Ferill 148. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 688  —  148. mál.
Síðari umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019–2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019–2023.

Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hermann Sæmundsson, Stefaníu Traustadóttur og Guðna Geir Einarsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, Sigurð Guðmundsson og Vífil Karlsson, Eyrúnu Ingibjörgu Sigþórsdóttur og Kristin Jónasson, Guðjón Bragason og Karl Björnsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Heiðrúnu Björk Gísladóttur og Óttar Snædal frá Samtökum atvinnulífsins, Þröst Friðfinnsson, Ólaf Rúnar Ólafsson og Fjólu V. Stefánsdóttur frá Grýtubakkahreppi, Björgvin Helgason, Guðjón Jónasson og Lindu Björk Pálsdóttur frá Hvalfjarðarsveit, Ástu Stefánsdóttur frá Bláskógabyggð, Matthildi Ásmundsdóttur frá Sveitarfélaginu Hornafirði, Gunnar Birgisson frá Fjallabyggð og Árna Hjörleifsson, Pétur Davíðsson og Sigrúnu Þormar frá Skorradalshreppi. Einnig ræddi nefndin við Grétar Þór Eyþórsson í síma og Gunnþórunni Ingólfsdóttur, Fljótsdalshreppi, og Elías Pétursson, Langanesbyggð, í gegnum fjarfundabúnað.
    Umsagnir bárust frá Akureyrarbæ, Bláskógabyggð, Borgarholtsskóla, Byggðastofnun, Dalabyggð, Fljótsdalshéraði, Fljótsdalshreppi, Grýtubakkahreppi, Hvalfjarðarsveit, Langanesbyggð, Mosfellsbæ, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Skorradalshreppi, Suðurnesjabæ, Sveitarfélaginu Hornafirði, Sveitarfélaginu Skagafirði og Tjörneshreppi.

Markmið og efni tillögunnar.
    Tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga er nú lögð fram í fyrsta sinn í samræmi við 4. mgr. 3. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, sbr. lög nr. 53/2018, um breytingu á ýmsum lögum til samræmingar á áætlunum á sviði samgöngu-, fjarskipta-, sveitarstjórnar- og byggðamála. Þar er kveðið á um að ráðherra leggi á a.m.k. þriggja ára fresti fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga til 15 ára í senn og marki jafnframt aðgerðaáætlun til næstu fimm ára á þessu sviði.
    Markmið stefnumótandi áætlunar í málefnum sveitarfélaga er m.a. að draga saman meginþætti langtímastefnumörkunar ríkisins í þeim málaflokkum sem snúa að verkefnum sveitarfélaga og stuðla að samræmingu í stefnumótun ríkis og sveitarfélaga á þeim sviðum með heildarhagsmuni sveitarstjórnarstigsins að leiðarljósi, jafnframt að setja fram leiðarljós um hvert stefna skuli í málefnum sveitarstjórnarstigsins með eflingu þess og sjálfbærni að markmiði. Áætlunin skal byggjast á markmiðum sveitarstjórnarlaga og stefnu stjórnvalda um sjálfbæra þróun og taka mið af fyrirliggjandi stefnumótandi áætlunum opinberra aðila sem varða stöðu og þróun sveitarstjórnarmála. Skal sérstaklega horft til þeirrar stefnumörkunar sem fram kemur í lögbundinni byggðaáætlun og sóknaráætlunum sem og samgönguáætlunar, fjarskiptaáætlunar og landsskipulagsstefnu. Áskilið er að við mótun áætlunarinnar sá ávallt gætt að sjálfsstjórnarrétti sveitarfélaga. Í þeirri stefnumótandi áætlun sem ráðherra leggur til að mörkuð verði í málefnum sveitarfélaga til næstu 15 ára er lögð áhersla á sjálfbærni og sjálfsstjórn sveitarfélaga með það að markmiði að tryggja sem jöfnust réttindi og aðgengi íbúa að þjónustu í nánu samstarf ríkis og sveitarfélaga. Til að vinna að því marki er sett fram tillaga um aðgerðaáætlun í 11 liðum til fimm ára, frá 2019 til 2023.

