Ferill 683. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1157  —  683. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.



I. KAFLI

Breyting á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987.

1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 20. gr. er launagreiðendum, sem eiga við tímabundna rekstrarörðugleika að stríða vegna tekjufalls, heimilt að óska eftir frestun á allt að þremur greiðslum skatts í staðgreiðslu af launum skv. 1. og 2. tölul. 5. gr., sem eru á gjalddaga 1. apríl 2020 til og með 1. desember 2020. Gjalddagi og eindagi greiðslna sem frestað er að uppfylltum skilyrðum þessa ákvæðis verður 15. janúar 2021.
    Við mat á því hvort um tekjufall er að ræða skal miða við a.m.k. þriðjungssamdrátt í rekstrartekjum yfir heilan mánuð samanborið við sama mánuð árið 2019. Hafi atvinnurekstur staðið í tvö ár eða skemur er heimilt að miða við meðaltekjur síðastliðinna 12 mánaða.
    Ekki er um rekstrarörðugleika að ræða, þótt tekjufall komi til, ef launagreiðandi á nægt eigið fé til að sækja sér lánafyrirgreiðslu á almennum markaði eða á nægt handbært fé til að standa straum af útgjöldum til rekstrar þegar þau falla í gjalddaga. Það sama á við ef arði er úthlutað á árinu 2020 eða ef úttekt eigenda innan ársins 2020 fer umfram reiknað endurgjald þeirra til þess tíma.
    Greiðslufrestun skv. 1. mgr. nær ekki til þeirra sem áttu við varanlega rekstrarörðugleika að stríða fyrir upphaf ársins 2020. Varanlegir rekstrarörðugleikar teljast vera til staðar í þessu sambandi ef eigið fé, samkvæmt viðurkenndum reikningsskilaaðferðum, var í árslok 2019 neikvætt um fjárhæð sem var hærri en helmingur innborgaðs hlutafjár, stofnfjár eða framlags eiganda.
    Skilyrði fyrir frestun greiðslu skv. 1. mgr. eru þau að launagreiðandi sé ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga 31. desember 2019 og að hann hafi staðið skil á skattframtölum ásamt lögboðnum fylgigögnum til Skattsins.
    Greiðslufrestun skv. 1. mgr. felur ekki í sér frest á skilum skilagreina skv. 2. mgr. 20. gr. Ósk launagreiðanda um greiðslufrestun, ásamt yfirlýsingu hans um að skilyrði frestunar hafi verið til staðar, skal beint til Skattsins á því formi sem hann ákveður, í síðasta lagi á eindaga viðkomandi greiðslutímabils skv. 1. mgr. 20. gr. Afgreiðsla Skattsins á greiðslufrestun felur ekki í sér staðfestingu hans á því að skilyrði hennar séu uppfyllt.
    Skatturinn hefur eftirlit með því að skilyrði greiðslufrestunar séu uppfyllt og getur hann krafist allra nauðsynlegra upplýsinga og gagna þar að lútandi. Leiði skoðun Skattsins í ljós að skilyrði greiðslufrestunar hafi ekki verið uppfyllt skal launagreiðandi sæta álagi til viðbótar upphæð skilafjárins skv. 28. gr. laganna í samræmi við upphaflega gjalddaga og eindaga hvers greiðslutímabils sem greiðslu var frestað fyrir. Launagreiðandi og forsvarsmenn hans skulu ekki sæta öðrum viðurlögum.
    Verði launagreiðandi sem frestað hefur greiðslum skv. 1. mgr., að uppfylltum skilyrðum, fyrir miklu tekjufalli á rekstrarárinu 2020 samanborið við fyrra rekstrarár, getur hann óskað eftir auknum fresti og dreifingu greiðslna sem hefur verið frestað fram til 15. dags mánaðanna júní, júlí og ágúst 2021. Ósk um aukinn frest og greiðsludreifingu skal launagreiðandinn beina til Skattsins fyrir 15. janúar 2021.
    Ákvæðið á ekki við um staðgreiðsluskil opinberra aðila, þ.e. aðila sem fara með ríkis- eða sveitarstjórnarvald. Þá á ákvæðið ekki við um staðgreiðslu skatts samkvæmt lögum um fjársýsluskatt, nr. 165/2011.

II. KAFLI

Breyting á lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990.

2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 10. gr. er launagreiðendum, sem eiga við tímabundna rekstrarörðugleika að stríða vegna tekjufalls, heimilt að óska eftir frestun á allt að þremur greiðslum á staðgreiðslu tryggingagjalds, sem eru á gjalddaga 1. apríl 2020 til og með 1. desember 2020. Gjalddagi og eindagi greiðslna sem frestun tekur réttilega til verður 15. janúar 2021.
    Verði launagreiðandi sem frestað hefur greiðslum skv. 1. mgr., að uppfylltum skilyrðum, fyrir miklu tekjufalli á rekstrarárinu 2020 samanborið við fyrra rekstrarár getur hann óskað eftir auknum fresti og dreifingu greiðslna sem hefur verið frestað fram til 15. dags mánaðanna júní, júlí og ágúst 2021. Ósk um aukinn frest og greiðsludreifingu skal launagreiðandinn beina til Skattsins fyrir 15. janúar 2021.
    Um skilyrði fyrir heimildum skv. 1. og 2. mgr., undanþágur og framkvæmd gilda að öðru leyti ákvæði til bráðabirgða VI í lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987.

III. KAFLI

Breyting á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003.

3. gr.

    Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    a. (LXII.)
    Þrátt fyrir ákvæði 1.–4. mgr. 112. gr. og 1. mgr. 114. gr. er ráðherra heimilt með reglugerð að ákvarða að á árinu 2020 skuli gjaldendur ekki greiða fyrir fram upp í tekjuskatt sem lagður er á á því ári vegna tekna ársins 2019, eða ákvarða aðra gjalddaga fyrirframgreiðslna en mælt er fyrir um í þeim ákvæðum.

    b. (LXIII.)
    Við álagningu opinberra gjalda á árinu 2020 skal ákvarða mönnum sérstakan barnabótaauka:
     1.      40.000 kr. með hverju barni innan 18 ára aldurs sé tekjuskattsstofn, skv. 4. mgr. A-liðar 68. gr., einstæðs foreldris og þess hjóna eða sambúðaraðila sem hærri hefur tekjur undir 11.125.045 kr. við álagningu ársins 2020.
     2.      20.000 kr. með hverju barni innan 18 ára aldurs sé tekjuskattsstofn, skv. 4. mgr. A-liðar 68. gr., einstæðs foreldris og þess hjóna eða sambúðaraðila sem hærri hefur tekjur yfir 11.125.045 kr. við álagningu ársins 2020.
     3.      Um rétt til sérstaks barnabótaauka gilda að öðru leyti ákvæði A-liðar 68. gr. um barnabætur eftir því sem við á.
    Sérstakur barnabótaauki samkvæmt ákvæði þessu telst ekki til skattskyldra tekna.

IV. KAFLI

Breyting á tollalögum, nr. 88/2005.

4. gr.

    Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    a. (XVI.)
    Ekki skal innheimta tollafgreiðslugjald skv. 1. tölul. 1. mgr. 195. gr. vegna tollafgreiðslu skipa og flugvéla til og með 31. desember 2021.

    b. (XVII.)
    Þrátt fyrir ákvæði 122. gr. skal fyrirkomulag gjalddaga aðflutningsgjalda, hjá aðilum sem njóta greiðslufrests á aðflutningsgjöldum, vegna uppgjörstímabilanna mars og apríl, maí og júní, júlí og ágúst, september og október og nóvember og desember á árinu 2020 vera sem hér segir:
     1.      Helmingi af aðflutningsgjöldum á viðkomandi uppgjörstímabili, sbr. 1. mgr. 122. gr., skal skila eigi síðar en á 15. degi næsta mánaðar eftir lok uppgjörstímabils.
     2.      Helmingi af aðflutningsgjöldum á viðkomandi uppgjörstímabili, sbr. 1. mgr. 122. gr., skal skila eigi síðar en á 5. degi annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils.

V. KAFLI

Breyting á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988.

5. gr.

    Við lögin bætast þrjú ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    a. (XXXIII.)
    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 42. gr. skal á tímabilinu frá 1. mars 2020 til og með 31. desember 2020 endurgreiða byggjendum íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað. Jafnframt skal á sama tímabili endurgreiða eigendum íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna við endurbætur eða viðhald þess. Að öðru leyti gilda ákvæði 2. mgr. 42. gr. á umræddu tímabili.
    Á tímabilinu frá 1. mars 2020 til og með 31. desember 2020 skal endurgreiða byggjendum íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu þess háttar húsnæðis. Jafnframt skal á sama tímabili endurgreiða eigendum íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits við endurbætur eða viðhald þess háttar húsnæðis.
    Á tímabilinu frá 1. mars 2020 til og með 31. desember 2020 skal endurgreiða eigendum eða leigjendum íbúðarhúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna vegna heimilisaðstoðar eða reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um framkvæmd endurgreiðslu samkvæmt ákvæði þessu.

    b. (XXXIV.)
    Endurgreiða skal mannúðar- og líknarfélögum, íþróttafélögum, björgunarsveitum, landssamtökum björgunarsveita og slysavarnadeildum og einstökum félagseiningum sem starfa undir merkjum samtakanna 100% þess virðisaukaskatts sem þessir aðilar hafa greitt vegna vinnu manna sem innt er af hendi á tímabilinu frá 1. mars 2020 til og með 31. desember 2020 á byggingarstað við byggingu, viðhald eða endurbætur á mannvirkjum sem alfarið eru í eigu þeirra. Á sama hátt skal endurgreiða þeim aðilum sem falla undir 1. málsl. virðisaukaskatt sem þeir hafa greitt af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu á slíku mannvirki.
    Endurgreiðsla samkvæmt ákvæði þessu tekur til mannvirkja sem að yfirgnæfandi hluta eru nýtt í þágu meginstarfsemi umsækjanda samkvæmt samþykktum hans. Endurgreiðsla tekur ekki til íbúðar- og frístundahúsnæðis eða mannvirkja sem einkum eru notuð í atvinnustarfsemi í samkeppni við annan atvinnurekstur. Þá tekur endurgreiðsla ekki til virðisaukaskatts sem telja má til innskatts, sbr. VII. kafla.
    Frekari skilyrði fyrir endurgreiðslu virðisaukaskatts samkvæmt ákvæðinu eru eftirfarandi:
     1.      Umsækjandi sé skráður í fyrirtækjaskrá Skattsins og sé hvorki í heild né að hluta í opinberri eigu, þ.e. hvorki opinberra hlutafélaga, ríkis, sveitarfélaga eða stofnana né í eigu félags alfarið í þeirra eigu.
     2.      Virðisaukaskattur sem umsókn taki til stafi ekki af kostnaði vegna lögbundinna skyldna opinberra aðila, svo sem lögmæltra verkefna ríkis, sveitarfélaga og/eða félaga eða stofnana alfarið í þeirra eigu vegna byggingar mannvirkis.
     3.      Samanlögð fjárhæð endurgreidds virðisaukaskatts og styrks frá opinberum aðilum vegna framkvæmdar skuli ekki vera hærri en heildarfjárhæð vinnu við framkvæmdir.
     4.      Umsækjandi hagi bókhaldi sínu þannig að unnt sé að hafa eftirlit með því að virðisaukaskattur verði leiðréttur ef breyting verður á forsendum fyrir endurgreiðslu skv. 4. mgr.
     5.      Umsækjandi sé ekki í vanskilum vegna opinberra gjalda eða afdreginna lífeyrisiðgjalda. Leggja skal fram staðfestingu á skuldastöðu við opinbera aðila og lífeyrissjóði.
    Verði breyting á forsendum endurgreiðslu innan tíu ára frá því að framkvæmd fór fram, svo sem ef viðkomandi mannvirki er selt eða tekið til annarrar notkunar en varðar meginstarfsemi umsækjanda samkvæmt samþykktum hans, skal umsækjandi leiðrétta virðisaukaskatt og endurgreiða ríkissjóði þá fjárhæð sem hann hefur móttekið vegna þess mannvirkis.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um framkvæmd endurgreiðslu samkvæmt ákvæði þessu.

    c. (XXXV.)
    Þrátt fyrir ákvæði VII. kafla og 7. mgr. 20. gr. er á gjalddaga virðisaukaskatts vegna uppgjörstímabilanna mars og apríl, maí og júní, júlí og ágúst, september og október og nóvember og desember á árinu 2020, sbr. 1. mgr. 24. gr., heimilt að færa til innskatts á virðisaukaskattsskýrslu allan virðisaukaskatt vegna viðkomandi uppgjörstímabils, þótt einungis hluta af gjaldföllnum virðisaukaskatti hafi á þeim tíma verið skilað, sbr. ákvæði til bráðabirgða XVII í tollalögum, nr. 88/2005.

