Ferill 767. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1224  —  767. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um samtök um evrópska rannsóknarinnviði (ERIC).

Frá mennta- og menningarmálaráðherra.


1. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að heimila þátttöku Íslands í samtökum um evrópska rannsóknarinnviði.

2. gr.
Lögfesting.

    Ákvæði reglugerðar ráðsins (EB) nr. 723/2009 frá 25. júní 2009 um lagaramma Bandalagsins um samtök um evrópska rannsóknainnviði (ERIC), sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 23 frá 23. apríl 2015, bls. 109–116, og reglugerð ráðsins (ESB) nr. 1261/2013 frá 2. desember 2013 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 723/2009 um lagaramma Bandalagsins um samtök um evrópska rannsóknainnviði (ERIC), sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 23 frá 23. apríl 2015, bls. 92–93, skulu hafa lagagildi hér á landi með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 72/2015 frá 20. mars 2015, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 29 frá 19. maí 2016, sbr. einnig bókun 1 um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

3. gr.
Skráning samtaka um evrópska rannsóknarinnviði.

    Ríkisskattstjóri skráir samtök um evrópska rannsóknarinnviði, sem hafa lögboðið aðsetur á Íslandi, innan þriggja mánaða frá því að umsókn var samþykkt skv. 6. gr. reglugerðar ráðsins (EB) nr. 723/2009.
    Í tilkynningu um stofnun samtaka um evrópska rannsóknarinnviði skal, eftir því sem við á, tilgreina eftirfarandi atriði:
     a.      heiti samtakanna,
     b.      lögheimili,
     c.      tilgang,
     d.      stofnendur,
     e.      stjórn,
     f.      framkvæmdastjórn,
     g.      prókúru og
     h.      endurskoðendur.
    Með tilkynningu skulu fylgja stofnsamþykktir samtakanna.
    Breytingar á samþykktum eða öðru því sem tilkynnt hefur verið skal tilkynna innan mánaðar sé ekki kveðið á um annað í lögum þessum eða reglugerð ráðsins (EB) nr. 723/2009. Krefjast má sannana fyrir lögmæti breytinga. Tilkynningar um breytingar skulu undirritaðar af meirihluta stjórnar eða prókúruhafa.
    Samtökum um evrópska rannsóknarinnviði er skylt að hafa skammstöfunina ERIC í heiti sínu.
    Um stofnun og skráningu samtaka um evrópska rannsóknarinnviði gilda að öðru leyti ákvæði reglugerðar ráðsins (EB) nr. 723/2009, og eftir því sem við á ákvæði laga um fyrirtækjaskrá.

4. gr.
Slit samtaka um evrópska rannsóknarinnviði.

    Þegar tekin hefur verið ákvörðun um slit samtaka um evrópska rannsóknarinnviði með lögboðið aðsetur á Íslandi, í samræmi við 2. mgr. 16. gr. reglugerðar ráðsins (EB) nr. 723/2009 skulu samtökin birta í Lögbirtingablaðinu áskorun til kröfuhafa samtakanna um að tilkynna kröfur sínar til stjórnar samtakanna innan sex vikna frá birtingu áskorunarinnar. Þekktum kröfuhöfum skal jafnframt send tilkynning um slitin sé þess kostur.
    Tilkynning um lok slitameðferðar samtaka um evrópska rannsóknarinnviði skal send ríkisskattstjóra innan tíu daga frá birtingu hennar og skal tilkynningin skráð í fyrirtækjaskrá. Um slit samtaka um evrópska rannsóknarinnviði gilda ákvæði 16. gr. reglugerðar ráðsins (EB) nr. 723/2009.

5. gr.
Reglugerð.

    Ráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um ferli sem varðar umsóknir Íslands að ERIC-samtökum.

6. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Samtök um evrópska rannsóknarinnviði (e. European Research Infrastructure Consortium, ERIC) er samstarfsform um rekstur á stórum og dýrum rannsóknarinnviðum í Evrópu. Samtök um evrópska rannsóknarinnviði (ERIC) eru stofnuð um rannsóknarinnviði sem eru af þeirri stærðargráðu að ekkert eitt ríki hefur bolmagn til þess að reka þá. Þær kröfur eru gerðar til ERIC rannsóknarinnviða að þeir séu nauðsynlegir við framkvæmd evrópskra rannsóknaráætlana, styrki evrópska rannsóknasvæðið (e. European Research Area, ERA) og styrki viðkomandi fræðasvið faglega og tæknilega á alþjóðlegan mælikvarða, séu opnir vísindamönnum frá ESB og tengdum ríkjum, hvetji til hreyfanleika vísindamanna og þekkingar innan evrópska rannsóknasvæðisins og stuðli að miðlun og nýtingu niðurstaðna og tækniframfara svo eitthvað sé nefnt.
    Lagarammi samtaka um evrópska rannsóknarinnviði (ERIC) felur í sér: evrópskan samrekstur, viðurkenningu allra aðildarlanda ESB, sveigjanleika til að laga sig að sérstökum þörfum sérhverra rannsóknarinnviða, hraðara stofnferli en hefðbundinna alþjóðlegra samtaka, undanþágu frá virðisaukaskatti og vörugjöldum.
    Haustið 2017 var skipaður starfshópur undir formennsku mennta- og menningarmálaráðuneytis í þeim tilgangi að semja frumvarp til laga um samtök um evrópska rannsóknarinnviði. Í starfshópnum sátu fulltrúar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, umhverfis- og auðlindaráðuneytis, utanríkisráðuneytis og Veðurstofu Íslands. Frumvarp þetta er byggt á vinnu starfshópsins.
    Með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 72/2015 frá 20. mars 2015 var felld inn í EES-samninginn reglugerð ráðsins (EB) nr. 723/2009 frá 25. júní 2009 um lagaramma Bandalagsins um samtök um evrópska rannsóknainnviði (ERIC) ásamt reglugerð ráðsins (ESB) nr. 1261/2013 frá 2. desember 2013 um breytingu á reglugerð ráðsins (EB) nr. 723/2009 um lagaramma Bandalagsins um samtök um evrópska rannsóknainnviði (ERIC). Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar öðlaðist gildi 6. júní 2015. Reglugerðin um ERIC var felld inn í bókun 31 við EES-samninginn sem mælir fyrir um samvinnu utan fjórþætta frelsisins. Í Noregi tóku gildi lög um ERIC (LOV-2015-12-11-99) þar sem grein 1 nr. 12 af bókun 31 var veitt lagagildi.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Til að hægt sé að stunda framúrskarandi rannsóknir þurfa vísindamenn að hafa aðgang að hágæða rannsóknarinnviðum (t.d. tækjabúnaði, gagnagrunnum og rafrænum innviðum). Oft er um að ræða mjög dýra og/eða umfangsmikla rannsóknarinnviði sem útilokað er að einstök ríki hafi bolmagn til að koma sér upp. Til að vera samkeppnishæft á alþjóðlegan mælikvarða hefur íslenskt vísindasamfélag mikinn hag af því að geta tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi um rannsóknarinnviði. Með aðild að umfangsmiklum rannsóknarinnviðum fá vísindamenn aðgang að aðstöðu, tækjabúnaði, mæligögnum, aðferðafræði. Þátttaka í alþjóðlegu rannsóknarsamstarfi er afar mikilvæg íslensku vísindasamfélagi.
    Gríðarleg uppbygging rannsóknarinnviða á sér nú stað í samstarfi Evrópuríkja og er samstarfinu stýrt af evrópskri nefnd sem er vettvangur evrópskrar stefnumótunar um rannsóknarinnviði (e. European Strategy Forum on Research Infrastructures, ESFRI). ESFRI birtir reglulega vegvísi um rannsóknarinnviði þar sem finna má lista yfir stór, evrópsk samstarfsverkefni sem uppfylla ströng skilyrði um vísindaleg gæði, fagleg markmið og sjálfbæran rekstur. Algengt er að verkefni á vegvísi ESFRI sæki um ERIC stöðu að uppfylltum skilyrðum reglugerðar ráðsins (EB) nr. 723/2009.
    Samþykkt þessa frumvarps er forsenda fyrir því að Ísland geti gerst aðili að samtökum um evrópska rannsóknarinnviði (ERIC), tekið fullan þátt í samstarfinu og hagnýtt sér hina miklu uppbyggingu rannsóknarinnviða í Evrópu. Frumvarpið er einnig forsenda þess að Ísland geti haldið áfram þátttöku í mikilvægum ESFRI rannsóknarinnviðum sem það er þegar aðili að en stefnt er á að stofna ERIC-samtök um.
    Með þátttöku í samtökum um evrópska rannsóknarinnviði (ERIC) geta áhrif Íslands innan evrópsks rannsóknarsamfélags aukist, ekki síst á sviðum sem eru mikilvæg fyrir íslenskt samfélag. Þá mun aðgangur að styrkfé úr evrópskum samkeppnissjóðum aukast þar sem hægt er að sækja um styrki í nafni samtaka um evrópska rannsóknarinnviði (ERIC).
    Nú þegar er áhugi fyrir þátttöku Íslands í fernum samtökum um evrópska rannsóknarinnviði (ERIC) sem öll eru á ESFRI vegvísi. Þátttaka Íslands í sumum þessara rannsóknarinnviða hófst áður en þeir hlutu ERIC stöðu. Verði frumvarpið ekki samþykkt setur það íslenska þátttöku í þessu samstarfi í uppnám þar sem Ísland getur þá einungis hlotið gestaaðild en hún er yfirleitt aðeins veitt til þriggja ára án endurnýjunar. Ísland myndi því þurfa að draga sig út úr þessu samstarfi sem hefði mikil áhrif á aðgengi að nútímalegum rannsóknarinnviðum og alþjóðlegu styrkfé auk þess sem áhrif Íslands á rannsóknaráætlanir Evrópusambandsins myndu minnka.
     1.      Veðurstofa Íslands stefnir á að taka þátt í evrópska jarðskorpuflekamælikerfinu (e. European Plate Observing System, EPOS). Tilgangurinn með EPOS-ERIC er að styrkja jarðvísindarannsóknir í Evrópu með því að byggja upp samevrópska rannsóknarinnviði í jarðvísindum. Með þátttöku í EPOS-ERIC skapast nýir möguleikar á þverfaglegum rannsóknum, þar með talið rannsóknum sem skipta miklu fyrir almannavarnir hér á landi, svo sem á hættu á jarðskjálftum og eldgosum. Rannsóknarinnviðir frá Veðurstofunni, Háskóla Íslands og Landmælingum Íslands hafa þegar verið gerðir aðgengilegir innan EPOS-ERIC og stuðlar það að auknum rannsóknum á náttúruvá hér á landi.
     2.      Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum stefnir á að taka þátt í sameiginlegum rannsóknarinnviðum fyrir málföng og máltækni (e. Common Language Resources and Technology Infrastructure, CLARIN). CLARIN-ERIC nýtist vísindamönnum sem vinna með stafræn tungumálagögn. Með þátttöku í CLARIN-ERIC fengju þeir sem vinna að máltækni á Íslandi aðgang að verkfærum og gagnasöfnum til að nýta við þá innviðauppbyggingu og þróun sem stendur fyrir dyrum hér. CLARIN er vettvangur til að deila reynslu, þekkingu, gagnasöfnum og verkfærum milli þátttökuríkja. Í verkáætlun um máltækni 2018–2022 er lagt til að Ísland sæki um aðild að CLARIN og gert er ráð fyrir að Stofnun Árna Magnússonar verði miðstöð CLARIN á Íslandi.
     3.      Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands stefnir á að taka þátt í evrópsku samfélagskönnuninni (e. European Social Survey, ESS). ESS-ERIC er könnun á sviði félagsvísinda sem gerð er annað hvert ár og hefur Ísland þrisvar tekið þátt í könnuninni, árin 2004, 2012 og 2016. Gögnum í ESS er safnað með mjög ströngum og samræmdum aðferðum og eru þau birt í opnum aðgangi. Með því að kortleggja stöðugleika og breytingar í félagsgerð, aðstæðum og viðhorfum í þátttökuríkjunum hefur gagnasafnið ekki einvörðungu nýst breiðum hópi fræðimanna í rannsóknum sínum, heldur einnig stjórnvöldum við stefnumótun, ákvarðanatöku og í samanburði á milli landa.
