Ferill 345. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Nr. 26/149.

Þingskjal 1424  —  345. mál.


Þingsályktun

um stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019–2023.


    Alþingi ályktar, sbr. lög um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands, nr. 121/2008, að á árunum 2019–2023 skuli unnið að þróunarsamvinnu Íslands í samræmi við eftirfarandi stefnu.
    Ísland styðji framtíðarsýn heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra veröld þar sem hungri og sárafátækt hefur verið útrýmt, dregið hefur úr ójöfnuði innan og á milli ríkja, mannréttindi allra eru virt, allir eru jafnir fyrir lögum og lifa við frið og öryggi í daglegu lífi. Stefna Íslands í þróunarsamvinnu taki jafnframt mið af þeim alþjóðlegu sáttmálum sem Ísland hefur gerst aðili að, samþykkt eða fullgilt, m.a. á sviði mannréttinda, alþjóðlegum skuldbindingum um fjármögnun þróunar og Parísarsamkomulaginu um loftslagsmál, sem saman mynda heildstæða umgjörð um þróun á heimsvísu til ársins 2030.
    Alþjóðleg þróunarsamvinna verði áfram ein af meginstoðum íslenskrar utanríkisstefnu og mikilvægur hlekkur í þjóðaröryggisstefnu Íslands. Leitast verði við að tryggja innbyrðis samræmi í utanríkis- og þróunarmálum með tilliti til þeirra hnattrænu viðfangsefna sem sett eru fram í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Með virkri þátttöku í alþjóðlegri þróunarsamvinnu leitist Ísland við að uppfylla pólitískar, lagalegar og siðferðislegar skyldur sínar sem ábyrg þjóð í samfélagi þjóðanna. Aðild Íslands að Sameinuðu þjóðunum verði áfram einn helsti grundvöllur þróunarsamvinnu Íslands. Viðurkennt sé að til að ná megi settum markmiðum þurfi að virkja ólíka aðila til samstarfs, enda hafi allir hlutverki að gegna, svo sem ráðuneyti og stofnanir, atvinnulíf, borgarasamfélagið og háskólar. Sérstaklega verði leitast við að nýta virðisaukandi sérþekkingu Íslands við úrlausn staðbundinna og alþjóðlegra verkefna.
    Ísland leggi mannréttindi til grundvallar stefnu sinni með þá sýn að leiðarljósi að fátækt sé ekki aðeins skortur á efnislegum gæðum heldur einnig skortur á öryggi, valdi og stjórn yfir eigin aðstæðum. Jafnrétti kynjanna og réttindi barna verði í öndvegi og sérstök áhersla lögð á berskjaldaða hópa. Þróunarsamvinna Íslands endurspegli þannig þau gildi sem íslenskt samfélag hefur í heiðri; virðingu fyrir lýðræði, mannréttindum, fjölbreytileika, umburðarlyndi, réttlæti og samstöðu. Ábyrgð, árangur og áreiðanleiki verði höfð að leiðarljósi í öllu starfi Íslands.

Framlög.
    Íslensk stjórnvöld styðji markmið Sameinuðu þjóðanna um að iðnríki skuli veita sem nemur 0,7% af vergum þjóðartekjum (VÞT) til þróunarsamvinnu, en framlög aðildarríkja þróunarsamvinnunefndar Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD/DAC) námu 0,31% af VÞT að meðaltali árið 2017. Íslensk stjórnvöld styðji jafnframt áfram markmið Sameinuðu þjóðanna um að veita í það minnsta 0,2% af VÞT til fátækustu þróunarlandanna. Veruleg hækkun varð á framlögum til þróunarsamvinnu á tímabilinu frá 2013 til 2017. Árið 2013 námu þau rúmlega 4,26 milljörðum kr. eða 0,23% af VÞT, árið 2015 voru framlögin 5,26 milljarðar kr., sem svarar til 0,24% af VÞT, og árið 2017 voru þau tæplega 7,3 milljarðar kr. eða 0,28% af VÞT.
    Rík áhersla verði lögð á að framlögin séu vel nýtt og sýnt sé fram á árangur af starfi Íslands. Í fjármálaáætlun sem byggist á fjármálastefnu, sbr. 4. og 5. gr. laga nr. 123/2015, um opinber fjármál, er tilgreind stefna Íslands um framlög til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu sem hlutfall af vergum þjóðartekjum. Stefnt verði að því að Ísland auki framlög sín á næstu árum og að þau verði 0,35% af VÞT árið 2022.

