Ferill 436. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 600  —  436. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, með síðari breytingum (viðaukar).

Frá umhverfis- og auðlindaráðherra.


1. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „I–V“ í 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. laganna kemur: I, II og IV.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 7. gr. laganna:
     a.      Í stað tilvísunarinnar „I–III“ í fyrri málslið kemur: I og II.
     b.      Við fyrri málslið bætist: og fyrir starfsemi sem staðsett er á hafi utan sveitarfélagamarka.
     c.      Tilvísunin „og V“ í síðari málslið fellur brott.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      Í stað tilvísunarinnar „III–V“ í 1. mgr. kemur: IV.
     b.      Í stað tilvísunarinnar „I–V“ í fyrri málsl. 2. mgr. kemur: I–IV.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      Tilvísunin „III og“ í fyrri málslið 4. mgr. fellur brott.
     b.      Við 4. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Jafnframt skal kveða á um umgengni, hreinlæti, öryggisráðstafanir, sóttvarnir og gæðastjórnun eftir því sem við á hverju sinni.
     c.      5. mgr. fellur brott.

5. gr.

    Í stað orðsins „Umhverfisstofnun“ í 2. og 3. málsl. 1. mgr. 28. gr. laganna kemur: útgefandi starfsleyfis.

6. gr.

    Í stað orðsins „Umhverfisstofnun“ í 29. gr. laganna kemur: útgefanda starfsleyfis.

7. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „I–V“ í 1. mgr. 40., 54. og 55. gr. laganna kemur: I–IV.

8. gr.

    10. tölul. viðauka II með lögunum fellur brott og breytist röð annarra töluliða samkvæmt því.

9. gr.

    Fyrirsögn viðauka I með lögunum verður: Starfsemi sem Umhverfisstofnun gefur út starfsleyfi fyrir (I).

10. gr.

    Fyrirsögn viðauka II með lögunum verður: Starfsemi sem Umhverfisstofnun gefur út starfsleyfi fyrir (II).

11. gr.

    Fyrirsögn viðauka III með lögunum verður: Starfsemi sem fellur undir IV. kafla.

12. gr.

    Viðauki IV með lögunum, ásamt fyrirsögn, orðast svo:

Starfsemi sem heilbrigðisnefnd gefur út starfsleyfi fyrir.

