Ferill 84. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 436  —  84. mál.
Síðari umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um óháða úttekt á Landeyjahöfn.

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið. Nefndinni bárust umsagnir frá Páli Imsland, Herjólfi ohf., Vegagerðinni og Vestmannaeyjabæ.
    Með þingsályktunartillögunni er lagt til að gerð verði óháð úttekt á Landeyjahöfn í samræmi við samgönguáætlun fyrir árin 2019–2033 og fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2019–2023.
    Í umsögnum sem nefndinni bárust var almennt mikilli ánægju lýst með efni tillögunnar og lögð áhersla á að brýn þörf væri á að gera óháða úttekt á höfninni svo að unnt væri að grípa til nauðsynlegra aðgerða til að tryggja heilsárshöfn í Landeyjum. Á það var bent að mikilvægt væri að úttektin einskorðaðist ekki við dýpi Landeyjahafnar. Líta þyrfti til þeirrar reynslu sem komin væri af siglingu nýs Herjólfs í Landeyjahöfn til athugunar á því hvaða aðrir þættir, svo sem samspil vinda og sjólags, gætu takmarkað nýtingu hafnarinnar. Þá þyrfti að gera tillögur að úrbótum reyndist svo vera. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og leggur áherslu á að litið verði til allra þátta sem geta haft áhrif á nýtingu hafnarinnar við gerð úttektarinnar. Jafnframt var bent á að með hliðsjón af umfangi verkefnisins væru þau tímamörk sem úttektinni væru ætluð, þ.e. að henni yrði lokið eigi síðar en 31. mars 2020, óraunhæf. Leggur nefndin því til breytingu á tillögunni þess efnis að úttektinni verði lokið eigi síðar en 31. ágúst 2020.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Í stað orðanna „31. mars“ komi: 31. ágúst.

    Björn Leví Gunnarsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.


Alþingi, 7. nóvember 2019.

Bergþór Ólason,
form.
Vilhjálmur Árnason, frsm. Ari Trausti Guðmundsson.
Guðjón S. Brjánsson. Hanna Katrín Friðriksson. Hjálmar Bogi Hafliðason.
Jón Gunnarsson. Karl Gauti Hjaltason. Kolbeinn Óttarsson Proppé.