Ferill 404. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Nr. 32/149.

Þingskjal 1688  —  404. mál.


Þingsályktun

um stefnu í fjarskiptum fyrir árin 2019–2033.


    Alþingi ályktar, sbr. lög um fjarskipti, nr. 81/2003, með síðari breytingum, að fram til ársins 2033 skuli unnið að fjarskiptamálum í samræmi við stefnu þessa, sbr. málaflokk 11.2, um fjarskipti, póstmál, netöryggismál og málefni Þjóðskrár Íslands.
    Lögð verði áhersla á að:
     a.      ná fram víðtæku samstarfi markaðarins, neytenda, opinberra stofnana og ráðuneyta um stefnumótun sem varðar fjarskipti og skyld svið,
     b.      styrkja samkeppni á fjarskiptamarkaði og auka samkeppnishæfni Íslands,
     c.      tryggja öryggi almennra fjarskiptaneta innan lands og tengingar Íslands við umheiminn,
     d.      ná fram hagkvæmri notkun fjármagns og hámarka jákvæð áhrif fjarskiptatækni á hagvöxt,
     e.      ná fram samræmdri forgangsröðun og stefnumótun og skal forgangsröðun byggjast á mati á þörf fyrir úrbætur á landinu í heild og í einstökum byggðum,
     f.      stuðla að atvinnuuppbyggingu, eflingu lífsgæða og jákvæðri byggðaþróun.
    Í fjarskiptaáætlun verði jafnframt mörkuð aðgerðaáætlun til næstu fimm ára. Í aðgerðaáætlun verði gerð grein fyrir fjáröflun og útgjöldum eftir einstökum verkefnum eins og við á. Áætlun þessi taki mið af og verða hluti af heildstæðri samþættri stefnu í samgöngumálum, fjarskiptamálum, byggðamálum og málefnum sveitarfélaga og gerð í samræmi við samþykktar áætlanir Alþingis og ríkisstjórnar.

1. FRAMTÍÐARSÝN OG MEGINMARKMIÐ
    Ísland verði í fremstu röð með trausta og örugga innviði, öflug sveitarfélög, verðmætasköpun og framsækna þjónustu. Tækni tengi saman byggðir landsins og Ísland við umheiminn með umhverfissjónarmið í huga.

Meginmarkmið áætlana í samgöngu- og sveitarstjórnarmálum eru:
     1.      Þjónusta samgöngu- og fjarskiptakerfa mæti þörfum samfélagsins.
     2.      Sjálfbærar byggðir um land allt.
    Tillögur í þingsályktun þessari byggjast á framangreindum meginmarkmiðum.

2. MARKMIÐ OG ÁHERSLUR
2.1. Markmið um aðgengileg og greið fjarskipti.
    Stefnt verði að því að fjarskiptakerfi landsins, póstþjónusta og þjónusta Þjóðskrár Íslands myndi samþætta heild til hagsbóta fyrir einstaklinga og atvinnulíf. Grunnnet fjarskipta verði byggt upp með hliðsjón meðal annars af aðgengi og öryggi, tengingu milli byggða og tengingu Íslands við umheiminn. Uppbygging og rekstur fjarskipta stuðli að eflingu búsetugæða og atvinnulífs innan og milli byggða.

Áherslur til að ná þessum markmiðum:
Ljósleiðarastofn- og aðgangsnet:
2.1.1    Aðgengi lögheimila og atvinnuhúsnæðis að ljósleiðara verði 99,9%.
2.1.2    Þrír virkir sæstrengir tengi landið við Evrópu frá mismunandi landtökustöðum.
2.1.3    Við styrkta lagningu ljósleiðarakerfa verði hugað sérstaklega að stofnleiðum, radíófjarskiptastöðvum og samtengingu kerfa.

Farnet, 5G:
2.1.4    Íslendingar verði meðal forystuþjóða í hagnýtingu fimmtu kynslóðar farneta, 5G.
2.1.5    Farnetssamband verði tryggt, meðal annars í þéttbýli, á þjóðvegum og fjölsóttum ferðamannastöðum og við strendur landsins.

2.2. Markmið um örugg fjarskipti.
    Stefnt verði að því að tryggja öryggi mikilvægra fjarskiptainnviða á viðunandi hátt á hverjum tíma. Á netinu verði í heiðri höfð mannréttindi, persónuvernd ásamt frelsi til athafna, efnahagslegs ávinnings og framþróunar. Örugg fjarskipti og upplýsingatækni verði ein meginstoð hagsældar á Íslandi, studd af öflugri öryggismenningu og traustri löggjöf. Jafnframt verði samfélagið vel búið til að greina og bregðast við netógnum og taka á netglæpum, árásum, njósnum og misnotkun persónu- og viðskiptaupplýsinga.