     1.      Aksturs- og/eða kennslubraut.
     2.      Baðstaður í náttúrunni, flokkur 1 og 2.
     3.      Bensínstöð.
     4.      Bifreiða- og vélaverkstæði.
     5.      Bifreiðasprautun.
     6.      Bón- og bílaþvottastöð.
     7.      Dvalarheimili.
     8.      Dýragarður.
     9.      Dýralæknastofa.
     10.      Dýraspítali.
     11.      Efnalaug.
     12.      Eldi alifugla, annað en í viðauka I.
     13.      Eldi svína, annað en í viðauka I.
     14.      Endurnýting úrgangs.
     15.      Endurvinnsla skipa undir 500 brúttótonnum, sbr. 64. gr. a laga um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003.
     16.      Fangelsi og fangagæsla.
     17.      Fjallaskáli, nema sæluhús.
     18.      Flugeldasýning.
     19.      Flugvöllur, þ.m.t. flugstöð, sem er áætlunarflug til.
     20.      Flutningur úrgangs.
     21.      Framleiðsla á áfengi, gosdrykkjum og vatni.
     22.      Framleiðsla á hreinsi- og þvottaefnum.
     23.      Framleiðsla á ilmvatni og snyrtivörum.
     24.      Framleiðsla á olíu og feiti.
     25.      Framleiðsla fóðurs.
     26.      Framleiðsla glers, önnur en í viðauka I.
     27.      Framleiðsla leirvara með brennslu, önnur en í viðauka I.
     28.      Framleiðsla plasts, önnur en í viðauka I.
     29.      Geymsla gass og annarra hættulegra efna.
     30.      Gististaður, að undanskilinni heimagistingu.
     31.      Hársnyrtistofa.
     32.      Heilsugæslustöð.
     33.      Heilsuræktarstöð.
     34.      Heitloftsþurrkun fiskafurða, önnur en í viðauka I.
     35.      Hestaleiga og/eða reiðskóli.
     36.      Hreinsivirki fráveitu, sem meðhöndlar meira en 50 pe.
     37.      Hundahótel.
     38.      Húðflúrsstofa og stofa þar sem fram fer húðgötun, húðrof og fegrunarflúr.
     39.      Íþróttahús.
     40.      Íþróttamiðstöð.
     41.      Íþróttavöllur.
     42.      Jarðborun.
     43.      Kaffivinnsla.
     44.      Kjötvinnsla, önnur en í viðauka I.
     45.      Kírópraktor.
     46.      Leiksvæði.
     47.      Líkbrennsla.
     48.      Loðdýrarækt.
     49.      Meðhöndlun asbests.
     50.      Meðhöndlun seyru, þ.m.t. flutningur, notkun og hreinsun.
     51.      Mjólkurbú og ostagerð, önnur en í viðauka I.
     52.      Mjöl- og lýsisvinnsla, önnur en í viðauka I.
     53.      Móttökustöð fyrir úrgang, aðrar en í viðauka I og II.
     54.      Nálastungustofa.
     55.      Niðurrif bifreiða og bílapartasala.
     56.      Niðurrif mannvirkja.
     57.      Nuddstofa.
     58.      Pappírsvöru- og pappakassaframleiðsla, önnur en í viðauka I.
     59.      Prentun, þar sem er notkun á mengandi efnum.
     60.      Ryðvarnarverkstæði.
     61.      Saltvinnsla.
     62.      Sjúkrahús.
     63.      Sjúkrastofnun.
     64.      Sjúkraþjálfun.
     65.      Skemmti- og þemagarður, þ.m.t. tívolí.
     66.      Skotvöllur.
     67.      Skólahúsnæði fyrir börn.
     68.      Sláturhús, önnur en í viðauka I.
     69.      Smurstöð.
     70.      Snyrtistofa.
     71.      Sólbaðsstofa.
     72.      Spennistöð, þar sem spennar innihalda yfir 2.000 lítra af olíu.
     73.      Starfsemi þar sem notað er kælikerfi sem inniheldur flúoraðar gróðurhúsalofttegundir eða ósoneyðandi efni sem og þjónusta við þau kerfi.
     74.      Starfsmannabúðir.
     75.      Steypustöð.
     76.      Steypueiningaverksmiðja.
     77.      Stofa þar sem gerðar eru aðgerðir, svo sem læknastofa og fótaðgerðastofa.
     78.      Sund- og baðstaður.
     79.      Tannlæknastofa.
     80.      Tjald- og hjólhýsasvæði.
     81.      Útihátíð.
     82.      Vefnaðar- og spunaverksmiðja.
     83.      Veitingastaður.
     84.      Vinnsla á hrájárni eða stáli, önnur en í viðauka I.
     85.      Vinnsla fisks og annarra sjávarafurða, önnur en í viðauka I.
     86.      Vinnsla gúmmís.
     87.      Vinnsla jarðefna, þ.m.t. legsteinagerð, önnur en í viðauka I.
     88.      Vinnsla járnlausra málma, önnur en í viðauka I.
     89.      Vinnsla málma, önnur en í viðauka I.
     90.      Virkjun og orkuveita yfir 2 MW.
     91.      Yfirborðsmeðferð efna, hluta eða afurða með lífrænum leysum, önnur en í viðauka I.
     92.      Yfirborðsmeðferð málma eða plastefna, önnur en í viðauka I.
     93.      Þvottahús, þ.m.t. ullarþvottastöð.

13. gr.

    Viðauki V með lögunum fellur brott.

14. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2020.