VI. KAFLI

Breyting á lögum um gistináttaskatt, nr. 87/2011.

6. gr.

    Við lögin bætast tvö ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    a. (I.)
    Þrátt fyrir ákvæði 2. og 4. gr. skal ekki innheimta gistináttaskatt af sölu gistingar á tímabilinu 1. apríl 2020 til og með 31. desember 2021.
    Fari afhending gistiþjónustu fram eftir 31. mars 2020 skal ekki innheimta gistináttaskatt á því tímabili sem um ræðir í 1. mgr. Þetta gildir án tillits til þess hvort samningur um sölu gistiþjónustu hefur verið gerður fyrir 1. apríl 2020.

    b. (II.)
    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 5. gr. skal gjalddagi gistináttaskatts vegna uppgjörstímabilanna janúar og febrúar annars vegar og mars og apríl hins vegar, á árinu 2020, vera 5. febrúar 2022.

VII. KAFLI

Breyting á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997.

7. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða VIII í lögunum orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 11. og 12. gr. er rétthafa séreignarsparnaðar heimilt á tímabilinu 1. apríl 2020 til 1. janúar 2021 að sækja um útgreiðslu séreignarsparnaðar, sem myndast hefur af viðbótariðgjaldi skv. II. kafla, til vörsluaðila skv. 3.–5. mgr. 8. gr. og skal greiðslum háttað eftir því sem nánar er mælt fyrir um í ákvæði þessu.
    Heimilt er á því tímabili sem tilgreint er í 1. mgr. að hefja útborgun innstæðu séreignarsparnaðar rétthafa, ásamt vöxtum, að fjárhæð sem 1. apríl 2020 nemur samanlagt allt að 12.000.000 kr. óháð því hvort sú heildarfjárhæð séreignarsparnaðar er í vörslu hjá fleiri en einum vörsluaðila. Skal sú fjárhæð greiðast út með jöfnum mánaðarlegum greiðslum, að frádreginni staðgreiðslu samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, á 15 mánaða tímabili frá því að beiðni um útgreiðslu er lögð fram hjá vörsluaðila. Útgreiðslutími styttist hlutfallslega ef um lægri fjárhæð en 12.000.000 kr. er að ræða.
    Óski rétthafi eftir útgreiðslu séreignarsparnaðar skv. 2. mgr. skal hann leggja fram umsókn þess efnis hjá viðkomandi vörsluaðila. Ef rétthafi á séreignarsparnað hjá fleiri en einum vörsluaðila skal hann gera grein fyrir því í umsókn sinni.
    Vörsluaðilar séreignarsparnaðar taka ákvörðun um umsókn rétthafa skv. 2. mgr. og hafa umsjón með útgreiðslu á séreignarsparnaði hans.
    Skuldheimtumönnum er óheimilt að krefjast þess að skuldarar taki út séreignarsparnað sinn samkvæmt þessu ákvæði, sbr. 2. mgr. 8. gr.
    Skatturinn hefur eftirlit með útgreiðslum séreignarsparnaðar samkvæmt ákvæði þessu.
    Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða nánar á um fyrirkomulag eftirlits og útgreiðslu séreignarsparnaðar.
    Útgreiðsla séreignarsparnaðar samkvæmt ákvæði þessu hefur ekki áhrif á bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð. Þá hefur útgreiðslan ekki áhrif á greiðslu húsnæðisbóta samkvæmt lögum um húsnæðisbætur, greiðslu barnabóta eða vaxtabóta skv. 68. gr. laga um tekjuskatt, atvinnuleysisbóta skv. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, sbr. 22. gr. laga nr. 22/2006.

8. gr.

    Í stað orðanna „1. mars 2009 til 1. janúar 2015“ í ákvæði til bráðabirgða IX í lögunum kemur: 1. apríl 2020 til 1. janúar 2021.

VIII. KAFLI

Breyting á lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, nr. 155/2010.

9. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða III í lögunum fellur brott.

IX. KAFLI

Breyting á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011.

10. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. 64. gr. er sveitarstjórn heimilt að víkja frá skilyrðum 1. og 2. tölul. 2. mgr. 64. gr. við stjórn sveitarfélagsins árin 2020–2022.

X. KAFLI

Breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995.

11. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir 4. mgr. 4. gr. er gjaldendum fasteignaskatta skv. c-lið 3. mgr. 3. gr. sem eiga við tímabundna rekstrarörðugleika að stríða vegna tekjufalls heimilt að óska eftir frestun á allt að þremur greiðslum fasteignaskatts sem eru á gjalddaga 1. apríl 2020 til og með 1. desember 2020, með sömu skilyrðum og málsmeðferðarreglum og kveðið er á um í 2.–4. mgr. 1. gr. ákvæðis til bráðabirgða VI í lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987
    Verði gjaldandi sem frestað hefur greiðslum skv. 1. mgr. að uppfylltum skilyrðum fyrir miklu tekjufalli á rekstrarárinu 2020 samanborið við fyrra rekstrarár getur hann óskað eftir auknum fresti og dreifingu greiðslna sem hefur verið frestað fram til 15. dags mánaðanna júní, júlí og ágúst 2021. Ósk um aukinn frest og greiðsludreifingu skal launagreiðandinn beina til sveitarfélags fyrir 15. janúar 2021.

XI. KAFLI

Breyting á lögum um ríkisábyrgðir, nr. 121/1997.

12. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Ríkissjóði er heimilt að undirgangast ábyrgðarskuldbindingar í tengslum við samning við Seðlabanka Íslands um að bankinn veiti fyrirgreiðslu til að auðvelda viðbótarlán lánastofnana til fyrirtækja, sem orðið hafa fyrir verulegu tekjutapi vegna heimsfaraldurs. Afla skal heimilda í fjáraukalögum 2020 vegna þessara ábyrgðarskuldbindinga. Ákvæði laga þessara munu að öðru leyti ekki gilda um þær ábyrgðarskuldbindingar sem ríkissjóður mun undirgangast með samningi við Seðlabanka Íslands.

XII. KAFLI

Breyting á lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019.

13. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Seðlabanka Íslands er heimilt að veita lánastofnunum ábyrgð, án viðtöku trygginga, til að auðvelda þeim að veita viðbótarlán til fyrirtækja sem orðið hafa fyrir verulegu tekjutapi vegna heimsfaraldurs, enda ábyrgist ríkissjóður skaðleysi Seðlabankans af þeirri efnahagsráðstöfun.

14. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Í frumvarpi þessu, sem samið er í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu í samvinnu við Skattinn, Fjársýslu ríkisins og Samband íslenskra sveitarfélaga, eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum um skatta og gjöld vegna þeirrar miklu óvissu sem ríkir nú í atvinnulífi og efnahag landsins eftir að lýst hefur verið yfir heimsfaraldri vegna kórónuveirunnar (SARS-CoV-2) sem veldur COVID-19-sjúkdómnum. Nú þegar hefur orðið mikill samdráttur í ferðaþjónustu og fleiri atvinnugreinum, bæði hér á landi og erlendis, og ófyrirséð er hve lengi samdrátturinn muni standa yfir. Fyrirséð er að áhrif á ferðaþjónustu, þ.m.t. flugrekstur, verði mikil, m.a. vegna ýmissa takmarkana sem ríki hafa sett á komur erlendra ríkisborgara og ráðlegginga stjórnvalda til fólks um að takmarka ferðalög. Þá er ljóst að faraldurinn mun hafa áhrif á stöðu ríkissjóðs.
    Að auki eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða að því er varðar tímabundna heimild til úttektar á séreignarsparnaði. Þau ákvæði voru kynnt fyrir Landssamtökum lífeyrissjóða. Í frumvarpinu er einnig að finna ákvæði um breytingu á lögum um ríkisábyrgðir og Seðlabanka Íslands vegna ábyrgðar til að auðvelda viðbótarlán lánastofnana til fyrirtækja.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni lagasetningarinnar má rekja til samþykktar ríkisstjórnarinnar hinn 10. mars 2020 um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum af völdum kórónufaraldursins. Útbreiðsla veirunnar og ráðstafanir til að hamla útbreiðslu hennar hafa þegar haft áhrif á efnahagslífið og samfélagið allt og búast má við að þau áhrif muni aukast. Fyrirhugaðar aðgerðir miða að því að draga úr tjóni, tryggja að neikvæð áhrif á atvinnulíf og efnahag vari sem skemmst og skapa aðstæður fyrir öfluga viðspyrnu í kjölfarið. Meðal þeirra aðgerða sem kynntar voru er að fyrirtækjum sem lenda í tímabundnum rekstrarörðugleikum vegna tekjufalls verði veitt svigrúm, t.d. með lengri fresti til að standa skil á sköttum og opinberum gjöldum. Þá var ákveðið að horfa til tímabundinnar niðurfellingar tekjuöflunar sem er íþyngjandi fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu, t.d. gistináttaskatt. Að auki var lögð áhersla á að gripið yrði til ráðstafana sem örvað gætu einkaneyslu og eftirspurn, t.d. með skatta- eða stuðningsráðstöfunum.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er að finna eftirfarandi tillögur að lagabreytingum:
          Greiðslufrestur á allt að þremur greiðslum staðgreiðslu og tryggingagjalds á tímabilinu 1. apríl 2020 til 1. desember 2020.
          Heimild til ráðherra um að fella niður eða lækka fyrirframgreiðslu á tekjuskatti atvinnureksturs.
          Sérstakur barnabótaauki að fjárhæð 40.000 kr. með hverju barni innan 18 ára aldurs sé tekjuskattsstofn einstæðs foreldris og þess hjóna eða sambúðaraðila sem hærri hefur tekjur undir 11.125.045 kr. við álagningu ársins 2020 og 20.000 kr. sé hann yfir þeim mörkum.
          Tímabundin niðurfelling tollafgreiðslugjalds vegna skipa og flugvéla til og með 31. desember 2021.
          Gjalddögum aðflutningsgjalda vegna uppgjörstímabila frá mars 2020 og út árið hjá þeim aðilum sem njóta greiðslufrests á aðflutningsgjöldum verði dreift á tvo gjalddaga með heimild til færslu alls innskatts viðkomandi tímabils þótt einungis hluti hans hafi verið greiddur.
          Heimild til að endurgreiða mannúðar- og líknarfélögum, íþróttafélögum, björgunarsveitum og slysavarnadeildum o.fl. 100% þess virðisaukaskatts sem þau hafa greitt af vinnu manna vegna byggingar, viðhalds eða endurbóta á mannvirkjum sem alfarið eru í eigu þeirra, svo og virðisaukaskatt af þjónustu vegna hönnunar og eftirlits með byggingu slíkra mannvirkja, að tilteknum skilyrðum uppfylltum.
          Heimild til að endurgreiða byggjendum og eigendum íbúðar- og frístundahúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað við byggingu, endurbætur, viðhald og hönnun eða eftirlit þess háttar húsnæðis.
          Heimild til að endurgreiða eigendum og leigjendum íbúðarhúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem greiddur hefur verið vegna heimilisaðstoðar eða reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis.
          Niðurfelling gistináttaskatts á tímabilinu 1. apríl 2020 til og með 31. desember 2021 og frestun á gjalddaga vegna álagðs skatts frá janúar og út mars 2020.
          Tímabundin heimild til úttektar á séreignarsparnaði til og með 31. desember 2020.
          Áður lögfestri þrepalækkun sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki flýtt þannig að strax á árinu 2021 verði gjaldhlutfallið fært niður í 0,145% en að óbreyttu hefði það ekki orðið fyrr en á árinu 2024.
          Við rekstur sveitarfélags þurfi sveitarstjórn ekki að fullnægja þeim tveimur skilyrðum um að samanlögð heildarútgjöld til rekstrar A- og B-hluta í reikningsskilum séu á hverju þriggja ára tímabili ekki hærri en nemur samanlögðum reglulegum tekjum og að heildarskuldbindingar A- og B-hluta í reikningsskilum skv. 60. gr. séu ekki hærri en nemur 150% af reglulegum tekjum árin 2020, 2021 og 2022.
          Sveitarfélög geti frestað gjalddögum fasteignagjalda með þeim hætti að gjalddagar verði færðir til seinni hluta ársins þannig að hvorki reiknaðir vextir né önnur innheimtugjöld muni falla á kröfu sveitarfélagsins.
          Heimild fyrir ríkissjóð til að undirgangast ábyrgðarskuldbindingar í tengslum við samning við Seðlabanka Íslands um að bankinn veiti fyrirgreiðslu til að auðvelda viðbótarlán lánastofnana til fyrirtækja sem orðið hafa fyrir verulegu tekjutapi vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Heimildar vegna þessara ábyrgðaskuldbindinga verður aflað í fjáraukalögum. Ákvæði laga um ríkisábyrgðir munu því ekki gilda um slíkar skuldbindingar gagnvart Seðlabankanum.
          Heimild fyrir Seðlabanka Íslands um að bankanum verði veitt fullnægjandi lagastoð til að semja við ríkissjóð um að stofnunin veiti lánastofnunum stuðning til að þau geti veitt viðbótarlánafyrirgreiðslu til fyrirtækja sem orðið hafa fyrir verulegu tekjutapi vegna heimsfaraldurs kórónuveiru enda ábyrgist ríkissjóður skaðleysi bankans af þeirri efnahagsráðstöfun.
    Eftirfarandi er nánari umfjöllun um meginefni frumvarpsins.