Vinna og áherslur nefndarinnar.
    Í umsögnum sem nefndinni bárust og máli þeirra gesta sem komu á fund hennar var lýst ánægju með að fram sé komin þingsályktunartillaga um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga. Samhljómur er um þau markmið sem þar eru sett og þá virðist almennt vera jákvæð afstaða til þeirrar aðgerðaáætlunar sem lögð er fram í tillögunni fyrir utan 1. lið hennar þar sem lagt er til að lögfesta lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga. Óhjákvæmilega fór mestur tími nefndarinnar með gestum í umfjöllun um þann lið, en jafnframt komu fram nokkrar ábendingar varðandi aðra liði, sérstaklega hvað varðar fjárhagslegan þátt sameiningar sveitarfélaga og tekjustofna þeirra sem og tillögu um lækkun skuldaviðmiðs. Við vinnslu málsins kom skýrt fram að meðal minni sveitarfélaga er andstaða við efni 1. liðar tillögunnar og að ekki var einhugur um málið á fundum Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem fjallað var um stefnumörkunina.
    Meiri hlutinn tekur undir markmið stefnumótandi áætlunar í málefnum sveitarfélaga og fagnar því skrefi sem hér er stigið þegar áætlun og aðgerðaáætlun eru lögð fram í fyrsta sinn.

Sjálfbærni sveitarfélaga.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að skilgreina þyrfti betur hvað átt væri við með hugtakinu sjálfbær sveitarfélög, í bæði markmiðum og áherslum áætlunarinnar, sbr. kafla 1.1. Í tillögunni segir að sjálfbærni skuli vera leiðarljós stefnumörkunar fyrir sveitarstjórnarstigið og hún nái til félagslegra, efnahagslegra og umhverfislegra þátta samfélagsins. Sveitarfélögin skuli hafa nægilegan styrk til að takast á við áskoranir framtíðarinnar, svo sem aukna sérhæfingu, breytta aldurssamsetningu, búferlaflutninga, tæknibreytingar, þróun á sviði umhverfis- og loftslagsmála, lýðheilsumál o.fl. Fram kom það sjónarmið að við mat á sjálfbærni væri ekki rétt að horfa aðeins til þess hvort viðkomandi sveitarfélag gæti sjálft veitt tiltekna þjónustu, þar sem smærri fjárhagslega sterk sveitarfélög gætu útvistað slíka þjónustu á grundvelli þjónustusamninga. Slíkt væri einnig gert hjá stærri sveitarfélögum. Einnig var velt upp þeirri spurningu hvort sveitarfélag teldist sjálfbært ef stór hluti tekna þess kæmi úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
    Meiri hlutinn bendir á að sérstaklega er fjallað um hugtakið sjálfbærni sveitarfélaga í 6. kafla greinargerðar með tillögunni og þar litið til getu sveitarfélaga til að „viðhalda sér á uppbyggilegan hátt hvort sem er fjárhagslega, félagslega eða umhverfislega.“ Í þeirri aðgerðaáætlun sem lagt er til unnið sé eftir næstu fimm árin er hugtakið sjálfbærni sveitarfélaga einnig tengt við fjárhagslega stöðu þeirra, sbr. t.d. lið 1 Lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga, lið 2 Fjárhagslegur stuðningur við sameiningar, lið 3 Tekjustofnar sveitarfélaga og lið 4 Fjármál og skuldaviðmið. Þá er lagt til í f-lið í kafla 1.3 að reglulega skuli fara fram stöðluð mæling á sjálfbærni sveitarfélaga þar sem skoðað er samspil tekna og gjalda sem og fjárhagsleg staða til skemmri og lengri tíma.
