósenta.
    Sett voru ný lög um kjararáð og starfsaðferðir þess í árslok 2016. Vegna gildistökuákvæða má segja að kjararáð hafi í raun ekki enn hafið störf á grundvelli nýju laganna og því engin reynsla komin á þau.“
    Helstu niðurstöður starfshópsins eru:
     1.      Launaákvarðanir hafa ítrekað skapað ósætti og leitt til óróa á vinnumarkaði. Lögbundin viðmið Kjaradóms og síðar kjararáðs hafa verið óskýr og ósamrýmanleg. Alþingi hefur ítrekað hlutast til um endurskoðun úrskurða. Starfshópurinn telur margt mæla með því að gjörbreyta núgildandi fyrirkomulagi.
     2.      Gagnsæi og fyrirsjáanleika skortir um launaákvarðanir og raunveruleg laun.
     3.      Samanburður á launum æðstu embættismanna, dómara og kjörinna fulltrúa bendir ekki til þess að þau víki verulega frá því sem er í samanburðarlöndunum.
     4.      Í nágrannalöndunum eru ákvarðanir um laun kjörinna fulltrúa nánast undantekningarlaust teknar einu sinni á ári. Endurskoðun fylgir skilgreindri launaþróun næsta ár á undan.
     5.      Launaþróun þeirra sem heyra undir kjararáð víkur ekki merkjanlega frá almennri þróun launa á tímabilinu 2006–2017.
     6.      Á því tímabili sem kveðið er á um í rammasamkomulagi aðila vinnumarkaðarins og ríkisins, þ.e. 2013–2018, hafa laun þeirra sem eiga undir kjararáð hækkað um 35–64% en almenn þróun launa virðist liggja á bilinu 43–48%.
    Tillögur starfshópsins um fyrirkomulag launaákvarðana eru eftirfarandi:
     1.      Horfið verði frá því að úrskurða í kjararáði, eða hjá sambærilegum úrskurðaraðila, um laun þjóðkjörinna fulltrúa, æðstu embættismanna, ráðherra og annarra sem undir ráðið heyra.
     2.      Laun þingmanna verði ákvörðuð í lögum um þingfararkaup með fastri krónutölufjárhæð miðað við tiltekið tímamark. Laun ráðherra verði ákveðin með sama hætti í lögum um Stjórnarráð Íslands. Sama gildi um starfstengdar kostnaðargreiðslur sem jafnframt verði einfaldaðar og gagnsæi þeirra aukið. Laun forseta Íslands verði ákveðin með sambærilegum hætti í lögum um laun forseta Íslands.
     3.      Kjör dómara verði einnig ákveðin í lögum með fastri fjárhæð. Ríkissaksóknari nýtur samkvæmt lögum um meðferð sakamála sömu kjara og hæstaréttardómarar.
     4.      Þau laun sem þannig eru fastsett með lögum verði endurákvörðuð 1. maí ár hvert og gildi óbreytt í eitt ár frá þeim degi.
     5.      Við endurákvörðun launa skv. 4. tölul. telur starfshópurinn rökrétt að miða við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa ríkisstarfsmanna, eins og það birtist í tölum Hagstofu Íslands fyrir næstliðið almanaksár.
     6.      Hagstofan birti upplýsingar með stuttri greinargerð um breytingu meðaltals reglulegra launa ríkisstarfsmanna eigi síðar en 1. apríl ár hvert.
     7.      Vegna alþjóðlegra skuldbindinga um sjálfstæði seðlabanka og fjármálaeftirlits og hlutverks þeirra við að tryggja fjármálastöðugleika og efnahagslegan stöðugleika er eðlilegt að bankaráð Seðlabankans og stjórn Fjármálaeftirlitsins taki ákvörðun um laun æðstu stjórnenda þeirra.
     8.      Um aðra sem heyra nú undir kjararáð gildi að meginstefnu samningsréttur um kaup og kjör eða það fyrirkomulag sem ákveðið var í 39. gr. a laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Hér undir falla einnig biskup Íslands og starfsmenn þjóðkirkjunnar en taka þarf tillit til skuldbindinga ríkisvaldsins gagnvart þjóðkirkjunni í því sambandi.
    Helstu röksemdir starfshópsins fyrir breyttu fyrirkomulagi eru eftirfarandi:
     1.      Breytingar á launum æðstu embættismanna ríkisins verða ekki leiðandi. Með því fyrirkomulagi að laun séu endurskoðuð eftir að launaþróun næstliðins árs liggur fyrir er komið í veg fyrir ósamræmi milli launaþróunar þeirra og annarra.
     2.      Þróun á launum verður jafnari. Ekki mun koma til þess að endurskoðun dragist og hækkanir verði í stórum stökkum.
     3.      Laun æðstu embættismanna ríkisins verða gagnsærri og fyrirsjáanlegri. Í núgildandi fyrirkomulagi eru laun embættismanna og dómara hvergi aðgengileg almenningi og illskiljanleg, meðal annars vegna þess að stór hluti launa er greiddur í formi eininga og laun og önnur kjör þingmanna og ráðherra hafa verið ákveðin af tveimur aðilum.
     4.      Mælikvarðar og tímamörk endurskoðunar á launum verða öllum ljós. Þeir sem launin þiggja geta áttað sig á því hvernig endurskoðun verður háttað og ríkissjóður getur áætlað útgjöld vegna launanna á skipulegan hátt.
     5.      Komið er í veg fyrir óskýrar launaákvarðanir. Þau störf sem um ræðir (þjóðkjörnir fulltrúar, ráðherrar, dómarar o.fl.) eru stöðug í þeim skilningi að þeir sem þeim gegna koma og fara en störfin eru þau sömu. Ekki er um að ræða framgang innan sömu embætta eða breytingar sem kalla á sérstakt mat á starfsmönnum eða störfunum sjálfum eftir að hæfileg laun eru ákveðin í eitt skipti fyrir öll.
     6.      Launaákvarðanir eru samræmdar. Með því að launaákvarðanir um fleiri starfsgreinar fari eftir 39. gr. a í lögum um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna og verði á hendi eins aðila má ætla að eðlilegra samræmi og samfella verði í starfsmati og kjörum.
    Í skýrslu starfshópsins segir að ef ekki verður um frekari endurskoðun að ræða á árinu 2018, þ.e. laun haldist óbreytt frá síðustu úrskurðum kjararáðs til ársloka 2018, yrði launaþróun kjararáðshópsins að meðaltali við þau mörk sem rammasamkomulagið setti og að framan hafa verið metin á bilinu 43–48%. Hins vegar er launaþróun innan hópsins afar mismunandi. Til dæmis hafa héraðsdómarar fengið 35% hækkun en ráðherrar 64% hækkun á sama tímabili. Ef litið er til lengri tíma, t.d. starfstíma kjararáðs frá 2006, blasir við önnur mynd. Á því tímabili hafa laun þessara starfsgreina þróast á svipaðan hátt.
    Á myndinni eru sýnd hlutföll launa forsætisráðherra, annarra ráðherra og þingmanna annars vegar og meðaltals reglulegra launa ríkisstarfsmanna 2006−2017 með áætlun fyrir árið 2018. Þannig voru laun ráðherra annarra en forsætisráðherra 3,13-föld meðallaun ríkisstarfsmanna á árinu 2006. Hlutfallið lækkaði niður í 2,54 árið 2013 og áætlað er að hlutfallið verði 2,84 í árslok 2018. Á sama hátt var þingfararkaup 1,75-föld meðallaun ríkisstarfsmanna á árinu 2006, hlutfallið var 1,44 á árinu 2013 og áætlað hlutfall er 1,71 í árslok 2018. Skýrsla starfshópsins er fylgiskjal með frumvarpinu.

Mynd 1. Laun kjörinna fulltrúa í hlutfalli við meðallaun ríkisstarfsmanna 2006−2018.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Skýringar við mynd: 1. Meðallaun ríkisstarfsmanna = regluleg laun. Tímaröð Hagstofunnar hefst árið 2008. Árin 2006 og 2007 eru bakreiknuð með launavísitölu ríkisstarfsmanna. Hækkun launavísitölu árið 2018 er áætluð samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofunnar frá nóv. 2017 um hækkun launavísitölu í heild, þ.e. 5,9%. 2. Laun kjörinna fulltrúa: Miðað er við mánaðarlaun í síðasta úrskurði kjararáðs ár hvert. Eru því ekki ársmeðaltöl.