3.1. Greiðslufrestur staðgreiðslu og tryggingagjalds.
    Með lögum nr. 17/2020 um breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og lögum um tryggingagjald var gjalddaga helmings þeirrar staðgreiðslu opinberra gjalda og tryggingagjalds sem var á gjalddaga 1. mars 2020 frestað um mánuð og er eindagi 14 dögum eftir það. Eindagi staðgreiðslu opinberra gjalda og tryggingagjalds hefði að öllu óbreyttu, vegna þess helmings sem frestað hefur verið, orðið 16. mars 2020 en verður 15. apríl 2020 eftir breytinguna. Um tímabundna og almenna einskiptisaðgerð var að ræða. Síðan hefur verið unnið að tillögum að frekari heimild til greiðsludreifingar þeirra fyrirtækja sem eiga við tímabundinn greiðsluvanda að stríða sökum þess ástands sem ríkir vegna útbreiðslu COVID-19.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að launagreiðendur sem eiga í tímabundnum rekstrarörðugleikum vegna tekjufalls geti óskað eftir greiðslufresti á allt að þremur greiðslum í ríkissjóð á afdregnum skatti í staðgreiðslu og á tryggingagjaldi í staðgreiðslu sem falla munu í gjalddaga 1. apríl til og með 1. desember á yfirstandandi ári. Greiðslur sem frestað er falla í gjalddaga og eindaga 15. janúar 2021 enda hafi skilyrði frestunar verið til staðar.

3.2. Heimild til ráðherra til að fella niður eða lækka fyrirframgreiðslu á tekjuskatti atvinnureksturs.
    Lögð er til tímabundin heimild þess efnis að ráðherra geti fellt úr gildi fyrirframgreiðslu ársins 2020 upp í álagðan tekjuskatt rekstraraðila vegna ársins 2019. Með því frestast skattgreiðslan fram að álagningu.

3.3. Sérstakur barnabótaauki.
    Lagt er til að við lög um tekjuskatt, nr. 90/2003, bætist ákvæði til bráðabirgða sem kveður á um sérstakan barnabótaauka að fjárhæð 40.000 kr. með hverju barni innan 18 ára aldurs sé tekjuskattsstofn einstæðs foreldris og þess hjóna eða sambúðaraðila sem hærri hefur tekjur undir 11.125.045 kr. við álagningu ársins 2020 og 20.000 kr. sé hann yfir þeim mörkum. Um einskiptisaðgerð er að ræða og er lagt til að Skatturinn ákvarði bæturnar við álagningu opinberra gjalda á árinu 2020.

3.4. Tollafgreiðslugjald.
    Í 195. gr. tollalaga, nr. 88/2005, er heimild fyrir tollyfirvöld til þess að innheimta ýmis gjöld fyrir veitta þjónustu. Skv. 1. tölul. 1. mgr. 195. gr. laganna er heimilt að innheimta tollafgreiðslugjald vegna tollafgreiðslu skipa og flugvéla utan almenns afgreiðslutíma. Gjaldið skal standa undir launakostnaði vegna tollafgreiðslunnar. Í frumvarpi þessu er lagt til að tollafgreiðslugjald verði ekki innheimt til og með 31. desember 2021.

3.5. Aðflutningsgjöld.
    Í kjölfar fjármálahrunsins haustið 2008 var gjalddögum aðflutningsgjalda fjölgað tímabundið með ákvæði til bráðabirgða. Gildistími þeirrar bráðabirgðareglu sem fólst í ákvæðinu var reglulega framlengdur með nokkrum breytingum. Regluna mátti finna í ákvæðum til bráðabirgða II og III, V–XII og XIV í tollalögum, nr. 88/2005. Henni fylgdi breyting á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, sem kallaðist á við bráðabirgðaregluna á þann hátt að þeim aðilum sem nutu greiðslufrests samkvæmt bráðabirgðareglunni var heimilað að færa innskatt á virðisaukaskattsskýrslu þrátt fyrir að hann hefði aðeins verið greiddur í ríkissjóð að hluta. Slíkt ákvæði kemur meðal annars fram í ákvæði til bráðabirgða XXXI í lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, en tilgangur þess var að tryggja að skipting gjalddaga aðflutningsgjalda samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XIV í tollalögum hefði ekki áhrif á innskattsrétt viðkomandi aðila. Upphafleg ástæða þess að bráðabirgðareglan var felld inn í tollalög var að nauðsynlegt þótti að bregðast tímabundið við þörf á gjaldaaðlögun fyrirtækja vegna gengisfalls, samdráttar og verðbólgu á síðari hluta ársins 2008. Litið var svo á að reglan fæli í sér greiðsluaðlögun fyrir atvinnulífið sem gerði fyrirtækjum kleift að dreifa gjalddögum aðflutningsgjalda og vörugjalds. Bráðabirgðareglan rann sitt skeið á enda á árinu 2016.
    Fyrirséð er að mörg atvinnufyrirtæki hafa og munu lenda í tímabundnum rekstrarerfiðleikum í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru uppi í samfélaginu vegna kórónuveirunnar. Sem dæmi má nefna að lyfjafyrirtæki hafa brugðist við tilmælum Lyfjastofnunar um að auka birgðir af nauðsynlegum lyfjum með stækkun pantana vegna faraldursins í samræmi við viðbragðsáætlun almannavarna vegna heimsfaraldurs. Á sama hátt hafa matvælainnflutningsfyrirtæki pantað inn aukið magn á tilteknum vörum sem eru á lista yfir æskilegt birgðahald heimila í inflúensufaraldri. Í ljósi þessara aðstæðna, og þess að þörf er á að bregðast skjótt við til þess að draga úr neikvæðum afleiðingum faraldursins á atvinnulífið, er nú lagt til að tekin verði á ný upp bráðabirgðaákvæði í tollalög sem kveður á um tvískiptingu aðflutningsgjalda í tolli frá og með uppgjörstímabilinu mars–apríl 2020 og út árið. Þá verður samhliða lögð til breyting á lögum um virðisaukaskatt með bráðabirgðaákvæði þar sem kveðið verður á um heimild til færslu alls innskatts viðkomandi tímabils þótt einungis hluti hans hafi verið greiddur.

3.6. Endurgreiðsla virðisaukaskatts til byggjenda og eigenda íbúðarhúsnæðis.
    Byggjendur og eigendur íbúðarhúsnæðis fá samkvæmt gildandi lögum endurgreidd 60% af þeim virðisaukaskatti sem þeir hafa greitt af vinnu iðnaðar- og verkamanna á byggingarstað vegna nýbygginga, endurbóta og viðhalds þess háttar húsnæðis. Ekki er endurgreiddur virðisaukaskattur af byggingarefni eða kaupum á vélavinnu eða sérfræðiþjónustu, t.d. þjónustu verkfræðinga eða arkitekta. Skatturinn afgreiðir þessar endurgreiðslubeiðnir.
    Í ljósi þeirra efnahagsaðstæðna sem þjóðin stóð frammi fyrir í fjármálakreppunni sem hófst árið 2008 var sérstöku bráðabirgðaákvæði bætt við lög um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með lögum nr. 10/2009 þar sem kveðið var á um að endurgreiða skyldi að fullu virðisaukaskatt sem greiddur væri af vinnu við íbúðarhúsnæði, frístundahúsnæði og vegna hönnunar og eftirlits vegna slíks húsnæðis. Sama gilti um húsnæði sem alfarið var í eigu sveitarfélaga eða stofnana og félaga sem alfarið væru í eigu sveitarfélaga. Í greinargerð með frumvarpinu kom m.a. fram að markmið ákvæðisins væri að koma til móts við húsbyggjendur sem ættu í erfiðleikum vegna yfirstandandi efnahagsþrenginga, sporna við svartri atvinnustarfsemi og hvetja til aukinnar starfsemi á byggingarmarkaði. Þá kom fram að almennt væri litið svo á að slík breyting væri líkleg til þess að stuðla að minni undanskotum frá skatti og þar með draga úr svartri atvinnustarfsemi, auk þess sem hækkunin gæti dregið úr greiðslum vegna atvinnuleysisbóta vegna aukinna framkvæmda. Í kjölfarið hleyptu stjórnvöld af stokkunum átakinu Allir vinna í júlí 2010 til að vekja athygli á endurgreiðslu virðisaukaskatts og skattafrádrætti vegna framkvæmda við íbúðarhúsnæði og frístundahús. Átakið þótti gefast vel því verulega dró úr atvinnuleysi og heimili réðust í framkvæmdir og viðhaldsverkefni sem þau hefðu annars ekki gert. Ákvæðið tók í upphafi til vinnu sem innt var af hendi frá 1. mars 2009 til 1. janúar 2011 en var framlengt í áföngum til 1. janúar 2015.
    Í kjölfar hinna alvarlegu en þó tímabundnu áhrifa kórónuveirunnar á samfélagið er lagt til að endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskatts vegna vinnu manna á byggingarstað íbúðarhúsnæðis verði tímabundið hækkað á ný úr 60% í 100% á tímabilinu frá 1. mars 2020 til og með 31. desember 2020. Samhliða hækkun endurgreiðsluhlutfallsins úr 60% í 100% er lagt til að heimild til endurgreiðslu nái einnig til þess virðisaukaskatts sem greiddur hefur verið vegna vinnu manna á byggingarstað frístundahúsnæðis, auk hönnunar eða eftirlits vegna nýbygginga, endurbóta eða viðhalds íbúðar- og frístundahúsnæðis.
    Samhliða þeim breytingum sem lagðar eru til með tímabundinni hækkun endurgreiðsluhlutfalls virðisaukaskatt úr 60% í 100% vegna bygginga, endurbóta eða viðhalds íbúðarhúsnæðis er lagt til að á sama tímabili verði heimilt að endurgreiða eigendum eða leigjendum íbúðarhúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna vegna heimilisaðstoðar eða reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis. Markmið endurgreiðslunnar er að koma enn frekar til móts við heimilin í landinu og verktaka vegna kórónuveirunnar með sértækum aðgerðum í þágu þeirra. Samkvæmt embætti landlæknis liggur jafnframt fyrir að almennt hreinlæti er ein mikilvægasta vörnin gegn smiti af kórónuveirunni. Stuðningur í formi endurgreiðslu virðisaukaskatts til einstaklinga og húsfélaga vegna kaupa á þjónustu í formi heimilisaðstoðar, ræstinga o.fl. getur þannig skipt máli í baráttunni við faraldurinn. Þá hefur ívilnunin einnig þau hliðaráhrif að draga svarta atvinnustarfsemi vegna veitingar þeirrar þjónustu sem um ræðir upp á yfirborðið og styðja enn frekar við atvinnuþátttöku, sérstaklega hjá tekjulægri hópum. Í Svíþjóð hefur verið farin sú leið frá árinu 2007 að veita tiltekinn skattafrádrátt til einstaklinga vegna heimilisaðstoðar (s. rot- och rutavdrag). Í frumvarpinu er lagt til að farin verði sú leið að eigendur og leigjendur íbúðarhúsnæðis geti óskað eftir 100% endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna heimilisaðstoðar eða reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis á tímabilinu til ársloka 2020.