    Meiri hlutinn telur mikilvægt að til verði sameiginlegur skilningur og viðmið um hvað felist í markmiði og áherslum um sjálfbærni sveitarfélaga og ekki aðeins út frá fjárhagslegum viðmiðum. Full þörf sé á að sameiginlegur skilningur á sjálfbærnihugtakinu taki til þess við hvaða aðstæður félagslegir þættir geti staðið framar ýtrustu fjárhagslegri hagkvæmni. Vinnu með hugtakið sjálfbærni ætti að samþætta vinnu við aðgerðirnar ellefu og jafnframt styrkja framkvæmd þeirra. Eðlilegt væri að ráðuneyti samgöngu- og sveitarstjórnarmála, fjármála, félagsmála og umhverfismála og Samband íslenskra sveitarfélaga ynnu saman að mótun sameiginlegs skilnings þar að lútandi og settu fram viðmið um félagslega og umhverfislega sjálfbærni sveitarfélaga, líkt og lagt er til að verði gert við mælingu á fjárhagslegri sjálfbærni þeirra, sbr. f-lið kafla 1.3. Í þeirri vinnu verði m.a. horft til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og skilgreindir mælikvarðar til að meta stöðu og þróun. Meiri hlutinn leggur því til að nýjum málslið þar að lútandi verði bætt við kafla 1.1.

Lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga.
    Markmið um að lágmarksíbúafjöldi verði 250 frá almennum sveitarstjórnarkosningum árið 2022, en 1.000 frá almennum sveitarstjórnarkosningum árið 2026, eru sett fram í tillögunni sem liður í því að auka sjálfbærni sveitarfélaga og um leið að tryggja getu þeirra til að sinna lögbundnum verkefnum. Fyrir nefndinni komu fram skiptar skoðanir um lögfestingu lágmarksíbúafjölda og var lýst andstöðu við slíkt ákvæði af hálfu þeirra smærri sveitarfélaga sem sendu inn umsagnir, auk þess sem fram komu efasemdir um heimildir til að lögfesta lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga, með vísan til sjálfsstjórnarréttar þeirra. Samband íslenskra sveitarfélaga fagnaði fram kominni tillögu að stefnumótun í málefnum sveitarfélaga en undirstrikaði einnig að fækkun sveitarfélaga væri þar eingöngu einn afmarkaður þáttur. Hins vegar kom fram fyrir nefndinni það sjónarmið að íbúafjöldi sveitarfélags ætti ekki vera mælikvarði á getu þess til reksturs lögbundinna verkefna. Af sama meiði var sjónarmið um að hækkun lágmarksíbúatölu yrði jafnvel til þess að sum sveitarfélög gætu þurft að fara í gegnum tvöfalt sameiningarferli á næstu sex árum. Meðal tillagna sem komu fram til mótvægis var að fallið yrði frá því að binda lágmarksíbúafjölda við 250 árið 2022 en áfram væri miðað við að lágmarksíbúafjöldi yrði 1.000 árið 2026. Fyrir nefndinni komu einnig fram sjónarmið um að við ákvörðun um lágmarksíbúafjölda skyldi litið til landfræðilegra þátta við sameiningu sveitarfélaga á strjálbýlum svæðum með miklar vegalengdir milli byggðakjarna. Þá var hvatt til þess að sameinuð yrðu þau svæði sem helst ættu saman landfræðilega í stað þess að byggja á gömlum hreppamörkum.