    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á nokkrum lögum vegna brottfalls laga um kjararáð, nr. 130/2016, með lögum nr. 60/2018, að mestu með hliðsjón af tillögum sem fram komu í skýrslu starfshópsins um kjararáð. Um er að ræða breytingar á lögum um laun forseta Íslands, nr. 10/1990, lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, nr. 88/1995, lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, lögum um dómstóla, nr. 50/2016, lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938, lögum um yfirskattanefnd, nr. 30/1992, lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, nr. 130/2011, lögum um útlendinga, nr. 80/2016, lögum um úrskurðarnefnd velferðarmála, nr. 85/2015, lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, lögum um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara, nr. 141/2003, lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 94/1986, lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr. 1/1997, og lögum um ríkislögmann, nr. 51/1985.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er stefnt að breyttu fyrirkomulagi launaákvarðana þeirra sem féllu undir úrskurðarvald kjararáðs samkvæmt lögum nr. 130/2016 sem felld voru úr gildi með lögum nr. 60/2018. Með frumvarpinu er stefnt að því að störf sem fallið geta undir launafyrirkomulag sem ákveðið er í 39. gr. a laga nr. 70/1996 geri það. Í ljósi eðlis nokkurra starfa þykir þó ekki rétt að ráðherra skv. 39. gr. a laga nr. 70/1996 eða hlutaðeigandi ráðherra hafi aðkomu að ákvörðun launa og starfskjara þeirra vegna sjónarmiða um sjálfstæði starfanna gagnvart framkvæmdarvaldinu.
    Í frumvarpinu er því lagt til að laun þessara aðila verði fest við ákveðna krónutölufjárhæð sem taki mið af síðasta úrskurði kjararáðs um viðkomandi starf auk þess sem föst krónutölufjárhæð fyrir yfirvinnu og álag sem starfinu fylgir taki mið af einingum sem kjararáð hafði úrskurðað fyrir starfið, þar sem það á við. Jafnframt er lagt til að krónutölufjárhæðin verði endurákvörðuð ár hvert miðað við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins eins og þær birtast í tölum Hagstofu Íslands fyrir næstliðið almanaksár. Við framkvæmd þessa ákvæðis er gert ráð fyrir því að þegar Hagstofan hefur birt tölurnar fyrir 1. júní ár hvert komi það í hlut Fjársýslu ríkisins eða launagreiðanda þar sem það á við að uppfæra krónutölufjárhæð við launaafgreiðslu fyrir júlí ár hvert. Jafnframt getur ráðherra sem fer með starfsmannamál tekið ákvörðun um að hækka launin hlutfallslega 1. janúar ár hvert til samræmis við áætlaða breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins sem Hagstofan birtir 1. júní. Með þessu er lagt til að laun geti hækkað tvisvar á ári svo að launahækkanir þessara aðila verði jafnari og nær almennri þróun kjaramála í tíma en ef hækkunin yrði aðeins einu sinni á ári.
    Einnig er lagt til að nokkrir aðilar falli undir ákvæði kjarasamninga og viðkomandi stéttarfélag semji fyrir þeirra hönd. Með frumvarpinu eru því lagðar til breytingar á lögum með það að markmiði að koma á fót nýju fyrirkomulagi launaákvarðana fyrir þá sem féllu undir kjararáð samkvæmt lögum nr. 130/2016.
    Samkvæmt 1. gr. laga um kjararáð var það verkefni ráðsins að ákveða laun og starfskjör þjóðkjörinna manna, dómara, saksóknara, ráðherra, ráðuneytisstjóra, sendiherra og þeirra skrifstofustjóra sem heyra undir ráðherra sem fer með starfsmannamál ríkisins og fara með fyrirsvar fyrir hönd ráðherra við gerð kjarasamninga við forsetaritara, seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra og ríkissáttasemjara, sjá töflu 1. Einnig ákvað ráðið laun og starfskjör nefndarmanna yfirskattanefndar, úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, kærunefndar útlendingamála og úrskurðarnefndar velferðarmála sem eru í fullu starfi, sjá töflu 2.
    Meginefni frumvarpsins er að lagt er til:
     1.      Laun þjóðkjörinna manna verði ákvörðuð í lögum með fastri krónutölufjárhæð og þau síðan endurákvörðuð í júní ár hvert miðað við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins.
     2.      Laun dómara, saksóknara, ráðherra, ráðuneytisstjóra, ríkissáttasemjara, seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra verði ákvörðuð í lögum með fastri krónutölufjárhæð sem og hver sé þar af föst krónutölufjárhæð fyrir yfirvinnu og álag sem starfinu fylgir. Launin verði síðan endurákvörðuð 1. júlí ár hvert miðað við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins.
     3.      Laun og starfskjör forsetaritara og nefndarmanna í fullu starfi hjá nokkrum úrskurðarnefndum verði ákvörðuð með hliðsjón af því launafyrirkomulagi sem ákveðið er í 39. gr. a laga nr. 70/1996.
     4.      Laun og starfskjör skrifstofustjóra sem heyra undir ráðherra sem fer með starfsmannamál ríkisins, sem fara með fyrirsvar fyrir hönd ráðherra við gerð kjarasamninga, verði ákveðin af ráðherra með hliðsjón af kjarasamningi sem aðrir skrifstofustjórar Stjórnarráðsins falla undir.
     5.      Laun og starfskjör sendiherra falli undir kjarasamninga og að viðkomandi stéttarfélag semji fyrir þeirra hönd.
    Í nokkrum tilvikum hefur löggjafinn í gegnum tíðina ákveðið aðra framkvæmd á launaákvörðun embættismanna sem eðli starfs síns vegna njóta sérstöðu. Helstu rökin fyrir þessari skipan er að ekki hefur verið talið æskilegt að framkvæmdarvaldið fjalli um launakjör þeirra og hefur því verið fjallað um þau í sérlögum um viðkomandi embættismenn. Þetta gildir nú um ríkissaksóknara auk þess sem sérákvæði gilti um ríkissáttasemjara fyrir gildistöku laga nr. 130/2016.
    Um kjör ríkissaksóknara er fjallað í 1. mgr. 20. gr. laga nr. 88/2008 en þar segir:
    „Ríkissaksóknari er æðsti handhafi ákæruvalds og ber ábyrgð á ákvörðunum þeirra sem við embætti hans starfa. Skal hann skipaður ótímabundið í embætti af ráðherra og fullnægja lagaskilyrðum til skipunar í dómaraembætti við Hæstarétt. Skal hann enn fremur njóta sömu lögkjara og hæstaréttardómarar, eftir því sem við verður komið.“
    Ekki er samkvæmt frumvarpinu gert ráð fyrir að breyting verði á greininni en að ríkissaksóknari njóti áfram sömu kjara og hæstaréttardómarar.
    Um kjör ríkissáttasemjara er fjallað í 7. mgr. 20. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938. Áður en ákvæðinu var breytt með lögum nr. 130/2016 sagði þar: „Laun ríkissáttasemjara skulu ákveðin á sama hátt og laun ráðherra og hæstaréttardómara. Ráðherra ákveður laun vararíkissáttasemjara og aðstoðarsáttasemjara og þóknun sáttanefndarmanna.“ Í ljósi fyrri sérstöðu ríkissáttasemjara er í frumvarpinu lagt til að laun ríkissáttasemjara verði ákvörðuð í lögum með fastri krónutölufjárhæð fyrir dagvinnu og álag fyrir yfirvinnu miðað við tiltekið tímamark og þau síðan endurákvörðuð 1. júlí ár hvert miðað við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins.
    Einnig má nefna að sérákvæði gilda um ríkisendurskoðanda og umboðsmann Alþingis en þeir starfa á vegum Alþingis. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, nr. 46/2016, ákvarðar forsætisnefnd Alþingis honum laun. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga um umboðsmann Alþingis, nr. 85/1997, ákveður forsætisnefnd Alþingis laun hans auk þess sem hann skal að öðru leyti njóta kjara hæstaréttardómara. Er byggt á þeim viðhorfum að umboðsmaður Alþingis sé algjörlega sjálfstæður og óháður handhöfum framkvæmdarvaldsins í störfum sínum þar sem hlutverk hans sé að hafa eftirlit með þessum aðilum. Samrýmist það ekki þessum sjónarmiðum að umboðsmaður sé háður tilteknum handhöfum framkvæmdarvalds um launaákvörðun sem honum ber að hafa eftirlit með.
    Í tillögum starfshópsins kemur fram að vegna alþjóðlegra skuldbindinga um sjálfstæði seðlabanka og fjármálaeftirlits og hlutverks þeirra við að tryggja fjármálastöðugleika og efnahagslegan stöðugleika er eðlilegt að bankaráð Seðlabanka Íslands og stjórn Fjármálaeftirlitsins taki ákvörðun um laun æðstu stjórnenda þeirra. Í frumvarpinu er hins vegar lagt til að laun seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra verði ákvörðuð í lögum með fastri krónutölufjárhæð og þar af fastri krónutölufjárhæð fyrir yfirvinnu og álag sem starfinu fylgir, sjá nánar athugasemdir um 10. gr. Stjórn Fjármálaeftirlitsins var falið með lögum nr. 130/2016 að ákvarða laun og önnur kjör forstjóra þess skv. 39. gr. a laga nr. 70/1996. Í frumvarpinu eru því ekki lagðar til breytingar á ákvörðun launa forstjórans. Sama fyrirkomulag gildir og við ákvörðun launa hjá stjórn Samkeppniseftirlitsins, Íbúðalánasjóðs, Bankasýslu ríkisins og Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Með þessum breytingum var stjórnum sjálfstæðra stofnana falið að ákvarða laun og önnur starfskjör með hliðsjón af 39. gr. a laga nr. 70/1996.
    Í tillögum starfshópsins um kjararáð kemur fram að um aðra sem heyrðu undir kjararáð gildi að meginstefnu samningsréttur um kaup og kjör eða það fyrirkomulag sem ákveðið var í 39. gr. a laga nr. 70/1996. Hér undir falla m.a. aðstoðarseðlabankastjóri, forsetaritari, tveir skrifstofustjórar í Stjórnarráði Íslands, sem fara með fyrirsvar fyrir hönd ráðherra við gerð kjarasamninga, sendiherrar, nefndarmenn í fullu starfi hjá úrskurðarnefndum sem taldar voru upp í 1. gr. laga nr. 130/2016 og biskup Íslands og starfsmenn þjóðkirkjunnar.
    Verði frumvarpið samþykkt óbreytt sem lög frá Alþingi felst í því að laun og starfskjör skrifstofustjóra sem heyra undir ráðherra sem fer með starfsmannamál ríkisins og fara með fyrirsvar fyrir hönd ráðherra við gerð kjarasamninga og sendiherra fari eftir kjarasamningum. Þessir skrifstofustjórar eru nú skrifstofustjóri kjara- og mannauðssýslu ríkisins og skrifstofustjóri stjórnunar og umbóta. Þessir skrifstofustjórar gegna svo veigamiklu hlutverki við mótun og framkvæmd starfsmannastefnu ríkisins og við gerð kjarasamninga fyrir hönd fjármála- og efnahagsráðherra að telja verður að þeir fari í raun með jafngildi fyrirsvars fyrir ríkið í kjaramálum fyrir hönd ráðherra sem fer með formlegt fyrirsvar, sbr. 3. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 94/1986. Þar sem annar skrifstofustjóranna er oftast skipaður formaður samninganefndar ríkisins, og fellur því ekki undir ákvæði laga nr. 94/1986, sbr. 4. tölul. 2. mgr. 1. gr. þeirra laga, verður að gera ráð fyrir því að það muni koma í hlut ráðherra að taka ákvörðun um laun og starfskjör hans með hliðsjón af viðkomandi kjarasamningi. Hvað hinn skrifstofustjórann varðar verður einnig að gera ráð fyrir því að það komi í hlut ráðherra að taka ákvörðun um laun og starfskjör hans með hliðsjón af viðkomandi kjarasamningi vegna tengsla hans við fyrirsvar ríkisins í kjaramálum. Jafnframt er í 22. og 23. gr. frumvarpsins gert ráð fyrir því að lög nr. 94/1986 taki ekki til þessa skrifstofustjóra auk þeirra starfsmanna fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem vinna við stefnumörkun í mannauðs- og kjaramálum en þeir eru nú tveir. Er hér lagt til að sama gildi um þessa starfsmenn og um þá sem skipaðir eru í samninganefnd ríkisins, sbr. 4. tölul. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 94/1986. Skrifstofustjórar í Stjórnarráði Íslands heyra nú undir stéttarfélag Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins. Sendiherrar voru, áður en laun þeirra voru felld undir kjaranefnd, í stéttarfélagi Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins.
    Starf forsetaritara er um margt sérstakt og þess eðlis að það á sér ekki beina hliðstæðu innan stjórnkerfisins auk þess sem ekki gilda sérstök ákvæði um hann í lögum. Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 70/1996 telst forsetaritari embættismaður og í því ljósi er lagt til að laun og starfskjör hans verði ákvörðuð skv. 39. gr. a laga nr. 70/1996 en samkvæmt ákvæðinu skal ráðherra ákveða hverjar skuli vera forsendur grunnmats og skal þar einkum horft til umfangs og ábyrgðar. Ráðherra ákvarðar jafnframt forsendur viðbótarlauna. Þá ákvarðar ráðherra einnig starfskjör forstöðumanna. Hlutaðeigandi ráðherra, eða eftir atvikum stjórn, ákvarðar greiðslu viðbótarlauna, innan ramma almennra forsendna sem ráðherra setur. Í samræmi við stjórnskipun Íslands og forsetaúrskurð um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands fer forsætisráðuneytið með mál sem varða forseta Íslands. Það fellur því í hlut forsætisráðuneytisins að koma að málum forsetaritara þegar vísað er til hlutaðeigandi ráðherra í 39. gr. a laga nr. 70/1996. Með verklagsreglum sem tóku gildi 1. janúar 2006 var lögð áhersla á skýra embættislega og rekstrarlega ábyrgð forsetaritara í umboði forseta á allri starfsemi embættisins auk þess sem hann er helsti trúnaðarmaður forseta, talsmaður hans og erindreki gagnvart öllum sem forseti þarf að hafa samskipti við eða afla upplýsinga frá. Í þessu ljósi verður að gera ráð fyrir því að forsætisráðuneytið hafi náið samráð við forseta Íslands þegar það kemur að málum sem varða laun og starfskjör forsetaritara.
    Með frumvarpinu er lagt til að laun og starfskjör tiltekinna nefndarmanna í ákveðnum úrskurðarnefndum vegna stjórnvaldsákvarðana fari eftir því nýja launafyrirkomulagi sem lagt var til skv. 39. gr. a laga nr. 70/1996. Stöðu og hlutverki þessara nefndarmanna er þannig háttað að laun og starfskjör viðkomandi geta ekki ráðist af samningum á venjulegan hátt og því er lagt til að ráðherra skv. 39. gr. a laga nr. 70/1996 og hlutaðeigandi ráðherra hafi aðkomu að ákvörðun launa og starfskjara nefndarmanna, sjá nánar kafla um 14.–17. gr. frumvarpsins.
    Þar sem kjararáð hefur verið lagt niður með lögum nr. 60/2018 leiðir samkomulag ríkis og þjóðkirkju frá 1997 og 60. gr. laga nr. 78/1997 til þess að taka þarf tillit til skuldbindinga ríkisvaldsins gagnvart þjóðkirkjunni og ganga til samninga við þjóðkirkjuna um breytt fyrirkomulag á framlagi ríkisins til hennar. Fulltrúar ríkisins eiga nú í viðræðum við fulltrúa þjóðkirkjunnar um fjárhagsleg samskipti ríkis og kirkju þar sem m.a. er rætt um endurskoðun á svokölluðu kirkjujarðasamkomulagi.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins kallar ekki á sérstaka skoðun á samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar að öðru leyti en því sem fram kemur um dómara í athugasemdum um 7. gr. frumvarpsins og saksóknara í athugasemdum um 8.–9. gr. frumvarpsins.

