Ferill 713. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1221  —  713. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum á sviði sjávarútvegs, fiskeldis og lax- og silungsveiði vegna einföldunar regluverks og stjórnsýslu.

Frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.I. KAFLI
Breyting á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997, með síðari breytingum.
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „botnvörpu, flotvörpu og dragnót“ í 1. málsl. 1. mgr., 1. málsl. 2. mgr., 4. mgr., 7. og 8. mgr. kemur: botnvörpu og flotvörpu.
     b.      1.–48. tölul. 1. mgr. orðast svo:
                  1.      66°27'18,73''N – 22°24'10,19''V Horn (grp. 1)
                  2.      66°07'27,12''N – 21°30'58,14''V Selsker (viti)
                  3.      66°08'04,64''N – 20°10'48,81''V Ásbúðarrif (grp. 2)
                  4.      66°12'04,58''N – 18°51'30,00''V Siglunes (grp. 3)
                  5.      66°10'20,57''N – 17°51'14,76''V Flatey (Skjálfanda) (grp. 4)
                  6.      66°17'59,33''N – 17°07'02,92''V Mánáreyjar (Lágey) (grp. 5)
                  7.      66°30'37,67''N – 16°32'38,58''V Rauðinúpur (grp. 6)
                  8.      66°32'26,03''N – 16°11'47,30''V Rifstangi (grp. 7)
                  9.      66°32'16,91''N – 16°01'52,45''V Hraunhafnartangi (grp. 8)
                  10.      66°22'42,72''N – 14°31'47,69''V Langanes (grp. 11)
                  11.      65°59'54,92"N – 14°37'23,07"V Skálatóarsker
                  12.      65°33'09,98"N – 13°40'21,09"V Almenningsfles
                  13.      65°30'39,80''N – 13°36'16,23''V Glettinganes (grp. 12)
                  14.      65°09'58,45''N – 13°30'37,83''V Norðfjarðarhorn (grp. 13)
                  15.      65°04'37,50''N – 13°29'34,21''V Gerpir (grp. 14)
                  16.      64°58'54,90''N – 13°30'46,40''V Hólmur (Seley) (grp. 15)
                  17.      64°54'04,80''N – 13°36'51,98''V Skrúður (Þursi) (grp. 17)
                  18.      64°35'28,14''N – 14°10'28,86''V Papey (viti)
                  19.      64°23'45,67''N – 14°27'32,81''V Hvítingar (grp. 20)
                  20.      64°14' 23,41"N – 14°57' 37,98" V Stokksnes (grp. 21)
                  21.      64°01'39,04''N – 15°58'37,16''V Hrollaugseyjar (grp. 23)
                  22.      63°47'50,65''N – 16°38'22,59''V Ingólfshöfði (grp. 25)
                  23.      63°43'31,09''N – 17°37'32,76''V Hvalsíki (grp. 26)
                  24.      63°32'23,47''N – 17°55'14,65''V Meðallandssandur I (grp. 27)
                  25.      63°30'24,19''N – 18°00'01,69''V Meðallandssandur II (grp. 28)
                  26.      63°27'43,73''N – 18°09'09,22''V Mýrnatangi (grp. 29)
                  27.      63°23'36,05''N – 18°44'10,16''V Kötlutangi (grp. 30)
                  28.      63°23'32,72''N – 19°07'26,23''V Lundadrangur (grp. 31)
                  29.      63°32'09,00''N – 20°09'18,18''V Bakkafjara (skúr við sæstreng)
                  30.      63°49'23,88''N – 20°58'32,46''V Knarrarós (viti)
                  31.      63°50'33,27"N – 21°24'26,14"V Hafnarnes
                  32.      63°49'16,20''N – 21°39'05,88''V Selvogur (viti)
                  33.      63°49'47,94''N – 22°04'09,12''V Krýsuvíkurberg (viti)
                  34.      63°48'01,68''N – 22°41'51,78''V Reykjanes (aukaviti)
                  35.      63°49'01,21"N – 22°44'17,71"V Önglabrjótsnef
                  36.      63°58'15,18''N – 22°45'08,40''V Stafnes (viti)
                  37.      64°04'54,91"N – 22°43'44,93"V 1. sjm. r/v V af Garðskagavita
                  38.      64°43'41,40''N – 23°48'10,32''V Malarrif (viti)
                  39.      64°44'59,65"N – 23°55'07,33"V Dritvíkurtangi
                  40.      64°51'16,81"N – 24°02'19,59"V Skálasnagi (grp 35)
                  41.      64°53'06,78''N – 24°02'39,48''V Öndverðarnes (viti)
                  42.      65°24'53,94''N – 23°57'08,64''V Skor (viti)
                  43.      65°30'07,00''N – 24°32'12,73''V Bjargtangar (grp. 36)
                  44.      65°48'23,52''N – 24°06'07,72''V Kópanes (grp. 38)
                  45.      66°03'39,84''N – 23°47'33,50''V Barði I (grp. 39)
                  46.      66°25'48,44''N – 23°08'21,56''V Straumnes I (grp. 41)
                  47.      66°28'11,57''N – 22°56'12,07''V Kögur II (grp. 46)
                  48.      66°27'55,63''N – 22°28'21,71''V Horn (grp. 47)
     c.      Orðin „og dragnótar“ í síðari málsl. 6. mgr. falla brott.

2. gr.

    1. mgr. 6. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra getur með reglugerð heimilað veiðar með dragnót, nær landi en um ræðir í 5. gr., skipum sem eru styttri en 42 metrar, enda séu þau með aflvísi lægri en 2.500. Getur ráðherra sett almenn og svæðisbundin fyrirmæli í reglugerð í því skyni að stuðla að hagkvæmri nýtingu fiskstofna, að teknu tilliti til veiða með öðrum veiðarfærum sem stundaðar eru á viðkomandi svæðum. Kveða má á um að aðeins skip af ákveðinni stærð eða gerð veiði á tilteknu svæði. Jafnframt er heimilt að mæla fyrir um að veiðar með dragnót á ákveðnu svæði miðist við nýtingu tiltekinnar fisktegundar.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. mgr. 10. gr. laganna.
     a.      Í stað orðsins „Hafrannsóknastofnun“ í 1. málsl. kemur: Fiskistofa.
     b.      Í stað orðanna „veiðieftirliti Fiskistofu“ í 2. málsl. kemur: Hafrannsóknastofnun.

II. KAFLI
Breyting á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, með síðari breytingum.
4. gr.

    3. málsl. 11. mgr. 6. gr. a laganna fellur brott.

5. gr.

    Í stað orðanna „leyfi til“ í lokamálsl. 7. gr. laganna kemur: heimild til þess með reglugerð.

6. gr.

    Orðin „sem Fiskistofa leggur til“ í 1. málsl. 1. mgr. 17. gr. laganna falla brott.

7. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða VII, VIII, XII og XVI í lögunum falla brott.

III. KAFLI
Breyting á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996, með síðari breytingum.
8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      Orðin „móttakandi afla eða vigtarleyfishafi“ í 2. málsl. 2. mgr. falla brott.
     b.      Orðin „sem Fiskistofa leggur til“ í fyrri málsl. 4. mgr. falla brott.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 14. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „símskeyti“ í 3. og 9. málsl. kemur: tölvubréfi.
     b.      Í stað orðanna „símskeyti hefur borist móttakanda nema að fenginni staðfestingu Fiskistofu“ í 6. málsl. kemur: tölvubréf hefur verið sent móttakanda þar til aflaheimildir fiskiskips hafa verið auknar þannig að það sé ekki í umframaflastöðu.
     c.      Í stað orðsins „símskeytum“ í 8. málsl. kemur: tölvubréfum.
     d.      Á eftir 8. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Útgerð viðkomandi skips er heimilt að skrá netfang móttakanda hjá Fiskistofu fyrir tilkynningar samkvæmt þessari grein en ella fyrirgera rétti til tilkynningar samkvæmt þessari málsgrein.

