Ferill 509. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Nr. 29/149.

Þingskjal 1684  —  509. mál.


Þingsályktun

um heilbrigðisstefnu til ársins 2030.


    Alþingi ályktar að leiðarljós heilbrigðisstefnu fram til ársins 2030 verði að almenningur á Íslandi búi við örugga og hagkvæma heilbrigðisþjónustu þar sem aðgengi allra landsmanna sé tryggt.
    Framtíðarsýn fyrir heilbrigðisþjónustuna verði eftirfarandi:
     a.      Íslensk heilbrigðisþjónusta verði á heimsmælikvarða og lýðheilsustarf með áherslu á heilsueflingu og forvarnir verði hluti af allri þjónustu, sérstaklega þjónustu heilsugæslunnar.
     b.      Árangur innan heilbrigðisþjónustunnar verði metinn með því að mæla gæði hennar, öryggi, hversu aðgengileg hún er og hvað hún kostar.
    Til þess að framtíðarsýnin verði að veruleika verði lögð áhersla á eftirfarandi meginviðfangsefni sem styrki grunnstoðir heilbrigðisþjónustunnar:
     1.      Forysta til árangurs.
     2.      Rétt þjónusta á réttum stað.
     3.      Fólkið í forgrunni.
     4.      Virkir notendur.
     5.      Skilvirk þjónustukaup.
     6.      Gæði í fyrirrúmi.
     7.      Hugsað til framtíðar.

1. Forysta til árangurs.
    Til að skýra hlutverk og vinna að bættri stjórnun og samhæfingu í heilbrigðiskerfinu verði stefnumiðin til ársins 2030 eftirfarandi:
     1.      Löggjöf um heilbrigðisþjónustu verði skýr, hún kveði afdráttarlaust á um hlutverk heilbrigðisstofnana og annarra sem veita heilbrigðisþjónustu og hvernig samskiptum þeirra skuli háttað.
     2.      Hlutverk og fjárhagsleg ábyrgð ríkis og sveitarfélaga um veitingu heilbrigðisþjónustu verði vel skilgreind.
     3.      Góð samvinna ríki á milli heilbrigðis- og félagsþjónustu, þar sem hlutverk og ábyrgð þessara aðila hafi verið vel skilgreind.
     4.      Almenn sátt ríki um þær siðferðilegu meginreglur sem liggi til grundvallar forgangsröðun og ákvörðunum í heilbrigðiskerfinu og stöðug umræða verði um siðferðileg leiðarljós.
     5.      Stofnanir heilbrigðisráðuneytisins geri árlega eigin starfsáætlun sem taki mið af heilbrigðisstefnu og aðgerðaáætlunum heilbrigðisráðherra.
     6.      Markmið heilbrigðisþjónustunnar séu öllum ljós og upplýsingar um árangur hennar, samkvæmt skilgreindum gæðaviðmiðum, séu aðgengilegar almenningi.
     7.      Ábyrgð og valdsvið stjórnenda stofnana sem heyra undir heilbrigðisráðuneytið eða sinna verkefnum í umboði þess fari saman og séu vel skilgreind.
     8.      Stjórnendur á öllum sviðum heilbrigðiskerfisins séu valdir út frá faglegri hæfni þar sem m.a. séu gerðar kröfur um leiðtogahæfileika og reynslu í stefnumiðuðum stjórnarháttum. Þeim sé veittur reglubundinn stuðningur og þjálfun á þessum sviðum.
     9.      Forstjórar heilbrigðisstofnana á landinu séu umdæmisstjórar heilbrigðismála innan síns umdæmis og hafi með sér reglulegt samráð um heilbrigðisþjónustu undir forystu heilbrigðisráðuneytisins.
     10.      Hlutverk og ábyrgðarsvið Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri gagnvart öðrum veitendum heilbrigðisþjónustu séu vel skilgreind og leggi traustan grundvöll undir samhæfingu þjónustunnar.