5. Samráð.
    Frumvarpið snertir fyrst og fremst þá sem heyrðu undir ákvörðunarvald kjararáðs. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2016 voru það þjóðkjörnir menn, dómarar, saksóknarar, ráðherrar, ráðuneytisstjórar, sendiherrar og þeir skrifstofustjórar sem heyra undir ráðherra sem fer með starfsmannamál ríkisins og fara með fyrirsvar fyrir hönd ráðherra við gerð kjarasamninga, forsetaritara, seðlabankastjóra, aðstoðarseðlabankastjóra, ríkissáttasemjara og nefndarmenn yfirskattanefndar, úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, kærunefndar útlendingamála og úrskurðarnefndar velferðarmála sem eru í fullu starfi.
    Frumvarpið varðar breytingar á nokkrum lögum sem heyra undir málefni Alþingis, forsætisráðuneytisins, dómsmálaráðuneytisins, fjármála- og efnahagsráðuneytisins, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, utanríkisráðuneytisins og velferðarráðuneytisins.
    Frumvarpið var sent til eftirtalinna aðila til ábendinga eða athugasemda: Skrifstofu Alþingis vegna breytinga á lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, Dómarafélags Íslands og dómstólasýslunnar vegna dómara, ríkissaksóknara og héraðssaksóknara vegna saksóknara, Seðlabanka Íslands vegna seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra, utanríkisráðuneytisins vegna sendiherra, skrifstofu forseta Íslands vegna forseta Íslands og forsetaritara, Biskupsstofu og Prestafélags Íslands vegna biskups, vígslubiskupa, prófasta og presta, ríkissáttasemjara og yfirskattanefndar, úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, kærunefndar útlendingamála og úrskurðarnefndar velferðarmála vegna nefndarmanna sem eru í fullu starfi.
    Ábendingar og athugasemdir bárust frá Dómarafélagi Íslands, dómstólasýslunni, Prestafélagi Íslands, Seðlabanka Íslands og vararíkissaksóknara.
    Í umsögn Dómarafélags Íslands er m.a. vikið að tómlæti kjararáðs gagnvart erindum dómara. Ráðið hafi ekki sinnt ítrekuðum beiðnum dómara um endurskoðun kjara og hafi starfskjör dómara engum breytingum tekið frá því um mitt ár 2016. Jafnframt kemur fram í umsögn félagsins að laun dómara snúist um annað og meira en það hvaða starfskjör verði talin sanngjörn og eðlileg í samanburði við aðra embættismenn í þjónustu ríkisins. Ákvörðun um launakjör dómara væri öðrum þræði ákvörðun um stöðu dómara innan stjórnkerfisins og hvort sjálfstæði þeirra sé tryggt almennt og gagnvart öðrum þáttum ríkisvaldsins. Störf dómara séu í eðli sínu þannig að þau gera kröfu um að dómstólar séu sjálfstæðir í störfum sínum og þar með óháðir öðrum handhöfum ríkisvaldsins. Dómarar þurfa oft og tíðum að taka afstöðu til álitamála á borð við það hvort athafnir ráðherra samrýmist lögum eða hvort lög sem Alþingi setur standist stjórnarskrá. Almenningur verður að geta treyst því að dómarar sjái sér engan hag í því að þurfa að þóknast valdhöfum í dómsstörfum sínum. Um þessa stöðu dómara og dómsvaldsins er fjallað í stjórnarskrá og í lögum nr. 50/2016, um dómstóla. Auk þess er víða í alþjóðlegum samningum og tilmælum vísað til skyldu ríkisins til að tryggja sjálfstæði dómara og í því efni m.a. sett fram viðmið um laun þeirra og fyrirkomulag launaákvarðana. Er í alþjóðlegum reglum í fyrsta lagi lögð áhersla á að kjör dómara endurspegli þá ábyrgð, skyldur og virðingu sem starfinu fylgja. Í því efni er einnig vísað til þess að þokkaleg launakjör dómara stuðli að sjálfstæði þeirra og vernd stéttarinnar fyrir utanaðkomandi þrýstingi á ákvarðanir dómara og hegðun. Þá er í öðru lagi lögð áhersla á að laun og kjör dómara skuli tryggð með lögum og skuli sæta reglulegri endurskoðun og að laun dómara verði ekki lækkuð á skipunartíma þeirra. Loks er í þessum alþjóðlegu reglum fjallað um eftirlaun dómara. Í umsögninni leggur félagið áherslu á að tillögur um framtíðarskipan launaákvarðana dómara taki mið af sjálfstæði dómsvaldsins samkvæmt ákvæðum stjórnarskrár, laga og alþjóðlegra samþykkta, og þá túlkun stjórnarskrár sem lögð var til grundvallar í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli E-1939/2006. Hvað varðar launaákvarðanir samkvæmt frumvarpsdrögum er tekið fram í umsögn félagsins að verði frumvarpið samþykkt óbreytt feli það í sér að laun dómara verði við gildistöku þau sömu og kjararáð ákvað í árslok 2015 að viðbættri almennri hækkun samkvæmt úrskurði ráðsins í júní 2016. Slík lagasetning myndi í reynd leiða til skerðingar á starfskjörum dómara miðað við breytingar sem voru gerðar á starfsumhverfi dómara með lögum nr. 50/2016 og þróun vísitölu. Telur félagið viðbúið að á það muni reyna hvort slík lagasetning samrýmist þeim sjónarmiðum sem leidd verða af grunnreglu 2. og 70. gr. stjórnarskrárinnar samkvæmt fyrrnefndum dómi og eftir atvikum alþjóðlegum eftirlitsaðilum. Félagið gerir nokkrar athugasemdir við þá tilhögun að laun skuli taka breytingum 1. maí ár hvert til samræmis við breytingu á meðaltali reglulegra launa ríkisstarfsmanna eins og þær birtast í tölum Hagstofunnar. Athugasemdir félagsins eru eftirfarandi:
     1.      Verði ákvæðið óbreytt að lögum þýði það að laun dómara verði fryst í tæplega þrjú ár og hækkunin sem þá er gert ráð fyrir að verði ákveðin taki mið af launabreytingum miðað við tiltekna launaþróun á árinu 2018. Að mati félagsins er nauðsynlegt að taka tillit til þessa, annaðhvort með því að ákveða grunnlaunasetningu í lögunum miðað við breytingar á launavísitölu frá miðju ári 2016 til gildistöku laganna, eða með bráðabirgðaákvæði í lögunum, þar sem kveðið verði á um að við ákvörðun um breytingar á launum 1. maí 2019 verði miðað við breytingar sem orðið hafa á launum frá 1. júní 2016.
     2.      Hvorki í lagatextanum sjálfum né í athugasemdum í greinargerð sé að finna skýringar á því hvernig ákvæðið um breytingar á launum skuli útfært, svo sem hverjum sé falið að reikna út launabreytingarnar, hver beri ábyrgð á því að koma þeim til framkvæmda eða hvort gert sé ráð fyrir að það verði gert með breytingum á lögunum sjálfum.
     3.      Félagið telur mikilvægt að í lagaákvæðinu sjálfu og í skýringum í greinargerð verði vísað til þeirra skyldna sem leiðir af ákvæðum stjórnarskrár og alþjóðlegra skuldbindinga að því er launaákvarðanir dómara varðar.
     4.      Ekki sé vikið að því í lögskýringargögnum hvað nánar felst í útreikningi viðmiðs sem taki mið af því sem kallað er meðaltal reglulegra launa ríkisstarfsmanna eins og þær birtast í tölum Hagstofunnar og því nauðsynlegt að skýra nánar þetta viðmið og jafnframt vísa til þess hvort forsendur útreiknings geti tekið breytingum og hvaða áhrif það hafi á launaákvarðanir þeirra hópa sem eru tengdir við þessa vísitölu.
     5.      Félagið gerir verulegar athugasemdir við það fyrirkomulag að gert sé ráð fyrir því að fella niður með öllu samtal á milli þess eða þeirra sem taki ákvörðun um launabreytingar og þeirra sem launabreytingin varðar.
     6.      Loks telur félagið mikilvægt að skýrt sé að lögin leiði ekki til þess að lífeyriskjör dómara verði skert og nauðsynlegt að það komi afdráttarlaust fram í frumvarpinu.
    Í umsögn dómstólasýslunnar er vakin athygli á samþykkt kjararáðs á erindi dómstólasýslunnar um heimild hennar til að mæla fyrir um hámark á ferða- og dvalarkostnað í reglum um námsleyfi dómara.
    Í umsögn sinni áréttar Prestafélag Ísland þá einstöku stöðu prestastéttarinnar að hún býr við lögvarinn rétt skv. 60. gr. laga nr. 78/1997, um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, til þess að óvilhallur aðili ákvarði launakjör hennar. Niðurlagning kjararáðs feli því í sér að nauðsynlegt sé að annað komi í staðinn. Eins og með aðra samninga er það jafnframt réttur og ábyrgð allra sem að þeim koma að hafa áhrif á endurskoðun þeirra og er félagið fúst til slíks samtals.
    Samkvæmt umsögn Seðlabanka Íslands telur bankinn heppilegast að ákvörðunarvald um laun seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra verði fært aftur til þess horfs sem gilti frá 1961–2009, þ.e. til bankaráðs. Það væri auk þess í samræmi við tillögur starfshópsins um málefni kjararáðs. Verði hins vegar sú leið valin að festa krónutölufjárhæð launa seðlabankastjóra í lög leggur bankinn áherslu á að sú fjárhæð verði í samhengi við laun og launaþróun á undanförnum árum. Minnir bankinn á að meðal mála sem ólokið var þegar kjararáð var lagt niður voru laun seðlabankastjóra og að þau hafi ekki breyst síðan 2016. Einnig kemur fram í umsögn bankans að ekki sé vikið að biðlaunarétti seðlabankastjóra í frumvarpsdrögunum og verði ekki annað séð en að um seðlabankastjóra eigi að gilda ákvæði 35. gr. laga nr. 70/1996. Fram í kemur umsögninni að réttur núverandi seðlabankastjóra sé tólf mánuðir en væri þrír mánuðir skv. 35. gr. laga nr. 70/1996. Öðrum starfsmönnum bankans sem njóta kjarasamnings Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja verði hins vegar ekki sagt upp störfum með skemmri fyrirvara en sex mánaða uppsagnarfresti hafi þeir starfað a.m.k. tíu ár í fjármálafyrirtæki eða náð 45 ára aldri. Telur bankinn að eðlilegt sé að taka tillit til þess að seðlabankastjóri getur lengst setið í tíu ár. Jafnframt leggst bankinn eindregið gegn aðskilnaði ákvörðunarvalds um laun seðlabankastjóra annars vegar og aðstoðarseðlabankastjóra hins vegar þar sem þessi embætti séu svo náskyld í eðli sínu að afar óheppilegt sé að viðhafa ólíkar aðferðir við ákvörðun launa þeirra auk þess sem það er á skjön við þá stefnu sem virðist mörkuð í frumvarpsdrögunum um ýmsar aðrar tengdar stöður.
    Í umsögn vararíkissaksóknara er vakin athygli á þeirri þörf að kveða á um önnur starfskjör þeirra sem undir lögin heyra með sama hætti og gert var um þá sem heyrðu undir kjararáð. Einnig er vakin athygli á þeim erindum sem voru til meðferðar hjá kjararáði þegar það var lagt niður og þörf á að tekin verði afstaða til þess hver og hvernig eigi að vinna úr þessum erindum. Jafnframt er vakin athygli á því að almenn ákvörðun um hækkun launataxta embættismanna er frá 1. júní 2016 og því eðlilegt að horfa til þess til hækkunar launa þeirra sem frumvarpið tekur til.
    Einnig var frumvarpið kynnt í samráðsgátt Stjórnarráðsins og barst ein umsögn frá Hagstofu Íslands. Í umsögn Hagstofunnar er bent á að enginn lagalegur grundvöllur sé fyrir útreikningum á árlegum meðaltölum reglulegra launa ríkisstarfsmanna heldur séu þeir í samræmi við þær aðferðir sem Hagstofan ákvarðar hverju sinni. Breytingar geti orðið vegna umbóta á aðferðum eða gögnum. Jafnframt bendir Hagstofan á í umsögn sinni að til verði hringrás þar sem hærra meðaltal reglulegra launa leiðir til hækkunar á reglulegum launum og að ef horft er til síðustu fimm ára hafi tölurnar einungis tvisvar verið birtar fyrir 1. maí.
    Frumvarpinu hefur að nokkru leyti verið breytt í ljósi umsagna sem bárust.