IV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum.
10. gr.

    10. gr. laganna fellur brott.

11. gr.

    Orðið „símskeyti“ í 1. málsl. 1. mgr. 46. gr. laganna fellur brott.

12. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða I í lögunum fellur brott.

V. KAFLI
Breyting á lögum um stofnun Matvælarannsókna hf., nr. 68/2006, með síðari breytingum.
13. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða I–III í lögunum falla brott.

VI. KAFLI
Breyting á lögum um Rannsóknadeild fisksjúkdóma, nr. 50/1986, með síðari breytingum.
14. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða í lögunum fellur brott.

VII. KAFLI
Breyting á lögum um varnir gegn fisksjúkdómum, nr. 60/2006, með síðari breytingum.
15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „flytja hann inn í landið“ í 1. málsl. kemur: nota hann við veiðar í íslensku veiðivatni.
     b.      Í stað 2. og 3. málsl. kemur einn nýr málsliður, svohljóðandi: Matvælastofnun getur falið umráðamönnum veiðistaða framkvæmd aðgerða samkvæmt þessari grein í samræmi við reglur sem stofnunin setur auk þess að fela tollyfirvöldum framkvæmd aðgerða, eftir því sem við á.

16. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða í lögunum fellur brott.

VIII. KAFLI
Breyting á lögum um Fiskræktarsjóð, nr. 72/2008, með síðari breytingum.
17. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða í lögunum fellur brott.

IX. KAFLI
Breyting á lögum um fiskrækt, nr. 58/2006, með síðari breytingum.
18. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða í lögunum fellur brott.

X. KAFLI
Breyting á lögum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, nr. 151/1996, með síðari breytingum.
19. gr.

    8. mgr. 5. gr. laganna fellur brott.

XI. KAFLI
Breyting á lögum um fiskeldi, nr. 71/2008, með síðari breytingum.
20. gr.

    2. mgr. 9. gr. laganna orðast svo:
    Sé fyrirhuguð starfsemi háð mati á umhverfisáhrifum skal Matvælastofnun fyrir útgáfu rekstrarleyfis kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila og leggja álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar til grundvallar. Matvælastofnun skal taka saman greinargerð um afgreiðslu leyfis þar sem gerð er grein fyrir samræmi milli leyfis og niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum og rökstyðja sérstaklega ef í leyfinu er vikið frá niðurstöðu álitsins. Matvælastofnun skal í greinargerðinni einnig taka afstöðu til tengdra leyfisveitinga þegar tilefni er til ef um það er fjallað í áliti Skipulagsstofnunar. Sé framkvæmd ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt ákvörðun Skipulagsstofnunar skal Matvælastofnun fyrir útgáfu rekstrarleyfis kynna sér tilkynningu framkvæmdaraðila og ákvörðun um matsskyldu og kanna hvort framkvæmdin sé í samræmi við tilkynnta framkvæmd.

21. gr.

    7. mgr. 10. gr. laganna fellur brott.

22. gr.

    Við 3. mgr. 10. gr. a laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Matvælastofnun skal birta ákvörðun sína um útgáfu leyfis innan tveggja vikna frá afgreiðslu þess. Í auglýsingunni skal tilgreina hvar greinargerð um afgreiðslu leyfis er aðgengileg og tilgreina um kæruheimild og kærufrest.

23. gr.

    Við 2. mgr. 14. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Matvælastofnun er heimilt að draga úr tíðni og umfangi upplýsingagjafar hjá rekstraraðilum sem framleiða minna en 20 tonn á ári.

XII. KAFLI
Breyting á lögum um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, nr. 37/1992, með síðari breytingum.
24. gr.

    6. gr. laganna fellur brott.

25. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „kært hana til Fiskistofu sem þá skal, innan tveggja vikna frá lokum gagnaöflunar, leggja rökstuddan skriflegan úrskurð á málið“ í fyrri málsl. 3. mgr. kemur: skotið henni til ráðherra til úrskurðar.
     b.      2. málsl. 3. mgr. fellur brott.
     c.      4. mgr. fellur brott.

26. gr.

    8. gr. laganna orðast svo:
    Nú vill kærandi eigi sætta sig við ákvörðun Fiskistofu um álagningu gjalds samkvæmt lögum þessum og getur hann þá skotið henni til ráðherra til úrskurðar, enda geri hann það innan tveggja vikna frá því að hann fékk vitneskju um ákvörðunina.

27. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      1.–3. málsl. 1. mgr. falla brott.
     b.      2. mgr. fellur brott.

28. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „fer með“ í fyrri málsl. 1. mgr. kemur: álagningu og.
     b.      Í stað tilvísunarinnar „skv. 6. gr.“ í 4. mgr. kemur: skv. 3. mgr. 7. gr.

29. gr.

    13. gr. laganna fellur brott.

30. gr.

    1. mgr. 14. gr. laganna fellur brott.

XII. KAFLI
Gildistaka, lagaskil og brottfallin lög.
31. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó skal 15. gr. ekki öðlast gildi fyrr en 1. janúar 2021.
    Við gildistöku laga þessara falla eftirfarandi lög úr gildi:
     1.      Lög um bátfiski á fjörðum, nr. 6/1888.
     2.      Lög um að miða við gullkrónur sektir fyrir landhelgisbrot, nr. 4/1924.
     3.      Lög um bráðabirgðaútflutningsskýrslur, nr. 53/1935.
     4.      Lög um ostrurækt, nr. 21/1939.
     5.      Lög um róðrartíma fiskibáta, nr. 47/1973.
     6.      Lög um sérstakt útflutningsgjald af loðnuafurðum framleiddum á árinu 1974, nr. 52/1974.
     7.      Lög um samræmda vinnslu sjávarafla og veiðar, sem háðar eru sérstökum leyfum, nr. 12/1975.
     8.      Lög um viðauka við lög nr. 102/1973, um veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni, sbr. lög nr. 14/1974 og lög nr. 72/1975, nr. 73/1975.
     9.      Lög um ráðstafanir í sjávarútvegsmálum, nr. 71/1984.
     10.      Lög um Verðlagsráð sjávarútvegsins, nr. 43/1985.
     11.      Lög um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins, nr. 39/1990.
     12.      Lög um að leggja Þróunarsjóð lagmetisiðnaðarins niður og ráðstafa eignum hans til lagmetisframleiðenda og samtaka þeirra, nr. 44/1990.
     13.      Lög um ráðstafanir vegna aflabrests í loðnuveiðum, nr. 13/1991.
     14.      Lög um viðauka við lög nr. 39 15. maí 1990, um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins, nr. 29/1992.
     15.      Lög um stofnun hlutafélags um Ríkismat sjávarafurða, nr. 91/1992.
     16.      Lög um stofnun hlutafélags um Síldarverksmiðjur ríkisins, nr. 20/1993.
     17.      Lög um ráðstöfun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins til að vega á móti skerðingu þorskveiðiheimilda, nr. 119/1993.
     18.      Lög um viðauka við lög nr. 39/1990 um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins, nr. 88/1994.
     19.      Lög um takmörkun á ráðstöfun síldar til bræðslu, nr. 128/1994.
     20.      Lög um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum, nr. 38/1998.
     21.      Lög um stofnun hlutafélags um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, nr. 98/2000.
     22.      Lög um ráðstöfun fjár úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins, nr. 43/2006.

32. gr.