     4.      Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands stefnir á að taka þátt í samtökum evrópskra gagnavarðveisluaðila í félagsvísindum (e. Consortium of European Social Science Data Archives, CESSDA). CESSDA-ERIC hefur forystu í því að samræma hvernig gagnasöfn í félagsvísindum eru sett í opinn aðgang meðal annars í opnu evrópsku vísindaskýjalausnina (e. European Open Science Cloud, EOSC) sem er skýjalausn fyrir opið aðgengi að rannsóknargögnum. Markmið samtakanna er að auka sýnileika niðurstaðna í rannsóknum á þessu sviði og stuðla að alþjóðlegu samstarfi. Félagsvísindastofnun hefur verið óformlegur aðili að CESSDA undanfarin ár og nýtur leiðsagnar samtakanna við uppbyggingu gagnaþjónustu í félagsvísindum og birtingu gagna í opnum aðgangi.
    Áformuð lagasetning tengist markmiðum á málaflokki 7.1. í fjármálaáætlun 2019–2023 sem segir að meginmarkmið málefnasviðsins sé „alþjóðlega samkeppnishæft umhverfi rannsókna og nýsköpunar þar sem áhersla er lögð á gæði, gagnsæi, alþjóðasamstarf og árangur“. Enn fremur styður frumvarpið markmið Vísinda- og tækniráðs árin 2017–2019 um eflingu alþjóðasamstarfs um rannsóknarinnviði.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er innleidd reglugerð ráðsins (EB) nr. 723/2009 frá 25. júní um laga-ramma Bandalagsins um samtök um evrópska rannsóknainnviði (ERIC) ásamt reglugerð ráðsins (ESB) nr. 1261/2013 frá 2. desember 2013 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 723/2009. Verði frumvarpið að lögum verður reglugerðin innleidd í íslenskan rétt og veitt lagagildi. Í frumvarpinu er einnig að finna ákvæði um skráningu, umsóknarferli um stofnun ERIC-samtaka á Íslandi eða þátttöku í ERIC-samtökum staðsettum erlendis og reglugerðarheimild ráðherra.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Í 15. gr. reglugerðar (EB) nr. 723/2009 er mælt fyrir um gildandi lög og lögsögu ERIC-samtaka. Kemur þar fram í 1. mgr. að um stofnun og innra starf ERIC-samtaka skuli gilda lög Bandalagsins, einkum reglugerðin og ákvarðanir sem nánar er vísað til, lög þess ríkis þar sem samtökin hafa lögboðið aðsetur í málum sem falla ekki, eða aðeins að hluta, undir þær gerðir sem vísað er til í a-lið, og stofnsamþykktir og framkvæmdareglur þeirra. Í 2. mgr. kemur fram að dómstóll Bandalagsins skuli hafa lögsögu yfir málssókn milli félagsmanna í tengslum við ERIC-samtökin, málssókn milli félagsmanna og ERIC-samtakanna og málssókn sem Bandalagið er aðili að. Fram kemur í 3. mgr. að löggjöf Bandalagsins um lögsögu skuli gilda um ágreining milli ERIC-samtaka og þriðju aðila. Í málum sem falla ekki undir löggjöf Bandalagsins skulu lög ríkisins þar sem ERIC-samtökin hafa lögboðið aðsetur ákvarða lögbært dómsvald til að leysa úr slíkum ágreiningi. Mikilvægt er að sami lagarammi gildi um ERIC-samtök óháð staðsetningu en möguleg aðkoma dómstóls Bandalagsins snýr eingöngu að starfsemi ERIC-samtaka.
    Ákvæði 21. gr. stjórnarskrárinnar lýtur að heimild framkvæmdarvaldsins til að gera samninga við önnur ríki. Ákvæði 2. gr. og 60. gr. stjórnarskrárinnar kunna að koma til álita við mat á því hvort stjórnarskráin setji framsali ríkisvalds skorður, en færa má rök fyrir því að ákvæðin tryggi aðilum á íslensku yfirráðasvæði rétt til að fá íþyngjandi ákvörðun stjórnvalda endurskoðaða af íslenskum dómstólum.
    Alþingi hefur svigrúm til að túlka ákvæði stjórnarskrárinnar á þann hátt að möguleikar Íslands sem fullvalda þjóðréttaraðila í samstarfi og samningum við aðrar þjóðir séu ekki of takmarkaðir. Löggjafinn hefur því svigrúm til takmarkaðs framsals, en af lestri 15. gr. reglugerðar (EB) nr. 723/2009 sést að framsal það sem dómstól Evrópusambandsins er veitt er bæði takmarkað og vel skilgreint, enda bundið tilteknum ágreiningsmálum vegna ERIC-samtaka eingöngu.
    Framsalið þarf að vera byggt á almennum lögum. Gengið er út frá því að með þessu frumvarpi verði sköpuð almenn lagaumgjörð fyrir Ísland til að taka þátt í ERIC-samtökum.
    Mikilvægt er að fyrir liggi að hvaða aðilum ákvarðanir hins yfirþjóðlega valds beinast, en talið er að mörk stjórnarskrárinnar til framsals ríkisvalds séu rýmri þegar ákvarðanirnar beinast eingöngu að íslenskra ríkinu eða stofnunum þess. Ákvæði 2. mgr. 15. gr. reglugerðar (EB) nr. 723/2009 takmarkast við félagsmenn í tengslum við ERIC-samtök sem eru fullvalda ríki, sbr. þó einnig 3. mgr. sömu greinar.
    Það starf sem unnið er í ERIC-samtökum stefnir að lögmætum markmiðum í þágu menningarlegra, félagslegra eða efnahagslegra framfara, en meginverkefni ERIC-samtaka skal vera sköpun og rekstur rannsóknarinnviða, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar (EB) nr. 723/2009. Þar að auki er þátttaka í ERIC valfrjáls og afturkallanleg.
    Fræðimenn telja að ekkert eitt af þessum atriðum ráði að jafnaði úrslitum um að hvaða marki stjórnarskráin heimilar framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana, heldur er um heildarmat að ræða.
    Þá ber að líta til þess að það er almennt talið til hagsbóta fyrir samstarf að kveðið sé skýrt og fyrir fram á um lausn deilumála sem standi öllum aðilum til boða, telji þeir á sig hallað í samstarfinu, fyrir sjálfstæðum dómstóli sem leysi úr ágreiningi aðila.
    Íslenskir fræðimenn hafa sett fram ýmis sjónarmið um mögulegt framsal á dómsvaldi þegar metið er hvort framsal valdheimilda ríkisins til alþjóðlegra stofnana sé heimilt. Eftirfarandi er umfjöllun um þau sjónarmið og hvernig efni frumvarpsins samræmist þeim.
     1.      Að framsalið sé byggt á almennum lögum.
        –    Með því að flytja frumvarp til laga er stefnt að því að uppfylla þetta skilyrði.
     2.      Að framsalið sé afmarkað og vel skilgreint.
        –    Framsalið er vel skilgreint og afmarkað í 15. gr. reglugerðarinnar.
     3.      Að framsalið sé ekki verulega íþyngjandi, hvorki fyrir íslenska ríkið né þegna þess.
        –    Framsalið er ekki almennt þar sem það nær eingöngu til ERIC-samtaka.
     4.      Að framsalið sé byggt á samningi sem kveður á um gagnkvæm réttindi og skyldur og mælir fyrir um samsvarandi framsal ríkisvalds annarra samningsríkja.
        –    Allir aðilar að ERIC (þ.m.t. lönd, eins og Noregur, sem standa utan ESB) gangast undir sama framsal á dómsvaldi.
     5.      Að hinar alþjóðlegu stofnanir sem vald er framselt til byggist á lýðræðislegum grundvelli og að þær viðurkenni almennar meginreglur um réttláta málsmeðferð og réttláta stjórnsýslu.
        –    Evrópudómstóllinn uppfyllir þetta skilyrði.
     6.      Að framsalið leiði af þjóðréttarsamningi sem stefnir að lögmætum markmiðum í þágu friðar og menningarlegra, félagslegra eða efnahagslegra framfara.
        –    Reglugerð ráðsins (EB) nr. 723/2009 um ERIC hefur verið tekin upp í bókun 31 við EES samninginn sem kveður á um samvinnu utan fjórþætta frelsisins, öll tilgreind markmið eiga við um ERIC.
     7.      Að framsalið leiði ekki til þess að skert séu réttindi þegnanna sem vernduð eru í stjórnarskrá.
        –    Framsalið á eingöngu við um íslenska ríkið en ekki þegna þess.
     8.      Að framsalið sé afturkallanlegt.
        –    Þátttökuaðild í ERIC er valfrjáls og afturkallanleg.
    Hingað til hafa ekki komið upp nein tilvik í ERIC-samtökum þar sem reynt hefur á mál af þessu tagi. Dæmi um slík mál væru t.d. ágreiningur um hvort þátttökuaðili uppfylli skilyrði fyrir þátttöku (hvort grípa þurfi til brottreksturs) og ágreiningur um hvort nægjanlegum fjölda hafi verið náð á fundi til að taka bindandi ákvarðanir.
    Að teknu tilliti til framangreindrar umfjöllunar er það mat starfshópsins sem samdi frumvarpið að lögsaga dómstóls Evrópusambandsins yfir málssóknum vegna ERIC-samtaka sé samrýmanleg íslensku stjórnarskránni, samþykki Alþingi almenn lög þess efnis.