Áherslur og markmið.
    Mannréttindi, jafnrétti kynjanna og sjálfbær þróun verði leiðarljós í þróunarsamvinnu Íslands. Íslensk stjórnvöld leggi sitt af mörkum í baráttunni gegn sárri fátækt og hungri og beiti sér fyrir að aukin hagsæld samfélaga skili sér til þeirra fátækustu og leiði til aukins jafnaðar. Þá verði lögð áhersla á að styðja við óstöðug ríki og þau fátækustu og stuðla að friði á alþjóðavettvangi.
    Í þróunarsamvinnu Íslands verði lögð áhersla á svið þar sem sérþekking Íslands getur nýst í baráttunni gegn fátækt og fyrir framgangi heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Í því samhengi verði unnið að einu yfirmarkmiði og tveimur meginmarkmiðum er lúta að uppbyggingu félagslegra innviða og starfa í þágu friðar, verndunar jarðarinnar og sjálfbærrar nýtingar náttúruauðlinda.
     Yfirmarkmið Íslands verði að draga úr fátækt og hungri og stuðla að almennri velferð á grundvelli mannréttinda, kynjajafnréttis og sjálfbærrar þróunar.
     Meginmarkmið Íslands, ásamt undirmarkmiðum, verði eftirfarandi:
     1.      Uppbygging félagslegra innviða og störf í þágu friðar:
             Efla grunnþjónustu og styrkja stofnanir til að bæta lífskjör og auka tækifæri þeirra sem búa við fátækt og ójöfnuð.
                  a.      Kynjajafnrétti og valdefling kvenna (í samræmi við heimsmarkmið nr. 5).
                  b.      Jafn aðgangur allra að góðri menntun (í samræmi við heimsmarkmið nr. 4).
                  c.      Bætt grunnheilbrigðisþjónusta og lækkuð tíðni mæðra- og barnadauða (í samræmi við heimsmarkmið nr. 3).
                  d.      Bætt aðgengi að heilnæmu vatni og hreinlætisaðstöðu (í samræmi við heimsmarkmið nr. 6).
                  e.      Skjót endurreisn, aukinn viðnámsþróttur og sterkari innviðir samfélaga (í samræmi við heimsmarkmið nr. 16).
     2.      Verndun jarðarinnar og sjálfbær nýting náttúruauðlinda:
             Auka viðnámsþrótt samfélaga og örva hagvöxt á grundvelli jafnaðar og sjálfbærrar auðlindanýtingar, auk þess sem gripið verði til aðgerða vegna loftslagsbreytinga.
                  a.      Aukin nýting jarðhita og annarra endurnýjanlegra orkugjafa (í samræmi við heimsmarkmið nr. 7).
                  b.      Verndun og sjálfbær nýting hafs og vatna (í samræmi við heimsmarkmið nr. 14).
                  c.      Endurheimt vistkerfa, sjálfbær landnýting og takmörkun landhnignunar (í samræmi við heimsmarkmið nr. 15).
                  d.      Aukin mótvægis- og aðlögunarhæfni samfélaga vegna áhrifa loftslagsbreytinga (í samræmi við heimsmarkmið nr. 13).
                  e.      Sjálfbær hagvöxtur og mannsæmandi atvinnutækifæri fyrir alla (í samræmi við heimsmarkmið nr. 8).