2. Rétt þjónusta á réttum stað.
    Til að skapa heildrænt kerfi sem tryggi samfellda þjónustu við notendur á réttu þjónustustigi hverju sinni og gæti að hagkvæmni og jafnræði við veitingu heilbrigðisþjónustu verði stefnumið til ársins 2030 eftirfarandi:
     1.      Allir landsmenn hafi aðgang að skýrum upplýsingum um hvernig og hvert skuli leitað eftir heilbrigðisþjónustu.
     2.      Heilbrigðisþjónustan verði skilgreind sem fyrsta stigs þjónusta (heilsugæslan), annars stigs þjónusta (sérfræðiþjónusta utan háskólasjúkrahúss) og þriðja stigs þjónusta (þjónusta veitt á háskólasjúkrahúsi eða í nánu samstarfi við það).
     3.      Hlutverk þjónustuveitenda verði skilgreint og þjónustustýring tryggi að sjúklingar fái þjónustu á réttu þjónustustigi.
     4.      Heilsugæslan verði fyrsti viðkomustaður notenda þegar þeir þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda. Heilsugæslan hafi yfir að ráða starfsfólki sem hefur víðtæka þekkingu. Starf heilsugæslunnar einkennist af þverfaglegri teymisvinnu þar sem unnið verði að stöðugum umbótum í nánu samstarfi við félagsþjónustuna með hagsmuni notenda í forgrunni.
     5.      Heilsugæslan taki virkan þátt í heilsueflingu og bjóði upp á ráðgjöf um heilbrigðan lífsstíl fyrir einstaklinga og hópa.
     6.      Umfang annars stigs þjónustu utan sjúkrahúsa verði á hverjum tíma ákveðið í samningum við Sjúkratryggingar Íslands í samræmi við þarfir þeirra sem þurfa á þjónustu að halda.
     7.      Aðgengi að heilsugæslu og þjónustu sérfræðinga á landsbyggðinni verði bætt með fjarheilbrigðisþjónustu og vel skipulögðum sjúkraflutningum.
     8.      Biðtími eftir heilbrigðisþjónustu byggist á faglegu mati og verði innan þeirra marka sem kveðið verði á um í samningum við þjónustuveitendur.
     9.      Byggingarframkvæmdum Landspítalans við Hringbraut og við Sjúkrahúsið á Akureyri verði lokið með góðri aðstöðu til að veita bráða og valkvæða heilbrigðisþjónustu og öfluga þjónustu á dag- og göngudeildum.
     10.      Hlutverk Landspítala sem háskólasjúkrahúss hafi verið styrkt og þar verði veitt hátækniþjónusta og einnig þriðja stigs þjónusta sem ekki sé hægt að veita annars staðar á landinu.
     11.      Hlutverk Sjúkrahússins á Akureyri sem kennslusjúkrahúss og veitanda annars og þriðja stigs þjónustu fyrir tilgreindar heilbrigðisstofnanir verði skilgreint og styrkt.
     12.      Sjúkratryggingar Íslands og Landspítali hafi skipulagt samstarf við háskólasjúkrahús annars staðar á Norðurlöndunum um hátækniþjónustu sem ekki er unnt að veita hér á landi.
     13.      Sjúkrarúm á sjúkrahúsum nýtist þeim sjúklingum sem þurfa á meðferð á því þjónustustigi að halda og unnt er að útskrifa án tafa að meðferð lokinni.

3. Fólkið í forgrunni.
    Til að tryggja mönnun heilbrigðisþjónustunnar til lengri tíma og bæta starfsumhverfi starfsfólks verði stefnumið málaflokksins til ársins 2030 eftirfarandi:
     1.      Mannaflaþörf heilbrigðiskerfisins hafi verið greind og viðeigandi ráðstafanir gerðar af hálfu ríkisvaldsins til að tryggja mönnun þjónustunnar.
     2.      Mönnun heilbrigðisstofnana verði sambærileg við það sem best gerist erlendis, samræmist umfangi starfseminnar og tryggi gæði og öryggi hennar.
     3.      Yfirmenn heilbrigðisstofnana hafi skýra ábyrgð, aðstæður og getu til að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til þess að manna starfsstöðvar sínar.
     4.      Heilbrigðisstofnanir verði eftirsóttir vinnustaðir og þekktir fyrir gott starfsumhverfi og góð samskipti.
     5.      Starfsfólk búi við starfsumhverfi þar sem unnið verði að stöðugum umbótum og þróun þekkingar.
     6.      Vinnutími og vaktabyrði starfsfólks verði í samræmi við bestu gagnreyndu þekkingu, lög og kjarasamninga.
     7.      Skýrar reglur gildi um aukastörf heilbrigðisstarfsfólks.
     8.      Samstarf verði milli stofnana og teymisvinna og þverfagleg heildræn nálgun einkenni vinnubrögð heilbrigðisstarfsfólks með það fyrir augum að tryggja gæði og samfellu í þjónustunni.
     9.      Í gildi verði langtímasamningar við erlend háskólasjúkrahús sem feli í sér möguleika til vísindasamstarfs, menntunar og sameiginlegrar þróunar heilbrigðisþjónustu.