3.7. Endurgreiðsla virðisaukaskatts til mannúðar- og líknarfélaga, íþróttafélaga, björgunarsveita o.fl.
    Í langan tíma hafa félög eða félagasamtök sem starfa að ákveðnu markmiði til almannaheilla og falla undir svokallaðan þriðja geira skipað stóran sess í íslensku samfélagi fyrir þegna landsins, auk þess að vera mikilvægur hluti velferðarþjónustu hér á landi. Hér undir falla t.d. mannúðar- og líknarfélög, íþróttafélög og björgunarsveitir. Undir þriðja geirann fellur starfsemi sem hvorki tilheyrir opinberum rekstri né einkarekstri og hefur ekki hagnað að meginmarkmiði. Félagsaðild er frjáls og þátttaka sjálfboðaliða er að einhverju leyti hluti af starfinu. Að baki starfseminni liggja þannig hugsjónir eða ákveðin hugmyndafræði þar sem aðalmarkmiðið er að vinna að umbótum í þágu almennings og samfélagsins.
    Hér er lagt til að starfsemi tiltekinna félaga sem starfa í þágu almannaheilla, þ.e. mannúðar- og líknarfélög, íþróttafélög, björgunarsveitir, landssamtök björgunarsveita og slysavarnadeilda og einstakar félagseiningar sem starfa undir merkjum samtakanna geti fengið endurgreiddan 100% þess virðisaukaskatts sem þau hafa greitt vegna vinnu manna sem innt er af hendi á tímabilinu 1. mars 2020 til og með 31. desember 2020 vegna byggingar, endurbóta eða viðhalds á mannvirkjum. Um er að ræða virðisaukaskatt sem fellur til af vinnu manna á byggingarstað við byggingu, viðhald eða endurbætur á mannvirkjum sem alfarið eru í eigu þeirra aðila sem falla undir ákvæðið. Á sama hátt skuli endurgreiða þeim aðilum sem falla undir ákvæðið þann virðisaukaskatt sem þeir hafa greitt af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu á slíku mannvirki. Gert er ráð fyrir að Skatturinn annist þessar endurgreiðslur.
    Flest félög sem starfa að almannaheillum og falla undir þriðja geirann, þar á meðal mannúðar- og líknarfélög, íþróttafélög og björgunarsveitir, eru utan virðisaukaskattskerfisins. Af því leiðir að þeim ber ekki að innheimta virðisaukaskatt, þ.e. útskatt, í meginstarfsemi sinni og eiga því ekki rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts í formi innskatts vegna framkvæmda við mannvirkjagerð, svo sem íþróttamannvirki o.fl. Með því endurgreiðslukerfi sem hér er lagt til mun ríkissjóður veita þeim aðilum sem falla undir heimildina tímabundið fjárhagslegan stuðning við uppbyggingu á mannvirkjum fyrir starfsemi sína að tilteknum skilyrðum uppfylltum.

3.8. Gistináttaskattur.
    Gistináttaskattur er sérstakur skattur sem lagður er á sölu gistingar. Skatturinn var lögfestur um mitt ár 2011 og tekinn upp þann 1. janúar 2012, m.a. í þeim tilgangi að afla tekna til að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun fjölsóttra ferðamannastaða, friðlýstra svæða og þjóðgarða. Skatturinn er innheimtur af hverri seldri gistináttaeiningu, þ.e. leigu á gistiaðstöðu í allt að einn sólarhring, þ.m.t. yfir nótt, og er nú 300 kr. fyrir hverja selda einingu.
    Neikvæðra áhrifa kórónuveirunnar er þegar farið að gæta hjá atvinnufyrirtækjum, m.a. í minnkandi eftirspurn, tekjusamdrætti og rekstrarerfiðleikum, sérstaklega í ferðaþjónustu. Fyrir liggur að ferðaþjónustan skapar allt að 40% útflutningstekna þjóðarinnar og er nú rúm 8% af vergri landsframleiðslu. Hótel- og gistiþjónusta skipar þar stóran sess. Í kjölfar faraldursins er nú þegar töluvert um afbókanir hjá hótelum og öðrum fyrirtækjum sem starfrækja gistiþjónustu sem sér ekki fyrir endann á. Tímabundin lokun ytri landamæra Schengen og Evrópusambandsins fyrir ferðamönnum utan sambandsins, ferðabann Bandaríkjanna gagnvart Evrópu og einhliða lokun landamæra í nokkrum Evrópuríkjum gerir það jafnframt að verkum að líklegt er að verulega dragi úr ferðum hingað til lands, m.a. vegna skilgreiningar landa sem hættusvæða og þeirrar skimunar og eftir atvikum sóttkvía sem nú er þörf á að undirgangast í flestum löndum eftir ferðalög á milli landa. Í þessu sambandi hefur meðal annars verið nefnt að afbókanir Bandaríkjamanna vegna ferðabannsins gætu numið allt að þriðjungi allra bókana hér á landi á meðan að ferðabannið varir.
    Til þess að bregðast við þessu og þeim fyrirhugaða samdrætti sem blasir við í greininni er lagt til í frumvarpinu að greiðsla og innheimta gistináttaskatts verði felld niður á tímabilinu 1. apríl 2020 til og með 31. desember 2021. Samhliða þeirri aðgerð er lagt til að skattaðilum verði veitt svigrúm vegna skila á gistináttaskatti sem falla undir tvö fyrstu tímabil ársins og gjalddaga þeirra verði frestað til 5. febrúar 2022. Tímabundin niðurfelling gistináttaskatts og frestun á gjalddaga hans ræður ekki úrslitum ein og sér en mun þó skipta verulegu máli fyrir fyrirtæki í hótel- og gistiþjónustu í landinu.

3.9. Útgreiðsla séreignarsparnaðar.
    Lagt er til að allir sem eiga séreignarsparnað skv. II. kafla laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, sem almennt er laus til útborgunar við 60 ára aldur, örorku eða fráfall rétthafa geti tekið út allt að 12.000.000 kr. fyrir staðgreiðslu og útsvar á grundvelli umsóknar til vörsluaðila. Heimildin gildir frá 1. apríl 2020 til og með 31. desember 2020. Sú heimild sem hér er lögð til er að mestu samhljóða heimild sem var í gildi frá árinu 2009 til ársins 2015 og var lögfest í kjölfar þeirra efnahagslegu áfalla sem dundu yfir íslenskt samfélag á þeim tíma. Í ljósi þeirra efnahagslegu þrenginga sem íslenskt samfélag gengur nú í gegnum hefur verið ákveðið að opna að nýju fyrir heimild rétthafa séreignarsparnaðar og gera þeim kleift að nota þá fjármuni sem þeir eiga í séreignarsparnaði tímabundið að ákveðnu marki. Rökin fyrir þessari tímabundnu ráðstöfun eru til að milda þann samdrátt sem ráðstöfunartekjur ýmissa fjölskyldna kunna að verða fyrir, m.a. í kjölfar skertra tekna eða atvinnumissis.

3.10. Sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki.
    Með lögum nr. 131/2019 sem breyttu lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, nr. 155/2010, var lögfest þrepalækkun á sérstökum skatti á fjármálafyrirtæki, sem í daglegu tali er kallaður bankaskattur, í fjórum jöfnum áföngum á árunum 2021–2024 þannig að hann endar í 0,145% frá og með álagningarárinu 2024. Gert er ráð fyrir því að í frumvarpi þessu verði þeirri þrepalækkun flýtt þannig að strax á árinu 2021 verði gjaldhlutfallið fært niður í 0,145%.

3.11. Sveitarfélög.
    Í tengslum við átak ríkisstjórnar um viðspyrnu við afleiðingum af COVID-19-veirunni fyrir íslenskan efnahag hafa farið fram viðræður við Samband íslenskra sveitarfélaga um aðkomu þeirra og aðgerðir í þágu samfélagsins. Á fundi stjórnar sambandsins þann 16. mars sl. voru lagðar fram ýmsar tillögur og ábendingar í þá veru. Þar var rætt um möguleikann á því að beina þeim tilmælum til sveitarfélaga að framkvæma þær eins og kostur er. Jafnframt hvatti sambandið ríkisstjórn og Alþingi að gera viðeigandi ráðstafanir svo þær yrðu að veruleika. Sú umræða heldur áfram á vettvangi sambandsins og tekur meðal annars mið af þeim aðgerðum sem ríkið grípur til. Í þessu frumvarpi koma fram tvær af þessum tillögum en áfram verður unnið í nánu samstarfi ríkis og sveitarfélaga að útfæra og innleiða fleiri tillögur og aðgerðir sem nýtast sem viðspyrna fyrir íslenskt samfélag.
    Í fyrsta lagi er um að ræða heimild fyrir sveitarstjórnir að víkja tímabundið frá fjármálareglum 1. og 2. tölul. 2. mgr. 64. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, á árunum 2020–2022. Í 2. mgr. 64. gr. er annars vegar kveðið á um jafnvægisreglu sem felur í sér það skilyrði að við rekstur sveitarfélags skuli gæta að því að samanlögð heildarútgjöld til rekstrar A- og B-hluta í reikningsskilum séu á hverju þriggja ára tímabili ekki hærri en nemur samanlögðum reglulegum tekjum. Hins vegar er kveðið á um skuldareglu sem felur í sér að við rekstur sveitarfélags skuli gæta að því að heildarskuldbindingar A- og B-hluta í reikningsskilum séu ekki hærri en sem nemur 150% af reglulegum tekjum sveitarfélagsins. Markmið lagabreytingarinnar er að tryggja að sveitarfélög hafi svigrúm til að ráðast í auknar fjárfestingar og mæta aðsteðjandi vanda í rekstri vegna þeirra óvæntu og skyndilegu aðstæðna sem COVID-19-veiran hefur fyrir íslenskt efnahagslíf og búskap hins opinbera. Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur skilgreint margvíslegar aðgerðir sem geta nýst við að halda uppi atvinnustigi í landinu og tryggja grunnþjónustu. Þar skipta miklu máli aðgerðir til að koma til móts við þarfir atvinnulífs, ekki síst á sviði ferðaþjónustu. Tímabundin heimild sveitarfélaga til að víkja frá fjármálareglum sveitarstjórnarlaga gefur þeim aukið svigrúm til að mæta áskorunum í þeim efnum.
    Í öðru lagi er lagt til að gjaldendum fasteignaskatta skv. c-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, sé heimilt að fresta gjalddögum með sama hætti og með sömu skilyrðum og málsmeðferðarreglum og kveðið er á um í 1.–4. og 8. mgr. ákvæðis til bráðabirgða VI í lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, sbr. 1. gr. frumvarpsins. Gerir ákvæðið þannig ráð fyrir því að sveitarfélögum sé skylt að verða við frestun gjalddaga uppfylli gjaldandi skilyrði frumvarpsins.

3.12. Fyrirgreiðsla til að auðvelda viðbótarlán lánastofnana til fyrirtækja.
    Stefnt er að því að mæla fyrir um að í heimildagrein fjárlaukalaga fyrir árið 2020 að ráðherra verði veitt heimild til að semja við Seðlabanka Íslands um að færa lánastofnunum aukin úrræði til að veita viðbótarlánafyrirgreiðslu til fyrirtækja sem orðið hafa fyrir verulegu tekjutapi vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Gert er ráð fyrir því að Seðlabanki Íslands veiti ábyrgðir til lánastofnana sem þær nýta til að veita viðbótarlán til viðskiptavina sinna sem uppfylla sett skilyrði. Í samræmi við þessa heimild er gert ráð fyrir því að Seðlabanki Íslands veiti lánastofnunum stuðning í formi lánalína eða ábyrgða á veitt viðbótarlán til viðskiptavina sinna sem uppfylla sett skilyrði. Um væri að ræða sérstakt úrræði sem mun ekki falla undir löggjöf um ríkisábyrgðir enda væru ábyrgðir ekki veittar beint af ríkissjóði. Til að taka af allan vafa um að lög um ríkisábyrgðir eigi ekki við ábyrgðarskuldbindingar sem þessar er lagt til að við þau lög bætist nýtt bráðabirgðaákvæði um að ríkissjóði sé heimilt að gera slíkan samning við Seðlabankann, enda eiga þau lög almennt ekki að gilda þegar markmiðið er að veita almennan efnahagslegan stuðning til fyrirtækja. Fjárhagslegt umfang slíkrar ábyrgðarveitingar gagnvart Seðlabankanum yrði jafnframt afmarkað í heimildaákvæði fjáraukalaga.

3.13. Ábyrgðir Seðlabanka Íslands vegna viðbótarlána til fyrirtækja.
    Lagt er til að við lög um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019, verði bætt ákvæði til bráðabirgða þess efnis að bankanum verði veitt fullnægjandi lagastoð til að semja við ríkissjóð um að stofnunin veiti lánastofnunum ábyrgðir til að þau geti veitt viðbótarlánafyrirgreiðslu til fyrirtækja sem orðið hafa fyrir verulegu tekjutapi vegna heimsfaraldurs kórónuveiru enda ábyrgist ríkissjóður skaðleysi bankans af þeirri efnahagsráðstöfun. Gert er ráð fyrir því að Seðlabanki Íslands veiti lánastofnunum stuðning í formi ábyrgða á veitt viðbótarlán til viðskiptavina sinna sem uppfylla sett skilyrði. Í samningi við ríkissjóð verða skilgreind markmið og skilyrði þeirrar ábyrgðar sem veitt yrði.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið felur í sér breytingar á ýmsum lögum vegna aðgerða til að mæta efnahagslegum áhrifum af COVID-19-sjúkdómnum. Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að tillögur þess stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar. Þess var gætt við samningu frumvarpsins að efni þess og framsetning samrýmdust ákvæðum 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar.