I. Uppbygging félagslegra innviða og störf í þágu friðar.
    Íslensk stjórnvöld stuðli að uppbyggingu félagslegra innviða með úrbótum í tengslum við menntun barna og ungmenna, heilbrigðismál, vatns- og hreinlætismál, aukinn viðnámsþrótt og endurreisn samfélaga, auk styrkingar innviða þeirra. Þá verði unnið að jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna með sértækum aðgerðum og samþættingu. Lögð verði áhersla á óstöðug ríki og þau fátækustu með lýðræði, stöðugleika og frið að leiðarljósi.
    Í þróunarsamvinnu Íslands verði jafnrétti kynjanna og valdefling kvenna bæði þverlægt og sértækt markmið. Lögð verði áhersla á verkefni sem stuðla að kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna og auknum möguleikum þeirra til tekjuöflunar, auk þess sem gripið verði til aðgerða gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi. Íslensk stjórnvöld styðji einnig við uppbyggingu á getu og starfsþjálfun í þágu kynjajafnréttis. Unnið verði að því að auka færni og styrk stofnana, félagasamtaka og sérfræðinga í þróunarríkjum til að vinna að framgangi kynjajafnréttis. Einnig beiti íslensk stjórnvöld sér fyrir því að jafnréttismál verði í auknum mæli tekin til umræðu þegar rætt er um viðskipti á alþjóðavettvangi og að ákvæði er varða jafnrétti kynjanna verði tekin upp í fríverslunarsamningum EFTA.
    Aukin áhersla verði lögð á gæði grunnmenntunar, bætt aðgengi og minna brottfall úr skólum í fátækum samfélögum og sjónum sérstaklega beint að stúlkum. Hugað verði að börnum og ungmennum, að réttindi þeirra séu virt og þau njóti verndar, þ.m.t. gegn ofbeldi og skaðlegu athæfi svo að þau fái tækifæri til að dafna og þroska hæfileika sína. Þá leggi íslensk stjórnvöld áherslu á góða grunnheilbrigðisþjónustu þar sem heilsa og næring mæðra og barna er í forgangi og stuðli að kyn- og frjósemisheilbrigði og réttindum þar að lútandi. Jafnframt verði unnið að bættum hollustuháttum með auknu aðgengi að heilnæmu vatni, salernisaðstöðu og fræðslu um hreinlætismál.
    Íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir samhæfingu mannúðaraðstoðar, þróunarsamvinnu og friðaruppbyggingar með áherslu á aukin og fyrirsjáanleg framlög til mannúðarmála í samræmi við áherslur um aukna skilvirkni og árangur mannúðaraðstoðar. Jafnframt taki allt starf Íslands á vettvangi mannúðarmála mið af alþjóðlegu samkomulagi um góða starfshætti í mannúðaraðstoð og skuldbindingum Íslands frá leiðtogafundinum um mannúðarmál sem fram fór í Istanbúl árið 2016. Í því sambandi verði leitast við að styrkja markvisst tengslin á milli mannúðarstarfs á vegum Íslands og þróunarsamvinnu, ekki hvað síst í því skyni að takast á við orsakir og afleiðingar aukinna fólksflutninga og flóttamannavanda. Áhersla verði lögð á að styrkja nærumhverfi þar sem neyð og átök eiga sér stað og á nálægum svæðum með það að leiðarljósi að efla viðnámsþrek samfélaganna og stuðla að uppbyggingu til framtíðar. Störf Íslands verði unnin í samræmi við alþjóðlega mannréttindasamninga og alþjóða- og mannúðarlög og samkvæmt alþjóðlegum viðmiðum og grundvallarreglum um mannúð, óhlutdrægni, hlutleysi og sjálfstæði.
    Íslensk stjórnvöld virði forystuhlutverk Sameinuðu þjóðanna á þessu sviði og mikilvægi samhæfingar aðgerða á vettvangi. Verkefni á sviði mannúðaraðstoðar miði að því að ná til þeirra hópa sem standa höllum fæti og tryggi að tekið verði mið af þörfum og hagsmunum beggja kynja.
    Íslensk stjórnvöld dragi úr viðskiptahindrunum fyrir þróunarríki með því að bæta markaðsaðgengi fátækustu þróunarríkjanna, enda geti aukin viðskipti stuðlað að auknum hagvexti, hærri tekjum og dregið úr fátækt. Einnig verði lögð áhersla á að stuðla að friði og sjálfbærni í þeim samfélögum þar sem þróunarsamvinna á vegum Íslands fer fram, sem er nauðsynleg forsenda fyrir uppbyggingu til lengri tíma og efnahagslegri framþróun fyrir alla. Með stuðningi verði ávallt leitast við að tryggja frið og stöðugleika, uppbyggingu í átt að lýðræði (réttarríki) og traustu stjórnarfari, m.a. með útsendum sérfræðingum og þátttöku í verkefnum í samstarfi við fjölþjóðastofnanir í óstöðugum ríkjum.