15. gr.
Breyting á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verður eftirfarandi breyting á lögum um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum, nr. 40/2015, með síðari breytingum: Orðin „og starfsleyfi heilbrigðisnefndar eða skráningu hjá Umhverfisstofnun, sbr. 6. og 8. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998" í 1. mgr. 5. gr. laganna falla brott.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarpið var samið í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Í því eru lagðar til breytingar á útgáfu starfsleyfa og gerðar breytingar á viðaukum laganna.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Með lögum nr. 66/2017 var gerð breyting á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og nýjum viðaukum bætt við lögin. Í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir eru fimm viðaukar þar sem talin er upp sú starfsemi sem þarf starfsleyfi fyrir frá annaðhvort Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefndum sveitarfélaga. Umhverfisstofnun gefur út starfsleyfi fyrir og hefur eftirlit með starfsemi í viðaukum I–III og heilbrigðisnefndir hvað varðar starfsemi í viðaukum IV–V. Í frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir (146. lögþ., þskj. 1056, 376. mál), sem varð að fyrrnefndum lögum nr. 66/2017, var lagt til að Umhverfisstofnun mundi einungis gefa út starfsleyfi samkvæmt lögunum. Með frumvarpinu var tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/75/ESB um losun í iðnaði innleidd. Tveir viðaukar tilskipunarinnar um upptalningu á starfsemi sem fellur undir gildissvið tilskipunarinnar voru teknir orðrétt upp í frumvarpið og urðu að viðauka I og III við lög um hollustuhætti og mengunarvarnir. Ljóst var við undirbúning frumvarpsins að ákveðin skörun væri milli viðauka III og IV en sú skörun skipti ekki máli þar sem í frumvarpinu var lagt til að Umhverfisstofnun gæfi út starfsleyfi vegna viðauka I–V. Breytingar voru hins vegar gerðar á frumvarpinu í meðförum þingsins sem leiddu til framangreindrar skiptingar á viðaukum laganna milli Umhverfisstofnunar og heilbrigðisnefnda. Breytingin leiddi til þess að í lögunum er að finna misræmi milli viðauka, einkum viðauka III og IV, og dæmi um að sama starfsemi komi fyrir í tveimur viðaukum þar sem starfsemin er annars vegar háð starfsleyfi Umhverfisstofnunar og hins vegar heilbrigðisnefndar. Nauðsynlegt er að laga þetta misræmi til þess að auka á skýrleika laganna.
    Í stefnu ríkisstjórnarinnar kemur fram að átak verði gert í einföldun regluverks í þágu atvinnulífs og almennings. Jafnframt er lögð áhersla á að stjórnsýsla sé skilvirk og réttlát. Með hliðsjón af stefnu ríkisstjórnarinnar eru lagðar til breytingar á útgáfu starfsleyfa með því að fækka flokkum starfsemi sem háð er útgáfu starfsleyfa eða er skráningarskyld. Í mörgum tilvikum er ekki nauðsynlegt að kveða á um starfsleyfis- eða skráningarskyldu til að ná fram markmiðum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Fyrirtæki bera ábyrgð á að starfa í samræmi við gildandi löggjöf hverju sinni og geta notið leiðbeiningar stjórnvalda um gildandi reglur. Telja verður að í mörgum tilvikum geti stjórnvöld leiðbeint rekstraraðilum nógu vel án þess að starfsleyfis- eða skráningarskylda sé fyrir hendi. Óháð starfsleyfis- eða skráningarskyldu hafa stjórnvöld ákveðið eftirlitshlutverk með starfsemi sem heyrir undir lög um hollustuhætti og mengunarvarnir og getur þurft að ganga úr skugga um að hún sé í samræmi við löggjöfina.