5. Samráð.
    Frumvarpið er ekki á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir yfirstandandi löggjafarþing. Í ljósi þess að frumvarpið er lagt fram vegna þeirrar miklu óvissu sem nú ríkir hér á landi og erlendis eftir að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) lýsti yfir heimsfaraldri vegna kórónuveiru (SARS-CoV-2) sem veldur COVID-19-sjúkdómnum og þeirra efnahagsáhrifa sem þegar er farið að gæta vegna þessa hefur ekki gefist svigrúm til hefðbundins samráðs fyrir framlagningu þess á Alþingi.

6. Mat á áhrifum.
    Greiðslufrestur á staðgreiðslu launagreiðenda hefur þau áhrif að fresta útgjöldum launagreiðenda sem nýta munu úrræðið og að ríkissjóður fær að sama skapi tekjur með töf. Ekki liggur fyrir á þessu stigi nánara mat á þeim fjárhæðum sem þannig munu frestast yfir til ársins 2021. Gróflega má ætla að staðgreiðsla þeirra skatta sem um ræðir, tekjuskatts, útsvars og tryggingagjalds, hjá launagreiðendum öðrum en opinberum aðilum, gæti numið um 100 milljörðum kr. samanlagt á þriggja mánaða tímabili. Vegna þeirra skilyrða sem gilda um heimild til frestunar mun þó verða um lægri fjárhæð að ræða sem frestast.
    Tímabundin niðurfelling tollafgreiðslugjaldsins felur í sér að tekjur sem Skatturinn hefur haft vegna tollafgreiðslu skipa og flugvéla utan almenns afgreiðslutíma munu falla niður tímabundið til og með 31. desember 2021. Á árinu 2019 námu tekjur tollstjóra af gjaldtökunni um 450 millj. kr. Þar af námu tekjur vegna tollafgreiðslu flugvéla um 425 millj. kr. og tekjur vegna tollafgreiðslu skipa um 25 millj. kr. Fyrirséð er að töluverður samdráttur verði í fjölda flugferða á næstu mánuðum vegna COVID-19 og því má ætla að með breytingunni verði Skatturinn af um 600 millj. kr. tekjum samtals af tollafgreiðslugjöldum árin 2020 og 2021.
    Tillögur frumvarpsins um niðurfellingu gistináttaskatts og frestun gjalddaga skattsins kemur til með að lækka skatttekjur ríkissjóðs. Í fjárlögum 2020 var gert ráð fyrir 1.280 millj. kr. tekjum af gistináttaskatti og byggði sú áætlun á áþekkum ferðamannafjölda og árið 2019. Neikvæð áhrif kórónuveirunnar eru þegar farin að birtast í fækkun ferðamanna og ljóst að hún verður töluverð á árinu. Talsverð óvissa ríkir um hversu mikill samdrátturinn verður. Fyrirséð er að tekjur af gistináttaskatti lækka frá áætlun fjárlaga samhliða fækkun ferðamanna og hafa þær verið endurmetnar 820 millj. kr. á árinu 2020. Miðað við það mun niðurfelling gistináttaskatts frá og með 1. apríl 2020 til ársloka 2021 lækka tekjur ríkissjóðs á árinu 2020 um 630 millj. kr. og um 950 millj. kr. árið 2021 að viðbættum hliðaráhrifum á virðisaukaskatti. Hér er miðað við að fjöldi ferðamanna taki við sér árið 2021. Frestun gjalddaga skattsins kemur ekki til með að hafa áhrif á skatttekjur en ríkissjóður tapar tekjum af álagi. Þar sem gert er ráð fyrir að gjalddagar gistináttaskatts vegna uppgjörstímabilanna janúar og febrúar annars vegar og mars og apríl hins vegar á árinu 2020 verði frestað til 5. febrúar 2022 munu tekjur vegna uppgjörstímabilanna að fjárhæð 190 millj. kr. færast til ársins 2022.
    Aukin endurgreiðsla virðisaukaskatts, úr 60% í 100%, gerir seljendum þjónustu að öðru óbreyttu kleift að lækka verð í þeim viðskiptum sem um ræðir, ýmist við nýbyggingu eða endurbætur og viðhald á íbúðarhúsnæði eða frístundahúsnæði. Slík verðlækkun eykur eftirspurn eftir byggingarframkvæmdum og er því til þess fallin að sporna við minnkandi umsvifum í hagkerfinu og fækkun starfa af völdum kórónuveirunnar. Jákvæð fjárhagsleg áhrif eru á aðila í byggingarstarfsemi og þeim tengdu greinum sem um ræðir, hönnun og eftirlit með byggingu íbúðar- og frístundahúsnæðis. Á móti þessum jákvæðu áhrifum á byggingarstarfsemi tekur ríkissjóður á sig tekjutap. Tölfræðigögn um endurgreiðslur virðisaukaskatts vegna íbúðarhúsnæðis eru ýmist á rekstrargrunni eða greiðslugrunni. Rekstrargrunnur miðast við framkvæmdatíma en greiðslugrunnur við útgreiðslutíma, eftir að umsókn hefur verið skilað og hún afgreidd. Sé miðað við rekstrargrunn má áætla að 60% endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna íbúðarhúsnæðis hafi numið 8,3 milljörðum kr. árið 2018 og um 11 milljörðum kr. árið 2019. Á þessu tveggja ára tímabili voru yfir 70% endurgreiðslna vegna nýbygginga enda var íbúðafjárfesting mikil. Auk þess að hækka endurgreiðsluhlutfallið í 100% er ráðgert að útvíkka endurgreiðsluheimildir til verkþátta við hönnun og eftirlit og enn fremur til frístundahúsnæðis. Að teknu tilliti til þess má áætla að endurgreiðslur gætu aukist um 8 milljarða kr. vegna framkvæmda á árinu 2020 en einhver hluti þeirrar fjárhæðar mun koma fram í bókhaldi ríkissjóðs síðar þar sem sex ára frestur er gefinn til að skila umsókn um endurgreiðslu.
    Tekjur af aðflutningsgjöldum og vörugjöldum á þessu ári lækka ekki vegna þeirrar breytingar að skipta upp hefðbundnum gjalddögum aðflutningsgjalda. Hins vegar mun innheimtan lækka á þessu ári sem nemur þeim hluta sem frestast fram yfir næstu áramót.
    Tillögum frumvarpsins um heimild til útgreiðslu séreignarsparnaðar er ætlað að koma til móts við einstaklinga vegna þess tímabundna efnahagsvanda sem nú gengur yfir, m.a. vegna skertra tekna eða atvinnumissis. Áhrif þessarar heimildar munu ráðast af umfangi útgreiðslna en um það ríkir töluverð óvissa. Þess ber þó að geta að verði fjármunirnir nýttir nú verða þeir ekki tiltækir síðar sem getur dregið úr ráðstöfunartekjum þessara heimila síðar á ævinni. Hlutfall þeirra sem greiða iðgjald í séreign er hærra meðal tekjuhærri hópa en tekjulægri en á móti vegur að hámark er lagt til á úttektarheimildinni. Um fjórðungur af eignum innlendra séreignardeilda, eða um 200 milljarðar kr., eru innlend innlán og er því ekki gert ráð fyrir að vörsluaðilar eigi í miklum vandkvæðum með að fjármagna útgreiðslur. Af sömu sökum er ekki gert ráð fyrir að úrræðið hafi mikil áhrif á fjármálamarkaði þar sem ekki er gert ráð fyrir að vörsluaðilar séreignarsparnaðar muni þurfa að selja eignir í miklum mæli vegna heimildarinnar. Tekjuskattur og útsvar eru greidd af lífeyrisgreiðslum og gildir það einnig um úttekt séreignarsparnaðar samkvæmt þeirri tímabundnu heimild sem frumvarpið leggur til. Aðgerðin virkar því sem mótvægisaðgerð á tímum tekjufalls samhliða miklum útgjöldum ríkissjóðs. Umtalsverð óvissa er um hversu mörg heimili muni nýta sér heimildina en líklegt er að þau verði mun færri en á árunum 2009–2014. Gróflega má áætla að tekjuskattur af útgreiðslum gæti numið 2 milljörðum kr. og útsvar 1,5 milljörðum kr. samanlagt á árunum 2020 og 2021.
    Gert var ráð fyrir að bankaskattur lækkaði í fjórum jöfnum áföngum og að hann yrði orðinn 0,145% árið 2024. Flýting lækkunarinnar um 3 ár hefur neikvæð áhrif á tekjur ríkissjóðs um 10,6 milljarða kr. árin 2021–2023 þar sem áhrifin eru mest á árið 2021. Þrátt fyrir það eru væntingar um að þessar breytingar hafi jákvæð áhrif á þjóðfélagið þar sem þær gera viðskiptabönkunum betur kleift að styðja við einstaklinga og atvinnulífið í þessari óvissu sem ríkir nú.
    Tillaga frumvarpsins sem heimilar sveitarfélögum að víkja tímabundið frá jafnvægis- og skuldareglu sveitarstjórnarlaga mun hafa þau áhrif að sveitarfélög hafa meiri svigrúm til að ráðast í auknar opinberar framkvæmdir. Ljóst er að það ástand sem nú varir mun hafa miklar afleiðingar á rekstrarumhverfi sveitarfélaga sem munu birtast í tímabundinni lækkun tekna og auknum útgjöldum, svo sem til félagsþjónustu. Hins vegar hefur náðst góður árangur á undanförnum árum í lækkun skulda sveitarfélaga og er ekkert sveitafélag með hærra skuldaviðmið en 150% árið 2018 en fjögur eru með skuldaviðmið á bilinu 120–150%. Augljóst er að þær efnahagshremmingar sem fylgja heimsfaraldri COVID-19 munu hafa veruleg áhrif á fjármál hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, hvað varðar tekjur þeirra, gjöld og skuldastöðu. Ekki verður sagt með vissu hver áhrif frumvarpsins verði á fjármál sveitarfélag. Nefna má þó að með skoðun á einföldum sviðsmyndum um tilteknar prósentuhækkanir skulda og prósentulækkanir tekna sveitarfélaga gætu áhrifin orðið eftirfarandi.
          Við 10% hækkun skulda og 10% lækkun tekna má búast við því að fjöldi sveitarfélaga með skuldaviðmið á bilinu 120–150% verði orðin níu talsins og þrjú með hærra skuldaviðmið en 150%.
          Við 20% hækkun skulda og 20% lækkun tekna má búast við því að fjöldi sveitarfélaga með skuldaviðmið á bilinu 120–150% verði fimm talsins, átta á bilinu 150–200% og þrjú með hærra skuldaviðmið en 200%.
    Varðandi tillögu frumvarpsins um heimildir gjaldenda fasteignaskatts í c-stofni fasteignaskatts að fresta greiðslu gjalddaga eru tekjur sveitarfélaga í umræddum flokki áætlaðir um 27 milljarðar kr. í ár. Sé miðað við að gjalddagar sveitarfélaga séu að jafnaði 9 og 25% gjaldenda í c-stofni fasteignaskatts óska slíkrar frestunar má gera ráð fyrir að heildaráhrif á tekjuflæði geti numið um 700–800 millj. kr. fyrir hvern mánuð.

Fjárhagsáhrif á ríkissjóð af tímabundnum skattabreytingum (millj. kr.) 2020 2021 2022 2023
Sérstakur einskiptis barnabótaauki -3.100
Niðurfelling tollafgreiðslugjalds -200 -400
Niðurfelling gistináttaskatts -630 -950
Aukin endurgreiðsla VSK vegna íbúðar- eða frístundahúsnæðis -6.000 -2.000
Heimild til útgreiðslu séreignarsparnaðar 1.500 500
Lækkun bankaskatts flýtt -5.100 -3.600 -1.900
Samtals -8.430 -7.950 -3.600 -1.900

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. og 2. gr.