    Þau mál sem eru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd skv. 6. gr. laga um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, nr. 37/1992, þegar lög þessi taka gildi, skulu til lykta leidd af nefndinni samkvæmt ákvæðum laganna, eins og þau voru áður en lög þessi öðlast gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum í því skyni að einfalda regluverk á sviði sjávarútvegs og fiskeldis, Í frumvarpinu er lagt til að felldir verði brott 22 lagabálkar í heild sinni. Um er að ræða lög sem eru úrelt eða hafa þjónað tilgangi sínum og rétt er að fella brott en æskilegt er að lög sem ekki eru til neinna þarfa verði felld brott úr lagasafninu. Það þykir til einföldunar auk þess sem það er til þess fallið að efla réttarvissu.
    Með frumvarpinu er lagt til að fella brott leyfisskyldu til dragnótaveiða og þess í stað verði ráðherra heimilt að mæla fyrir um dragnótaveiðar með reglugerð. Með þessu má fækka þeim leyfum sem gefin eru út af Fiskistofu.
    Jafnframt er lagt til að úrskurðarnefnd um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla verði felld brott og í staðinn verði heimilt að kæra ákvarðanir Fiskistofu til ráðuneytisins en nefndin hefur fremur fá mál á hendi. Kostnaður af störfum nefndarinnar verður notaður til að styðja við verkefni ráðuneytisins við stjórnvaldsúrskurði.
    Frumvarpið er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu að höfðu samráði við Fiskistofu og Matvælastofnun. Nánar er fjallað um samráð í 5. kafla.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Í sáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að átak verði gert í einföldun regluverks í þágu atvinnulífs og almennings og áhersla lögð á skilvirka og réttláta stjórnsýslu. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið fundaði með nefnd forsætisráðherra um opinberar eftirlitsreglur vorið 2018. Á fundinum kynnti formaður nefndarinnar meðal annars gagnagrunn frá fulltrúum atvinnulífsins í nefndinni, þar sem er að finna ábendingar atvinnulífsins varðandi reglubyrði gildandi laga.
    Í minnisblaði ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til ríkisstjórnar 1. júní 2018 kemur fram að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafi ákveðið að taka ábendingar og tillögur er lúta að málefnasviðum þess til skoðunar og taka afstöðu til þeirra. Jafnframt yrði leitast við að efla rafræna stjórnsýslu í samræmi við markmið sem ríkisstjórnin samþykkti 24. maí 2018. Ráðuneytið sendi í kjölfarið bréf til stofnana og stjórnvalda sem sinna verkefnum á málefnasviðum ráðuneytisins til að kanna möguleika á einföldun og aukinni skilvirkni á verklagi og regluverki þeirra málaflokka. Óskað var eftir athugasemdum hvort heldur er varðar lagasetningu eða reglugerðarbreytingar, verkferla og verklag, rafrænar lausnir og rafrænar gáttir, um það er til einföldunar og bóta gæti talist að mati viðkomandi stofnana og stjórnvalda.
    Hinn 15. mars 2019 héldu ráðherrar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins fund með forstöðumönnum stofnana sem heyra undir ráðuneytið þar sem heildarendurskoðun á eftirlitsreglum ráðuneytisins var kynnt. Í kjölfarið sendi ráðuneytið bréf til stofnananna þar sem fram kemur að í upphafi myndi einföldun afgreiðsluferla vegna leyfisveitinga og bætt þjónusta við leyfisumsækjendur hafa forgang. Hinn 18. júní 2019 skipuðu ráðherrar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins stýrihóp um endurmat eftirlitsreglna sem heyra undir málefnasvið ráðuneytisins. Í stýrihópnum eiga sæti fulltrúar allra stofnana ráðuneytisins, þ.e. fulltrúar Matvælastofnunar, Ferðamálastofu, Fiskistofu, Neytendastofu, Orkustofnunar og Samkeppniseftirlitsins.
    Verkefni stýrihópsins eru eftirfarandi:
     1.      Afmarka og uppfæra tæmandi skrá yfir eftirlitsreglur ráðuneytisins.
     2.      Fylgja eftir staðfestum verk- og tímaáætlunum stofnana.
     3.      Vera vettvangur skoðanaskipta, upplýsingamiðlunar og samráðs við hagsmunaaðila.
     4.      Vera samstarfsvettvangur á milli stofnana þegar kemur að tillögugerð og innleiðingu rafrænna lausna.
     5.      Taka við og stuðla að samþættingu matsgerða frá stofnunum áður en þær eru lagðar fyrir ráðherrana.
     6.      Taka saman mánaðarlegt yfirlit yfir framgang verkefnisins.
    Stýrihópurinn hóf störf í kjölfarið og hefur fundað í fjölmörg skipti. Stýrihópurinn hefur tekið saman skrá yfir eftirlitsreglur ráðuneytisins sem er forsenda markvissrar endurskoðunar á gildandi regluverki. Í því skyni að auka og efla þjónustu við almenning og fyrirtæki með rafrænum lausnum hefur stýrihópurinn unnið með verkefnastofu um stafrænt Ísland. Fulltrúar stýrihópsins hafa skilað ráðherrum verk- og tímaáætlunum en hefur auk þess verið falið að útbúa matsskýrslu þar sem hver eftirlitsregla verði metin og stofnanir fjalli um tækifæri til hagræðingar eða einföldun regluverks. Fyrirhugað er að matsskýrslum verði skilað til ráðherra atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins í apríl 2020.
    Undanfarna mánuði hafa í ráðuneytinu verið að störfum tvö teymi um einföldun regluverks, þ.e. eitt teymi varðandi málefni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og annað teymi varðandi málefni ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Teymunum hefur verið falið það verkefni að rýna regluverk á framangreindum málefnasviðum með einföldun að leiðarljósi auk þess að annast samskipti við stofnanir ráðuneytisins og hagsmunaaðila. Á grunni framangreinds hafa áðurnefnd einföldunarverkefni á vegum ráðuneytisins verið dregin saman og unnin aðgerðaráætlun til næstu þriggja ára. Aðgerðaáætlun um einföldun regluverks á málefnasviði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er skipt í eftirfarandi þrjá áfanga:
          Í fyrsta áfanga er bandormur um breytingu á ýmsum lögum um matvæli, sem mælt var fyrir á Alþingi 4. nóvember 2019 og varð að lögum 17. desember 2019 (lög nr. 144/2019). Lögin snúa meðal annars að einföldun regluverks. Með þeim voru tveir lagabálkar felldir brott og regluverk um matvælakeðjuna einfaldað. Í fyrsta áfanga fólst einnig afnám 1.242 reglugerða á sviði landbúnaðar og sjávarútvegs.
          Í öðrum áfanga eru atriði sem vinna er þegar hafin við og gert er ráð fyrir að ljúki árið 2020. Má þar annars vegar nefna það frumvarp til breytinga á ýmsum lögum sem hér er ræðir og hins vegar breytingar á reglugerðum í því skyni að einfalda regluverkið.
          Í þriðja áfanga er innleiðing tillagna til einföldunar frá stýrihópi um endurmat eftirlitsreglna ráðuneytisins, sbr. framangreint. Gert er ráð fyrir að þriðja áfanga verði lokið eigi síðar en um mitt ár 2021.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Meginefni frumvarpsins er eftirfarandi:
          22 lög eru felld brott í heild sinni.
          Felld er brott leyfisskylda til dragnótaveiða og þess í stað er lagt til að fjallað verði um veiðarnar í reglugerð.
          Felld er brott heimild ráðherra til að veita krókaaflamarksbátum leyfi til að stunda veiðar á botndýrum með þeim veiðarfærum sem til þarf svo og til hrognkelsaveiða í net. Þess í stað er lagt til að fjallað verði um slíkar veiðar í reglugerð.
          Felld er brott úrskurðarnefnd um ólögmætan sjávarafla.
          Felld eru brott úrelt bráðabirgðaákvæði.
          Stjórnsýsla skyndilokana er einfölduð.
          Fella er brott skylda Fiskistofu til að leggja til sérstakar afladagbækur.
          Dregið er úr skýrsluskilum hjá fiskeldisfyrirtækjum sem framleiða minna en 20 tonn á ári.
          Stjórnsýslumeðferð veiðitækja sem notuð hafa verið erlendis er einfölduð.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið hefur hvorki gefið sérstakt tilefni til að meta samræmi við stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, né alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Hinn 16. október 2019 héldu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunar kynningarfund fyrir helstu hagsmunaaðila þar sem verkefni um einföldun regluverks var kynnt. Í kjölfarið voru send út bréf til hagsmunaaðila þar sem óskað var eftir frekara liðsinni við að tryggja einföldun regluverks og betri eftirlitsreglur í íslensku atvinnulífi. Í bréfinu var óskað eftir að ráðuneytinu yrðu sendar forgangsraðaðar umbótatillögur sem lúta að einföldun regluverks og skilvirkari framkvæmd gildandi leyfisreglna.