6. Mat á áhrifum.
    Verði frumvarpið að lögum mun það hafa nokkur áhrif á starfshætti stjórnsýslu ríkisins við ákvörðun launa þeirra sem heyrðu undir ákvörðunarvald kjararáðs samkvæmt lögum nr. 130/2016.
    Þar sem kjararáð hefur verið lagt niður leiðir samkomulag ríkis og þjóðkirkju frá 1997 og 60. gr. laga nr. 78/1997 til þess að ganga verður til samninga við þjóðkirkjuna um breytt fyrirkomulag á framlagi ríkisins til þjóðkirkjunnar. Fulltrúar ríkisins eiga nú í viðræðum við fulltrúa þjóðkirkjunnar um fjárhagsleg samskipti ríkis og kirkju þar sem m.a. er rætt um endurskoðun á svokölluðu kirkjujarðasamkomulagi. Náist samkomulag um breytta skipan við þjóðkirkjuna mun það hafa áhrif á starfshætti hennar.
    Frumvarpið hefur þau áhrif á starfskjör skrifstofustjóra sem heyra undir ráðherra sem fer með starfsmannamál ríkisins og fara með fyrirsvar fyrir hönd ráðherra við gerð kjarasamninga og sendiherra að laun og starfskjör þeirra munu verða ákvörðuð með hliðsjón af kjarasamningum.
    Frá áramótum 2016/2017 hefur verið unnið að útfærslu breytinga sem urðu á starfskjörum forstöðumanna í framhaldi af gildistöku laga nr. 130/2016 í lok árs 2016. Í þeirri vinnu kom upp álitamál um samspil launaákvarðana og ákvörðunar eftirlauna til þeirra sem nýta sér svokallaða eftirmannsreglu í B-deild LSR en hana er að finna í 1. mgr. 35. gr. laga um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr. 1/1997. Þar segir: „Sjóðfélagar, sem hefja töku lífeyris í beinu framhaldi af starfi og þeir sem fá lífeyrisgreiðslur úr sjóðnum við gildistöku laga þessara, geta, þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 24. gr. laganna og 1. mgr. 34. gr. laga nr. 141/1996, valið hvort lífeyrisgreiðslur til þeirra breytist til samræmis við breytingar sem verða á launum er á hverjum tíma eru greidd fyrir það starf sem þeir gegndu síðast, eða eftir atvikum við breytingar á launum fyrir hærra launað starf samkvæmt ákvæðum 6. mgr. 24. gr. og 1. eða 2. mgr. 28. gr. laganna, eða hvort þær skuli breytast samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 24. gr. laganna.“ Í 2. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997 segir: „Upphæð ellilífeyris er hundraðshluti af þeim föstu launum fyrir dagvinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót samkvæmt kjarasamningum sem við starfslok fylgja stöðu þeirri fyrir fullt starf er sjóðfélagi gegndi síðast, sbr. þó 6. mgr. 23. gr.“ Eins og segir í þessu ákvæði ákvarðast eftirlaun af þeim föstu launum fyrir dagvinnu sem greidd eru fyrir viðkomandi starf. Í ákvæðum kjararáðslaga, sem samþykkt voru í árslok 2016, sem fjalla um ákvörðun launa, hvort heldur er undir formerkjum kjararáðs eða hinnar sérstöku einingar, er ekki greint á milli launa fyrir dagvinnu og annarra launa og hefði það að óbreyttu leitt til þess að eftirlaun margra hækkuðu verulega og þar með útgjöld B-deildar LSR. Ekki var ætlunin að breyttar áherslur við launaákvörðun leiddu til slíkra aukinna útgjalda.
    Til að koma í veg fyrir þetta voru gerðar tvenns konar breytingar á kjararáðslögum og 39. gr. a laga nr. 70/1996. Annars vegar var 1. málsl. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2016 breytt með lögum nr. 37/2017 á þann veg að þar verði kveðið á um það á sama hátt og áður að kjararáð greini á milli í ákvörðun sinni hvað teljist laun fyrir dagvinnu og hvað laun vegna annars. Hins vegar var ákveðið með lögum nr. 37/2017 að fresta framkvæmdinni á því hvenær ákvörðun um laun forstöðumanna færðist frá kjararáði til þeirra aðila sem tilgreindir eru í tilteknum málsliðum í 39. gr. og 39. gr. a laga nr. 70/1996. Var 39. gr. a laganna síðan breytt til samræmis við breytinguna á lögum nr. 130/2016 með lögum nr. 95/2017.
    Að óbreyttu hefðu eftirlaun forstöðumanna, sem taka laun samkvæmt fyrirkomulagi 39. gr. a laga nr. 70/1996, hækkað um 38.110.000 kr. á mánuði og hefði það hækkað mat á lífeyrisskuldbindingum B-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins um 2.000 m.kr. miðað við árslok 2016. Sú hækkun hefði að auki leitt til 0,27% hækkunar á vísitölu dagvinnulauna opinberra starfsmanna skv. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997. Í árslok 2016 var áfallin tryggingafræðileg staða B-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins 561,2 milljarðar kr. Samtals áhrif til hækkunar áföllnum lífeyrisskuldbindingum B-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins á verðlagi í árslok 2016 voru metin sem 4,7 milljarðar kr. eða sem nemur 0,84% af áföllnum lífeyrisskuldbindingum B-deildar sjóðsins í árslok 2016.
    Til að koma í veg fyrir aukningu útgjalda vegna breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu hjá þeim þar sem laun verða ákvörðuð með fastri krónutölufjárhæð er tilgreind hver þar af er föst krónutölufjárhæð vegna yfirvinnu og álags sem starfinu fylgir. Eru einingar sem kjararáð hefur úrskurðað viðkomandi embættismanni fyrir yfirvinnu og álag sem starfinu fylgir, sbr. grein 1.2 í reglum kjararáðs um starfskjör frá 17. nóvember 2015, færðar sem föst krónutölufjárhæð. Með þessu fyrirkomulagi mun frumvarpið ekki hafa í för með sér neinn viðbótarkostnað fyrir ríkið.
    Fjárveiting vegna kjararáðs fyrir árið 2018 er 31,5 m.kr. en kostnaður vegna ráðsins 2014–2017 var 27,2 m.kr. 2014, 30,5 m.kr. 2015, 34 m.kr. 2016 og 39,3 m.kr. 2017. Með lögum nr. 60/2018 var kjararáð lagt niður frá og með 1. júlí 2018. Leiðir það til þess að útgjöld ríkissjóðs til kjararáðs munu verða nokkuð minni á árinu 2018 þótt einhver kostnaður hljótist af vinnu við að ganga frá niðurlagningu ráðsins. Með ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 60/2018 er gert ráð fyrir því að núverandi starfsmanni kjararáðs verði boðið starf hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Áætlað er að árlegur kostnaður ráðuneytisins vegna flutnings starfsmannsins nemi um 19 m.kr. á ári en launakostnaður ráðsins 2014–2017 var 15,1 m.kr. 2014, 17,2 m.kr. 2015, 17 m.kr. 2016 og 18,2 m.kr. 2017. Einnig má gera ráð fyrir að umsýslukostnaður vegna nýs launafyrirkomulags forstöðumanna hækki við þessa breytingu. Þrátt fyrir breytingarnar ættu útgjöld ríkissjóðs því að standa í stað.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í 2. mgr. 9. gr. stjórnarskrárinnar segir að ákveða skuli með lögum greiðslur af ríkisfé til forseta og þeirra sem fara með forsetavald. Jafnframt segir í 2. mgr. 9. gr. stjórnarskrárinnar að óheimilt skuli að lækka greiðslur þessar til forseta á kjörtímabili hans. Með úrskurði kjararáðs frá 29. október 2016 ákvað ráðið að laun forseta Íslands skyldu vera 2.985.000 kr. á mánuði frá og með 1. nóvember 2016. Í ákvæðinu er því lagt til að laun forseta Íslands verði ákvörðuð í lögum með fastri krónutölufjárhæð sem nemi 2.985.000 kr. og þau síðan endurákvörðuð 1. júlí ár hvert miðað við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins. Við framkvæmd þessa ákvæðis er gert ráð fyrir því að þegar Hagstofa Íslands hefur birt tölurnar komi það í hlut Fjársýslu ríkisins að uppfæra krónutölufjárhæð til samræmis við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins.