    Meiri hlutinn vill í þessu samhengi benda á að umræða um tilgang og ávinning af sameiningu sveitarfélaga hefur breyst nokkuð síðustu árin, m.a. í kringum nýsamþykkta sameiningu sveitarfélaga á Austurlandi og sameiningarviðræður sem nú standa yfir. Sjónum sé beint að þeim tækifærum sem geta falist í sameiningu stjórnsýslu sveitarfélaga þar sem óraunhæft er að samfélög sameinist vegna landfræðilegra aðstæðna, í stað þess að snúast um sameiningu samfélaga eins og áður var einblínt á. Litið sé til þess að nýta tæknina til að efla stjórnsýslu og samfélög en gæta þess um leið að viðhalda nærþjónustu við íbúa. Þar undir fellur styrking skólastarfs með samstarfi skóla í sameinuðum sveitarfélögum þó að ekki sé raunhæft að sameina skóla vegna vegalengda. Jafnframt minnir meiri hlutinn á að sveitarfélög geta nú sem áður sameinast þó sveitarfélagamörk séu ekki samliggjandi og ný sveitarfélagamörk geti orðið til innan núverandi sveitarfélaga. Nýsköpun í stjórnsýslu og sveigjanleiki í regluverki til að aðlaga stjórnsýsluna aðstæðum á hverjum stað er því mikilvægur þáttur, líkt og tilraunir með heimastjórnir í kjölfar sameiningar eru dæmi um. Mikilvægt er að hvata til nýsköpunar sé viðhaldið og að horft sé til tækifæra á sem flestum sviðum. Einnig telur meiri hlutinn mikilvægt að haldið sé til haga þeim sjónarmiðum að í sameiningu felist ekki alltaf sparnaður, heldur getur orðið tilfærsla á fjármunum frá yfirstjórn til öflugri þjónustu og stjórnsýslu. Þá geti sameining sveitarfélaga bætt starfsaðstæður kjörinna fulltrúa, sbr. lið 8 í tillögu um aðgerðaáætlun, og þannig tryggt að þeir hafi tækifæri til að sinna málefnum sveitarfélagsins betur með hærra starfshlutfalli.
    Meiri hlutinn er sammála um mikilvægi frekari sameiningar sveitarfélaga og hefur umfjöllun nefndarinnar um málið styrkt sjónarmið um að með stærri sveitarfélögum eflist bæði þau og sveitarstjórnarstigið og jafnræði íbúa landsins aukist. Meiri hlutinn áréttar að leita ber allra leiða til að sveitarfélög sameinist að eigin frumkvæði, án þess að þeim sé gert að sameinast vegna nýrra ákvæða um lágmarksíbúafjölda. Ráðuneyti sveitarstjórnarmála í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga fari í sérstakt kynningar- og hvatningarátak og samtal um allt land, þar sem m.a. verði leitast við að aðstoða sveitarfélög við að uppfylla öll markmið þingsályktunartillögunnar. Mikilvægt er að stuðningur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verði sveitarfélögum hvatning í þeim efnum og að samþætting áætlana styðji við markmið um sameiningar.
    Meiri hlutinn telur að þrátt fyrir að erfitt geti reynst að segja til um hvert eigi að vera viðmið um lágmarksíbúafjölda að teknu tilliti til landfræðilegra og félagslegra aðstæðna og viðmiða um sjálfbærni sé ekki æskilegt að breyta því viðmiði um lágmarksíbúafjölda sem samþykkt var á XXXIV. landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga 6. september 2019. Til að mæta mismunandi sjónarmiðum sem hafa komið fram um lögfestingu lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga leggur meiri hlutinn hins vegar ríka áherslu á að við lagalega útfærslu ákvæðisins verði sveitarfélögum, sem uppfylla ekki skilyrði laga um lágmarksíbúafjölda þegar gengið er til kosninga á viðmiðunarári, þ.e. árinu 2022 eða 2026, veitt hæfilegt svigrúm til að uppfylla þau. Við mótun ákvæðisins um lágmarksíbúafjölda og eftirfylgni þess verði horft til landfræðilegra og félagslegra aðstæðna sveitarfélaga um hvort ástæða sé til að veita undanþágur frá meginreglum. Sé sveitarfélögum gert að sameinast vegna skilyrða laga um lágmarksíbúafjölda ber í öllum tilfellum að virða vilja íbúa sveitarfélaga til sameiningarkosta.