    Vinna við einföldun regluverks og frumvarp þetta er afrakstur víðtæks samráðs sem haft var við helstu hagsmunaaðila og stofnanir ráðuneytisins, svo sem Fiskistofu og Matvælastofnun, Samtök atvinnulífsins og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi.
    Í athugasemdum Samtaka atvinnulífsins og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi var lögð áhersla á að eftirlit með atvinnustarfsemi verði einfaldað og þeim aðilum fækkað sem heimsækja fyrirtækin og líta eftir tilteknum þáttum í því skyni að draga úr kostnaði. Í því sambandi var m.a. bent á þann möguleika að fækka leyfisskyldri starfsemi. Þannig séu dæmi um að auk almenns leyfis þurfi fyrirtæki sérstök leyfi til tiltekinna þátta starfsemi sinnar. Þann möguleika ætti að kanna að einungis sérstaklega áhættusöm starfsemi yrði leyfisbundin en önnur starfsemi háð tilkynningu, eftir því sem við ætti.
    Nefna má sérstaklega að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi töldu vandséð að útgáfa sérveiðileyfa þjóni nokkrum tilgangi við stjórnun veiða, hvort sem slík sérveiðileyfi varði deilistofna eða þær tegundir sem lúta aflamarki og eru veiddar innan lögsögu. Því sé mikilvægt að halda áfram við þá stefnu að fækka sérveiðileyfum. Ráðuneytið tók þetta til skoðunar og ræddi við Fiskistofu. Fyrir þessari afstöðu eru frambærileg sjónarmið, enda hafa mörg sérveiðileyfi verið felld niður á síðustu árum, einkum þar sem aflamark er undir. Eftir standa sérveiðileyfi vegna dragnótaleyfa, en með frumvarpinu er lagt til að þau verði lögð af. Þá standa eftir sérveiðileyfi vegna uppsjávarstofna. Þar kemur til álita hvaða þýðingu leyfin hafa vegna krafna til veiða á úthafinu samkvæmt samþykktum Norðaustur-Atlantshafs fiskveiðinefndarinnar, NEAFC. Til athugunar er þó að taka upp tilkynningarskyldu í stað veiðileyfis vegna veiða á deilistofnum utan lögsögunnar. Þá komu fram sjónarmið um að í einhverjum tilvikum, einkum um nýja og ókvótabundna stofna, gætu sérveiðileyfi átt rétt á sér.
    Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi benda á mikilvægi þess að framsetning reglugerða verði bætt þannig að auðveldara sé að fá heildarsýn yfir þær reglur sem gilda hverju sinni. Um árabil hefur verið kallað eftir því að reglugerðir verði settar fram með skýrari hætti þannig að breytingar á reglugerðum verði felldar inn í stofnreglugerðir. Ráðuneytið hefur leitað leiða til þess að bregðast við framangreindum ábendingum og haft samband við fulltrúa Stjórnartíðinda sem meðal annars annast birtingu reglugerða. Málið verður tekið til nánari skoðunar innan ráðuneytisins og þess verður óskað að málið verði unnið í samráði við dómsmálaráðuneytið.
    Þá laut ein tillaga Samtakanna að því að skipstjórnarmenn gætu nálgast upplýsingar um gildandi lög og reglur í gegnum siglingatæki til niðurhals, til að mynda varðandi svæðislokanir. Það hefur verið tekið til umræðu en tengist verkefni sem ráðuneytið er að hefja sem miðar að því að allar lokanir svæða og annað þess háttar birtist sjálfvirkt um leið og samþykkt er í kortagrunn skipa.
    Fiskistofa skilaði tillögum til ráðuneytisins sem ákveðið var að bregðast við í frumvarpi þessu, en þær eru að:
     *      afnema skyldu um að leggja til afladagbækur,
     *      breyta dragnótaleyfum með þeim hætti að leyfin endurnýist sjálfkrafa ár hvert og
     *      breyta kröfum um eignarhald í strandveiðiskipum.
    Matvælastofnun skilaði jafnframt tillögum að einföldun regluverks. Stofnunin lagði meðal annars til að skoðuð yrðu ákvæði laga um fiskeldi sem kveða á um að Matvælastofnun geti einungis gefið út leyfi til 4 ára ef sótt er um minni nýtingu en 40% af burðarþoli viðkomandi sjókvíaeldissvæðis. Þá lagði stofnunin til að dregið yrði úr skýrsluskilum hjá rekstraraðilum sem framleiða minna en 20 tonn ár ári en þeim ber að skila mánaðarlega framleiðsluskýrslum líkt og þeim sem framleiða mun meira. Brugðist er við þessum tillögum með frumvarpi þessu.
    Að öðru leyti vísast til athugasemda við einstakar greinar frumvarpsins.
    Loks má nefna að frumvarp þetta var til kynningar í samráðsgátt stjórnvalda á tímabilinu 14.–28. febrúar 2020 (mál nr. S-40/2020) og barst ein umsögn sem var frá Landssambandi veiðifélaga og varðaði breytta tilhögun við sótthreinsun veiðitækja. Er Landssambandið andsnúið tillögunni og telur mikilvægt „að sjúkdómavarnir verði áfram á ábyrgð Matvælastofnunar eða annarra þar til bærra stjórnvalda“, svo sem segir í umsögninni. Vísað er til þess að veiðifélög hafi oft ekki aðstöðu eða forsendur til þess að tryggja að sótthreinsun fari fram og að oft séu veiðifélög ekki í beinu sambandi við veiðimenn áður en þeir koma til landsins fyrir milligöngu ferðaskrifstofa. Farið hefur verið yfir þessar athugasemdir en ekki var ákveðið að hverfa frá tillögunni. Til þess er að líta að flest stærri veiðifélög hafa þegar aðstöðu til að sótthreinsa veiðibúnað fyrir veiðimenn, geta komið sér upp slíkri aðstöðu án mikils tilkostnaðar eða samið við þriðja aðila um að annast sótthreinsun. Oftast fylgir síðan fullnægjandi vottorð um sótthreinsun erlendis frá. Leiðir raunar ekki af frumvarpinu að sú þjónusta sem boðið hefur verið upp á í Leifsstöð og öðrum innflutningsstöðum og frá er sagt í skýringum við 15. gr. leggist af, enda verði áfram eftirspurn eftir henni. Núverandi reglur eru strangari en í nágrannalöndum, fela í sér flókna framkvæmd og ríma ekki að öllu við áhættumat Matvælastofnunar. Þó var ákveðið, til að koma til móts við sjónarmið veiðifélaga, að leggja til að gildistöku þessarar greinar frumvarpsins verði frestað til áramóta 2020–2021 og að Matvælastofnun ráðist í átak með veiðifélögum um kynningu á hinni nýju aðferð.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið felur í sér tillögur að efnisbreytingum á gildandi rétti sem miða að því að efla og einfalda stjórnsýslu sjávarútvegs og fiskeldis, sem og auka skilvirkni stjórnsýslunnar. Áhrif frumvarpsins felast einkum í því að verkefni verða ýmist flutt til innan stjórnsýslunnar, einfölduð eða felld niður þannig að stjórnsýslan verði skilvirkari og markvissari. Gert er ráð fyrir að ein úrskurðarnefnd verði leyst upp en kostnaði af störfum hennar, sem undanfarin ár hefur numið 2–3 milljónum króna á ári, verði ráðstafað til að styrkja aðalskrifstofu ráðuneytisins, þar sem mál þau sem nefndin hefur haft til meðferðar munu koma til úrskurðar, verði frumvarpið að lögum.
    Sá kostnaður sem fellur til með framkvæmd frumvarpsins er leystur innan fjárhagsramma hlutaðeigandi stofnanna og ráðuneytisins. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð verði óveruleg.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Með greininni er lagt til að felld verði brott úr lögunum sérstök heimild til útgáfu leyfa til veiða með dragnót í fiskveiðilandhelgi Íslands. Með þessu má fækka leyfum sem gefin eru út af Fiskistofu. Nokkur dragnótaskip veiða nálægt landi og er nánast sjálfgefið að engin breyting verði á heimildum þeirra, en lagt er til að veiðar með dragnót verði látnar lúta sömu reglum og gilda um flest önnur veiðarfæri svo sem net, línu, handfæri, nót o.fl. Vísast af þessu tilefni til annarra ákvæða laganna, einkum þá 14. gr., þar sem heimilað er að „takmarka“ notkun veiðarfæra. Auk þess til þeirrar tillögu sem gerð er í 2. gr. Ekki er lögð til samskonar breyting um heimildir til veiða með botnvörpu og flotvörpu í fiskveiðilandhelginni. Verði frumvarpsgrein þessi að lögum þarf að gera breytingar á reglugerð um veiðar með dragnót við Ísland, nr. 963/2019.
    Þá er með greininni lagt til að viðmiðunarlína 5. gr. laganna verði uppfærð vegna nýrra mælinga. Með því verði nákvæmni mælingar sú sama og er í lögum um um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn, nr. 41/1979, eins og þeim var breytt með lögum nr. 58, 14. júní 2017. Punktarnir voru hnitsettir af starfsmönnum sjómælingadeildar Landhelgisgæslu Íslands.