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu miða að því að dregið verði úr vægi starfsleyfis- og skráningarskyldu og að einungis verði gerð krafa um að starfsemi sé háð starfsleyfi eða skráningu þegar þess gerist þörf með tilliti til umfangs og eðli starfseminnar. Í viðaukum I og II er að finna lista yfir starfsemi sem er háð starfsleyfi hjá Umhverfisstofnun. Lagt er til að fækka þeirri starfsemi sem er að finna í viðaukum IV og V og fella niður starfsleyfis- eða skráningarskyldu tiltekinnar starfsemi sem þar er tilgreind og háð er eftirliti heilbrigðisnefnda. Lagt er til að 41 flokkur starfsemi verði ekki lengur starfsleyfis- eða skráningarskyldur. Þá er lagt til að viðaukar IV og V verði sameinaðir og lagðar til breytingar á heitum nokkurra flokka, sbr. 12. og 13. gr. Nánar er gerð grein fyrir þessum breytingum í skýringum við einstakar greinar.
    Í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir eru fimm viðaukar eins og áður segir. Umhverfisstofnun gefur út starfsleyfi fyrir starfsemi í viðaukum I–III og heilbrigðisnefndir í viðaukum IV og V. Í lögunum er einkum um að ræða skörun á milli viðauka III og IV þar sem sama starfsemi er tilgreind í báðum viðaukum. Lagt er til að breyta lögunum með þeim hætti að verkaskipting milli Umhverfisstofnunar og heilbrigðisnefnda við útgáfu starfsleyfa fari samkvæmt viðaukum I, II og IV. Verði frumvarpið að lögum hafi viðauki III að geyma lista yfir starfsemi sem skal hafa starfsleyfi með sérstökum efnisákvæðum, sbr. IV. kafla laga um hollustuhætti og mengunarvarnir um sérákvæði fyrir starfsemi sem notast við lífræna leysa. Því mun viðauki III ekki kveða á um skiptingu á útgáfu starfsleyfis milli heilbrigðisnefnda og Umhverfisstofnunar.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið hefur hvorki gefið sérstakt tilefni til mats á samræmi við stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, né alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði starfshóp í maí 2019 með það hlutverk að koma með tillögu að endurskoðun viðauka laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Áform um lagasetningu og mat á áhrifum fór í innra samráð 7. júní 2019 og í ytra samráð í samráðsgátt stjórnvalda 9. júlí 2019 til 23. ágúst 2019. Þrjár umsagnir bárust á samráðstímanum og var höfð hliðsjón af þeim við samningu frumvarpsins. Drög að frumvarpinu voru kynnt í samráðsgáttinni 4. október 2019 og veittur frestur til 25. október 2019 til að skila umsögnum um frumvarpið. Alls bárust 12 umsagnir um frumvarpið. Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga kemur fram að sambandið leggi þunga áherslu á að mikils hófs verði gætt við að fella á brott skyldu rekstraraðila til að sækja um starfsleyfi. Þá kemur fram að sambandið telur of langt gengið í að afnema starfsleyfisskyldu og að vandlega þurfi að fara yfir hvaða starfsemi eigi að vera áfram starfsleyfis- eða skráningarskyld. Í umsögn heilbrigðisnefndar Reykjavíkur kemur fram að þær breytingar sem lagðar eru til á viðaukum laganna séu óskýrar að mati nefndarinnar og nauðsynlegt sé að fara í faglega undirbúningsvinnu áður en svo viðamiklar breytingar nái fram að ganga. Í umsögn heilbrigðisnefndar Suðurlands kemur fram að markmið frumvarpsins, þ.e. einföldun regluverks í þágu íbúa og atvinnulífs, nái ekki fram að ganga að mati nefndarinnar og snúist jafnvel upp í andhverfu sína. Þá er í umsögninni bent á nokkra flokka starfsemi sem ætti ekki að fella niður starfsleyfisskyldu fyrir. Í umsögnum heilbrigðisnefnda Austurlands og Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis kemur fram að nefndirnar telja frumvarpið ganga allt of langt í að afnema starfsleyfisskyldu. Í umsögn heilbrigðisnefndar Norðurlands vestra er dregið í efa að frumvarpið muni skila árangri í einföldun regluverks og bent á ýmsa vankanta sem frumvarpið hefur í för með