    Í ákvæðunum til bráðabirgða er lagt til að launagreiðendur sem eiga í tímabundnum rekstrarörðuleikum vegna tekjufalls geti óskað eftir frestun á allt að þremur greiðslum á afdregnum skatti í staðgreiðslu og á tryggingagjaldi í staðgreiðslu sem eru á gjalddaga 1. apríl til og með 1. desember á yfirstandandi ári. Greiðslur sem frestað er munu þess í stað falla í eindaga 15. janúar 2021 að því gefnu að skilyrði fyrir frestuninni hafi verið uppfyllt á þeim tíma. Hafi greiðslu verið frestað án þess að skilyrði hafi staðið til þess reiknast álag skv. 28. gr. laganna eins og þar er kveðið á um miðað við upphaflegan gjalddaga og eindaga hvers greiðslutímabils, sbr. 14. gr. laganna, sbr. og 10. gr. laga nr. 113/1990.
    Með tímabundnum rekstrarerfiðleikum er átt við þær sérstöku aðstæður sem rekja má beint til COVID-19-veirunnar og fyrirséð er að muni hafa í för með sér verulegan samdrátt í reglubundnum rekstrartekjum (tekjufall). Við mat á því hvort um tekjufall er að ræða er lagt til að miða skuli við a.m.k. þriðjungssamdrátt í rekstrartekjum miðað við sama almanaksmánuð árið á undan. Er hér átt við samdrátt í tekjum af reglulegri starfsemi án tillits til óreglulegra eða tilfallandi tekna svo sem af sölu rekstrarfjármuna eða tekna af eignarhlutum í félögum. Hafi atvinnurekstur launagreiðandans staðið í tvö heil almanaksár eða skemur er honum heimilt að horfa til meðaltekna síðustu 12 mánaða. Eðli máls samkvæmt á við sambærilegt viðmið hafi rekstur staðið skemur en 12 mánuði þegar greiðslufrests er óskað. Hafi rekstur launagreiðandans t.d. hafist um miðjan ágúst 2019 skal við ósk um frestun á greiðslu vegna launatímabilsins mars 2020 miða við meðaltekjur á tímabilinu frá og með september 2019 til og með febrúar 2020. Í öllum tilfellum er átt við tímabilið fram að þeim mánuði (launatímabili) sem fyrst er óskað greiðslufrests fyrir, en ekki að honum meðtöldum.
    Í ákvæðinu er sett fram sú skilgreining að ekki sé í öllum tilvikum um rekstrarörðugleika að ræða þótt tekjufall komi til. Þannig er ekki gert ráð fyrir að launagreiðanda verði heimill greiðslufrestur staðgreiðslufjár ef hann stendur það vel fjárhagslega að hann geti staðið undir rekstrarkostnaði þegar greiðslur vegna kostnaðar falla í gjalddaga. Horfa ber m.a. til stöðu eigin fjár og handbærs fjár við mat á því hvort um rekstrarörðugleika sé að ræða við þær aðstæður sem hér um ræðir. Sé staða launagreiðanda það sterk að telja megi líklegt að hann geti sótt lánsfé á markaði er ekki um rekstrarörðugleika að ræða. Ákvæði frumvarpsins beinast fyrst og fremst að litlum og meðalstórum fyrirtækjum.
    Skilyrði frestunar er að rekstrarörðuleikar launagreiðanda séu tímabundnir vegna þeirra aðstæðna sem nú eru uppi. Er þar átt við að líklegt megi teljast að rekstur taki við sér á ný þegar hinum tímabundnu sérstöku aðstæðum er ekki lengur fyrir að fara í þjóðfélaginu. Jafnframt er átt við að rekstrarörðuleikarnir hafi ekki þegar verið til staðar þegar hinar sérstöku aðstæður komu til. Varanlegir, en ekki tímabundnir, rekstrarörðuleikar teljast vera til staðar ef eigið fé, samkvæmt viðurkenndum reikningsskilaaðferðum, var í árslok 2019 neikvætt um fjárhæð sem var hærri en helmingur innborgaðs hlutafjár. Enda þótt samþykktur ársreikningur 2019 liggi ekki fyrir þegar óskað er greiðslufrests ætti launagreiðanda jafnan að vera ljós staðan á rekstrinum frá einum tíma til annars og hvort hann glímir við varanlega rekstrarörðugleika.
    Fram kemur það skilyrði að ekki sé um að ræða vanskil á sköttum, gjöldum og skattsektum ársins 2019 eða eldri ára í upphafi árs og að skattframtali og lögboðnum fylgigögnum hafi verið skilað til skattyfirvalda. Þannig er dregin sú lína að úrræðið nái aðeins til þeirra launagreiðenda sem fyrir lok árs 2019 hafa staðið skil á gjöldum og skattframtölum til skattyfirvalda. Miðað skal við skuldastöðu eins og hún var í lok ársins, þ.e. 31. desember 2019, en horfa ber eftir atvikum fram hjá vanskilafjárhæðum sem telja má óverulegar að virtri veltu launagreiðanda.
    Launagreiðendur sem telja sig uppfylla skilyrði um greiðslufrestun óska hennar við eða fyrir skil staðgreiðsluskilagreinar fyrir viðkomandi mánuð en við það fellur greiðsla ekki í gjalddaga og eindaga fyrr en 15. janúar 2021. Komi í ljós að greiðslu hefur verið frestað án þess að skilyrði frestunar hafi verið uppfyllt skal til viðbótar greiðslu ákvarða álag og dráttarvexti eftir almennum reglum um vanskil á skatti í staðgreiðslu, en frekari viðurlögum skal launagreiðandinn ekki sæta vegna vanskila þessara. Með ákvæðunum er lengdur sá tími sem má líða þar til vanskilaviðurlögum er beitt á fjárhæð allt að þriggja greiðslna afdregins skatts í staðgreiðslu og tryggingagjalds sem óskað er eftir fresti á og eru á gjalddaga 1. apríl 2020 til og með 1. desember 2020.
    Lagt er til að Skatturinn geti að ósk launagreiðenda veitt aukinn frest og heimild til dreifingar réttlega frestaðra greiðslna. Skilyrði aukins frests og greiðsludreifingar er að launagreiðandi hafi orðið fyrir miklu tekjufalli á öllu árinu 2020. Að jafnaði telst tekjufall vera mikið ef tekjur af reglulegri starfsemi ársins 2020 nema helmingi eða minna af sams konar tekjum ársins 2019. Heimild Skattsins er ekki bundin við helmingslækkun tekna af reglulegri starfsemi milli ára. Hann getur metið aðra þætti eftir því sem við á, svo sem breytingar á rekstri, áhrif tekjusamdráttar á útgjöld og óreglulegar tekjur.
    Sé staðgreiðsla opinberra gjalda ekki greidd á réttum tíma ber að greiða álag skv. 28. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987. Frumvarpið felur í sér að álagi skv. 28. gr. laganna verði ekki beitt vegna þeirra staðgreiðsluskila sem frestað er réttilega, nema til þess komi að greiðsla verði ekki innt af hendi innan aukins frests en þá reiknast álag eingöngu frá frestuðum eindaga og gjalddaga (en ekki upphaflegum). Jafnframt felur frumvarpið í sér að vangreitt tryggingagjald sem frestað er í samræmi við skilyrði laganna beri ekki dráttarvexti fyrr en frá og með 15. janúar 2021.
    Gert er ráð fyrir, verði frumvarpið að lögum, að skil á skilagreinum vegna staðgreiðslu og tryggingagjalds verði að öllu leyti óbreytt og því verði gerð grein fyrir allri staðgreiðslunni og stofni hennar á skilagreinum þrátt fyrir að allt að þremur greiðslum verði frestað eins og lagt er til í frumvarpinu.

Um 3. gr.

    Lagt er til að við bætist ákvæði til bráðabirgða LXII sem heimilar ráðherra að kveða á um niðurfellingu eða takmörkun á skyldu til fyrirframgreiðslu tekjuskatts á árinu 2020 fram að álagningu opinberra gjalda það ár vegna tekna ársins 2019. Nýti ráðherra heimildina mun tekjuskattur utan staðgreiðslu koma í auknum mæli eða alfarið til greiðslu á reglubundnum gjalddögum eftir almenna álagningu opinberra gjalda á árinu 2020.
    Lagt er til að við bætist ákvæði til bráðabirgða LXIII þar sem kveðið verði á um sérstakan barnabótaauka að fjárhæð 40.000 kr. með hverju barni innan 18 ára aldurs sé tekjuskattsstofn, skv. 4. mgr. A-liðar 68. gr., einstæðs foreldris og tekjuhærri hjóna eða sambúðaraðila undir 11.125.045 kr. við álagningu ársins 2020 og 20.000 kr. sé hann yfir þeim mörkum. Um einskiptisaðgerð er að ræða og er gert ráð fyrir því að Skatturinn ákvarði bæturnar við álagningu opinberra gjalda á árinu 2020.

Um 4. og 5. gr.

Um a-lið 4. gr.
    Lagt er til að við bætist ákvæði til bráðabirgða XVI þar sem tímabundið verði felld niður heimild tollyfirvalda til þess að innheimta tollafgreiðslugjald vegna tollafgreiðslu flugvéla og skipa utan almenns afgreiðslutíma.

Um b-lið 4. gr. og c-lið 5. gr.
    Í b-lið 4. gr. er lagt til að ákvæði til bráðabirgða XVII verði bætt við lögin, sem ætlað er að bregðast tímabundið við greiðsluerfiðleikum fyrirtækja vegna samdráttar í efnahagslífinu í kjölfar kórónuveirunnar. Lagt er til að hefðbundnum gjalddögum aðflutningsgjalda hjá þeim aðilum sem njóta greiðslufrests aðflutningsgjalda vegna uppgjörstímabilanna mars og apríl, maí og júní, júlí og ágúst, september og október og nóvember og desember á árinu 2020 verði dreift á tvo gjalddaga. Samhliða þessum breytingum er lögð til breyting á lögum um virðisaukaskatt, sbr. c-lið 5. gr. frumvarpsins, þar sem lagt er til að við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið verði á um að þetta fyrirkomulag skerði ekki heimild til að færa til innskatts allan virðisaukaskatt viðkomandi tímabils þótt einungis hluti hans hafi verið greiddur. Upphafstími breytingarinnar miðast þannig við uppgjörstímabilið mars og apríl sem er á eindaga þann 15. maí næstkomandi.
    Í c-lið 5. gr. er samhliða þeim breytingum sem lagðar eru til í b-lið 4. gr. frumvarpsins lagt til í ákvæði til bráðabirgða XXXV að kveðið verði á um að þeim aðilum sem eiga rétt á tvískiptingu gjalddaga samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XVII í tollalögum verði, þrátt fyrir ákvæði VII. kafla og 7. mgr. 20. gr. laga um virðisaukaskatt, heimilt að færa til innskatts á virðisaukaskattsskýrslu allan virðisaukaskatt vegna viðkomandi uppgjörstímabils þótt einungis hluta af gjaldföllnum virðisaukaskatti hafi á þeim tíma verið skilað.