II. Verndun jarðarinnar og sjálfbær nýting náttúruauðlinda.
    Íslensk stjórnvöld stuðli að því að auka viðnámsþrótt samfélaga til að örva hagvöxt á grundvelli jafnaðar og sjálfbærrar auðlindanýtingar auk þess sem gripið verði til aðgerða vegna loftslagsbreytinga. Áhersla verði einkum lögð á nýtingu jarðhita og endurnýjanlega orku, sjálfbæra nýtingu auðlinda hafs, vatna og lands, endurheimt vistkerfa og ráðstafanir til að auka mótvægisaðgerðir og aðlögunarhæfni samfélaga vegna áhrifa af völdum loftslagsbreytinga.
    Stutt verði við fræðslu og uppbyggingu þróunarlanda fyrir jarðhitanýtingu þar sem þess er kostur. Í samstarfi við fjölþjóðastofnanir beiti íslensk stjórnvöld sér fyrir auknum fjárfestingum til jarðhitanýtingar og vinni að því að auka þekkingu og færni á sviði jarðhitamála með tilliti til sjálfbærrar orkuframleiðslu og annarrar nýtingar. Ísland styðji jafnframt við verkefni á sviði annarra endurnýjanlegra orkugjafa og leggi áherslu á þau tækifæri sem auka aðgengi kvenna að rafmagni frá slíkum orkugjöfum, t.d. til eldunar og annarra starfa. Í alþjóðlegum viðskiptasamningaviðræðum, sem Ísland kemur að, er gert ráð fyrir að Ísland styðji viðkomandi ríki á sviði jarðhita og fiskimála eftir því sem við á.
    Íslensk stjórnvöld stuðli að bættri afkomu og viðnámsþrótti í fátækum samfélögum sem byggja afkomu sína á sjávarútvegi með því að styðja við uppbyggingu á þekkingu og færni í fiskveiðum og fiskverkun. Áhersla verði lögð á að veita konum ekki síður en körlum tækifæri til tekjuöflunar og þátttöku í virðiskeðjunni með heilnæmari vinnsluaðferðum og horft verði til aukinna gæða og virðisauka afurða. Þá verði skoðað hvernig Ísland geti lagt sitt af mörkum varðandi aðgerðir gegn plastmengun í hafi.
    Veitt verði aðstoð til að takmarka landhnignun og endurheimta vistkerfi sem hafa raskast. Slíkar aðgerðir stuðli m.a. að auknu fæðuframboði, bættri vatnsmiðlun og aukinni kolefnisupptöku í jarðvegi og gróðri. Þannig verði dregið úr skaðlegum áhrifum loftslagsbreytinga. Sérstök áhersla verði lögð á uppbyggingu þekkingar og færni á sviði sjálfbærrar landnýtingar og landgræðsluvistfræði.
    Stjórnvöld taki þátt í alþjóðasamstarfi um loftslagsmál í samræmi við ákvæði Parísarsamkomulagsins frá árinu 2015 auk þess sem rík áhersla verði lögð á þátttöku kvenna og jafnréttissjónarmið í loftslagstengdum verkefnum. Unnið verði að mótvægisaðgerðum og dregið úr skaðsemi af völdum loftslagsbreytinga.
    Með stuðningi sínum leitist íslensk stjórnvöld við að skapa efnahagsleg tækifæri og mannsæmandi störf í samstarfslöndum, en sjálfbær atvinnusköpun er forsenda þess að útrýma fátækt.