sér að mati nefndarinnar. Í umsögnum Umhverfisstofnunar og skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar eru ekki gerðar athugasemdir við efni frumvarpsins að undanskildu því að bent er á þrjá starfsemisflokka sem að mati stofnunarinnar og frístundasviðs borgarinnar eiga að vera áfram starfsleyfisskyldir. Í sameiginlegri umsögn Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins og Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) er fagnað endurskoðun viðauka laga nr. 7/1998. Samtökin taka undir það sem fram kemur í frumvarpsdrögunum um að sameina viðauka IV og V við lögin og að fella niður skráningar- og starfsleyfisskyldu fyrir þá starfsemi. Samtökin benda jafnframt á aðra starfsemi sem þau telja að ætti að fella niður starfsleyfisskyldu fyrir, svo sem framleiðslu, vinnslu og dreifingu matvæla.
    Framkomnar umsagnir gefa tilefni til þess að breyta frumvarpinu áður en það yrði lagt fram á Alþingi. Þannig hefur verið fækkað flokkum starfsemi sem fella átti brott starfsleyfis- og skráningarskyldu fyrir. Þau fyrirtæki sem verða hvorki starfsleyfis- og skráningarskyld þurfa eftir sem áður að uppfylla ákvæði laga og reglugerða settra á grundvelli þeirra og stjórnvöld hafa áfram heimildir til þess að bregðast við þegar misbrestur verður á reglufylgni, svo sem með beitingu þvingunarúrræða.
    Ekki er ætlunin að gera breytingar á þeirri skyldu rekstraraðila að uppfylla lög um hollustuhætti og mengunarvarnir og viðeigandi reglugerðir settar samkvæmt þeim. Þá er áfram gert ráð fyrir að eftirlitsaðilar viðhafi eftirlit með framkvæmd laganna og reglugerða settra samkvæmt þeim til þess að tryggja að ákvæði þeirra séu virt.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið hefur áhrif á atvinnurekstur sem fellur undir gildissvið laganna. Lagt er til að fækka flokkum starfsemi sem þarf starfsleyfi eða er skráningarskyld. Í þeim tilvikum þurfa fyrirtæki ekki lengur að sækja um starfsleyfi eða skrá starfsemina og vera háð reglulegu eftirliti stjórnvalda. Það er hins vegar rétt að taka fram að þessi fyrirtæki þurfa eftir sem áður að uppfylla ákvæði laganna og reglugerða settra á grundvelli þeirra og stjórnvöld hafa áfram heimildir til þess að bregðast við þegar misbrestur verður á reglufylgni, svo sem með beitingu þvingunarúrræða. Frumvarpið mun hafa jákvæð áhrif á þann atvinnurekstur sem verður ekki lengur krafinn um starfsleyfi eða skráningu atvinnurekstrar.
    Frumvarpið hefur áhrif á stjórnsýslu Umhverfisstofnunar og heilbrigðisnefnda sveitarfélaga. Frumvarpið mun draga lítillega úr umfangi vinnu Umhverfisstofnunar við útgáfu starfsleyfa þar sem einn flokkur starfsemi færist frá stofnuninni til heilbrigðisnefnda sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs haldist óbreytt verði frumvarpið samþykkt. Hjá heilbrigðisnefndum sveitarfélaga mun frumvarpið leiða til þess að umsvif þeirra við útgáfu starfsleyfa og reglubundið eftirlit mun minnka frá og með 1. júlí 2020. Það mun hafa í för með sér að tekjur heilbrigðisnefnda af útgáfu starfsleyfa og reglulegu eftirliti mun minnka en á móti kemur að veitt þjónustu dregst að sama skapi saman. Um leið geta nefndirnar lagt meiri áherslu á að sinna eftirliti með starfsemi sem áfram verður starfsleyfis- og skráningarskyld og er í hærri áhættuflokki. Verði frumvarpið samþykkt mun það hafa óveruleg, ef nokkur, fjárhagsleg áhrif á fjárhag sveitarfélaganna.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Lagt er til að viðaukar IV og V við lögin verði sameinaðir í einn viðauka, viðauka IV, sbr. 12. og 13. gr. Til samræmis við þá breytingu eru lagðar til breytingar á greinum laganna þar sem vísað er til viðauka laganna.