Um a- og b-lið 5. gr.
    Í 1. mgr. a-liðar ákvæðisins er lagt til að endurgreiðsluhlutfall það sem kveðið er á um í 2. mgr. 42. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, hækki úr 60% í 100% á tímabilinu frá 1. mars 2020 til og með 31. desember 2020. Þá er jafnframt lagt til að heimilt verði að endurgreiða byggjendum og eigendum frístundahúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna við byggingu, endurbætur eða viðhald þess. Með íbúðarhúsnæði er átt við húsnæði sem byggt er samkvæmt skipulagi sem íbúðarhúsnæði. Í því felst að húsnæðið sé ætlað til samfelldrar notkunar á öllum tímum árs, það sé skráð sem íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands og geti gengið kaupum og sölum sem slíkt. Með frístundahúsnæði í ákvæðinu er átt við húsnæði eins og það er skilgreint í lögum um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús, nr. 75/2008, enda sé húsnæðið skráð sem frístundahús hjá fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Eigendur íbúðar- og frístundahúsnæðis fá þannig aðeins virðisaukaskatt endurgreiddan að hann hafi ekki fengist endurgreiddur í formi innskatts, sbr. VII. kafli laga um virðisaukaskatt.
    Í 2. mgr. a-liðar segir að á sama tímabili skuli jafnframt endurgreiða byggjendum og eigendum íbúðar- og frístundahúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu þess háttar húsnæðis. Undir málsgreinina falla þannig kaup á þjónustu sérfræðinga, svo sem arkitekta, verkfræðinga, tæknifræðinga og annarra sambærilegra sérfræðinga, vegna hönnunar eða eftirlits, svo sem verkumsjónar með umræddum framkvæmdum. Undir hönnun getur fallið kostnaður sem fellur til áður en framkvæmdir hefjast og byggingarleyfi hefur verið veitt vegna byggingar íbúðar- og frístundahúsnæðis. Undir hönnun fellur þó ekki kostnaður við gerð deiliskipulags eða aðra skipulagsvinnu eða undirbúning lands til byggingaframkvæmda, þar á meðal við afmörkun byggingarlóða og almenningsrýma. Þá fellur kostnaður af efni og akstri ekki undir ákvæðið.
    Í 3. mgr. a-liðar er lagt til að á tímabilinu 1. mars 2020 til og með 31. desember 2020 skuli endurgreiða eigendum eða leigjendum íbúðarhúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna vegna heimilisaðstoðar eða reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis. Undir hugtakið heimilisaðstoð fellur öll þjónusta sem veitt er innan séreignar íbúðarhúsnæðis, svo sem ræsting og önnur þrif innan séreignar. Með orðunum regluleg umhirða íbúðarhúsnæðis fellur þjónusta sem veitt er utan veggja séreignar íbúðareiganda eða leigjanda, svo sem garðsláttur, trjáklippingar og önnur garðvinna við íbúðarhúsnæði sem ekki verður talin til viðhalds íbúðarhúsnæðis. Að sama skapi eiga skráð húsfélög einnig rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts samkvæmt málsgreininni vegna kostnaðar við reglulega umhirðu í sameign íbúðarhúsnæðis. Fyrir liggur að tilteknir hópar eiga rétt á félagslegum úrræðum á vegum sveitarfélaga að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, svo sem félagslegrar heimaþjónustu, á grundvelli VII. kafli lagaum félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Þá má nefna að á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018, skal fatlað fólk eiga rétt á allri almennri þjónustu ríkis og sveitarfélaga, m.a. svokallaðri notendastýrðri persónulegri aðstoð (NPA). Félagsleg þjónusta er undanþegin virðisaukaskatti, skv. 2. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Úrræðinu er ekki ætlað að koma í stað núverandi félagslegra úrræða sem eru í boði af hálfu ríkis eða sveitarfélaga.
    Markmið úrræðisins er að bregðast við núverandi aðstæðum í samfélaginu með auknum sértækum úrræðum til handa þeim heimilum sem þurfa á aðstoð að halda í formi heimilisaðstoðar o.fl. auk þess að koma til móts við þau fyrirtæki og sjálfstæða verktaka sem sinna slíkri þjónustu fyrir einstaklinga og húsfélög í landinu.
    Í b-lið er lagt til að endurgreiða skuli 100% þess virðisaukaskatts sem mannúðar- og líknarfélög, íþróttafélög, björgunarsveitir og slysavarnadeildir og einstakar félagseiningar sem starfa undir merkjum samtakanna hafa greitt vegna vinnu manna sem innt er af hendi á tímabilinu 1. mars 2020 til og með 31. desember 2020 á byggingarstað við byggingu, viðhald eða endurbætur á mannvirkjum sem alfarið eru í eigu þeirra. Endurgreiðslan skal jafnframt taka til virðisaukaskatts af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu slíkra mannvirkja.
    Undir mannúðar- og líknarstarfsemi fellur m.a. starfsemi sjúkra-, umönnunar- og meðferðarstofnana, dvalar- og vistheimila og sambýla fyrir fatlaða, greiningarstöðva, öldrunarstofnana og stofnana í hliðstæðri starfsemi, Rauða krossins og aðila sem hafa með höndum sambærilega starfsemi, sbr. 7. mgr. 42. gr. laga um virðisaukaskatt og b-lið 8. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga, sbr. 33. gr. reglugerðar nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi.
    Með íþróttafélögum í ákvæðinu er átt við félög sem hafa með höndum íþróttastarfsemi í skilningi 5. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Skilgreina ber hugtakið íþrótt til samræmis við íþróttalög, nr. 64/1998. Íþróttastarfsemi tekur til hverrar þeirrar íþróttar sem stunduð er innan vébanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og Ungmennafélags Íslands, en er þó ekki bundin við að íþróttin sé stunduð á vegum þeirra samtaka. Aðgreining íþróttamannvirkja frá mannvirkjum til annarra nota er gagnvart ákvæði þessu sú sama og aðgreining við lögboðna skráningu og mat fasteigna og við ákvörðun fasteignaskatts.
    Undir björgunarsveitir, landssamtök björgunarsveita og slysavarnadeilda og einstakar félagseiningar þeirra falla félög, deildir eða félagseiningar sem hafa með höndum starfsemi sem fellur undir lög um björgunarsveitir og björgunarsveitarmenn, nr. 43/2003, sbr. m.a. Slysavarnafélagið Landsbjörg. Með björgunarsveit er átt við félag sem á grundvelli sjálfboðaliðastarfs tekur þátt í björgun, leit og gæslu að beiðni stjórnvalda, sbr. 2. gr. laganna.
    Í 1. mgr. b-liðar segir að endurgreiða skuli virðisaukaskatt sem greiddur hefur verið af vinnu manna á byggingarstað við byggingu, endurbætur eða viðhald á mannvirkjum sem alfarið eru í eigu þeirra aðila sem falla undir ákvæðið. Þannig er eingöngu endurgreiddur virðisaukaskattur af vinnu manna við gerð mannvirkis en ekki af efni eða t.d. vélavinnu, sbr. ákvæði 4. gr. reglugerðar nr. 449/1990 um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði. Á sama hátt er þeim umsækjendum sem falla undir ákvæðið heimilt að óska eftir endurgreiðslu á aðkeyptri þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu mannvirkis. Þá kemur fram það grunnskilyrði að mannvirki sem umsókn tekur til sé alfarið í eigu þeirra umsækjenda sem falla undir ákvæðið. Af skilyrðinu leiðir að eignarhald til að mynda ríkis og/eða sveitarfélaga á mannvirki, beint eða óbeint, í heild eða að hluta, girðir fyrir heimild umsækjanda til endurgreiðslu.
    Í 1. málsl. 2. mgr. b-liðar kemur fram að endurgreiðsla samkvæmt ákvæðinu taki eingöngu til þeirra mannvirkja sem eru að yfirgnæfandi hluta nýtt í þágu meginstarfsemi umsækjanda samkvæmt samþykktum hans, þ.e. skilgreindrar meginstarfsemi hans. Af orðalagi ákvæðisins leiðir að ekki er loku fyrir það skotið að umsækjandi geti í litlum mæli nýtt mannvirkið til annarrar starfsemi en þeirrar sem beinlínis fellur undir meginstarfsemi hans samkvæmt samþykktum. Sem dæmi má nefna að tímabundin eða tilfallandi aðstöðuleiga fyrir viðburði skal ekki ein og sér girða fyrir endurgreiðslu samkvæmt ákvæðinu. Í 2. málsl. 2. mgr. b-liðar er jafnframt tekið sem dæmi að endurgreiðsla taki ekki til íbúðar- og frístundahúsnæðis eða mannvirkja sem einkum eru notuð í atvinnustarfsemi í samkeppni við annan atvinnurekstur. Af skilyrðinu leiðir að endurgreiðslan tekur ekki til virðisaukaskatts af mannvirki, sem t.d. er að mestu leyti ætlað til útleigu fyrir fundi, ráðstefnur, veislur o.fl., eða ef mannvirki er selt á leigu til lengri tíma. Þá er tekið fram í 3. málsl. 2. mgr. að heimild til endurgreiðslu taki ekki til virðisaukaskatts sem heimilt er að telja til innskatts samkvæmt ákvæðum VII. kafla laganna.
    Í 3. mgr. b-liðar eru tiltekin frekari skilyrði fyrir endurgreiðslu virðisaukaskatts samkvæmt ákvæðinu. Í fyrsta lagi er gert að skilyrði að umsækjandi sé skráður í fyrirtækjaskrá Skattsins og sé hvorki í heild eða hluta í opinberri eigu, þ.e. hvorki opinberra hlutafélaga, ríkis, sveitarfélaga eða stofnana né í eigu félags alfarið í þeirra eigu. Af skilyrðinu leiðir að bæði beint og óbeint eignarhald opinberra aðila í umsækjanda girðir fyrir endurgreiðslu.
    Í öðru lagi kemur fram að virðisaukaskattur umsækjanda skuli ekki stafa af kostnaði vegna lögbundinna skyldna opinberra aðila, svo sem lögmæltra verkefna ríkis, sveitarfélaga og/eða félaga eða stofnana alfarið í þeirra eigu vegna byggingar mannvirkis, sbr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011.
    Í þriðja lagi skal samanlögð fjárhæð endurgreidds virðisaukaskatts og styrks frá opinberum aðilum vegna framkvæmdar við það mannvirki sem umsókn tekur til ekki vera hærri en heildarfjárhæð vinnu við framkvæmdir. Ef umsækjandi hefur móttekið styrk eða önnur fjárframlög vegna byggingar mannvirks frá opinberum aðilum, eða fyrir liggur að umsækjandi eigi rétt á slíkum greiðslum, skal umsækjandi gera grein fyrir þeim fjárhæðum á umsókn um endurgreiðslu.
    Í fjórða lagi er kveðið á um að umsækjandi skuli haga bókhaldi sínu þannig að unnt sé að hafa eftirlit með því að virðisaukaskattur verði leiðréttur ef breyting verður á forsendum fyrir endurgreiðslu skv. 4. mgr.
    Í fimmta lagi er gerð sú krafa að umsækjandi sé ekki í vanskilum við opinbera aðila vegna opinberra gjalda eða afdreginna iðgjalda til lífeyrissjóða. Gerð er krafa um að sýnt sé fram á slíkt með staðfestingu á skuldastöðu við opinbera aðila og lífeyrissjóði þegar umsókn er send til Skattsins.
    Í 4. mgr. b-liðar kemur fram það skilyrði að verði breyting á forsendum endurgreiðslu innan tíu ára frá því að framkvæmd fór fram, svo sem ef viðkomandi mannvirki er selt eða tekið til annarrar notkunar en varðar meginstarfsemi umsækjanda samkvæmt samþykktum hans, skuli umsækjandi leiðrétta virðisaukaskatt og endurgreiða ríkissjóði þá fjárhæð sem hann hefur móttekið vegna þess mannvirkis sem umsókn tekur til. Nauðsynlegt er að kveðið sé á um að mannvirki verði nýtt fyrir skilgreinda starfsemi umsækjanda í tiltekinn tíma frá því að endurgreiðsla fór fram og skyldu til endurgreiðslu verði mannvirki síðar selt eða tekið til annarra nota sem ekki varða skilgreinda starfsemi samkvæmt samþykktum þess. Gert er ráð fyrir að um önnur skilyrði og um framkvæmd að öðru leyti gildi ákvæði IV. kafla reglugerðar nr. 192/1993 um innskatt, þar á meðal um fyrningu á leiðréttingarskyldu.
    Í 5. mgr. b-liðar er kveðið á um að ráðherra sé heimilt að setja reglugerð um framkvæmd endurgreiðslu samkvæmt ákvæðinu.
    Gert er ráð fyrir að ákvæðið komi til endurskoðunar fyrir 31. desember 2020.

Um 6. gr.

    Í 1. mgr. a-liðar ákvæðisins er lagt til að á tímabilinu 1. apríl 2020 til og með 31. desember 2021 skuli ekki innheimta gistináttaskatt. Í 2. gr. laga um gistináttaskatt, nr. 87/2011, kemur fram að greiða skuli gistináttaskatt af hverri seldri gistináttaeiningu eftir því sem nánar er kveðið á um í lögunum. Þá segir í 4. gr. laganna að öllum þeim sem selja gistináttaeiningar skv. 1. mgr. 2. gr. beri skylda til að innheimta og standa skil á skattinum. Af 1. mgr. ákvæðisins leiðir að öll sala á gistingu sem á sér stað á því tímabili sem kveðið er á um í 1. mgr., þ.e. frá 1. apríl 2020 til og með 31. desember 2021, ber ekki gistináttaskatt.
    Í 2. mgr. a-liðar er að finna lagaskilaákvæði. Þar kemur fram að fari afhending gistiþjónustu fram eftir 31. mars 2020 skuli ekki innheimta gistináttaskatt á því tímabili sem um ræðir í 1. mgr. Þetta gildir án tillits til þess hvort samningur um sölu gistiþjónustu hafi verið gerður fyrir 1. apríl 2020 eða eftir það tímamark. Í 7. gr. laga um gistináttaskatt kemur fram að ákvæði laga um virðisaukaskatt skuli gilda um aðra framkvæmd laganna, eftir því sem við getur átt. Leiki vafi á um skattskyldu ber þannig að miða við þá meginreglu 13. gr. laga um virðisaukaskatt, sbr. 1. mgr. 20. gr. sömu laga, að afhending þjónustunnar hafi farið fram eigi síðar en við útgáfu reiknings en hafi reikningur verið gefinn út fyrir raunverulega afhendingu telst hún engu að síður hafa farið fram á útgáfudegi reikningsins, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga um virðisaukaskatt. Því ber seljendum gistiþjónustu sem gáfu út reikning eða gefa út sölureikning fyrir 1. apríl 2020 vegna gistiþjónustu sem neytt verður frá því tímamarki að innheimta og skila gistináttaskatti vegna þeirrar sölu. Sama regla en með öðrum formerkjum gildir um sölu gistiþjónustu sem neytt verður eftir 31. desember 2021.
    Í b-lið er lagt til að þrátt fyrir 2. mgr. 5. gr. laganna, þar sem kveðið er á um gjalddaga gistináttaskatts, skuli gjalddagi skattsins vegna uppgjörstímabilanna janúar og febrúar annars vegar og mars og apríl hins vegar á árinu 2020 vera 5. febrúar 2022.
    Gjalddagi uppgjörstímabilsins janúar og febrúar 2020 ætti að öllu óbreyttu að vera 6. apríl næstkomandi og gjalddagi uppgjörstímabilsins vegna mars og apríl 5. júní næstkomandi, þ.e. sömu gjalddagar og vegna skila virðisaukaskatts hjá skattaðila. Verði frumvarpið að lögum er gjalddagi beggja tímabilanna færður til 5. febrúar 2022. Um er að ræða tímabundna og almenna einskiptisaðgerð. Með ákvæðinu er sá tími jafnframt lengdur sem má líða án þess að vanskilaviðurlögum sé beitt. Af því leiðir að ekki ber að beita viðurlögum skv. 6. gr. laganna fyrr en eftir gjalddaga 5. febrúar 2022.