III. Þverlæg málefni.
    Mannréttindi, kynjajafnrétti og umhverfismál eru skilgreind sem sértæk og þverlæg áhersluatriði. Þau skuli höfð að leiðarljósi í öllu starfi íslenskra stjórnvalda sem lúta að þróunarsamvinnu eins og í öðru alþjóðasamstarfi. Þess verði jafnframt gætt að í vöktun og úttektum á verkefnum fái mannréttindi og jafnréttis- og umhverfismál vandaða umfjöllun.
    Nálgun íslenskra stjórnvalda í allri þróunarsamvinnu byggist á mannréttindum með vísun í alþjóðleg viðmið í mannréttindamálum. Greiningar miði að því að skýra þá mismunun sem liggur til grundvallar vandamálum þróunarríkja og inngrip miðist við að leiðrétta mismunun og valdaójafnvægi sem hamlar þróun. Jafnrétti kynjanna, sem grundvallast á mannréttindum, verði áfram forgangsmál í þróunarsamvinnu á vegum Íslands og sérstakt markmið sem byggist jafnframt á því að jafnrétti kynjanna og valdefling kvenna sé forsenda fyrir framförum og þróun, þ.m.t. efnahagsþróun. Mikilvægt sé að vel verði gætt að kynjasjónarmiðum og hugað að stöðu og réttindum kvenna með áherslu á landsáætlun um framkvæmd ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi. Sérstaklega verði hugað að slíku á átakasvæðum þar sem unnið er að friðaruppbyggingu eða þar sem neyðarástand hefur skapast, t.d. í kjölfar náttúruhamfara.
    Aukin áhersla verði lögð á að vernda jörðina og koma í veg fyrir hnignun hennar. Með hliðsjón af því verði settur slagkraftur í loftslags- og umhverfismál í þróunarsamstarfi Íslands, svo sem með aðgerðum gegn mengun hafsins, og markvisst unnið að því að tengja mótvægis- og aðlögunaraðgerðir við annað þróunarsamstarf.

Framkvæmd.
    Íslensk stjórnvöld beini stuðningi sínum til valinna samstarfslanda og svæðaverkefna, fjölþjóðastofnana og félagasamtaka og verkefna á þeirra vegum. Með aukinn árangur og skilvirkni að leiðarljósi verði lögð áhersla á að auka samlegðaráhrif tvíhliða og fjölþjóðlegrar þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar. Stuðningur íslenskra stjórnvalda byggist á fyrirsjáanlegum en jafnframt sveigjanlegum framlögum svo að bregðast megi skjótt við og beina stuðningi þangað sem þörfin er talin mest og framlögin koma helst að gagni. Eignarhald heimamanna verði enn fremur virt þegar hafist er handa við uppbyggingu í þeim löndum sem fá aðstoð og grundvöllur lagður að áframhaldandi framförum.
    Við val á samstarfsaðilum verði litið til áherslna Íslands í þróunarsamvinnu og miðað við að sem best samsvörun sé á milli þarfa viðtakenda og þess sem Ísland hefur fram að færa.

I. Tvíhliða samstarfs- og áherslulönd og svæðasamstarf.
    Í þróunarsamvinnu Íslands verði sjónum einkum beint að fátækum og óstöðugum ríkjum og áhersla lögð á samvirkni og tengsl mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu. Kveðið er á um að ná til þeirra sem búa við bág kjör, náttúruvá, ógnir af mannavöldum eða hvers kyns mismunun. Mannúð, virðing fyrir mannréttindum og óhlutdrægni liggi til grundvallar öllu starfi og sérstök áhersla verði lögð á berskjaldaða hópa, þar á meðal börn. Ábyrgðarskylda gagnvart viðtakendum skuli höfð að leiðarljósi og stutt skuli við samræmdar og skilvirkar aðgerðir þróunarstofnana, m.a. með markvissum framlögum til fjölþjóðlegra stofnana og félagasamtaka, útsendum sérfræðingum og aukinni samhæfingu og samlegð verkefna í tvíhliða þróunarsamvinnu Íslands til að auka slagkraft stuðningsins.
    Unnið verði samkvæmt fjögurra ára mannréttindamiðuðum samstarfsáætlunum við tvíhliða samstarfslönd Íslands, Malaví og Úganda, og áfram verði lögð áhersla á samstarf við héraðsstjórnir þar.
    Áherslulönd Íslands verði Mósambík, Palestína og Afganistan. Stuðningur við Palestínu takmarkist ekki við landamæri heldur taki einnig til palestínskra flóttamanna í nágrannaríkjunum Jórdaníu, Sýrlandi og Líbanon. Jafnframt verði stuðningi beint til ríkja þar sem áhrifa flóttamannavandans gætir hvað mest.
    Stefnt verði að frekari útfærslu og útvíkkun svæðasamstarfs í samstarfi við fjölþjóðastofnanir og verði þar einkum lögð áhersla á náttúruauðlindir, umhverfismál og kynjajafnréttismál. Áfram verði stutt við jarðhitamál í samstarfi við Alþjóðabankann með áherslu á aukin tækifæri og aðgengi kvenna á sviði endurnýjanlegrar orku. Einnig verði unnið að útfærslu á stuðningi vegna verndunar hafs og sjálfbærrar nýtingar sjávarauðlinda í Vestur-Afríku, m.a. í Síerra Leóne og Líberíu. Ísland taki þátt í verkefnum sem tengjast plastmengun í hafi, auk þess sem stutt verði við þróunarlönd sem eru smá eyríki.
    Fyrrgreint útiloki þó ekki að hafið verði samstarf og sinnt verði verkefnum í þágu annarra ríkja eða að breytingar verði á samstarfi við samstarfs- eða áhersluland, land innan svæðasamstarfs eða aðra aðila varðandi verkefni. Lögð er áhersla á að fram fari greining á nýjum samstarfslöndum, áherslulöndum og svæðasamstarfi og mögulega verði tekið upp samstarf við eitthvert landanna og nýjum verkefnum sinnt á gildistíma stefnunnar.