5. Samráð.
    Frumvarpið snertir einkum rannsóknarstofnanir og háskóla. Áform um lagasetningu voru birt í samráðsgátt Stjórnarráðsins sumarið 2018 og frumvarpsdrögin birt í Samráðsgátt Stjórnarráðsins í desember 2018. Samhliða báðum birtingum var tilkynning send til helstu hagsmunaaðila. Athugasemdir bárust frá Raunvísindastofnun Háskóla Íslands og Veðurstofunni í gegnum samráðsgátt og þá barst ein sameiginleg athugasemd beint frá Félagsvísindastofnun og Félagsvísindasviði Háskóla Íslands. Athugasemdirnar snerust aðallega um greinargerð frumvarpsins þ.e. leiðréttingar og viðbætur á henni hvað varðar mikilvægi þess að Ísland geti tekið þátt í ERIC-samtökum og um fyrirhugaða þátttöku Íslands í ERIC-samtökum. Tekið var tillit til athugasemdanna.

6. Mat á áhrifum.
Fagleg áhrif.
    Fagleg áhrif aðildar að samtökum um evrópska rannsóknarinnviði (ERIC) á gæði íslenskrar rannsóknar- og nýsköpunarstarfsemi og rannsóknarmenntunar eru jákvæð. Það getur skilað fleiri birtingum vísindagreina, aukinni samkeppnishæfni íslenskra háskóla og rannsóknarstofnana, aukinni nýsköpun á fræðasviði ERIC-samtakanna og fjölgun erlendra vísindamanna með aðsetur á Íslandi sem og erlendra nema í framhaldsnámi við íslenska háskóla svo eitthvað sé nefnt. Með þátttöku í ERIC-samtökum geta áhrif Íslands innan evrópsks rannsóknarsamfélags aukist, ekki síst á sviðum sem eru mikilvæg fyrir íslenskt samfélag og aðgangur að styrkjum úr evrópskum samkeppnissjóðum jafnframt aukist.