Um 2. gr.

    Lagt er til að fyrirmæli 1. mgr. 6. gr. taki breytingum með hliðsjón af því að ekki verði lengur um sérstaka leyfisskyldu að ræða til veiða með dragnót innan 12 sjómílna frá viðmiðunarlínu, sem um er fjallað í 5. gr. laganna. Slík breyting ein og sér rýmkar hvorki né takmarkar heimildir til veiða með dragnót frá því sem nú er. Fjölmargar takmarkanir á veiðum með dragnót hafa verið og eru í gildi. Um þetta vísast til gildandi reglugerðar um veiðar með dragnót við Ísland, nr. 963/2019, þar sem þessum heimildum er lýst og þeim safnað saman.
    Með greininni er einnig lagt til að brott falli fyrirmæli um að heimilt sé að binda leyfi til veiða með dragnót „við ákveðið svæði og að aðeins hljóti leyfi til veiða á tilteknu svæði tiltekinn fjöldi skipa, skip sem skráð eru á því svæði“. Sem og fyrirmæli um að heimilt sé að binda leyfi við „skip sem áður hafa stundað dragnótaveiðar.“ Þykir ekki lengur þörf þessara fyrirmæla, þótt þau hafi haft verulega þýðingu áður en tekin var upp aflamarksstjórn við veiðar á flestum tegundum. Svæðisskipting dragnótaveiða hefur raunar þegar verið afnumin með téðri reglugerð um veiðar með dragnót.

Um 3. gr.

    Með greininni er lagt til að Fiskistofu öðlist þá valdheimild sem Hafrannsóknastofnun hefur haft fram að þessu til að banna tilteknar veiðar tímabundið með skyndilokunum. Þykir þetta hallkvæmt með hliðsjón af verkaskiptingu þessara stofnana, eins og hún hefur þróast. Nánast allar skyndilokanir byggjast á stærðarmælingu eftirlitsmanna Fiskistofu. Ekki er lagt til að eftirlitsmaður á vettvangi mæli fyrir um skyndilokun veiðisvæði, en slík ákvörðun verði tekin af yfirmönnum veiðieftirlits, en jafnframt verði ekki gerð krafa um sólarhringsvakt af hálfu yfirmanna Fiskistofu. Nægjanlegt er að ákvörðun um skyndilokun sé tekin á dagvinnutíma. Hún verði síðan auk Landhelgisgæslunnar tilkynnt til Hafrannsóknastofnunar.
Það athugast að Hafrannsóknastofnun hefur gefið út Handbók um veiðieftirlit á Íslandsmiðum á vegum Fiskistofu, Landhelgisgæslu og Hafrannsóknastofnunar sem hefur að geyma leiðbeiningar fyrir þá sem að skyndilokunum koma, þ.e. eftirlitsmenn og fiskifræðinga. Þá er áfram í höndum Hafrannsóknastofnunar að gera tillögur til ráðherra um viðmiðunarmörk við veiðar á smáfiski, sbr. 3. mgr. 10. gr. laganna.

Um 4. gr.

    Með greininni er lagt til að 3. málsl. 11. mgr. 6. gr. a laga nr. 116/2006 falli brott en með honum er mælt fyrir um að ef eigandi fiskiskips er lögaðili sé heimilt með reglugerð að mæla fyrir um að lögskráðir sjómenn á fiskiskipinu eigi tiltekna lágmarkseignahlutdeild í lögaðilanum. Þetta ákvæði hefur reynst erfitt í framkvæmd. Þegar sótt er um strandveiðileyfi þarf umsækjandi/sá sem ætlar að vera lögskráður á skipið að haka við á vef Fiskistofu að hann eigi hlut í bátnum eða félaginu sem á bátinn. Fiskistofa krefst ekki fylgigagna sem sýna fram á það enda mikill fjöldi umsókna sem þarf að fara yfir á skömmum tíma. Þá hefur af þessum sökum reynst auðvelt að sniðganga ákvæðið með því að leggja til gögn síðar sem sýna fram á að eignarhald sé fyrir hendi. Samkvæmt ábendingu Fiskistofu er því lagt til að regla þessi, sem er óskilvirk, verði felld úr gildi. Eftir sem áður verði í greininni mælt fyrir um að enginn eigenda lögaðila sem á bát með strandveiðileyfi geti átt aðild að nema einu strandveiðileyfi. Breyta þarf reglugerð samhliða því að ákvæði þetta verði fellt brott.

Um 5. gr.

    Lagt er til að heimilt verði með skýrum hætti að mæla með reglugerð fyrir um heimildir krókaaflamarksbáta til veiða með þeim veiðarfærum sem til þarf, svo sem plógum og gildrum, svo og til hrognkelsaveiða í net, án þess að sérstök leyfisveiting komi til hverju sinni. Mun við þetta draga úr fjölda veittra leyfa hjá Fiskistofu.

Um 6. gr.

    Með greininni er lagt til að Fiskistofu verði ekki lengur skylt að leggja til sérstakar afladagbækur. Ástæða þess er sú að nú er verið að ljúka rafvæðingu afladagbóka og óþarft er að Fiskistofa útvegi skipum afladagbækur. Þá er verið að þróa smáforrit fyrir afladagbækur sem stjórnendur fiskiskipa geta nálgast án mikilla vandkvæða. Með þessu er gert ráð fyrir að öll aflaskráning og skil verði rafræn. Þar með verður notkun pappírsbóka hætt og þar af leiðandi þarf Fiskistofa ekki lengur að standa fyrir prentun þeirra.

Um 7. gr.

    Með greininni er lagt til að alls fjögur ákvæði til bráðabirgða við lögin falli úr gildi. Öll voru þessi ákvæði bundin tímamörkum sem eru liðin. Því þykir rétt að fella þau brott.

Um 8. gr.

    Með greininni er lögð til breyting á 2. og 4. mgr. 9. gr. laganna. Í greininni er ráðherra heimilað að setja reglur um hvernig móttakandi afla eða vigtarleyfishafi skuli standa að sýnatöku og útreikningi meðafla við uppsjávarveiðar. Þessi afmörkun þykir of þröng þar sem til dæmis aðgreining síldartegunda (íslenskrar sumargotssíldar og norsk-íslenskrar vorgotssíldar) er framkvæmd á ábyrgð skipstjóra, með sýnatöku um borð í veiðiskipi. Því er lagt til að gildissvið greinarinnar verði rýmkað þannig að geti einnig náð til slíkra tilvika. Jafnframt er lagt til að Fiskistofu verði ekki lengur skylt að leggja til sérstakar afladagbækur. Um nánari skýringar vísast til athugasemda við 6. gr.