Tekjustofnar sveitarfélaga.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að sveitarfélög leggja áherslu á að fjárhagslegur stuðningur til sameiningar sé grundvöllur þess að markmið náist um eflingu þjónustu í öllum byggðum með jafnræði íbúa að leiðarljósi. Mikilvægt væri að skoða samgöngur með tilliti til stækkunar samstarfs og atvinnusvæða og að markmið stefnumótandi áætlunar um sjálfbærni sveitarfélaga kallast á við það meginmarkmið byggðaáætlunar að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. Meginmarkmið samgönguáætlunar og fjarskiptaáætlunar eru á sama veg, þ.e. „Þjónusta samgöngu- og fjarskiptakerfa mæti þörfum samfélagsins og sjálfbærar byggðir um land allt.“ Meiri hlutinn telur því að auk beinna fjárhagslegra hvata sé mikilvægt að hvatar til sameiningar birtist í annarri stefnumótun stjórnvalda og leggur áherslu á að í áframhaldandi vinnu við samþættingu og samræmingu áætlana skuli ávallt tekið mið af markmiðum í stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga. Við endurskoðun byggða-, fjarskipta- og samgönguáætlunar á hverjum tíma verði stuðlað að sjálfbærni sveitarfélaga og forgangsröðun framkvæmda og fjármögnun þeirra taki mið af þörf fyrir innviðauppbyggingu í sameinuðum sveitarfélögum.
    Fyrir nefndinni kom fram að sveitarfélög leggja áherslu á að tekjustofnar þeirra séu styrktir og þeim jafnvel fjölgað svo að unnt sé að uppfylla þau markmið sem ná skal með sameiningu sveitarfélaga. Jafnframt var hvatt til þess að lokið yrði vinnu við endurskoðun á fjármálakafla sveitarstjórnarlaga sem og endurskoðun á tekjustofnum þeirra. Samband íslenskra sveitarfélaga fagnaði því í umsögn sinni til nefndarinnar að gert væri ráð fyrir greiningu á tekjustofnakerfi sveitarfélaga, ásamt því að lagðar yrðu fram tillögur um nýja tekjustofna og hvatti jafnframt til þess að heildarendurskoðun á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga yrði lokið fyrir lok kjörtímabils. Í þessu samhengi bendir meiri hlutinn á að fyrir þinginu er til meðferðar frumvarp frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga og sveitarstjórnarlögum (forsendur úthlutana úr Jöfnunarsjóði). Þar eru m.a. lagðar til breytingar sem er ætlað að greiða fyrir sameiningu sveitarfélaga. Meiri hlutinn er meðvitaður um að Jöfnunarsjóður hefur annars vegar það hlutverk að tryggja jafnan aðgang að vissri grunnþjónustu sem sveitarfélög veita fyrir hönd ríkisins, en einnig útdeilir hann tekjum sveitarfélaga sem þau fá sem hlutfall af skatttekjum ríkissjóðs. Á hverjum tíma þurfa sveitarfélögin að hafa hvata til að stunda góðan og ábyrgan rekstur og visst svigrúm um hvernig þau ráðstafa þeim ávinningi til borgaranna. Meiri hlutinn leggur áherslu á gagnsæi í hvötum til að greiða fyrir sameiningu sveitarfélaga og að skýrt sé hvernig Jöfnunarsjóður styðji áfram rekstur nærþjónustu í smærri byggðum þar sem fjarlægðir eru miklar.

Fjármál og skuldaviðmið.