Fjárhagsleg áhrif.
    Möguleg fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð geta verið tvenns konar, annars vegar vegna ERIC-samtaka á Íslandi og hins vegar vegna þátttöku Íslands í erlendum ERIC-samtökum erlendis. Þá er bent á, sbr. umfjöllun hér að aftan um áhrif á tollalög og lög um virðisaukaskatt, að samtök um evrópska rannsóknarinnviði njóta tiltekins skattfrelsis og fá bæði vörugjöld og virðisaukaskatt endurgreiddan af varningi að því leyti sem slíkt samræmist stofnsamningi samtakanna. Á þessu stigi liggur ekki fyrir hvaða kostnaður kann að hljótast af því. Á næstu árum verður kostnaður ríkissjóðs eingöngu vegna þátttöku Íslands í erlendum ERIC-samtökum en eins og áður hefur komið fram eru uppi áform um aðild að fernum samtökum um evrópska rannsóknarinnviði (ERIC).
    Árlegur kostnaður Íslands vegna þátttöku í þessum samtökum er:
     *      8–10 millj. kr. vegna árgjalds að evrópska jarðskorpuflekamælikerfinu (EPOS-ERIC).
     *      1,5–2 millj. kr. vegna árgjalds að sameiginlegum rannsóknarinnviðum fyrir málföng og máltækni (CLARIN-ERIC).
     *      5,4 millj. kr. vegna árgjalds að evrópsku samfélagskönnuninni (ESS-ERIC) og 33 millj. kr. annað hvert ár vegna gagnasöfnunar í evrópska félagsvísindagrunninn.
     *      135 þús. kr. vegna árgjalds að samtökum evrópskra gagnavarðveisluaðila í félagsvísindum (CESSDA-ERIC).