Um 2. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að forsætisnefnd Alþingis verði heimilt að kveða á um það í reglum um þingfararkostnað að almenn starfskjör til alþingismanna verði sambærileg og gilda um embættismenn þar sem laun eru ákveðin með 2. mgr. 39. gr. laga nr. 70/1996, sbr. c-lið 19. gr. frumvarpsins. Þar sem kjararáð var lagt niður með lögum nr. 60/2018 falla úr gildi almennar reglur um starfskjör sem ráðið setti um embættismenn sem heyra undir ákvörðunarvald kjararáðs. Reglur kjararáðs eru frá 17. nóvember 2015 og er þar fjallað um laun, orlof, tryggingar, endurmenntun, viðbótarframlag til lífeyrissparnaðar og önnur ákvæði, svo sem fæðisfé, ferðakostnað, styrk til íþróttaiðkunar, veikinda- og slysarétt og gjald í fjölskyldu- og styrktarsjóð.

Um 3. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að þingfararkaup verði ákvarðað í lögum með fastri krónutölufjárhæð miðað við tiltekið tímamark og þau síðan endurákvörðuð 1. júlí ár hvert miðað við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins. Með úrskurði kjararáðs frá 29. október 2016 ákvað kjararáð að þingfararkaup skyldi vera 1.101.194 kr. á mánuði. Við framkvæmd þessa ákvæðis er gert ráð fyrir því að þegar Hagstofa Íslands hefur birt tölurnar komi það í hlut Fjársýslu ríkisins að uppfæra krónutölufjárhæð til samræmis við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins.

Um 4. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að laun ráðherra verði ákvörðuð í lögum með fastri krónutölufjárhæð miðað við tiltekið tímamark og þau síðan endurákvörðuð 1. júlí ár hvert miðað við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins. Með úrskurði kjararáðs frá 29. október 2016 ákvað kjararáð að laun forsætisráðherra skyldu að meðtöldu þingfararkaupi vera 2.021.825 kr. á mánuði en laun annarra ráðherra að meðtöldu þingfararkaupi 1.826.273 kr. á mánuði. Við framkvæmd þessa ákvæðis er gert ráð fyrir því að þegar Hagstofa Íslands hefur birt tölurnar komi það í hlut Fjársýslu ríkisins að uppfæra krónutölufjárhæð til samræmis við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins.