Um 9. gr.

    Lagðar eru til breytingar á fyrirmælum 1. mgr. 14. gr. laganna. Með þeirri grein er mælt fyrir um skyldu útgerðar og skipstjóra fiskiskips til að fylgjast með stöðu aflaheimilda skipa sinna með hliðsjón af úthlutuðum aflaheimildum, flutningi aflaheimilda og lönduðum afla auk þess að Fiskistofa skal fylgjast með nýtingu fiskiskipa á aflaheimildum. Bendi upplýsingar Fiskistofu til að skip hafi veitt umfram aflaheimildir sínar í einhverri tegund er stofnuninni skylt að tilkynna það útgerð og skipstjóra með símskeyti og jafnframt svipta skipið leyfi til veiða í atvinnuskyni frá og með fjórða virka degi hafi fullnægjandi aflaheimildir ekki verið fluttar til skipsins innan þess tíma. Gefinn er nokkur frestur til andmæla með greininni, svo sem þar er mælt nánar fyrir um, auk þess að viðtaka símskeytis hefur þá réttarverkan að frá þeim tíma er að óheimilt að stunda veiðar í atvinnuskyni frá hlutaðeigandi skipi.
    Með tilkynningu á vef Fiskistofu dags. 2. október 2019 var upplýst að daginn á undan, 1. október, hefðu símskeytasendingum verið hætt á Íslandi. Hafði Fiskistofu ekki verið kunnugt um þetta. Var útgerðum í framhaldi gefinn kostur á því að fá í staðinn fyrir símskeyti senda tilkynningu frá Fiskistofu um umframaflastöðu skipa með tölvupósti, en greint frá að ella myndi Fiskistofa ekki tilkynna viðkomandi útgerð um umframaflastöðu þar sem það væri ómögulegt. Gæti af því leitt að hin sérstaka málsmeðferðarregla sem sending símskeytanna tryggði, þar sem skip gætu flutt á sig auknar heimildir innan þriggja daga, kæmi ekki til framkvæmdar gagnvart hlutaðeigandi og til greina kæmi að áminna eða eftir atvikum svipta hlutaðeigandi skip leyfi til veiða í atvinnuskyni skv. 15. gr. laganna vegna brota á 2. mgr. 3. gr. laganna.
    Með greininni er lagt til að þessi verklagsregla verði fest í sessi, enda ekki séð að annar kostur sé tækur. Fiskistofu verði með þessu skylt að senda tilkynningu í tölvubréfi til útgerðar fiskiskips sem veiðir umfram aflamark í skilningi greinarinnar. Það verði þó aðeins ef útgerð kýs að skrá netfang móttakanda hjá Fiskistofu fyrir tilkynningar samkvæmt þessari grein en ella fyrirgerir útgerðin/fiskiskipið rétti til tilkynningar samkvæmt þessari málsgrein. Þessi tilkynning er með þessu til hagsbótar fyrir hlutaðeigandi útgerðir, sem með henni geta tryggt sér að þær njóti þeirrar málsmeðferðar sem greinin tryggir með líkum hætti og áður.
    Þá er með greininni lögð til sú breyting að ekki þurfi staðfestingu Fiskistofu svo að skip geti haldið til veiða að nýju, eftir að tilkynning hefur verið send af Fiskistofu, en í staðinn er vísað til þess að fiskiskip, eða útgerð þess, skuli auka aflaheimildir sínar þannig að skip verði ekki í umframaflastöðu. Virðist það eðlileg breyting enda fyrst og fremst á ábyrgð skipstjóra og útgerðar að gæta að aflaheimildastöðu.

Um 10. gr.

    Með 1. mgr. 10. gr. laganna var heimilað að innleysa veiðiréttindi sem skilin höfðu verið frá fasteign fyrir gildistöku laganna (eða öllu heldur laga um lax- og silungsveiði, nr. 6/1932), í allt að fimm ár eftir lögin öðluðust gildi. Þessi frestur rann út árið 2011. Lagt er því til að ákvæðið verði fellt brott, enda hefur það ekki gildi lengur.

Um 11. gr.

    Þar sem ekki er lengur unnt að senda símskeyti hér á landi þykir rétt að taka út tilvísun í 46. gr. laganna til símskeytis, þar sem greint er frá málsmeðferð við arðskrármat.

Um 12. gr.

    Með greininni er lagt til að fyrirmæli um tímabundna samráðsnefnd um framkvæmd laga á sviði lax- og silungsmála verði felld niður. Nefndin skyldi starfa fram til ársins 2010. Hún er löngu aflögð og þykir rétt að fella brott ákvæði um hana.

Um 13. gr.

    Greinin varðar brottfall ákvæða til bráðabirgða sem hafa komið framkvæmdar og þykir því rétt að fella brott.

Um 14. gr.

    Með greininni er lagt til að ákvæði til bráðabirgða við lög frá árinu 1986 verði fellt úr gildi, en með þeim er mælt fyrir um að lögin skuli endurskoðuð innan fimm ára frá því að þau urðu að lögum. Greinin er með þessu óþörf.

Um 15. gr.

    Í 8. gr. laga um varnir gegn fisksjúkdómum, nr. 60/2006, er mælt fyrir um að skylt sé að sótthreinsa veiðitæki sem notuð hafa verið erlendis áður en þau koma inn í landið, enda liggi ekki fyrir fullnægjandi vottorð um sótthreinsun að mati Matvælastofnunar. Flest veiðitæki koma til landsins um Leifsstöð. Nokkuð er um að þau hafi ekki verið sótthreinsuð fyrir innflutning og þeim fylgi ekki tilskilin vottorð. Alls voru sótthreinsuð veiðitæki frá rúmlega sex hundruð manns í Leifsstöð á síðasta ári. Þetta eru ekki síst veiðitæki Íslendinga sem koma úr styttri veiðiferðum erlendis frá og hafa lítinn tíma til að afla vottorðs um sótthreinsun. Í Leifsstöð er framkvæmdin í höndum verktaka sem starfar fyrir ISAVIA og er tekið hóflegt gjald fyrir. Veiðibúnaður er sótthreinsaður við aðrar flughafnir og innflutningshafnir. Nefna má að við höfnina í Seyðisfirði sinna tollayfirvöld eftirliti og sótthreinsun en á Akureyri annast einkaaðili sótthreinsun. Matvælastofnun hefur sinnt eftirliti með þessari framkvæmd og gefið leiðbeiningar. Auk þessa hafa starfsmenn Matvælastofnunar sótthreinsað nokkra tugi veiðitækja á hverju ári sem komist hafa inn í landið eða borist með öðrum hætti, svo sem með skipum, einkaflugvélum eða í pósti, enda fylgi þeim ekki fullnægjandi vottorð um sótthreinsun. Lagar framkvæmdin sig með þessu að ólíkum aðstæðum, en athuga má að í lögum er ekki beinum orðum gert ráð fyrir því að Matvælastofnun annist framkvæmd við sótthreinsun veiðibúnaðar.
    Með greininni, sem samin er að höfðu samráði við Matvælastofnun, er lagt til að skylt verði að sótthreinsa veiðibúnað í síðasta lagi áður en hann er notaður til veiða í íslensku veiðivatni, enda liggi ekki fyrir fullnægjandi vottorð að mati Matvælastofnunar um að búnaðurinn hafi verið sótthreinsaður erlendis. Þá er lagt til að Matvælastofnun geti falið umráðamönnum veiðistaða framkvæmd aðgerða samkvæmt þessari grein í samræmi við reglur sem stofnunin setur. Með þessu er leitast við að einfalda framkvæmd þessarar sótthreinsunar um leið og aukin ábyrgð er seld í hendur veiðimanna sjálfra og umráðamanna veiðistaða sem eiga hagsmuna að gæta af vörnum gegn fisksjúkdómum. Er gert ráð fyrir að Matvælastofnun kynni þessa framkvæmd og veiti nánari leiðbeiningar um framkvæmd hennar. Með þessu er lagt til að sams konar reglur verði teknar upp, á grundvelli áhættumats, og hafa gilt í nágrannaríkjunum Noregi og Færeyjum um árabil. Tekið skal fram að með þessu er ekki lagt til að minni kröfur verði gerðar um sótthreinsun, heldur aðeins að framkvæmd hennar verði önnur þannig að hún verði seld í hendur þeim sem nær standa veiðimönnum og geta betur tryggt virkni hennar.