Áherslur til að ná þessum markmiðum:
2.2.1    Komið verði á skilvirkri stjórnskipun varðandi netöryggismál innan stjórnkerfisins og skipulagi er tryggi nauðsynlega samvinnu á milli mismunandi geira samfélagsins.
2.2.2    Áhættustýring netöryggis byggist á verklagi um áhættugreiningu og samhæfðu verklagi við mótun á öryggisstefnum og viðbragðsáætlunum.
2.2.3    Geta til að bregðast við netatvikum og netvá verði efld, meðal annars með bættri tæknilegri getu, viðeigandi viðbragðsáætlunum, prófunum, skilvirkri miðlun nauðsynlegra netöryggisupplýsinga og viðbúnaðaræfingum.
2.2.4    Komið verði á skipulagi á vernd mikilvægra innviða og þjónustu byggðu á áhættustýringu og stjórnskipulagi með skýrri skiptingu ábyrgðar og viðeigandi lágmarksviðmið netöryggis verði skilgreind.
2.2.5    Áhersla verði lögð á vitundarvakningu, hæfni og getu með því að stuðla að því að viðeigandi nám í netöryggisfræðum verði í boði fyrir mismunandi hópa og hvati verði til þess að stunda slíkt nám, hvort sem um einföld afmörkuð námskeið er að ræða eða heildstætt nám á háskólastigi. Þessu verði jafnframt fylgt eftir með samhæfðri vitundarvakningu og stuðningi við nýsköpun, þróun og rannsóknir á sviði netöryggis.
2.2.6    Löggjöf verði endurskoðuð til að efla vernd gegn netglæpum, þannig að réttindi og frelsi einstaklinga séu virt og stutt sé við alþjóðlegt starf á þessu sviði. Við þessa endurskoðun verði tekið mið af útfærslu nágrannaríkja og alþjóðlegum skuldbindingum.
2.2.7    Netöryggi byggist á öflugri alþjóðlegri samvinnu og verði einn meginþátta utanríkisstefnu, með góðri samhæfingu á milli innlends starfs og hins alþjóðlega.
2.2.8    Netöryggi almennings, stofnana og almennra fyrirtækja verði eflt í samstarfi við hagsmuna- og markaðsaðila.

Landslénið .is:
2.2.9    Landsléninu .is verði tryggt nauðsynlegt lagaumhverfi.

2.3. Markmið um hagkvæm og skilvirk fjarskipti.
    Stefnt verði að því að auka hagkvæmni í fjarskiptum fyrir notendur og samfélagið. Staðið verði að framkvæmdum, viðhaldi og þjónustu með skilvirkum hætti og fjármunir nýttir með eins hagkvæmum hætti og unnt er, að teknu tilliti til samkeppnissjónarmiða.

Áherslur til að ná þessum markmiðum:
Fjarskipti:
2.3.1    Stjórnvöld hafi skjalfestar upplýsingar um alla fjarskiptainnviði.
2.3.2    Innviðir, þ.m.t. fjarskiptanet, styðji við nýtingu upplýsingatækni meðal annars við umferðarstjórnun, miðlun upplýsinga um aðstæður, innheimtu notenda- og veggjalda, samskipti milli ökutækja og við innviði.
2.3.3    Fjarskiptatækni verði nýtt í auknum mæli til að miðla upplýsingum til notenda um leiðir og aðstæður í lofti, á láði og legi.
2.3.4     Samkeppni í gagnaflutningsþjónustu við útlönd verði efld.
2.3.5    Stuðlað verði að aukinni og hagkvæmri samnýtingu veituframkvæmda við uppbyggingu fjarskiptainnviða.
2.3.6    Horft verði til nýtingar fjarskiptainnviða í opinberri eigu til að efla öryggi og eftir atvikum samkeppni.
2.3.7    Uppfærsla regluverks á fjarskiptamarkaði stuðli að framförum, fjárfestingum, samkeppni, hagkvæmni, samnýtingu og neytendavernd.
2.3.8    Verð á fjarskiptaþjónustu sé sambærilegt við það sem best gerist hjá helstu samanburðarlöndum.
2.3.9    Stjórnvöld og aðrir hagsmunaaðilar skilgreini hlutverk sitt eins og kostur er í þróun 5G-farneta og nauðsynlegra stuðningsaðgerða.
2.3.10    Stuðlað verði að opnu neti með því að beita regluverki um nethlutleysi.
2.3.11    Við forgangsröðun fjarskiptaverkefna verði jafnréttissjónarmið meðal annars höfð til hliðsjónar.

Málefni Þjóðskrár Íslands:
2.3.12    Rafræn samskipti verði fyrsti kostur í samskiptum Þjóðskrár Íslands við einstaklinga og lögaðila.
2.3.13    Gögn innan stjórnsýslunnar verði samnýtt á öruggan hátt og þvert á stofnanir.
2.3.14    Almenningur og fyrirtæki hafi greiðan aðgang að upplýsingum um sig og sína hagi hjá opinberum aðilum.

Póstur:
2.3.15    Einkaréttur í póstþjónustu verði afnuminn og regluverk endurskoðað.
2.3.16    Alþjónusta í pósti verði tryggð með fyrirsjáanlegum og ásættanlegum tilkostnaði að teknu tilliti til þess að öll heimili og fyrirtæki njóti skilgreindrar lágmarksþjónustu.

2.4. Markmið um umhverfisvæn fjarskipti.
    Stefnt verði að því að draga úr hnattrænum, svæðisbundnum og staðbundnum umhverfisáhrifum fjarskipta, pósts og þjónustu Þjóðskrár Íslands. Að öðru leyti er vísað í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum.

Áherslur til að ná þessum markmiðum:
Fjarskipti:
2.4.1    Nýting fjarskipta hafi jákvæð áhrif á umhverfið.
2.4.2    Gott skipulag greiði fyrir uppbyggingu fjarskiptainnviða um leið og gætt verði að umhverfisáhrifum.
2.4.3    Stjórnvöld birti gögn um fjarskiptainnviði til að auðvelda og stuðla að hagkvæmri nýtingu fyrirliggjandi innviða, að teknu tilliti til öryggissjónarmiða.

Málefni Þjóðskrár Íslands:
2.4.4    Rafræn þjónusta Þjóðskrár Íslands stuðli að fækkun ferða og bréfasendinga.

Póstur:
2.4.5     Leitað verði umhverfisvænna leiða við póstþjónustu.

Samþykkt á Alþingi 3. júní 2019.