Um 5. gr.

    Í ljósi stöðu ráðuneytisstjóra er lagt til að laun þeirra verði ákvörðuð í lögum með fastri krónutölufjárhæð og þar af skal greiða fasta krónutölufjárhæð fyrir yfirvinnu og álag sem starfinu fylgir. Þær fjárhæðir sem fram koma í greininni miðast við úrskurð kjararáðs frá 16. júní 2016. Laun þeirra verði síðan endurákvörðuð 1. júlí ár hvert miðað við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins þar sem ekki er æskilegt að ráðherra skv. 39. gr. a laga nr. 70/1996 eða hlutaðeigandi ráðherra komi að ákvörðun launa og starfskjara þeirra vegna sjónarmiða um sjálfstæði þeirra. Við framkvæmd þessa ákvæðis er gert ráð fyrir því að þegar Hagstofa Íslands hefur birt tölurnar komi það í hlut Fjársýslu ríkisins að uppfæra krónutölufjárhæð til samræmis við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins.

Um 6. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar á kaflafyrirsögn til samræmis við það að lagt er til í frumvarpinu að laun ráðherra verði ákvörðuð í lögunum með fastri krónutölufjárhæð.

Um 7. gr.

    Samkvæmt 2. gr. stjórnarskrárinnar fara dómendur með dómsvaldið. Dómstólar eiga að vera sjálfstæðir enda hafa þeir eftirlit með framkvæmdar- og löggjafarvaldinu, sbr. 60. gr. stjórnarskrárinnar. Sjálfstæði dómara er að nokkru leyti tryggt í 61. gr. stjórnarskrárinnar. Í skýrslu starfshóps um málefni kjararáðs kemur fram að forræði á launamálum dómara sé viðkvæmur snertiflötur við aðra þætti ríkisvaldsins á sama hátt og vald til að skipa þá. Sjálfstæði dómstóla sé grundvallaratriði í réttarríki og kjör þeirra þurfi að vera nægjanlega góð til að tryggja að þeir verði ekki öðrum háðir. Í skýrslu starfshópsins kemur fram að ákvarðanir um laun dómara séu með ýmsum hætti í ríkjum Evrópu. Í skýrslunni segir:
    „Algengasta afbrigðið er að laun dómara séu ákveðin með lögum. Í þeim tilvikum er stundum kveðið á um að óheimilt sé að skerða laun dómara. Í öðrum löndum er launaákvörðun dómara í höndum framkvæmdarvaldsins (t.d. Frakkland, Malta og Bretland) eftir mismunandi nákvæmum aðdraganda og skýrslugerð um launaþróun. Í þriðja lagi eru laun dómara einfaldlega umsamin í nokkrum löndum. Svo er til dæmis um ákvörðun dómaralauna í Danmörku (grunnlaun ákveðin í samningum dómsmálaráðherra og stéttarfélags, en viðbótargreiðslur í samningi dómstólasýslunnar og dómarafélagsins).
    Í Svíþjóð fer dómstólasýslan með ráðstöfun fjármuna á sviðinu. Hún ákveður grunnlaun dómara á fyrsta og öðru dómstigi en dómarar semja að öðru leyti um laun sín. Sérreglur gilda um laun dómara Hæstaréttar Svíþjóðar sem hafa allir sömu laun að undanskildum forseta réttarins. Laun Hæstaréttardómara í Noregi eru ákveðin á Stórþinginu eftir tillögu forsætisnefndar þingsins. Norska innanríkisráðuneytið (Kommunal- og moderniseringsdepartementet, KMD) ákveður laun dómara á fyrsta og öðru dómstigi. Norska dómstólasýslan upplýsti starfshópinn um að engar samningaviðræður fari fram af því tilefni, hvorki við hana né dómarafélag Noregs.
    Finnskum dómurum á fyrsta og öðru dómstigi er raðað í launatöflu þegar þeir taka við embætti. Þeir fá svo launahækkanir eftir 2, 5, 10, 16 og 22 ára starfsaldur. Fjárhæðir launa ráðast af kjarasamningum opinberra starfsmanna sem dómsmálaráðuneytið gerir við sérstaka samninganefnd (JUKO). Samningurinn er háður samþykki fjármálaráðuneytisins.
    Dómsforsetar og dómarar á efstu dómstigum taka hins vegar laun eftir sérstökum lögum. Fjármálaráðuneytið ákveður laun þeirra.“
    Í skýrslu starfshópsins um mögulega valkosti í stöðunni kemur fram:
    „Í fyrsta lagi kæmi til greina ný ákvörðun um lækkun þeirra launa sem kjararáð ákvað til samræmis við rammasamkomulag aðila og endurgreiðsla þeirra launa sem greidd hafa verið á grundvelli þeirra. Starfshópurinn telur að þessi valkostur gangi of langt og feli í sér íþyngjandi afturvirkni sem vart stæðist. Í öðru lagi kæmi til greina ný ákvörðun um lækkun þeirra launa sem ráðið ákvað. Í þriðja lagi kæmi til greina ákvörðun um að laun verði óbreytt í tiltekinn tíma, þ.e. þar til nýtt fyrirkomulag um ákvörðun launa tekur gildi. Um þessa valkosti varð starfshópurinn ekki sammála.“
    Í frumvarpinu er lagt til að horft verði til þriðja valkostsins þegar fastsetja skal krónutölufjárhæð frumvarpsins en um hann segir nánar í skýrslu starfshópsins:
    „Þriðji valkosturinn, að endurskoða laun til samræmis við hina almennu þróun, gengur að mati meirihluta starfshópsins skemmst og felur í sér minnstu lagalegu áhættuna. Ef ekki verður um frekari endurskoðanir að ræða á árinu 2018, þ.e. laun haldist óbreytt frá síðustu úrskurðum kjararáðs til ársloka 2018, yrði launaþróun kjararáðshópsins að meðaltali við þau mörk sem rammasamkomulagið setti og að framan hafa verið metin á bilinu 43–48% Eins og fram kemur í skýrslunni er launaþróun innan hópsins mjög ólík. Til dæmis hafa héraðsdómarar fengið 35% hækkun en ráðherrar 64% hækkun á sama tímabili. Ef litið er til lengri tíma, t.d. starfstíma kjararáðs frá árinu 2006, blasir við önnur mynd en á því tímabili hafa laun þessara starfsgreina þróast með svipuðum hætti.“
    Minnihluti starfshópsins, fulltrúi ASÍ, mælti hins vegar með því að valkostur tvö yrði fyrir valinu hvað varðaði forseta Íslands, ráðherra, þingmenn, ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra. Taldi hann valkost tvö ekki ganga of langt og samræmdist rammasamkomulagi aðila vinnumarkaðarins og ríkisins frá 27. október 2015. Hann stæðist lög og heimildir stjórnvalda samkvæmt stjórnarskrá og þeim alþjóðlegu samningum sem Ísland væri bundið af og væri líklegastur til þess að stuðla að sátt á vinnumarkaði.
    Fram kemur í skýrslu starfshópsins að í samanburðarríkjunum séu lagafyrirmæli um mælikvarða við endurskoðun á launum æðstu embættismanna misjafnlega skýr. Þó virðist í öllum tilvikum, hvort sem um er að ræða bein lagafyrirmæli eða svigrúm til að ákvarða mælikvarða, vera gengið út frá því að launaþróun næstliðins árs sé notuð sem mælikvarði. Við framkvæmd þessa ákvæðis er síðan gert ráð fyrir því að þegar Hagstofa Íslands hefur birt tölurnar þá komi það í hlut Fjársýslu ríkisins að uppfæra krónutölufjárhæð til samræmis við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa ríkisstarfsmanna.
    Um helstu kosti þess að fastsetja launafjárhæðir með lögum segir í skýrslu starfshóps um málefni kjararáðs:
    „Helstu kostir þess að fastsetja launafjárhæðir með lögum og taka upp árlega endurskoðun launa sem tekur mið af almennri launaþróun ríkisstarfsmanna eru eftirfarandi.
     1.      Breytingar á launum æðstu embættismanna ríkisins verða ekki leiðandi. Með því fyrirkomulagi að laun séu endurskoðuð eftir að launaþróun næstliðins árs liggur fyrir er komið í veg fyrir ósamræmi í launaþróun.
     2.      Þróun á launum verður jafnari. Ekki mun koma til þess að endurskoðun dragist og hækkanir verði í stórum stökkum.
     3.      Laun æðstu embættismanna ríkisins verða gagnsærri og fyrirsjáanlegri. Í núgildandi fyrirkomulagi eru upplýsingar um laun embættismanna og dómara hvergi aðgengilegar almenningi og illskiljanlegar meðal annars vegna þess að stór hluti launa er greiddur í formi eininga og laun og önnur kjör þingmanna og ráðherra hafa verið ákveðin af tveimur aðilum.
     4.      Mælikvarðar og tímamörk endurskoðunar á launum verða öllum ljós. Þeir sem launin þiggja geta áttað sig á því hvernig endurskoðun verður háttað og ríkissjóður getur áætlað útgjöld vegna launanna á skipulegan hátt.
     5.      Komið er í veg fyrir óskýrar launaákvarðanir. Þau störf sem um ræðir (þjóðkjörnir fulltrúar, ráðherrar, dómarar o.fl.) eru stöðug í þeim skilningi að þeir sem þeim gegna koma og fara en störfin eru hin sömu. Ekki er um að ræða framgang innan sömu embætta eða breytingar sem kalla á sérstakt mat á starfsmönnum eða störfunum sjálfum eftir að hæfileg laun eru ákveðin í eitt skipti fyrir öll.
     6.      Samræmi um launaákvarðanir. Með því að launaákvarðanir um fleiri starfsgreinar fari eftir 39. gr. a laga um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna og verði á hendi eins aðila má ætla að eðlilegra samræmi og samfella verði í starfsmati og kjörum.“
    Í ljósi stöðu dómara og með hliðsjón af tillögu starfshóps um málefni kjararáðs um fyrirkomulag launaákvarðana dómara er lagt til í ákvæðinu að kjör þeirra verði ákvörðuð í lögum með fastri krónutölufjárhæð. Þær fjárhæðir sem fram koma í greininni miðast við úrskurði kjararáðs frá 17. desember 2015 vegna dómara, 22. júní 2017 vegna varaforseta Hæstaréttar Íslands og 14. desember 2017 vegna dómara við Landsrétt.. Er þessi framkvæmd lögð til þar sem ekki er æskilegt að framkvæmdarvaldið komi að ákvörðun launa og starfskjara dómara vegna sjónarmiða um sjálfstæði þeirra. Ákvæðið leiðir því til þess að ekki verður hækkun eða lækkun á launum dómara eins og þau voru 1. júlí 2018 er kjararáð var lagt niður. Laun dómara munu því hækka næst 1. júlí 2019 til samræmis við þá aðila sem einnig fá fasta krónutölufjárhæð samkvæmt frumvarpinu. Einnig á ákvæðið ekki að leiða til þess að lífeyriskjör dómara verði skert frá því sem þau eru nú. Samkvæmt ákvæðinu er sú lagaskylda lögð á launagreiðanda að endurákvarða launin 1. júlí ár hvert miðað við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins. Einnig getur ráðherra starfsmannamála ákveðið að launin hækki 1. janúar ár hvert til samræmis við breytingu á meðaltali reglulegra launa ríkisstarfsmanna sem Hagstofan birtir fyrir 1. júní ár hvert.
    Ákvæði 5.–8. mgr. eru í samræmi við ákvörðun kjararáðs frá 17. desember 2015 um almenn starfskjör dómara.
    Í 6. mgr. ákvæðisins er lagt til að dómstólasýslunni verði heimilt að kveða á um það í reglum að almenn starfskjör til dómara verði sambærileg og gilda um þá embættismenn þar sem laun eru ákveðin með 39. gr. a laga nr. 70/1996, sbr. c-lið 19. gr. frumvarpsins, að undanskildum ákvæðum um endurmenntun í 7. mgr.
    Í 8. mgr. er gerð tillaga um að ríkissjóður greiði 0,92% af heildarlaunum hvers dómara í sérstakan starfsmenntunarsjóð dómara.