4. Virkir notendur.
    Til að stuðla að virkri og ábyrgri þátttöku notenda heilbrigðisþjónustu verði stefnumið málaflokksins til ársins 2030 eftirfarandi:
     1.      Landsmenn hafi góðan aðgang að upplýsingum og þekkingu til að taka upplýstar ákvarðanir um val á heilbrigðisþjónustu, t.d. um rafræna notendagátt eins og Heilsuveru.
     2.      Sérhver notandi heilbrigðisþjónustunnar hafi eina samræmda sjúkraskrá sem verði aðgengileg viðeigandi heilbrigðisstarfsmönnum í samræmi við óskir hans.
     3.      Landsmenn hafi ótakmarkaðan aðgang að eigin sjúkraskrá í gegnum Heilsuveru sem er m.a. vefur fyrir almenning um heilsu og áhrifaþætti hennar.
     4.      Allir notendur heilbrigðisþjónustunnar geti hvenær sem er séð stöðu sína í greiðsluþátttökukerfinu.
     5.      Allir hafi aðgang að hagnýtum og gagnreyndum heilbrigðisupplýsingum sem auðveldi þeim að stunda heilbrigðan lífsstíl og halda heilsu.
     6.      Landsmenn hafi tæknilega möguleika á heimili sínu til þess að komast í samband við heilbrigðisþjónustu óháð búsetu.
     7.      Reglulegar þjónustukannanir verði gerðar þar sem sjónarmið notenda verði notuð til þess bæta þjónustuna.
     8.      Veitendur heilbrigðisþjónustu hafi skilning á þörfum og markmiðum þeirra einstaklinga sem til þeirra leita og einbeiti sér að því að veita þjónustu sem mæti þessum þörfum og markmiðum.

5. Skilvirk þjónustukaup.
    Til að stuðla að hagkvæmum og öruggum kaupum á heilbrigðisþjónustu í samræmi við stefnu stjórnvalda og þarfir notenda verði stefnumið málaflokksins til ársins 2030 eftirfarandi:
     1.      Sjúkratryggingar Íslands annist alla samningagerð um kaup á heilbrigðisþjónustu fyrir hönd ríkisins, hvort sem um er að ræða þjónustu opinberra aðila eða einkaaðila.
     2.      Kaup á heilbrigðisþjónustu byggist á þarfagreiningu og miðist við þarfir íbúanna í landinu.
     3.      Ef forgangsröðun er nauðsynleg verði sjúklingar með mesta þörf settir í forgang.
     4.      Við kaup á heilbrigðisþjónustu verði ávallt gerðar nauðsynlegar kröfur um aðgengi, gæði þjónustunnar og öryggi sjúklinga.
     5.      Þjónustutengt fjármögnunarkerfi sem byggist á alþjóðlegu flokkunarkerfi (e. Diagnosis Related Groups; DRG) hafi verið innleitt við kaup á allri sjúkrahúsþjónustu og sambærilegri þjónustu sem veitt er í einkarekstri utan sjúkrahúsa.
     6.      Fjármögnunarkerfi heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu hafi verið þróað og innleitt við fjármögnun á heilsugæslu um land allt.
     7.      Fjármögnunarkerfi heilbrigðisþjónustu hvetji til aukinna gæða, betri heilsu notenda, góðs aðgengis að þjónustu og stemmt verði stigu við kostnaði.
     8.      Kostnaður við skimanir og leit að ónæmum bakteríum og veirusjúkdómum í áhættuhópum verði greiddur úr sameiginlegum sjóðum.
     9.      Greiðsluþátttaka sjúklinga fyrir lyf og læknisþjónustu jafnist á við það sem er lægst í nágrannalöndunum og viðkvæmir hópar fái gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu.

