Ferill 774. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1734  —  774. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um frystingu fjármuna og skráningu aðila á lista yfir  þvingunaraðgerðir í tengslum við fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu gereyðingarvopna.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Gaut Sturluson frá utanríkisráðuneyti, Áslaugu Jósepsdóttur frá dómsmálaráðuneyti, Helgu Rut Eysteinsdóttur frá Fjármálaeftirlitinu, Jón Gunnar Ásbjörnsson frá Lögmannafélagi Íslands og Hörð Helga Helgason lögmann.
    Nefndinni bárust umsagnir frá laganefnd Lögmannafélags Íslands og Persónuvernd. Þá barst nefndinni minnisblað frá utanríkisráðuneytinu.
    Frumvarpinu er ætlað að hindra fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu og fjármögnun gereyðingarvopna í samræmi við þær þjóðréttarlegu skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist. Í frumvarpinu er mælt fyrir um frystingu fjármuna í samræmi við tilteknar þvingunaraðgerðir sem ákveðnar eru af öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, af alþjóðastofnunum eða af ríkjahópum til að viðhalda friði og öryggi og tryggja virðingu fyrir mannréttindum og mannfrelsi í samræmi við ákvæði laga um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða, nr. 93/2008.
    Tilefni frumvarpsins er úttekt sem gerð var af alþjóðlega fjármálaaðgerðahópnum Financial Action Task Force (FATF) á vörnum Íslands gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sem lauk með útgáfu skýrslu í apríl árið 2018. Í kjölfarið skipaði dómsmálaráðherra stýrihóp í samræmi við 39. gr. laga nr. 148/2018, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Stýrihópurinn hefur m.a. það hlutverk að stuðla að samræmdum aðgerðum stjórnvalda í málaflokknum og tryggja eftirfylgni og úrbætur vegna athugasemda FATF. Í stýrihópnum eiga sæti fulltrúar allra helstu stjórnvalda sem koma að málaflokknum. Þegar hefur verið brugðist við athugasemdum FATF með margvíslegum hætti, m.a. með setningu nýrra heildarlaga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Frumvarpið er mikilvægur liður í því markmiði að tryggja að bætt verði að fullu úr þeim ágöllum sem FATF taldi til. Bregðist íslensk stjórnvöld ekki nægjanlega við athugasemdum FATF getur það haft í för með sér að Ísland verði sett á lista yfir áhættusöm ríki sem haft getur alvarleg áhrif á fjármálakerfið, m.a. í formi lægra lánshæfismats, hærri vaxta og óhagstæðari lánakjara.
    Nefndin telur mikilvægt að brugðist sé við athugasemdum FATF á viðeigandi hátt og fagnar því að frumvarpið hafi verið samið í samstarfi allra helstu framkvæmdaaðila á þessu sviði. Þá gerir nefndin sér grein fyrir mikilvægi þess að tryggja skilvirka framkvæmd innan samstarfsríkja FATF svo unnt sé að bregðast með samræmdum og viðeigandi hætti við fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu gereyðingarvopna.
    Í ljósi þeirra álitaefna sem uppi voru um meðferð persónuupplýsinga og lögfræðilegra álitaefna óskaði nefndin eftir umsögnum frá Persónuvernd og Lögmannafélagi Íslands. Í umsögn Persónuverndar kom fram að reglur frumvarpsins myndu hafa í för með sér vinnslu persónuupplýsinga en að meðalhófs væri gætt að þessu leyti í frumvarpinu. Persónuvernd taldi því ekki tilefni til athugasemda við frumvarpið.
    Í umsögn laganefndar Lögmannafélags Íslands kom fram að tilefni væri til að bæta við frumvarpið skilgreiningu á hugtakinu „listi yfir þvingunaraðgerðir“ sem auka myndi skýrleika frumvarpsins. Nefndin tekur undir þetta sjónarmið og leggur til breytingartillögu þess efnis. Laganefndin taldi jafnframt að betur færi á að vísa beint til laga nr. 93/2008, um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða, í 1. mgr. 4. gr. frumvarpsins sem nefndin tekur undir. Þá var í umsögninni bent á að í ljósi þess hve íþyngjandi ákvæði 1. mgr. 8. gr. væri teldi laganefndin æskilegt að skilyrði fyrir skráningu á lista yfir þvingunaraðgerðir kæmu skýrar fram í ákvæðinu sjálfu. Í minnisblaði utanríkisráðuneytisins kom fram að um skilyrði til skráningar væri fjallað í 9.–11. gr. frumvarpsins. Nefndin tekur undir að æskilegra sé að vísa beint til þeirra ákvæða í 8. gr. og leggur því til breytingar þess efnis. Utanríkisráðuneytið lagði jafnframt til í minnisblaði sínu breytingu á fyrirsögn 8. gr. í ljósi þess að ákvæðið kveður á um rannsóknir vegna tilnefningar á lista yfir þvingunaraðgerðir sem er nauðsynlegur undanfari þess að aðili sé skráður á slíkan lista. Nefndin fellst á að slík breyting auki skýrleika ákvæðisins enn frekar.
    Í umsögn sinni beindi laganefnd Lögmannafélags Íslands því til nefndarinnar að athugað yrði hvort það stæðist lagaáskilnaðarreglur stjórnarskrárinnar að fyrirmæli ályktunar um íþyngjandi þvingunaraðgerðir verði innleidd með reglugerð. Í minnisblaði ráðuneytisins kom fram að þetta atriði hefði ekki verið tekið til sérstakrar skoðunar við vinnslu frumvarpsins. Aftur á móti væri regluverk um innleiðingu alþjóðlegra þvingunaraðgerða að finna í lögum nr. 93/2008, og var áður í lögum nr. 5/1969, um framkvæmd fyrirmæla öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, þar sem kveðið er á um að fyrirmæli öryggisráðsins séu framkvæmd með auglýsingu. Fram kom að núverandi fyrirkomulag byggðist í grunninn á því að hægt væri að framkvæma aðgerðirnar á sem skemmstum tíma og á samræmdan hátt milli landa. Þá er í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 93/2008 tiltekið að „farið hefur fram mikið starf á vegum alþjóðastofnana, ríkja og samtaka í að styrkja beitingu þvingunaraðgerða. Úr þessu starfi hafa komið tilmæli um að ríki noti stjórnvaldsfyrirmæli við framkvæmd á þvingunaraðgerðum þar sem of tímafrekt sé að setja ný lög um hverja ályktun alþjóðasamfélagsins um þvingunaraðgerð. Þessi aðferð er í samræmi við framkvæmd á meðal annarra norrænna ríkja en þau innleiða öll ályktanir um þvingunaraðgerðir með slíkum hætti.“ Í ljósi þessa telur nefndin ekki þörf á frekari athugun hvað þetta varðar.
    Að tillögu ráðuneytisins leggur nefndin til þá breytingu á 2. mgr. 7. gr. frumvarpsins að í stað þess að aðeins þeim tilkynningarskyldum aðilum sem tilteknir eru í i–n-lið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 140/2018, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, verði gert skylt að innleiða ferla og aðferðir til að meta hvort viðskiptamenn þeirra séu á listum yfir þvingunaraðgerðir, nái sú krafa til allra tilkynningarskyldra aðila sem er ekki skylt að hafa kerfi skv. 1. mgr. 7. gr.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Smári McCarthy skrifar undir álit þetta með fyrirvara sem hann hyggst gera grein fyrir í ræðu. Gunnar Bragi Sveinsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 6. júní 2019.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir,
form.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir,
frsm.
Ari Trausti Guðmundsson.
Bryndís Haraldsdóttir. Jón Steindór Valdimarsson. Logi Einarsson.
Silja Dögg Gunnarsdóttir. Smári McCarthy,
með fyrirvara.