Um 8.–9. gr.

    Hvað saksóknara varðar kemur m.a. fram í 11. gr. tilmæla ráðherranefndar Evrópuráðsins til aðildarríkja um hlutverk ákæruvaldsins í refsivörslukerfinu frá 6. október 2000 að ríkjum beri að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að ákærendur geti sinnt þeim störfum sem fylgja starfi þeirra og hlutverki án óréttmætra afskipta og án þess að þurfa að sæta ábyrgð að skaðabótarétti eða refsirétti eða á annan hátt. Í tilmælunum kemur einnig fram með ýmsu móti að staða ákærenda er lögð að jöfnu við stöðu dómara eftir því sem við getur átt. Hér má segja að formlega kynni það að verða talið geta haft áhrif á það hvernig ákærendur sinna störfum sínum að þeir væru undir ákvörðun framkvæmdarvalds settir um launakjör sín og starfsöryggi. Fyrir þá sem sæta rannsókn og hugsanlegri saksókn er mjög mikilvægt að geta verið þess fullviss að ómálefnaleg sjónarmið hafi ekki áhrif á ákvarðanir um saksókn. Er staða ákærenda að því leyti mun viðkvæmari en lögmanna sem reka dómsmál ríkisins sem lúta einkarétti. Störf ákærenda fela ekki eingöngu í sér málflutning heldur ekki síður ákvarðanir um framkvæmd rannsókna og ákvörðun saksóknar. Slíkar ákvarðanir geta skipt borgarana mjög miklu.
    Í ljósi stöðu ákærenda er lagt til að laun þeirra verði ákvörðuð í lögum með fastri krónutölufjárhæð. Þær fjárhæðir sem fram koma í greinunum miðast við úrskurði kjararáðs frá 6. júlí 2016 vegna launa og starfskjara vararíkissaksóknara og saksóknara við embætti ríkissaksóknara og úrskurð kjararáðs frá sama degi um laun og starfskjör héraðssaksóknara, varahéraðssaksóknara og saksóknara við embætti héraðssaksóknara. Laun þeirra verði síðan endurákvörðuð 1. júlí ár hvert miðað við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins þar sem ekki er æskilegt að ráðherra skv. 39. gr. a laga nr. 70/1996 eða hlutaðeigandi ráðherra komi að ákvörðun launa og starfskjara þeirra vegna sjónarmiða um sjálfstæði þeirra. Er hér horft til sömu sjónarmiða og við ákvörðun launa dómara. Við framkvæmd þessara ákvæða er gert ráð fyrir því að þegar Hagstofa Íslands hefur birt tölurnar komi það í hlut Fjársýslu ríkisins að uppfæra krónutölufjárhæð til samræmis við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins.

Um 10.–11. gr.

    Vegna krafna um sjálfstæði Seðlabanka Íslands og stjórnanda hans er ekki æskilegt að ráðherra skv. 39. gr. a laga nr. 70/1996 eða hlutaðeigandi ráðherra fjalli um launakjör hans. Því er hér lagt til að laun seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra verði ákvörðuð í lögum með fastri krónutölufjárhæð. Þau sjónarmið sem fram koma í 6. kafla um mat á áhrifum um hækkun á lífeyrisskuldbindingum Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins vegna eftirmannsreglu B-deildar LSR eiga ekki við um seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra þar sem þeir eiga ekki aðild að lífeyrissjóðnum. Sú heildarfjárhæð sem fram kemur í greininni vegna seðlabankastjóra miðast því við þau mánaðarlaun og einingar sem fram koma í úrskurði kjararáðs frá 29. júní 2013 auk almennra launahækkana kjararáðs frá þeim tíma. Þegar kjararáð var lagt niður hafði það ekki úrskurðað um laun og starfskjör aðstoðarseðlabankastjóra. Fram kemur í umsögn Seðlabanka Íslands um drög að frumvarpinu að laun hans séu um 90% af launum seðlabankastjóra og í ákvæðinu er lagt til að miðað verði við það hlutfall við ákvörðun krónutölufjárhæðar launa hans. Laun þeirra verði síðan endurákvörðuð 1. júlí ár hvert miðað við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins þar sem ekki er æskilegt að framkvæmdarvaldið komi að ákvörðun launa og starfskjara hans vegna sjónarmiða um sjálfstæði bankans. Við framkvæmd þessa ákvæðis er gert ráð fyrir því að þegar Hagstofa Íslands hefur birt tölurnar komi það í hlut Seðlabanka Íslands sem launagreiðanda að uppfæra krónutölufjárhæð til samræmis við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins. Einnig er lagt til í ákvæðinu að ráðherra starfsmannamála geti heimilað bankanum að hækka launin 1. janúar ár hvert til samræmis við áætlaða breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins sem Hagstofan birtir fyrir 1. júní ár hvert. Er þetta gert til samræmis við það sem gildir um aðra aðila þar sem launin eru ákveðin með fastri krónutölufjárhæð.

Um 12. gr.

    Stöðu og hlutverki ríkissáttasemjara gagnvart aðilum vinnumarkaðarins er þannig háttað að laun og starfskjör hans geta ekki ráðist af samningum á venjulegan hátt. Einnig er ekki æskilegt að ráðherra skv. 39. gr. a laga nr. 70/1996 eða hlutaðeigandi ráðherra fjalli um launakjör hans í ljósi stöðu hans og hlutverks. Í greininni er því lagt til að laun ríkissáttasemjara verði ákvörðuð í lögum með fastri krónutölufjárhæð. Þær fjárhæðir sem fram koma í greininni miðast við úrskurð kjararáðs frá 30. mars 2017. Launin verða síðan endurákvörðuð 1. júlí ár hvert miðað við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins. Við framkvæmd þessa ákvæðis er gert ráð fyrir því að þegar Hagstofa Íslands hefur birt tölurnar komi það í hlut Fjársýslu ríkisins að uppfæra krónutölufjárhæð til samræmis við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins.

Um 13. gr.

    Samkvæmt lögum um dómstóla, nr. 50/2016, er dómstólasýslan sjálfstæð stjórnsýslustofnun sem annast sameiginlega stjórnsýslu dómstólanna. Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. a laga nr. 70/1996 er stjórn hennar og falið að ákvarða laun framkvæmdastjóra dómstólasýslunnar, skrifstofustjóra Landsréttar og skrifstofustjóra Hæstaréttar. Jafnframt er stjórn dómstólasýslunnar í 4. mgr. 9. gr. laga nr. 50/2016 falið að ákveða þóknun fyrir setu í nefnd um dómarastörf. Í ljósi sjálfstæðis dómstóla er því lagt til að stjórn dómstólasýslunnar verði einnig falið að ákveða þóknun til dómenda Félagsdóms.