Áhrif á tollalög, nr. 88/2005, og lög um virðisaukaskatt, nr. 50/1988.
    Í reglugerð ráðsins (EB) nr. 723/2009 segir efnislega að samtök um evrópska rannsóknarinnviði (ERIC) skuli njóta tiltekins skattfrelsis á Íslandi og gert sé ráð fyrir að hýsingarríki (e. host states) og aðilar (e. member states) að ERIC-samtökum þurfi að skila inn yfirlýsingu þar sem tilvist slíkra ívilnana er viðurkennd.
    Af framangreindu leiðir að taki Ísland þátt í samtökum um evrópska rannsóknarviði (ERIC) verður því skylt að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
     1.      Veita ERIC-samtökum undanþágu frá greiðslu virðisaukaskatts við innflutning á varningi að gættum þeim takmörkunum sem kveðið er á um í stofnsamningi samtakanna.
     2.      Veita aðilum að ERIC-samtökum undanþágu frá greiðslu virðisaukaskatts við innflutning á varningi að gættum takmörkunum sem kveðið er á um í stofnsamningi samtakanna og að því leyti sem innflutningurinn er nauðsynlegur til þess að markmiðum samtakanna verði náð og sem segja má að innflutningurinn hafi verið fyrirséður við gerð stofnsamningsins.
     3.      Undanþiggja greiðslu virðisaukaskatts á afhendingu varnings til ERIC-samtaka að því leyti sem slíkt samræmist stofnsamningi samtakanna.
     4.      Undanþiggja greiðslu virðisaukaskatts á afhendingu varnings til aðila að ERIC-samtökum að gættum takmörkunum sem kveðið er á um í stofnsamningi þeirra og að því leyti sem afhendingin er nauðsynleg til þess að markmiðum samtakanna verði náð og segja má að innflutningurinn hafi verið fyrirséður við gerð stofnsamningsins.
     5.      Undanþiggja greiðslu vörugjalda þær vörur sem eru ætlaðar ERIC-samtökum að því marki sem slíkt samræmist takmörkunum sem kveðið er á um í stofnsamningi samtakanna.
     6.      Undanþiggja greiðslu vörugjalda þær vörur sem eru ætlaðar aðilum að ERIC-samtökum að því marki sem slíkt samræmist takmörkunum og skilyrðum sem kveðið er á um í stofnsamningi samtakanna og að því leyti sem innflutningurinn er nauðsynlegur til þess að markmiðum samtakanna verði náð og að innflutningurinn hafi verið fyrirséður við gerð stofnsamningsins.
    Umfang ívilnana takmarkast við þá aðstöðu, hráefni og þjónustu sem afhent er í beinum tengslum við eðli og starfsemi viðkomandi ERIC-samtaka. Þannig ná undanþágurnar meðal annars til meiriháttar vísindabúnaðar, verkfæra/tækja, þekkingargrunna, svo sem gagnasafna og gagnagrunna, sem og innviða til geymslu, dreifingar og úrvinnslu vísindagagna, svo sem nettenginga, tölvubúnaðar og hugbúnaðar, eða hvers þess sem nauðsynlegt telst fyrir starfsemi ERIC-samtakanna. Slíkar ráðstafanir geta verið staðbundnar eða dreifðar.
    Ef Ísland óskar eftir aðild að samtökum um evrópska rannsóknarinnviði (ERIC) mun það teljast tengt ríki (e. associated country) í skilningi reglugerðar ráðsins (EB) nr. 723/2009. Í tilviki slíkra ríkja teljast skuldbindingar um undanþágur frá sköttum uppfylltar hvort sem þær eru veittar sem beinar undanþágur eða á grundvelli endurgreiðslufyrirkomulags.
    Vörugjöld í skilningi reglugerðar ráðsins (EB) nr. 723/2009 sbr. tilskipun 2008/118/EC (sem leysir af tilskipun 92/12/EEC) eru skattar sem eru lagðir á neyslu tiltekinnar vöru, nánar tiltekið orku og eldsneytis, áfengis og tóbaks.
    Í íslenskum skattalögum eru eftir samþykkt laga um skatta, tolla og gjöld, nr. 59/2017 ákvæði um niðurfellingu og eftir atvikum endurgreiðslu ýmissa skatta og gjalda í samræmi við þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands. Skilyrði slíkra ívilnana eru að þær megi leiða af alþjóðasamningum og tvíhliða samningum og að þeir hafi tekið gildi hvað Ísland varðar.
    Af framangreindu er mat starfshópsins að ákvæði íslenskra skattalaga um ívilnanir á grundvelli alþjóðasamninga séu þegar nægileg og ekki sé þarft að ráðast í frekari lagabreytingar að svo stöddu.