II. Samstarf við fjölþjóðlegar stofnanir.
    Áhersla verði lögð á störf fjögurra fjölþjóðastofnana: Alþjóðabankans, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF), Stofnunar Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women) og Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA). Enn fremur verði náin samvinna við Landbúnaðar- og matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) og Alþjóðasjóð um þróun landbúnaðar (IFAD) um verndun jarðarinnar og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda. Áfram verði lögð áhersla á að byggja upp færni einstaklinga og styrk stofnana í þróunarríkjum með starfsemi Jafnréttisskólans, Jarðhitaskólans, Landgræðsluskólans og Sjávarútvegsskólans. Leitast verði við að efla samlegðaráhrif skólanna fjögurra og samþætta starf þeirra öðru þróunarsamstarfi Íslands. Stuðningur og samstarf verði við þær stofnanir Sameinuðu þjóðanna sem gegna lykilhlutverki í mannúðaraðstoð og neyðarviðbrögðum, svo sem við Neyðarsjóð Sameinuðu þjóðanna (CERF), samræmingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA), matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR). Því til viðbótar verði haft samstarf við Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (UNRWA), Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO) og alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC). Stutt verði við verkefni á sviði mannréttinda og uppbyggingar sem stuðla að lýðræði, friði og stöðugleika með sérfræðiþekkingu eða fjármagni til fjölþjóðastofnana, eftir atvikum.
    Stuðningur íslenskra stjórnvalda í marghliða þróunarsamvinnu felist áfram í samningsbundnum kjarnaframlögum í samræmi við bestu starfsvenjur, enda geri slík framlög stofnunum kleift að skipuleggja starf sitt í takt við stefnumótun sína og markmið. Einnig verði veittur stuðningur í formi eyrnamerktra framlaga sem séu ýmist bundin skilyrðum um stuðning við ákveðinn málaflokk eða ríki, sem og starfa útsendra sérfræðinga á vettvangi. Fyrrgreint útiloki þó ekki samstarf við aðrar stofnanir.
    Ísland taki virkan þátt í stefnumótun fjölþjóðastofnana, ýmist í gegnum kjördæmastarf, stjórnir eða tvíhliða samstarf. Þar verði talað fyrir þeim gildum sem íslenskt samfélag hefur í heiðri, auk þess sem áhersla verði lögð á skilvirkni og árangur stofnananna. Þeim hópum sem búa við fátækt og skort á réttindum verði gefinn gaumur, til að mynda hinsegin fólki, fötluðu fólki og öðrum hópum sem eiga undir högg að sækja.

III. Aðrir samstarfsaðilar.
    Gagnkvæm ábyrgð og samstarf í þágu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna verði leiðarstefið í samstarfi ólíkra aðila til að ná megi þeim markmiðum sem stefnt er að. Starfað verði með aðilum úr ýmsum áttum, þar á meðal ráðuneytum og stofnunum, háskólum, atvinnulífinu og félagasamtökum. Samstarfsaðilar verði valdir eftir verkefnum, farið verði eftir viðurkenndum starfsreglum og gagnsæi ávallt viðhaft. Mikil áhersla verði einnig lögð á samráð og samstarf og að málefnasvið verði samtvinnuð.

