Ferill 660. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1309  —  660. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um heimild til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1129 varðandi lýsingu sem birta skal við útboð verðbréfa á almennum markaði eða þegar þau eru tekin til viðskipta.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Pétur Gunnarsson frá utanríkisráðuneyti og Ernu Hjaltested, Gunnlaug Helgason og Mörtu Margréti Rúnarsdóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd fyrirhugaða ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992 og að fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1129 frá 14. júní 2017 um lýsingu sem birta skal við útboð verðbréfa á almennum markaði eða þegar þau eru tekin til viðskipta og um niðurfellingu á tilskipun 2003/71/EB.
    Reglugerð (ESB) 2017/1129 kemur í stað núgildandi regluverks um lýsingar. Gerðin kveður á um ákveðnar breytingar á samræmdum reglum frá fyrra regluverki, en hún felur einnig í sér kerfi tilkynninga eftirlitsstjórnvalda á staðfestum lýsingum til annarra eftirlitsstjórnvalda innan ESB, vegna viðskipta yfir landamæri (e. passporting). Markmið reglugerðarinnar er að tryggja fjárfestavernd og skilvirkni markaða samhliða því að bæta innri markaðinn með fjármagn. Greiða á aðgengi fyrirtækja að fjármögnun, þá sérstaklega lítilla og meðalstórra fyrirtækja, með ýmiss konar einföldun á reglum og stjórnsýslumeðferð.
    Tillögunni var vísað til nefndarinnar 19. mars sl. Reglugerðin var tekin upp í EES-samninginn 29. mars sl. með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 84/2019, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.
    Í ljósi þessa telur nefndin rétt að leggja til breytingu á tillögunni svo vísað sé til ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar með hefðbundnum hætti. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 7. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála. Sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 30. september 2019.
    Innleiðing reglugerðarinnar kallar á lagabreytingar og er í forgangi af hálfu fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Fyrirhugað er að fjármála- og efnahagsráðherra leggi fram frumvarp til innleiðingar á gerðinni á haustþingi 2019.

    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með svohljóðandi

BREYTINGU:


     1.      Tillögugreinin orðist svo:
                      Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 84/2019 frá 29. mars 2019 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992 og að fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1129 frá 14. júní 2017 um lýsingu sem birta skal við útboð verðbréfa á almennum markaði eða þegar þau eru tekin til viðskipta og um niðurfellingu á tilskipun 2003/71/EB.
     2.      Fyrirsögn tillögunnar verði: Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 84/2019 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.

Alþingi, 3. apríl 2019.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir,
form.
Bryndís Haraldsdóttir, frsm. Ari Trausti Guðmundsson.
Gunnar Bragi Sveinsson. Logi Einarsson. Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
Silja Dögg Gunnarsdóttir. Smári McCarthy. Þorgerður K. Gunnarsdóttir.