6. Gæði í fyrirrúmi.
    Til að tryggja gæði og öryggi heilbrigðisþjónustunnar verði stefnumið til ársins 2030 eftirfarandi:
     1.      Íslendingar verði meðal fremstu þjóða í því að birta niðurstöður um tilætlaðan árangur í heilbrigðiskerfinu.
     2.      Gögn um árangur einstakra þátta í heilbrigðisþjónustunni verði samanburðarhæf milli landsvæða og við árangur annarra þjóða. Samanburður verði gerður reglulega.
     3.      Gerðar verði skýrar kröfur í samningum við þjónustuveitendur um gæðavísa og hvaða árangri skuli náð.
     4.      Greiðslur til þjónustuveitenda taki tillit til niðurstöðu gæðavísa.
     5.      Skil þjónustuveitenda á árlegu gæðauppgjöri sem sýni niðurstöður umsaminna gæðavísa verði forsenda þess að fullar greiðslur fyrir veitta þjónustu séu inntar af hendi.
     6.      Þjónustukannanir verði gerðar reglulega og niðurstöður þeirra notaðar í umbótastarf.
     7.      Gæðaáætlun embættis landlæknis verði að fullu komin til framkvæmda.

7. Hugsað til framtíðar.
    Til að tryggja að menntun, vísindi og nýsköpun stuðli að áframhaldandi þróun heilbrigðisþjónustunnar verði stefnumið til ársins 2030 eftirfarandi:
     1.      Hlutverk heilbrigðiskerfisins verði, auk þess að veita heilbrigðisþjónustu, að mennta starfsfólk og stunda vísindastarfsemi. Hver þáttur heilbrigðiskerfisins verði kostnaðargreindur og fjármagnaður með gagnsæjum hætti.
     2.      Starfsfólk á opinberum heilbrigðisstofnunum eigi kost á því að starfa við vísindarannsóknir eða gæðaverkefni í tiltekinn tíma á ári.
     3.      Ætlast verði til þess að heilbrigðisstarfsfólk sem vinni á háskólasjúkrahúsinu sinni kennslu og vísindum jafnframt því að sinna klínískri vinnu.
     4.      Heilbrigðisvísindasjóður verði stofnaður og veiti styrki til vísindarannsókna á sviði heilbrigðisvísinda.
     5.      Gagnagrunnar og lífsýnasöfn innan heilbrigðiskerfisins verði opin og aðgengileg vísindamönnum sem hafi tilskilin leyfi til vísindarannsókna.
     6.      Grunnmenntun heilbrigðisstarfsfólks hafi verið aðlöguð íslenskum aðstæðum með það fyrir augum að tryggja mönnun heilbrigðisþjónustunnar.
     7.      Samningar hafi verið gerðir við önnur ríki um framhaldsmenntun lækna.
     8.      Framhaldsmenntun heilbrigðisstétta uppfylli ströngustu alþjóðlegar kröfur.
     9.      Formlegt samstarf verði við aðrar Norðurlandaþjóðir um mat á nýrri tækni og nýjum aðferðum.
     10.      Formlegt mat á gagnreyndu notagildi verði forsenda fyrir innleiðingu nýrrar tækni, nýrra lyfja og nýrra aðferða í heilbrigðisþjónustunni.

8. Stefnan í framkvæmd.
    Til að hrinda heilbrigðisstefnu til ársins 2030 í framkvæmd verði gerðar áætlanir um aðgerðir til fimm ára í senn. Slíkar áætlanir verði uppfærðar árlega meðan heilbrigðisstefnan er í gildi. Heilbrigðisráðherra leggi árlega fram aðgerðaáætlanir heilbrigðisstefnunnar til umræðu á Alþingi.

Samþykkt á Alþingi 3. júní 2019.