    Lagt er til að skuldaviðmið A-hluta sveitarsjóða verði ekki hærra en sem nemur 100% hinn 1. janúar 2027 og að veittur verði 10 ára aðlögunartími til að ná nýju viðmiði en nú er skuldaviðmið A- og B-hluta 150%. Við umfjöllun nefndarinnar komu fram sjónarmið um að mikilvægt væri að horfa á markmið um lækkað skuldaviðmið A-hluta í samhengi við sameiningu sveitarfélaga, og/eða tilfærslu verkefna frá ríki til sveitarfélaga, sem gætu kallað á tímabundna lántöku umfram 100% skuldaviðmiðið. Þennan þátt þyrfti að skoða áður en tekin væri ákvörðun um lækkun. Bent var á að undarlegt væri að gera ráð fyrir rýmkun heimilda um frávik frá meginreglunni frekar en að setja almenna meginreglu, einnig að sá tíu ára aðlögunartími sem lagður er til sýndi að stjórnvöld áttuðu sig á að markmiðið væri óraunhæft og því lagt til að farið væri hægar af stað. Fyrir nefndinni kom fram að sveitarfélög á vaxtarsvæðum hafi þurft að forgangsraða stíft við uppbyggingu innviða um leið og þau gættu ýtrasta aðhalds til að lækka skuldaviðmið og þrátt fyrir ágætan árangur hjá mörgum þeirra gæti það reynst erfitt og jafnvel óyfirstíganlegt að halda því áfram til að ná skuldaviðmiði niður í 100% á nokkrum árum. Byggðastofnun taldi lækkun skuldaviðmiðs ekki nauðsynlega þar sem hún gæti í raun unnið gegn þeim markmiðum sem ætlunin er að ná með sameiningu sveitarfélaga, m.a. um bætta þjónustu við íbúana.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að áform um lækkun skuldahlutfalls fyrir A-hluta sveitarsjóðs í 100% fyrir 1. janúar 2027 verði skoðuð betur í því samráðsferli sem fram fer við næstu endurskoðun aðgerðaáætlunarinnar. Meðal annars þarf að hafa í huga hvort viðmiðið þrengi að svigrúmi sveitarfélaga til að bregðast við tímabundnum aðstæðum eða framkvæmdaþörf, t.d. vegna sameiningar eða mikillar íbúafjölgunar sem kallar á uppbyggingu innviða og aukna þjónustu.

Fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni, stafræn stjórnsýsla og nýsköpun.
    Markmið tillögunnar um fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni og bætt aðgengi að þjónustu og stjórnsýslu með nýtingu tækninnar hvetur til nýsköpunar í stjórnsýslu og atvinnuuppbyggingu sveitarfélaga og kallast að einhverju leyti á við þau markmið sem koma m.a. fram í byggðaáætlun og fjarskiptaáætlun. Í umsögn sinni til nefndarinnar benti Byggðastofnun á að í aðgerðatillögu í byggðaáætlun um störf án staðsetningar væri stefnt að því að árið 2024 yrðu 10% auglýstra starfa í ráðuneytum og stofnunum án staðsetningar. Fyrir nefndinni komu jafnframt fram þau sjónarmið að mikilvægt væri að skýrt væri af orðalagi að fjölgunin tæki til opinberra starfa á landsbyggðinni í stað orðalagsins „störf án staðsetningar“ eins og verið hefur, sem gæti haft í för með sér að flest starfanna yrðu unnin innan höfuðborgarsvæðisins. Setja þyrfti skýra stefnu þar um og meta kosti þess að dreifa opinberum störfum á landsbyggðinni. Jafnframt var bent á að í stað stefnu mætti kveða skýrt á um flutning starfa til sveitarfélaga úti á landi í tengslum við sameiningar. Byggðastofnun bendir einnig á að eðlilegt sé að gera kröfu um að sveitarfélög móti sjálf og geri grein fyrir sinni stefnu varðandi aðsteðjandi vanda um þróun byggðar innan marka viðkomandi sveitarfélags. Meiri hlutinn tekur undir ábendingar Byggðastofnunar og bendir jafnframt á að mikilvægt er að við sameiningu sveitarfélaga sé innbyggður hvati til nýsköpunar í opinberri stjórnsýslu. Meiri hlutinn tekur einnig undir það sjónarmið að nýsköpun í atvinnuuppbyggingu, mótun og framkvæmd byggðastefnu og þróun opinberrar stjórnsýslu þarf að tengjast betur þróun í sveitarstjórnarmálum. Þróun stafrænnar tækni og stjórnsýslu á ekki síst að leiða til þess að bæta þjónustu og auka atvinnutækifæri í hinum dreifðu byggðum, styrkja veika punkta og efla þannig heildina. Í þessu skyni bendir meiri hlutinn á þau tækifæri sem geta falist í að nýta starfsaðstöðu hjá klösum eða setrum fyrir fólk sem vinnur fjarri meginstarfstöðvum opinberra aðila eða einkaaðila. Slíkir klasar geta verið vettvangur margs konar samstarfs og orðið hvati til nýsköpunar og skapað ný samfélagsleg gæði.