Um 16. gr.

    Með greininni er lagt til að fyrirmæli um tímabundna samráðsnefnd um framkvæmd laga á sviði lax- og silungsmála verði felld niður. Nefndin skyldi starfa fram til ársins 2010. Hún er löngu aflögð og þykir rétt að fella brott ákvæði um hana.

Um 17. gr.

    Með greininni er lagt til að ákvæði til bráðabirgða um skipun fyrstu stjórnar Fiskræktarsjóðs árið 2009 verði fellt úr gildi, þar sem ákvæðið hefur ekki þýðingu lengur.

Um 18. gr.

    Með greininni er lagt til að fyrirmæli um tímabundna samráðsnefnd um framkvæmd laga á sviði lax- og silungsmála verði felld niður. Nefndin skyldi starfa fram til ársins 2010. Hún er löngu aflögð og þykir rétt að fella brott ákvæði um hana.

Um 19. gr.

    Með greininni er lagt til að heimild ráðherra til að veita íslenskum skipum leyfi til veiða á íslenskum deilistofnum utan íslenskrar fiskveiðilögsögu, þótt þau hafi ekki almennt leyfi til veiða í atvinnuskyni til veiða lögsögunni, verði felld brott. Þessi heimild kom í lög á þeim tíma sem verulegar takmarkanir voru á útgáfu leyfa til veiða innan lögsögunnar til að hamla óþarfri stækkun fiskveiðiflotans en þeim takmörkunum hefur verið aflétt fyrir alllöngu. Því er ákvæðið óþarft og úrelt. Um veitingu leyfa til veiða á alþjóðlegu hafsvæði fer eftir sem áður eftir ákvæðum 4. gr. laganna sem og raunar einnig ákvæðum laga um stjórn fiskveiða eftir því sem við á, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna.

Um 20. gr.

    Með greininni er lagt til að 2. mgr. 9. gr. laga um fiskeldi verði breytt til samræmis við 2. og 3. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum. Ákvæði 2. mgr. 9. gr. laga um fiskeldi er ekki í fullu samræmi við 2. og 3. mgr. 13. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Ákvæði 2. og 3. mgr. 13. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum fjalla um leyfisveitingu þeirra framkvæmda sem falla undir gildissvið laga um mat á umhverfisáhrifum. Með lögum nr. 96/2019 var fyrrnefndri 13. gr. laga breytt í samræmi við breytingu á 8. gr. tilskipunar 2011/92/ESB, sem framangreind ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum byggjast á, sem gerð var með tilskipun 2014/52/EB. Ekki er um að ræða efnisbreytingu á ákvæðinu heldur orðalagsbreytingu.

Um 21. gr.

    Með greininni er lagt til að 7. mgr. 10. gr. laga um fiskeldi verði felld brott. Með henni er mælt fyrir um að gefi Matvælastofnun út rekstrarleyfi til sjókvíaeldis sem geri ráð fyrir minni nýtingu en 40% af burðarþoli viðkomandi sjókvíaeldissvæðis skuli þau einungis veitt til tiltekins tíma, allt að fjórum árum. Heimilt er að endurnýja slíkt leyfi í fjögur ár í senn, eftir því sem segir í ákvæðinu, en liggi við lok leyfistíma fyrir fleiri en ein umsókn um rekstrarleyfi á umræddu svæði og þær uppfylli skilyrði laganna skuli stofnunin gefa út rekstrarleyfi til þess umsækjanda sem „nær hagkvæmastri nýtingu á svæðinu með tilliti til burðarþols.“ Þó er heimilt, svo sem segir í lok ákvæðisins, „að endurnýja fyrra leyfi sem ekki er með hagkvæmasta nýtingu ef munur á nýtingu er óverulegur.“
    Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun hefur þetta ákvæði valdið erfiðleikum í framkvæmd. Í tilvikum þar sem reynt hefur á þetta ákvæði hefur komið upp sú staða að tvö fyrirtæki fullnýta tiltekið svæði. Annað er með um 61 % nýtingarinnar og hitt með um 39% nýtingarinnar. Við þær aðstæður fær síðara fyrirtækið einungis leyfið í 4 ár í senn með tilheyrandi vandkvæðum, það er óvissu í rekstri til lengri tíma. Alla jafna eru rekstrarleyfi hins vegar gefin út til 16 ára í senn. Rétt þykir með vísan til athugasemda Matvælastofnunar að leggja til að fella ákvæðið úr gildi þar sem það skapar aukið flækjustig og veldur óvissu, sem áður segir.

Um 22. gr.

    Með greininni er lagt til að tveir nýir málsliðir bætir við 10. gr. a um að Matvælastofnun birti ákvörðun sína um útgáfu leyfis innan tveggja vikna frá afgreiðslu þess. Jafnframt er kveðið á um að í auglýsingu skuli tilgreina hvar greinargerð um afgreiðslu leyfis er aðgengileg og tilgreina um kæruheimild og kærufrest. Ákvæðið byggir á 4. mgr. 13. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Með þessu er tryggt að Matvælastofnun fari að þeim málsmeðferðarreglum sem mælt er fyrir um í lögum um mati á umhverfisáhrifum við útgáfu leyfa til fiskeldis.

Um 23. gr.

    Með greininni er lagt til að dregið verði úr tíðni skyldu til upplýsingagjafar til Matvælastofnunar skv. 1. og 2. mgr. laga um fiskeldi (framleiðsluskýrslur) hjá rekstrarleyfishöfum sem hafa litla framleiðslu og er lagt til að miðað verði við 20 tonn á ári. Að áliti Matvælastofnunar er ekki þörf jafn ítarlegrar eða jafn tíðrar upplýsingagjafar hjá þessum aðilum og hjá stærri aðilum í fiskeldi sem framleiða margfalt það magn. Fallast verður á þetta, en athuga verður að skylda til upplýsingagjafar nær til allrar fiskeldisstarfsemi, hvort sem er á sjó eða landi og óþarflega íþyngjandi er að hafa svo tíða og ítarlega upplýsingagjöf hjá smærri aðilum sem hjá þeim stærri. Með greininni verður Matvælastofnun því heimilt að draga úr skýrsluskilum hjá rekstrarleyfishöfum sem framleiða minna en 20 tonn á ári og getur ákvæðið haft áhrif á um 15 landeldisstöðvar eins og staðan er í dag. Engin sjókvíaeldisstöð framleiðir minna en 20 tonn á ári.

Um 24.–30. gr.

    Með þessum greinum frumvarpsins er lagt til að úrskurðarnefnd skv. 6. gr. laga um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla verði felld brott og í staðinn verði heimilt að kæra ákvarðanir Fiskistofu samkvæmt lögunum til ráðuneytisins. Nefndin hefur fremur fá mál með höndum, einkum eftir að svonefndar bakreikningsrannsóknir Fiskistofu lögðust af. Í þinglegu svari sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (þskj. 923, 421. mál á 149. löggjafarþingi) kemur fram að á árunum 2016–2018 bárust úrskurðarnefnd um ólögmætan sjávarafla 2–5 mál á ári og var meðalafgreiðslutími hvers máls 54 dagar árið 2018 en 333 dagar árið 2017. Árlegur kostnaður af störfum nefndarinnar hefur verið takmarkaður, eða 2–3 milljónir á ári undanfarin ár.
    Meginástæða þess að lagt er til að nefndin verði felld brott eru hversu fá mál berast henni og þykir eðlilegt að verkefni hennar verði því færð í ráðuneytið og kostnaður af störfum hennar notaður til að styðja við verkefni ráðuneytisins við stjórnvaldsúrskurði. Við undirbúning þessarar tillögu var jafnframt horft til sjónarmiða sem færð eru fram um kosti og galla þess að setja á fót úrskurðarnefndir í stjórnsýslunni og vísast nánar um það til nýlegrar skýrslu dr. Páls Hreinssonar fyrir forsætisráðuneytið, Skýrsla um sjálfstæðar stjórnsýslunefndir. Á sínum tíma var horft til þess að tryggja yrði virkt réttarúrræði óháð ráðherra, með stofnun nefndarinnar, en ekki verður þó séð annað en að ráðuneytið geti með sama hætti axlað þá ábyrgð og nefndin nú gerir.
    Þær tillögur að efnisbreytingum sem lagðar eru til á lögunum fela í sér að brott eru felld einstök ákvæði um starfsemi nefndarinnar og fyrirmæli um málsmeðferð eru um leið löguð að því að ákvarðanir verði unnt að bera undir ráðherra til úrskurðar.

Um 31. gr.

    Með greininni er lagt til að eftirfarandi lög verði felld úr gildi í heild sinni:
    Lög um bátfiski á fjörðum, nr. 6/1888. Lögin veittu heimild til að setja samþykktir í þeim tilgangi að „útilykja aðkomandi fiskimenn frá bátfiski“ sökum fiskiveiða fjarðarbúa og marka með því eitt fyrsta skrefið í baráttu Íslendinga fyrir einkaréttindum til fiskveiða hér við land. Lögin eru þó úrelt og verður því að leggja til að þau falli úr gildi.
    Lög um að miða við gullkrónur sektir fyrir landhelgisbrot, nr. 4/1924. Með þessum lögum var mælt fyrir um að sektir fyrir landhelgisbrot skyldu miða við gullkrónur þótt lúkast skyldu í íslenskum krónum. Með lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands frá 1997 var fallið frá þessari viðmiðun og teknar upp viðmiðanir fyrir refsingar án tengingar við gullkrónur. Lögin eru því fyrnd, þótt að vísu séu enn heimildir í öðrum lögum til að miða sektir við virði gullkróna.
    Lög um bráðabirgðaútflutningsskýrslur, nr. 53/1935. Lögin varða söfnun Fiskifélags Íslands á söfnun skýrslna um útflutning á „alls konar sjávarafurðum“ og þar með heimildir þess til að krefjast upplýsinga í því skyni. Lögin eru fyrnd.
    Lög um ostrurækt, nr. 21/1939. Um skeldýrarækt, þ.m.t. ostrurækt, fer nú samkvæmt lögum um skeldýrarækt og matvælalöggjöf, nr. 90/2011, auk ákvæða í lögum um framandi lífverur, sbr. XI. kafli laga um náttúruvernd nr. 60/2013. Þessi lög eru því fyrnd.
    Lög um róðrartíma fiskibáta nr. 47/1973. Með lögunum er mælt fyrir um heimild ríkisstjórnarinnar til að ákveða með reglugerð brottfarartíma allra þeirra báta til fiskiróðra, sem sækja til fiskjar, svo og setja ákvæði um eftirlitsskip og um samband bátanna við þau, eftir því sem þurfa þykir. Lögin eiga ekki lengur við.
    Lög um sérstakt útflutningsgjald af loðnuafurðum framleiddum á árinu 1974, nr. 52/1974. Lögin vörðuðu tímabundna ráðstöfun og hafa því ekki þýðingu lengur.
    Lög um samræmda vinnslu sjávarafla og veiðar, sem háðar eru sérstökum leyfum, nr. 12/1975. Með lögunum var ráðuneytinu heimilað að setja almennar og svæðisbundnar reglur til að stuðla að samræmingu milli veiðiheimilda samkvæmt sérstökum leyfum ráðuneytisins til rækju- og skelfiskveiða og vinnslugetu þessara greina fiskiðnaðarins, meðal annars með skiptingu afla milli vinnslustöðva og/eða þeirra báta, sem veiðileyfi hljóta. Með upptöku aflamarksskipulags urðu lög þessi óþörf og hafa þau ekki verið framkvæmd síðan.
    Lög um viðauka við lög nr. 102/1973, um veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni, sbr. lög nr. 14/1974 og lög nr. 72/1975, nr. 73/1975. Lögin vörðuðu tímabundnar veiðar þýskra skipa í íslenskri fiskveiðilandhelgi. Þau hafa ekki þýðingu lengur.
    Lög um ráðstafanir í sjávarútvegsmálum, nr. 71/1984,. Lögin vörðuðu tímabundið uppgjör fiskverðs o.fl. í tíð opinberra ákvarðana um fiskverð meðan Verðlagsráð sjávarútvegsins var starfandi. Lögin eru því úrelt.
    Lög um Verðlagsráð sjávarútvegsins, nr. 43/1985. Lögin varða starfsemi Verðlagsráðs sjávarútvegsins, sem hafði með höndum opinbera ákvörðun um verð á sjávarafla. Lögin hafa ekki verið framkvæmd síðan á níunda áratuginum.
    Lög um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins, nr. 39/1990. Starfsemi þessa sjóðs er fyrir löngu hætt.
    Lög um að leggja Þróunarsjóð lagmetisiðnaðarins niður og ráðstafa eignum hans til lagmetisframleiðenda og samtaka þeirra, nr. 44/1990. Lögin hafa fyrir löngu komið til framkvæmdar og því rétt að fella þau úr gildi.
    Lög um ráðstafanir vegna aflabrests í loðnuveiðum nr. 13/1991. Lögin vörðuðu tímabundna ráðstöfun, sem hefur verið framkvæmd. Því þykir rétt að fella þau úr gildi.
    Lög um viðauka við lög nr. 39 15. maí 1990, um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins, nr. 29/1992. Lögin eiga ekki við lengur þar sem Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins er ekki lengur starfandi.
    Lög um stofnun hlutafélags um Ríkismat sjávarafurða nr. 91/1992. Lögin komu til framkvæmdar á sínum tíma en eiga ekki við lengur þar sem Ríkismat sjávarafurða starfar ekki lengur.
    Lög um stofnun hlutafélags um Síldarverksmiðjur ríkisins, nr. 20/1993. Lögin komu til framkvæmdar þannig að Síldarverksmiðjunum var breytt í hlutafélag og hlutafé síðar selt. Lögin eru því óþörf.
    Lög um ráðstöfun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins til að vega á móti skerðingu þorskveiðiheimilda, nr. 119/1993. Lögin vörðuðu tímabundna ráðstöfun. Lögin eru því úrelt.
    Lög um viðauka við lög nr. 39/1990 um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins, nr. 88/1994. Lögin eru óþörf.
    Lög um takmörkun á ráðstöfun síldar til bræðslu, nr. 128/1994. Með lögunum var ráðherra heimilað að takmarka ráðstöfun síldar til bræðslu til að tryggja hráefni til vinnslu síldar til manneldis. Engin þörf er á lögunum lengur og því lagt til að þau falli úr gildi.
    Lög um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum, nr. 38/1998. Lögin vörðuðu setningu aflahlutdeilda til veiða í síldarstofninn. Þau komu til framkvæmdar á sínum tíma. Engin þörf er á lögunum lengur.
    Lög um stofnun hlutafélags um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, nr. 98/2000. Lögin komu til framkvæmdar en engin þörf er á lögunum lengur.
    Lög um ráðstöfun fjár úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins, nr. 43/2006. Með lögunum var mælt fyrir um ráðstöfun fjármuna frá Þróunarsjóði sjávarútvegsins í ríkissjóð. Lögin komu til framkvæmdar og eru því óþörf.

Um 32. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.