Áhrif á lög um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003.
    Mat starfshópsins er að ekki sé þörf á að breyta lögum um fyrirtækjaskrá vegna skráninga á ERIC-samtökum. Slík samtök gætu rúmast innan 5. tölul. 2. gr. laga um fyrirtækjaskrá, en undir þann tölulið fellur önnur starfsemi sem ríkisskattstjóri sér ástæðu til að skrá í fyrirtækjaskrá.
    Í ljósi þess hverjir geta orðið félagsmenn að samtökum sem þessum verður að telja að lagasetning milli ríkja ætti að vera sambærileg. Slíkt stuðlar að einsleitni félagaformsins. Með hliðsjón af þessu verður að telja að sá frestur sem samtök hafa til að tilkynna um stofnun þeirra til fyrirtækjaskrár ætti að vera sambærilegur milli landa.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Ákvæðið endurspeglar tilgang reglugerðar um lagaramma Bandalagsins um samtök um evrópska rannsóknainnviði (ERIC). Rannsóknarinnviðir gegna lykilhlutverki í að viðhalda samkeppnishæfni Evrópu og einstakra landa álfunnar sem stöðugt verða flóknari og dýrari. Samstarf ríkja um uppbyggingu og rekstur rannsóknarinnviða verður því æ mikilvægara. ERIC félagaformið auðveldar slíkt samstarf og styður við áætlun Bandalagsins um rannsóknir og tækniþróun. Verði frumvarpið að lögum kæmi þessi nýi lagarammi til viðbótar öðrum gildandi reglum samkvæmt landslögum, alþjóðalögum eða lögum Bandalagsins.

Um 2. gr.

    Í ákvæðinu er mælt fyrir um lögfestingu reglugerðar ráðsins (EB) nr. 723/2009 frá 25. júní 2009 um lagaramma Bandalagsins um samtök um evrópska rannsóknarinnviði (ERIC), og breytt var með reglugerð ráðsins (ESB) nr. 1261/2013 frá 2. desember 2013 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 723/2009 um lagaramma Bandalagsins um samtök um evrópska rannsóknarinnviði (ERIC). Gerðirnar voru felldar inn í bókun 31 við EES-samninginn, um samvinnu á sérstökum sviðum utan marka fjórþætta frelsisins árið 2015 með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 72/2015 og tók ákvörðunin gildi hinn 6. júní 2015.
    Lagt er til að reglugerðinni sé gefið lagagildi, í samræmi við a-lið 1. mgr. 7. gr. EES-samningsins, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, þar sem fram kemur að reglugerð sem samsvarar reglugerð EBE skuli sem slík tekin upp í landsrétt samningsaðila. Þá er efni reglugerðarinnar þess eðlis að rétt þykir að gefa henni lagagildi, í stað stöðu stjórnvaldsfyrirmæla.