Um 2. gr.

    Í a-lið er lagt til að breyta lögunum með þeim hætti að viðauki III hafi ekki að geyma upptalningu á starfsemi sem þarf starfsleyfi heldur sé listi yfir starfsemi sem skal hafa starfsleyfi með sérstökum efnisákvæðum, sbr. IV. kafla laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Af þeim sökum er tekin út tilvísun til viðauka III. Í b-lið er lagt til að Umhverfisstofnun gefi út starfsleyfi fyrir starfsemi samkvæmt viðauka IV ef hún fer fram á hafi utan sveitarfélagamarka þar sem valdssvið heilbrigðisnefnda nær einungis til svæða innan sveitarfélagamarka. Í c-lið er lögð til breyting í ljósi þess að viðaukar IV og V eru sameinaðir í einn, viðauka IV, sbr. 12. og 13. gr.

Um 3. gr.

    Í greininni er lagt til að breyta lögunum með þeim hætti að viðauki III hafi ekki að geyma upptalningu á starfsemi sem þarf að hafa starfsleyfi fyrir heldur sé listi yfir starfsemi sem skal hafa starfsleyfi með sérstökum efnisákvæðum, sbr. IV. kafla laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Af þeim sökum er tekin út tilvísun til viðauka III.

Um 4. gr.

    Í a-lið er lögð til breyting í ljósi þess að viðaukar IV og V verða sameinaðir í einn, viðauka IV, sbr. 12. og 13. gr. Í c-lið er lagt til að 5. mgr. 9. gr. laganna falli brott en efnisákvæði þeirrar málsgreinar verði bætt við 4. mgr. 9. gr. laganna, sbr. b-lið.

Um 5. og 6. gr.

    Lögð er til breyting á 28. og 29. gr. laganna vegna breytingar á viðauka III, sbr. a-lið 2. gr. Bæði Umhverfisstofnun og heilbrigðisnefndir gefa út starfsleyfi fyrir starfsemi sem er að finna í viðauka III og því er lagt til að orðalagi greinanna verði breytt.

Um 7. gr.

    Sjá skýringar við 1. gr.

Um 8. gr.

    Í greininni er lögð til breyting á útgáfu starfsleyfa hvað varðar pappírsframleiðslu. Lagt er til að útgáfa starfsleyfis færist frá Umhverfisstofnun til heilbrigðisnefnda sveitarfélaga.

Um 9.–11. gr.

    Í greinunum er lagt til að viðaukar laganna fái fyrirsagnir til skýrleika.