    Fyrir nefndinni kom það sjónarmið fram að þar sem sú áætlun sem hér er lögð fram væri nýmæli væri mikilvægt að aðgerðaáætlun yrði endurskoðuð fljótlega í ljósi reynslunnar. Lagaákvæði um samþættingu áætlana gera ráð fyrir endurskoðun á þriggja ára fresti og telur meiri hlutinn mikilvægt að við þá endurskoðun verði reynsla af öllum liðum aðgerðaáætlunarinnar metin. Margar aðgerðanna eru samt sem áður langtímaverkefni og telur meiri hlutinn vart þörf á að endurskoða eða breyta einstökum liðum á þriggja ára fresti. Aðgerð um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga kallar þó á sérstaka rýni að þremur árum liðnum með hliðsjón af fenginni reynslu og í ljósi ólíkra sjónarmiða.
    Meiri hlutinn leggur til smávægilegar breytingar á orðalagi sem miða að samræmi í hugtakanotkun tillögunnar, auk þess sem afmarkað er skýrar innan hvaða tímabils heildarendurskoðun Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og breytingar á grundvelli hennar skuli gerðar.
    Að framansögðu virtu leggur meiri hlutinn til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi


BREYTINGU:


     1.      Í stað orðanna „stefnu þessa“ í 1. mgr. tillögugreinarinnar komi: eftirfarandi stefnumótandi áætlun.
     2.      Við I. kafla.
                  a.      Við 2. mgr. liðarins Sjálfbærni í kafla 1.1 bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Unnið verði markvisst að mótun sameiginlegs skilnings um hvað felist í sjálfbærni sveitarstjórnarstigsins.
                  b.      2. málsl. 1. mgr. liðarins Lýðræði og mannréttindi í kafla 1.1 falli brott.
                  c.      Í stað orðsins „stefnunnar“ í 2. málsl. 1. mgr., c-lið 1. mgr. og 2. mgr. í kafla 1.3 komi: áætlunarinnar.
     3.      Við II. kafla.
                  a.      Í stað orðanna „fyrir sveitarstjórnarstigið“ í upphafi kaflans komi: í málefnum sveitarfélaga.
                  b.      Fyrri málsliður í lokamálsgrein liðarins Verkefnismarkmið í 3. tölul. orðist svo: Heildarendurskoðun á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga verði lokið fyrir almennar sveitarstjórnarkosningar árið 2022 og breytingar á grundvelli þeirrar endurskoðunar verði innleiddar í áföngum á því kjörtímabili sem lýkur árið 2026.
                  c.      Á eftir orðinu „aðlögunartími“ í 1. málsl. 2. mgr. liðarins Verkefnismarkmið í 4. tölul. komi: til 1. janúar 2037.

    Ari Trausti Guðmundsson og Hanna Katrín Friðriksson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifa undir álitið í samræmi við 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 11. desember 2019.

Jón Gunnarsson,
1. varaform.
Líneik Anna Sævarsdóttir, frsm. Ari Trausti Guðmundsson.
Guðjón S. Brjánsson. Hanna Katrín Friðriksson. Orri Páll Jóhannsson.
Vilhjálmur Árnason.