Um 7. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að gerð verði breyting á ákvæði til bráðabirgða VIII í lögum nr. 129/1997 og útgreiðsla séreignarsparnaðar heimiluð að nýju að ákveðnu marki á tímabilinu frá 1. apríl 2020 til 1. janúar 2021, sem alla jafna er ekki laus til útborgunar fyrr en við 60 ára aldur, örorku eða fráfall rétthafa. Breytingin sem lögð er til er að mestu samhljóða eldra ákvæði sama efnis og tók gildi með lögum nr. 13/2009 og gilti, með nokkrum breytingum, allt til 1. janúar 2015. Lög nr. 13/2009 voru upphaflega lögfest í kjölfar þeirra efnahagslegu áfalla sem dundu yfir íslenskt samfélag á þeim tíma. Í ljósi þeirra efnahagslegu þrenginga sem íslenskt samfélag gengu nú í gegnum hefur verið ákveðið að leggja til að opnað verði að nýju fyrir heimild til rétthafa séreignarsparnaðar og gera þeim kleift að nota þá fjármuni sem þeir eiga í séreignarsparnaði tímabundið að ákveðnu marki. Rökin fyrir þessari tímabundnu ráðstöfun eru að milda með þessum hætti þann samdrátt sem ráðstöfunartekjur ýmissa fjölskyldna kunna að verða fyrir, m.a. í kjölfar skertra tekna eða atvinnumissis.
    Lagt er til að allir sem eiga séreignarsparnað geti fengið greitt út allt að 12.000.000 kr. óháð því hvort samanlagður séreignarsparnaður er í vörslu hjá einum vörsluaðila eða fleiri. Gert er ráð fyrir að sú fjárhæð sem heimilt verði að greiða út verði miðuð við stöðu á samanlögðum séreignarsparnaði rétthafa hinn 1. apríl 2020. Hverjum rétthafa verður þannig heimilt að taka út allt 12.000.000 kr. sem greiddar verða út á 15 mánaða tímabili frá því að umsókn barst vörsluaðila. Samkvæmt ákvæðinu styttist útgreiðslutími hlutfallslega ef um lægri fjárhæð er að ræða. Umsóknarfrestur er til 1. janúar 2021 og því getur rétthafi sótt um að fá sparnaðinn greiddan út hvenær sem er á tímabilinu frá og með 1. apríl 2020 til og með 31. desember 2020. Heimildin er óháð eldri lagaákvæðum sama efnis sem og gildandi ákvæðum til bráðabirgða XVI og XVII við lögin og lögum um fyrstu kaup, nr. 111/2016, með síðari breytingum. Rétthafi getur því ráðstafað iðgjöldum sem myndast eftir 1. apríl 2020 til öflunar íbúðarhúsnæðis, að uppfylltum þeim skilyrðum sem um slíka ráðstöfun gilda.
    Áréttað er í frumvarpinu, líkt og var gert í lögum nr. 13/2009, að líta beri á hina tímabundnu útgreiðslu séreignarsparnaðar sem skattskyldar tekjur í hendi rétthafa og að honum beri að greiða staðgreiðslu í samræmi við lög um staðgreiðslu opinberra gjalda. Vörsluaðili mun annast skil á staðgreiðslunni en sú fjárhæð sem eftir stendur þegar staðgreiðslan hefur verið dregin frá dreifist á allt að 15 mánuði nema ef um lægri fjárhæðir er að ræða.
    Óski rétthafi eftir útgreiðslu séreignarsparnaðar er gert ráð fyrir að hann leggi fram umsókn þess efnis hjá þeim vörsluaðila sem heldur utan um séreignarsparnað hans. Rétthafi þarf að gera grein fyrir því hvort hann eigi séreignarsparnað hjá fleiri en einum vörsluaðila og er sá áskilnaður hugsaður til þess að auðvelda eftirlit með því að rétthafar fái ekki greiddar út of háar greiðslur.
    Eftir að útgreiðsla séreignarsparnaðar er hafin getur rétthafi afturkallað beiðni um útgreiðslu. Rétthafi kemur slíkri beiðni á framfæri við vörsluaðila og skal vörsluaðili í framhaldi af slíkri beiðni hætta þeim útgreiðslum sem eftir eru til rétthafa. Beiðni um afturköllun hefur ekki afturvirk áhrif á þær útgreiðslur sem átt hafa sér stað fyrir beiðni um afturköllun.
    Í 5. mgr. ákvæðisins er lagt til ákvæði um að skuldheimtumönnum sé óheimilt að krefjast þess að skuldarar taki út séreignarsparnað sinn samkvæmt ákvæðinu. Vísað er til 2. mgr. 8. gr. laganna í því sambandi en þar er kveðið á um í 2. málsl. að séreignarsparnaður sé ekki aðfararhæfur. Markmiðið með þessu ákvæði er þannig að vernda þennan rétt sem aðilar hafa gegn aðför í lögunum.
    Í 6. mgr. og 7. mgr. er lagt til að Skatturinn hafi eftirlit með útgreiðslu iðgjalda samkvæmt ákvæðinu og að ráðherra geti með reglugerð kveðið nánar á um framkvæmd og fyrirkomulag þessarar tímabundnu heimildar til útgreiðslu séreignarsparnaðar.
    Að lokum er lagt til að útgreiðslur séreignarsparnaðar samkvæmt ákvæðinu skuli ekki koma til skerðingar á barnabótum eða vaxtabótum enda heimildinni ætlað að koma til móts við þá sem eiga í tímabundnum fjárhagserfiðleikum. Í ljósi þess er lagt til að þessar greiðslur komi ekki til skerðingar á barnabótum og vaxtabótum því annars er hætt við að sá ávinningur sem einstaklingar hafa af útgreiðslu séreignarsparnaðarins verði talsvert minni en til stóð. Með sömu sjónarmið að leiðarljósi er einnig lagt til að útgreiðslur séreignarsparnaðar hafi ekki áhrif á bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð auk þess sem þær hafi ekki áhrif á greiðslur húsnæðisbóta samkvæmt lögum um húsnæðisbætur, greiðslur atvinnuleysisbóta skv. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, sbr. 22. gr. laga nr. 22/2006.

Um 8. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að það tímabil sem vörsluaðilum er heimilt að fresta útgreiðslum séreignarsparnaðar, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, verði fært til samræmis við 7. gr. frumvarpsins. Ákvæði þetta á sér fyrirmynd í 27. gr. laga um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði, nr. 128/2011.

Um 9. gr.

    Gert er ráð fyrir því að í frumvarpi þessu verði ákvæði til bráðabirgða III í lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, nr. 155/2010, fellt brott og þeirri þrepalækkun flýtt sem lögfest var með lögum nr. 131/2019, sem breyttu lögum nr. 155/2010 þannig að strax á árinu 2021 verði gjaldhlutfallið fært niður í 0,145% sem að óbreyttu hefði ekki orðið fyrr en á árinu 2024.

Um 10. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að við rekstur sveitarfélags þurfi sveitarstjórn ekki að fullnægja þeim tveimur skilyrðum sem kveðið er á um í 2. mgr. 64. gr. sveitarstjórnarlaga við rekstur sveitarfélags árin 2020, 2021 og 2022. Annars vegar er um að ræða skilyrði að samanlögð heildarútgjöld til rekstrar A- og B-hluta í reikningsskilum skv. 60. gr. séu á hverju þriggja ára tímabili ekki hærri en sem nemur samanlögðum reglulegum tekjum eða það sem nefnt hefur verið jafnvægisreglan. Hins vegar er um að ræða það skilyrði að heildarskuldbindingar A- og B-hluta í reikningsskilum skv. 60. gr. séu ekki hærri en nemur 150% af reglulegum tekjum eða það sem nefnt hefur verið skuldareglan. Bæði skilyrðin eru hluti af þeirri meginreglu sveitarstjórnarréttar sem fram kemur í 1. mgr. 64. gr. og kveður á að um sveitarstjórn ber að sjá til þess að rekstri, fjárfestingum og ráðstöfun eigna og sjóða sé þannig hagað á hverjum tíma að sveitarfélagið muni til framtíðar geta sinnt skyldubundnum verkefnum sínum. Áréttað skal að sveitarstjórnum ber að sjálfsögðu að gæta þess í störfum sínum að fylgja þeim sjónarmiðum sem fram koma í framangreindri reglu þrátt fyrir að tímabundið verði vikið frá skilyrðum 2. mgr. 64. gr. laganna og að ef sveitarstjórn telji að fjármál sveitarfélagsins stefni í óefni ber henni að gera eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga viðvart, sbr. 2. mgr. 77. gr. laganna. Þá er gert ráð fyrir að árið 2023 þurfi rekstur sveitarfélaga að vera þannig að hann fullnægi skilyrðum jafnvægisreglunnar og skuldareglunnar.
    Vinna stendur yfir við endurskoðun á fjármálakafla sveitarstjórnarlaga og má gera ráð fyrir að í því sambandi verði metið hvernig þessi ákvæði eigi að þróast frekar í bráð og lengd, m.a. með hliðjón af þróun í fjármálum hins opinbera og efnahag landsins.

Um 11. gr.

    Ljóst er að mörg fyrirtæki, ekki síst í ferðaþjónustu, horfa fram á mikið tekjufall vegna fækkunar ferðamanna og annarra beinna og óbeinna áhrifa heimsfaraldursins. Markmið og tilgangur ákvæðisins er að veita fyrirtækjum heimild til að óska eftir frestun greiðslna fasteignaskatts með sama hætti og með sömu skilyrðum og kveðið er á um í 1. gr. frumvarpsins. Vísað er því til athugasemda við 1. gr. frumvarpsins við skýringar á skilyrðum þessa ákvæðis.

Um 12. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að nýtt bráðabirgðaákvæði bætist við lög um ríkisábyrgðir sem mælir fyrir um að ríkissjóði sé heimilt að undirgangast ábyrgðarskuldbindingar í tengslum við samning við Seðlabanka Íslands um að bankinn veiti fyrirgreiðslu til að auðvelda viðbótarlán lánastofnana til fyrirtækja, sem orðið hafa fyrir verulegu tekjutapi vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Gert er ráð fyrir að slíkrar heimildar verði aflað í fjáraukalögum fyrir árið 2020 þar sem fjárhagslegt umfang skuldbindingarinnar verður afmarkað. Ákvæði laga um ríkisábyrgðir munu þar af leiðandi ekki gilda um þær ábyrgðarskuldbindingar sem ríkissjóður mun undirgangast með samningi við Seðlabanka Íslands í samræmi við slíkt heimildarákvæði. Er það gert sökum þess að þau lög eiga fyrst og fremst við þegar ríkissjóður veitir ábyrgðir vegna einstakra framkvæmda eða verka en ekki þegar verið að er veita almennan efnahagslegan stuðning til fyrirtækja. Í samningnum við Seðlabankann er jafnframt miðað við að skilgreind verði markmið og skilyrði þeirrar fyrirgreiðslu sem veitt yrði.

Um 13. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að nýtt bráðabirgðaákvæði bætist við lög um Seðlabanka Íslands þar sem bankanum verði veitt fullnægjandi lagastoð til að semja við ríkissjóð um að stofnunin veiti lánastofnunum aukin úrræði til að þau geti veitt viðbótarlánafyrirgreiðslu til fyrirtækja sem orðið hafa fyrir verulegu tekjutapi vegna heimsfaraldurs kórónuveiru enda ábyrgist ríkissjóður skaðleysi bankans af þeirri efnahagsráðstöfun. Gert er ráð fyrir því að Seðlabanki Íslands veiti lánastofnunum aukin úrræði í formi ábyrgða á veitt viðbótarlán til viðskiptavina sinna sem uppfylla sett skilyrði. Í samningi við ríkissjóð verða skilgreind markmið og skilyrði þeirrar ábyrgðar sem veitt yrði. Nánari skýringar má finna í umfjöllun um 12. gr. frumvarpsins.

Um 14. gr.

    Lagt er til að lög þessi öðlist þegar gildi.