Félagasamtök.
    Áfram verði veitt framlög til verkefna á vegum félagasamtaka á sviði þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar. Unnið verði samkvæmt stefnumiðum og verklagsreglum um samstarf við íslensk félagasamtök og jafnframt horft til þess að styðja félagasamtök á vettvangi í samstarfs- og áherslulöndum. Stuðningur við félagasamtök miði að því að leggja lóð á vogarskálarnar í þágu sjálfstæðs, þróttmikils og fjölbreytilegs borgarasamfélags í þróunarlöndum sem berjist gegn fátækt í hinum ólíku birtingarmyndum hennar. Jafnframt beinist stuðningurinn að því að styrkja borgarasamfélagið til að standa vörð um lýðræði og mannréttindi fátækra og þeirra sem búa við mismunun. Verkefni félagasamtaka skuli, eins og önnur verkefni íslenskra stjórnvalda, hafa mannréttindi, kynjajafnrétti og sjálfbærni að leiðarljósi.

Atvinnulífið.
    Íslenskir aðilar í atvinnulífi og stofnanir verði hvött til samfélagslegrar ábyrgðar og til að styðja við sjálfbæra uppbyggingu í þróunarlöndum í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, t.d. með tekju- og atvinnuskapandi fjárfestingum og verkefnum sem stuðla að aukinni hagsæld og hjálpa fólki að brjótast úr viðjum fátæktar. Einnig verði horft til þess að fjármögnun þróunarverkefna geti leitt til aukinna fjárfestinga annarra ríkja, stofnana eða aðila atvinnulífs. Hvort tveggja sé í samræmi við niðurstöður þriðju ráðstefnunnar um fjármögnun þróunar þar sem kallað var eftir aukinni þátttöku aðila atvinnulífsins í fjármögnun verkefna tengdra sjálfbærri þróun.
    Unnið verði að því að nýta íslenska virðisaukandi sérþekkingu í verkefnum og innan fjölþjóðastofnana, enda búi íslensk fyrirtæki og stofnanir yfir margs konar sérþekkingu sem nýst geti við efnahagsþróun í fátækum ríkjum. Virðing fyrir alþjóðlegum skuldbindingum, m.a. á sviði mannréttinda og umhverfis- og atvinnumála, skuli ævinlega í heiðri höfð í þeim verkefnum sem öðrum.

Kynning og fræðsla.
    Íslensk stjórnvöld leggi áherslu á upplýsingagjöf, kynningu og fræðslu um heimsmarkmiðin og alþjóðlega þróunarsamvinnu. Markmiðið verði að auka skilning á þeim hnattrænu áskorunum sem til staðar eru, auka gagnsæi og skilvirkni og stuðla að aukinni þekkingu meðal almennings um málaflokkinn. Lögð verði áhersla á að nýta nýjar hugmyndir og nálganir við kynningarstarf. Ólíkar leiðir verði nýttar til að ná til almennings, m.a. með gagnvirkum gagnaveitum, samfélagsmiðlum og samstarfi við menntastofnanir, fjölmiðla, félagasamtök, háskólasamfélagið og landsskrifstofur alþjóðastofnana. Árangri af þróunarsamvinnu og mannúðarstarfi verði komið á framfæri við almenning með viðeigandi umfjöllun sem byggist á virðingu fyrir fólki og viðkvæmum hópum.

Skilvirkni og árangur.
    Virk þátttaka á vettvangi þróunarsamvinnunefndar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD/DAC) verði áfram mikilvægur liður í starfi Íslands og tekið verði tillit til jafningjarýni DAC sem reglulega er gerð á þróunarsamvinnu Íslands. Unnið verði markvisst að því að sem bestur árangur náist og settum markmiðum verði náð. Ísland taki virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi um skilvirkni og árangur þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar. Árangurseftirlit með framkvæmd þróunarsamvinnu Íslands taki mið af bestu starfsvenjum og viðmiðum á alþjóðavísu.
    Árangur, skilvirkni og vönduð og fagleg vinnubrögð verði lykilatriði við fjárveitingar til þróunarsamvinnu og gerð verði grein fyrir áhrifum þeirra á stöðu karla og kvenna. Mat og úttektir unnar af utanaðkomandi aðilum verði mikilvægur þáttur í því að meta framkvæmd, skilvirkni og árangur.
    Úttekt verði gerð á framkvæmd þingsályktunar þessarar að gildistíma loknum í því skyni að meta þann árangur sem náðst hefur.

Samþykkt á Alþingi 2. maí 2019.