Um 3. gr.

    Lagt er til að fyrirtækjaskrá skrái samtök um evrópska rannsóknarinnviði í fyrirtækjaskrá og gefi út kennitölu á grundvelli 5. tölul. 2. gr. laga um fyrirtækjaskrá en ákvæðið nær til annarrar starfsemi en talin er upp í 1.–4. tölul. greinarinnar sem ríkisskattstjóri sér ástæðu til að skrá í fyrirtækjaskrá.
    Skv. 5. gr. reglugerðar ráðsins (EB) nr. 723/2009 skal umsókn um stofnun samtaka um evrópska rannsóknarinnviði send framkvæmdastjórn ESB.
    Sé umsókn um stofnun samtaka um evrópska rannsóknarinnviði samþykkt af framkvæmdastjórninni skal ákvörðun þar um birt í L-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins. Skrá skal samtök um evrópska rannsóknarinnviði sem starfrækt eru á Íslandi í fyrirtækjaskrá innan þriggja mánaða frá því umsókn um stofnun samtakanna var samþykkt af framkvæmdastjórn ESB, sbr. 2. mgr. 6. gr. reglugerðar ráðsins nr. 723/2009.
    Í tilkynningu til fyrirtækjaskrár um skráningu samtaka um evrópska rannsóknarinnviði skal skrá nafn samtakanna og lögheimili, tilgang samtakanna og stofnendur, sem og stjórn, framkvæmdastjórn, prókúruhafa og endurskoðendur. Með tilkynningu skulu fylgja stofnsamþykktir samtakanna.
    Lagt er til að samtökum um evrópska rannsóknarinnviði sé skylt að nota skammstöfunina ERIC í heiti sínu og er sú tillaga í samræmi við ákvæði 2. mgr. 8. gr. reglugerðar ráðsins (EB) nr. 723/2009.
    Allar breytingar sem verða á atriðum sem skráð eru í fyrirtækjaskrá skal tilkynna til fyrirtækjaskrár eigi síðar en mánuði eftir að breytingin var samþykkt. Það sama á við ef breytingar verða á samþykktum samtaka um evrópska rannsóknarinnviði en senda skal fyrirtækjaskrá uppfært eintak af samþykktunum. Tilkynningar um breytingar skulu undirritaðar af meirihluta stjórnar eða prókúruhafa samtakanna.
    Þá gilda ákvæði reglugerðar ráðsins (EB) nr. 723/2009 og laga um fyrirtækjaskrá um skráningu samtaka um evrópska rannsóknarinnviði.

Um 4. gr.

    Ákvörðun um slit samtaka um evrópsk rannsóknarinnviði skal tekin í samræmi við 16. gr. reglugerðar ráðsins (EB) nr. 723/2009 og samþykktir samtakanna. Þegar tekin hefur verið ákvörðun um slit samtaka um evrópska rannsóknarinnviði skulu samtökin birta í Lögbirtingablaðinu áskorun til kröfuhafa samtakanna um að tilkynna kröfur sínar til stjórnar samtakanna innan sex vikna frá birtingu áskorunarinnar. Þekktum kröfuhöfum skal jafnframt send tilkynning um slitin sé þess kostur.
    Tilkynning um lok slitameðferðar samtaka um evrópska rannsóknarinnviði skal send ríkisskattstjóra innan tíu daga frá lokum hennar og skal tilkynningin skráð í fyrirtækjaskrá. Framkvæmdastjórn ESB skal birta tilkynningu um slit samtaka um evrópsk rannsóknarinnviði í C-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og telst samtökunum slitið þegar tilkynning hefur verið birt.

Um 5. gr.

    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð þar sem kveðið er nánar á um ferli umsókna er varða stofnun ERIC-samtaka á Íslandi eða aðild Íslands að ERIC-samtökum erlendis. Greinin er almenn reglugerðarheimild en gert er ráð fyrir að heimilt verði að innleiða afleiddar gerðir á grundvelli þessa ákvæðis, settar á grundvelli efnisreglna sem finna má í ákvæðum reglugerða um samtök um evrópska rannsóknarinnviði sem lagt er til að fái lagagildi með frumvarpi þessu.

Um 6. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.