Um 14.–17. gr.

    Með frumvarpi sem varð að lögum um kjararáð, nr. 130/2016, var lagt til að laun og starfskjör tiltekinna nefndarmanna í ákveðnum úrskurðarnefndum vegna stjórnvaldsákvarðana færi eftir því nýja launafyrirkomulagi sem lagt var til skv. 39. gr. a laga nr. 70/1996. Stöðu og hlutverki þessara nefndarmanna er þannig háttað að laun og starfskjör viðkomandi geta ekki ráðist af samningum á venjulegan hátt og því var lagt til að ráðherra skv. 39. gr. a laga nr. 70/1996 og hlutaðeigandi ráðherra hefðu aðkomu að ákvörðun launa og starfskjara nefndarmanna. Í umsögn formanna nefndanna til efnahags- og viðskiptanefndar á 146. löggjafarþingi voru gerðar athugasemdir við að ákvörðun um laun og starfskjör þeirra færu undan ákvörðunarvaldi kjararáðs. Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar lagði til nokkrar breytingar á frumvarpinu, m.a. að ákvörðun um laun og starfskjör þessara nefndarmanna í fullu starfi heyrðu áfram undir ákvörðunarvald kjararáðs.
    Með lögum nr. 60/2018 var kjararáð lagt niður. Í 7. tölul. tillagna starfshóps um málefni kjararáðs er lagt til að um aðra sem heyra nú undir kjararáð gildi að meginstefnu samningsréttur um kaup og kjör eða það fyrirkomulag sem ákveðið var í 39. gr. a laga nr. 70/1996. Eins og komið hefur fram er stöðu og hlutverki þessara nefndarmanna þannig háttað að laun og starfskjör þeirra geta ekki ráðist af samningum á venjulegan hátt. Úrskurðarnefndirnar eru hins vegar hluti af framkvæmdarvaldinu og fara með mál sem að öllu jöfnu eru á starfssviði ráðherra og eru nefndarmenn jafnframt skipaðir af ráðherra. Þó svo að nefndirnar eigi að vera sjálfstæðar í störfum sínum á það ekki að leiða til þess að annað gildi um ákvörðun launa og starfskjara nefndarmanna þeirra en um forstöðumenn ríkisins o.fl. þar sem laun og starfskjör byggjast á 39. gr. a laga nr. 70/1996. Þannig er sjálfstæði þessara nefnda ekki sambærilegt því sjálfstæði sem dómarar og saksóknarar þurfa að njóta gagnvart framkvæmdarvaldinu. Því er í frumvarpinu lagt til að ákvörðun um laun og starfskjör nefndarmanna í fullu starfi fari eftir því fyrirkomulagi sem mælt er fyrir um í 39. gr. a laga nr. 70/1996. Má hér benda á að í lögum eru ákvæði um sjálfstæðar úrskurðarnefndir þar sem nefndarmenn eru ekki í föstu starfi en ráðherra skipar nefndarmenn og þóknananefnd, sem skipuð er af fjármála- og efnahagsráðherra, ákvarðar þeim þóknun fyrir störf sín. Má hér t.d. nefna fjölmiðlanefnd, kærunefnd jafnréttismála, kærunefnd útboðsmála, kærunefnd húsamála, óbyggðarnefnd og úrskurðarnefnd upplýsingamála.

Um 18.–20. gr.

    Í 18.–20. gr. eru lagðar til nauðsynlegar breytingar til samræmis við það að lög um kjararáð voru felld brott með lögum nr. 60/2018.

Um 21. gr.

    Með lögum nr. 12/2009, um afnám laga nr. 141/2003, um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara, með síðari breytingum, og breytingu á lögum nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum, voru lög nr. 141/2003 afnumin. Í 2. gr. laga nr. 12/2009 kemur þó fram að þrátt fyrir 1. gr. laganna skuli ákvæði laga nr. 141/2003 halda gildi sínu gagnvart hæstaréttardómurum sem skipaðir hafa verið í Hæstarétt fyrir gildistöku laga nr. 12/2009 sem og núverandi forseta Íslands. Við gildistöku laga nr. 12/2009 gegndi Ólafur Ragnar Grímsson embætti forseta Íslands og tekur ákvæði 2. gr. laga nr. 141/2003 því til eftirlauna hans. Er því nauðsynlegt, vegna sérákvæðisins í 2. gr. laga nr. 12/2009, að leggja til breytingu á 2. mgr. 2. gr. laga nr. 141/2003 þótt þau lög hafi verið afnumin með lögum nr. 12/2009.

Um 22. gr.

    Samkvæmt núgildandi 1. tölul. 2. mgr. 1. gr. gilda lög nr. 94/1986 ekki um embættismenn og aðra starfsmenn ríkisins sem heyra undir kjararáð og þá sem skipa samninganefnd ríkisins, sbr. 1. og 4. tölul. 2. mgr. 1. gr. laganna. Það nýmæli er í ákvæðinu að auk forstöðumanna sem taka laun samkvæmt sérákvæðum í lögum sem um þá gilda og forstöðumenn sem taka laun skv. 39. gr. a laga nr. 70/1996 tekur það til embættismanna og starfsmanna fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem vinna að stefnumörkun í mannauðs- og kjaramálum. Þeir embættismenn fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem nú vinna að stefnumörkun í mannauðs- og kjaramálum eru skrifstofustjóri kjara- og mannauðssýslu ríkisins og skrifstofustjóri stjórnunar og umbóta. Þessir skrifstofustjórar gegna svo veigamiklu hlutverki við mótun og framkvæmd starfsmannastefnu ríkisins og við gerð kjarasamninga fyrir hönd fjármála- og efnahagsráðherra að telja verður að þeir fari í raun með jafngildi fyrirsvars fyrir ríkið í kjaramálum fyrir hönd ráðherra sem fer með formlegt fyrirsvar, sbr. 3. gr. laga nr. 94/1986. Vegna tengsla þessara aðila við fyrirsvar ríkisins í kjaramálum er rétt að lög nr. 94/1986 taki ekki til þeirra. Jafnframt er í ákvæðinu einnig gert ráð fyrir því að lög nr. 94/1986 taki ekki til starfsmanna fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem vinna við stefnumörkun í mannauðs- og kjaramálum en þeir eru tveir nú. Er hér lagt til að sama gildi um þessa starfsmenn og um þá sem skipaðir eru í samninganefnd ríkisins, sbr. 4. tölul. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 94/1986.

Um 23.–26. gr.

    Í 23.–26. gr. eru lagðar til nauðsynlegar breytingar til samræmis við það að lög um kjararáð voru felld brott með lögum nr. 60/2018.

Um 27. gr.

    Greinin fjallar um gildistöku og þarfnast ekki skýringar.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Í 1. mgr. er lagt til að ráðherra sem fer með starfsmannamál hækki ekki laun 1. janúar 2019. Er þetta lagt til með hliðsjón af niðurstöðu meiri hluta starfshóps um málefni kjararáðs að laun verði óbreytt í tiltekinn tíma þannig að launaþróun kjararáðshópsins verði að meðaltali við þau mörk sem rammasamkomulag aðila vinnumarkaðarins setti og hafa verið metin á bilinu 43–48% samkvæmt því sem fram kemur í skýrslu starfshópsins.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að ákvarðanir bankaráðs Seðlabanka Íslands um rétt núverandi seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra til biðlauna og eftirlauna og ákvarðanir um önnur réttindi þeirra sem varða fjárhagslega hagsmuni seðlabankastjóra haldi gildi sínu. Sambærilegt ákvæði til bráðabirgða var í lögum nr. 130/2016.
    Í ljósi samkomulags ríkis og þjóðkirkju frá 1997 og 60. gr. laga nr. 78/1997 verður að ganga til samninga við þjóðkirkjuna um breytta skipan um ákvörðun launa biskups, vígslubiskupa, prófasta og presta þjóðkirkjunnar. Þar sem lög nr. 60/2018 felldu úr gildi lög um kjararáð er í ákvæðinu lagt til að laun og starfskjör biskups, vígslubiskupa, prófasta og presta þjóðkirkjunnar, sem ákveðin voru með ákvörðun kjararáðs 17. desember 2017, haldi sér þar til samkomulag næst við þjóðkirkjuna um breytt fyrirkomulag á framlagi ríkisins til þjóðkirkjunnar. Fulltrúar ríkisins eiga nú í viðræðum við fulltrúa þjóðkirkjunnar um fjárhagsleg samskipti ríkis og kirkju þar sem m.a. er rætt um endurskoðun á svokölluðu kirkjujarðasamkomulagi. Í 3. mgr. er og lagt til að um almenn starfskjör og önnur starfskjör gildi reglur sem fram koma í ákvörðunarorði kjararáðs frá 17. desember 2017 þar til nýtt samkomulag hefur náðst við þjóðkirkjuna.

Tafla 1. Þjóðkjörnir fulltrúar og embættismenn sem falla undir 1. málsl. 1. gr. laga nr. 130/2016.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Tafla 2. Nefndarmenn úrskurðarnefnda sem falla undir 2. málsl. 1. gr. laga nr. 130/2016.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Fylgiskjal.


Skýrsla starfshóps um málefni kjararáðs (14. febrúar 2018)

www.althingi.is/altext/pdf/149/fylgiskjol/s0554-f_I.pdf