Um 12. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar á útgáfu starfsleyfa og miðað við að einungis verði gerð krafa um að starfsemi sé starfsleyfis- eða skráningarskyld þegar þess er þörf með tilliti til umfangs og eðli starfseminnar. Lagt var mat á gildandi lista yfir starfsemi í viðaukum IV og V og lagt mat á hvort ástæða væri að bæta við eða fella út af listunum tiltekna starfsemi. Sú starfsemi sem er starfsleyfisskyld nú hefur verið áhættumetin þar sem horft hefur verið til mögulegrar áhættu af viðkomandi starfsemi á umhverfið og heilsu manna.
    Við mat á því hvort starfsemi skuli vera háð starfsleyfi eða skráningu var byggt á áhættumati af viðkomandi starfsemi. Þannig er lagt til að sú starfsemi sem skorar hátt í áhættumati verði áfram starfsleyfis- eða skráningarskyld en sú starfsemi sem skorar lágt verði ekki háð starfsleyfis- eða skráningarskyldu. Í einhverjum tilvikum var vikið frá þessari almennu reglu og starfsemi með lága áhættu haldið áfram inni, svo sem rekstri gististaða. Jafnframt var tekið tillit til þess hvort starfsemin væri líka háð öðrum leyfum samkvæmt annarri löggjöf og var starfsleyfisskylda þá felld niður. Að lokum er gerð tillaga um að safnliðir um ótilgreinda starfsemi verði felldir niður, svo sem önnur sambærileg starfsemi, til þess að auka á skýrleika laganna.
    Þau fyrirtæki sem verða hvorki starfsleyfis- né skráningarskyld þurfa eftir sem áður að uppfylla ákvæði laga og reglugerða settra á grundvelli þeirra og að stjórnvöld hafa áfram heimildir til þess að bregðast við þegar misbrestur verður á reglufylgni, svo sem með beitingu þvingunarúrræða.
    Dæmi um fyrirtæki sem skora lágt í áhættumati eru grenndarstöðvar þar sem áhrif af starfseminni eru lítil á umhverfið og því fellur starfsleyfisskylda þeirra niður. Um er að ræða grenndarstöðvar, svo sem við sundlaugar og hverfisverslanir. Jafnframt skora almenningssalerni lágt í áhættumati þar sem þau hafa lítil áhrif á heilsu manna. Þá er takmörkuð starfsemi á biðstöðvum leigubifreiða og á bið- og endastöðvum strætisvagna svo dæmi séu tekin. Þá var sem fyrr segir tekið tillit til þess hvort starfsemi væri líka háð öðrum leyfum samkvæmt annarri löggjöf og var starfsleyfisskylda þá felld niður. Dæmi um þetta er garðaúðun og meindýravarnir en notkun varnarefna er háð notendaleyfi samkvæmt efnalögum. Þá eru brennur háðar leyfum sýslumanna.
    Alls eru 187 flokkar starfsemi tilgreindir á viðaukum IV og V í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Verður ekki lengur gerð krafa um útgáfu starfsleyfis fyrir 41 flokk starfsemi. Jafnframt eru gerðar breytingar á heitum á ýmsum flokkum og þeir sameinaðir í nýja flokka en þær breytingar hafa áhrif á 53 flokka starfsemi. Eftirfarandi er listi yfir þá starfsemi sem lagt er til að starfsleyfis- eða skráningarskylda falli niður:
     1.      Framköllun, t.d. á ljós-, röntgen- og kvikmyndum.
     2.      Framleiðsla á aukefnum og hjálparefnum fyrir matvælaiðnað.
     3.      Önnur starfsemi með sambærileg efni.
     4.      Sögunarmyllur.
     5.      Framleiðsla á spónaplötum, límtré og þess háttar.
     6.      Leðurvinnsla.
     7.      Önnur sambærileg starfsemi með vinnslu og úrvinnslu á efnum úr jurta og dýraríkinu.
     8.      Kartöfluvinnsla, önnur en í viðauka I.
     9.      Lauksteikingarverksmiðjur.
     10.      Meðhöndlun, blöndun og mölun á korni, önnur en í viðauka I.
     11.      Önnur sambærileg matvælavinnsla.
     12.      Kanínurækt.
     13.      Hestahald.
     14.      Gæludýraverslanir.
     15.      Önnur sambærileg starfsemi með búfjár og dýrahald.
     16.      Biðstöðvar leigubifreiða.
     17.      Bið- og endastöðvar strætisvagna.
     18.      Önnur sambærileg starfsemi fyrir vélknúin farartæki.
     19.      Gámastöðvar.
     20.      Önnur sambærileg starfsemi.
     21.      Æfingasvæði slökkviliðs.
     22.      Rekstur aðstöðu í atvinnuskyni, þ.m.t. útleiga rýmis, fyrir hávaðasama starfsemi sem veldur truflun eða óþægindum.
     23.      Önnur sambærileg starfsemi.
     24.      Geymsla olíumalarefna og lagning utan fastra starfsstöðva.
     25.      Brennur þar sem ætla má að bruni standi yfir í meira en tvo tíma (áramót – Jónsmessa – ýmsir viðburðir).
     26.      Ýmiss konar tímabundin aðstaða, svo sem farandsalerni, farandeldhús og vinnubúðir sem tengjast tímabundnum framkvæmdum.
     27.      Almenningssalerni.
     28.      Daggæsla í heimahúsum með sex börn eða fleiri.
     29.      Dýragæsla.
     30.      Dýrasnyrtistofur.
     31.      Frístundahúsasvæði.
     32.      Garðaúðun.
     33.      Gæludýraverslanir.
     34.      Heimili og stofnanir fyrir börn og unglinga með sex börn eða fleiri.
     35.      Meindýravarnir.
     36.      Sambýli þar sem veitt er þjónusta allan sólarhringinn.
     37.      Samgöngumiðstöðvar og almenningssamgöngutæki.
     38.      Samkomuhús.
     39.      Starfsmannabústaðir.
     40.      Verslunarmiðstöðvar.
     41.      Önnur sambærileg starfsemi.

Um 13. gr.

    Í greininni er lagt til að viðauki V falli brott þar sem lagt er til að viðaukar IV og V við lögin verði sameinaðir í einn viðauka, sbr. 12. gr.

Um 14. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 15. gr.

    Í lögum um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum er vísað til starfsleyfis heilbrigðisnefndar eða skráningarskyldu. Lagt er til að sú starfsleyfis- og skráningarskylda falli niður og því til samræmis er lögð til breyting á lögum um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum.