Ferill 146. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 308  —  146. mál.
Síðari umræða.Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu viðbótarsamnings við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Lýðveldisins Norður-Makedóníu.

Frá meiri hluta utanríkismálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Önnu Jóhannsdóttur, Ólöfu Hrefnu Kristjánsdóttur og Ágúst Má Ágústsson frá utanríkisráðuneyti.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á viðbótarsamningi við Norður-Atlantshafssamninginn frá 4. apríl 1949 um aðild Lýðveldisins Norður-Makedóníu sem gerður var í Brussel 6. febrúar 2019.
    Samkvæmt ákvæðum samningsins öðlast hann gildi þegar allir aðilar Norður-Atlantshafssamningsins hafa tilkynnt ríkisstjórn Bandaríkjanna, vörsluaðila samningsins, um staðfestingu sína á honum. Í kjölfarið mun framkvæmdastjóri NATO bjóða ríkisstjórn Norður-Makedóníu að gerast aðili að Norður-Atlantshafssamningnum.
    Lýðveldið Norður-Makedónía gerðist sjálfstætt undir nafninu Makedónía 8. september 1991 en var áður hluti Júgóslavíu. Vegna andstöðu Grikkja við nafn ríkisins og höfnun viðurkenningar heitisins bauð Atlantshafsbandalagið ríkinu aðild að Friðarsamstarfinu árið 1995 undir heitinu Fyrrum Júgóslavíulýðveldið Makedónía (FYROM) og hefur það starfað með bandalaginu undir því heiti allar götur síðan. Ríkinu var boðið til undirbúningsviðræðna um hugsanlegt aðildarferli og umbætur árið 1999 þar sem fyrir lá að leysa yrði ágreining um nafn landsins áður en til aðildar kæmi.
    Í kjölfar samkomulags stjórnvalda í Aþenu og Skopje samþykktu utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins í júlí 2019 að bjóða ríkinu inngöngu í bandalagið. Ríkið greiðir sjálft kostnað við aðlögun eigin varna að samræmdu varnarkerfi bandalagsins og er ekki gert ráð fyrir að núverandi aðildarríki þurfi að breyta eigin varnaráætlunum, auka útgjöld til varnarmála eða bera á nokkurn hátt viðbótarkostnað af inngöngu Lýðveldisins Norður-Makedónía.
    Við þetta fjölgar aðildarríkjum bandalagsins í 30 og hefur Atlantshafsbandalagið ávallt lagt áherslu á að stækkun þess leiði til aukins stöðugleika og öryggis í Evrópu og ýti enn frekar undir þá lýðræðisþróun sem orðið hefur í nýju aðildarríkjunum.
    Meiri hlutinn leggur til að málið verði samþykkt.
    Bryndís Haraldsdóttir og Gunnar Bragi Sveinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 21. október 2019.

Sigríður Á. Andersen,
form.
Þorgerður K. Gunnarsdóttir,
frsm.
Álfheiður Eymarsdóttir.
Ásgerður K. Gylfadóttir. Logi Einarsson.